Hamingjan er ... stóll

TveirHamingjan ríkti í Himnaríki um miðjan dag í gær þegar fíni, flotti stóllinn var pantaður. Ljúfmenni í Húsgagnahöllinni stökk á milli hæða fyrir mig og mældi stólinn, sethæðina sem reyndist vera hálfum sentimetra minni en í gráa tungusófanum. Og hvað er hálfur sentimetri á milli vina? Ég fleygði mér út í djúpu og keypti hann ... í gegnum netið! Hikstaði bara einu sinni í greiðsluferlinu og hélt að allt væri glatað (tilveran) en góð greind og smámunasemi (Merkúr í meyju, skilst mér að bjargi vitsmunum mínum) hjálpaði og kom einnig í veg fyrir að ég keypti óvart tvo stóla sem munaði engu! Þá hefðu nú verið gaman að fá vísareikninginn ...  og ég þurft að fleygja tungusófanum til að skapa pláss fyrir tvo fína stóla, en þetta tókst fyrir rest. Nú bíð ég bara eftir því að Pósturinn komi með stólinn upp að dyrum, fyrir 12 þúsund kall auka.

 

Kannski er hamingjan fólgin í fallegum stól, jafnvel tilgangur lífsins líka ... sumir segja samt hamingjuna birtast við það að grennast, það sé ekki hægt að vera hamingjusamur ef maður er a) þybbinn, b) feitur, c) búttaður, fólk hljóti að glíma við depurð og það algjörlega án þess að viðurkenna það ... svo segja aðrir hamingjuna fólgna í því að fá rjúpur í jólamatinn, það komi ekki jólin nema fá rjúpu. Hjá mér er það stóll. Og kannski kaffi, bækur, tónlist, kettir, flottar öldur, hundar, fólk, viftur ...   

 

KólnandiFína silkisængin er alveg jafnheit og aðrar sængur, skrambs, en hún er samt sérlega létt og mjúk. Hitaköstin tengjast víst hærra hitastigi utandyra og versna við hverja einustu f...ings gráðu sem bætist á mælinn. Get víst ekki kennt bólusetningum um eða síðbreytingaskeiði.

 

Hversu flott er samt að búa ekki t.d. í Tyrklandi eða á Grikklandi núna, eða bara ekki þar sem það eru yfir 15 gráður! Ég meira að segja gekk um allt Himnaríki í morgun og dró „gervi“gardínurnar fyrir, í fyrsta sinn, maður notar ekki gluggatjöld með svona útsýni, en þau varna því kannski að sólin nái að skína af jafneinbeittri grimmd inn í stofu og á mig líka í hinum enda Himnaríkis, við vinnu mína vestanmegin íbúðar við suðurglugga, suðu-glugga. Um leið og ég er búin að kaupa þrjú gluggajárn get ég haft norðangluggana  sífellt opna nema í norðanstórhríð (vá, ég hlakka svo til vetrarins) og þá verður bærilegt að vera hér. Yfirleitt hef ég frekar svalt heima hjá mér og þess vegna þoli ég hita ekki vel. Ég setti mini-hrífuna (klóruprik úr Rúmfó) í gluggann, tindarnir snúa upp. Það hefur virkað áður, þori ekki að segja meira.

 

Trúleysi eyttBúast má við trylltu trúarbragðastríði á fimmtudaginn, en þann dag, afmælisdaginn minn, takk kærlega, völdu nokkrir kristnir Bandaríkjamenn til að biðja guð um að eyða trúleysingjum, eitthvað slíkt. Mér skilst að trúleysingjar ætli á móti að sýna fingurinn þann sama afmælisdag kl. 14 að íslenskum tíma.

 

 

Fyrst ég held ekki upp á afmælið mitt með sama hætti og ég hef gert síðustu áratugi, 1987-2019, og bjóða rúmlega 200 allra nánustu til veislu (201 eða enginn), mun ég í staðinn fylgjast með stríðinu í beinni, borða kökur og snittur, sitja alein að kræsingunum, loksins. Gott plan.

 

Helgin fer m.a. í að brjóta saman þvott og ganga frá, og dagsferð á Snæfellsnes, ég mun ekki gleyma að kaupa kaffi á Rjúkanda, jesssss!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 115
  • Sl. sólarhring: 286
  • Sl. viku: 2074
  • Frá upphafi: 1452274

Annað

  • Innlit í dag: 104
  • Innlit sl. viku: 1677
  • Gestir í dag: 102
  • IP-tölur í dag: 102

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • baby reindeer
  • Ove Otto
  • Gísli gerir Mart-einn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband