Leynivinavikur og leyniÓVINAvikur ...

ÚpsLeynivinavikur geta verið mjög notalegar, það minnir á jólin þegar allir laumast svona ... nema nú fær maður ekki að vita hver gefandinn er fyrr en í lok vikunnar. Fólkið hjá Birtíngi er mjög skapandi og skemmtilegt þegar kemur að öllu svona, ég varð vör við það þegar ég vann á meðal manna.

 

Ég fékk axlanudd alla vega tvisvar, þá var einhver sem ekki var leynivinur minn sendur í þann þakkláta gjörning. Eina svona viku fékk ég bara bjórdósir frá leynivini mínum og það var ekki einu sinni Sveinn Waage (bjórsnillingur) sem vann með mér um hríð. Ég bauð Sveini lengi vel góðan daginn þegar hann gekk fram hjá mér, að mæta til vinnu, en hann lét sem hann hvorki sæi mig né heyrði, ég sat svolítið langt frá og hann hefði þurft ansi góða hliðarsjón til að koma auga á mig. Þá prófaði ég að segja „Vondan daginn“, orðin svolítið móðguð, en hann tók samt ekki við sér. Svo var hann bara með heyrnartól ...

 

Ég hef nánast kæft mína leynivini í gjöfum í gegnum tíðina og fundist ógurlega gaman að laumast. Eitt árið var það Illugi Jökulsson sem naut gjafa minna og stóð mig að verki. Ég var yfirleitt mætt langfyrst á staðinn, enda tók ég 6.15-strætó frá Akranesi. Ég kom við á bensínstöð og keypti súperfínt nýbakað meðlæti (hver þarf bakarí?), tók þá áhættu að gera kaffi líka og setti það á skrifborðið hans. Og hver kom ekki gangandi inn á skrifstofuna akkúrat þá? Jú, sjálfur Illugi. En eftir nokkur ár af leynivinaleikjum lærir maður lymsku og kænsku svo ég sagði bara glaðlega: „Gjörðu svo vel, leynivinur þinn bað mig um að setja þetta á borðið þitt.“ Ofsaglaður (held ég) Illugi þakkaði mér kærlega fyrir en virtist ekki átta sig á því að ég var nánast eina manneskjan sem var mætt mín megin í fyrirtækinu. Að fá svona fínheit við mætingu er eitthvað sem hvert einasta fyrirtæki ætti að taka upp ...

 

Blaðamaður hjá Séð og heyrt bað Herbert Guðmundsson sem oft kom í heimsókn á ritstjórnina um að syngja eitt lag fyrir leynivin sinn sem var, að mig minnir, einhver af Gestgjafanum, og það þótti mjög sniðugt. Eða var það í leynióvinaviku?

 

Það voru líka leyniÓVINAvikur, bara tvær, jafnvel bara ein. Örugglega bara ein. Það var ekki eins gaman ... Eitt sinn var ég stödd við Vesturlandsveg og ætlaði að taka upp veskið mitt og finna greiðslu í strætó ... fannst taskan mín frekar þung sem var svo ekki skrítið, það var nefnilega búið að tæma úr hrísgrjónapakka (laus grjón) ofan í hana. Það var ekki alveg hrekkur á dag, sjúkk, og ýmsir voru mun stærri, eins og að líma post it-miða yfir allt skrifborðið hjá sínum óvini, jafnvel taka skrifborð með öllu og lyfta því upp á skrifborðið við hliðina. Það var pínku fyndið en eflaust hundleiðinlegt að laga það til baka. Og allt var þetta gert með deddlæn á næsta leiti. Sumir urðu pirraðir - aðrir ekki. Mæli ekki endilega með slíkum vikum en enginn meiddist þó við gerð þeirra, held ég, nema þá helst andlega.

 

Ég íhuga mjög alvarlega að kaupa fimm gjafir handa mér sem ég pakka inn og set á skrifborðið mitt á kvöldin. Ég er allt of ung til að hafa gleymt því daginn eftir og arga svo upp yfir mig af gleði þegar ég sé pakkann en ég ætla samt að reyna það. Kannski eru leynivinavikur þeirra sem vinna heima - einir - þær langskemmtilegustu og mest gefandi. Svo get orðið öskureið ef þetta er ekki rétta gjöfin eða nógu flott gjöf og enginn fréttir af vanþakklæti mínu ... Það sem gerist í Himnaríki heldur sig þar ...  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Lítinn eiga leynivin,
læstan niðrí skúffum,
aldrei sitt þó auka kyn,
með öllum sínum múffum.

Þorsteinn Briem, 15.10.2021 kl. 14:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 208
  • Sl. sólarhring: 301
  • Sl. viku: 1921
  • Frá upphafi: 1453082

Annað

  • Innlit í dag: 185
  • Innlit sl. viku: 1574
  • Gestir í dag: 182
  • IP-tölur í dag: 181

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Tengdamömmur
  • Kamilla, Inga, Gerry
  • Frændfólk mitt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband