Finnst fólki þetta í lagi ...

Kettir og litla barnHilda systir kom á Skagann í dag, hafði ætlað að kaupa berjadrykkinn góða, Fasta (sem er nýhættur í framleiðslu), en eftir að hafa grátið mér til samlætis yfir því ákvað hún að mæta samt, skoðaði öldurnar með hundinum Herkúlesi, sendi móður og barn til mín í kaffi á meðan, og svo fórum við öll út að borða saman á Galito.

 

Þá fengum við okkur ís hjá Frystihúsinu í eftirmat. Einn eigandi Frystihússsins er af hinni þekktu Erluíssætt sem þýðir að ísinn getur ekki verið annað en góður. Ég, þessi litla ísmanneskja áður fyrr, er farin að biðja um miðstærð, í stað ungbarnaíss - sem segir allt.

 

Kettirnir voru afar spenntir fyrir litla barninu í dag og þótt barnið togaði fast í Krumma lét hann sér ekkert bregða, sami köttur og þaut til geltandi Golíats (voffafrænda) sem var með dólg, og lamdi hann til að sýna honum hver réði í Himnaríki. Engar klær, enginn meiddist en báðir hundarnir eru mjög hræddir við Krumma síðan.

 

Á efstu myndinni sést líka í hundabúr sem ég þarf að gefa ... ég er ekki með geymslu svo þetta búr er stofustáss í bili, mörg ár síðan ég notaði það síðast. Kaupi frekar taubúr sem hægt er að brjóta saman og geyma uppi í hillu.  

 

Borga ekki reikninginnVinkona mín var stödd í Skeifunni á föstudaginn og ætlaði að fá sér kaffi og köku á vinsælu kaffihúsi sem þar er staðsett, var á ferðinni skömmu fyrir fjögur. Allt iðandi af lífi í kring og mögulegt að allt yrði troðfullt á kaffihúsinu. Svo var nú aldeilis ekki, það var verið að loka og ganga frá.

„Ha, er verið að loka?“ spurði hún gáttuð. Engar tertur í sjónmáli. 

„Ójá, ég áttaði mig á því í Covid hvað það var gott að vera meira heima og núna loka ég alltaf klukkan fjögur á föstudögum og hef lokað alla helgina, nú á ég mér líf,“ sagði maðurinn. Á miða stóð að opið væri til kl. sex frá mán. til fim. en bara fjögur á föstudögum. Ef staðurinn þolir þetta þá fínt ... innkoman hlýtur að minnka ... launakostnaður líka. Ætti svona fólk samt ekki að stofna sýslumannsembætti eða skattstofu til að geta losnað við kúnna frekar snemma dags? Ég þarf að spyrja hana Guðrúnu mína hvort þetta sé góður eða slæmur bisness.

 

Veit reyndar um fleiri kaffihús sem loka hroðalega snemma. Svekkjandi fyrir þá sem langar að hittast yfir kaffibolla eftir vinnu. Hvetur þetta ekki bara til víndrykkju og almenns ólifnaðar? Te og kaffi opnaði nýlega kaffihús í Garðabæ og þar er opið langt fram á kvöld. Frábært, takk. 

 

JesssssssÉg man eftir að hafa þurft að fara í Vegamót á Seltjarnarnesi til að kaupa mjólk eftir almennan lokunartíma búða, á árunum þegar bensínstöðvar seldu bara bensín og tvist. Svo bara opnaðist allt og keppst var við að veita bestu þjónustuna. Fleiri fengu vinnu og síðdegisstressið, að komast í matvörubúð fyrir klukkan sex, hætti. Mér finnst reyndar mjög hallærislegt að leyfa þrjá stórmarkaði á sömu lóðinni úti á Granda; Krónuna, Bónus og Nettó, allt í nafni samkeppni. Held að það geri ekki sérlega mikið fyrir neytandann því þessar búðir hljóta allar að tapa og þar með kúnninn líka. Þetta var hagfræðihorn Guðríðar.

 

Myndin: Spennandi veður á morgun!

 

Ég kem alltaf annað slagið út úr skápnum sem bindindiskona (á milli rauðvínsglasa á Galito) og sem piparjúnka (á milli viðreynslu á Facebook) og kattakerling (alltaf), en ég hef svo sem ekki velt mér mikið upp úr masókisma mínum, sem sýnir sig í því að ég er í Facebook-hópi sem heitir Gamaldags matur ... og þar sé ég reglulega að fólk, 50 plús, deilir því sem það er með í matinn hjá sér; hræring, svið, þverskorna ýsu, rúgbrauðsgraut með rúsínum, mögulega spaghettí sem hefur verið soðið í hálftíma og bara alls konar hrylling. Og kommentin eru: Namm, best í heimi, ohhh, langt síðan ég hef fengið ábrysti ... namminamm, hræringur er bestur, borða hann volgan á hverjum morgni með rjóma, namm, slurp ...

 

Þverskorin ýsaHvað er að ungu fólki um sextugt sem borðar matinn sem var neyddur ofan í það/okkur í æsku? Þetta er sennilega (örugglega) ástæðan fyrir því að enn er boðið upp á svona mat á dvalarheimilum aldraðra og verður um ókomna tíð.

 

Einhvers staðar er alveg örugglega til tónlistarhópur miðaldra fólks sem mærir harmonikkutónlist og þess vegna munum við aldrei, aldrei losna við hana af elliheimilum.

 

Finnst fólki þetta almennt í lagi? Kemst Uriah Heep einhvern tíma í græjurnar á Eir? Fæ ég lasagna á Höfða (Akranesi), sítrónukjúkling eða chili-kássu? 

 

Ég er samt mjög opin og sveigjanleg og myndi alveg lifa af nikkulagið Sunnanvind með Örvari Kristjáns (það er reyndar mjög flott lag) og að fá kótilettur í matinn eða læri, hrygg, kindabjúgu, slátur, pönnukökur, rabarbaragraut, hangikjöt ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 104
  • Sl. sólarhring: 374
  • Sl. viku: 2243
  • Frá upphafi: 1451979

Annað

  • Innlit í dag: 92
  • Innlit sl. viku: 1839
  • Gestir í dag: 90
  • IP-tölur í dag: 90

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Grimm
  • Í kringum ljósastaurinn
  • Baldursbrár

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband