Fyrsti í viftu og covid-vinaleysi

SnúruhassíFyrsti í viftu var í dag, hitinn nánast óbærilegur undir stórum suðurglugga Himnaríkis, vissulega var ég nýkomin úr vermandi sturtu og klædd í þykka ísbjarnarsloppinn sem ég keypti í Costco í Washington-ríki USA fyrir löngu. Hann er enn eins og nýr, enda er ég bara sloppatýpa í neyð (t.d. þegar uppáhaldsbuxurnar eru í þurrkaranum). Leitin að fjöltengi bar loks árangur inni í stofu en ný fjöltengi koma senn, búið að kaupa í gegnum sérlegan erindreka Himnaríkis. Kannski að Ellen dreki komi með þau til að tryggja að snyrtimennskan verði höfð í hávegum. Eitt sinn gerði hún eitthvað hviss-bang við snúrurnar fyrir aftan skrifborðið mitt (sem stendur með aðra hliðina upp við gluggann, ekkert hægt að fela bak við, tölvan sjálf stendur á gólfinu þar) og allt varð sjúklega fínt. Svo kom Davíð bróðir hennar einhverju seinna og tengdi eitthvað og hviss-bang, allt í rúst. Rannsóknir mínar sýna að ÞARNA liggi munurinn á frændum og frænkum. (Myndin sýnir nöturlegan raunveruleikann í dag).

 

 

Ég þurfti að taka eitthvað úr sambandi til að geta komið þriðja fjöltenginu að (fyrir viftuna) og valdi sérlega sakleysislega kló á snúru, örugglega bara lampi, taldi ég mér trú um vitandi samt að lampinn hefði ekki haft sitt pláss síðan góðu mennirnir komu nýlega (tveir saman, alltaf tveir saman, þetta er að verða persónulegt) og bættu netsamband Himnaríkis, ljósleiðara-eitthvað og þurftu að nota plássið sem lampinn hafði, fyrir nýja kló.

 

 

Öllum lokiðÉg var þarna byrjuð að hlusta á Gloríu eftir Vivaldi, sá auglýsingu um tónleikana, aldrei sungið það, sennilega aldrei heyrt það nema óafvitandi, og það slökknaði auðvitað á því þegar ég tók óvart sjálfa tölvuna úr sambandi. Sennilega fór þó engin vinna forgörðum. Á þessu heimili er kannski ekki föndrað, en hér er vistað jafnóðum. Nú malar viftan öllum hér (mér) til gleði og gagns. Þurrkarinn að verða búinn.

(Myndin af Mosa sýnir eina af hryllingsmyndum vorsins, vesalings kötturinn að verða brjálaður á birtunni og hylur augu sín með annarri loppunni. Þessi átakanlega mynd var tekin um tíuleytið í morgun.) Sjálf sef ég vel bæði vetur og sumar, engin myrkratjöld hér en ef kötturinn þjáist verð ég kannski að breyta einhverju. Þegar ég tók Himnaríki í gegn 2020 valdi ég allar innréttingar, gólfefni og málningu í stíl við kettina. Svoleiðis gerir kattafólk.

 

Nú sé ég að minn gamli kór, kenndur við Langholts og orðinn pínkulítill miðað við í denn, flytur Dixit Dominus eftir Händel (aldrei heyrt það, held ég) og Messu í g-moll (sem ég man ekki eftir heldur nema hún sé það sama og b-minor? sem ég er akkúrat farin að hlusta á núna). Fór síðast í tónfræðitíma þegar ég var níu ára - og komin einhver ár síðan. Við sungum, að mig minnir, Krýningarmessuna, Jólaóratóríuna, Jóhannesar- og Matteusarpassíuna þessi ár sem ég var með. Svona tónlist plús til dæmis Pixies og Wu Tang Clan er eitthvað sem fær mig til að verða máttvana af hrifningu. Og nánast allt þar á milli. Já, og mér líst ofboðslega vel á hugsanlega samvinnu Hörpu og Mótettukórsins og bíð spennt. Söng Eliah eftir Mendelssohn með þeim kór fyrir löngu. Væri eflaust búin að sækja um í Kór Akraneskirkju ef innanbæjarstrætó gengi fram á kvöld. Allt of langt að labba í öllum veðrum, auk þess hata ég að ganga. Og þetta með að sníkja far ... æ, svo verður mín manneskja veik og ... jamm, bara vesen. En þau missa af miklu. Ég kann enn altröddina í Exultate Deo og Alta Trinita og röddin er svo miklu betri eftir að ég hætti að reykja. Þótt drengurinn flýi að heiman og fari í sund þegar ég syng hástöfum við tölvuna er ekkert að marka það, hann er unglingur og kann ekki gott að meta. 

 

Krefjandi eldamennskaÞessi sataníski hiti sem ég ætlaði að tala um áður en hugurinn fór með mig annað, gefur bara tóninn fyrir komandi sólardaga, vonandi njótið þið þeirra vel ... ekki geri ég það. Að vísu fær maður ágæta hreyfingu út úr því að hlaupa frá geitungum, hratt greinilega því ég hef sloppið við stungur hingað til. Svo get ég kallað mig Gurrí vinalausu því ég hef líka sloppið við covid (einn, sautján, tuttugu).

 

Krefjandi matargerðin fór fram í gærkvöldi. Ég gerði hinn kjúklingaréttinn (tacos) á þriðjudagskvöldið. Í gær gætti ég þess að vera vel sofin, full af vítamínum og búin að hreingera eldhúsið. Öll áhöld á sínum stað og búið að marglesa uppskriftina. Þetta gekk sennilega upp af því að ég beið ögn með að skella krömdu kartöflunum inn í ofn (í 20 mín), lét þær bíða á meðan ég dýfði kjúklingabringum sem ég hafði áður þynnt með plastfilmu og þungum potti, löng saga, fyrst í hveiti, þá eggi og svo parmesanbrauðmylsnu, forsteikti þær vel en kjúklingurinn þurfti akkúrat helmingi styttri tíma en kartöflurnar og þetta tókst svona líka glimrandi vel. Ég var meira að segja búin að skera niður í salatið sem mér var ætlað að gera á þessum tíu mínútum meðan kjúklingurinn var í ofninum. En þá hefðum við borðað með allt í drasli í eldhúsinu sem er ömurlegt. Sósan var einföld; sýrður rjómi plús niðurskorinn graslaukur, smakkað til með salti.

 

Ég er líklega „með þetta“, hefði aldrei átt að efast, maturinn var afskaplega góður. Þið getið hætt að tékka á því fyrir mig hvort Silli kokkur sé á lausu. Drengurinn malar eins og köttur, hann er svo ánægður með matinn. Oft er líka smávegis afgangur fyrir mig í hádeginu næsta dag sem er æði. Sennilega hefur stráksi samt engan skilning á því hversu mikið blóð, svita og tár (andlegt) þetta kostar fósturmóður hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Þetta er eins og í helvíti!" sagði afi þegar amma kynti djöfulinn ráðalausan á Bergþórugötunni. cool

"Hefur þú nú verið þar?!" spurði amma þá. cool

Þorsteinn Briem, 31.3.2022 kl. 18:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 24
  • Sl. sólarhring: 202
  • Sl. viku: 1541
  • Frá upphafi: 1453416

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 1272
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband