Misskilningur leiðréttur og krassandi kaffijátningar

KóngulóUpp kom meinlegur misskilningur vegna bloggs gærdagsins. HH-skammstöfunin sem ég treysti mér ekki til að segja hvað þýddi þótt ég reyndi að gefa það í skyn varð tilefni til ýmissa getgátna. Hún tengdist ótta iðnaðarmanna, mjólkurpósta og bréfbera við húsmæður sem koma til dyra í sloppum sem minna ekki vitund á Hagkaupssloppa. Nógu skýrt núna? Einn hélt að ég meinti heppnar hjásvæfs, aðrir heittelskuð Hamborg (borg í Þýskalandi), herlegar hestakerrur var ein tillagan og restin þaðan af skrítnari ... Þetta gerðist á Facebook-síðu minni þar sem ég deili hverri einustu bloggfærslu til að fá einhvern lestur á bloggið mitt (einlægni áhrifavalds). Tæp 10 prósent svokallaðra fb-VINA minna lesa bloggið, mögulega færri, sem er ekki gott upp á að fá gjafir. Þegar dyrabjallan hringdi í gær og pósturinn hljóp upp stigann með kassa, var ég viss um þetta væru gjafir (skartgripir, fatnaður, plötuspilari eða Air Fryer) en þetta voru bækur, vinnutengt ... auðvitað æði samt. Næst þegar pósturinn kemur veit ég að hann verður með kaffi sem er á leiðinni skv. tilkynningu. Eftir þá sendingu leyfi ég mér að vona að bjallan glymji mér til gjafa.

 

Hinn misskilningurinn vegna bloggsins í gær var varðandi heimildamyndina um gott ónæmiskerfi. Fb-vinur taldi fáránlegt að mæla með smávegis streitu annað slagið til að efla kerfið ... ég orðaði þetta kannski vitlaust, þáttagerðarkonan, læknirinn, sagði gott fyrir okkur að fá annað slagið hálfgert sjokk, þannig að hárin risu ... hún sýndi það með því að fara í dýragarð og fá að handleika risakónguló ... sem hún óttaðist mikið, mikil gæsahúð, heilmikið hárris. Nóg að fara stundum út úr þægindahringnum? Ég held að það gæti nægt að fá hroll yfir sálartónlist eða Mariuh Carey. Hárin á mér rísa a.m.k. á meðan ég öskurhleyp til að lækka/slökkva og kettirnir þjóta í allar áttir eins og lifandi klósettburstar.

 

Sammála samt þeim sem reif kjaft á fb-síðu minni um að það væri ekki sniðugt að leita uppi streituvaldandi þætti, það myndi a.m.k. stressa mig. Allt í lagi að fara á Spotify einu sinni í mánuði, velja soul music og hlusta í hálfa mínútu ef það á að vera svona virkilega gott ... En það vantar enn nudd og hreyfingu. Það kemur. Auðvitað vil ég verða enn fullkomnari. 

 

Mér líður svonaÉg er með um 30 snappvini sem elska án efa stuttu kvikmyndirnar mínar af köttum að mala eða slást, mismunandi öldum á sjónum við Langasand og málningu að þorna (djók), og eitthvað fleiri Instagram-vini, ég kann ekki að finna fjöldann, sem ég gæti fundið á YouTube ef ég hefði áhuga, ég hef fiktað mér til ógagns oftar en einu sinni til að finna út úr hlutum, svo ég forðast það. En nú heitir þessi varkárni mín og kunnáttuleysi í sumu „aldurinn“. „Ég hjálpa pabba oft í tölvunni,“ sagði einn við mig nýlega þegar við vorum að ræða vissar breytingar sem ég fæddist ekki með kunnáttu til að gera og þarf bara að fá að læra. Ég klagaði í annan hirðtölvunarfræðinginn minn, sem er ögn eldri en ég, hún sagðist aðstoða fólk á öllum aldri við að læra nýja hluti. Við hlógum samt ekki kvikindislega um hríð að öllu unga fólkinu sem hefði auðvitað átt að fæðast með þessa kunnáttu ... Þegar ég sagði eitt sinn aðspurð að nei, ég væri ekki á Pinterest, fór spyrjandinn að tala um að miðaldra fólk ætti að fá námskeið til að læra á samfélagsmiðla ... „Hmmm, ég kann á Pinterest, (notaði það mikið til að skoða smart eldhús og baðherbergi í kringum endurbæturnar í Himnaríki) en hef bara ekki tíma til að vera á fleiri miðlum,“ svaraði ég grautfúl. Konan er nú í felum á Austfjörðum (ég rakti ferðir hennar þangað, kann á vefmyndavélar) til að forðast bræði mína og hefndarþorsta. Hún hefur séð allar Die Hard og báðar Kill Bill sem gerir hana enn hræddari - en álver og slíkar verksmiður hafa aldrei talist góðir felustaðir, a.m.k. ekki í kvikmyndum. 

 

Kaffibætir„Hvað færðu borgað fyrir að blogga á Moggabloggi?“ spurði vinkona mín nýlega. Það var svo freistandi að segja 500 þúsund á mánuði ... „Ekki krónu,“ svaraði ég sannleikanum samkvæmt. „Eftir nístandi þögn mína hér í þrettán ár og vera nánast hætt í blaðamennsku (fyrir utan stöku kökublaðsviðtal og bókaumfjöllun í elsku Vikunni minni), þurfti ég mína útrás, ekki séns að nenna að vera með hlaðvarp þrátt fyrir að hafa verið útvarpsstjarna á síðustu öld. Hver man ekki eftir þættinum Kaffi-Gurrí sem auglýsingadeildin sá um að nefna og varð til þess að ég þori ekki enn að drekka nema allra fínasta kaffið til að standa undir nafni (t.d. Jamaica Blue Mountain, þótt ég gjörsamlega hati það bragðlausa sull), eins og ég þrái almennilegt kaffi eins og ég drakk í barnæsku, með kaffibæti, og sötraði á meðan ég borðaði hræring og sviðaheila, ofsoðið spagettí og fleira gott (sjá gúrmeisíðuna Gamaldags íslenskur matur ef þið viljið slefa meira).

 

 

Mér finnst umhverfið þægilegt á Moggabloggi, ég kann á það og er þar í fjölbreyttum félagsskap alls konar fólks. Þarna er þjóðargersemi, veðurfræðingur, kóvitar, stöku besservisser eins og ég, ljúfmenni og ljúfkvendi, fasteignasalar og fleiri ... eins og bara í lífinu sjálfu. „Þurftir þú að ganga í Sjálfstæðisflokkinn til að fá að blogga þar?“ hélt vinkonan áfram. Ég hristi höfuðið, enda bundin þagnarskyldu, var beðin um að tala ekki um hollustueiðinn sem ég sór og undirritaði með blóði mínu, gegn því að Valhöll beitti sér fyrir því að ég fengi gjafir. Veit samt ekki hvort ég hafi pláss í eldhúsinu fyrir Air Fryer.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 276
  • Sl. sólarhring: 307
  • Sl. viku: 1989
  • Frá upphafi: 1453150

Annað

  • Innlit í dag: 246
  • Innlit sl. viku: 1635
  • Gestir í dag: 234
  • IP-tölur í dag: 230

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Tengdamömmur
  • Kamilla, Inga, Gerry
  • Frændfólk mitt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband