Hamslaus persíuteppisgleði og rangt símanúmer ...

MottanUm síðustu helgi gisti ég yfir nótt hjá Hildu systur. Þar fletti ég Fréttablaðinu sem oftar og sá risastóra auglýsingu um glæsileg persnesk teppi/mottur á útsölu. Við Hilda þangað. Ég tímdi þó engu fokdýru, en indæl stúlka fann eitt frekar í minni kantinum (sjá mynd) sem ég fékk á 13 þúsund krónur. Jú, mottan vissulega hnýtt í Íran en ekki sérlega fasthnýtt og ekki í bláum lit en það tvennt hækkar verðið nokkuð mikið. Sem betur fer fíla ég rauðar mottur mjög vel. Jú, upprunamiði fastur undir og svo fékk ég skírteini með þar sem kom fram að teppið hefði átt að kosta 30 þús. en ég fengið það á 13 þús. Af hverju bað ég stúlkuna ekki að finna fleiri á svona góðu verði ... þótt það dugi ekki skemur en þau fasthnýttu sem duga í 100 ár eða miklu lengur. Ég get örugglega látið það duga í 100 ár ef einhver nennir að halda mér á lífi. Á laugardag og sunnudag er síðasti möguleiki á að kaupa ... svo er farandteppasölufólkið farið til næsta lands.

Þessi fagra motta er við rúmið mitt í meyjarskemmunni og það hefur verið sérlega notalegt að fara á fætur síðustu daga. Á myndinni virkar mottan eins og krækiber í helvíti, ekki að eldhúsið mitt sé satanískur staður eða mottan pínulítil.

Teppasalan fer fram einhvers staðar í efri óbyggðum Kópavogs. Myndi plata systur mína í aðra ferð þangað ef hún hefði ekki öðrum hnöppum að hneppa um helgina.

- - - - - 

Ég fékk símtal fyrir skömmu og það eftir lokun markaða ...

„Góðan daginn, þú hefur kannski átt von á símtali frá okkur? Það er vegna sölunnar á Íslandsbanka,“ sagði vingjarnleg rödd.

„Get svo sem ekki sagt það, en haltu endilega áfram,“ svaraði ég, góð þjónusta hjá bankanum mínum. Hélt að venjulegt fólk með fremur ó-interísant stöðu á bankareikningum, fengi ekki svona símtöl nema ætti að reyna að bjarga einhverju í aðdraganda fjármálahruns.

„Hvað hefurðu í huga varðandi upphæð?“ spurði maðurinn. 

„Fimm, kannski tíu,“ sagði ég. Fimmþúsundkall sennilega of lítið en tímdi ég áhættufjárfestingu upp á tíu þúsund? Ég mætti ekki einu sinni reyna að nota slíkan seðil í flottu Vouge án þess að vera grunuð um peningaþvætti. Jú, tíu þúsund hljómaði betur. 

„Segjum tíu,“ sagði ég borubrött.

„Fínt er,“ sagði röddin.

„Fæ ég rukkun í heimabanka eða get ég millifært?“

„Ha, millifært tíu milljarða?“

„Ég var nú bara að hugsa um tíu þúsund kall,“ flissaði ég.

„Er þetta ekki Guðalmáttugur-hvaðþaðergottaðeigasvonamiklapeninga, lífeyrissjóður Fengeyinga sem aðhyllast Feng Shui?“ Greina mátti ofboð í röddinni. 

„Nei, Guðríður heiti ég, kölluð Gurrí með einföldu,“ sagði ég glaðlega, „þú hefur farið línuvillt í símaskránni. Má ég samt ekki kaupa hlut í bankanum? Hei! Halló. Halló!“ 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alveg var ég búinn að gleyma þessu með persnesku teppin.  Hugurinn of hlaðinn dökkum skýum kóvíts og stríðs. 

Man þó að mig langaði til að kaupa eitt stykki af svoleiðis fíneríi á góðu verði af farandteppasalanum.  Kæra Gurrí, takk fyrir að minna mig á síðustu forvöðin, en manstu hvaða götu og númer salan er?

Með fyrirfram þakklæti og von um svar hvar farandteppasalann er að finna

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 25.3.2022 kl. 13:58

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Fann það ... Víkurhvarf 2 - minnir að opni kl. 11. :)

Guðríður Haraldsdóttir, 25.3.2022 kl. 14:08

3 identicon

Mínar bestu þakkir :-) 

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 25.3.2022 kl. 14:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 56
  • Sl. sólarhring: 373
  • Sl. viku: 2195
  • Frá upphafi: 1451931

Annað

  • Innlit í dag: 50
  • Innlit sl. viku: 1797
  • Gestir í dag: 49
  • IP-tölur í dag: 49

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Grimm
  • Í kringum ljósastaurinn
  • Baldursbrár

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband