Lukkudýr ÍA og svartsokkaraunir

Mosi og Keli og aukavinnan mínLjómandi fínni helgi að ljúka þar sem glímt var meðal annars við lágt þvottafjall sem ég sigraði á stuttum tíma, nema sokkana. Þeir eru allir svartir (mínir) og þess vegna bara hægt að para þá í dagsljósi (veit einhver annars hvar maður fær svona skurðstofuljós?).

Að hafa smám saman í gegnum árin látið þennan gamla draum um að eiga fulla kommóðuskúffu af svörtum sokkum og allt ótrúlega þægilegt á morgnana, rætast ... og vera svo með fullkomunaráráttu (svart ekki sama og svart) - er ekki góð skemmtun. Hrifning mín hefur færst meira yfir á skrautlega og litríka sokka svo ég hlakka til að komast í Stefánsbúð á Laugavegi þar sem mjög flottir sokkar fást, langt frá því að vera einlitir. Davíð frændi sækir sér bara einhverja tvo ofan í skúffu sína á morgnana og það er sennilega einn á móti milljón að þeir passi saman. Hvílík hetja sem þessi ungi maður er.

 

Þessir síðustu dagar voru annars nokkuð annasamir þótt stráksi væri í helgargistingu, spennandi aukaverkefni unnið í gær og klárað í dag (yfirlestur, sjá sjokkerandi mynd hér að ofan sem var tekin í þvingaðri pásu í gær, laugardag) en steingleymdi óflokkuðu svörtu sokkunum (og dagsbirtu) og dundaði mér bara eitthvað og dúllaðist, ákvað svo undir kl. 18 að horfa á nýju James Bond-myndina sem beið mín ókeypis á Sjónvarpi Símans Prime. Ég lifi svolítið á brúninni og viðurkenni að ég var mjög stressuð því það var stutt í fréttir kl. 18 á Rás 2, kl. 18.30 á Stöð 2 og kl. 19 á RÚV, en ég ákvað að sætta mig við þetta síðastnefnda og njóta JB bara þar til ég gæti sett á pásu kl. 19 og horft á fréttirnar í gemsanum.

 

Athygli mín beindist þó fljótlega að miklum hávaða úti fyrir, sennilega allt troðið af fólki í Guðlaugu eða að flestum landsmönnum hafi dottið í hug að fara í flottu sundlaugina okkar eða á Langasandinn, jamm, þetta er allt á hlaðinu hjá mér og meira til. Ég gafst upp á þessum hávaða um klukkan hálfsjö, rauk út á svalir og kallaði eins hátt og blíðlega og ég gat: „ÆTLIÐ ÞIÐ AÐ HAFA LÆGRA, ÞAÐ ER FÓLK HÉRNA AÐ REYNA AÐ HORFA Á JAMES BOND!“ Rödd mín orðin svo miklu sterkari og hljómfegurri eftir að ég hætti að reykja fyrir tveimur árum og barst sennilega smám saman með hlýrri golunni yfir alla Jaðarsbakkana, jafnvel upp í Grundahverfi. Um það bil fimm mínútum seinna heyrði ég tryllt fagnaðarlæti, ég hélt að það hefði verið í þeim sem heyrðu síðast í mér og vildu sýna mér stuðning við þessa sjálfsögðu ósk um minni hávaða, meiri Bond. En fljótlega kom BLING frá FotMob-appinu í gemsanum og í ljós kom að það var í gangi fótboltaleikur á stærri vellinum austanmegin Himnaríkis, sá minni nær mér er þyrluvöllur minn, og ÍA hafði skorað og það gegn meisturunum, Víkingi Rvík. Ég dró þá ályktun að mínir menn hefðu heyrt í mér köllin, ekki kannski orðaskil og ákveðið að ég hafi verið að hvetja - og það með svona ofboðslega góðum árangri (eða heyrt allt og orðið reiðir, svo reiðir að þeir skoruðu?) Ég var sem ekki viss og prófaði aftur og enn aftur og alltaf eftir smástund komu fagnaðarlæti vegna marka minna manna. Þá veit ég hvar ég verð í sumar meira og minna ... og þá veit ég hver verður heiðraður í haust þegar við lendum ofarlega í þeirri bestu, ég er eflaust orðin lukkudýr ÍA núna. Mig grunar samt að öll þessi læti hafi orðið til þess að endirinn á Bond-myndinni varð eitthvað furðulegur. Sennilega einhver ruglingur við sænska sannsögulega harmræna raunsæismynd um harma og karma, eitthvað. Ég verð að læra betur á þetta Premium-dót.

 

Myndin: Mosi (8) lagðist vissulega malandi ofan á lesna textann í gær sem var allt í lagi, vel hægt að búa til annan bunka og sameina þá svo seinna, en það versnaði í því þegar Keli (12-13)) kom óvænt malandi og settist ofan á þann ólesna í nokkrar mínútur. Þetta var samt besta vinnuaðstaða í heimi. Fótbolti (á mute) í sjónvarpinu, Atom Heart Mother (52) með Pink Floyd (57) í tölvunni (2), svakagott kaffi í grennd og svo textinn sérlega spennandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyrði að einhver kallaði. ....HORFA...JAMES BOND...., svo kom mark. Ég bý neðarlega á Kirkjubrautinni. Takk fyrir stuðninginn.

Jóhannes Finnur Halldórsson (IP-tala skráð) 25.4.2022 kl. 10:26

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Vó, þetta hefur hljómað um allan Skagann, ekki skrítið að við höfum unnið! :)

Guðríður Haraldsdóttir, 25.4.2022 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 37
  • Sl. sólarhring: 290
  • Sl. viku: 1996
  • Frá upphafi: 1452196

Annað

  • Innlit í dag: 36
  • Innlit sl. viku: 1609
  • Gestir í dag: 36
  • IP-tölur í dag: 36

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • baby reindeer
  • Ove Otto
  • Gísli gerir Mart-einn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband