Óvænt útsofelsi - lítið um karlagláp

Morgunninn í rústKlukkan nákvæmlega 9.17 í morgun upphófust þau mestu læti sem heyrst hafa í himnaríki, samt er frænkuhláturinn talinn með, þegar granninn á hæðinni fyrir neðan fór að bora í loftið hjá sér (svefnherbergisgólfið hjá mér), brjóta veggi eða hefur arfaslæman tónlistarsmekk. Ég harðlokaði augunum, lagðist fast á vinsti hlið og setti kodda yfir hægra eyrað og hélt áfram að sofa ... og vaknaði svo klukkan 12.51. Það ætlaði ég ekki að gera. Ég hef áður lýst því að ef svefn minn er truflaður þurfi ég nánast að byrja upp á nýtt að sofa. Einhver galli sem mér skilst að fylgi ekki öðrum ættingjum. Hver þarf samt ekki samfelldan svefn í sína 8-10 tíma?

 

Myndin: Skjáskot úr snappinu mínu en snappvinir mínir fengu að heyra hávaðann ógurlega sem gaf engin grið. Skömmu seinna sofnaði ég upp á nýtt. Ljósakrónan er æði - ég þarf að kaupa mér fleira gult í herbergið.

 

Mínútu eftir vakn kom SMS frá Ingu: „Áttu kaffi?“ 

„Já, en gefðu mér fimm mín. er óklædd,“ var svarað. Henni fannst það eðlilegt, enda síðasti í sumarfríi.

 

Draumur minn um að fara í bæinn (á Akranesi) að blístra á eftir körlum rættist þannig séð. Ég fór upp á öskuhauga (Terra) með Ingu sem var að losa sig við glerkrukkur og fleira. Þetta var afar skemmtilegt ferðalag, stutt að vísu, en bíllausir gera minni kröfur. Svo í gleraugnabúðina þar sem nýju mín voru löguð þannig að þau detta ekki af mér þegar ég beygi mig. Við fórum í búðaklasann þar sem Classic-hárgreiðslustofa er, Dótarí, nýja geggjaða dótabúðin, apótekið, Dóminós og Bónus eru til húsa, ásamt ljósastofu m/meiru. Í Dótaríi fékk ég kerti sem gengur fyrir batteríi og get sett það í gluggann og lokkað þannig börn til að koma og sníkja allt sælgætið sem ég keypti í gær. Ég faldi fyrir sjálfri mér körfuna (Vá, svona stór? sagði Inga gáttuð í dag um körfuna) en af því að nammið hefur ekki verið fyrir augunum á mér, heldur í fatahenginu, hálffalið af úlpunni minni, hef ég ekki fengið mér neitt. Hrekkjavakan verður 31. okt, á sunnudegi, er það ekki? Dyrabjölluhringelsið sennilega búið áður en Ófærð hefst ... en annars allt í lagi, ég kann á fjarstýringuna.

 

Hjá Kaju í kaffiEnduðum í Kaju, yndislegu hollustubúðinni sem fólk kemur víða að til að versla hjá, þaðan sem safakúrinn kom frá, og fengum okkur kaffi og súkkulaðiköku (veit ekki innihaldið, en ekki hnetur, ekki sykur) ljómandi gott kaffi sem er án efa lífrænt ræktað. Ég keypti hummus í lausasölu, sæmilega krukku og fékk mér með hollustuhrökkbrauði núna áðan - og táraðist, ég hef aldrei fengið svona góðan hummus. Er lífið ekki of stutt til að borða vondan hummus? Kaja þarf að fara að selja Önnu Mörtu græna pestóið, það er besta pestó í heimi, finnst mér.

Verst að Kaja lokar klukkan 16.30 (LEIÐRÉTTING NEÐAR), eins og víðar, en lítil búð / kaffihús / heildsala verður að sníða sér stakk eftir vexti og getur ekki haft opið fyrir þessa örfáu sem mættu eftir klukkan fjögur. En ... ég kemst á laugardögum og það verður að nægja. Mun sennilega verða stórkaupandi að hummusi í framtíðinni ... VIÐBÓT / LEIÐRÉTTING: ÞAÐ LOKAR 16.30 hjá Kaju, ekki kl. 16 eins og ég sagði fyrst, og engum hent út fyrr en kl. 17.

 

„Hvar er allt nammið?“ kallaði stráksi úr eldhúsinu áðan þar sem hann var að undirbúa áhöld til te-neyslu, hann er óður í piparmyntute. Var nýkominn úr skólanum. 

„Ég kláraði það allt,“ kallaði ég til baka, alvarleg eins og það væri eðlilegasti hlutur í heimi að klára fulla stóra körfu af sælgæti á nokkrum klukkutímum, hann vissi svo sem ekki að ég svaf til hádegis, rúmlega. Hann veit að ég er nammigrís en samt kom hann yfir í vesturenda Himnaríkis þar sem ég sat við tölvuna og bloggaði - til að fá staðfestingu á því. Þegar hann sá subbuglottið á mér skellti hann upp úr, hann hafði trúað mér eitt andartak - svo ég er pínku móðguð út í hann eins og stúlkuna í búðinni í gær. Hann fær samt margumbeðinn lax í kvöldmat. Hann á þó ekkert annað skilið en að fá svið ... sem hvorugt okkar borðar ... það eina sem hann borðar ekki. Þegar hann fékk rabarbaragraut hjá mér í fyrsta sinn, Inga gaf mér rabarbara og ég gúglaði uppskrift, sagði hann mjög ringlaður: „Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um þennan mat, en má ég fá meira?“

 

Það líður að því að ég búi til sítrónufrómas sjálf í stað þess að bíða eftir að kynnast manni sem kann það, held að það hafi verið ákveðin skilaboð frá almættinu í dag að hafa ekki komist í karlagláp, heldur á öskuhaugana ...   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Miðflokkurinn er núna mestallur á haugunum en hann er náttúrlega ekki ásjálegur, allur rifinn og tættur með nábrækurnar á hælunum. cool

21.10.2021 (í dag):

Miðflokkurinn fengi núna 3,2% atkvæða á landinu öllu en fékk 5,4% í alþingiskosningunum

Þorsteinn Briem, 21.10.2021 kl. 18:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 26
  • Sl. sólarhring: 289
  • Sl. viku: 1985
  • Frá upphafi: 1452185

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 1599
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • baby reindeer
  • Ove Otto
  • Gísli gerir Mart-einn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband