Bæjarferð, Íslykilsbull og tæknisauðsháttur

7. maí á KaffitáriSkemmtilegur dagur í bænum í dag og alveg þess virði að vakna klukkan níu, taka strætó 10.15 og vera komin í Mjódd kl. 11.09 - næsti komutími þangað ekki fyrr en kl. 15.09 sem er ansi seint ef á að heimsækja mömmu sína klukkan 14. Við fjölsystrum í afmælisheimsókn til mömmu (f. 5. maí) sem var mjög gaman. Færðum henni blóm, cappuccino og fínasta kruðerí úr Bernhöfts. Enginn Siggi bakari á staðnum til að svara fyrir allt horror-möndluskrautið á kökum og skort á rjómabollum. En nóg var nú til samt af fínheitum ... og það var voða gaman að hitta þar óvænt Einar Thorlacius, gamlan strætóvin og lögfræðing (samt ágætur) sem oft hefur mætt í afmælið mitt, hann kemur í ár en ég vonast til að geta loks haldið stærra partí en 12 manna jólakúluafmæli eins og í fyrra og hitteðfyrra. 

Við Hilda fórum líka í Fiskikónginn á Sogavegi og keyptum lax, tilbúinn í ofninn og þvílíkur dásemdarmatur ... og rúgbrauðið! Það er mjög góð fiskbúð hér á Akranesi en engin spenna ríkir þar fyrir heimsendingum - Eldum rétt greip það tækifæri og færir mér fisk vikulega - með meiru og Einarsbúð sér um rest.

 

Morgunninn í bænum hófst á kaffihúsi í Kópavogi með vinkonu sem ég hef sárt saknað. Hún tók myndina hér fyrir ofan af mér og stráksa. Ég lít miklu betur út en þetta í baðspeglinum heima. Myndir bæta alltaf á mig um 20 kílóum og hrukkum og alles. Við höfðum bara klukkutíma sem við nýttum alveg ágætlega samt. Það var eldgos síðast þegar við áttum saman góða stund - gosið sást vel úr rauða sófanum mínum sem hún sat í. Það kom einn nokkuð stór jarðskjálfti í morgun en það var svo gaman hjá okkur að við fundum ekki fyrir honum.    

 

VW með kaffivélKannski er ég algjör risaeðla ... mér líður stundum eins og tæknin sé farin að éta börnin sín, hlutir gerðir flóknari í stað þess að einfalda þá.  Stráksi fer í sumarbúðir í júní, en ekki er lengur hægt að greiða fyrir dvöl hans í gegnum heimabanka og ekki er hægt að hafa samskipti með tölvupósti eða í síma, allt fer í gegnum nýtt tölvukerfi sem mér finnst alls ekki einfalda hlutina fyrir okkur sem notum það bara einu sinni á ári. Því að breyta því sem var einfalt, fljótlegt og virkaði vel?

 

Mynd: Þessi VW-Bjalla kom á markaðinn þegar ég var eins árs. Sextán árum síðar (þegar  ég fékk bílpróf) hafði hún breyst og ekki til hins betra. Hvar er tæknin núna 2022, eða rúmum fimmtán, tuttugu, þrjátíu árum seinna? Fer orkan kannski í að búa til flókið bull til að rugla í fólki í stað þess að sjá almenningi fyrir góðu kaffi í bílferðum þess um landið?

 

En áfram með diss á tæknina: Nýlega fór ég með ónefndum ungum manni á Vinnumálastofnun á Akranesi, var með vegabréfið hans og ætlaði að aðstoða hann við að sækja um starf á vissum vinnustað. Við fengum dásamlegar móttökur en því miður var ekki hægt að sækja um starfið upp á gamla mátann. „Nei, hann er ekki með snjallsíma,“ sagði ég. Þær (ekkert nema lausnir og elskulegheit) komu með þá hugmynd að sækja um Íslykil fyrir hann, í raun var það eini möguleikinn, og svo sat ég ein við tölvuna og sótti um fyrir hann eftir að Íslykill kom í hús. Mér finnst þetta voðalega falskt öryggi fyrir fólk, það hefði verið hægt að stela umslaginu með Íslyklinum og mögulega gera einhverjar gloríur. Gleymdist að gera ráð fyrir fötluðum í öllum látunum við að rafvæða landið? Hæ, Persónuvernd!

Annað: Ég veikist sárasjaldan (einn-sautján-tuttugu) og vissi lengi vel ekki af Heilsuveru, eiginlega ekki fyrr en covid-bólusetningar hófust. Og af því að ég hafði aldrei þurft að nota þetta dæmi var ég eins og sauður fyrst. En svona sauðsháttur heitir víst ekki heilsuhreysti, heldur aldurinn! er mér tjáð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 247
  • Sl. sólarhring: 422
  • Sl. viku: 2386
  • Frá upphafi: 1452122

Annað

  • Innlit í dag: 197
  • Innlit sl. viku: 1944
  • Gestir í dag: 194
  • IP-tölur í dag: 191

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Grimm
  • Í kringum ljósastaurinn
  • Baldursbrár

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband