Rammgöldróttar skáldkonur og skrökvað að eldgosavinum

La PalmaJörð skelfur víðar en á Íslandi og nú hótar eldfjall á La Palma á Kanaríeyjum að gjósa ... það sturlaða er að í alíslenskum krimma sem kom út í janúar á þessu ári má lesa í dramatískum lokakafla um eldgos sem verður nákvæmlega þarna haustið 2021 ... Þetta er bókin Mannavillt (Anna Ólafsdóttir Björnsson). Ef fer að gjósa eru komnar tvær svona líka rammgöldróttar skáldkonur, Anna vinkona og Sigríður Hagalín.

- - - - - 

Það er ömurlegt að fá fréttir af allri þessari myglu hér á landi? Núna er það fína splunkunýja Sorpuhúsið í Álfsnesi ... Getur verið að skortur á eftirliti, eftirlitsstofnunum sé að koma svona illilega í bakið á okkur? Efnisvalið skiptir auðvitað miklu, hverjum datt t.d. í hug að velja birkikrossvið í loftið í Eldborgarsal Hörpu (verkfræðingur hvíslaði því að mér) og einangra þennan raka við? Ég ólst upp við að hér á landi væru bestu og sterkustu hús heims sem ekkert fengi grandað ... besta heilbrigðiskerfið, hreinasta og fallegsta landið, tærasta vatnið ... Þetta með fallegasta landið ... ég trúði því algjörlega þar til ég heimsótti útlönd og fór að efast en eftir að hafa flett ógurlega fallegri ljósmyndabók um Ísland fyrir nokkrum árum, hef ég haldið mig við upphaflegu skoðunina. Annað held ég að sé minnimáttarkennd þótt mér finnist mont mjög eðlilegt og sjálfsagt, enda með ræturnar í Þingeyjarsýslu.

- - - - - 

Gosið séð frá HimnaríkiEins og ég hef sagt frá áður er ég er í litlum hópi á Facebook þar sem við spjöllum um eldgos, jarðskjálfta, jarðfræði og annað áhugavert. Ég hef aldrei neitt til málanna að leggja, er bara spennt og þakklát fyrir að fá að vera með en hinir í hópnum eru sumir með einhverja menntun á þessu sviði eða vita rosalega mikið um jarðlög, hegðun gosa í fornöld og svona ... Loks í gær fékk ég tækifæri til að sýna mátt minn og megin:

 

Hópur: Mikið vona ég að Sigríður Hagalín skrifi næst um eitthvað meinlaust.

Ég: Ég þekki hana, hún er gömul bekkjarsystir mín ...

Hópur: Ha? Bekkjarsystir þín?

Ég: Hún er auðvitað eitthvað örlítið yngri, þetta var í háskólanum, ég var vissulega langnæstelst í bekknum ef þið eruð að hugsa um það. (broskarl - en hugsi) 

Hópur: Ertu til í að biðja hana um að skrifa um eitthvað algjörlega hættulaust núna, það rætist nánast allt sem hún skrifar. 

Ég: Já, auðvitað, ég sé hana oft í viku. (lygaramerki)

Hópur: Flott, Gurrí, æðislegt. Svo gott að hafa þig í þessum hópi.

 

Af hverju sagði ég þetta? Hvernig get ég viðurkennt fyrir þessum elskum að ég hafi vissulega séð SH oft í viku ... en í sjónvarpinu, í fréttunum á RÚV, það eru eflaust hátt í 20 ár síðan við hittumst síðast.

 

Ég ákvað að ráðfæra mig við mömmu og hringdi í hana í morgun.  Það er oft gott, stundum veit ég þá nákvæmlega hvað ég á ekki að gera því ég er ekki enn vaxin upp úr mótþróaþrjóskuröskun unglingsáranna. Mamma var ekkert voðalega ánægð með mig: 

Dagný frænkaMamma: Hvað hef ég oft bannað þér að monta þig af frægu vinunum þínum? Það er ótrúlega hallærislegt. 

Ég: Ja ... ég monta mig reyndar af öllum vinum mínum, þeir eru hver öðrum æðislegri. Mér fannst bara svo dásamlegt að verða allt í einu merkileg í flotta jarðskjálfta- og eldgosahópnum mínum að ég sleppti mér. Ég get líka ekkert gert að því þótt fræga fólkið hópist í kringum mig og elski mig. Hefur reyndar minnkað eftir að ég hætti í útvarpi og flutti á Skagann - úr 107 Reykjavík, húsi sem skömmu eftir það var látið tilheyra 101 Reykjavík. Takk kærlega, Dagur, takk kærlega. Ég meina, ég hef aldrei montað mig af því við þig, mamma, að hafa t.d. þekkt Jón L. Árnason skákmann en hann var sennilega annar frægi skákmaðurinn sem ég hitti í lífinu, það var í gegnum starf mitt á DV ... hugsa að hann þekkti mig ekki í sjón núna ... (Ég þorði ekki að segja henni frá fb-safni mynda af mér með fræga fólkinu ... ég og Sverrir Stormsker, ég og Gummi bróðir ...)  

Mamma: Ja, ég þekkti nú Friðrik Ólafsson og Auju ... og þegar ég vann á Kleppi hitti ég Balta og fleiri út af myndinni þarna Englar alheimsins ... Fótboltastjarnan Dagný Brynjars, er svo auðvitað barnabarn Höddu, tvíburasystur minnar, hún er komin í West Ham! Og sonur minn er svo náttúrlega leikarinn sem lék pabba hans Benjamíns dúfu í bíómyndinni ... og þegar hann lék á Akureyri um árið fékk hann frábæra dóma hjá Jóni Viðari. Jón Viðar er svo æðislegur. 

Ég: Alveg rétt. Og sammála. 

Mamma: Og hvað svo, ætlar þú virkilega að biðja rithöfund um að hætta að skrifa eitthvað spennandi, bara til að róa einhvern hóp?

Ég: Sko, Sigga myndi taka mér vel, hún er svo mikið yndi, en þetta er rétt hjá þér, ég get ekki farið fram á að hún hætti að skrifa bók um t.d. innrás geimvera á Ísland/heiminn, loftsteina, mannýga hákarla við Langasand ... þótt það myndi síðan gerast. Ég segi hópnum bara að Sigga hafi sagt ókei og lofað að skrifa um eitthvað sem gæti ekki gerst í alvörunni. 

Mamma: Er það ekki ávísun á að hið ómögulega gerist? En jú, gerðu það bara. Þú ferð nú ekki að trufla sjónvarpskonuna.

Ég: Nákvæmlega.

 

PrófarkalesturNýlega sá ég á Facebook að maður nokkur var að skammast yfir því að Flokkur fólksins hefði líka hástaf í Fólksins, ég klökknaði nánast, þetta talaði sko til mín, og setti hjarta á færsluna hans. Hvatvísi hefur komið mér í koll.

Síminn minn hringdi og á meðan ég spjallaði setti ég örstutt komment, „Já, alveg sammála, furðulegt!“ Eitthvað slíkt.

Þegar stuttu símtalinu lauk ákvað ég að taka fjandans hjartað og setja bara venjulegt læk ... en þá var mögulega ofsahræddur maðurinn (vinur eða kunningi Halldórs fjanda, man ekki nafnið) búinn að eyða færslunni. Kannski búinn að eyða mér sem vini ...

 

 

Nú er sem sagt einhver maður þarna úti sem heldur að ég hangi ástreitin, mögulega drukkin á Facebook á kvöldin og hjartalæki færslur myndarlegra manna, meira að segja ósexí færslur sem tengjast stafsetningu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 23
  • Sl. viku: 409
  • Frá upphafi: 1445636

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 356
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Himnaríki 6. mars 2023
  • Himnaríki 21. mars 2024
  • Húsó

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband