Óvænt uppgötvun, náttúrulífshryllingur ... og mótmæli

Silent Witness í fangelsiSökum þreytu og leti í gær eftir að hafa eldað enn eina dýrindis máltíðina (frá ER) leyfði ég mér að horfa á tæplega þrjá eða fjóra þætti af Silent Witness. Sjónvarp er að koma aftur inn í tilveruna, hægt og rólega, svona ef ég nota letina, fjarstýring í nánd og engin bók í grennd. Í lok glápsins var fangauppreisn og hávær bjalla glumdi lengi, lengi, þetta var óþægilega kunnuglegt. Þar sem ég trúi ekki á fyrri líf og hvort eð er ekki séns á að í fyrri lífum hefði ég komist í kast við lögin (konan sem lét tryggingafélagið vita þegar stolna hjólið sem hún fékk bætt fannst óvænt nokkrum dögum seinna) varð ég að finna aðra skýringu. Og hún kom, og hún var ljót. Þetta er nánast sama hljóðið og í vekjaranum mínum í símanum. Ekki skrítið að ég sé nánast allan daginn með samviskubit yfir einhverju (glæp sem ég hef ekki framið?) og drekki sorgum mínum í kaffi. Ég er búin að breyta hringingunni í væminn prinsessusöng með regnbogamali og fuglasöng. Enda svaf ég til tíu í morgun.

 

Með trúðakragaÉg sá svo hræðilega ljósmynd á Facebook um daginn (ég sleit fb-vinskap við konuna sem birti hana, skildi ekki tilganginn, nema að láta fólki líða illa), af grimmdinni í náttúrunni, dauð móðir, ofsahrætt afkvæmi og rándýr, og mundi þá hvers vegna ég get ekki horft á dýralífsþætti þótt Gunni, gamli nágranni minn, sé oft bæði þýðandi og þulur þar og ég eigi bók áritaða af sjálfum Attenborough.

„Hér sjáum við sætasta krúttbamba í heimi en lögmál náttúrunnar eiga líka við um hann, ljónið hefur legið í leyni og ákveður að myrða fagureygða yndið á viðurstyggilegan hátt, sjáum það kjamsa á ofsahræddu hjartanu úr litla Bamba, endilega látið börnin ykkar horfa. Sjáið tár foreldra Bamba litla sem flýja hraðar en vindurinn til að búa til fleiri bamba fyrir ljónin til að éta ... en svona er bara náttúran ...“ Eitthvað svona get ég ekki. Skil vel fólk sem fárast út í veiðar katta á fuglsungum - en set spurningamerki við það hreina hatur sem skín út úr orðum sumra sem jafnvel koma með aðferðir til að drepa kettina. Það hefur verið rannsakað að kettir eru langt í frá það hættulegasta sem steðjar að ungum, en sennilega eitt af því fáa sem við getum á einhvern hátt stjórnað til að draga úr; trúðakragar, loka þá inni á vorin.

Míró, gamli kötturinn minn, kom eitt sinn (1981?) gangandi með lifandi fugl í kjaftinum. Með því að setja stúknamet í stökki án atrennu flaug ég, 1,70 á hæð, yfir grindverkið sem var 1.60 á hæð, og tókst að bjarga fuglinum sem flaug á brott, við litlar vinsældir kisa. Mínir þrír kettir, Mosi, Krummi og Keli, eru innikettir. Til að þeir lendi ekki undir bíl eða í vondu fólki. Þótt dýra-/náttúrulífsþættir séu í sama flokki og hryllingsmyndir í mínum huga, verður því ekki neitað að mannskepnan er langsamlega grimmust. Við sína eigin tegund, dýrin og bara jörðina. Sjá stríðsmyndir, glæpamyndir og fleira.

 

Refugees-Camp-Greece-Iphone-1671Ég stefni að því að fara á mótmælin á Austurvelli á laugardaginn. Það ER pláss á Íslandi fyrir þessa 300 hælisleitendur í leit að betra lífi, og næg vinna, við þurfum að flytja inn þúsundir frá útlöndum á næstunni til að fylla störf í ferðaþjónustu og ekki er mikið talað um húsnæðisskort vegna þeirra. Flóttafólksins bíður bara hryllingur í yfirfullu Grikklandi. Alls ekki sömu réttindi og innfæddir hafa, eins og ráðherra sagði ranglega í útvarpsviðtali í morgun. Ég held að þetta geti fellt stjórnina ef það verður að veruleika.

Ég skal fyrirgefa bankasölusvínaríið. En ég mun aldrei fyrirgefa stjórnvöldum ef þessu fólki verður vísað úr landi. Hvaða rugl er að líta á alla sem sækja um hæli hér sem svindlara sem ætla að lifa á bótum? Hér er allt yfirgengilega dýrt, handónýtt heilbrigðiskerfi vegna fjársveltis í áratugi og veðurfar ekki lokkandi fyrir flesta. Ég óttast að öll samúðin sem hefur myndast með hinu velkomna Úkraínufólki geti snúist við þegar stjórnvöld mismuna flóttafólki svona eftir uppruna.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 145
  • Sl. sólarhring: 385
  • Sl. viku: 2284
  • Frá upphafi: 1452020

Annað

  • Innlit í dag: 126
  • Innlit sl. viku: 1873
  • Gestir í dag: 124
  • IP-tölur í dag: 124

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Grimm
  • Í kringum ljósastaurinn
  • Baldursbrár

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband