Afmælishættelsissjokk og fleiri sögur að norðan

Eitthvað annað á KEABúin að ákveða að hætta við afmælið, eða alla vega fresta því. Ég hef aldrei áður aflýst afmælisveislu en þær hófust 1987 og löngu farnar að marka upphaf samkvæmislífs vetrarins á Íslandi. Veislurnar hefjast ALLTAF kl. 16 á afmælisdaginn. ALLTAF - nema núna. Hvað á ég að gera þennan dag?

Í fyrra komu bara þrír iðnaðarmenn og nokkrir hjálparkokkar í afmælið, það var örsmá varla-veisla - en ég legg ekki einu sinni í slíkt núna.

 

Mynd: Morgunverðurinn á KEA var mjög fínn (nema kaffið hefði mátt vera betra). 

- - - - - - - - - - - - - 

 

Komst nálægt ...- - - - - -

Já, veiðiferðin. Eitt kvöldið stakk Hilda upp á því að við færum út á göngugötu, örugglega á veiðar þótt hún nefndi það ekki sérstaklega en þá var reyndar komin þessi eins metra regla og orðið ólíklegt að komast á sjens en alls ekki ómögulegt. Mér var svo illt í bakinu og datt ekki í hug þá að snjallt hefði verið að leigja bara rafskútu svo ég sagði „nei, getiggi“. Ég sá jafnöldru mína þeysast upp Gilið á slíku farartæki daginn eftir og fannst hún mjög töff.

Svo við héngum bara á KEA ... ég tók reyndar indæl hjón á löpp seinna kvöldið í matsalnum, alveg óvart, og áður en þau heimtuðu að koma með okkur upp á herbergi drifum við systur okkur fram á barinn þar sem enginn var nema við, og einn karl utandyra, bara rúðan á milli okkar. (SJÁ MYND)

 

 

Ótrúlegt hvað sextán mánuðir muna miklu þegar kemur að hressileika ... ég var gamla beyglan sem þurfti að taka 600 mg af íbúfeni fyrir svefninn þrjú kvöld í röð (lau, sun og mán (heima)) því ókunnugu rúmin voru of mjúk.

 

Hilda fékk sér tebollaEn ég gleymdi samt öllum verkjum þegar Hilda öskraði: „Sérðu hverjir eru komnir?“ Hún benti á bókabúðina og þar fyrir utan héngu aðdáendur okkar síðan á Sauðárkróki. Ég kallaði glaðlega: „Hæ, strákar.“ og bjóst við að þeir kæmu hlaupandi. Ég hafði átt svolítið erfitt með að gleyma þeim og dauðsá eftir kaffiofsakastinu sem ég tók á annan þeirra. Mennirnir litu hvor á annan og hröðuðu sér svo UPP Gilið, í burtu frá okkur!!! Ég þaut á fætur og Hilda líka og þótt hún væri mjög létt á fæti hafði hún ekkert í þá ... þeir kunnu vissulega þá list að hverfa, við sáum það á Króknum, en Gilið, brattasta gata Evrópu að frátöldum hæstu brekkunum í austurrísku Ölpunum, maður hleypur ekki upp það svo létt. Hvernig gat ég fælt frá mér myndarlega menn í svona frábæru formi? Hilda var brjáluð, stjörnuvitlaus þótt hún reyndi að leyna því. Ég ætlaði að snúa mér að manninum hinum megin við glerið á barglugganum, bara til að geta bloggað um einhverja smásigra á Akureyri, en sá undir iljarnar á honum við Bautann, var sennilega yfirkominn af fegurð okkar, það getur alveg orsakað óttaviðbrögð. „Svona getur farið ef maður opinberar kaffiástríðu sína of snemma,“ sagði hin vitra Hilda, búin að taka gleði sína aftur því að barþjóninn bað hana um skilríki. Ég var síðast spurð um nafnskírteini fyrir hálfri öld. Samt var Hilda bara að kaupa appelsín.

- - - - - - - - - - - - - 

 

GuðrúnFyrra kvöldið okkar á KEA vorum við svo heppnar að rekast á Guðrúnu vinkonu sem borðaði með okkur. Enn voru talsverðar hitaleifar eftir hryllingshita síðustu vikna norðanlands, svo ég var alveg að kafna. Guðrún og systir mín báru sig betur og héldu mér á lífi með því að segja svo rosalegar sögur yfir matnum að mér rann sífellt kalt vatn milli skinns og hörunds. Kuldahrollur á fimm mínútna fresti bjargaði mér án efa frá hitakrampa. Eftir matinn fórum við systur upp á herbergi, drukkum kynstrin öll af ísköldu vatni og létum viftuna kæla herbergið á meðan við lásum. Við erum að tala um 28 stiga herbergishita áður en viftan fór af stað. Hilda var ekki til í að hafa herbergisdyrnar opnar um nóttina til að fá gegnumtrekk. Hefði verið of heimilislegt, sagði hún, mér hefði fundist það spennandi og kannski hefði eitthvað veiðst.

 

Á sunnudeginum heimsóttum við dásamlegt fólk sem Hilda hafði hitt áður en ekki ég. Talað er um að tveir klukkutímar séu hámark í svona heimsóknum ef ýtrustu kurteisisreglum er fylgt, en það var svo gaman að við sátum eitthvað lengur en það ... þau kölluðu okkur samt ekki slímseta, heldur gáfu okkur einstaklega góðar skonsur og geggjað kaffi. Innfæddir eru bara ágætir og ekkert að óttast.

 

- - - - - - - 

HarbourÁ mánudeginum slepptum við morgunmat, nutum þess bara að sofa lengur, fara í sturtu, pakka niður og slíkt því við vissum að Ketilkaffi opnaði kl. 10. Við ákváðum að koma við á Skagaströnd og snæða hádegisverð á stað sem heitir Harbour, stendur við höfnina. Beygt til hægri þegar komið er inn í bæinn. Rosalega flottur staður og allt metnaðarfullt. Snyrtilegt og töff, og geggjaður matur. Mæli hástöfum með Harbour. Hilda fékk sér grafið lambakjöt með ostadæmi og grænu dóti, ég prófaði kótiletturnar sem ég hafði heyrt hrósað og þær voru geggjaðar.

 

Spákonuhofið var lokað (á mánudögum) en við trúum hvort eð er engu spádómsbulli eftir þessa ferð, Hilda hafði fengið loforð frá "æðri máttarvöldum" - um að hún fyndi sanna ást fyrir norðan, ja, eða í júlí 2021 og það eru bara fjórir dagar eftir. Það var ekkert sem hún gat kallað sanna ást nema kannski súrdeigskleinudæmi í Ketilkaffi ... en samt ekki.

  

Of seintHilda kemur sennilega aldrei aftur með mér í kjeddlínga-veiðiferð norður, ég hef sterkan grun um það. Eins og sést á myndinni sitja tveir karlar á útibarnum við KEA, Hilda hafði sótt mig og töskurnar og við að leggja af stað heim þegar hún sagði að nú væri síðasti séns. „Æ, mig langar bara heim,“ vældi ég ámátlega. „Kisurnar sakna mín ...“

 

Á heimleiðinni, þegar hún var farin að tala við mig aftur, benti Hilda mér góðlátlega á áhugaverðar ferðir sem hún hafði lesið um, fyrir fólk eins og mig, þar þyrfti ég jafnvel ekki að ganga og mætti kannski taka eigið rúm með og jafnvel kaffialtarið líka. Ég hef engar slíkar ferðir séð auglýstar en þetta hljómar æðislega.

 

 

Við Hilda höfum ekkert talað saman síðan í gær svo ég hef ekki getað spurt nánar út í þessar ferðir, ég held að hún sé búin að skipta um símanúmer, hún svarar ekki. Ef hún les þetta blogg, vill hún þá gjöra svo vel að senda mér kaffið? (Ég gleymdi því í skottinu á bílnum þínum!)

 

Guðlaug við LangasandVið tókum ógeðsveðrið með okkur að norðan, spáin suðvestanlands fyrir næstu daga er hræðileg, allt að 23 gráðum og sól! Ég hef lagt allt mitt traust á yr.no-appið sem spáir mest 13 gráðum sem er samt of heitt. Aumingja fjarstýrða Costco-viftan, aldrei frí ... en nú fer ég að taka silkisængina næfurþunnu í notkun. Bakið of slæmt við heimkomu í gær fyrir slíkar umskiptirúmfataæfingar.

 

 

Svo vaknaði ég nú bara eins og kornfleksauglýsing í morgun, eldhress og fersk, með fullkomið bak og til í allt en nú vorum við ekki lengur fyrir norðan á veiðum, svo hressileikanum var fórnað í vinnu og kaffigerð. Ég get auðvitað alltaf veitt hér við Langasandinn, Guðlaugin er svo vinsæl. Svo verða þungarokkstónleikar í vitanum um sexleytið á morgun. Þar verður örugglega eitthvað töff á röltinu. „Sæll, ert þú í Hells Angels, en sniðugt, ég er í Hekls Angels ...“ Sko, Hilda, ég er ekki alveg dauð úr öllum æðum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bráðfyndið hjá Gurrí eins og venjulega.  Verst með afmælisveisluna...

Einar Örn Thorlacius (IP-tala skráð) 28.7.2021 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 9
  • Sl. sólarhring: 20
  • Sl. viku: 414
  • Frá upphafi: 1445641

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 361
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Himnaríki 6. mars 2023
  • Himnaríki 21. mars 2024
  • Húsó

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband