Að vera með hnífaparafóbíu ...

RennerFræga fólkið er alltaf vinsælt að lesa um en varðandi kóngafólkið í Bretlandi held ég að fjölmiðlar búi hreinlega til fréttir um það, þetta er svo leiðinlegt! En hér eru nokkrar miklu sannari fréttir, held ég. Getur komið sér vel að bæta þessu í minnisbankann - undir: gagnslaus vitneskja ... 

 

Baðkar Opruh Winfrey er smíðað eftir útlínum hennar - sem getur verið áskorun þar sem hún hefur svolítið verið eins og jójó í gegnum tíðina, mjó, minna mjó, mjó, minna mjó ... Hún hlýtur að eiga baðkör í small, medium og large? Svoleiðis gerum við ríka fólkið. Ég á t.d. trefla í mörgum stærðum. Oprah hefur látið hafa eftir sér að hún sé baðsjúk, taki baðferðir sínar mjög alvarlega. Í langri grein í ónefndu tímariti fyrir hátt í tuttugu árum var hún kölluð Ophra (rétt skrifað: Oprah sem er Harpo afturábak) mjög oft án þess að prófarkalesari áttaði sig - en nafn hennar var þó stafsett rétt á forsíðu blaðsins. Held að þarna fyrst hafi ég áttað mig á áhrifamætti prófarkalesturs - og ógurlegu valdi prófarkalesara. Eitt sinn las ég síðupróförk Vikunnar sem oftar og þá var Danski kúrinn sérlega vinsæll. Þýðandinn hafði sagt: Pyntið með berjum (puntið) og mig langaði svoooo mikið að leyfa því að fara svona í gegn, enda væri það t.d. pynting ef einhver byði mér bláber, mér finnst þau ansi hreint vond nema í fljótandi formi. En samviskusemin sigraði.

 

Jeremy Renner leikari (sjá mynd) sem hefur leikið ýmis hasarhlutverk á sér fortíð sem förðunarfræðingur. Útlitið gefur það ekki til kynna en útlit skiptir svo sem ekki máli nema maður sé hestur. Eflaust gott fyrir leikara að kunna þetta. Jeremy kvaðst ekki hafa átt í erfiðleikum með að farða í gamla daga, enda bæði vanur leikhúsmaður og listmálari. Hann hefur leikið í Mission Impossible-myndum, CSI-þáttum og fleira. Við þekkjum hann öll! (Ég kannaðist ekkert við nafnið en þekkti hann af ljósmyndinni).

 

Liam Payne úr One Direction er með hnífaparafóbíu. Hann forðast að nota áhöld á veitingastöðum og heimilum þar sem hann óttast að þau séu óhrein. Hann meira að segja viðurkenndi í viðtali að hann þyldi ekki að þurfa að borða með hnífapörum sem hann ætti ekki sjálfur. Þessi fóbía hófst þegar hann var lítill og þurfti í refsingarskyni fyrir eitthvað að þvo upp hvern einasta gaffal og hníf og skeið í skólamötuneytinu. 

 

Emma StoneLeikkonan Emma Stone bjó til PowerPoint-sýningu til að sannfæra foreldra sína um að leyfa sér að hefja leiklistarferilinn. Hún var ekki nema 14 ára og vildi flytja til Hollywood, fá heimakennslu og einbeita sér að leiklistinni. Hún var fjögurra ára þegar hún ákvað að leggja fyrir sig leiklistina. Hún er marg-, margverðlaunuð og hefur m.a. leikið í La la land (sem ég hef ekki séð, ég veit í raun rosalítið um bíómyndir og leikara)

 

Önnur leikkona, Nicole Kidman (áður gift Tom Cruise sem eftir skilnaðinn hélt börnunum sem þau ættleiddu, þá búinn að koma þeim í Vísindakirkjuna sem veit öll manns hræðilegu leyndarmál og veikleika svo maður getur eiginlega ekki yfirgefið hana, vilja einhverjir meina), er frá Ástralíu þar sem pöddur lifa sérlega góðu lífi en hún var sjúklega hrædd við fiðrildi sem eru ábyggilega eins og meðalstórir fólksbílar að stærð. Hún treysti sér ekki til að opna garðhliðið heima hjá sér ef hún sá fiðrildi í grennd, heldur fór torfærar Krýsuvíkurleiðir heim. Hún hefur reynt að vinna í þessum ótta sínum en án árangurs.

 

Enn ein leikkonan, Sandra Bullock, er með ofnæmi fyrir hestum! Það kom í ljós árið 1996 þegar var verið að taka upp myndina Two If By Sea en þá þurfti hún að fara á hestbak. Þannig að hún getur varla leikið í kúrekamyndum, blessunin, hún lét reyndar nýlega hafa eftir sér að hún væri útbrunnin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 27
  • Sl. sólarhring: 204
  • Sl. viku: 1544
  • Frá upphafi: 1453419

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 1275
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband