Bestu póstnúmerin og þau verstu ...

Úps úpsÁ útvarpsstjörnuárunum á síðustu öld fékk ég oft skemmtilegt og áhugavert fólk í viðtal, t.d. einu sinni talnaspeking. Hann glotti út í annað þegar ég spurði hann út í póstnúmer, hvort þau segðu eitthvað merkilegt um fólkið þar, út frá talnaspekinni. Hann viðurkenndi samt að hann hefði ekki hugsað út í það (meira í fæðingardegi og ári). Ég sá samt að það lifnaði yfir honum þegar ég sagði honum að til dæmis fólkið í fína byggi í Vesturbænum, 107 Reykjavík, 1 + 7 væru 8 og átta væri tala peninga og ríkidæmis. Einn, núll, einn, væru tveir, tala vináttu, samvinnu og hvað gerir fólkið í 101 Reykjavík, jú, það bannar bíla svo það geti kjaftað saman yfir latte allan daginn á kaffihúsum, við borð úti á götu. Hann glennti upp augun en þóttist vera áhugalaus, svo ég bjóst allt eins við jólabók frá honum: Hvað segja tölurnar um hverfin í Reykjavík. Gert í samvinnu við hagstofuna sem veit allt um okkur. Meira en okkur grunar.

Hér eru hverfin ... spennandi að vita hvort þið búið í flottu hverfi eða enn flottara, það eru engin slæm póstnúmer. Ath. að 1 er neðst í röðinni ... fyrir hálfgerða excel-manneskju varð svo að vera:

 

Póstnúmer - tala - merking

101 = 2: Samvinna, félagsskapur, vinátta, ekki ólíklegt að margir sálfræðingar búi þarna.

102 = 3: Listir, menning, gróska, frjósemi.

103 = 4: Vinna, vinna, vinna, vinna, vinna, vinna. Mögulega forríkir vinnualkar sem sækja í þetta hverfi. (Hafnfirðingar, 220, eru sívinnandi, sjáið Bergrúnu Írisi, ég hef ekki tölu á bókum hennar).

104 = 5: Ferðalög, hreyfing, breytingar, gleði, þarna búa flugmenn og flugkonur, ferðalangar og ævintýrafólk.

105 = 6: Ást, rómantík, þarna er fólk eiliflega að giftast og skilja. Stundum drama. Fer mikið í sleik á almannafæri.

107 = 8: Ríkidæmi, auður, velsæld, fólk ætti að vera sérlega fitt og flott, hefur efni á ávöxtum, grænmeti og ræktinni. Gott að vera á sendiferðabíl á rúntinum þarna því oft er að finna þarna heillegar frystikistur og sófasett. Brauðmolar alla miðvikudaga. 

108 = 9: Hér býr fólkið sem fórnar sér fyrir málstaðinn og annað fólk, stórmenni sem eiga yfirleitt betri seinni helming ævinnar, svo ekki flytja í fljótfærni úr 108, elskurnar. 

109 = 1: Frumkvöðlar, þurfa oft að brasa einhvern helling áður en allt gengur upp ...

 

Reykvíkingar eru óheppnir að hafa ekki 106 Reykjavík, því sjöan er svo töff (ég er sjöa). Þetta er fólk sem getur verið eitt án þess að vera einmana, grúskarar, vísindamenn, andleg tala ...  háskólasvæðið ætti t.d. að vera í 106 Reykjavík.

Við landsbyggðatútturnar þurfum sannarlega ekki að örvænta. Við leggjum bara saman tölurnar í póstnúmeri okkar til finna TÖLUNA, styttum niður í eina tölu ef þarf.

Litir á Akranesi300 Akranes er nú bara 3 enda er allt morandi af listafólki hér (Tinna Royal, Bjarni, Hrönn og fullt í viðbót, myndin sýnir hversu litríkt Akranes er, ekki bara gráir bílar, ekki bara svartir innkaupapokar og hvít hús).

750 Fáskrúðsfjörður: 7+5 = 12 og þá er það: 1+2 = 3 sama og Skagamenn, jess.

430 Suðureyri er heppinn staður með allt andlega og vísindalega þenkjandi fólkið, einræna jafnvel en allt í lagi, eru Vestfirðingar hvort eð er ekki alltaf fastir í húsum sínum yfir vetrartímann vegna snjóa? Þeir eru þá í góðum félagsskap, með sjálfum sér og öðrum íbúum í sjöunni.

 

Ég á nú samt eftir að gera rannsóknir á hvernig örlagatölur fólks (fd og ár) eiga saman við póstnúmer þess. Þetta endar í mastersgráðu hjá mér, jafnvel doktors ef ég tek þetta alla leið.  

Er þetta ekki upphaf einhvers? Númeralógíusöfnuður Gurríar OHara? Ég skal taka að mér að segja ykkur hvernig þið eruð og hvernig þið eigið að haga lífi ykkar ... Þetta þarf þó að bíða til ársins 2023 því það kemur SJÖ út úr því ári og ef ég ætla að vera samkvæm sjálfri mér verð ég víst að hugsa þet- Bíðið við, þetta er á næsta ári, spurning um 7. júlí og kl. 7, ef ég vakna. Kannski betra kl. 16 (1+6). Samt ... kannski er ég ekki nógu félagslynd (sjöa) til að geta drottnað yfir söfnuði og látið dá mig og dýrka (sem ljónið í mér myndi elska ef eitthvað er að marka stjörnuspeki). Ætla að hugsa þetta betur.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 362
  • Sl. viku: 2146
  • Frá upphafi: 1451882

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1753
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Grimm
  • Í kringum ljósastaurinn
  • Baldursbrár

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband