Norræna ósýnileg, stórfengleg umbreyting og afmælisbörn

FyrirUmbreytingin í gær varð gríðarleg, ég þekkti mig ekki í speglinum eftir klipp og lit, og var hleypt inn að framan í innanbæjarstrætó. Hélt að það tengdist minnkandi covid-smitum en gaurinn sem kom inn við Vallholt þurfti að gjöra svo vel að fara inn um afturdyrnar.

Ég orgaði í gleðiblandinni sigurvímuþögn og sendi Önnu Júlíu hugræna fimmu á meðan ég vafði betur treflinum yfir undirhökuna og dýpkandi drættina í kringum munninn, ægifögur alveg. Var á hraðferð svo frumsýning á klippinunni við mjólkurkælinn í Einarsbúð verður að bíða ögn.

 

FYRIR-myndina hefði ég kannski átt að blörra til að koma aðdáendum mínum ekki í uppnám. Undirliggjandi fegurð leynir sér samt ekki, finnst mér. Eftir-mynd má sjá hér neðar. 

 

BryndísÍ dag á mamma enn eitt stórafmælið, orðin 88 ára. Það er langlífi í ættinni, hún er yngst systkina sinna og ein eftir, meira að segja yngri tvíburinn en Hadda tvíburasystir hennar lést fyrir nokkrum árum. Systkinin fæddust öll á 20 árum og ólust upp í fínu timburhúsi við Laugaveg 91 þar sem síðar reis stórhýsið Domus, er ekki tískuverslunin Sautján þar núna? Greinilega allt of langt síðan ég gekk frá Hlemmi niður Laugaveginn. Þetta var beint á móti Stjörnubíói. Mamma sagði okkur miklar sögur um bíóferðir systranna ásamt Sissu vinkonu þeirra af Grettisgötu. Þær voru kallaðar þríburarnir og fóru stundum í bíó þrisvar á einum degi, enda stutt líka í Nýja bíó, Gamla bíó og Austurbæjarbíó.

Svo hefði Tommi bílstjóri orðið 63 ára í dag, hefði hann ekki dáið fyrir nokkrum vikum, elsku karlinn. Ég sakna hans mikið.

 

Eftir ondúleringuVinkona mín fór með Norrænu frá Seyðisfirði í gær. Ég ætlaði að gera eins og í denn, fylgja henni úr hlaði með aðstoð vefmyndavélarinnar en, eins og síðast og eins og þar áður, var sá möguleiki ekki lengur til staðar, nema tæknikunnáttu minni hafi farið svona stórlega aftur. Ekki heldur hægt að komast beint frá norsku veðursíðunni, yr.no, sem er hneyksli. Nú legg ég til að ferjuferðir Norrænu verði framvegis frá Akranesi. Þótt það lengi siglinguna eitthvað smávegis er bara svo gaman að vera í skipi og Skagamenn munu ekki spara við sig þegar kemur að vefmyndavélum. Nýverið voru settar upp þrjár hér á Skaganum, reyndar öryggisvélar, en hva ... Ég væri búin að fara nokkrum sinnum með Norrænu ef yxi mér ekki svona í augum að fara alla leið til Seyðis ... Vefmyndavélin þar við höfnina hefur verið nokkur sárabót því eins og við nördarnir vitum er fátt betra en vefmyndavélar í staðinn fyrir að fara sjálf á staðinn. Einu sinni bilaði vélin sem sýndi út fjörðinn, ég sendi fyrirspurn í tölvupósti til bæjarins og fékk svar frá sjálfum BÆJARSTJÓRANUM sem lofaði að kippa í spotta sem hann og gerði. Vonandi verður hann eða hans líki kosinn inn eftir nokkra daga og hefur það sitt fyrsta verk að koma vefmyndavélunum í lag. Ég vil endilega fá Norrænu í beinni.

 

EFTIR-myndin tekin á vettvangi í gær, eða í innanbæjarstrætó. Engar falsanir með speglum, þetta er bara svona flott.

 

Vegagerðin sem sér nú um strætósamgöngur á landsbyggðinni þurfti að grípa til sinna ráða þegar farþegum fækkaði í covid. Nýlega var samgöngukortið hækkað um 92% í verði sem hvetur án efa Skagamenn í stöflum að nýta sér að komast á milli á sama verði og hluti Norðlendinga. Sennilega ætlunin allan tímann að víkka út atvinnusvæði höfuðborgarinnar alla leið norður að Staðarskála. Við Skagamenn erum barmafull af þakklæti, fáum loks að sjá ný andlit en fólkið fyrir norðan hefur aldrei verið talið neitt sérlega ófrítt. Möguleikar mínir hafa því aukist, verð að muna að segja mömmu nýjar fréttir af vendingum í tengdasonamálum hennar, núna á laugardaginn þegar ég kíki á hana í afmælisheimsókn.

Ég minnni samt Vegagerðina á að þegar tilraunaaksturinn var í gangi 2004 kostaði jafnmikið í strætó og innanbæjar í Reykjavík og aðsóknin svo mikil að ferðirnar skiluðu gróða, þrátt fyrir aukavagna og að á þeim tíma kostaði enn í göngin. En hvað er ég að bulla, ég á ekki bíl og hef því ekki hugmynd um hvernig á að reka strætó ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 9
  • Sl. sólarhring: 20
  • Sl. viku: 414
  • Frá upphafi: 1445641

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 361
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Himnaríki 6. mars 2023
  • Himnaríki 21. mars 2024
  • Húsó

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband