Skjálftar, aldur og blóðhitinn sem hvarf ...

Keli og skjálftamælirinnSkjálftarnir eru byrjaðir aftur. Ég fann þennan kl. 2.07 í nótt en haggaðist ekki þegar þessi undir hádegi kom. Jarðskjálftamælirinn í glugganum er kominn í fulla notkun, eða „droparnir“ á litríka lampanum úr Pier.

 

Það er nokkurt áfall að skjálftar upp á þrjá komma eitthvað skuli nú finnast á Skaganum en í fyrri hrinu á Reykjanesskaga þurftu þeir að vera talsvert stærri til að ískalt hjarta mitt færi að slá hraðar. Í fyrradag hafði skúffa í samstæðunni inni í stofu opnast (hún er  mjög laus) en hún opnaðist bara ef skjálftarnir fyrr á árinu fóru yfir fjóra. 

 

Segi ískalt hjarta því heitt blóð er steinhætt að renna um æðar mínar, ég þurfti viftur dag og nótt til að lifa sumarið af, það var óbærilegt að sitja við tölvuna þegar hitinn úti fór yfir tíu gráður. Viðbjóður. Ef ég settist inn í stofu lét ég ástkæra Costco-viftuna i gang þar bara til að lifa af. Ræddi þetta við vinkonu mína sem kom í heimsókn í gær. Sagði henni frá núverandi ísköldu sænginni minni sem fyrir skömmu var allt, allt of heit, og þyrfti nú eitt til tvö teppi yfir sig þótt ég væri kappklædd undir sæng, í hlýjum náttfötum og í verstu tilfellunum kósísokkum. Þarf að kenna kisunum að leggjast til svefns ofan á mig, bara í réttri röð eftir þyngd þeirra, eða þétt upp við mig. 

 

„Ég er ekki jafnbrjálæðislega blóðheit og ég hélt,“ sagði ég og skellihló að eigin fyndni eins og sumt gáfað fólk gerir alveg. „Kannski hormónarugl eftir bólusetninguna,“ hélt ég greindarlega áfram ... en það er í tísku hjá sumum að kenna bóluefni um allt nema kannski fótbrot. Vinkonan vildi nú meina að það hefði kólnað úti undanfarið og svo klykkti hún út með því að segja illskulega:

„Hormónar, þú?“ og benti mér á að ég væri komin á sjötugsaldur þótt ég hefði margsagt henni að ég væri á sexunni ... Hormónaframleiðslutækin voru vissulega fjarlægð úr mér árið 2004 vegna ótrúlega spennandi teratoma-æxlis sem þótti afar merkilegt í Grays Anatomy en fólkið á Landspítalanum lyfti ekki einu sinni augabrúnum yfir því, eins og ég hef áður beiskjubloggað um. Einhverjir hormónaafgangar hlytu að hafa orðið eftir. Ég þorði samt ekki að viðra þá hugmynd því vinkonan er með betri menntun þegar kemur að líkamanum. Í minni fjölskyldu er bara hugsað um hið innra, við fjöldaframleiðum sálfræðinga.

 

63 ára„Veistu hvernig 63 ára konur líta almennt út?“ spurði ég brjáluð út í þessa mun eldri vinkonu (munar 22 mánuðum á okkur sem er mjög mikið á þessum aldri) og hélt áfram: „Það er ekkert að marka mig núna, ég er nýskriðin upp úr þursabiti og það hefur alltaf verið hrukkuvaldandi nema maður eigi þeim mun sterkari verkjalyf sem ég átti ekki.“

 

Svo sýndi ég henni nýlega mynd af 63 ára konu (sjá mynd) sem hefur haldið sér ágætlega og sú kona á alveg geta verið fyrirmynd og andlit okkar sem erum jafnöldrur hennar. Ræktin og smávegis meik, bingó! Strákarnir úr mínum árgangi á Skaganum, Halli sem á Grjótið, Gulli sem er stjarneðlisfræðingur, Einar sem er skipstjóri, Ingólfur sem á Skagann 3X og fleiri of fleiri, líta allir út eins og þeir gerðu í 12 ára bekk (eins og stelpurnar), ég fæ alltaf hálfgerða Dorian Gray-tilfinningu á árgangsmótum, jafnvel þótt gömlu skólasystkinin séu á fullu að tala um sætu barnabörnin sem þau hlaða niður þessi misserin.

 

Aldur er bara tala og helst notaður við ostagerð - útlit skiptir heldur ekki máli nema maður sé hestur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 63
  • Sl. sólarhring: 240
  • Sl. viku: 1580
  • Frá upphafi: 1453455

Annað

  • Innlit í dag: 61
  • Innlit sl. viku: 1310
  • Gestir í dag: 61
  • IP-tölur í dag: 61

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband