Frestanir, spádómar og meint dánarorsök

Með sjóræningjaFullt af allskonar í gangi fyrrihluta dags en allt stefnir í rólegheit og stórgóða innivist í sólinni. Ég þræla drengnum út að vanda, það þarf að ryksuga og fara út með dósir, rusl og plast-pappír til að fá vasapeningana. Svona er nú grimmdin mikil í Himnaríki. Svo ætlaði Hilda systir að koma í dag, svo ætlaði hún ekki að koma, síðan seinnipartinn en heimsókn hefur nú verið frestað. Eins gott samt að hún komi fyrir miðvikudag, þegar drengurinn heldur á vit ævintýra í sumarbúðum. Skráning og greiðsla á dvalargjaldi krefst þess að maður hafi próf í kjarnorkuvísindum eða tölvunarfræðum (sportabler) en svo þarf að senda með drengnum lista upp á eldgamla mátann, fata- og lyfjalista, og þeir sem ekki eiga prentara verða að redda sér. HVAR ER TÆKNIN NÚNA? Það er hægt að fylla út skjöl á netinu sem myndi auðvelda prentaralausu fólki lífið ... en nei, sumt húkir enn í fornöld! (Ég er samt ekki að skammast út í bestu sumarbúðir heims, heldur þann sem ákvað þetta fáránlega skráningakerfi sem hentar íþróttafélögum ábyggilega betur en sumarbúðum og þýddi að ég fékk ekki að vita um visst covidsmit í vetur, fyrr en nú í vor. Þetta er ekki gott samskiptaform fyrir sumarbúðir, ein vika á ári og maður á ekkert erindi inn á þetta kerfi aftur fyrr en ári seinna svo eftiráskilaboð virka ekki.

Efsta myndin er af drengnum í „samningaviðræðum“ um húsverk. Fjörugt heimilislíf.

 

PersónuleikiKannski breytti Mía systir lífi mínu (kemur í ljós) þegar ég hringdi í hana og óskaði henni til hamingju með enn eitt stórafmælið núna 2. júní. Mér tókst að koma að ákveðnum áhyggjum mínum af kyrrsetu í fjörugu símtali og hún sagði mér frá mjög sniðugum YouTube-myndböndum Fabulous 50s exercise-sem hefðu farið sigurför um vinkvennahóp hennar. Ég fann þetta og eitt korterslangt fat-burning-walking-eitthvað sem mér líst ljómandi vel á og mun ábyggilega prófa einhvern daginn, það bíður bara í tölvunni minni. Ég bauðst til að passa hund í dag og fara með hann í gönguferð, en var mörgum klukkutímum of sein, held að Color Run-hlaupið hafi verið búið sem eigendur hundsins voru að fara á þegar ég sá þetta. Ekki lagaðist hreyfingar-ástandið þegar ég fór að horfa á The Lincoln Lawyer-þættina á Netflix í gærkvöldi í stað þess að hamast við að hreyfa mig. Ég skammta mér sirka einn þátt fyrir svefninn.

Mynd: Dánarorsök: Borðar of mikið, verður mér víti til varnaðar en ég gleðst þó innilega yfir að lifa næstum því nógu lengi til að fá að vita leyndarmálið í erfðaskrá Filippusar prins sem verður opinberað þegar ég verð 130 ára - en ég hlýt að tóra aðeins lengur en spáin gefur til kynna. 

  

Enn aukast líkur á stórum skjálfta hér suðvestanlands. Þegar fyrst var farið að tala um þetta í fyrra eða hitteðfyrra ákvað ég að pakka brothættu punti niður í stóra margnota poka en viku seinna ákvað ég að taka sénsinn bara, eins og í covid ... lifa lífinu, fara varlega og ef skjálfti/smit, þá bara taka því. Hef sem sagt ætlað mér í þennan tíma að kaupa kennaratyggjó til að festa hluti niður í skápnum, fína kristalinn minn og þann ófína, dauðir hlutir en samt óþarfi að vanvirða þá. Helst vildi ég að skjálftinn kæmi um nótt og fyndist bara úti í Viðey þar sem enginn býr.

 

GrannarNýja nágrannakona* mín frá Úkraínu er búin að átta sig á því að hún býr á langbesta stað á landinu. Hún varði hálfum deginum í Guðlaugu, heitu lauginni hér við Langasand og er orðin vel útitekin og júní varla byrjaður. Allar sögur sem hún hefur heyrt um kalt veðurfar og sólarleysi hér á landi hlýtur að vera sem versta skrök í  hennar huga. Hún horfir samúðaraugum á mig svona náhvíta og alltaf í langerma til að undanrennubláir handleggirnir hræði ekki fólk. Forfaðir minn frá Transylvaníu (sjá Íslendingabók) er sennilega sá eini sem myndi skilja mig, samt er ég alin upp við: „Hættu að lesa, ekki hanga svona inni í góða veðrinu ...“

*Ég fékk leyfi til að birta myndina. 

Sonur hennar, 6 ára, kom nýlega með kisunammi sem er geymt hér en drengurinn sér um að gefa þeim það þegar þau kíkja í heimsókn. Kettirnir dýrka drenginn og dá og finnst móðirin ekki sérlega slæm heldur. Mosi treysti sér ekki til að vera fjær þeim mæðginum en þetta, eins og sjá má á myndinni en þarna var nammið samt farið upp í skáp.

Keli, hinn skíthræddi og styggi köttur með fortíð, herðir upp hugann þegar gott kisunammi er í boði og í stað þess að halda sig undir rúmi þegar koma gestir leyfir hann klapp og knús fyrir bragðgott sælgæti.

Jæja, þá er að elda „Eldum rangt“ (sem sagt ekki Eldum rétt) og gefa drengnum að borða. Ég fer varlega í átið eftir dánarvottorð hirðvéfréttar minnar (sjá mynd) en held nú samt að hver sé sinnar eigin gæfusmiður. Ég frétti af konu sem fór til spákonu fyrir ábyggilega 40 árum og spákonan sagði konunni að hún fengi ekki manninnn sem hún var hrifin af. Þessi spádómur hafði þau áhrif að konan áttaði sig á því að hún gæti ekki hugsað sér lífið án hans og til að gera langa sögu stutta þá eru þau hamingjusamlega gift enn í dag - segið svo að spádómar geti ekki hjálpað fólki við að taka ákvarðanir! Þegar spákonan sagði við mig í gamla daga: Dökkhærður sjarmör og sjóferð, gat það alveg eins táknað ljóshærðan mann og strætóferð, og ég er nýbúin að átta mig á þessu. Ég gafst endanlega upp á strákastandi 10. júlí árið 1998 þegar Akraborgin hætti að ganga og hef verið lukkulega einhleyp síðan.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 284
  • Sl. sólarhring: 336
  • Sl. viku: 1801
  • Frá upphafi: 1453676

Annað

  • Innlit í dag: 238
  • Innlit sl. viku: 1487
  • Gestir í dag: 229
  • IP-tölur í dag: 227

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband