Það þorir enginn í Arnþrúði ...

Himnaríki IINú eru allir vinir mínir lægri en 1,70 brjálaðir út í mig vegna færslu sem ég skrifaði í gær. Í raun átti ég bara við að það mætti íhuga að huga kannski pínkuoggulítið að klossuðu og risavöxnu, allt of háu fólki, eða 1,70 plús, varðandi sethæð á sófum og stólum svo fætur okkar krumpist ekki óþægilega og maginn fari í klessu en glæsilega og gullfallega fólkið undir 1,70 er sko langflottast. Ég kom þessu bara svona ömurlega illa frá mér. Ef ég væri ekki ofurkona með ískaldar tilfinningar (grét aldrei yfir Húsinu á sléttunni) myndi ég falla saman út af þessu. Ég harma þetta auðvitað.

 

Tubular Bells-platan átti afmæli í vor (48 ára) og á árunum þegar ég kunni ekki að pakka mátulega / ferðast létt fór ég að vinna úti í Vestmannaeyjum, í Ísfélaginu, og tók ekki bara fatnað með mér, heldur plötuspilara, magnara og hátalara, ásamt stórum bunka af plötum. Hvernig nennti ég þessu, hvernig gat ég þetta, hver hjálpaði mér á flugvöllinn með allt þetta dót, af hverju var mér ekki bannað þetta? En ok, ég var með Tubular Bells og leyfði nokkrum í partíi í herberginu mínu (og tveggja annarra) á „heimavistinni“ að heyra dýrðina. Eftir tæpar tvær mínútur lá við slagsmálum. „Hvað í andskotanum ertu að spila?“ (þarna í sollinum lærði ég að blóta) „Á að drepa mann?“ „Þetta er engin partímúsík!“ „Vó, hvað þetta er ömurlegt, spilum eitthvað annað.“ Og ég var á leiðinni með þessu smekklausa liði á ball.

 

Chuck NorrisÉg man ekkert eftir ballinu en bandarískur strákur sem vann með okkur og bjó í næsta herbergi, nennti ekki á ballið, fékk að hanga í herberginu okkar þetta kvöld og hlusta á tónlist. Hann kom til mín daginn eftir og lýsti því yfir í mötuneytinu að Tubular Bells væri algjört æði, mögnuð plata. Þarna áttaði ég mig á því hvað Bandaríkjamenn eru æðislegir og í heimsóknum mínum til Elfu í Conway, fjórum eða fimm sinnum frá 2002 hefur þessi vissa mín styrkst. Aldrei að alhæfa! Jú, víst.

- - - - - - - - - - 

Ég heyrði í vinkonu í dag, hún er önnur tveggja sem hringir í heimarisaeðlusímann minn sem ég held í af einhverri þrjósku, hin er Hilda systir. Prófið bara að hringja með iPhone-síma í fyrirtæki sem segir á símsvara: „Ýtið á einn fyrir beint samband við leyniþjónustuna, ýtið á tvo fyrir beiðni um njósnir eða aftöku ...“ en sem betur fer kemur aftast: „Ef ekkert er valið færðu færðu sjálfkrafa samband við Sorpu.“

 

Krinstján

Í símtali okkar bar margt á góma. Meðal annars það að hún notar Útvarp Sögu sem fjandafælu. Hún á erfitt með að loka einum glugganum heima hjá sér, og eina sem henni datt í hug sjálfri sér og heimilinu til varnar á nóttunni var útvarpið, hafa það stillt á Útvarp Sögu og frekar hátt stillt nálægt glugganum en samt í felum og einhver ljós kveikt víða í íbúðinni. „Það þorir enginn í Arnþrúði,“ sagði hún hugsandi, „og sennilega ekki í Pétur heldur.“ 

 

Fjandafælan hefur virkað mjög vel undanfarna daga og vonandi þar til á morgun þegar hún fær aðstoð. „Á Sögu er svo mikið talmál og mögulega gætu innbrotsþjófar sem leið eiga fram hjá húsinu haldið að hér væri fjörugt partí og þora þá ekki að brjótast inn.“ Brilljant hugmynd.

 

Mynd af bolla:

Mikið væri gaman að eignast bolla með t.d. Gðríður - Guðrýður - Gvuðríður - Guðnríðurr eða eitthvað slíkt.

 

 

Þessi bolli endaði víst á nytjamarkaði og ég sá þessa mynd af honum í Facebook-hópnum Hver hendir svona? Ég hefði keypt hann í hvelli og gefið Krinstjáni vini mínum hann.

 

Svo gekk ég í nýjan hóp í dag en í honum má finna myndir af vaxmyndum af frægu fólki. Held að Díana prinsessa sé best ... eða Trump, ef þetta á að vera hann, hárið er alla vega alveg eins. Birti ábyggilega myndir úr þessum hópi hér á blogginu bráðum. Ef ég finn hópinn aftur ...

 

P.s. Við Arnþrúður erum náskyldar, þremenningar eða fjórmenningar, báðar ættaðar frá Flatey á Skjálfanda. Það þorir enginn í okkur!!!  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Betra er að vera Flateyingur en Flateyringur með flöt eyru en margir hafa nú farið í Arnþrúði, eins og dæmin sanna. cool

Þorsteinn Briem, 5.8.2021 kl. 15:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 21
  • Sl. sólarhring: 200
  • Sl. viku: 1538
  • Frá upphafi: 1453413

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 1269
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband