Móðgandi afsláttur og svaðilfarir í Mosó

MyndinÞessir dagar án drengsins hafa liðið með örskotshraða, enda mikið að gera í vinnunni. Ósiðlegt líferni kom því aldrei til greina, það æsilegasta sem ég gerði var að drekka kaffi og lesa spennandi bók fyrir svefninn.

 

Það gekk ekki alveg þrautalaust að sækja drenginn. Ég tók strætó kl. 13.15 frá Akranesi og þar hófst ansi hreint undarlegur kafli í lífi mínu. Klappið virkar ekki utanbæjar svo það er bara reiðufé eða kort. Kortið varð fyrir valinu og kvittunin ekki af verri endanum, hálft fargjald. 

„Ahh, þetta er ekki rétt, ég er að fara til Reykjavíkur,“ sagði ég strangheiðarleg, of kors, eins og tapið vegna covid hafi ekki verið nóg fyrir Vegagerðina.

 

„Half price for 67 yrs and older,“ sagði kornungi (15 ára?) og glaðlegi bílstjórinn og mun eflaust aldrei komast að því að líf hans hékk á bláþræði um stund. Ungur aldur hans og mikilvægi þess að ég kæmist í bæinn til að sækja drenginn varð honum til lífs. Þegar maður er þetta ungur er allt eldra en þrítugt/fertugt/fimmtugt eldgamalt. Ég bar mig þó vel og vældi á Facebook, birti nokkuð nýlega mynd af mér með foreldrum mínum, fann enga nýrri í fljótu bragði, en hef ekkert elst ógeðslega mikið síðan hún var tekin, og sagði strætófarir mínar ekki sléttar, hélt ég liti nú ekki út fyrir að vera mikið eldri en 63 ára og 10 mánaða. Samúðin og réttlát reiðin sem blossaði upp á þessu öðru heimili mínu og vanrækta stað (ég vinn of mikið) gerði mér mjög gott. Smyrslin á sárin voru t.d.: „Hvurslags er þetta. Ungar konur að fá eldriborgaraafslátt! - Krakkaskratti hefur þetta verið, þú lítur út fyrir að vera yngri en 63 ára og tíu mánaða. - Uss, þú hefðir frekar átt að þiggja afsláttinn,“ og margt fleira krúttlegt og satt.

 

Í stað þess að fara út úr strætó í Mosó, eins og ég geri aldrei, sendi ég systur minni SMS: Er í Mosó, svo hún gæti fylgst með ferðum mínum, eins og hún vill að ég geri. Sumir eiga sér ekki líf. Á Vesturlandsveginum, rétt hjá Bauhaus, mundi ég allt í einu eftir því að við höfðum ætlað að hittast í Mosó, ekki Mjódd, stoppistöðin er í Háholti og hún beið á planinu hjá KFC. Henni fannst þetta ekki jafnfyndið og mér (kannski átti ég afsláttarfargjaldið skilið) og skipaði mér að ganga til baka. Ég hélt að hún þekkti systur sína sem hatar að ganga en í minni fjölskyldu hefur alltaf verið refsað fyrir gleymsku ... Ég stórefaðist um að við næðum í Reykjadal fyrir klukkan fjögur. (Klukkan var hálfþrjú). En ég hlýddi, fór samt ekki yfir götuna í hraðri og stöðugri umferð, það var eitthvað svo lúseralegt að fara undirgöngin en ég lét mig hafa það, enda langt síðan ég var staðgengill í James Bond-myndinni um öldina, og rétti svo út þumalfingurinn í stað þess að hefja þrautagöngu.

Auðvitað stoppuðu eintómir vélsagarmorðingjar en loks kom venjulegur heiðarlegur kvenhatari og sagðist skutla mér í Mosó með því skilyrði að ég þegði allan tímann, konur ættu að sjást en ekki heyrast. Síðan útskýrði hann fyrir mér allt sem hann hafði ekki fengið að segja nálægt eiginkonu sinni eða komist upp með að skrifa á Facebook. Win-win fyrir okkur bæði. Ég held að við höfum farið alla vega 45 hringi á hringtorginu við Bauhaus, honum lá svo margt og mikið á hjarta. Þetta var svo æðislega skemmtilegt að ég tók þetta upp í laumi á símann minn og get hlustað á þetta eins oft og ég vil. Held að Hilda hefði líka gott af því að heyra rödd sannleikans. Ég reyndi að spila þetta fyrir hana á leiðinni í Reykjadal en hún hótaði að láta mig ganga meira svo ég slökkti. „Ég hlusta ekki á hrúta,“ sagði hún sem var óskiljanlegt. Hún er bara sjúk í Gullbylgjuna, held ég. Mætti ég þá biðja um Pixies eða Rammstein!

 

SkrúðgangaDrengurinn var sérlega sáttur eftir átta daga dvölina í Reykjadal en þangað kom Jón Jónsson söngvari sem leynigestur eitt kvöldið og söng, einnig fótboltakonan Sesselja. Krakkarnir fóru upp á Skaga í óvissuferð á laugardeginum, enda margt æðislegt hægt að gera hér, fóru líka á eitt stykki landsleik í Laugardal!

 

Skaginn er troðfullur af hressum fótboltastrákum og fjölskyldum þeirra yfir helgina. Mótið hitti akkúrat á 17. júní svo það verður óvenjumikið fjör í ár. Við stráksi ætlum að tölta niður í bæ eftir hádegi, kíkja kannski á opið hús hjá Úkraínufólkinu okkar, svo er það árlega kirkjukaffið ... öllu heldur kökuhlaðborð kirkjunefndar - sem er með því flottara en ég forðast sykur þessi misserin og gæti ekki stillt mig um að stökkva á marensinn og pönnsurnar, þótt ég færi eingöngu í brauðtertu- og flatkökuskyni. Æ, bara smá ... NEI!

 

Ef smellt er á neðri myndina má sjá hluta af glæsilegri skrúðgöngu okkar Akurnesinga, þessari með fótboltaívafinu. Mér finnst ég fá allt sem ein manneskja þarf á hlaðið til mín. Hér er Atlantshafið í suður, kjörstaður, bólusetningamiðstöð, ræktin, íþróttavöllur og þyrlupallur í austur, Einarsbúð í símafjarlægð og svo sé ég alltaf þessa skrúðgöngu á hverju ári ef mér verður litið í norðurátt. Brekkusöngur á Írskum dögum fer svo fram í kringum þyrlupallinn og ég þarf að loka gluggum hér ef kemur leiðinlegt lag - sem hefur þó ekki komið enn. Himnaríki er í einstaklega vel staðsettu húsi.      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 269
  • Sl. sólarhring: 407
  • Sl. viku: 1786
  • Frá upphafi: 1453661

Annað

  • Innlit í dag: 226
  • Innlit sl. viku: 1475
  • Gestir í dag: 220
  • IP-tölur í dag: 217

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband