Misheppnuð slökun og önnur vandræðalegheit

Bað í stöðuvatniÞægindahringurinn hefur hvað eftir annað verið rofinn síðustu vikur, ég er að tala um Storytel, get núorðið hlustað, ekki bara lesið rafbækur þar. Ég hef líka prófað mig áfram með að láta svæfa mig með lestri á bók, sefandi hljóðum og svo sérstakri róandi tónlist ... Í gærkvöldi langaði mig að prófa sérstakt slökunardæmi (önnum kafnar konur þurfa að læra slökun) þar sem flottur leikari les nokkrar slökunarsögur. Sú fyrsta hljómaði skringilega. Bað í stöðuvatni. Ég þoli ekkert blautt nema eigin sturtu heima eða lóðrétta rigningu en ég herti samt upp hugann og ýtti á play.

 

„Farið varlega og hreyfið ykkur ofurhægt þegar þið klífið yfir, eða látið ykkur svífa, ef þig getið, gaddavírsgirðinguna og gætið þess að rífa ekki fötin. Munið bara að það er rafmagn í henni svo best er að vera kloflangur. Verið alveg slök þegar þið jafnvel þurfið að kasta ykkur yfir en þúfurnar sem þið lendið á eru ekkert rosalega harðar og engin hætta á mauraþúfum hér á kalda skerinu okkar. Þau allra slökustu og minnst syfjuðu geta auðvitað leitað að hliði á girðingunni, en þar er reyndar líka gaddavír og enn sterkari straumur. Slakið bara á og hlustið á hljóðin í sveitinni, jarmið í litlu sætu lömbunum og baulið í litlu sætu kálfunum. Látið mykjulyktina ekki koma ykkur úr jafnvægi, reynið heldur að venjast henni. Þið eruð á leiðinni að íslensku stöðuvatni og þurfið að komast fyrst yfir jörð bóndans. Í þessari hugleiðslu er hann ekki vopnaður haglabyssu. Þegar þið komið að stórum skurði reynið að stökkva hægt, afslappað en örugglega yfir hann því enn er nokkuð langt að vatninu og best er að ná sem bestri slökun áður en þangað er komið, út af pöddunum. Og slaka. Látið sem þið sjáið ekki mannýga nautið í næstu girðingu. Það er mun rólegra í dag en í gær þegar það stökk á rafmagnsgirðinuna og reif hana þegar að sá síðasta slökunarhópinn koma. Reynið bara að ná róandi og slakandi augnsambandi við það en ekki veifa handklæðinu. Munduð þið ekki annars eftir handklæði? Og slaka. Ef þið komist fram hjá nautinu sjáið þið fljótlega glitta í ryðbrúnt stöðuvatnið. Finnið enn meiri ró og frið færast yfir ykkur. Látið ekki koma ykkur í uppnám þótt vatnið sé gruggugt, heldur leggist nakin ofan í það. Mjög hressandi vissulega svona ískalt, en slakið nú samt á hverjum vöðva og finnið værðina koma yfir ykkur. Ef þið farið óvart í kaf og gleypið mold og pöddur, ekki hika við að tyggja rólega og kyngja, hugsið ykkur bara að þetta sé kraftmikil kjötsúpa. Og stunga frá geitungi hefur ekki drepið neinn, eða jú, kannski en það er mjög sjaldgæft. Slakið bara á og ekki hugsa um ísbjörn. Nú ættuð þið að vera sofnuð.“

Auðvitað var þetta ekki svona, ég slökkti áður en þetta byrjaði almennilega, það er bara engin leið að fá mig til að slaka á í íslensku stöðuvatni og sofna, ekki möguleiki. Það eru fleiri sögur þarna, best að athuga hvort til sé róandi og slakandi saga sem gerist á friðsælli og þurrari stað. Kveðja, konan sem fer ekki einu sinni í sund!

Leiðrétting. Þetta heitir víst Bað í náttúrulaug en ég legg það algjörlega að jöfnu við stöðuvatn.

 

MatarboðVodka-brandarar hafa nú alfarið verið bannaðir utan heimilis. „Viltu vatn?“ spyr ég kannski ónefndan dreng og hann segist frekar vilja vodka og okkur finnst það alltaf jafnfyndið. Í matarboði nýlega þar sem voru kannski tíu, tólf manns, fór sá ónefndi að segja frá því að ég hafi drukkið rosamikið vodka í siglingunni um Karíbahaf jólin 2018. Sem voru miklar ýkjur, ég var líklega eini farþeginn um borð sem drakk aldrei kokteil (við sluppum við að kaupa vínpakkann (10 þúsund kall á dag) sem fólk hamaðist við að drekka fyrir til að tapa ekki fé) heldur varð ég fljótt þekkt á fimmta dekki sem fastakúnni á kaffihúsinu þar og þurfti bara einu sinni eða tvisvar að segja hvað ég vildi, síðan fóru viðskiptin fram þegjandi, fyrir utan góðan dag og takk fyrir. Og nei, ekki Irish coffee, heldur latte úr fínasta Lavazza-kaffi. Þrisvar á dag.

Sá ónefndi þrjóskaðist samt við að sverja upp á mig vodka því það var svo fyndið. Ég andaði léttar þegar talið barst að tedrykkju sem drengurinn stundar sjálfur grimmt en þá þurfti að segja að fósturmamman drykki oft róandi te. Ég harðneitaði því og sagðist hafa kannski tvisvar smakkað úr birgðum drengsins eftir að hann lagði fast að mér. „Nei, oftar,“ staðhæfði hann, og sagði svo lágt, „kannski þrisvar.“ Og nú halda eflaust einhverjir vinir mínir að ég sé komin upp á lag með valíum-te á milli þess sem ég marinera mig í vodka. Sennilega ekki samt, Inga vinkona þorir ekki í heimsókn eftir að kaffivélin bilaði, hún veit um ofurást mína á góðu kaffi. 

Við ræddum þetta samt við heimkomu og ég bað ónefndan um að mótmæla mér ekki þegar ég reyndi að leiðrétta, það skipti ekki máli hvort einhver hefði smakkað relaxing-teið frá Yogi tvisvar eða þrisvar sinnum síðustu árin, svona tal gæti komið illa út og ég kannski lent illa í fósturlöggunni. Hann flissaði. „Já, en þetta var svo fyndið ...“

En sem sagt, vinir og vandamenn hætta héðan í frá að heyra misheppnaða vodka-brandara frá okkur. Það verður án efa víða fagnað. Fimmaurabrandarar eru ekki allra. Ég er fáránlega veik fyrir þeim og get því kennt sjálfri mér alfarið um þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 21
  • Sl. viku: 409
  • Frá upphafi: 1445636

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 356
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Himnaríki 6. mars 2023
  • Himnaríki 21. mars 2024
  • Húsó

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband