Grisjað til gleði og ársafmæli flottheita

Fyrir konurnarÉg get ekki sagt að jólalegu gallarnir hafi slegið í gegn hjá vinum og ættingjum (pörum) í gær - því öll sögðust þau „eiga svona“ sem mér finnst ekki trúlegt þótt ég kunni ekki beint við að rengja þau. 

Ég var líka búin að finna síðkjóla, mjög fína á einhleypurnar mínar, þá kæmu þær kannski almennilega spariklæddar í afmælið mitt í ágúst en skyggðu samt ekki endilega á afmælisbarnið. Annars eru jólin og jólagjafir aðalatriðið þessa dagana ... Óttast að jólagjafaþegar mínir kvenkyns eigi svona kjóla - eða þykist eiga þá. Bækur eru sennilega bestar bara.

Ég er með algjöran jólakarl á heimilinu, hann er engu skárri en ég. Hann spurði mig þegar hann var yngri um uppruna jólasveinsins og var ljónheppinn, ég hafði skrifað grein um dýrlinga og einnig sitt af hverju um jólin fyrir Vikuna í gegnum árin. Ég sagði honum frá heilögum Nikulási frá Mýru sem lést 6. desember á fjórðu öld og þann dag nú á tímum fengju börn sums staðar í skóinn. Nikulás væri hinn fyrsti jólasveinn. Þetta mundi stráksi allt saman. Hann á góða spjaldtölvu, notar YouTube mikið og gúglar líka. Hann kann ekki mikla ensku en tókst nú samt nýlega að finna nokkurra ára frétt á ensku um að fornleifafræðingar hefðu sennilega fundið hina fornu Mýru sem tilheyrir Tyrklandi! Nikulás fleygði á sínum tíma gullpeningum inn um glugga hjá tveimur ungum stúlkum og bjargaði þeim frá slæmu hlutskipti ... þannig hófst nú þetta gjafastúss.

Stráksi á myndir af sér með þremur flottustu mönnum í heimi. Gamla mynd af sér með jólasveininum (2010?) og nýlegri með Páli Óskari (2018) og Herra Hnetusmjöri (2021). Ég þarf að búa til myndavegg fyrir hann með þessu áframhaldi.

 

Stofa FYRIRÞað má segja að framkvæmdum í Himnaríki hafi lokið fyrir akkúrat ári um þessar mundir. Framkvæmdum og grisjun. Nýtt bað, eldhús og gólfefni. Gamalt, ljóst parket var á stofu og eldhúsi, hvítur dúkur á herbergjum og plastparket á gangi, gulur dúkur á baði, bæði gólf og upp á veggi. Trésmiðja Akraness hélt utan um verkið og flottir fagmenn sáu um þetta allt. Hönnuður Pálmadóttir (áður Fabia Studio) sá til þess að þetta yrði allt saman smekklegt og flott.

Reyndar komu smiðirnir um daginn (í sumar) og kláruðu smáræði og svo kalla ég til málarann þegar búið er að skipta um móðugler í einum glugganum. Þá klárast gluggarnir og það litla smotterí sem eftir er. Þá má segja að allt sé búið. Annars er eilífðarverkefni að halda öllu við en kannski ekki á hverjum degi.

 

Á FYRIR-myndinni (efri) má sjá kött lengst til vinstri, uppi á stólbaki, skenk sem ég reyndi örvæntingarfull að gefa og tókst á allra síðustu stundu, kvöldið áður en var parketlagt ... þarna eru bækur í tonnatali og til að róa aðeins stofuna raðaði ég bara dökkum bókum í hilluna fjær. Eitthvað litaraðað í hilluna nær líka. Hagkaupssloppinn keypti ég á markaði Mæðrastyrksnefndar Rvk, á 200 krónur. Held að mamma hafi átt svona slopp en þetta var einkennisbúningur húsmæðra á sjöunda áratug síðustu aldar. Mamma fór svo í hvítan einkennisbúning og byrjaði að vinna úti og við systkinin breyttumst í litlu börnin með eldspýturnar ... Nei, nei, grín. Það komu dásamlegar konur, fyrst Jóhanna, síðan Sigríður, gáfu okkur morgunmat og komu okkur í skólann, síðan hádegismat.

 

Stofa EFTIRÁ seinni myndinni sést inn í gjörbreytt eldhúsið, stofan, eða þessi hluti orðinn að borðstofu en áður sneri stofan öfugt, rauði sófinn var hinum megin en hönnuðurinn vildi ólm breyta þessu og stofan (og borðstofan) er svo miklu fínni og flottari. Bækurnar undir Sólheima-styttunni eru farnar í hillu ... já, og málverkið er eftir hina einu sönnu Ellý. Ljósakrónan ættuð frá Hringbraut 78, íbúðinni á móti minni (1988-2006), fékk hana gefins þegar flutt var úr íbúðinni og hún gerð upp.

 

Ég notaði (eða málarinn) arkitektahvítan lit á alla íbúðina. Mjög ánægð með hann, það virkar allt eitthvað svo tandurhreint sem það er auðvitað. Nokkrir veggir eru dökkgráir, liturinn heitir öskugrár og er frá Slippfélaginu, sá hvíti líka þaðan. Þetta er gífurlega mikil breyting - ekki síst af því að ég gaf svo mikið, flokkaði svo grimmilega að ég trúi því varla enn upp á mig. Ég keypti oft hér áður fyrr eitthvað gamaldags og fínt en hafði svo ekki pláss. En ég held að nánast allt sem ég lét frá mér hafi öðlast nýtt líf - sumt fór á nytjamarkaði í bænum.

 

Í fréttum Stöðvar 2 kemur fram að vöruskortur sé yfirvofandi, og að fólk ætti að kaupa gjafir sem fyrst. Ég hef fundið þetta á mér! Nema það sé verið að hræða okkur til hlýðni, kaupa, kaupa, kaupa, strax, strax, strax ... Ég held mínu striki bara, það er mjög gaman að vera snemma í því. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Undirritaður gæti best trúað að Birgir Þórarinsson haldi af hálfu Sjálfstæðisflokksins langar ræður á Alþingi nú í vetur um Kóka Kóla-jólasveininn og það skaðræði sem af honum hefur hlotist fyrir mörlenskt menningarlíf. cool

Kóka Kóla-jólasveinninn níræður

13.6.2021:

Birgir Þórarinsson ræðukóngur þriðja árið í röð

Þorsteinn Briem, 19.10.2021 kl. 07:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 151
  • Sl. sólarhring: 182
  • Sl. viku: 1843
  • Frá upphafi: 1453353

Annað

  • Innlit í dag: 116
  • Innlit sl. viku: 1492
  • Gestir í dag: 108
  • IP-tölur í dag: 105

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband