Veðursamráð, misstígelsi en sloppið við covid

Havana KúbuFyrir allar aldir í morgun heyrði ég í glaðlegum börnum sem er frekar algengt hér í sælunni við sandinn svo ég rauk ekki út í glugga, enda búin að missa vonina á vissum fána sem sýnir mér betur en gemsinn minn hvaða vindátt ríkir. Tryggir lesendur bloggsins vita nefnilega að ég lýsti yfir heilmiklum söknuði því Bláfáninn sjálfur var ekki kominn upp. Mig grunaði alls ekki, svona langt gengið í júlí að gleðin í rödd barnanna væri vegna elsku fánans. Sem sagt Bláfáninn fór upp í tæka tíð fyrir Írska daga, ég sem hélt að allt grjótið á sandinum (sem er eitthvað alveg nýtt) tengdist fánaleysinu (hreinn sandur = Bláfáni) en grjótið hefur sem sagt verið hreint ...

 

 

Það má samt alveg gera eitthvað í grjótmálum, laga varnargarðinn. Eða steypa vegg, eins og er á Kúbu, Malecon-veggurinn í Havana sem er örugglega gaman að heimsækja þegar lægðirnar koma loks með tilheyrandi sjógangi. Ef bæjarstjórn hefur vit á því að hlusta á góð ráð mín yrði nú gaman að sitja í Himnaríki og dást að skvettunum. Það myndi laða að enn fleira ferðafólk. Hilmar!?!

 

Bláfáninn loksinsNú nálgast Írskir dagar óðfluga og eitt partíið verður á hlaðinu hjá mér, brekkusöngurinn við þyrlupallinn. Ég get voða lítið gengið þessa dagana, ég missteig mig illa á 17. júní þegar ég gekk niður á Akratorg og til baka (kannski 2 km hvora leið sem er ekki mikið). Það gengur aldrei neinn strætó þessa hátíðisdaga, nema þegar Norðurálsmótið (fótbolti barna) stendur yfir, og þá bara til að rúnta á milli íþróttahúsanna tveggja (sem ég er nýbúin að komast að, hélt lengst af og var fúl yfir því að strætó gengi sömu leið og vanalega, en bara fyrir gesti mótsins).

Teygjubindi hefur hjálpað helling en það er ekkert skrítið að ég hati að ganga. Ég hef bara gott af þessu, hugsaði ég samt sannfærandi nokkrum sekúndum áður en ég stórslasaði mig. Hver þarf svo sem að ganga? Í hreyfingarskyni hoppa ég núorðið upp og niður stigann minnst einu sinni á dag (3,5 hæðir) og hlusta iðulega á lagalistann minn hjá YouTube (sem er með tónlistarveitu eins og Spotify). Alltaf þegar ákveðin lög heyrast stend ég upp og dansa. Dæmi: Livin´ la Vida Loca, Luftgitar, Smells like Teen Spirit, Stun Gun, Mýrdalssandur, When I Come Around og Fu-Gee-La (hægur dans). Hin 85 lögin eru allt of róleg, ég gæti auðvitað vangað við þau en kettirnir eru ekki til í það, ekki þótt ég væri með kattanammi í hárinu, hugsa ég. Drengurinn myndi hníga niður af hlátri ef hann sæi mig reyna slíkan kattadans. Ekki vil ég leggja það á hann. (Myndin sýnir Himnaríki í morgun og aðdáendur mína þarna fremst, sannar líka að það er alls ekki alltaf rok á Akranesi, stundum er hreinlega skortur á því, sérstaklega á sumrin þegar ekki er hægt að lofta út)

Nokkur unaðsleg vangalög: Angie, Dust in the Wind, Changes, Julia Dream, Someday never comes, Carpet Crawlers ... svona fyrir þær sem eiga hlýðna og almennilega ketti.

 

Hitasamráð sl. laugardagÞað munaði minnstu þarna á heimleiðinni á 17. júní að ég hringdi í eina dásemdardömu sem ég vissi að væri á rúntinum, en þá var svo skammarlega stutt heim að ég kunni ekki við það. Daginn eftir birti hún mynd af covid-heimaprófi (tvö strik) og ég fagnaði innilega þrautseigju minni og þrjósku, sterku Íslendingseðli sem lætur kulda og vetur ekki pirra sig nema síður væri og lætur ekkert, ekki einu sinni misstígelsi hindra sig við að komast í sófann heima. Hiti er kannski annað mál (hann lamar) en hann á auðvitað ekki heima hér á landi íss og jökla og snjóa og hríðar. Fólk getur farið til Tenerife! Ég hef heyrt fólk tala um samráð og samsæri varðandi hitann (kuldann) sem hefur ríkt og mögulega er eitthvað til í því m.v. síðasta laugardagskvöld. 

 

Afmæli 2012Ég skil ekki þessa tilhneigingu sumra að halda að sá sem talar um hlutina af öryggi og sannfæringu (Hitler, Trump, Jordan Petersen?) hafi endilega rétt fyrir sér. Loksins einhver sem þorir að segja sannleikann, segja sumir þegar sumt fólk tjáir sig um viðkvæm mál af algjörri vanþekkingu. Mér finnst líka að karl eins og viss Brynjar eigi bara að þegja og halda áfram að vera sætur. Getur verið að ríkisstjórnin noti hann til að valda fjaðrafoki svo hægt sé að selja fleiri banka og fremja fleiri myrkraverk í laumi á meðan við görgum á mister B? (Ekki samt taka mig of alvarlega, ég er enn til í að hringja nokkur símtöl í vel valda vini og fá hluta af 700 milljónum fyrir) 

 

Skyldi covid enn og aftur koma í veg fyrir afmælisveislu í Himnaríki eftir nokkrar vikur? Ég held að ég hugsi eins og flestir, ekki hrædd við að fá veiruna en alveg til í að sleppa við það. Þori alla vega ekki að byrja að baka strax (panta) og myndi alveg þiggja fjórðu bólusetninguna. Ef kornungi strætóbílstjórinn (rúmlega 14 ára) sem gaf mér elliafslátt nýlega í strætó ynni hjá heilsugæslunni í hjáverkum væri fyrir löngu búið að boða mig í fjórðu. Myndin er af afmælistertunni 2012 en þá lenti afmælið mitt á Gay Pride, eins og stundum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 269
  • Sl. sólarhring: 408
  • Sl. viku: 1786
  • Frá upphafi: 1453661

Annað

  • Innlit í dag: 226
  • Innlit sl. viku: 1475
  • Gestir í dag: 220
  • IP-tölur í dag: 217

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband