Draumastóll og bókin sem fór í ruslið

Nítján manns í einangrun á Skaganum og rúmlega fjörutíu í sóttkví. Alls 38 smitaðir á Vesturlandi öllu, bara Búðardalur hefur alveg sloppið. Ef ég hefði ekki þegar ákveðið að aflýsa afmælinu mínu myndi ég gera það núna - eða eftir tölur morgundagsins sem verða eflaust háar. Í september í fyrra voru reyndar um 200 Skagamenn sendir í sóttkví vegna smits í ræktinni, ég þar á meðal, en enginn reyndist hafa smitast.

 

DraumastóllinnÉg lét taka frá ógurlega flottan stól sem hafði selst hratt upp fyrir nokkrum vikum, og nú er hann aftur kominn til landsins. Ég hringdi og spurði hversu hátt í sentimetrum væri frá gólfi að setu (efri hluta setu) en eins og oft hefur komið fram hér verður mér best lýst sem háfættri hind sem kýs að eyða ekki lífinu í að sökkva ofan í of lága, mjúka og bakverkjavaldandi sófa eða stóla. Ég mældi fjarlægð frá gólfi að setu í gráa sófanum mínum úr Rúmfó, sem var 44 cm - virkilega mátuleg hæð fyrir háfætta 1,70 m glæsikvendið. Maðurinn í símanum sagðist búast við að hæðin væri c.a. 40 cm sem er nú ansi hreint lágt fyrir svona tískusýningafættar skutlur. Fætur mínir langir, búkur ekki svo langur og ef strætó bremsar mjög harkalega fýkur hausinn mögulega af mér því að öryggisbeltið í strætó er á hálsinum á mér - sem yrði frekar fúlt fyrir aðra farþega og bílstjórann. Allt er miðað við fólk með stutta fætur og langan búk, held ég. Hæð á sófum og stólum alla vega. Ég set allt mitt traust á að húsgagnasmiðir og -hönnuðir lesi bloggið mitt og augu þeirra opnist fyrir þessu óréttlæti ... Mannfólk hefur hækkað nokkuð síðan í gamla daga! Þegar gröf heilags Nikulásar (270-343) fannst á Ítalíu, undir kirkju sem var byggð ofan á beinum hans, löng saga, kom í ljós að hinn fyrsti jólasveinn var ekki nema 1,50 m á hæð. Hættið að hanna og smíða húsgögn sem henta honum!

 

Stóllinn er nokkuð dýrari en tungusófinn (sem kostaði 110 þús.) úr Rúmfó og ég get ekki réttlætt kaup á honum nema hann sé þægilegur líka, nógu hár fyrir háfættið mig. Fóstursonurinn er sennilega orðinn 1,75 svo ég yrði endalaust að bjóða lágvöxnu, lágfættu fólki í heimsókn til að það gæti prófað fína stólinn og verið gáttað á fegurð hans og þægindum á meðan við hin yrðum að húka í sófanum.

  

MúsikÉg fer sennilega í bæinn (Rvík) fyrir helgi og máta stólinn (ef hann verður þá ekki uppseldur) og kaupi mér í leiðinni mína fyrstu fartölvu í lífinu ef Davíð frændi kemst með mér í Elkó og getur aðstoðað mig við að setja hana upp. Já, ég vel mér baráttu og stríð, ætla ekki að læra í eitt skipti fyrir öll að setja upp tölvu ef þetta verður svo kannski eina fartölva lífs míns eða að sú næsta verði með allt annarri tækni. Ótrúlegt að hafa aldrei eignast slíkan grip. Mig vantar oft að geta staðið upp frá borðtölvunni, komið mér huggulega fyrir í sófanum og haldið áfram að vinna ... og uppskorið án efa minni „kartöflur-og-bjúg“, eins og það heitir í Himnaríki.

 

Verð ég drepin ef ég viðurkenni að ég nenni ekki einu sinni að horfa á Ólympíuleikana? Bara fréttir, veður, EM í fótbolta í sumar og svo hraunveruleikasjónvarpið ... Samt með Netflix ... horfði vissulega á fyrsta þáttinn í nýjustu Crown-seríunni (í fyrra) og hlakka til að sjá rest, og sá þrjá af Kötlu og ætla alltaf að klára. Kóvitum er tíðrætt um aukaverkanir af bólusetningum. Ein aukaverkun af hættu-að-reykja-lyfinu mínu, Champix, var sú að ég missti allan áhuga á sjónvarpi sem segir mér að það hafi mögulega verið fíkn hjá mér. Það er frekar alvarleg aukaverkun og hefur staðið í rúmt ár. Horfi (hlusta) reyndar með öðru auganu eftir fréttir á upprifjunarþátt um ÓL og það er fínt.

 

Billy SummersTækjaæði er þetta, ég þarf ekki fartölvu en veit að hún mun létta lífið. Þarf alls ekki dýra og flotta, bara einhverja sem virkar fyrir vinnuna. Ég fékk gefins Kindle-lesbretti um árið og nota það frekar mikið. Sá að ný bók eftir Stephen King, Billy Summers, er komin út og hlakka til að gleypa hana í mig á lesbrettinu í sumarfríinu seinna í sumar. Vissulega engar fagurbókmenntir en fínustu bækur samt, sumar þeirra.

 

Ég var reyndar óheppin með fyrstu bókina sem ég las eftir hann, eða Pet Semetary, hún er ansi ógeðsleg. Eitt sinn lánaði ég Kollu Bergþórs (á þessu bloggi má droppa nöfnum), sem síðar varð sjónvarpsstjarna, nýja/nýlega King bók, The Dark Half, ég hafði keypt nokkrar enskar kiljur til skemmtunar og líka til að æfa mig í ensku, og var ögn lengur að lesa á ensku en íslensku og ekkert mál að lána þessa og mér lá ekkert á að fá hana til baka, sagði ég við Kollu. Þótt ég væri alveg slarkfær á ensku vantaði og vantar enn upp á kunna hana virkilega vel (ég var mjög lengi undrandi á því hversu margir dýralæknar störfuðu hjá bandaríska hernum). Kolla var að fara á (rólega) næturvakt og þurfti bók svo auðvitað lánaði ég henni bókina.

 

Einhverju síðar hittumst við, kannski nokkrum vikum seinna. Hún fór að segja mér frá svo hræðilegri Stephen King-bók að hún fylltist ógeði og henti bókinni í ruslið. „Hmm, takk,“ sagði ég kurteislega og glotti. Kolla hafði ekki munað hver lánaði henni hana, og bauðst til að kaupa nýja bók en ég harðneitaði því, ég var bara þakklát, þarna slapp ég við að lesa ógeðið.

Ég er hrifin af bókum Dean Koontz en ekki öllum. Sennilega er ein lélegasta bók allra tíma eftir Koontz, The Demon Seed, minnir mig að hún heiti (bíómynd var gerð eftir henni!). Hún fjallar um hætturnar af gervigreind ... Um tölvu sem læsir konu inni í húsi, tölvan elskar þessa kona og ætlar að barna/tölva hana ... man ekki meira, sem betur fer. 

- - - - - - - - -  - -

Lífið í Himnaríki

Hávær ropi úr eldhúsinu.

„Æ, æ.“

„Það er allt í lagi að ropa ef maður segir afsakið.“ 

„Segðu þá afsakið.“ 

„Afsakið.“

„Allt í lagi.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 131
  • Sl. sólarhring: 282
  • Sl. viku: 2090
  • Frá upphafi: 1452290

Annað

  • Innlit í dag: 119
  • Innlit sl. viku: 1692
  • Gestir í dag: 116
  • IP-tölur í dag: 116

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • baby reindeer
  • Ove Otto
  • Gísli gerir Mart-einn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband