Stefnumót frá helvíti ...

von trappSannkallaðar gleðifréttir bárust landsmönnun suðvestanlands þegar spáð var þrumum og eldingum nú seinna í dag. Í gamla daga vorum við ekki bara svikin um tónlistarmyndbönd í sjónvarpi, almennilega tónlist í útvarpi og sæmilegt úrval af ávöxtum og grænmeti, heldur komu aldrei þrumur og eldingar. Einu heimildir mínar um slíkt veður voru úr kvikmyndinni Sound of Music. Ég skildi ekki hvernig krakkarnir sjö sem Julie Andrews passaði gátu verið hræddir við eitthvað svona spennandi! En svo reyndist myndin vera lygi, eða algjör glansmynd af raunveruleikanum.

 

 

Sanna sagan um von Trapp-fjölskylduna er um nunnu er brjáluð yfir því að fá ekki að giftast guði, og þarf í staðinn að passa einhverja krakka. Jú, hún giftist föður barnanna, ekki endilega ótilneydd og eignaðist sjálf börn með honum. Hún tók stundum æðisköst og sjokkeraði þá bæði eiginmann og börn. Hún gekk ansi langt til að halda áfram með Syngjandi fjölskylduna og læsti gjafvaxta stjúpdætur sínar og -syni inni til að þau tækju ekki upp á því að stofna eigin fjölskyldu og flytja út og hætta þar með í hópnum sem malaði gull. Í myndinni stjórnar hann með harðri hendi en í raunveruleikanum var það hún.

 

Hitt himnaríkiðViljið þið kannski sannar sögur um Móður Theresu sem var víst ekkert sérlega góð manneskja? Eða um Díönu prinsessu og hversu afbrýðisöm hún var út í barnfóstru sonanna af því að drengirnir voru hændir að henni? Svona fyrst ég er byrjuð? Hélt ekki ...

 

Ég skrifaði grein um von Trapp-fólkið í Vikuna og veit að ritstjórinn hefði drepið mig hefði hún vitað hversu miklum tíma ég varði í að viða að mér efninu, ég horfði á heimildamynd um þau, fleiri en eina, minnir mig, las einhver ósköp ... sem svo endaði í þriggja síðna grein. Þetta var gaman.

 

 

Munið þið eftir sögunni sem gekk um yngsta von Trapp-barnið, dótturina krúttlegu, sem sagt var að hefði látist í bílslysi á leið af frumsýningu myndarinnar. Ég trúði þessu og táraðist pottþétt. Svo sirka 35 árum síðar var ég stödd í hótellobbíi í Dublin og fletti helgarblaði einhvers stórblaðsins. Þá sá ég alla krakkana sprelllifandi, á einhvers konar endurfundahittingsgleði á tökustað í Salzburg. Þau höfðu verið hlunnfarin allsvakalega í launamálum en minningin samt góð um þennan tíma.

 

Challenger_explosionJá, ég rændi blaðinu, auðvitað, því hefði verið fleygt síðar þennan dag. Ég rændi líka Newsweek af tannlæknastofu (1986, í fyrsta og eina skiptið) af því að það voru svo flottar myndir þar af Challenger-slysinu í himingeimnum ... já, ég veit, ósmekklegt. En ég missti alltaf af fréttum um þetta, átti held ég ekki sjónvarp þegar þetta var (samt voru einstæðar mæður svo ríkar) og alltaf veik fyrir svona stórviðburðum. Ég hef nú örugglega sagt frá því áður ... en nokkrum kvöldum seinna hringdi dyrabjallan (ég var ekki með síma heldur) og niðri stóð myndarlegur rannsóknarlögreglumaður með sérstakt erindi, man ekki alveg hvort það fólst í því að hýsa pólitískan flóttamann, Íslending sem átti að lauma úr landi til að hann yrði ekki myrtur, eða fylgjast með verulega grunsamlegum nágranna. Það gekk allt mjög vel og markaði tímamót því skömmu síðar bauðst mér starf hjá LÍ (Leyniþj. Ísl) þar sem ég starfaði við frábæran orðstír í áratugi. Ég játaði samt brot mitt þarna (Newsweek-stuldinn) til að vera með hreinan skjöld en sagðist hafa skilið nýtt og brakandi DV eftir í staðinn. Held að játningin hafi verið sterkur leikur. Ég var einmitt í Dublin í vinnutengdum erindum sem mátti lesa um í írskum blöðum en þá var ég sloppin úr landi.

 

Ég finn ekki í augnablikinu fyndnu síðuna með vaxmyndunum en rakst á sögur af ógleymanlegum stefnumótum) ... finnst bara sjálfsagt að leyfa ykkur að njóta ... en stefnumótamenningin á Íslandi er nú samt öðruvísi. Viltu dansa, ekki? Ertu lesbía? Bíddu, af hverju má ég ekki koma með þér heim, ég sem gaf þér í glas? ... Ein sagan er íslensk:

 

StefnumótEitt sinn ákvað amma að koma mér á stefnumót með manni sem sótti sömu kirkju og hún. Þetta reyndist svo ekki vera blint stefnumót, heldur tvöfalt stefnumót. Með afa og ömmu.“

 

Fyrsta árið sem ég bjó í Kína ákvað ég að fara á blint stefnumót með ekkjumanni sem var nokkuð eldri en ég. Systir hans og mágur, ásamt systur konu hans heitinnar og manni hennar, mættu einnig á stefnumótið og störðu á mig allan tímann yfir borðhaldinu.“

 

Við höfðum hist á stefnumóti og á leið frá veitingahúsinu og út í bíl datt ég og fékk gat á hnéð. Gæinn skutlaði mér á slysó og lét sig svo hverfa ... Ég varð að láta sækja mig og skutla á veitingahúsið þar sem bíllinn minn stóð. Ég missti allan áhuga á vininum. Og það voru saumuð sex spor.“

 

Á fyrsta stefnumótinu með sætum strák drakk hann yfir sig og sullaði mat yfir buxurnar. Hann var of drukkinn til að geta keyrt heim svo ég leyfði honum að gista í stofunni heima, skellti buxunum hans í þvottavél og síðan þurrkara. Hann fór eldsnemma, eða um fimmleysið um morguninn, og hringdi svo grautfúll í mig til að kvarta yfir því að buxurnar hans hafi ekki verið orðnar alveg þurrar. Þetta útskýrir kannski af hverju ég er frekar löt við að fara á stefnumót.“

 

DateÉg og kærastinn fórum í sumarfrí til Ítalíu og gistum hjá vinafólki mínu. Hann passaði mjög vel upp á sitt og var mjög glaður yfir því að þurfa ekki að borga gistikostnað. Við skiptum öllu jafnt og keyptum stundum í matinn, auðvitað, en jafnt upp á krónu. Hann rukkaði mig fyrir ís sem hann keypti handa syni mínum sem var með í för. Við fórum á eitt rómantískt stefnumót, vinafólk mitt passaði og hreinlega rak okkur tvö út að borða. Þegar kom að því að borga fölnaði þjónninn og það varð heilmikið uppnám á staðnum þegar kom í ljós að maðurinn ætlaði að láta konuna borga helminginn - sem ég var alveg til að gera. Hann var hálaunamaður, ég frekar blönk einstæð móðir  og komst í raun bara í þessa ferð af því að vinafólk mitt bauð okkur að gista. En allt í einu varð ég svo þreytt á nískunni í honum og hvæsti á hann að borga og þegja. Hann hunskaðist til þess en þetta skemmdi svolítið kvöldið. Þetta samband stóð ekkert rosalega lengi í viðbót.“

 

„Reglurnar“ eru víst þannig að sá aðilinn sem býður á fyrsta stefnumót, hann/hún borgar. Síðan er hægt að hafa það að vild.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 141
  • Sl. sólarhring: 176
  • Sl. viku: 1833
  • Frá upphafi: 1453343

Annað

  • Innlit í dag: 109
  • Innlit sl. viku: 1485
  • Gestir í dag: 101
  • IP-tölur í dag: 98

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband