Óútskýranleg höfnun og símtal ársins

Thom YorkeSíminn hringdi.

Thom: „Já, sæl, þetta er Thom.“

Gurrí: „Tom í Conway, Tom hennar Elfu?“

Thom: „Nei, ég heiti Thom Yorke. Mér bárust af því fregnir að þú hefðir fundið þér nýja uppáhaldshljómsveit, einhverja öskrara, Age of Terror-eitthvað, svona Thursaflokkurinn á sterum, ef heimilidir mínar eru réttar.“

Gurrí:„Ég held alveg mikið upp á ykkur en ég bara-“

Thom: „Er það út af því að við notuðum orðið fokk í Creep?“ greip hann fram í.

Gurrí: „Nei, alls ekki, „só fokking special“ passaði bara ágætlega,“ sagði ég og bætti ákveðin við: „Ekki gleyma því að ég skrifaði heilsíðugrein í eldgamla Mannlíf um Radiohead án þess að vita nokkuð meira en nafnið á þér og að þið væruð frá Oxford, ég mærði virkilega guðdómlega millikaflann í Paranoid Android ...“

Thom: „Viltu kannski að við förum að öskra meira og mögulega við undirleik Sinfó? Myndir þú þá mæta á tónl-“

Þarna vaknaði ég og með nístandi samviskubit, maður gleymir ekki gamla uppáhalds þótt nýtt fáist, ég skellti Street Spirit á fóninn og líðanin lagaðist. Hel er vissulega nýjasta uppáhaldslagið mitt í öllum heiminum og ég er að hlusta á það núna, ætla að hlusta á það aftur og aftur þangað til ég hætti að fara að skæla á einum hrærandi hápunktinum sem hefst á 5.01 og nær algjörum toppi á 5.24 og til enda. Bið hér með eigendur verslana að spila þetta lag alls ekki búðum sínum í aðdraganda jólanna, það yrði nú laglegur fjandi að bresta í grát í miðjum jólainnkaupum kannski stödd í fallegri gjafavöruverslun.

 

Bankinn minn hatar migSíðustu árin hef ég þjáðst af óútskýranlegri hálfgerðri höfnunartilfinningu. Þetta er sennilega ekkert persónulegt þótt ég taki það til mín. En ég man svo greinilega eftir því hvað ég var alltaf velkomin í bankann minn í bænum, líka í útibúið hér á Akranesi eftir að ég flutti hingað. Einn daginn var bankinn bara farinn, hættur og fluttur, og mér sagt að stunda bara bankaviðskiptin heima í tölvunni minni, eða fara í útibúið í Mosó, sem strætókerlingin ég gerði nú aldrei en svo hætti það líka. Svo fór að kosta mig peninga að hringja til að spyrja um eitthvað sem ég fékk ekki einu sinni svar við svo ég hætti að hringja. Og ef ég fer í ókunnuga banka mætir mér sums staðar kuldalegt viðmót af því að ég er hjá óvinabanka, og þarf að borga háar fjárhæðir fyrir að fá að borga með óhreinu korti mínu, sennilega fyrir alþrif á tæknibúnaði bankans. Svo ég fer helst ekki í banka lengur. Banki 1, Gurrí 0. Já, og hvar eru borðdagatölin? Ef ég dirfist að láta sjá mig í bankanum þá ...  Þú hlýtur að geta sett þessi rafrænu skilríki sjálf í símann þinn-viðmótið og ... ertu ekki með aðeins of aldraða kennitölu til að vera með gemsa?-svipurinn.

Svo fór strætó að vera með stæla, ekki bílstjórarnir, þeir bjarga þessu fyrirtæki, nema viss pólskur c.a. 14 ára bílstjóri sem sér ekki muninn á 64 ára konu og 67 ára konu.

Ég hefði átt að sjá hættumerkin þegar biðstöðin við Ártún hætti að vera upphitað hús fyrir neðan veginn, og varð að fráhrindandi ísköldum biðskýlum sem hafði verið safnað saman víða að og sýna vissulega sögu biðskýla síðustu ára en það er vont fyrir smekklega konu eins og mig að standa þarna þar sem ekkert er í stíl. Og það við Vesturlandsveg þar sem allir sjá mann. Tapað-fundið er komið í höfuðstöðvarnar og einfaldast að komast þangað á leigubíl ... Svo átti að bjarga öllu með Klappinu ... sem ég halaði óvart niður af hvatvísi þegar ég reyndi að virkja út á land-greiðsluappið. Hef ekki enn náð að koma því í gang svo ég þarf að flytja í bæinn ef ég á að geta notið ferða strætisvagna. Ég má sem betur fer borga bílstjóranum mínum á leið 57 beint með debitkorti eða peningaseðlum / klinki en ef eigandi Pfaff fær einhverju ráðið verða peningar aflagðir (af því að allir sem borga með peningum vinna svart og stunda peningaþvætti) og ef Rússar eyðileggja innviði okkar, t.d. internetið, get ég ekki borgað með debitkorti og þá kæmu seðlar sér vel. Hugsa samt að við höfum fengið marga plúsa frá Pútín fyrir að henda rússneskju hjónunum úr landi í fyrradag, meira að segja þótt þau hefðu haft loforð um vinnu hér og ekkert vesen á þaim. Ótrúlega smart líka að útvega þeim lögmann sem sagan (fjölmiðlar) segir að hafi opinberað útlendingaandúð sína. Við erum flottust.

EinarsbúðMatvörubúðirnar margar eru nú orðnar heldur betur fjandsamlegar í garð viðskiptavina sinna (nema Einarsbúð, sjá mynd af Ernu kaupmanni ásamt Ellý og Halldóru, ljósmyndari: ykkar einlæg) og Kjötborg) og nú eigum við að afgreiða okkur sjálf. Kaffihúsin tíma mörg ekki að hafa opið lengur en til fjögur (takk, covid, halló, vínbarir), sáu hvað sparaðist í launakostnaði og vilja halda því þannig, nema Bókasamlagið við Skipholt og Te og kaffi í Garðabæ (sturlað gott tíramísú þar) sem er með opið lengur og ég veit af. Ég hef ekki fylgst nógu vel með eftir að ég flutti á Skagann.

Svo langar mig að benda Bankasýslu ríkisins á að ráða prófarkalesara, einn sæmilegur slíkur hefði komið auga á kommu-punkta misræmið sem kostaði okkur rúman milljarð sem heilbrigðiskerfið hefði alveg getað notað. Skil ekkert í BB að verja þetta klúður en Þjóðhagsstofnun Ríkisendurskoðun er víst sökudólgurinn í þessu öllu saman. Ekki hefði mér dottið það í hug og ég er spennt að vita hvert Sigurður Ingi vill svo flytja stofnunina, þarf ekki að fjölga störfum á Laugarbakka (heimabæ Ásgeirs Trausta) eða færa hana kannski alla leið til Akureyrar eins og Fiskistofu? Eldgos koma því miður ekki eftir pöntun fyrir ráðafólk en það hefði nú samt ýmislegt mátt gera með speglum, grilláhöldum, gömlum upptökum og aðstoð Veðurstofu Íslands til að dreifa athygli lýðsins. Af hverju er ég ekki ráðgjafi hjá ríkisstjórninni?    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 291
  • Sl. sólarhring: 320
  • Sl. viku: 1808
  • Frá upphafi: 1453683

Annað

  • Innlit í dag: 243
  • Innlit sl. viku: 1492
  • Gestir í dag: 234
  • IP-tölur í dag: 232

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sumardagurinn fyrsti 2024
  • Cartman
  • Cartman

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband