Fallega fólkinu hafnað og lúmskar fésbókargildrur

Við erum fleiri ...Ég ætla svo sem ekki að kvarta yfir litla fríinu mínu en ég skilaði aukaverkefninu loks í gærkvöldi, yfirlestur sem tók lengri tíma en ég vonaði. Náði samt alveg að skemmta mér meðfram því við hreingerningar, kaffidrykkju, kisuklapp, gestakomur, lestur og áhorf í tölvunni (í gær) á tvo útvarpsmenn segja lélega pabbabrandara. Slökkti eftir nokkrar mínútur, ég hló svo mikið að ég óttaðist að nágrannar myndi hringja á lögguna. Reyni að klára í dag.

 

Fyrsti alvörufrídagurinn, hugsaði ég við vakn í morgun en byrjaði daginn nú samt á því að setja í þvottavél, hljóðbókin bíður eftir því að lesa áfram fyrir mig á meðan ég brýt þann þvott saman, ásamt þvotti úr seinni vélinni sem er farin af stað. Svo er ég að hugsa um að nota sólina til að þvo alla glugga Himnaríkis að innan, sem eru meðal annars kámugir eftir kisunebba. Í hvað er ég að breytast? Er ekki til eitthvað sem heitir ÍHLUTUN í innanríkismál ný-tuskusjúkra?

 

Facebook var að rifja upp fyrir mér tíu ára gamla minningu ... þegar mér bauðst að ganga í hóp fallega fólksins. Ég afþakkaði af því að ég var svo hrædd um að leynd móðgun fælist í þessu, þetta væri samansafn fólks sem tryði því að fegurðin kæmi innan frá. As if ... Nú sé ég svolítið eftir þessu, það hefði verið gaman að láta fljóta með í upptalningu hópanna minna: Áhugafólk um þakrennurÓáhugaverðar fótboltaupplýsingar, Fólk sem labbar hallærislega í hálku, Kettir og aðdáendur katta, Fallega fólkið, Hver hendir svona? og svo framvegis. Svo er víst, eða var, hægt að sjanghæja mann inn í hópa, ég man ekki hversu oft ég uppgötvaði að ég væri óvænt orðin meðlimur í Góðu systur. Ég fleygði mér jafnharðan út og það tókst loks endanlega. Vil frekar vera í Vondu systur og Fyndnu frænku, þar bjóst ég frekar við húmor. Svona er ég nú vond og fordómafull. Gaf þessu ekki séns, þoldi bara ekki nafnið á hópnum.

 

Í gær var opinberað á nýrri fréttasíðu sem Kristjón Kormákur ritstýrir, 24.is, hverjir væru í hópnum Karlmennskan (eða Karlmennskuspjallið?), harðlokuðum hópi kvenhatara, virðist vera, en ég vona nú samt að stór hluti hópsins hafi ekki verið virkur þarna og jafnvel ekki áttað sig á félagsskapnum ... Af nafninu að dæma myndi ég halda að þarna færu fram umræður um bjór og veiðar, hvar hægt væri að læra að flétta dætur sínar, lyftingar, netsíður fyrir flottar jólagjafir fyrir kærustuna eða kærastann. Svona blanda af hinu og þessu.

Ég sá í gær mann tjá sig um veru sína þarna, mjög undrandi, hann hafi ekki áttað sig á því og vildi alls ekki vera þar og henti sér út. Ég sé mjög lítinn hluta af því sem gerist á veggnum mínum, hangi ekki á fésbókinni tímunum saman eins og fyrst. Held að ég sé búin að læra að forðast hættulegar gildrur sem tengjast þó vissulega ekki alltaf hópum. Ein versta gildran sem ég fleygði mér óvart í var að svara könnun um morgunverðarvenjur, svaraði Hvað borðar þú í morgunmat? ... að yfirleitt fengi ég mér bara kaffi og biði svo eftir því að verða svöng ... Það tók mig nokkurn tíma að losna við konuna sem vildi bjarga mér frá þessari eymd með því að selja mér Herbalife sem morgunverð, þetta voru lymskulegar kúnnaveiðar.

 

NákvæmlergaHelgin verður annasöm og felur í sér tvær stuttar ferðir í bæinn ... spáð er miklu roki á sunnudaginn svo ég veit ekki hvort strætó gengur ... þarf sennilega að skríða frekar - og ef ekki, missi ég af spennandi stefnumóti þar sem smjörsteiktur humar kemur við sögu og dásamlegur félagsskapur. 

 

 

Nú sé ég eftir því að hafa ekki undirbúið fríið ögn betur, komið mér í klippingu og alls konar snyrtingu - nú eru t.d. neglur mínar sögulega langar og hefði verið gaman að láta gera þær enn fínni áður en ég klippi þær, hálfpirruð á vaxtarhraðanum. Ég hef lesið svo marga krimma að eini kosturinn sem ég sé núorðið við langar neglur er að ég geti klórað mögulegan morðingja minn og skilið eftir DNA hans/hennar fyrir lögguna. Löggan á Íslandi má reyndar ekki setja DNA grunaðrar manneskju inn í gagnagrunn til að sjá strax hver framdi glæpinn eða var á vettvangi, onei, það yrði allt of auðvelt. Fyrst þarf að finna glæpamanninn/-konuna handvirkt og svo má bera saman DNA-ið hans/hennar og DNA-ið undan nöglunum á mér og ef það er neikvætt þá byrja upp á nýtt ... Þetta er ekki svona í CSI-þáttunum. Má ekki hækka launin hjá löggunni?

Jæja ... farin að þvo glugga


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á Akranesi alltaf sól,
og aldrei nokkur vindur,
eitt sinn fundið upp þar hjól,
og einnig göngugrindur.

Þorsteinn Briem, 14.10.2021 kl. 14:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 121
  • Sl. sólarhring: 286
  • Sl. viku: 1638
  • Frá upphafi: 1453513

Annað

  • Innlit í dag: 117
  • Innlit sl. viku: 1366
  • Gestir í dag: 116
  • IP-tölur í dag: 115

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband