Friðhelg tónlist og kramdir bílar: ævintýraferð til Eyja

AfmælistertanVestmannaeyjar tóku ansi hreint vel á móti okkur Hildu systur, dóttur hennar, tengdasyni og tveimur unglingsstrákum. Það var ljómandi snjallt að halda örafmæli fyrir jólakúlufólkið sitt, en samt áskorun að fara strax daginn eftir til Eyja.

Ég gat ekki stillt mig um að vera með tertu þrátt fyrir óeðlilegheitin (eða að bjóða ekki sjötíu allra nánustu). Ég bað konditorimeistarann að laga alls ekki villurnar á tertunni og sendi henni textann með undirskriftinni BITRINGUR (ekki Birtingur)en hún leiðrétti undirskriftina en leyfði öðru að halda sér. 

Og ég hætti ekki í neinum leiðindum, alls ekki, það voru skipulagsbreytingar fram undan sem hefði þýtt meiri vinnu og þar af leiðandi meira álag (sem ég hef forðast undanfarin ár). Þau munu svo sannarlega pluma sig vel án mín, frábært fólk þarna sem ég er strax farin að sakna. Og ég mun líka hafa nóg að gera.

 

SprangEins og flest (öll) ferðalög snerist þetta til Eyja um að finna sem fyrst besta kaffið og það tókst í hvelli. Ég hefði sennilega aldrei hætt í Ísfélaginu 1974 ef það hefði þá verið komið á næsta horn, sjávarmegin - en þá var svo sem enginn að pæla í góðu kaffi. Það heitir Vigtin - bakhús og er einnig bakarí. Við "stunduðum það" þessa tvo daga okkar. Við kíktum í búðir og ein þeirra, Flamingo, var ansi flott. Ég beið úti í bíl meðan mæðgurnar fóru inn, ég missi oft lífsviljann í búðum og fer bara ef nauðsyn kallar. Hilda kom út með tvær fínar flíkur og bað um álit mitt, ég benti á aðra þeirra, hugsa að þessi klæði þig betur, sagði ég, og svo urðu mæðgurnar að játa að þarna væri elsku Ellen frænka að reyna laumulega að kaupa afmælisgjöf handa mér ... Svo ég fór inn og hreifst af allri litadýrðinni þar. Valdi mér dásamlega peysu, í afar fallegum bláum lit, hef varla farið úr henni síðan. Mig vantaði bók (Gjöf hjúskaparmiðlarans) svo ég fór í bókabúðina þar sem áður var sjoppan sem ég verslaði við þegar ég starfaði í Ísfélaginu. Stelpunum þar fannst ekkert merkilegt að ég hefði keypt sælgæti þar eitt sinn (fyrir rúmum 48 árum) í sjoppuferð fyrir sjálfa Shady Owens. „Hvaða Shady?“ sagði önnur þeirra alveg áhugalaus. Ég er viss um að hún hefur aldrei heyrt um Hljóma eða Trúbrot, Uriah Heep eða Led Zeppelin, hvað þá Slade, Pink Floyd eða Jethro Tull. Greinilegt að menningin náði aldrei til Eyja þótt þær séu svona skammt frá Íslandi (eins og stráksi orðaði það.) Getur verið Eyjar séu friðhelgar á einhvern hátt? Ekki spilla hreinleika þeirra-dæmið, eins og á við um t.d. Surtsey, en samt mega ferðamenn koma þangað. Það gæti útskýrt af hverju ég heyrði bara tónlist Loga; í búðum, á veitingastöðum, á götum úti, lítil leikskólabörn rauluðu Minningu um mann á Vestmannabrautinni þannig að ég táraðist. Vá, hvað Logar hljóta að vera þreyttir eftir Þjóðhátíð ... 

Mynd: Stráksi að spranga.

 

Áður ÍsfélagiðHúsið sem við gistum í var á tveimur hæðum, við vorum sex og herbergin fimm sem passaði ljómandi vel. Hilda pantaði húsið í maí og það var ekki sérlega dýr en þegar hún kíkti á verðið nú nýlega kostuðu tvær nætur í september næstum helmingi meira en við borguðum um miðjan ágúst. Framboð og eftirspurn-lögmálið ... dæs. En þetta var notalegt hús og mjög vel staðsett. Stutt að fara út að borða ... hjá Gott fyrra kvöldið og Einsa kalda það seinna. Svakalega góður matur hjá báðum, veit ekki hvaða kaffi er hjá fyrrnefnda staðnum en heyrði að það væri ekkert sérstakt hjá Einsa kalda svo ég sleppti því. 

MYNDIN er af gamla Ísfélagshúsinu en ég fann út eftir þrotlausa rannsóknarvinnu að nú væri þar banki, einnig íbúðir. Lengst til vinstri sést í húsið sem hýsir Vigtina kaffihús. Nú er Ísfélagið flutt lengra til vinstri við þessa sömu götu, sýndist mér á bíltúrum okkar, og með aðsetur í kassalaga húsi sem hentar sennilega betur en það gamla.  

 

Kattahvíslari HimnaríkisVið heimsóttum hið flotta safn um eldgosið í Heimaey 1973, leyfðum strákunum að fara í sund og að spranga sem tókst bara vel hjá þeim. Á sunnudeginum skruppum við í búð og ég varð stjörnustjörf þegar sonur einnar af eftirlætis-Instagramstjörnum mínum afgreiddi mig. Ég tók Dustin Hoffman á hann (New York, 1991) eða lét sem ég þekkti hann ekki og nöldraði með dassi af kærleika yfir því að innkaupapokar væru ekki við kassann ... eins og hann réði því. Það er alltaf verið að reyna að stjórna okkur, takið poka ÁÐUR en þið farið á kassann, en sem gestur í Eyjum og búin að tæma töskuna mína af margnota pokum vegna ferðalagsins, var fúlt að þurfa að klofa yfir manneskjuna fyrir aftan  sig í biðröðinni við kassann (Hildu systur) til að ná sér í poka. En börn samfélagsstjarna eru friðhelg, finnst mér, og maður lætur þau í friði, eins og stjörnurnar sjálfar auðvitað líka.

Um kvöldið, það síðasta, jöpluðum við á sælgæti yfir Eurovision-myndinni um m.a. álfa Húsavíkur, alltaf jafnskemmtileg. Eina svindlið mitt frá 16:8-dæminu þar sem ég borða bara milli 12 á hádegi og 20. Og eftir að hafa náð okkur í almennilegt kaffi, enn einu sinni, frá Vigtinni, fórum við í biðröðina að Herjólfi. Við bryggjuna mætti okkur hroðaleg sjón, eða sundurkraminn bíll eftir bílalyftu Herjólfs svo við ókum skjálfandi inn í skipið. Ég hugsaði um hundana sem fá hvergi að vera nema á bílaþilfarinu þar. Það lifðu allir það af þegar ég og fyrrverandi eiginmaður minn (einn af þeim fyrstu) fórum reglulega með Akraborginni með hundana okkar. Við héldum okkur bara úti og hundarnir voru ekki lausir. Enginn amaðist við okkur. Mikið vona ég að dýrahatur sumra sem fara með völd fari minnkandi og við getum öll, menn og dýr (líka mávar), farið að lifa í sátt og samlyndi. Þó hvika ég ekki frá kröfum mínum um að vissir býflugnabændur hafi stinguflugur sínar alltaf í ól.

Myndin er af sérstökum kattahvíslara Himnaríkis sem ásamt móður sinni gætti kattanna á meðan þessi dásamlega kaffi-sprang og fleira-djammferð til Eyja var farin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 104
  • Sl. sólarhring: 300
  • Sl. viku: 2419
  • Frá upphafi: 1451614

Annað

  • Innlit í dag: 79
  • Innlit sl. viku: 1856
  • Gestir í dag: 76
  • IP-tölur í dag: 73

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Baldursbrár
  • Vigdís
  • 82 í framboði

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband