Ævintýri í strætóför

Mosi og KeliBorgarferð í dag því kattamaturinn var á síðustu gufunum ... þeir fá sérfæði, hjartans álagaprinsarnir, af því að Keli, sá hugumstóri pokaköttur da Kattholt, fær annars þvagsteina og það er bæði sársaukafullt og lífshættulegt. Þeir yngri njóta góðs af og ekki síst Mosi sem var ósköp venjulegur mattur húsköttur þegar hann flutti til mín um árið - en nú sérlega mjúkur og fagurgljáandi. En dýrt er það ...

 

Bílstjórarnir sem komu mér fram og til baka í dag voru ögn eldri og þroskaðri en stundum áður og rukkuðu mig báðir um fullt gjald sem ég lít á sem hrós eftir hremmingar sumarsins. Annað en 14 ára kvikindin sem gáfu mér tvisvar elliafslátt, eða einu sinni.

(Myndin er af Mosa og Kela og sýnir hvað ljósmyndir geta bætt á mann, kött í þessu tilfelli, en Keli virkar ansi þykkur hér sem hann er ekki. Við erum svo lík.)

 

Í strætóBílstjórinn sem skutlaði mér heim í kvöld er frá Rúmeníu og virkaði fyrst eðlilegur, þrátt fyrir heimalandið (Íslendingar alltaf á tásunum á Tene, þið vitið, Færeyingar drepandi grindhvali, Danir sjúklega nískir en ligeglad, Finnar þunglyndir og sífullir en ... hvað stendur Rúmenía fyrir?). Oft eru þessar lýsingar á þjóðlöndum bull og vitleysa, ýkjur og kolrangar staðalímyndir, aldrei hef ég t.d. komið til Tenerife ... en ég prófaði upp á grín að athuga hvort hvort bílstjórinn kannaðist við nafnið Drakúla, þetta voru sennilega leifar úr blaðamennskunni þegar ég var í sífelldri leit að góðum viðtölum og lífsreynslusögum og hikaði ekki við að spyrja og spjalla. Nú er ég meiri mannafæla.

Bílstjórinn leit upp frá seinvirku strætóborgunarvélinni og brosti, hann hélt nú það. Hann sagði án nokkurrar miskunnar að hann ætti heima í 40 kílómetra fjarlægð frá kastalanum! Kastala Drakúla! Þegar ég sá augntennur bílstjórans glampa græðgislega fylltist ég þakklæti í garð Hildu systur fyrir hvítlaukskartöflurnar sem hún bauð upp á með kjúklingnum í kvöld. Með hvítlauk í blóðinu var ég ábyggilega ögn minna girnileg. Hilda af ætt Ísfólksins norður í Flatey er næm og hefur sennilega fundið á sér að stóra systir myndi lenda í einhverjum hryllingi og kartöflur koma sér alltaf vel.

 

Ég þóttist lesa alla leiðina (í Storytel-lesbrettinu) en löng og greindarleg augnhárin huldu rannsakandi augu mín sem fylgdust grannt með bílstjóranum en við vorum óvenjulega fljót á Skagann. Vissulega fremur fáir farþegar miðað við næstum fullan vagn fyrr í dag, og hvergi stoppað nema í Ártúni, en mér finnst vel koma til greina að við höfum flogið einhvern hluta af leiðinni. Ekki spyrja mig af hverju mér finnst það - bara einhver sterk tilfinning sem ég fékk og gæsahúð á Kjalarnesi.

 

AndlitsrúllaNæstum komin á Garðabraut stóð ég hægt upp og fálmaði óstyrk eftir bjöllunni. Það var ekki myrkur í vagninum en samt ríkti algjört myrkur hjá tökkunum sem buðu upp á blástur, nudd, fríhafnarbjöllu og ... bjölluna sem ég leitaði að, þessa til að fá vagninn til að stöðva áður en illa færi. Þessi bílstjóri myndi ekki stoppa ef ég bæði hann um það, bjallan eða út á Akratorgi-endastöð þar sem ekkert hefði bjargað mér nema ef Frystihúsið-ísbúð væri enn opin.

 

Nokkur afar grunsamleg atriði: 

-Hann vissi aldur minn, rukkaði mig um fullt gjald án þess að spyrja (nema nýja hrukkustraujárnið sé byrjað að virka). 

-Hann býr nálægt meintum blóðsugukastala í heimalandinu.

-Það var ekki sólarglæta í vagninum.

-Hann þorði ekki að vera með Útvarp Sögu á í vagninum. Það abbast nefnilega ENGINN upp á Arnþrúði frænku.

-Það var engin leið að giska á aldur hans ...  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 160
  • Sl. sólarhring: 322
  • Sl. viku: 1677
  • Frá upphafi: 1453552

Annað

  • Innlit í dag: 152
  • Innlit sl. viku: 1401
  • Gestir í dag: 151
  • IP-tölur í dag: 148

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband