Stjörnur, löggumál, greind og ristabrauðshneyksli

Fisher SpasskyAfmælisbarnið sendi mér skilaboð eftir síðustu bloggfærslu og gestirnir góðu sem ég spjallaði svo mikið við í veislunni undir jól, voru svo sem bara venjulegt fólk eins og ég og þú. Hann, þessi sem mætti í stuttbuxunum, vinnur fyrir Red Hot Chili Peppers, hver gerir það svo sem ekki? Og ýmsar fleiri flottar hljómsveitir, sem og Penny, konan hans. Og Sara Lee sem ég spjallaði líka nokkuð við er bassaleikari King Crimson, hver hefur svo ekki verið það? Hún hefur líka spilað með B52, Robert Fripp league of gentlemen, Gang of Four og fleiri hljómsveitum ... og er fyrrum kærasta Gail Ann Dorsey sem var bassaleikari Bowies ... 

 

Það hefði sennilega voða litlu breytt þótt ég hefði vitað þetta fyrir partí, aðdáendur eru svo leiðinlegir, ég vil ekki vera þannig, það fann ég eftir að hafa afplánað heilt ár sem Ungfrú Skagasætust fyrir einhverjum árum. Ég lærði líka mína lexíu þrettán ára þegar Friðrik Ólafsson skákmeistari, þá stórfrægur, kom í heimsókn ásamt Auði, konu sinni, skömmu eftir að við fluttum frá Akranesi. Það eina sem mér datt í hug var að segja við hann: „Finnst þér gaman að tefla?“ Ég skammaðist mín lengi á eftir en ég var bæði lömuð af feimni og hrifningu. Ef sama ríkisstjórnin og þá var væri enn við lýði væru skákmeistarar enn hinar einu sönnu rokkhetjur og stórstjörnur á Íslandi og allt tónlistarbull næstum bannað í sjónvarpi og útvarpi, eins og var upp úr 1970 og ég þurfti að passa börn og vinna með skóla til að geta keypt mér plötur sem ég spilaði nánast í einrúmi heima, annað hefði getað spillt mér. Annars eru skákmeistarar frábærir, held ég, fyrir utan kvenhatarann þarna.

 

Frozen-dótNokkrir sem fengu ljótar jólagjafir höfðu samband við mig, alveg brjálaðir, og sögðu að víst yrði að koma skilaboðum til smekklausra gefara og hvað væri betra til þess en sjónvarpið? Fréttirnar? Þetta væri allt planað.

„Já, en fólk gefur af góðum hug, er þetta ekki bara vanþakklæti í fólki?“  andmælti ég.

„Hefurðu aldrei heyrt minnst á stríðnar ömmur, kvikindslega frændur, hræðileg systkini?“

„Unei,“ sagði ég, en svo mundi ég eftir litla rúsínupakkanum sem Hilda systir laumaði í jólapakkann til mín nú í ár og leyndist inn á milli annars glæstra gjafanna frá henni. Þótt ég hafi fengið kurteislegt hláturskast hefur reiðin bullað og mallað í mér síðan, hún veit að ég hata rúsínur (möndlur, döðlur og hnetur). Ef ég hefði ekki skilið pakkann eftir í Kópavogi og hún laumað honum aftur í pjönkur mínar áður en ég sneri á Skagann og ég laumað honum svo á hana eftir litla boðið mitt á jóladag, hefði ég án efa skilað honum í Einarsbúð - án nokkurrar miskunnar. Þannig að nú er ég komin í hinn hópinn.

 

LögfræðingurÉg hef líka snúist varðandi stóra hryðjuverkamálið, var svo sem aldrei búin að mynda mér ákveðna skoðun þar. Ef ég væri lögmaður annars ungu mannanna, hefði ég trúlega notað sömu aðferð og afmælisbróðir minn, Sveinn Andri (12. ágúst, eins og Ásdís Rán, Krossinn, Halldóra Geirharðs, fyrstu stöðumælarnir í Rvík (1957) og fleira stórfenglegt). Ljóshærðir, bláeygðir, kristnir og voða góðir, bara að djóka, myndi ég segja, það væri starf mitt að losa þá úr varðhaldi sem fyrst ... og eftir ansi mörg viðtöl í fjölmiðlum tækist mér Sveini Andra að snúa almenningsálitinu þeim í hag, alla vega að einhverju leyti ...

Auðvitað á lögreglan að taka þetta alvarlega. Menn með fullt af vopnum og búnir að finna skotmörk. Kommon. Það þótti einu sinni fyndið og hrikalega ótrúverðugt að skrifa glæpasögur sem gerðust á Íslandi, nú hafa slíkar bækur skilað milljörðum í ríkiskassann. Held að draumur sumra um að vopnavæða lögregluna tengist þessu ekki, það var komið upp löngu áður og í því er ég glerhörð á móti Jóni ráðherra eins og í svo mörgu - öllu?

 

Í dekrinu hjá Hildu systur undir jól uppgötvuðum við ótrúlegan sannleika sem við höfum haft hálfa öld til að komast að en ekki tekist.

AlvörubrauðÞorláksmessumorgunn

„Ég er að fara að rista mér brauð, kæra frábæra og fagra stóra systir. Á ég að rista handa þér?“ spurði Hilda ljúfmælt.

„Já, þó það nú væri að maður fengi einhverja þjónustu á þessu heimili,“ hreytti ég út úr mér kurteislega.

Hún ristaði, smurði og allt ... og á diskinum mínum endaði dökkbrúnt, hart brauð OG SULTAN VAR UNDIR OSTINUM! Mér brá ofboðslega en stillti skap mitt af því að það voru að koma jól. Eftir að hafa talið upp á tvær milljónir sagði ég rólega en röddin skalf samt:

„Ef þú einhvern tímann gerir aftur svona brauð fyrir mig, viltu þá hafa það léttristað og sultuna ofan á ostinum?“

Við hlógum þótt við værum í raun sótrauðar af illsku og undrun yfir ósmekklegheitum hvor annarrar en slagsmál eru bönnuð í minni fjölskyldu í desember svo við féllumst bara harkalega í faðma. Skemmtileg uppgötvun samt - höfum við virkilega aldrei snætt saman svona morgunverð? Hvaðan fékk systir mín þennan skelfilega smekk á ristuðu brauði með osti og sultu? Sumt er okkur kannski ekki ætlað að vita.

En í tilefni jólanna keypti ég graflax og graflaxsósu á rúgbrauð sem ég keypti líka. Laxinn var bara til í stórum umbúðum, ekki litlum og krúttlegum áleggsbréfum, heldur hægt að tala um skrokk ... og pottþétt eldislax, ekki góður nema kaffærður í sósu. Endar sennilega sem fuglamatur. Snökt.

 

Ég tók greindarpróf á netinu eitt kvöldið og er með greindarvísitölu upp á 150. Var ósátt við að fá bara 130 en sem betur fer var gefinn sá möguleiki að prófa aftur. Mér fannst t.d. fúlt að vita ekki  nafn á einhverri stofnun innan Bandaríkjaþings og missti þar með mikilvægt stig sem ég náði að svara rétt í annarri lotu. En ég vissi ótrúlega margt, hvaða tungumál er talað í Brasilíu, við hvaða hitastig á Celsíus frýs og margt misflókið ... Til að prenta út skírteinið og sanna þetta fyrir blogglesendum mínum þurfti ég að borga eitthvað svo líklega hefur þetta ekki verið svo merkilegt, en alveg pottþétt marktækt. Your strongest category is Visual Perception were you scored highter than 99% of people tested ... hvað sem það þýðir. 

„Wow. You have Ph.D.-level knowledge here. Great job.“

Retry?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 277
  • Sl. sólarhring: 369
  • Sl. viku: 1794
  • Frá upphafi: 1453669

Annað

  • Innlit í dag: 233
  • Innlit sl. viku: 1482
  • Gestir í dag: 225
  • IP-tölur í dag: 223

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband