Samkeppni á topp tíu og furðuhugmynd mömmu

SokkaífæraHér ríkir stjórnlaus gleði. Ég komst í sokka í dag, í fyrsta skipti í bráðum viku.

Enginn nema karl sem hefur fengið kvef eða manneskja sem hefur fengið þursabit skilur hversu mikill sigur þetta er.

Ég hefði þurft virkilega á sokkaífæru að halda ... gat ekki beygt mig. Þori varla að hringja í Einarsbúð í dag, það er svo mikið drasl.

Kannski nýti ég kettina í tiltekt, þeir flatmaga allir á rúminu mínu núna, letihaugarnir. En ekki mikið lengur ... múahahaha.

Krummi, vatnssullarinn mikli, verður látinn skola og setja í uppþvottavélina þegar Mosi verður búinn að taka hreina leirtauið úr henni. Keli er elstur og getur verið verkstjórinn.

 

- - - - - - - -  - - - - - - 

 

Fjör í strætóÉg horfði brjálæðislega mikið á sjónvarp í gær sem er óvenjulegt, yfirleitt tolli ég bara yfir fréttum og veðri. Horfði á Liverpool-leikinn, fréttir, kokkaþátt og Gulli byggir, síðan leigði ég mér dæmigerða spennumynd um fyrrum „leigumorðingja, 00-eitthvað hjá leyniþjónustunni“ sem á konu og börn og vinnur hjá tengdapabba, álitinn meinlaus heigull, sérstaklega eftir að hafa ekki barist við aumingjalega þjófa sem brutust inn á heimili hans en hann sá að byssa konunnar var ekki hlaðin ...

Þegar hann áttar sig á því (daginn eftir) að þjófarnir tóku óvart með sér kisuarmband litlu dótturinnar, reynir hann að endurheimta það en á heimleiðinni lendir hann óvart í því að drepa frænda hættulegs glæpaforingja. Í strætó af öllum stöðum, og kemur c.a. fimm vinum hans á sjúkrahús að auki. Alltaf fjör í strætó. Svo hefjast mikil dráp ... ekkert í myndinni sem maður hefur ekki séð áður, eða jú, hann var með kettling sem  hann gaf að borða (túnfisk) í lögregluyfirheyrslu í lokin, það hef ég ekki séð áður. Og atriðið á dvalarheimili föður hans (Marteinn frændi í Kananum í denn, 80 plús), minnir á atriði úr spennumyndinni skemmtilegu Red (Bruce Willis), nema í þessari drepur pabbinn tvo vonda menn í einu, ekki bara einn sem Morgan Freeman, vinur aðal, gerði. Ég skildi samt ekki hvernig okkar maður, Nobody, fann kisuarmbandið hjá einum úr starfsliði glæpaforingjans ... áður en hann kveikti í honum og fleirum (sem hann hafði fyrst drepið) og húsi sínu í leiðinni áður en hann fór í hefndarförina miklu, maður sendir ekki glæpóna heim til manns-hefndarför.

 

Nobody var nú samt ágæt afþreying og ég sofnaði vel eftir allt blóðbaðið. Þursabit gerir mann blóðþyrstan. Ég leigði hana hjá Sjónvarpi Símans á tæpar 800 kr. Í fyrsta sinn sem ég leigi mér mynd á þennan hátt, geri það pottþétt aftur. Nema Bíóhöllin á Akranesi verði flutt á Jaðarsbakka eins og flest annað sem hefur komið á hlaðið til mín (t.d. bólusetningar, kjörstaður, matarvagnarnir) Jaðarsbakkar eru kannski hinn nýi miðbær.

 

Prince Naseem HamedÞað hefur flögrað að mér að keppinautar mínir um að vera á topp tíu hér á Moggablogginu séu ábyrgir fyrir kvillum mínum undanfarið en ég á eftir að finna út hvernig og líka hverjir það eru. Ég hrapa nefnilega svo hratt niður listann þegar ég blogga ekki dögum saman (ekki hægt að láta taka frá sæti fyrir sig!) og ég hef áður sagt að takmark mitt í lífinu sé að komast á topp fimm.

Þetta er pottþétt ekki Páll Vilhjálmsson, 1. sæti, sem var eitt sinn yfirmaður minn þegar ég skrifaði pistla í HP á síðustu öld, og var svo hvetjandi. Sennilega ekki Ómar Ragnarsson, 3. sæti, hann er svo mikið yndi, þjóðargersemin sjálf, kom í útvarpsviðtal til mín og við vorum bæði afar hrifin af Prince Naseem Hamed í gamla daga, flottum boxara (já, ég á skrautlega fortíð). Trausti Jónsson, 9. sæti, er líka ólíklegur þótt hann sé veðurfræðingur. Trúi varla kóvitunum sem eru ofarlega til að gefa sér tíma í svona, það er allt of mikið að gera við að bjarga okkur hinum frá illsku vísindamanna og lækna.

 

 

Ef ég kemst í fjórða sætið verður Jón Magnússon kannski brjálaður, en hann virkaði samt svo ljúfur þegar ég hringdi einu sinni í hann í tilefni af léttri grein um komandi kosningar sem ég skrifaði eitt árið fyrir Vikuna og kom þar m.a. með hugmyndir að góðum mat til að gæða sér á yfir kosninganóttina, en í lit flokksins sem fólk kysi. Minnir að aumingja sjálfstæðismenn hafi bara getað borðað bláber og gráðaost. Ég þurfti litinn á nýju framboði hjá Jóni og hringdi þess vegna, minnir að það hafi verið blátt og hvítt, eða bláber og rjómi. Vinstri græn voru einna heppnust með sína liti, alls ekki bara agúrkur og tómatar.

 

SexíÉg á samt eftir að finna út úr þessu ... Trúi í rauninni engu illu upp á sambloggara mína.

 

 

Mamma spurði mig í gær hvort þetta væri bara ekki einhver gaur að reyna að koma mér í rúmið ... og þegar ég gat loks talað fyrir undrun og hneykslan og ætlaði að fussa og sveia, hætti ég snarlega við það þegar heyrðist bling í höfðinu á mér, ætla svo sannarlega að skoða þetta betur.

 

Fáránlegar aðferðir samt, nema viðkomandi eigi kannski eftir að bjóðast til að setja í uppþvottavél fyrir mig, skipta um kattasand og brjóta saman þvott og ganga frá (náði með aðstoð stráksa að þvo tvær vélar í gær) og elda mat.

Þá hefur viðkomandi mögulega eignast hjarta mitt, langvarandi einsemd hefur kennt mér að slaka á kröfum varðandi kyn og aldur. Tek fram fyrir þá yfirborðskenndu að covid-keppurinn hefur minnkað aftur ... í allri þessari rúmlegu sem hefur þýtt minni svengd og þar af leiðandi meiri „grennslu“. Litla stúlkan með eldspýturnar hvað?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hægriöfgakarl með það á heilanum eins og Hádegismóri að ekki megi stækka Landspítalann við Hringbraut og flugvöllur þurfi endilega að vera á Vatnsmýrarsvæðinu, og talaði þar að auki sífellt illa um Borgarlínuna, Evrópusambandið, innflytjendur hér á Klakanum og alla múslíma, og bloggaði að minnsta kosti einu sinni á dag árum saman, á nú auðvelt með að vera með þeim vinsælustu hér á Moggablogginu. cool

Þorsteinn Briem, 13.9.2021 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 10
  • Sl. sólarhring: 311
  • Sl. viku: 1702
  • Frá upphafi: 1453212

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 1384
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Tengdamömmur
  • Kamilla, Inga, Gerry
  • Frændfólk mitt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband