Afmælisveisluæfing og kökubjargvætturinn

GlæsilegtMér líður eins og ég hafi átt afmæli í dag og fengið fjölda fólks í heimsókn. Veitingar og fínirí. Þetta gerðist allt í dag nema ég átti ekki afmæli. Vinkona mín hélt utan um ferð Oddfellow-kvenna upp á Skaga og ég gerðist einhvers konar leiðsögukona á Skaganum, sagði þeim allt um fegurð kvenna hér, kartöflur og knattspyrnumenn. OG EKKI SÍST frá spennandi helgum einhleypra Skagamanna sem hefjast í Einarsbúð á föstudögum kl. 18 við bananastandinn. Það fer allt eftir því hvað við setjum í körfuna (ananas, agúrku, perur osfrv.) hvað gerist og hversu bilað fjörug helgin verður ... Ég held að þær hafi trúað mér því nokkrar urðu eftir við bæjarskrifstofurnar til að sækja um lögheimili á Akranesi strax í fyrramálið.

 

Við fórum í Krósk, búð á Kirkjubraut, þar sem Skagaver var í eldgamla daga, og Harðarbakarí. Þar gerðu einhverjar góð kaup á vönduðum hönnunarfatnaði. Síðan var það antíkskúrinn og eitthvað keypt þar af mæðraplöttum og kristal, sýndist mér. Svo var ferðinni heitið beinustu leið í Himnaríki. Vön kona að halda upp á stórafmæli ár hvert (nema 2020 og 2021) fékk þessar dásamlegu konur sem voru með veisluföng í farteskinu. Fínasta brauð og girnilegt kökudæmi fyrir dömur. OG ÞÆR SKILDU HELLING EFTIR og gáfu mér að auki stóran og guðdómlega fallegan blómvönd - og kampavínsflösku.

Ég hafði bent þeim (fyrr í ferðinni) á einlyfta húsið þar sem mig dreymdi að ég hefði farið inn í og gengið upp alla stigana og endað á að hitta sjálfan gvuð sem sagði mér að ég myndi deyja í hárri elli 38 ára, eignast tvíbura og að maðurinn sem ég eignaðist héti Filippus Angantýr ... og að það nafn fyndist ekki í þjóðskrá! Ég þarf eiginlega að finna þennan Filippus Angantý samt áður en ég opna flöskuna ... ég verð mjög lauslát af kampavíni.

 

Mikið voru þetta skemmtilegar konur og ég fann aðra gamla vinkonu en frú Sigríði í hópnum, elsku Heiðu mína sem ég þekkti ekki í rútunni þótt hún kallaði hátt: „Nei, er þetta ekki Guðríður almáttugur af Himnaríki?“ Ég hélt bara að ég væri orðin svona frægur bloggari. En svo var ekki, því miður. Þegar stigið var út úr rútunni hittumst við og þá þekkti ég hana auðvitað. Hún hafði ekki séð breytingarnar á Himnaríki og var voða ánægð með þær. Ísland er svo lítið að náfrænka hönnuðarins (Pálmadóttir) var í kvennahópnum. 

 

EldgosiðNágrannakonan úkraínska hefur komið sér ágætlega fyrir í íbúðinni sinni, hún vildi endilega sýna mér hana og svo kíktu þau stráksi hennar upp í Himnaríki í heimsókn á eftir. Kettirnir elska þau. Furðulegt, við sáumst fyrst fyrir rúmum sólarhring en samt er eins og við höfum alltaf þekkst. Rosalega afslappað, gaman og mikið spjallað. Hún var svo yndisleg að BJARGA mér og taka eitthvað af kökudæminu, „auðvitað bjarga ég þér,“ sagði hún (með húmorinn beint úr Þingeyjarsýslu og Skagafirði) en stráksi minn (fóstursonurinn) er hrifnari af brauðmeti og ég hef því miður ekki gott af þessu sæta svo við stórgræddum báðar. Hún missti af jarðskjálftum dagsins í dag en ég fann vel þann seinni. Rétt áður en ég varð skelkuð og gargaði eins og einu sinni í fyrra, hætti þessi bara, hann var snarpur en dásamlega stuttur sem var nærgætið. Mér finnst jarðskjálftar spennandi en líka ógnvekjandi. Vona bara að kvikan finni sér útgöngu á góðum stað eins og síðast. (Myndin sýnir útsýni mitt eitt kvöldið á síðasta ári.)

 

Mér er skapi næst að senda Evrópubúum (nema Portúgal og Úkraínu) vel kæstan þorrabakka - og peysur prjónaðar úr illgirni og djöfull, eins og viss frændi (fjandi) myndi orða það. Ég er auðvitað að tala um Eurovision og þjóðir sem kunna ekki gott að meta.

Ánægð samt með vinningslagið og gengi enska lagsins. Eistneska var skemmtilegt þótt ég sé ekki hrifin af kántrí almennt, líka Holland eða Belgía (er strax farin að gleyma) og bara gaman að sitja með Ingu sinni, borða lax og njóta keppninnar.

Hef oft verið áhugasamari yfir kosningum en í gær ... á meðan Rússar (tölvuárásir) gera Trump ekki að bæjarstjóra einhvers staðar á Íslandi er ég sátt. Er ekki bara best að hafa kjörseðla hér upp á gamla mátann og handtelja svo kvikindin. Þá getur ekkert klikkað ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kærar þakkir fyrir góða og skemmtilega leiðsögn og dásamlega innkomu í himnaríkið.

Guðlaug (IP-tala skráð) 17.5.2022 kl. 19:34

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ég þakka innilega fyrir mig, þetta var mjög skemmtilegt, frábær hópur og mikið fjör. :) 

Guðríður Haraldsdóttir, 17.5.2022 kl. 20:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 290
  • Sl. sólarhring: 325
  • Sl. viku: 1807
  • Frá upphafi: 1453682

Annað

  • Innlit í dag: 242
  • Innlit sl. viku: 1491
  • Gestir í dag: 233
  • IP-tölur í dag: 231

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband