Hvað varð um börnin í Sound of Music?

Krakkarnir í Sound of MusicEinu sinni fann ég dagblað í setustofu hótels á Írlandi með grein um afdrif barnanna sem léku í Sound of Music. Ég stal vitanlega blaðinu og hafði greinina til hliðsjónar þegar ég skrifaði um krakkaormana í Vikuna ... Mikil var gleði mín þegar ég komst að því að yngsta barnið, Gretl, var enn á lífi en þegar ég var lítil heyrði ég þá bullsögu að hún hefði orðið fyrir bíl þegar hún var á leið heim úr kvikmyndahúsinu eftir frumsýninguna og trúði því í áratugi. Setti réttan aldur leikaranna í dag innan sviga og síðan aldur þeirra þegar þau léku í kvikmyndinni.

Mynd: F.v. Kym Karath (Gretl), Debbie Turner (Marta), Angela Cartwright (Brigitta), Nicholas Hammond (Fredrerich), Heather Manzies (Louisa), Dunae Chase (Kurt) og Charmian Carr (Liesl).

Úr Sound of MusicSound of Music (1965) hlaut fimm óskarsverðlaun á sínum tíma og hefur halað inn himinháar fjárhæðir síðan. Aðalleikararnir voru Christopher Plummer og Julie Andrews. Börnin sjö sem léku í myndinni segja að myndin hafi breytt lífi þeirra og framtíð. Þau eru flest beisk yfir því hvernig farið var með þau fjárhagslega af kvikmyndafélaginu og segja að yfirmennirnir hafi haft af þeim milljónir. Smáa letrið í samningum þeirra innihélt m.a. klásúlu um að þau væru skyldug til að kynna myndina án þess að fá borgað fyrir það. Krakkarnir, sem nú eru orðnir 43 árum eldri, hittast reglulega, m.a. í Salzburg árið 2000. Viðtalið í írska blaðinu var einmitt tekið í tilefni af þeim hittingi og heimildamyndar um það sem var sýnd á ITV-sjónvarpsstöðinni í kringum 2000. Mikið hefði verið gaman að sjá þá mynd.

Í aldursröð SOMCharmian Carr (64) lék elsta barn Von Trapp greifa, Liesl, (21). Hún söng reyndar um að hún væri 16 að verða 17. Hún giftist tannlækni skömmu síðar og eignaðist tvö börn með honum. Hún skildi við hann seinna og lærði innanhússarkitektúr. Michael Jackson tónlistarmaður fékk hana í vinnu til sín, eingöngu vegna þess að hún lék í Sound of Music, sem er uppáhaldsbíómynd hans. Sjálfsímynd Charmian breyttist til hins verra eftir að hafa leikið í myndinni. Fyrir nokkrum árum gaf hún út ævisögu sína sem heitir Forever Liesl. „Ég gekk til sálfræðings í mörg ár og þurfti á þunglyndislyfjum að halda,“ segir Liesl. „Ég var á mörkum þess að vera barn og fullorðin þegar ég lék í myndinni og var oft rugluð í ríminu. Ég vissi varla hvort ég var Charmian eða Liesl. Ég var bundin af samningi við kvikmyndaverið og þurfti að auglýsa myndina. Ég var gröm út í Liesl fyrir að kaffæra mig. Reiði mín varaði í tíu ár en þá varð mér ljóst að fortíðin hyrfi ekki og að ég yrði að venjast þessu. Ég held að okkur þyki öllum að illa hafi verið farið með okkur fjárhagslega í gegnum tíðina. Myndin hefur halað inn ótrúlega mikla peninga.“

Nicholas Hammond (56) lék elsta soninn Friedrich (13). Hann nam ensku við Princeton háskólann og hélt síðan áfram að leika. Á áttunda áratugnum lék hann m.a. sjálfan Spiderman. Hann lék síðast í myndinni Lord of the Flies. Nicholas er fráskilinn og vinnur á sjónvarpsstöð í Ástralíu sem skrifari og framleiðandi. „Það er stórfurðulegt að koma aftur á þennan stað (Salzburg) sem ég á svona hamingjuríkar minningar um,“ segir Nicholas. „Sum okkar sögðust vera of upptekin eða nenntu ekki að koma hingað aftur. Ég sagði að þau myndu alla tíð sjá eftir því ef þau kæmu ekki. Við endursköpuðum eina senuna þar sem við marseruðum um hæðirnar og vorum orðin frekar „hrum“ til þess að leika börn. En þetta var reyndar mjög skemmtilegt. Ég efast um að við gerum svonalagað nokkurn tíma aftur. Við höfum gert svo mikið fyrir þessa mynd. Mér fannst viðeigandi að við hittumst bara sjö saman, án fjölskyldna okkar, á staðnum þar sem allt byrjaði.“

Heather Menzies (57 ára) og lék Louisu (14), næstelstu dótturina. Hún fæddist í Toronto í Kanada en foreldrar hennar eru skoskir. Hún giftist leikaranum Robert Urich árið 1975 og lék í nokkrum kvikmyndum, meðal annars Logan´s Run, áður en hún eignaðist börnin sín. Tveimur árum áður en hún gifti sig sat hún fyrir í Playboy, aðdáendum sínum til mikillar skelfingar. Hún er þriggja barna móðir. „Með því að koma hingað aftur er ég á vissan hátt að kveðja barnæsku mína,“ segir Heather. „Þetta hefur verið áhyggjulaus tími og ég komst í snertingu við barnið í sjálfri mér. Mér fannst þetta hjartnæm reynsla. Þegar tökum lauk á Sound of Music fannst mér erfitt að hefja venjulegt líf á nýjan leik. Ég var alltaf mjög feimin sem barn og skyndilega varð ég þekkt. Ég komst ekki upp með að vera feimin. Ég er mjög hreykin af því að hafa leikið í mynd sem hefur veitt mörgum svo mikla gleði.“

Duane Chase (56). Hann lék hinn óforbetranlega Kurt (13) og bauðst hlutverkið eftir að hafa komið fram í gamanþætti í sjónvarpi. Hann lék nokkur lítil hlutverk þar til hann varð 18 ára og útskrifaðist sem jarðfræðingur. Hann er kvæntur og er hönnuður tölvuhugbúnaðar fyrir jarðfræði í Seattle. Á meðan hann var táningur og ungur maður neitaði hann að tala um hlutverk sitt í Sound of Music og reyndi að dylja fortíð sína. „Þetta var bara allt svo yfirgengilega mikið,“ segir Duane. „Það var ekki eins og ég væri ekki hreykinn af því að vera með í myndinni heldur ofbauð mér það sem fylgdi í kjölfarið. Það var einum of mikið. Ég lék seinna í myndinni Follow Me Boys með Kurt Russel en ég fann það út að mig langaði ekki að verða leikari. Ég flutti frá Los Angeles og fannst áhugaverðara að berjast við elda sem slökkviliðsmaður. Núna er Sound of Music komin á stall sem stórmynd, við höfum skráð nafn okkar í stjörnurnar og það er enn verið að braska með okkur.“

Angela Cartwright (55) lék Brigittu (12). Hún var barnastjarna í sjónvarpsþáttunum Make Room for Daddy þegar henni bauðst hlutverkið. Hún hélt áfram að leika, lék m.a. í seríunni Lost in Space og er enn að. Hún er gift, á tvö börn og rekur gjafavöruverslun í Los Angeles sem er einnig á Netinu. „Að hittast svona aftur og gera þessa heimildamynd var svo gaman og við Heather erum orðnar góðar vinkonur,“ segir Angela. „Þetta var eins og að fara í sumarbúðir með bestu vinkonu sinni. Ég er búin að horfa á Sound of Music mörg hundruð sinnum og kann hana utan að. Foreldrar mínir gættu þess þó að þetta stigi mér ekki til höfuðs. Núna, eftir 35 ár, hafa sum okkar íhugað að fara í mál við kvikmyndafélagið því okkur finnst að greiðasemi okkar hafi verið misnotuð. En við teljum öll að við séum lánsöm að hafa leikið í kvikmynd sem hefur haft svona mikil áhrif.“

Debbie Turner (50) lék Mörtu (7). Hún hefur leikið í fjölmörgum sjónvarpsauglýsingum og verið fyrirsæta frá barnsaldri. Eftir að hún útskrifaðist úr framhaldsskóla í Kaliforníu vann hún á fjölsóttum skíðastað þar sem hún hitti manninn sem hún giftist. Þau eiga fjórar dætur. „Eftir að ég lék í myndinni fór ég í nokkur hæfnispróf en fékk engin hlutverk. Sá orðrómur gekk að það ætti ekki að ráða okkur, börnin úr myndinni, því það ætti að halda okkur „hreinum“. Þetta gerir mig frekar hrygga en grama. Ég hef alltaf verið miðpunktur athyglinnar síðan ég lék í myndinni. Ég eignaðist fáa vini því krakkar rugluðu mér saman við persónuna sem ég lék. Myndin hefur þó haft jákvæð áhrif líka. Við Angela hittumst 10-15 árum eftir að myndin var gerð og höfum verið nánar vinkonur síðan. Við Heather förum stundum saman á skíði og við Charmian deilum sömu viðskiptavinum.“

Kym Karath (48) er yngst í hópnum. Hún lék krúttið Gretl (5). Hún hafði þá tveggja ára reynslu í leik og hafði m.a. leikið í Spencer´s Mountain með Henry Fonda. Síðar lék hún í sjónvarpsþáttum eins og Dr. Kildare og Lassie. Hún menntaði sig í fornmenntum og hugvísindum og býr ásamt 16 ára syni sínum í New York. „Ég kom aftur til Salzburg með systur minni þegar ég var 18 ára,“ segir Kym. „Systir mín fékk mig til að koma með sér í svokallaða Sound of Music-ferð. Hún lofaði að segja engum frá því hver ég var en hún blaðraði því í fararstjórann sem lét það ganga. Ég heyrði fólk hvíslast á í kringum mig og segja að það gæti ekki verið að þetta væri Gretl litla, ég væri allt of gömul til að geta verið hún. Ég átti erfiðast með að takast á við aðdáendur myndarinnar á sínum tíma. Nokkrir þeirra gjöreyðilögðu t.d. sjö ára afmælisveisluna mína. Mér finnst ég afar tengd hinum „börnunum“ í myndinni. Við erum hluti af sömu heild.“

Með Julie Andrews sjálfri 2005


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanhildur Karlsdóttir

Takk fyrir þetta, virkilega gaman að lesa

Svanhildur Karlsdóttir, 17.3.2008 kl. 00:46

2 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

þetta var gaman að lesa. Takk Gurrí

Jóna Á. Gísladóttir, 17.3.2008 kl. 00:59

3 identicon

Gætirðu fundið út hvað varð um stelpuna sem gat skellt hælunum aftur fyrir hnakka myndinni "Daisy May's dirty weekend"

...kæmi sér vel ef þú gætir reddað símanúmeri líka

...........og heilbrigðisvottorði!

Breiðholtshatarinn (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 07:31

4 Smámynd: Ólafur fannberg

gaman af þessu

Ólafur fannberg, 17.3.2008 kl. 07:54

5 Smámynd: Ragnheiður

Ég held að ég hafi aldrei séð þessa mynd en ég las þetta samt, ég er þá með framtíðina á hreinu ef ég sé myndina.

Ragnheiður , 17.3.2008 kl. 10:19

6 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Vá, Ragga, það er eiginlega skylda að sjá Sound of Music, hún er voða skemmtileg, rómó og sæt.

Breiðholtshatari, ég vind mér í málið!

Guðríður Haraldsdóttir, 17.3.2008 kl. 11:05

7 identicon

Takk fyrir þessa skemmtilegu lesningu.

Kristín (ókunnug) (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 11:07

8 identicon

Frábært að fá að lesa þetta, takk fyrir Gurrí

 kveðja, Kristín

Kristín (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 12:35

9 identicon

Úff! Þetta var erfitt reikningsdæmi. En það var virkilega gaman af þessari fræðslu um Sound of Music börnin. Ég eins og þú, hef trúað sögunni af láti þeirrar yngstu þar til núna, gott að komast að því að hún er stórlega ýkt. Hvers vegna vill Breiðholtshatarinn finna stúlkuna sem getur skellt hælunum aftur fyrir hnakka? Ég hef ávalt haldið að það gætu allir  og ekkert óvenjulegt við það

Taraji (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 12:45

10 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Það skemmtilega við þetta Sound of music dæmi er innleggið frá Breiðholtshataranum.  Ég er í kasti.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.3.2008 kl. 13:17

11 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Jams, ég elska breiðholtshatarann

Guðríður Haraldsdóttir, 17.3.2008 kl. 13:59

12 identicon

Jæja Rauðbeður, orðið ógagnkvæmt kemur upp í hugann.

Breiðholtshatarinn (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 15:14

13 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Mikið fannst mér gaman að lesa þetta ég á myndina. Takk fyrir þetta Gurrí mín.

Kristín Katla Árnadóttir, 17.3.2008 kl. 15:46

14 Smámynd: Tiger

   Frábær færsla og skemmtilegar upplýsingar. Maður hugsar oft um svona barnastjörnur, hvað hafi orðið af þeim. Skrítið að hugsa um það hve langur tími er liðinn síðan frumsýningin var - ef maður sér t.d. Julie Andrews í dag - þá virðist hún ekki hafa elst eina mínútu síðan fyrir þarna löngu... myndin var og er æðislega góð og hugljúf.

Tiger, 17.3.2008 kl. 17:37

15 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Þekki sjálfur nokkra bakara, eru held ég bara allir skemmtilegir!

En minnir endilega að "Fótboltafríkið" Kolbrún b. með eða Án Auðar ótrúlega fyndnu, hafi verið með svona yfirlit í Sunnudagslærinu eða eitthvað, allavega man ég ójóst eftir einvherri svona umfjöllun áður. En ert alveg gullfalleg í hjartanu Gurrí mín að deila þessum skemmtilegheitum með þeim sem hér hafa ekki heyrt um þetta áður.

Og með þeim hætti sem ég skutlaði myndinni í þig, er ég alltaf jafn glaður og ánægður!

Magnús Geir Guðmundsson, 17.3.2008 kl. 17:48

16 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Magnús, hvar ætli Kolla hafi fengið upplýsingarnar? Kannski úr Vikunni fyrir sjö árum? Ég sakna þeirra þátta mjög (Sunnudagslærisins), fannst þeir ótrúlega skemmtilegir. Góð tónlist og skemmtileg umfjöllunarefni. Enn og aftur, takk fyrir myndina.

Sammála, Tigercopper, Julie virkaði jafngömul yngsta "barninu" á neðstu myndinni.  

Guðríður Haraldsdóttir, 17.3.2008 kl. 18:38

17 Smámynd: Linda

Ég einfaldlega elska þessa mynd.

Linda, 17.3.2008 kl. 18:43

18 identicon

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 20:09

19 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Ég elska þessa mynd og finnst gaman að lesa um krakkana. Mig hefur líka alltaf langað til að vita hvað varð um krakkana sem léku í söngleiknum Oliver Twist sem er líka í miklu uppáhaldi hjá mér. Heldur þú að þú getir fundið út úr því? Það væri frábært.

Helga Magnúsdóttir, 17.3.2008 kl. 20:36

20 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Sæl og blessuð.  En frábært að lesa þetta með börnin í Sound of Music. Ég sá myndina yfir 20 sinnum þegar ég var barn. Gerði það að venju að standa fyrir utan þar til að mér var hleypt inn í salinn en ég bjó þá á Víðimel. Ég elskaði þessa mynd og July Andrews var mín fyrirmynd þ.e. karakterinn sem hún lék þarna. 

lalala I have confidence in sunshine,,,lalala, I have confidence in me.. osfrv. 

 Ég hlusta á diskinn af og til í bílnum og syng hástöfum með. Alger klassík.

Varðandi þá yngstu, í myndinni, þá hef ég einmitt staðið í þeirri trú að hún hafi farist í bílslysi en sú kjaftasaga var þrautseig sannarlega. 

Ég var að reyna að greina á myndinni hver er hvað en það er erfitt. Frábært að sjá þetta.

Úr einu í annað. Hver er bloggarinn Vertu?  Hann eða hún hefur óskað þess að gerast bloggvinur minn en þetta nafnleysi er svo erfitt.

kv

Kolbrún Baldursdóttir, 17.3.2008 kl. 20:45

21 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Ég sé núna að nöfnin eru undir myndinni. Fyndið

Knús til þín. 

Kolbrún Baldursdóttir, 17.3.2008 kl. 20:48

22 Smámynd: Mummi Guð

Skemmtileg lesning, sérstaklega þar sem ég er mikill aðdáandi myndarinnar.

En ætli Michael Jackson hafi ekki verið hissa þegar Carmain Carr mætti í vinnu. Ætli hann hafi ekki haldið að hann væri að ráða 16 ára stelpu sem væri að verða 17!!

Mummi Guð, 17.3.2008 kl. 21:37

23 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Maður arkaði í Háskólabíó forðum til að horfa á þetta - en blessunin hún Julie gerði þetta dáldið væmið! Annars fannst manni þetta vera snilld.

Edda Agnarsdóttir, 17.3.2008 kl. 22:43

24 identicon

Takk fyrir þetta gaman að lesa þetta,er búin að horfa á myndina oft og mörgum sinnum kann hana næstum utan að,Kveðja Bryndís (ókunnug)

Bryndís (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 22:49

25 Smámynd: Steingrímur Helgason

Í upphafi 'vídeóvæðíngarinnar' á Íslandi í gamla daga þá var keyptur svona grár hlúnkur af 'myndbandaspilara' á mitt heimili.  Af þeim fimm myndum sem að fylgdu með í kaupunum, var þessi vinsælust hjá mér & mínum félögum, merkilegt nokk.  Eiginlega var hún spiluð líka eftir að hún varð 'svart/hvít' af elli & frekar ótónrétt  í ofanálag.

Verulega væmin konuræma....

Steingrímur Helgason, 17.3.2008 kl. 23:05

26 Smámynd: Brattur

... þetta var skemmtileg lesning... myndin náttúrulega alveg sér á báti og músíkin líka... mynd sem hægt er að horfa oftar á en einu sinni... kannski ekki dag eftir dag... en með svona nokkurra ára millibili...

Brattur, 17.3.2008 kl. 23:22

27 Smámynd: Ingibjörg R Þengilsdóttir

takk - takk

ég bara elska þessa mynd, sá hana í Borgarbíói á Akureyri með mömmu minni og það var að ég held í eina skiptið sem við fórum saman í bíó og var það auðvitað viðburður út af fyrir sig.

en gaman að vita að syskinin lifa öll og auðvitað voru þau hlunnfarin en ekki hvað??'

Allir sem eitthvað vilja vita um barnauppeldi ættu að sjá þessa mynd hún kennir á mjög svo jákvæðan hátt hvernig hægt er að ná því góða út hjá börnum, þ.e., með gagnkvæmri virðingu og hlátri og skemmtilegheitum.   Auðvitað er þetta væmið - það er það besta.

góðar stundir og þið sem ekki hafið séð myndina - drífið í því núna - t.d., um Páskana, það er voða skemmtilegt að horfa á svona þegar við erum í fríi, unglingarnir og jafnvel allir aðrir í fjölskyldunni púa og tuða yfir því að það sé verið að horfa á svona líka hallærislega mynd, en svo eftir smástund eru allir farnir að laumast til að horfa líka

kveðja

Ingibjörg Þ

Ingibjörg R Þengilsdóttir, 17.3.2008 kl. 23:24

28 Smámynd: Ingibjörg R Þengilsdóttir

já og vitið þið hver þessi "vertu" er?

Ingibjörg

Ingibjörg R Þengilsdóttir, 17.3.2008 kl. 23:24

29 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Laukrétt hjá þér Gurrí mín, þær voru ansi góðar þarna þær Kolbrún og Auður, bæði saman og sitt í hvoru lagi!Auður hélt lengur áfram minnir mig með þætti undir öðru nafni, hétu eitthvað "frá Kína til.." æ man það ekki.En voru mjög skemmtilegir. Man til dæmis eftir fínni umfjöllun fröken K. um Paul Robeson og frú A. um sögu klósettsins!

Heyrðu, engin aukaskífa fylgdi með Sound Of Music sem keypt var í Svíþjóð sl. sumar.

Ekkert að þakka frekar en fyrri daginn, þú heldur bara áfram að halda að þú elskir mig, en þá nú fyrst og síðast fyrir R.W.!

Magnús Geir Guðmundsson, 17.3.2008 kl. 23:44

30 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Vá takk hjarta mitt tók stóran kipp þegar ég las færsluna þína.

Þetta er og hefur alltaf verið uppáhaldsmyndin mín. Reyna að sjá hana ekki sjaldnar en einu sinni á ári og finnst hún alltaf æði. Á cd með músikinni en myndin er miklu betri.

Ég sá hana oft í Gamla bíó og meira að segja með mömmu sem ég veit ekki til að hafi farið á bíó nema á þessa mynd og Mary Poppins. Mamma og amma fóru svo til Salsburg í Sound of Musicferð og töluðu endalaust um það. Ætli þær séu enn við líði?

Takk fyrir frábæra upprifjun

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 18.3.2008 kl. 00:44

31 Smámynd: Adda bloggar

Adda bloggar, 18.3.2008 kl. 13:20

32 identicon

Hér sannar þú enn og aftur að þú ert ekki bara fögur, heldur líka gáfuð. Gleðilega páska í himnaríki.

kv. kik 

kikka (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 16:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 142
  • Sl. sólarhring: 281
  • Sl. viku: 2101
  • Frá upphafi: 1452301

Annað

  • Innlit í dag: 130
  • Innlit sl. viku: 1703
  • Gestir í dag: 127
  • IP-tölur í dag: 127

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • baby reindeer
  • Ove Otto
  • Gísli gerir Mart-einn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband