Játningar úr himnaríki plús smá bold

Sundlaug og heitur potturEinhver vírus eða eitthvað virðist vera að ganga á Netinu ... virðulegasta fólk er klukkað, sumt jafnvel fjórum sinnum, og verður að opna hjarta sitt fyrir bloggvinum sem halda virkilega að þeir viti ekki allt ... Reyndi að taka saman eitthvað sem er kannski ekki endilega á allra vitorði ... án þess þó að afhjúpa öll fjölskylduleyndarmálin. Er búin að klukka Dodda og Þröst Unnar. Kann ekkert rosalega vel á svona leiki.  

Átta virkilega háalvarlegar og opinskáar játningar:

1)  Kann ekki að nota matarlím.

2)  Þoli sjaldnast tónleikaútgáfur af lögum.

3)  Hef ekki farið í sund í 20 ár, fyrir utan smásvaml í sundlaug í Hrútafirði á síðustu öld. Heitir pottar eru heldur ekki á vinsældalistanum.

4)  Finnst lax, silungur og slíkt ferlega vondur matur, nema reyktur.

5)  Leigði mér Bodyguard (Whitney Houston) á spólu eitt árið.

6)  Líður langbest í 10-15°C og forsælu ... sól er stórlega ofmetin til baða.

7)  Nagaði neglurnar í 40 ár. Er nýhætt af því að fólk hætti að skipta sér af því.

8)  Þoli ekki nísku, þá meina ég ekki sparsemi eða varkárni í fjármálum.

ANNAÐ:

Ástumálin: Ásta kíkti í stutta heimsókn í kvöld. Fæ sjaldan kvöldgesti á virkum dögum, eins gott að hún þarf að vakna klukkan sex eins og ég, annars værum við enn að spjalla! Spiluðum nokkur Metallica-lög á youtube.com og rifjuðum upp skemmtilega tónleika í Egilshöll. Afrekaði líka að ryksuga himnaríki í dag!

Boldið: Stefanía ÆTLAR að eyðileggja hjónaband Bridgetar og Nicks en fyrrum maður hennar, Eric, sem er líka pabbi Bridgetar, hótaði henni öllu illu ef hún blaðraði frá leyndarmálinu, eða því að Nick og Brooke, mamma Bridgetar, ætla að fórna sér og ást sinni fyrir hamingju Bridgetar. Þetta og samdráttur Jackie, mömmu Nicks, og Erics, pabba Bridgetar og fyrrum eiginmanns Stefaníu, hefur verið það helsta undanfarið. Lofa að fara að fylgjast betur með! Já, og Jackie ætlar ekki að leyfa Stebbu að skemma hjónabandið af því að hún Á þetta barnabarn og Stebba fær ekki að skipta sér af því. Svona ömmuslagur er alltaf spennandi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ég verð fertug á næsta ári. Þá ætla ég að hætta að naga neglurnar.

Jóna Á. Gísladóttir, 11.7.2007 kl. 22:14

2 Smámynd: Ragnheiður

Ætlaði að setja *skammastsínkall* en kallarnir virka ekki í bili

Ragnheiður , 11.7.2007 kl. 22:27

3 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

... fyrir hvað, kæra hross? Að spila Metallicu ... hata lax og silung ... vera hætt að naga neglurnar?

Guðríður Haraldsdóttir, 11.7.2007 kl. 22:37

4 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Sæl Gurrí góð!

Skemmtilegar játningar og ekkert svaðalegar haha! En veit ekkert um þennan játningaleik svosem.

En þú þolir tónleikaútgáfur hjá Metallica greinilega, þær allavega undantekningin sem sannar regluna!

Þessir tónleikar héðan eru til í músíkútgáfu, hefur þú heyrt?

Magnús Geir Guðmundsson, 11.7.2007 kl. 23:04

5 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ja, þetta voru nú myndbönd með þeim, ekki af tónleikum. Svo var Rick Wakeman, gamla útgáfan af Arthur, að vísu frá tónleikum en líktist skrambi mikið laginu af plötunni. Þegar ég hlustaði á miklu nýrri tónleikaútgáfu var lagið gjörsamlega ónýtt! En svona er þetta bara. 

Guðríður Haraldsdóttir, 11.7.2007 kl. 23:08

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Aldrei hefði ég trúað að þú lægir á þvílíkum leyndarmálum.   Nr. 4 og 7 er það eina sem ég hefði ekki sjálf getað skrifað.  Ertu viss um að pabbi þinn heiti ekki Baldur?  Er mamma þín mamma þín eða jafnvel amma.  Er mamma mín ekki mamma mín.  Systir hjálpaðu mér upp mér finnst ég vera að drukkna.

Love u.

Jenný Anna Baldursdóttir, 11.7.2007 kl. 23:14

7 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Númer 5 er eiginlega mesta játningin þar sem ég er formaður Whitney Houston-hatarafélagsins. Held að liður 4, hatur á laxi og slíkum óbjóði, sé vegna fjölda beina sem leynist í þessu ... æ, bragðið er heldur ekkert gott. Tókst að sporðrenna hálfu flaki af litlum silungi í hádeginu í dag með helling af salati ... en það var bara gert til að viðhalda gáfunum.

Guðríður Haraldsdóttir, 11.7.2007 kl. 23:19

8 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Þetta er sundlaugin í minni sveit

Hrönn Sigurðardóttir, 11.7.2007 kl. 23:22

9 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ég valdi sko flottustu sundlaugina á gúgglinu ... gaman að hún sé yðar, frú Hrönn!

Guðríður Haraldsdóttir, 11.7.2007 kl. 23:27

10 Smámynd: Nanna Rögnvaldardóttir

Þú kannt bara víst að nota matarlím. Ég minni á hvíta súkkulaðibúðinginn.

Þú hefðir bara átt að halda áfram fyrst þú varst einu sinni byrjuð, þá værirðu núna matarlímssnillingur.

Nanna Rögnvaldardóttir, 11.7.2007 kl. 23:32

11 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Hmm, Nanna ... hún Laufey vinkona var hjá mér og sá eiginlega um þetta allt. Hélt ég því virkilega leyndu fyrir þér?  Hugsa að ég hefði getað búðingin ein og óstudd daginn eftir. Nú fer ég bara að prófa mig áfram. Hvíti súkkulaðibúðingurinn er allt of góður til að búa hann bara til á tíu ára fresti ... 

Guðríður Haraldsdóttir, 11.7.2007 kl. 23:38

12 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Anna, stríðnispúki! Það kemur fyrir að ég óttast að fólk trúi því sem þú segir hérna í kommentakerfinu. Ég hef stundum grátbeðið þig að fá þér eins og einn fullkominn kaffibolla áður en þú leggur í hann aftur heim í Árbæinn en þú ert of snobbuð fyrir kaffið mitt! Svo bíð ég ekkert eftir neinum draumaprinsi ... hef alltaf sagt að vinkonur mínar hafi náð í síðustu góðu mennina. Held það ...

Guðríður Haraldsdóttir, 11.7.2007 kl. 23:51

13 Smámynd: Ólafur fannberg

leit við til að klukka þig gamla mín um 8 atriði um sjálfa þig Svo klukkaðu bara aðra 8 um það sama

Ólafur fannberg, 11.7.2007 kl. 23:54

14 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Skemmtilegt þetta klukk eftir allt saman og ekki er síður  skemmtilegt framhald af bold and the...

Edda Agnarsdóttir, 12.7.2007 kl. 01:46

15 Smámynd: Inga Dagný Eydal

Er sjálf undir sömu sökina seld hvað varðar matarlímið......fletti glaðbeitt fram hjá öllum uppskriftum sem innihalda matarlím, ekkert búðingastand á mínu heimili! Finnst miklu miklu verra að þú skulir hafa leigt The Bodyguard....og borgað með alvöru peningum fyrir? Þetta er alvarlegt athæfi og þú mjög hugrökk að játa

Inga Dagný Eydal, 12.7.2007 kl. 01:48

16 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Gott að fleiri kunna ekki á matarlím ... sneiði einmitt vandlega fram hjá öllu sem inniheldur það ... Já, þetta er skemmtilegt klukk ... líður stórum betur að hafa létt þessu með Bodyguard af sál minni ... argggg

Guðríður Haraldsdóttir, 12.7.2007 kl. 07:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 276
  • Sl. sólarhring: 335
  • Sl. viku: 2451
  • Frá upphafi: 1450990

Annað

  • Innlit í dag: 231
  • Innlit sl. viku: 1913
  • Gestir í dag: 222
  • IP-tölur í dag: 220

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Rauð útidyrahurð
  • Mosi og skugginn
  • Eldum rétt í kvöld

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband