Tær illska ... blogg um fótbolta og grimmd

Það sem ég þurftiFótbolti hefur lengi leikið stórt hlutverk í lífi mínu. Auðvitað hélt ég alltaf með ÍA í gamla daga og geri enn, enda alin upp á Skaganum þar sem eru bestu kartöflurnar, fallegasta kvenfólkið og flottasti fótboltinn. Það var sjálf Kolbrún Bergþórsdóttir, gagnrífandinn minn í bókmenntaþætti á Aðalstöðinni snemma á tíunda áratug síðustu eða þarsíðustu aldar, áður en henni var rænt af mér og hún gerð fræg, sem vakti áhuga minn fyrir alvöru á þessari dýrð og dásemd sem HM og EM eru ... Kolla dró mig eitt sinn á Glaumbar þar sem við fylgdumst með Brasilíu og Ítalíu slást um gullið - þetta var leikurinn (1994) þar sem hinn ítalski Baggio brenndi af í vítaspyrnukeppni og tryggði með því Brasilíu sigurinn. Óhugnanlega spennandi vítaspyrnukeppni, svo hræðileg að ég fór að halda með Þýskalandi lengi á eftir. Aumingja ítalska parið, ferðafólkið, sem sat þarna innan um eintóma Brassafylgjendur. Kolla sagðist fylgjast með fótbolta út af lærunum á fótboltamönnunum (hún hefur sagt það opinberlega en ég held enn og vona að hún sé að grínast).

 

 

Kamerún ÍslandÉg fylgist alltaf það spennt með leiknum sjálfum að ég hef engan tíma til að horfa á lærin á þeim - ég trúi bara ekki að einhver horfi útlitsins vegna. Svo var HM-mót nokkru áður (1990?) þar sem ég og gamli klúbburinn minn komst á forsíðu virts dagblaðs (Alþýðublaðsins) því við héldum svo grimmt með Kamerún. Sem betur fer var netið ekki komið til sögunnar, því gat enginn eyðilagt stemninguna með því að skrifa: Er þetta frétt? En ég hef síðan verið kölluð forsíðustúlkan af vinum mínum og ættingjum úr Þingeyjarsýslu.

 

Frekar mörgum árum seinna fór ég að verða vör við aðeins of margar tilviljanir í kringum mig, jafnvel samsæri eða ég veit ekki alveg hvað ég á að kalla svona illsku þegar ég áttaði mig á því hvað var í gangi. Ég fór sífellt oftar að segja eitthvað á borð við: 

„Bíddu nú við, Hilda, hjartans kæra litla systir, HM hefst á eftir og við á leiðinni til Stykkishólms í orlofshús! Er ekki örugglega sjónvarp þar?“ Jú, sjónvarp var þar og reyndist í lagi en grillið ónýtt sem mér var nú nokk sama um fyrst sjónv- 

Ég sé sjaldnast framan í systur mína þegar ég rek upp öll þessi ramakvein yfir að hafa planað ferðalögin okkar með svo löngum fyrirvara að ég gleymi að gera ráð fyrir HM en nú eftir að grunsemdir mínar kviknuðu finnst mér líklegt að hún hafi ætíð glott grimmdarlega um leið og hún sagði: „Æ, æ.“

 

Ferðalögin okkar næstu árin innihéldu nánast öll eitthvað svipað. Ofboðslega mikilvægir leikir sem ég neyddist kannski til að horfa á í gegnum litla gemsann minn (jafnvel hljóðlaust) á meðan við vorum kannski úti að borða í einhverju krummaskuðinu eða ég þurfti að gera mér upp skyndileg veikindi sem kröfðust þess að ég yrði í friði einhvers staðar í sumarbústað eða káetu eða aftursæti. Ég á ótal margar átakanlegar sögur af því þegar reynt var að hafa af mér fótboltaleik. Fólkið sem þekkir mig best veit að ég keypti ekki Himnaríki eingöngu vegna sjávarútsýnis og Einarsbúðar, heldur vegna þess að fótboltavöllurinn á Akranesi sést svo vel út um eldhúsgluggann hjá mér.

FerðalögNúna á HM 2022 hef ég reynt að gæta mín afskaplega vel og takmarkið er að missa ekki úr leik. 

Ég hef kvartað, aðallega í hljóði, nöldrað og verið undrandi yfir því að sjá hvergi dagskrána yfir leiki, ekki einu sinni þarna fyrst þegar vel var vitað hvaða lið spiluðu saman ... en ég kveikti á sjónvarpinu og sá með aðstoð fjarstýringarinnar hvað dagurinn bauð upp á í fótbolta. Ég fann hvergi dagskrá, í alvöru. 

En loksins nú í kvöld hugkvæmdist mér að gúgla HM á ensku, world cup 2022, og komst nánast samstundis inn á almennilega síðu sem sýnir það sem ég vildi allan tímann sjá, ekki bara fréttir af leikjum dagsins, úrslitin, skandala, fýluköst Ronaldos og slíkt, sem ég hef eingöngu fundið á íslenskum miðlum þegar ég slæ inn HM 2022 dagskrá. Það finnst vissulega betra fólk en ég í að gúgla en samt ...

Mynd frá Akureyri: Hversu mörg ferðalög þurfti eiginlega áður en ég áttaði mig á samsærinu?

Gleði mín yfir að hafa loks fundið dagskrá keppninnar (sjá efstu mynd) stóð ekki lengi því sannleikurinn opinberaðist fyrir mér þegar ég horfði vantrúuð á dagsetningarnar sem íslenskir fjölmiðlar hafa haldið leyndum fyrir mér. Nánast komin jól, er það næsta sem komst réttri dagsetningu á úrslitaleiknum sem verður 18. desember. Þið sáuð það fyrst hér. Það verða vissulega átta liða úrslit föstudag og laugardag sem mér sýnist að ekki verði hægt að eyðileggja fyrir mér. Og þó, sumir eru óhugnanlega ráðsnjallir ...

Já, og með því að hafa sýnt þá snilli að gúgla á ensku næ ég mögulega að bregðast við illskunni í sinni verstu mynd eða lymskulegri tilraun til að hafa af mér úrslitaleikinn, þar sem England berst sennilega við Portúgal eða Argentínu, mögulega Marokkó, um gullið. Systir mín ætlar nefnilega að halda stórt boð þennan dag og þegar leikurinn hefst verður jólasveinninn sennilega rétt ófarinn. Þótt hún eigi afmæli þennan dag er þetta samt sérlega ómanneskjuleg framkoma við stóru systur sína! Ég þarf mögulega að gera mér upp hægðatregðu og læsa mig inni á baði til að ná að horfa á leikinn. Ég gæti líka þóst vera með höfuðverk rétt fyrir þrjú og fengið að leggja mig fjarri gleði og glaum, en með snittur og kaffi og símann í vasanum, það er dömulegra. 

Systir mín er sérlega indæl ... nema þegar kemur að fótbolta og mér, þá er eins og færist yfir hana biksvart miskunnarleysi sem sést einna helst í mjög hryllilegum hryllingsmyndum. Ég leyfi ykkur að fylgjast með framvindunni, ekki fara langt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 334
  • Sl. sólarhring: 364
  • Sl. viku: 2649
  • Frá upphafi: 1451844

Annað

  • Innlit í dag: 246
  • Innlit sl. viku: 2023
  • Gestir í dag: 212
  • IP-tölur í dag: 208

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Grimm
  • Í kringum ljósastaurinn
  • Baldursbrár

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband