Loksins almennilegt partí en ... furðufréttir af kóngi

Með flottum konumSamkvæmislíf mitt hefur dregist nokkuð saman (verið afar sorglegt) síðustu árin (áratugina) og í raun aðeins eigin afmælisveisla í ágúst sem munar um. Þangað til í dag upp úr klukkan fimm. Þá fórum við stráksi og Inga vinkona í almennilegt partí í Iðnó í Reykjavík.

Drengurinn hitti stjörnurnar sínar, vissi fyrir fram bara af Katrínu, en varð mjög glaður þegar hann sá Áslaugu Örnu. Ég hef vitað lengi að honum fyndist hún æði og sagði stundum til að kæta hann: „Hei, kærastan þín er í sjónvarpinu,“ og uppskar mikinn hlátur. Ég sagði Höllu frænku frá þessu, hún var á sama boðslista og ég, og hún hvatti mig til að kynna þau tvö. Áslaug reyndist vera algjört yndi og ekkert mál að ég fengi að taka mynd af þeim tveimur saman. Glaðasti drengur í heimi trúði því varla að þetta væri að gerast ... Hugrekki okkar jókst við svona fallegar móttökur svo næsta fórnarlamb var sjálf(ur) forsætisráðherra sem var heldur betur til í að vera með á mynd með svona sætum Skagamanni.

RitöfundurNú fer að verða komið ansi flott myndasafn og mál til komið að láta prenta myndirnar út, ramma inn og hengja upp á vegg. Hann á myndir af sér með flottasta fólki í heimi: Páli Óskari, Herra Hnetusmjöri, Lalla töframanni og jólasveininum og nú bættust tveir ráðherrar í hópinn. Bjarni Ben var vissulega á staðnum en fékk að vera í friði þar sem drengurinn kannaðist ekkert við hann en ég var til öryggis tilbúin að hóta öllu illu: „Veistu að ég þekki tengdaföður þinn? Hann á afmæli 12. ágúst eins og ég (og Sveinn Andri og Ásdís Rán og Halldóra Geirharðs) og fyndist sjálfsagt að drengurinn fengi ...!“ Verst samt hvað Baldvin er indæll og sennilega ómögulegt að hræða nokkurn með honum. Nei, ég var að pæla í leiðinni í því að biðja BB um að hætta með uppgreiðslugjald á lánum Íbúðalánasjóðs, skipta sumum Jónum út hið snarasta og fleira mikilvægt - en þetta var partí og í partíum er stranglega bannað að tala um stjórnmál, trúmál, fjármál og sjúkdóma.

 

Og nei, þetta var ekki ríkisstjórnarpartí og ég sérstakur ráðgjafi og hirðbloggari þar, eins og auðvelt væri að giska á, heldur fínasta útgáfuboð. Sem betur fer fann ég ekki kampavínið (nennti svo sem ekki að leita) því kampavín hefur stundum of hressandi áhrif ... Slúður: Ónefndur eldri rithöfundur ætlaði að fremja hinn fullkomna glæp þarna í Iðnó og ræna sögu um glæp. Ung kona stöðvaði gjörninginn og las honum pistilinn. Tek undir með frænku (hún var vitni að þessu) sem leggur til að skáldið fái sent eintak af bókinni með skilaboðunum: Þú gleymdir þýfinu

 

Larry forsætiskötturÉg hef reynt að vera ótrúlega jákvæð (hann hefur breyst-jákvæð) í garð Karls III (sjá færsluna: Ég vissi það, ég vissi það). Hann var að missa mömmu sína, karlgreyið, og taka við veldissprotanum ... mun síðar en hann vonaði, held ég, væri pottþétt á verktakalaunum sem þjóðhöfðingi byggi hann á Íslandi (sbr. Boga).

En ... ég fékk þær fúlu fréttir nýlega að Karl væri kattahatari (má það bara?) og er virkilega þakklát fyrir að hann sé ekki forsætisráðherra Bretlands, hvað yrði þá um Larry? Það er auðvelt að elska bæði hunda og ketti, yðar hátign.

Búseta mín á 3. hæð er líklega eina ástæðan fyrir því að ég er ekki með hund líka. Ég náði að klappa dýrlegum hundi í Grundarfirði um helgina, eigendur: kaffismekkkonur frá Stykkishólmi. Og í kvöld Husky-hvolpum við Iðnó, mjög kátum og til í klapp á milli þess sem þeir reyndu að veiða gæsir og svani við Tjörnina.

 

Það kom upp viss söknuður í kvöld eftir elsku höfuðborginni, þar sem ég bjó svo lengi. Lyktin, hávaðinn, ljósin, stemningin ... en ég held samt að það yrði ekki auðvelt að rífa sig frá Himnaríki, sjónum mínum, öldunum, fólkinu, Skagahundunum, Einarsbúð og svona ... Halla frænka stakk upp á því að ég fengi mér sumarhús/sumarbústað í Reykjavík. Ég yrði þá að vinna feitt í lottói eða gifta mig til stórfjár, hugsaði ég döpur því það eru komin hátt í 20 ár síðan líkurnar á því að ég lenti í hryðjuverkaárás jukust til muna ... og ég man ekki líkurnar í svona happdrættum og lottóum, þær eru eiginlega engar. Mig dreymdi samt nýlega fyrir peningum. Draumnum verður ekki lýst hér, ekki á þessu pjattaða bloggi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 206
  • Sl. sólarhring: 299
  • Sl. viku: 1919
  • Frá upphafi: 1453080

Annað

  • Innlit í dag: 183
  • Innlit sl. viku: 1572
  • Gestir í dag: 180
  • IP-tölur í dag: 179

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Tengdamömmur
  • Kamilla, Inga, Gerry
  • Frændfólk mitt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband