Naumlega sloppið við hryllingsnágranna ...

GlerhálkaLeigubílstjórinn og ég erum fínustu kunningjar eftir ferðir fram og til baka frá tannlækninum í dag. Við náðum meðal annars að tala um fjárans Hvalfjarðargöngin sem nánast eyðilögðu Akranes en hér áður fyrr störfuðu ellefu leigubílstjórar hér og við vorum með þrjár hannyrðabúðir og fullt af alls konar sem hvarf með Akraborginni. ELLEFU! Við hneyksluðumst líka á litlum sandburði á gangstéttar en ég veit svo sem að ófærafyrirgangandi-bílastæðið fyrir framan Himnaríki er ekki á vegum bæjarins, EN SAMT var gott að nöldra. Sennilega er ég eini íbúinn hér sem ekki á bíl svo það yrði ódýrara fyrir húsfélagið ef íbúarnir skiptust á að skutla mér til tannlæknis (mæting næst eftir ár) en að láta sandbera. Ég get stundað mína „daglegu“ hreyfingu úti á svölum bara. Sjúr.

 

Á myndinni virðist alls ekki jafnhált og reyndin er en á henni má sjá nýjasta uppáhalds-Skagamanninn minn bruna í burtu eftir að hafa komið mér heilli heim. Eins og sjá má er gott veður hér að vanda og Skaginn er ansi snjóléttur miðað við marga aðra staði en hálkufjandinn lætur alltaf finna fyrir sér. Á neðri myndinni sem snýr í suður, að Langasandi, eins og sjá má, er ástandið síst betra. Endalaus klaki ... Hvar er sandfok (frá Langasandi) þegar maður þarf á því að halda? 

 

LangasandsmeginUndanfarið hef ég verið nokkuð dugleg við að HLUSTA á bækur á Storytel í þeim tilgangi að drífa í að brjóta saman þvottinn og taka niður jólin (eitt stórt hvítt jólatré, tvö glær glerjólatré úti í glugga, tvö litrík keramikjólatré, annað í eldhúsinu, hitt á baðinu, hmmm). Hlustaði á tvær bækur eftir sama höfund sem les sjálfur. Þegar svefnherbergi kemur við sögu les höfundur alltaf svefnEherbergi. Svo sem ekki einn um þetta, síður en svo. Ég man eftir þessu síðan ég var lítil, mamma talaði svona og margir fleiri. Ég man líka eftir útvarpsviðtal við Eirík Rögnvaldsson sem kenndi mér íslensku eina önn undir aldamót. Í viðtalinu talaði hann um (ef minni minn svíkur ekki) þá tilhneigingu okkar að bæta inn staf til að gera orð liðugri á tungu ... að t.d. ruslfata hefði orðið að ruslAfötu, eitthvað sem við segjum öll. Nú legg ég til að fyrst fólk virðist ætla að samþykkja ógeðsorðið ungAbarn (ekki UNGAbarnasund samt) í tal- og ritmáli að það íhugi líka að taka upp svefnEherbergi fyrst það hefur verið svona lengi í málinu. Mjög lipurt. Nema ... ef fólk vill segja svefnherbergi, hvort það vilji ekki líka segja ungbarn? Nánast enginn munur á lipurleika! 

 

Nágranni frá helvítiÉg fékk símtal frá vinkonu minni í gær. Hún sagði mér meðal annars frá því að íbúð í stigaganginum hennar hafi verið á sölu og væri nú seld, en áður en hún seldist hafi áhugasamur mögulegur kaupandi hringt í hana til að njósna. „Ekkert að marka lygina í þessum fasteignasölum ...“ hnussaði konan og það gaf tóninn. Vinkona mín heyrði að þessi kona, væri á aldrinum old og grömpí, og ansi hreint sérstök með sérlega andstyggð á börnum. Kerlan sagðist vilja frið, vildi geta gengið um nakin heima hjá sér en bætti við að hún færi vissulega í föt ef einhver kæmi í heimsókn sem væri nú sem betur fer ekki oft. Hún vildi m.a. vita hvort þarna reykti ógeðsfólk úti á svölum hjá sér og kastaði stubbum niður, og fá á hreint hvort þetta trampólín í garðinum væri mikið notað. Vinkona mín sagðist ekki vita um reykingavenjur fólks í húsinu en trampólínið væri ansi vinsælt, í notkun nánast allan sólarhringinn yfir sumarið en hún fyndi ekki fyrir hávaðanum í krökkunum þar því hún notaði eyrnatappa ef lætin væru mikil. Kerlan fussaði og sagðist ekki vilja slíkt í eyrun á sér. Spurði svo hvort væri mikill umgangur barna í stigaganginum. „Ekkert svo,“ sagði vinkona mín, yfirleitt ekki eftir tíu, ellefu á kvöldin. Hún sagðist bara hækka duglega í sjónvarpinu ef einhver væri með of mikil læti og hún kannski að horfa á fréttirnar. Hún sagði kerlunni að á hæðinni fyrir ofan íbúðina sem var til sölu byggi kona sem spilaði á píanó, oft mjög fallega en því miður stundum ómstríða nútímatónlist, og notaði þá hægri pedalann aðeins of mikið á meðan hún hamraði á hljóðfærið. Það væri ábyggilega hægt að biðja hana um að spila lausar ... Jú, það væri því miður ansi hljóðbært í blokkinni og hún kviði því virkilega þegar Siggi á þriðju tæki eldhúsið og baðið hjá sér í gegn í sumar ... vinkona mín þorði ekki að segja meira til að konan áttaði sig ekki ... þetta með Sigga var vissulega rétt, en hitt var misjafnlega mikið ýkt. Allt er leyfilegt í ástum og stríði. Allt til að forðast nágrannastríð.  

 

Barnahatarinn missti greinilega allan áhuga á íbúðinni og þessi samhenti stigagangur fær senn ung hjón með barn í húsið. Mig grunar að vinkona mín verði hetjan í blokkinni eftir að þetta spyrst út. Kerlan slapp í raun líka ansi vel, það hlýtur að vera erfitt að búa í fjölbýlishúsi iðandi af lífi og vilja vera allsber í sinni búbblu með kröfu um frið og algjöra þögn í húsinu ...

 

Endalaust er ég þakklát fyrir mína dásamlegu nágranna. Ég reyndi til dæmis með valdi að hindra Hildi og Gumma í því að dirfast að flytja héðan um árið en af því að Hildur lofaði að bjóða mér í afmælið sitt losaði ég fjötrana, skilaði bíllyklunum þeirra, lét afturkalla nálgunarbannið á alla sendibíla nálægt húsinu, setti götunafnaskiltin uppi í hverfi á rétta staði og lagfærði sitthvað fleira sem ég hafði gert til að halda þeim. Bara ... ekki reyna að flytja úr húsinu mínu!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 31
  • Sl. sólarhring: 208
  • Sl. viku: 1548
  • Frá upphafi: 1453423

Annað

  • Innlit í dag: 30
  • Innlit sl. viku: 1279
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Cartman
  • Cartman
  • Ömmukaffi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband