Kynþokki, uppbygging og síðasti í safó

InkedSpennandi_LIRosalega margt í gangi hér á Akranesi núna. Þar sem ég stend og horfi út um suðurgluggann og lít til vinstri er þar íþróttasvæðið og Guðlaug, heitar laugar, og þar verður mikil uppbygging, bara mjög flott, sýnist mér. Til hægri, þar sem sementsverksmiðjan var og skeljasandurinn (leiksvæði mitt í gamla daga þegar fáum þótti vænt um börn) á að byggja fjöldamargar íbúðir, allar með sjávarútsýni. Útsýni er loksins farið að þykja flott. Himnaríki hafði verið til sölu í tvo eða þrjá mánuði þegar ég rakst á að það væri til sölu. Það fór á sölu á afmælisdaginn minn í ágúst 2005 og ég flutti inn í febrúar 2006. Annar málarinn sem málaði áður en ég flutti átti líka afmæli sama dag og ég en tíu árum yngri, samt ágætur. Líklega örlög mín að flytja hingað þótt ég sé ekki forlagatrúar, gæti hafa verið samsæri, einhvern hafi langað í íbúðina mína við Hringbraut? Á þessum tíma var strætó nýfarinn að ganga til Reykjavíkur sem hafði auðvitað áhrif á kaupin.

 

Gífurleg uppbygging er á Skaganum - þeir sem hyggja á að opna kaffihús hérna og drekka ekki kaffi sjálfir sem er víst algengt, eða er skítsama um kaffi, endilega hafið sambandi við mig, ég veiti ókeypis ráð fyrir þá sem vilja kaffihús sem lifir.

 

InkedTil vinstri_LINú er síðasti dagur safakúrs og ég hef ekki drukkið kaffi síðan á sunnudaginn. Hvernig ætli morgunbollinn í fyrramálið smakkist? Skilst að það taki tíma að venjast bragðinu. Ég á ættingja sem vandist á neskaffi í háskólanámi og kemst ekki til baka. Ég á bara kaffibaunir heima svo sennilega held ég mig við þær. Neskaffi gull er notað í flugvélum og er alveg ágætt með kaffirjóma og ferðatilhlökkun.

 

Safarnir hafa allir verið sérlega bragðgóðir, meira að segja sá sem ég drekk núna með rauðrófu, gulrótum og kíví. Ekkert hungur, enginn söknuður eftir mat, nema þarna um daginn þegar ég áttaði mig á alvarlegum tertuskorti á Akranesi.

 

 

Þá sá ég kökur út um allt á netinu, öldurnar í sjónum minntu á kleinur og bílarnir á bílastæðinu líktust marmaraköku. Það er mikil næring í þessu og einhverra hluta vegna hef ég endurheimt grönnu ökklana ... Fjögur óétin epli úr safakúrnum eru í grænmetisskálinni og verða notuð í eplaköku um helgina. Það var ekki séns að geta borðað þau, allt of súr fyrir sætheitin hér.

 

Helgin verður ekki notuð í matarsukk - ég ætla í Kaju á morgun og kaupa eitthvað létt hjá henni, mat, langar að baka eplaköku, hún stakk upp á því, og fá mér sneið með rjóma, restin af kökunni verður sneidd niður og gefin tertusjúkum Skagamönnum ... spurning hvort maginn þoli svo lasagne á sunnudaginn ...

 

Sexí verkakonaEf það verður einhvern tímann gerð stytta af mér (til dæmis við Langasand eða kaffiverksmiðju) má hún gjarnan vera mjög sexí, eins og styttan af ítölsku verkakonunni sem einhverra hluta vegna sjokkeraði marga ... en ekki karlana á myndinni sem virðast mjög hrifnir.

 

 

Sumir segja að sú skylda okkar kvenna að vera ætíð kynþokkafullar sé eins konar vestræn búrkuskylda en ég finn samt ekkert voðalega fyrir henni. Nema kannski þegar kunningjakona mín sagði um árið að ef ég hætti ekki að ganga í rúllukragapeysum næði ég mér aldrei í mann. Ég horfði þolinmóð á veðruð brjóstin á henni sem stóðu hálf upp úr þröngum bolnum og hugsaði um allar ástarsorgirnar sem hún hafði lent í. Er þá rúllukragapeysn ekki betri? Á reyndar bara tvær (keyptar i Walmart) og geng mjög sjaldan í þeim, en ef sem sagt verður gerð stytta af mér í rúllukragapeysu, má hún vera mjög þröng og sexí og auðvitað pilsið mitt rennblautt (af sjó eða kaffi, eftir því hvar styttan mun standa). Ég er alveg til í að borga fyrir að láta taka nokkur kíló af mér, allt í lagi með hrukkur, en ég bæti alltaf tíu, fimmtán kílóum á mig á myndum ... og styttan yrði væntanlega gerð eftir ljósmynd. Þannig að hugmyndin að styttugerð yrði að koma upp áður en ég hrekk upp af. Ég stóla á ykkur og passið bara að Gurrí verði ekki skrifað með ý-i.        


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í staðinn fyrir epli ætti nú að vera í góðu lagi að graðga í sig banana, eða "banan" eins og amma mín á Baldursgötunni kallaði þá, en hún var að austan og sagði líka "á vetrin". cool

Þorsteinn Briem, 8.10.2021 kl. 18:20

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Akranes nú alveg flatt,
enginn lengur skorsteinn,
ótrúlegt en samt þó satt,
sem ég heiti Þorsteinn.

Þorsteinn Briem, 8.10.2021 kl. 18:23

3 Smámynd: G Helga Ingadottir

Skemmtileg færsla - takk 

G Helga Ingadottir, 9.10.2021 kl. 15:26

4 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Takk, G. Helga. :)

Og frábær vísa, Þorsteinn. Þorði ekki banana, vildi ekki gera neitt öðruvísi, en byrjaði daginn í dag, lau, með banana. :)

Guðríður Haraldsdóttir, 9.10.2021 kl. 21:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 142
  • Sl. sólarhring: 280
  • Sl. viku: 2101
  • Frá upphafi: 1452301

Annað

  • Innlit í dag: 130
  • Innlit sl. viku: 1703
  • Gestir í dag: 127
  • IP-tölur í dag: 127

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • baby reindeer
  • Ove Otto
  • Gísli gerir Mart-einn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband