Lærdómsrík sturtuferð og heillandi píparar

MávagleðiEinn mest spennandi dagur síðustu ára var í dag. Mikið að gera við tölvuna og ekki séns á morgunsturtu fyrir manneskju sem hefði átt að fara ögn fyrr á fætur. Ekki gekk það heldur í hádeginu því það gafst bara tími til að hlaupa ofsahratt fram í eldhús og ýta á takka á kaffivélinni og sækja skyrdrykk í ísskápinn, hlaupa svo tryllt til baka. Svo, rétt fyrir þrjú, gafst langþráð pása, það tekur mig bara örfáar mínútur að fara í sturtu, hálfan tíu mínútna kaffitíma ... Rétt áður en ég fór að spássera allsber um Himnaríki setti ég dyrnar fram á stigagang í lás, gekk síðan rólega inn á bað þar sem ég fór að hneppa frá. Þá heyrði ég að tekið var í hurðarhúninn, þetta var drengurinn, miðvikudagur en ekki þriðjudagur, og hann kominn snemma heim. „Fínt,“ sagði ég enn fullklædd, „ef Eldum rétt kemur á meðan getur þú tekið við kassanum.“

 

Þegar ég var að þurrka mér (5 mín. seinna) hringdi dyrabjallan. Hvílík heppni að drengurinn kom svona snemma, hugsaði ég, opnaði rifu á dyrnar og kíkti fram. Uuu, nei, þetta voru pípulagningamenn, alveg rosalega myndarlegir eins og allir karlar á Skaganum sem vilja ekki fækka strætóstoppistöðvum. Ég hafði vissulega sent örvæntingarfullt SMS í gær og bjóst allt eins við að þurfa að bíða í hálft ár ... en svo rifjaðist upp fyrir mér að ég bý á Akranesi þar sem iðnaðarmenn eru hipp & kúl og mæta. Nú voru góð ráð dýr. Ekki vildi ég blinda þá með fáklæddri fegurð minni og blautleika, sagði þeim að bíða í eina mínútu ... og 52 sekúndum síðar kom ég fullklædd fram. Stráksi hafði látið þá bíða í stiganum, ég hélt að hann hefði boðið þeim til stofu og gefið þeim límonaði að drekka, en nei, hann verður tekinn í kennslustund. Þeir komust á fyrirheitna baðherbergið, mældu hið bilaða/gallaða í bak og fyrir og koma svo bráðum aftur. Ég sagðist alveg treysta mér á fætur fyrir þá klukkan átta einhvern morguninn, ef þeir vildu, en ég væri farin að þjást af svefnleysi á morgnana, gæti ekki fest blund eftir hálfníu. Sem ég vona að þeir skilji sem tákn um að þeir séu velkomnastir eftir hádegi. Ég elska Magna og co.   

 

Það sem ég lærði í þessum hremmingum var að það er betra að setja þvottavélina í gang EFTIR sturtu. Þessar 5 mín. eru ekki þess virði. Skrækirnir í mér (heitt og kalt vatn til skiptis) voru samt örugglega eins og fegursti söngur, röddin í mér er orðin svo miklu tærari eftir að ég hætti að reykja.

Ég tók smók nýlega, þegar ég íhugaði að hefja reykingar á ný eftir smávegis saknaðarkast og stúlknamet í sjálfsblekkingu, og þvílíkur hryllingur. Ógeðslegt bragð, það sveið í lungun ég hóstaði þvílíkt. Ég hætti snarlega við að byrja aftur.

 

Systir mín ásamt skara/ómegð/hópi er á leiðinni til mín, við ætlum á Galito - en ég þurfti að seinka komu okkar þangað. Höfuðborgarbúar eru víst allir úti á götunum núna, á bíl, og tekur sturlaðan tíma að komast á milli staða. Ekki svo mikil umferð á Vesturlandsveginum þó, segir litla systir. Vonandi verður þetta friðsæl útaðborða-stund, þessi dagur hefur verið nógu trylltur. Ég er enn með hjartslátt ... Vona svo að systir mín verði einu sinni til friðs. Nenni ekki að vera útilokuð enn einu sinni frá Galito fyrir slagsmál.

Mynd: Mávarnir ofsaglaðir með leifar páskahelgarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 255
  • Sl. sólarhring: 405
  • Sl. viku: 2394
  • Frá upphafi: 1452130

Annað

  • Innlit í dag: 205
  • Innlit sl. viku: 1952
  • Gestir í dag: 201
  • IP-tölur í dag: 199

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Grimm
  • Í kringum ljósastaurinn
  • Baldursbrár

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband