Lömbin vöknuð, djörf svör og játningar

Blogginu hafa borist nokkrar spurningar sem ég mun svara eftir bestu getu. Vinsælustu áhrifavaldar landsins bjóða oft upp á svona á snappi eða Instagram en ég geri það stundum á blogginu og finnst fljótlegast að notast við hugskeyti.

 

SumarveðurAf hverju áttu ekki mann? Ég hef oft átt mann.

Ertu bólusett? Já, að sjálfsögðu.

Þú veist sem sagt ekkert um samsærið? Nei, segðu mér ... (not)  

Mesta stuðlagið? No one knows með Queens of the Stone Age þessa dagana.

Hvort setur þú á undan, kaffið eða mjólkina? Kaffið, auðvitað.

Hlakkar þú til jólanna? Já, mjög. Sakna þess samt að fá ekki lengur í skóinn, það er fúlt að eldast.

Hvað ætlar þú að kjósa á laugardaginn? Eitthvað sætt. (Besta kosningakaffið sem sagt.)

Hvað hefur þú lært af lífinu? Það er of stutt fyrir vont kaffi, stundum koma bara út tvær bækur á íslensku í þríleik og margt fleira sem ég skal reyna að rifja upp fyrir næstu lotu.

Er mikill hreinn þvottur í körfum á svefnherbergisgólfinu? Bíddu, ert það þú sem ert á krananum hérna fyrir utan? Hér eru vissulega þvottaleifar eftir þursabitið og eitthvað nýtt líka. 

Hvað kallar þú vont veður? Sól og hita yfir 15°C. Algjört helvíti.

Með hverjum heldurðu í enska? Liverpool, Tottenham og West Ham ... kannski smávegis MU núna út af Ronaldo.

Besta bíómyndin: Empire of the Sun hafði mikil áhrif á mig. Flott músikin líka.

Færðu borgað fyrir að blogga? Já, rosalega mikið. (djók)

 

Clarice og leiðinlegi lögginnRestin var of nærgöngul svo ég ætla bara að fara að horfa á Clarice í Sjónvarpi Símans, sá fyrsta þáttinn nýlega. Þetta er sem sagt sjálfstætt framhald (13 þættir) af Lömbin þagna (eftir bók Thomasar Harris)* og er spennt að vita hvað gerist hjá Clarice - ári eftir að hún fangaði Buffalo Bill fjöldamorðingja. Engin Jodie Foster, enginn Anthony Hopkins.

Hún er með áfallastreituröskun eftir hryllinginn og í fyrsta þættinum er hún hjá sálfræðingi eða yfirmanni (ég horfði bara með öðru fyrstu mínúturnar) sem vill ekki að hún fari að vinna næstum því strax. Hann skammar hana fyrir að hafa myndað persónuleg tengsl við Hannibal Lecter, en þau komu nú samt alveg ábyggilega í veg fyrir að hann borðaði hana.

 

*Thomas Harris, höfundur bókanna Rauði drekinn og Lömbin þagna, heldur því fram að aðeins fólk með lága greindarvísitölu eða háa geti séð í gegnum siðblint fólk. Auður Haralds sagði mér þetta í viðtali sem ég tók við hana árið 2000. Ég er með háa, held ég, þurfti ekki annað en að sjá Donald Rumsfield í sjónvarpinu eitt árið til að sjá að hann væri siðblindur, held að það sé rétt hjá mér, hann virðist alla vega vera það. Og frekur, og spilltur.  

  

Áfram með smjörið: Í miðjum klíðum kemur einhver þjótandi inn og segir að Clarice verði að rjúka upp í flugvél - mamma síðasta fórnarlambs Buffalo Bills, stúlkunnar sem honum tókst ekki að drepa(hún lokkaði hundinn hans til sín), er mjög háttsett og heimtar að Clarice komi fljúgandi og aðstoði við ljótt mál og leysi það ... tvær konur hafa fundist látnar, allt lítur út fyrir að fjöldamorðingi sé á ferð.

 

EinmittLögreglukarlinn sem stjórnar rannsókninni hatar Clarice frá upphafi, hann þarf enga fjandans hjálp, segir það hafa verið heppni að hún náði morðingjanum, hún sé ekkert svo klár, og er bara ógeðlega leiðinlegur við hana. Enda er hún bara kelling, nýskriðin úr FBI. En ég er samt glöð yfir því að hafa fundð heila þrettán þætti, tólf eftir, til að horfa á næstu vikur.

 

Einn í kvöld ... sjáum svo til. Vona að rætist úr yfirlögganum, það er mjög klisjukennt og þreytandi að hafa hann svona leiðinlegan, og hana svona ofsaklára ... en stundum er ágætt að horfa á eitthvað sem krefst ekki hugsunar eða pirrings. Bara láta mata sig ... það þarf stundum.

 

 

Eins og bækurnar sem ég valdi vandlega síðustu misserin  þannig að þær enduðu örugglega allar vel - þær voru æði fyrst - en fóru svo smám saman að pirra mig ósegjanlega. Ég var farin að rífast við þær, næstum upphátt. „Nei, þú getur ekki drepið leiðinlega manninn bara svo hún geti gifst hinum, kommon!“

Nú les ég bara bækur sem enda flestar ágætlega, og helst ekkert drama. Held að ég hafi fengið ógeð á drama þegar mamma, fyrir áratugum, lýsti fyrir mér mjög sorglegri mynd, um tíu barna móður sem var með ólæknandi krabbamein og þurfti áður en hún dó að finna börnum sínum heimili hjá góðu fólki. Mamma fékk ekka á meðan hún talaði um myndina, býst við að lak eða lök hefðu komið að góðum notum þegar hún horfði svo á myndina. Að öðru leyti hefur hún ljómandi góðan smekk á myndum.

Ég viðurkenni að ég táraðist ögn þegar ég horfði á Notebook og fannst hún voða kjút, en langar samt alls ekki til að sjá hana aftur, ekki frekar en Titanic sem er bara of stór biti til að kyngja aftur og aftur. Ef ég sést ekki aftur hér á blogginu hefur James Cameron drepið mig. Eða Nick Cassavetes. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 12
  • Sl. sólarhring: 193
  • Sl. viku: 1529
  • Frá upphafi: 1453404

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 1261
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband