Reiptog eða reipitog og tatnrafélag okkar Skagafólks

Mynd 1Eitthvað hefur útliti mínu hrakað fyrst bílstjórinn hleypti mér inn að aftan í innanbæjarstrætó í gær. Eftir klipp og lit síðast var það að framan, munið! Það sparaði mér hellingstíma að taka strætó niður í bæ, á málverkasýningu barna úr Grundaskóla sem haldin var í gamla Landsbankahúsinu. Ég hef alltaf verið hrifin af litagleði í myndum barna og hlakkaði til að kaupa mér eina slíka. Þær urðu reyndar tvær, mjög ólíkar en mjög, mjög flottar. Stykkið kostaði heilan tvöþúsundkall og ég sé eiginlega eftir því að hafa ekki keypt eina enn. Það er veggpláss inni hjá stráksa og spurning um að lauma að honum mútufé til að fá að hengja upp flottar myndir þar, auðvitað læt ég ramma fínt inn. Stoppaði ekki lengi, ákvað að nota tækifærið þótt ekki væri föstudagur* og kíkja í elsku Einarsbúð. Ég tek sykurleysið mjög alvarlega og keypti mér minnstu gerð af sykurlausum ís hjá Frystihúsinu áður en ég lagði í gönguferðina í Einarsbúð en í vöffluformi til að fá kolvetni fyrir heilann.

*milli kl. 18 og 18.30.

Mynd 2Heppnin var með mér, ég hitti kaupmannshjónin, Ernu og Einar, sem ég hef elskað, dáð og dýrkað frá barnsaldri, en maður missir auðvitað alltaf af þeim með því að panta og fá heimsent sem er líka gott og minnkar sénsinn á því að fá kóvíd eða vera bitinn af lúsmýi, hugsa ég, en það er mikill tímasparnaður fyrir gangandi konu að láta þriggja mínútna símtal duga.

Ég rétt svo mundi eftir að segja Einari frá Oddfellow-konunum sem ég upplýsti um leynifélag einhleypra á Akranesi, fullu nafni:  Tilfinningagreindir Akurnesingar tækifærið nota og rabba á Akranesi. (Það er alveg rabbað líka). Við grétum af gleði þegar við sáum hvaða orð það næstum myndaði. Til dæmis: Samtök krúttlegra Einarsbúðarkúnna: SKE sem er erlendur málslæðingur og vart rithæft - hefði aldrei gengið upp, við viljum frekar að eitthvað gerist en ske-i. TATNRA-félagið er ljómandi fínt.

 

Ég sá að Einar varð hugsi, eins og hann áttaði sig á ástæðu grunsamlega mikillar umferðar fólks í kringum bananastandinn ýmist með banana eða melónur í körfunni, þarna hjá grænmetinu, það var eins og ljós rynni upp fyrir honum. Hann sagði lágt en ákveðið í lagertalstöðina: „Siggi minn, viltu panta ostrur! Fyrir svona 20!“ heyrðist mér. Sniðugur, þetta flýtir mjög fyrir pörun sem þýðir að ráfandi, leitandi einhleypingar teppa ekki alla umferð um grænmetið síðasta opnunarhálftíma vikunnar. Ég missi af ostrunum því komandi helgi verður ekki fríhelgi hjá mér. Eða sagði hann ostur?

 

Virðulegir fréttamenn RÚV segja ekki bara hoppUkastali og ungAbarn, heldur heitir reiptog allt í einu reipItog. Málið af götunni komið inn í helgustu vé íslenskrar tungu. HÉLT ÉG. Þetta var áfall. Spurning um að gefast bara upp ... ég vil líka að málið þróist og fer alltaf að hugsa um orðið ruslAfata sem var án efa rusl-fata til að byrja með. Eftir 40-50 ár verðum við (þið) farin að segja sorpAtunna kannski ... til að orðið fari betur í munni. Annars verð ég kannski enn á lífi, mig langar svo til að lifa alla vega í 70 ár í viðbót og vita hvað stendur í erfðaskrá Filippusar sem var innsigluð í 70 ár.

Að nota gott mál hef ég sett undir hatt vandvirkni og yndisþokka (löng saga) en nú heyrir maður sama málið talað hjá RÚV og á Keisaranum við Hlemm í gamla daga. Ætli fréttamannspróf sem ég tók og náði árið 1999 virki enn til að fá vinnu þar? Svo gæti ég reynt að hafa góð og málhreinsandi áhrif ...   

Einbeittar rúturÉg amast sannarlega ekki við mannaferðum hér við sjóinn minn, á hlaðinu mínu, síður en svo en langar að ítreka við yfirvöld á Akranesi (sem hljóta að lesa bloggið mitt) að það dugir ekki lengur og hefur í raun aldrei dugað almennilega að mála einhverjar rendur á malbikið á bílastæðinu, það vantar skilti, ég hef bent á það en þá var bara sendur málari sem málaði enn fyrirferðarmeiri rendur, eins og ökuleið, sjá upplitað hægra megin við rúturnar.

Rútubílstjórar eru svo einbeittir í því að leggja vel, svo stutt verði að ganga frá Guðlaugu (heit laug) og upp í hlýja og notalega rútuna. Sem þýðir að bæjarstarfsmenn komast ekki inn ak-veginn vinstra megin við rúturnar. Ég sá að löggan þurfti að biðja Guðlaugarfólk sem kom hlaupandi hálfnakið til að færa bíl svo hún kæmist til að passa upp á fótboltaleik sem þá fór fram austanmegin á hlaðinu (oft biluð slagsmál á vellinum). Mér líður svolítið eins og löggu eða gyðju þar sem ég sit við gluggann og dæmi lifendur og dauða fyrir að fara ekki eftir reglum, leggja ekki rétt, tala ekki rétt mál ... en reip-i-tog er nú samt ólíðandi!

 

FrændfólkViss frændi (fjandi) búsettur í Frakklandi getur verið einstaklega utan við sig. Hann fór í apótek nýlega til að kaupa sótthreinsispritt og magnesíum. Á meðan hann stóð í biðröðinni fór hann að máta lesgleraugu og greip bækling til að prófa þau og sá textann mjög vel. Þá var hann kallaður upp, brá við það, skellti lesgleraugunum í flýti í standinn, setti sprittið og bæklinginn sem hann var enn með á afgreiðsluborðið og sagði: „Já, og svo ætla ég líka að fá rohypnol, takk.“

Spritt, alræmt lyf og bæklingur sem auglýsir kvennærföt? Annað frændfólk mitt er ekki alveg svona, eða jú ... ein sem skrapp fyrir langa löngu á bensínstöð og bað um í afgreiðslunni að láta fylla á bláa bílinn. Ha, það er enginn blár bíll ... og þá mundi hún að hún hafi ákveðið að fara gangandi á bensínstöðina af því að það var svo gott veður ... til að taka bensín. Klár og hámenntuð en það bjargar ekki alltaf. Og jú, hún er skyld fjanda.

Fjandi hefur það fínt á Twitter og Instagram eftir að hafa verið hent út af Facebook fyrir nasisma, eins og ég hef áður kvartað yfir. Hann fékk viðvörun eftir að hafa gert grín að nýnasistum (Facebook skilur ekki íslensku) og svo þegar hann kallaði Nönnu, vinkonu okkar, „heillin“ (HEIL-lin) missti Facebook þolinmæðina og fleygði honum öfugum út. „Af hverju kemurðu ekki aftur, bara undir öðru nafni?“ spurði ég um daginn. „Ég brýt ekki reglur en Facebook gerir það,“ svaraði hann. Ég hef ekki tíma fyrir Twitter líka, læt mér Instagram og Facebook nægja og Snapchat og bloggið. Twitter er bara fyrir sniðuga fólkið sem nær að vera hnyttið, beitt, fyndið og skemmtilegt í um það bil þremur orðum. En kannski ber söknuðurinn mig ofurliði og ég fer á Twitter þótt ég hafi ekki tíma ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

... ekki gleyma happ-A-drætti!

Guðrún Eggertsdóttir (IP-tala skráð) 3.6.2022 kl. 14:11

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Já, segggggðu. :) 

Guðríður Haraldsdóttir, 3.6.2022 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 26
  • Sl. sólarhring: 203
  • Sl. viku: 1543
  • Frá upphafi: 1453418

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 1274
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband