Ein með engu 2021

Ein með enguHátíðin EIN MEÐ ENGU, hefur farið vel fram en hún er haldin í Himnaríki á Skipaskaga. Engin áfengisdrykkja og sáralítill hávaði, sjónvarpsgláp með minnsta móti en lestur með miklum ágætum. Ég segi bara eins og karlar sem tíma ekki að gefa konunum sínum blóm á konudaginn: Ég læt dagsetningar ekki segja mér fyrir verkum ... og mér dettur ekki í hug að tjalda og tjútta bara af því að það er verslunarmannahelgi. Fór síðast á Þjóðhátíð í Eyjum 1974 og það var svo gaman að ég þarf ekki að fara framar á útihátið. Sama má segja um hátíðina Innipúkinn sem ég myndi þó mögulega sækja ef ég byggi enn í bænum.

 

Það hefði óneitanlega verið meira spennandi, svo vægt sé til orða tekið, að halda hátíðina EIN MEÐ ÖLLUM - en það gengur víst drepsótt í heiminum. Ætla að sjá til á næsta ári.

  

BC-tertan góðaFljótlega eftir hádegi í dag kom elskan hún Guðrún, beint í volga súkkulaðiköku sem ég bakaði nánast frá grunni, eða setti mjólk, olíu og nokkur egg, ásamt BC-dufti (fyrir krist) í skál, hrærði og setti í smurð kökuorm ... og úr varð dúnmjúk og ansi góð kaka. Kremið líka frá Betty Crocker, vinkonu okkar allra, ég stappaði banana út í kremið á milli botnanna sem kemur vel út.

 

Drengurinn er enn að vaxa og sísvangur, svo vonandi nær hann að borða sem mest af tertunni - áður en ég borða sem mest af henni ...

 

Við skruppum á sýrlenska staðinn Flamingo (á milli Kaju, Dýrabæjar og Landsbankans) um kvöldmatarleytið og fengum geggjaðan mat. Hollur og góður skyndibiti á góðu verði. Stráksi fékk sér vefju (um 1.100 kr.), réttur nr. 1, við Guðrún fengum okkur kjúkling á c.a. 1500 kall, minn nr. 10 og hennar nr. 8, mun mildari. Arabískur matur er ekki sterkur, en ég myndi segja að hann væri bragðmikill og svaðalega góður.

 

ÆvintýrasirkusinnEnn einn matsölustaður bættist við hér á Akranesi á Írskum dögum, Grjótið heitir hann og er staðsettur við Kirkjubraut, á gömlu löggustöðinni sem var einmitt við hliðina á gamla bókasafninu (sama húsi), uppáhaldsstað mínum í æsku. Það var ástæða fyrir því - stundum brutust út óeirðir ef of fá eintök bárust af vinsælum bókum og löggan þurfti oft að skerast í leikinn. Það kvað rammt að þessu í kringum útkomu bókarinnar Óskilabarn 312 og einnig held ég að Nótt sjöunda mánans hafi valdið bæði látum og skemmdum á mannvirkjum. Við sáum um þetta sjálf, krakkarnir í barnadeild bókasafnsins: „Ég læt pabba minn berja pabba þinn ef ég fæ ekki Ævintýrasirkusinn!“ og „Ok, ef ég fæ Dularfulla húsbrunann, færð þú Möttu Mæju!“ Engar löggur.

 

„Hvaða bók langar þig að fá í afmælisgjöf, ég var beðin um að spyrja að því?“ spurði mamma eitt árið, dularfull á svip. „Ævintýrasirkusinn,“ sagði ég en vissi samt að sú bók fengist ekki, ég hafði leitað af mér allan grun í báðum bókabúðum Akraness. Nokkrum dögum seinna var afmælið og einn pakkinn innihélt hana nú samt, mér til gleði og furðu, enn uppáhalds úr þessum bókaflokki. Ævintýraskipið fannst mér aftur á móti eldast illa. Villi sjálfur með eineltistilburði í garð stráks sem krakkarnir þoldu ekki. Ég sá nákvæmlega ekkert athugavert við þetta í æsku. Enda gekk ég bara á hálfu vélarafli, eins og svo mörg börn þess tíma sem fengu fæst grænmeti og ávexti reglulega, og voru stöðugt með vogrís, munnangur og í þörf fyrir að fara í ljós í skólanum því sjaldan skein sól og gaf oss D-vítamín. Ég man að ég var sólgin í appelsínusúkkulaði, alveg ómeðvitað til að fá C-vítamín, og úðaði í mig bananastöngum fyrir A-, B- og E-vítamín og steinefni (á borð við fosfór, járn, sink og kalk). Og allt þetta þurfti maður að vinna úr bara bragðefnunum ...

- - - - - - - - - - - - -

Eftir dúndurgóða máltíð fórum við í Frystihúsið, ísbúðina góðu við Akratorg. Ég fékk mér miðstærð af blöndu af jarðarberja- og vanilluís í vöffluformi og börnin fyrir aftan mig görguðu af hrifningu ... en vá, miðstærð er of stór fyrir manneskju sem er nýbúin að borða kjúklingarétt á Flamingo, miðstærð er eins og risastærð var í gamla daga. Mun halda mig við ungbarnaís héðan í frá. Við sátum góða stund við borð úti á meðan ísinn var kláraður og horfðum á styttuna af sjómanninum sem starir í suðvestur. Ég veit svo ekki hvernig okkur tókst að velta út í bílinn hennar Guðrúnar, því ekki gátum við gengið, ofseddan er ekkert grín frekar en sjómennskan. Mér tókst svo að skríða upp stigana að Himnaríki og vona að Guðrún hafi komist heilu og höldnu heim.

     

Piers Morgan og MeghanHefnigirni er eitthvað sem ég á erfitt með að skilja. Að nenna að rækta með sér langvarandi reiði út í aðra manneskju sem hefur jú kannski móðgað mann, og bíða færis, þótt það taki áratugi, til að gera manneskjunni eitthvað til miska. Kannski er ég bara gömul og gleymin, en held að svona reiði skemmi „sálina“ svona svipað og t.d. hryllingsmyndir á borð við SAW, sem ég hef bara séð stiklurnar úr, en það nægir til að sú mynd sé bönnuð innan 82 ára á þessu heimili.

 

Piers Morgan (ruddalegur Breti sem kallar dónaskapinn í sér hreinskilni, freki karlinn) fylgist til dæmis af athygli með því sem ríka og fína fólkið sem hann þekkir lækar (líkar við) á netinu og ef það eru svívirðingar um hann sjálfan sem fólkið dirfist að láta sér líka við, skráir hann það hjá sér svo hann gleymi því örugglega ekki. Hvernig nennir hann þessu? Hann sér rautt þegar kemur að Harry og Meghan og hefur aldeilis gagnrýnt þau, kannski réttilega (þau eru opinberar persónur), kannski ekki ... en mjög svo dónalega. 

 

Íslensk stjórnmálakona (frambjóðandi?) varð fyrir leiðindum í kommentakerfinu (man ekki hvers konar leiðindi en eflaust eitthvað ruddalegt). Svo hreykti hún sér af því að hafa sent hverjum og einum sem móðgaði hana, bréf og það heim til fólksins ... sem mér finnst vera nánast, hæ, ég veit hvar þú átt heima-hótun. Ég hefði frekar trúað Charles Bronson til að gera eitthvað svona. Mögulega Piers Morgan ...

 

Brosnan minnSvona erum við nú misjöfn. Mætti ég frekar biðja um Pierce Brosnan sem svo skemmtilega vill til að flutti frá Írlandi á sex ára afmælisdaginn minn (12. ágúst eitt árið) og til móður sinnar og stjúpa í Skotlandi. Stjúpinn fór með hann (11  ára) í bíó að sjá Goldfinger. Ætli hann hafi grunað þá að hann yrði seinna einn sætasti Bond ever?

 

Síðar flutti Brosnan til London - og enn síðar nam hann leiklist í þeirri dýrlegu borg, við Drama Center-leiklistarskólann, eins og Colin Firth og Gummi bróðir gerðu síðar. Anthony Hopkins hermdi eftir þáverandi skólastjóra Drama Center í túlkun sinni á Hannibal Lecter (Lömbin þagna), hef ég eftir áreiðanlegum heimildum, en skólastjórinn sá var/er góðvinur Hopkins (ekki Mary) og víst nokkuð sérstakur í fasi og framkomu.

 

Einn kennarinn minn í HÍ hélt mikið upp á Bond og örstutt brot af föstudagsfyrirlestrinum í Fjölmiðlafræði I fór í James Bond sem var afskaplega skemmtilegt. Ég var ekki alveg til einskis þarna í námi því ég gat sagt honum að Gyllta byssan (James Bond-bók) væri til í íslenskri þýðingu sem hann hafði ekki vitað ... ég átti hana og gaf honum mitt eintak, keypti mér svo seinna nýtt í fornbókabúð. Áratugum seinna er ég svo með hálfgert James Bond-horn hérna á blogginu mínu verslunarmannahelgina 2021 ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 6
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 411
  • Frá upphafi: 1445638

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 358
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Himnaríki 6. mars 2023
  • Himnaríki 21. mars 2024
  • Húsó

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband