Strætó í æð ...

Elsku elsku strætó á HlemmiSvo langt er síðan ég tók strætó síðast að ég gat ekki hætt eftir eina ferð, heldur ók með fjórum vögnum í morgun um ég veit ekki hvað mörg póstnúmer. Heimir var að keyra leið 27, þessi elska (Tommi er á seinni vakt) og Ásta sat fremst og gætti sætis míns eins og sjáaldurs augna sinna. Mjög margir ágirntust víst sætið á leiðinni Skrúðgarður - Garðabraut sem telur bara fjórar stoppistöðvar með endastöðinni. „Ég hélt að þú værir bara hætt að taka strætó,“ sagði Heimir vonleysislega, enda hinir farþegarnir örugglega óbærilega leiðinlegir, vanalega steinsofandi alla leið. „Ég er ekkert hætt að taka strætó, krúttið mitt,“ svaraði ég og hugsaði um vetrarfríið sem Ásta fer í í byrjun febrúar. Vonandi verður gott veður, sól og blíða á meðan. Held að Heimir sakni þess að gaf bílstjórunum alltaf Séð og heyrtið mitt á miðvikudögum þegar ég var búin með það. Eftir að Ásta fór að bjóða mér far hafa þeir þurft að horfa sorgmæddir út í buskann í hléunum sínum.

Efst í Lúmsku brekkunni í ÁrtúniFór alla leið í Ártún með Heimi á leið 27 og þar beið aukabíll leiðar 6 sem fór með mig niður á Lækjartorg. Ég var í mjög áríðandi erindagjörðum, þetta var ekkert rúntkjaftæði. Líkamsrækt dagsins kom þegar ég næstum hljóp upp Bankastrætið og náði að verða kúnni númer 2 í biðröðinni hjá Kaffitári. „Tveir latte út, mjólkin 150°F, engin froða, takk,“ sagði ég á starbökksku kaffimáli. Tek fram að hitamælar á kaffihúsum eru vanalega á Farenheit, ekki Celsius. Þetta er heitt kaffi en ekki sjóðandi viðbjóður! Ég horfði nokkuð stressuð á klukkuna ... sem vantaði 13 mínútur í átta ... hljóp niður Bankastrætið með límt fyrir drekkugötin á bollunum og nýbökuðu múffuna á milli þeirra í plastpokanum. Leið 1 var búin að koma við á stoppistöðinni á Lækjargötu og var stopp við ljósin. Ég horfði hundslegum bænaraugum á bílstjórann sem opnaði fyrir mér, þessi elska. Hans verður minnst í bænum mínum, Akranesi ...

Auðvitað náðum við upp á Hlemm á mettíma, en kl. 7.59 átti leið 18 að vera þar. Hann er aðeins á hálftímafresti núna og þessi áður kúffulli strætó var tómur næstum alla leið, enda hættur að fara Höfðana, næstum að Vogi, og svo upp Súkkulaðibrekkuna á leið sinni í Grafarholt ... hann dúllar bara mannlaus um Árbæinn, þar sem alla vega tveir strætisvagnar á annarri leið eru fyrir! Vona að við Skagamenn lendum á móti Reykjavík í átta liða úrslitum Útsvars þá get ég beðið Gísla Martein að redda þessu ... annars hætti ég að vera aðdáandi hans.

Strætó, strætóBílstjórinn á leið 18 er fyrrum bóndi úr Landeyjunum. Sonur hans tók við búskapnum og karlinn dreif sig bara í strætóakstur í bænum! Nú, hvernig veit ég þetta? Ég og bílstjórinn bonduðum þegar ég rétti honum appelsínugulan og gamaldags skiptimiða ... mjög afsakandi á svip. Sagði honum að við værum bara með svona skiptimiða í Skagavagninum. Hann fylltist áhuga á mér, held ég örugglega, og spurði mikið hvernig Skagastrætó gengi og hve lengi við værum á leiðinni, hversu margir farþegar og fleira. Á Snorrabrautinni vorum við orðin mestu mátar. Þrátt fyrir spjall horfði ég vel í kringum mig, enda langt síðan ég hef rúntað um Reykjavík í strætó.

Við töluðum eins og verstu utanbæjarmenn, hneyksluðumst á akstursmáta borgarbúanna, máttum nefnilega horfa upp á árekstur á Bústaðavegi rétt fyrir ofan kirkjugarðinn og sáum líka lögguna stoppa gamlan mann á rauðum bíl, mögulega fyrir of hægan akstur ... hver veit, en það var nú bara í nösunum á okkur. Sjálf hef ég búið lengur í Rvík en annars staðar og fædd þar og bílstjórinn talaði mikið um að ökumenn væru eiginlega allir afar liðlegir við strætóbílstjóra.

Þessi aukahringur minn í morgun tók u.þ.b. klukkutíma en mikill og langur annadagur er fram undan í dag, þurfti að hefja hann vel með sjúklega góðu latte-i og nýbökuðu súkkulaðimöffins ... enda er ég full af orku núna. Held að strætó í æð hafi líka gert mér gott.

Veit einhver hvernig maður finnur slóðina að nýju vefmyndavélinni í Eldey? Er orðin þreytt á að vera á Kötluvaktinni í öllum frístundum mínum, langar til að fylgjast með bí-bí núna, vonandi líka brimi ef vefmyndavélin er skemmtilega staðsett! Afar misheppnað að segja fréttir af vefmyndavél en ekki hver slóðin að henni er! Mistök, mistök ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

 Bus  Bus Bus  Bus  hæ strætó stelpa, það sakna þín allir sem hitta þig ekki oft. Þú ert mega moli.

Ásdís Sigurðardóttir, 21.1.2008 kl. 11:43

2 identicon

Þessa færslu fann ég í Bloggflokknum Ferðalög, hehehe.

Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 12:21

3 identicon

Það var nefnt í fréttinni að tengingar væru á vefmyndavélina í gegnum vefi Hitaveitu Suðurnesja og Reykjanesbæjar en ég gat ekku fundið neitt um það rétt áðan á hvorugri vefsíðunni...  Kannski bara rétt ókomið... Kveðja frá einni sem les bloggið þitt reglulega.

Kolbrún (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 12:24

4 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Sko herra Guðmundur ... þetta var langt og mikið ferðalag ... fyrst frá Akranesi og svo um höfuðborgina þvera og endilanga, alla vega þvera!

Takk fyrir FJÓRA strætóa, Ásdís tölvusnillingur.

Best að njósa um vef hitaveitu Suðurnesja, Kolbrún, og TAKK kærlega!

Guðríður Haraldsdóttir, 21.1.2008 kl. 12:36

5 Smámynd: Björg K. Sigurðardóttir

Það eru góð meðmæli með kaffinu hjá Kaffitár að fólk skuli leggja svona ferðalag á sig til að nálgast kaffið - og það í strætó

Björg K. Sigurðardóttir, 21.1.2008 kl. 13:00

6 identicon

Kaffitár ummmmmmmmmmmmmmm 150 ekki 152 á farin-hætt ? Eitthvað misheyrt kaffileiðbeiningarnar.hehehehe

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 14:06

7 identicon

Mér hættir reyndar til að líta á orðið ferðalag í óþarflega jákvæðri merkingu, en ekki ferðir mínar með Leið 18, sem ég flokka með þrautagöngum. Reyndar svo mjög, að þegar hugmyndin kom upp um daginn að gefa stoppistöðvunum sérnöfn, datt mér í hug að endurskíra Hlemm Heródes og Spöngina Pílatus. Þar með fengi leiðin viðeigandi fælingaráhrif. Tók reyndar 18 kl. 07:29.

Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 15:17

8 Smámynd: Linda Lea Bogadóttir

Umm mig langar í latte... Núna!

Linda Lea Bogadóttir, 21.1.2008 kl. 16:34

9 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Bus-kvitt-kvitt

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 21.1.2008 kl. 16:42

10 Smámynd: Þröstur Unnar

Strætósjúklingur  hvað er starbakkska?

Þröstur Unnar, 21.1.2008 kl. 17:41

11 Smámynd: Ragnheiður

Starbakkska er málið sem talað er á starbucks...eða hvað hún heitir stóra kaffikeðjan sem er álíka útbreidd og McDonalds..

Ragnheiður , 21.1.2008 kl. 17:43

12 Smámynd: Þröstur Unnar

*Úps, þekki hvorki Starbukks né Makkdonald. Kveðja úr sveitinni.

Þröstur Unnar, 21.1.2008 kl. 17:51

13 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Marta B Helgadóttir, 21.1.2008 kl. 20:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 190
  • Frá upphafi: 1445655

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 176
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Himnaríki 6. mars 2023
  • Himnaríki 21. mars 2024
  • Húsó

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband