Kvenraunir í slabbi, útskrift og ... bláar myndir

SlabbHeilmiklar kvenraunir bara að komast til vinnu í dag og heim aftur. Samt er ég svo hrifin af íslensku veðurfari, svöl sumur, hlýir vetur (þannig). Strætó passar ætíð upp á sína og ég hef alltaf náð fimmunni í Höfðatorgi á leið í vinnuna og tólfunni þar líka á leið heim skömmu eftir að ég kem þangað. Sérmeðferð, myndi ég kalla það ef ég héldi ekki að það væri nákvæmlega útreiknað.

Hásinarnar á mér þola ekki óvænt stökk, hopp og hlaup á eftir strætó - en B1-vítamínið er sannarlega farið að virka á það, finnst mér. Það er nánast alltaf fullt í strætó og útlendingar í meirihluta. Held að fyrirtækið myndi hrynja ef þeir væru ekki ...

Já, og nemendur í stofu þrjú lærðu nýtt orð í dag ... SKÍTAVEÐUR.

 

Komin upp í rúmlega 4.000 skref á dag (úr 643 í fyrra lífi) fjóra daga vikunnar, og oft eru þau talsvert fleiri, ef ég skrepp til dæmis í búð fer skrefafjöldinn auðveldlega upp í og yfir 5.000 sem er ágætt hjá kyrrsetukvendi eins og mér. Fór stuttan hring í Bónus í dag og keypti meðal annars nokkra ólíka heilsusafa saman í pakka, og sá við heimkomu að þetta er safakúr fyrir einn dag. Ég öskraði af gleði því þá þarf ég ekki að elda neitt á morgun heldur bara drekka mismunandi safa. Svona getur maður nú grætt á því að lesa illa á umbúðir. Prófaði eitt sinn safakúr frá Kaju (af Akranesi) og fannst það æðislegt, borðaði fræ (í stað hnetublöndu) inn á milli safa og átti eiginlega fullt í fangi með að ná að drekka sex safaskammta á dag í fimm daga. Fann hvernig hollustan og vítamínin komu sér vel fyrir í líkamanum. Þá bjó stráksi hjá mér svo ég slapp nú ekkert við að elda.

Talandi um mat ...

 

Lesa á hvolfiÚtskriftardagur var í dag (dagskóli í fjórar vikur) og rosalega mikið fjör. Það var allt fullt af góðum mat sem nemendur komu með (frá þeirra heimalandi).

Mér til gífurlegrar gleði var ansi hreint lítið um hnetur og rúsínur sem flestir vita að kemur beinustu leið úr iðrum vítis. Mikið sem þetta er skemmtilegur og góður vinnustaður.

Frábært starfsfólk og dásamlegir nemendur. Ég varð ansi fljótt algjör snillingur í að lesa texta á hvolfi um leið og ég hlustaði á fólk lesa (sjá mynd sem sýnir sjónarhorn mitt).

 

Ég bætti líka ögn við arabísku- og spænskukunnáttu mína þessa vikuna ... veit núna að Hasta Manjana (skrifað eftir framburði) þýðir sjáumst á morgun.

Og á arabísku er Salem Alekum ... maður snýr þessu við þegar maður svarar kveðjunni og segir þá: Alekum Salem.

Já, og talandi um að snúa einhverju við ...

 

stoppistöðÍ mjög mörgum strætisvögnum Reykjavíkurborgar eru öfugsnúin sæti sem "njóta" mikilla óvinsælda, enda hver vill ferðast aftur á bak, aftur í tímann? Mér verður alltaf flökurt ef ég neyðist ... svo ég sit frekar á hlið í þessum sætum, sem er sannarlega ekki hollt fyrir viðkvæmt bak til áratuga.

Þið, strætisvagnahönnuðir sem lesið bloggið mitt, endilega hugsið þetta betur.

Þótt ég sé alls ekki gömul kéddlíng held ég nú samt að ég hafi verið elst í leið 12 frá Höfðatorgi undir kl. 16 í dag. Ég hlammaði mér þess vegna í gamlafólkssæti (sem snýr rétt) en beið eftir því að einhver eldri kæmi og myndi þá vitanlega standa upp fyrir viðkomandi. Mér fannst ég þó fá ónotalegt og reiðiþrungið augnaráð frá sumum farþegum, eins og ég væri að stelast, þykjast vera gamall maður með staf (merkið fyrir ofan sætið). Ég reyndi að dýpka hrukkurnar á enninu, fara að kveða rímur og róa fram og til baka en án harmonikku er ekki séns að leika sig eitthvað eldri. Hefði sennilega þurft að japla á súrmat eða sviðakjamma til að gera þetta trúverðugt. Er ansi hrædd um að næmt fólk sem gjarnan tekur strætó hafi áttað sig á því að endajaxlar mínir eru ekki enn komnir fram í dagsljósið og heldur ekki ellifjarsýnin sem flestir jafnaldrar mínir eru löngu komnir með, og hafi þar af leiðandi haldið mig mun yngri. Það er hreinasta helvíti stundum að vera svona ungleg. Það þýðir ekkert fyrir mig að veifa skilríkjum. Bæði er vegabréfið mitt útrunnið og bleika ökuskírteinið með mynd sem var tekin á síðustu öld, jafnvel þarsíðustu ...

 

SkýjahöllinÉg átti smávægileg samskipti við Lífeyrissjóð verslunarmanna í gær og í morgun. Klaufaskapur í mér að tala ekki við þau og láta vita af því að ég var tekjulaus um hríð eftir flutningana til Reykjavíkur. Ég var góðfúslega minnt á í bréfi, skrifuðu nú í janúar, að ég skuldaði lífeyrissjóðsgreiðslur aftur í tímann (verktakar eiga að sjá um allt svona sjálfir) og skrifaði þeim til baka, sagði hið sanna, að ég væri flutt og hefði vissulega fengið "fullt af störfum" í bænum en enga vinnu sem ég gæti byrjað í fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót! Eins og bloggvinir mínir ættu að muna ... ég var svo innilega að tryllast yfir því að geta ekki unnið. Lifði bara á elskhugum mínum (borðaði þá auðvitað ekki) og yljaði mér við gamlar minningar ... eða þannig. Það voru ekkert nema elskulegheit sem mættu mér hjá sjóðnum og öllu var kippt í lag í hvelli. Gott að vita ef svona tímabil kemur aftur hjá mér, að láta þau vita strax.  Það er svo oft kvartað yfir samskiptum við ýmsar skrifstofur og stofnanir ... sannarlega ekki málið hjá þessum elskum. Ég hef reyndar alltaf verið ánægð með þennan lífeyrissjóð svo ég kaus að vera áfram þar þegar ég fór að vinna alfarið sem verktaki - og sé ekki eftir því. Held að skatturinn geri ekkert því þau hafa aðgang að öllu mínu og svo fæ ég bara hærri skatt eða líklega frekar endurgreitt, þegar allt er gert upp í gegnum skattaskýrsluna.

 

Mynd af málverkum: Það stóra og það efra (litla) eru eftir Önnu Ólafsdóttur Björnsson, það litla varð til þess að ég ákvað að láta bloggið heita Sögur úr skýjahöll, sjúklega flott vatnslitamynd. Stóra myndin hefur verið í minni eigu í áratugi og sýnir konu að reyna að komast upp á bleika skýið ... og ég er komin þangað! Neðri myndin er eftir hirðmálara Akraness, elskuna hann Bjarna Þór. Já, ég er hrifin af bláum myndum ... 

 

Er komin í helgarfrí, jibbí, vinn bara tvo tíma á dag, fjóra daga vikunnar, sem "nemi á plani", ekki nemandi, og dýrka þessar þriggja daga helgar ... þótt þær fari iðulega í húsverk ... er meira að segja að hugsa um að strauja fínu, hvítu rúmfötin mín. Minnir að ég hafi síðast straujað þegar OK Computer kom út (Radiohead, maí 1997) og hlustaði á hana aftur og aftur og aftur á meðan allt varð slétt og óaðfinnanlegt áður en ég raðaði því í lita-, efna- og stafrófsröð upp í skápana. Það skyldi þó ekki hafa verið tímabilið þegar ég prófaði green&beis-pillurnar frá Herbalife, og varð svo ógeðslega hress og orkumikil að ég man að ég straujaði meira að segja þvottapoka. Ohh, hvað ég væri til í slíkar pillur núna en þær voru víst bannaðar, eins og amerísku flensulyfin, Bismo Peptol-magadrykkurinn bleiki og fleira og fleira ...

 

RafmagnEr búin að uppgötva að rafmagn er eitt af því sem erfiðast er að vera án ... það fór af hérna rétt fyrir kl. 18 á mánudagskvöldið og kom ekki fyrr en nokkrum klukkutímum seinna. Held að blokkin mín hafi verið síðasta húsið sem fékk straum aftur. Mér var ekki um sel þegar hleðslan á gemsanum mínum hrapað smátt og smátt niður ... lengi vel var hún 4 prósent og komin niður í 2 prósent þegar rafmagnið kom loksins.

Svo ekki gat ég hlustað á sögu eða hangið í símanum. Það var ekki hægt að elda. Ekki hægt að tengjast netinu í gegnum spjaldtölvuna (sem fannst í körfu inni í fataskáp!) sem var fullhlaðin en samt eins og dauð því ráderinn gengur fyrir rafmagni EINS OG ALLT! Meira að segja gamli heimilissíminn var tengdur rafmagni og hefði verið gagnslaus. Fór ekkert fram og veit ekki hvernig aðrir íbúar lifðu þetta af - í rosalegu myrkri og lyftuleysi ...

Held að síma-landlína sé enn í gangi en ekki svo mikið lengur, sagði einhver, svo ég hætti með heimasímann. Hef ekkert að gera við hann ef hann er ekki lengur öryggistæki. Þannig að óvinir Íslands þurfa ekkert að gera nema ræna okkur öllu rafmagni til að hernema okkur. Það lamast allt! Ef Trump langar að skreppa í golf í nýja landinu sem hann ætlar að eignast, kæmist hann frekar í það hér en á Grænlandi og þar liggur kannski hættan, ef hann kemst að því að hér á klakanum er talsvert hlýrra og sennilega fleiri golfvellir.

 

Stefni á að hreyfa mig ekki úr húsi alla helgina. Sýnist samt á spám að það verði enn hálka í næstu viku, hitinn mun rokka upp og niður, og líklega verð ég að festa kaup á almennilegum mannbroddum til að haldast óbrotin og vinnufær svo ég geti nú borgað í lífeyrissjóðinn minn. Sá mér til gleði og þæginda í dag að það var vel mokað fyrir framan húsalengjuna mína í Skeifunni (vinnan) þar sem er fjöldi fyrirtækja, Lyfja var þar fremst í flokki og langbest mokað hjá þeim! En það voru komin heilu stórfljótin á göturnar þarna allt í kring og ég er svooo fegin að þurfa ekki að vera á ferðinni þar á morgun.    


Rammaraunir, alvörukrem og skrefafjöldasjokk

TrendsetterSvolítil lasleikahelgi en ég gæti þess þó langoftast að verða lasin þegar ég er í fríi, það kemur best út fyrir alla. Samviskusemi, mögulega ... Ég horfði ekki einu sinni á Liverpool-leikinn í gær, lá bara kylliflöt og hlustaði á ... jólasögu. Kannski varð ég lasin við að fá að vita að ég þurfi að greiða 14 þúsund á mánuði fyrir nánast ekkert ... eða borginni fyrir að hirða pappír og plast, sem gerist þó ekki einu sinni í mánuði, alltaf allt troðið og góðhjartað fólk á bíl tekur þetta fyrir mig og fleygir á einhverri stöðinni. Þetta er ekki vegna þess að fólk flokkar á rangan hátt, kannski þarf bara að lauma kossi eða vatnsglasi að ruslakörlunum ... ég veit það hreinlega ekki, hef ekki búið það lengi í bænum.

 

Myndin sýnir berlega hversu mikill "trendsetter" ég er, allt í einu eru allir farnir að taka strætó. Já, þetta er mannmergð þarna á stoppistöðinni minni ... ótrúlegt að dekkin á strætó hafi ekki sprungið.

 

Strætólífið gengur sem sagt ljómandi vel og ég er yfir mig sæl með bílstjórana, vagnana, stoppistöðvarnar, biðtímann, bara allt. Vinnutími minn breytist þó í febrúar og kvöldáætlun Strætó bs tekin við þegar ég fer heim. Vonandi lengist ekki biðtíminn en ég kaupi mér þá bara föðurland og loðfóðraðar bomsur, eða fæ mér leigubílstjóra sem tímabundinn elskhuga.

Þrátt fyrir dásamlegheitin er þó ekki hægt að mynda tilfinningatengsl við strætóbílstjórana hér í bænum, eins og var hægt við þá á Skaganum. Of mikill hraði, of margt fólk, engar endastöðvar ... Góð vinátta myndaðist við suma eftir margra ára síendurtekið spjall í Mjóddinni áður en vagninn lagði af stað upp á Skaga. Yfirleitt settist ég fremst því mér verður flökurt ef ég sit of aftarlega og þá er hægt að spjalla. Ég fæ tár í augun við að hugsa um til dæmis elskuna hann Tomma bílstjóra sem dó langt fyrir aldur fram. Hann var nú samt jafnmikill talsmaður súrmatar og ég andstæðingur, samt var hann ári yngri en ég! Gráforneskjusmekkur á mat er ekki bundinn við aldur, það sést á trylltri mætingu landsmanna á öllum aldri á Þorrablótin. Skilst að þessi helgi hafi rétt verið upphafið að mánaðarlöngu súr-skralli ... 

 

Í dagLeitin að spjaldtölvunni stendur enn yfir og hefur kannski aðeins gleymst í þeim önnum sem hafa ríkt. Villtar vonir kviknuðu þó í gær þegar ég renndi skápshurðinni í herberginu frá hægra megin og rakst þar óvænt á körfu með alls kyns dóti. Nuddbyssunni, Storytel-brettinu sem ég saknaði líka, og alls kyns pappírum. Hef þó ekki náð að beygja mig eftir körfunni og sannreyna þetta, enda haft svolítið mikið að gera um helgina við yfirlestur og slappheit. Bakið gaf sig nefnilega fyrir helgi þegar ég tók upp fulla þvottakörfu þegar ég var asnalega boginn, eitthvað sem ég hef passað í áratugi að forðast og flestir baksjúklingar kannast við ... Sem betur fer átti ég svona "hass-krem" frá WA-ríki í Ameríku (sem leyfir "gras") en það virkar ansi vel með íbúfen&panódíl-tvennu og því að liggja á hitapoka. Svo fjárfesti ég í almennilegum skrifborðsstól eitt skiptið sem ég kíkti á hefðarköttinni Diego í A4 og get því unnið við yfirlestur, eins og ég hef gert um helgina, eftir bestu getu þó.

 

Það birtist falleg myndasyrpa af snjónum í höfuðborginni, á RÚV.is, minnir mig. Einhverjir tóku þessu sem samkeppni og fóru að metast um að þetta væri sko ekki snjór, hann væri nú þrír metrar þarna hjá þeim ... Sem eilíf landsbyggðartútta leyfi ég mér því að mótmæla harðlega svona metingi. Ég tek andköf af hrifningu þegar ég horfi út um stofugluggann hjá mér þessa dagana, það er svo fallegt að sjá trén og allan snjóinn (sem ég elska samt ekkert). Svo má líka minnast á að ef verða umferðartafir í bænum vegna snjókomu er það ekki vegna þess að þessir fok... borgarbúar kunni ekki að keyra ... það eru bara allt of margir bílar á höfuðborgarsvæðinu og sumir á sumardekkjum í svona brjálaðri umferð. Ég gladdist hreinlega yfir því hvað það var alltaf snjólétt á Skaganum, þótt ég reyndi að monta mig ekki af því þegar ég talaði við borgarbúa ... Mesti snjór sem ég hef séð var á Hvammstanga einn veturinn á síðustu öld. Held að það hafi komið myndasyrpa í Mogganum. Þá gat fólk farið út úr húsum sínum - af annarri hæð. Man þó eftir því á níunda áratugnum að tvö ár í röð (83 og 84?) varð óvænt allt ófært þann 4. janúar. Hætti hreinlega ekki að snjóa og ég bjó þá í Efra-Breiðholti en gekk frá Mjóddinni og uppeftir í öræfunum sem finna mátti á milli efra og neðra ... er kannski enn og telst til græns svæðis? Þá var Edda frænka, búsett í sama húsi, búin að sækja soninn fyrir mig í leikskólann. Ógleymanleg stemningin sem myndaðist, allir að ýta öllum, brosandi og glaðir, held að slíkt gerist enn. Þegar við vinkonurnar fórum í IKEA og Costco lentum við í vandræðum með að opna rúðupissvökvadunk, ég spurði sætan karl sem gekk fram hjá hvort hann væri sterkur ... og hviss, bang, dunkurinn var opnaður! Stundum fær maður daður dagsins algjörlega óvænt upp í hendurnar. 

 

RammavesenFerðir okkar vinkvenna í IKEA í síðustu viku voru í raun árangurslausar ... vinkonan gaf mér þennan fína ramma (með eftirprentun í) fyrir Ikea-ferðina og sá passaði akkúrat fyrir Skýjahallarmyndina mína (sjá mynd) svo ég keypti bara einn ramma, fyrir aðra mynd, í stað tveggja. Nánast strax við heimkomu ætlaði ég að setja dýrðina í rammann en sá að svo vel var gengið frá honum að ég lagði ekki í uppskurð og vesen (Mynd: sjá bakhlið rammans). Ógeðslega svekkjandi. Hinn ramminn, eða sá sem ég keypti, passar ekki við þessa mynd, heldur þá sem ég keypti hann fyrir, og er ramminn gráblár að lit, en hvítur passar best fyrir þessa mynd sem verður í hópi hvítinnrammaðra mynda. Já, það er auðvitað hugsun á bak við þetta ...

Kannski bara best að fara á innrömunarverkstæði þótt það sé dýrara en þá fæ ég akkúrat það sem ég vil. Held að eitt sé í Ármúla og ég gæti beðið eftir komandi snjóleysi (hláku) í byrjun febrúar (takk, elsku veðurfræðingar) og tölt þangað úr Skeifunni eftir vinnu. Myndin fagra sem ég fékk í innflutningsgjöf frá vinkonu, ég fékk að velja, varð til þess að ég ákvað endanlega Skýjahallarnafnið á bloggið. Greinilega hægt að halda þorrablót í skýjunum, sýnist mér ... djók.

 

The early yearsÉg telst ekki til unga fólksins og skilgreini mig samt alls ekki sem eldri konu, er fullfrísk og fullvinnandi en aldrei full ... en það stakk mig samt um daginn þegar læknir nokkur talaði opinberlega um kosti þess (nauðsyn) að ganga, ekki síst þegar árunum fjölgar. Hann talaði um TÍU ÞÚSUND SKREF - Á DAG! Það er sami skrefafjöldi og ég gekk úti í Glasgow algjörlega ÓVART, þegar sími systur minnar sagði á fimm mínútna fresti að það væru bara tíu mínútur eftir. Röng stilling, eða á ökufjarlægð ... ég var gjörsamlega örmagna eftir þennan óendanlega göngutúr frá miðborg upp að hóteli í ótrúlega stórri beygju eða hálfhring sem náði eflaust yfir hálfa Glasgow-borg. Blóðrisa tær, gatslitnir skór og enn sterkari gönguferðaandúð kom út úr þessum GPS-mistökum. Kannski næ ég tíuþúsundskrefamarkmiðinu ef ég geng til eða úr vinnu þegar veður verða minna válynd. Það yrði þá gönguferð með markmið, eða að komast heim eða til vinnu. Í gamla daga, eða þegar ég var á barnsaldri, slapp enginn við að ganga einhver ósköp, í skóla og úr, á skautasvellið upp í Krús, í tónlistarskólann sem var ógeðslega langt í burtu, í Bíóhöllina á sunnudögum sem var enn lengra í burtu. Það var talið skemma börn að skutla þeim ... eða gefa þeim eitthvað almennilegt að borða ... eða leyfa þeim að taka fleiri en tvær bókasafnsbækur á dag ... eða bjóða upp á tilbreytingu í skólanum ... eða ... Það var sko ekki allt gott í gamla daga.  

 

 

Vonandi bý ég enn að öllum þessum afreksgöngum æsku minnar þegar ég prófa röltið upp Álfheimana, inn Langholtsveginn og niður Holtaveginn ... Ef ég steinhætti að blogga einhvern góðviðrisdaginn má alveg fara út að leita að mér. Helst á bíl. Og ef ég verð ekki 100 ára eftir þessar göngur fram undan fer ég í mál við þennan lækni!      


Ást í strætó og skortur á GPS-hrósi

Wu Tang-sokkarnirFyrsta almennilega strætóviðreynslan var í dag. Það var ekkert droll á mér eftir vinnu svo ég náði fimmunni kl. 15.09, það var líka stutt bið eftir tólfunni á Höfðatorgi svo ég var komin heim kl. 15.30. Frekar fáir í strætó svo ég fékk fínasta sæti í báðum vögnum. Það er svo gaman í strætó, meira að segja þegar maður lendir algjörlega óvænt í viðreynslu. Tek fram að ég hafði verið að hlusta á meinleysislega ástarsögu og á leiðinni til vinnu, fyrr í dag, fannst mér pínku vandræðalegt að vera að hlusta, grafalvarleg og virðuleg í sæti mínu, á meðan "þau rifu fötin utan af hvort öðru og náðu ekki að rúminu áður en ástríðan (lesið ást-ríðan, í stað á-stríðan) tók af þeim völdin" (pen ástarsaga) ... Þetta hefði átt að hafa hitað mig upp en viðreynslan átti sér stað á heimleiðinni og ekkert kynlíf í gangi í eyrunum á mér.

Hvað ertu að hlusta á svona skemmmtilegt, vinan?“ spurði ókunnugi maðurinn. Frekar huggulegur en ég þoli ekki að vera kölluð vinan. Mig grunar að hann hafi séð grilla í Wu Tang Clan-sokkana mína sem ég fékk í jólagjöf. Gott rapp fyllir alla hugrekki, rappsokkar greinilega líka. 

Kennslubók um kjarneðlisfræði fyrir lengra komna,“ svaraði ég án umhugsunar, kjarneðlisfræði hefur áður bjargað málum. (Í HÍ áttum við hagnýtfjölmiðlun-konurnar stundum erfitt með að komast á réttum tíma að í tölvustofunni (1998-1999), þar til ég bað strákana í tölvunarfræðináminu að flýta sér, tíminn okkar í kjarneðlisfræði væri að hefjast, við þyrftum tölvunar NÚNA ... þeir trúðu því og drifu sig út, fullir af virðingu). Kjarneðlisfræðin sveik aldeilis ekki heldur í dag.

„Það e bah sona,“ sagði maðurinn gáttaður, ástríðuglampinn hvarf og hann drattaðist aftar í vagninn. Hann hitti bara illa á mig. Í betra stuði værum við kannski enn að daðra í leið fimm, hring eftir hring eftir hring.

 

Í IkeaSkrapp með vinkonu í Costco og IKEA í gær og keypti mottu á fyrrnefnda staðnum og svo í IKEA kleinupoka og ramma fyrir flotta mynd sem vinkona mín málaði og gaf mér í innflutningsgjöf. Ramminn reyndist of stór því ég var auðvitað ekki með myndina með mér, keypti bara eftir minni.

 

Þegar við stóðum við kassa í Costco til að borga sáum við Einarsbúðarmæðginin, Ernu og Einar yngri von Akranes. Það urðu miklir fagnaðarfundir og ég hugsaði eftir á til þess með trega í hjarta að í gegnum Einarsbúð gæti ég keypt þrjár eldhúsrúllur af stærri gerðinni (frá Costco) en hjá sjálfu Costco þarf ég að kaupa tólf rúllur. Íbúðin mín er bara ekki nógu stór fyrir það svo ég hætti við kaupin. Að sjálfsögðu skrepp ég í Einarsbúð í næstu (þeirri fyrstu eftir flutninga) Skagaferð minni og kippi í leiðinni þremur rúllum með. Sakn á Akranes. Samt er ég mjög ánægð í bænum, sérstaklega eftir að ég fór að vinna. Síminn minn er samt enn ánægðari með vistaskiptin því hann þylur stanslaust yfir mér eitthvað á borð við: This year´s walking and running distance is more than last year´s on average. OG: You're walking more than you do on a typical day. OG: You are very beautiful today and every day, my darling

Mjög hressandi og upplífgandi.

 

Þetta var ekki alveg fyrsta ferðin okkar vinkvenna saman á þessar lendur því við gerðum tilraun síðasta laugardag til að fara í Costco. Ég ætlaði að kaupa stóra eldhúsrúllu a la Costco (þrjár saman) og vinkonuna vantaði eitthvað smávegis líka. Við vorum komnar 28 skref inn í búðina þegar okkur sortnaði fyrir augum vegna mannhafsins og biðraðanna og snerum við ... báðar með búðafælni. Þá fórum við yfir í IKEA og keyptum okkur fínasta mat; plokkfisk og kjötbollur.

 

Á leiðinni í gær sagði ég henni stolt frá því að ég hefði keypt mér kepp af lifrarpylsu og dollu af rófustöppu í Bónus - fann ekki sushi-bakka. Það væri alveg íslensk taug í mér þótt ég væri ekki yfir mig hrifin af t.d. þorramat ... Þetta myndi duga mér í tvær til þrjár máltíðir, nokkrar litlar sneiðar, sletta af rófó, í örbylgjuna í 2 mín. og málið dautt. Nammmmm, svona var kvöldmaturinn minn í kvöld og bragðaðist mjög vel. Áttaði mig ekki á því alveg strax að ég væri að tala við alvöruÍslending, konuna sem ég færði stundum "efnavopn" til Bandaríkjanna, eða svokallaðan gamaldags íslenskan mat. Hún var eins og úr grárri forneskju þegar hún taldi upp matvælin sem hún ætti heima hjá sér: súran hákarl, súrt slátur, svið, hrútspunga og þaðan af verra ...

Ég reyni eftir bestu getu að kaupa ekki of tilbúna rétti (þótt þetta sé auðvitað soldið svoleiðis) svona á meðan ég get ekki tekið á móti Eldum rétt-pökkunum á vinnutíma mínum (sending kemur iðulega kl. 13.30 á mánudögum þegar ég er víðs fjarri). Í febrúar færist vinnutíminn til svo mögulega verður matur frá Eldum rétt á boðstólum aftur - fer samt eftir því hvað gerist með vinnu nr. 3 ...

 

Þægilegt líf í 11 mín.Vinkona mín ekur bíl sínum með aðstoð amerískrar útgáfu af GPS sem beinir henni reyndar oft í rangar áttir, beygðu til hægri á götu númer hitt og þetta, þegar við á Íslandi merkjum ekki göturnar með númerum (er það ekki rétt hjá mér?), heldur vegina. Þegar hún skutlaði mér heim eftir Ik-Cost-ferðina vildi GPS-konan að vinkona mín beygði til hægri, vissulega var Sæbrautin samhliða okkur til hægri, og ekki hægt að komast þangað, því við áttum að beygja til vinstri, inn á bílastæðið við Skýjahöllina. Óskiljanlegt ...

Annað sem ég skil ekki alveg með GPS-tæki. Það er ekkert að finna þar nema skipanir. Það er ekkert hrós í boði þegar maður gerir rétt og man eftir því að beygja. „Well done, girl,“ myndi gleðja mig og efla til dáða, ef ég keyrði með svona tæki. Við vorum t.d. svo önnum kafnar við að spjalla að við tókum ekki rétta beygju á leiðinni í Costco á laugardaginn, við vorum að tala um íslensk orð sem eru bara í fleirtölu (t.d. meðmæli) og hver man eftir því að beygja þegar svo áhugavert og spennandi umræðuefni tekur alla athyglina?

 

Það er alltaf jafnskemmtilegt og líflegt í vinnunni og ég er komin á fullt í vinnu 2 líka, fékk verkefni send í gærkvöldi. Vinna nr. 3 byrjar sennilega ekki fyrr en í febrúar ... svo var ein fyrrum samstarfskona (sem veit hvað ég er mikill vinnualki) að benda mér á að bókamarkaðurinn í ár verður haldinn hinum megin við götuna, eða í Holtagörðum! Ég gæti ábyggilega fengið vinnu þar, sagði hún. Hugsa að það sé bara of seint ... hefði stokkið á það, eða að sækja um, fyrir áramót þegar ég var að farast úr leiðindum.

 

 

EinarsbúðÉg vona að þessi vinnugleði mín haldi áfram um ókomna tíð því mér er sagt að best sé að vera búin að greiða upp húsnæðislán sitt áður en maður sest í helgan stein. Mitt lán er frekar hagstætt og ég ekki sérlega eyðslusöm svo ég kvíði engu þótt ég nái eflaust ekki að borga það upp á næstu árum. Kannski enda ég eins og ein vinkona mín sem gerði nokkrar tilraunir til að setjast í helgan stein, alltaf var einhver spennandi tölvuvinna sem var eins og sniðin fyrir hana. Mamma ætlaði að hætta að vinna þegar hún var sextug, 95 ára reglan, en svo mikill skortur var á hjúkrunarfræðingum að hún "fékk" ekki að hætta fyrr en hún varð sjötug. Hún vann lengi á Kleppi sem er nánast á hlaðinu hjá mér, ég var ansi sein að átta mig, auðvitað hefði ég átt að flytja fyrr á Kleppsveginn, þá hefði hún getað kíkt í kaffi til mín eftir vinnu. Finnst að fólk sem ég þekki og ætlar á bókamarkaðinn ætti að tékka á mér, hvort ég sé með heitt á könnunni ... Gleyma svo innkaupunum hjá mér, mmmmm.

 

Heyrði í stráksa áðan. Hann minnti mig á að hann verður 21 árs eftir rúman mánuð, eða í byrjun mars. Ég heimtaði að fá að halda litla afmælisveislu handa honum hér í Rvík einhverja helgina í mars, bjóða svona 10-1000 allra nánustu .... Honum fannst það virkilega góð hugmynd, stórkostleg í raun, svo annaðhvort baka ég (fer eftir vinnuálagi) eða panta kruðerí. Svo fær hann pottþétt veislu þar sem hann býr, sennilega á sjálfan afmælisdaginn eða einhvern laugardaginn í kring, hélt hann. Maður verður ekki 21 árs nema einu sinni ...

 

Neðsta myndin er af Ernu og Einari (eldri) í Einarsbúð á Akranesi. Búðin varð 90 ára í nóvember 2024 en hjónin hafa þó ekki rekið hana allan tímann ... ég meira að segja man eftir Gunnu, mömmu hans Einars og búðinni þegar hún var miklu minni en hún er í dag. Gaman að hitta Ernu og Einar (yngri) í gær. 


Hvetjandi strætó og mögulegir galdrar

Engin tilviljunÞriðji í vinkonuhittingi í gær, Hagkaupsferð fyrst til að kaupa inn fyrir helgina ... Eldum rétt-kassarnir voru við það að renna út svo ég keypti bara eitthvað tilbúið, vonandi bragðgott og ekki of mikið unnið. Svo ákvað ég við heimkomu, þar sem ég var komin í helgarfrí, að undirbúa helgarþrifin aðeins með því að vaska upp og vera búin með eldhúsið, en lenti óvænt í verulega blóðugu slysi þar sem einn fíni matardiskurinn úr antíkskúrnum á Akranesi brotnaði í loftinu, fannst mér því ég skarst við að reyna að bjarga honum. Vinstri höndin skarst á nokkrum stöðum, aðallega fingurnir. Vá, hvað blæðir mikið úr fingrum ... og svo held ég að fólkið á hæðinni fyrir neðan hafi orðið óttaslegið vegna ógnvekjandi brothljóðs og kvenmannsgargs. Þótt mér hafi fundist blóðið flæða fór ekki einn dropi niður á gólf, alveg ótrúlegt, svo ekkert lak á milli hæða ... Verkefni beið mín í tölvunni en ég var svo slegin að ég skreið undir sæng, þrælplástruð og illilega skekin, og ... sofnaði. Náði að skila af mér verkefninu í dag, enda ferskari og glaðari eftir laaaangan (en truflaðan) nætursvefn. Mér finnst dagsljósalampinn hafa áhrif til góðs, og hef verið dugleg síðustu daga að baða mig í ljósi hans. Hress og kát í dag þrátt fyrir að gemsinn hafi hringt og vakið mig tvisvar í nótt. Heyrði í ungum vini í síma í gær og ég hef hann grunaðan um að hafa óvart lagst á símann sinn í nótt og hringt óafvitandi í mig - tvisvar. Honum fannst það ógurlega fyndið þegar ég hringdi í hann í dag og sagði honum frá þessu. „Eins gott að þú hringdir ekki óvart í lögguna,“ sagði ég. „Löggan hefði orðið að koma og tékka á þér, hugsa ég, og þér hefði ekki þótt gaman að vakna við það.“ Viðmælanda mínum þótti það mjög ólíklegt þar sem hann hafði aldrei hringt í lögguna á ævinni svo það myndi varla gerast óvart um miðja nótt, sem er auðvitað rétt hjá honum. Þetta ónæði kveikti í köttunum sem framleiddu alls konar hljóð sem héldu enn lengur fyrir mér vöku en þá var gott að hafa hljóðbók til að setja á í korter. 

 

Myndin sýnir eitt sárið (á vísifingri vinstri handar) Það hefur gróið grunsamlega hratt síðan í gærkvöldi, en mér varð flökurt og svimaði af spenningi þegar ég áttaði mig á því að þetta var sennilega ekki slys eða óhapp og alls engin tilviljun. Nú er allt komið í samhengi ... hlaupahjólsslysið sem ég lenti í átta ára gömul beint fyrir framan Sjúkrahús Akraness og var flutt beinustu leið á saumastofu Braga læknis. Hef borið lítið og nánast ósýnilegt ör á enninu síðan. Það þurfti síðan þessa áminningu áratugum síðar, eða blóðugt fingurslys þar sem ég tók eftir lögun ört gróandi eldingar-sársins áður en það verður að ólögulegri línu. Mjög spennandi tímar fram undan.

 

Draumar úr snjóEr að hlusta á bókina Draumar úr snjó og er orðin spennt. Var það þó ekki í upphafi og þurfti að komast inn í nokkuð drungalega stemninguna (mannlegir brestir, óhamingja, óheppni) og haldast þar, ekki flýja á vit yfirborðsmennskunar (sem ég sæki svolítið í, hrifin af góðum endi og ekki of miklum átökum eða eymd) en ég er lítið fyrir t.d. sannsögulegar bíómyndir, þær eru oft svo sorglegar og enda illa (eins og Titanic) og það er eiginlega líka þannig með sumar bækur. Veit að margt fólk vill bara grjótharðan sannleikann án vonar um að eitthvað breytist til batnaðar hjá söguhetjunum ... þannig sé lífið.

Ég harkaði af mér eymdina í byrjun og get ekki hætt að lesa þessa bók, vil vita hver morðinginn er, svo venst stemningin alveg og hefur breyst eftir því sem fleiri eru kynntir til sögunnar. Aumingja prestsfrúin samt. Var líka búin að gleyma því hversu hroðalega tengdamömmu (að það er fyndið) Maria lögreglukona á, þetta er ekki fyrsta bókin um hana og ég hrifin af þeim fyrri. Hef sennilega verið að hlusta á of glaðlegar bækur upp á síðkastið og því átt erfitt með þessa í fyrstu. Hún er fín.

 

Andlitsblinda hrjáir mig ekki en stundum mætti halda það. Í fyrradag talaði samstarfskona mín um að ungur sonur hennar þráði að lesa vissa fullorðinsbók sem er ofbeldisfull og alla vega ein ansi grafísk kynlífslýsing sem hentar ekki innan við tíu ára gömlum dreng ... Í gær mætti ég til vinnu með þrjár unglingabækur sem er skárra en hardkor fullorðins. Hryllingsbók um Drakúla, þykka fantasíuævintýrabók og fínustu bók eftir Hildi Knútsdóttur snilling. Konan sat á kaffistofunni þegar ég kom og ég rétti henni bækurnar og hrósaði þeim hástöfum, sagði eins og var að ég hefði ekki náð að grisja nógu mikið bækur og fleira, áður en ég flutti í bæinn. Í kaffihléinu komst ég að því að ég hafði ruglað saman tveimur samstarfskonum ... því allt önnur kona sveif á mig glöð og spurði mig hvort ég hefði verið að koma með bækur handa stráknum hennar ... Þá áttaði ég mig á ruglingnum og bað þá fyrri afsökunar. Þetta var bara fyndið og hefur svo sem hent mig áður en sennilega á meira móðgandi hátt þarna undir aldamót ... þegar ég fékk ungan tónlistarmann í útvarpsviðtal til mín á Aðalstöðina, hann ætlaði að spila og syngja á Gauknum um kvöldið og þótti fínt að fá þessa fínu auglýsingu (þátturinn var eftir hádegi á laugardögum). Svo fór að ég mætti á Gaukinn um kvöldið þótt það hafi ekki endilega verið á planinu þarna fyrr um daginn. Hitti ungan mann í anddyrinu þegar ég mætti og hann heilsaði mér glaðlega. Ég brosti á móti en spurði: „Fyrirgefðu, hvernig þekkjumst við aftur?“ Eitthvað slíkt. Hann starði á mig í smástund og sagði svo: „Ég var í útvarpsviðtali hjá þér í dag.“

Svo innilega leiðinlegt að vera svona ómannglögg. Mér var fyrirgefið þetta í vinnunni, þótti ekki einu sinni tiltökumál. Það tekur mig alltaf smátíma að læra öll nöfn á vinnufélögum en endurtekningin skapar meistarann. Tek fram að konurnar sem ég ruglaði saman eru ekkert líkar í útliti, en þær eru báðar mjög ljúfar - slíkt getur ruglað mann.

 

Mikið labbÞað gengur ljómandi vel að komast á milli hverfa í Reykjavík, tólfan í Höfðatorg (ég þarf að vísu að fara yfir Sæbraut til að ná tólfunni, en það eru gangbrautarljós) og fimman frá Höfðatorgi á stoppistöðina Heimar - en ég er svo utan við mig að ég óttast stundum að taka óvart tólfuna aftur hinum megin við götuna í staðinn fyrir fimmuna á leið til vinnu. Að vera utan við sig er víst gríðarlega mikið gáfumerki ... ég hugga mig við það.

 

 

Það er enginn strætó sem gengur beint héðan af Kleppsvegi og í Skeifuna en þegar hálkutímabilinu lýkur er alveg séns að ganga upp Holtaveginn og ná leið 14 á Langholtsveginum. Ferðin tekur 26 mín. ... þar af þarf ég að ganga í 25 mín. Fyrst geng ég í 19 mín upp á Langholtsveg, síðan er strætóferð í 1 mín. og þá önnur gönguferð í 6 mín.

 

Eftir að B1-vítamínið hefur unnið hásinarverkjabata-verk sitt svona vel og hælupphækkunin líka, finnst mér ekkert að því að tölta þetta í sæmilegu veðri en þó síður þegar versta geitungaplágan stendur yfir (apríl/maí og út sept?) og er sennilega nánast hálfnuð í vinnuna þegar ég er komin upp á Langholtsveg en gæti þá allt eins farið alla leið gangandi, eða bara niður Álfheimana. Talandi um hvetjandi strætó ...

Athugið: Er ekki orðin andsetin eða umskiptingur, en þið megið endilega gera eitthvað í því ef ég fer að tala um að skreppa í sund. Á næsta ári verða 40 ár síðan ég fór í Laugardalslaugina en þrengsli, kvenmergð og smellir í rössum að slást saman í sturtuklefanum gerði mig endanlega fráhverfa þeirri líkamsrækt, eins og ég hef áður sagt frá. Skil alveg amerísku kerlingarnar sem fussa yfir þessari miklu nánd þegar þær neyðast til að deila baðförum sínum með ókunnugum konum á Íslandi. Takk kærlega, Sól og sæla, eða kannski ekki, fyrir að venja mig á einkasturtuklefa og -búningsaðstöðu eftir ljósatímana veturinn 1985-1986, það er engin leið til baka.


Smiðsraunir, lampagleði og kaffiástir

Elsku Te og kaffiVinkonuhittingar eru frekar tíðir eftir að ég flutti í bæinn ... núna tvo daga í röð var ég sótt í vinnuna af vinkonum. Í gær fórum við tvær í kaffi hingað heim en í dag skelltum við okkur, hinar tvær, í Te og kaffi í Borgartúni. Dásamlegur staður í Borgartúninu og verulega nærandi samverustundir þar sem umræðuefnin dekkuðu nánast allt á milli himins og jarðar. 

 

 

Te og kaffi er í miklu uppáhaldi, ekki bara af því að þar er gott kaffi og meðlæti, heldur er opnunartíminn hagstæður þeim sem vilja hittast yfir kaffibolla eftir vinnu. Ansi mörg kaffihús loka klukkan fjögur og vilja meina að of fáir mæti eftir þann tíma, of dýrt að halda starfsfólki á yfirvinnukaupi fyrir kannski fáa gesti. Við vinkonurnar sátum reyndar til rúmlega fimm í dag og staðurinn sem er ekki lítill, var fullur af kaffielskandi fólki.

 

 

Eflaust er þessi snemmlokun covid-árunum um að kenna að einhverju leyti - en það gleður kaffihjarta mitt mikið að einhverjir góðir staðir séu opnir lengur ... sem minnir mig á að elsku Súfistinn í Hafnarfirði skellir endanlega í lás núna bara á morgun eða hinn. Fínustu kaffiminningar þaðan. Tók alla vega tvö viðtöl þar fyrir Vikuna áður fyrr, góður friður á efri hæðinni til að spjalla og kaffið auðvitað ferlega gott ... og terturnar, maður minn!

 

Smiður og eftirlitskötturHirðsmiður Skýjahallarinnar mætti stundvíslega klukkan 9.34 í gærmorgun - eftir að hafa gert íbúa á rangri hæð rúmrusk. Sá harðneitaði því að einhver Gurrí byggi þar. Verkefnin urðu fimm en ekki fjögur og eitt sérlega tímafrekt svo ég varð að skilja smiðinn eftir og hlaupa út í strætó til að komast í vinnuna á réttum tíma. Stundvísi er minn helsti galli ... ég er manneskjan sem mætti í partíin klukkan níu ef partíið átti að byrja þá. Restin af fólkinu mættti svo um tíuleytið í fyrsta lagi. Sýnist nýi vinnuveitandinn ekkert fúll þótt ég mæti hálftíma of snemma, það stendur þannig á strætó og ekkert mál að setjast niður yfir kaffibolla og spjalla. Ég vinn sem leiðbeinandi í íslenskuskóla fyrir útlendinga sem er ótrúlega skemmtilegt og alveg frábær skóli.

 

Tímafreka verkefni smiðsins: Það reyndist vera að setja hærri fætur undir sófann minn úr Dorma. Fæturnir fengust í Jysk (takk, elsku Ellen frænka, fyrir að finna þá fyrir mig, ég var svo viss um að það fengjust ekki aukafætur á sófa ...). Sófinn hækkaði um þrjá eða fjóra sentimetra ... en það kostaði líka tár, bros og takkaskó, eins og við segjum það upp á íslensku. Þegar við snerum sófanum við, til að koma honum á lappirnar nýju, var ég svo mikill eymingi að ná ekki að lyfta honum nóg, svo hægri afturfóturinn hreinlega brotnaði. Smiðurinn ákvað að skjótast í Jysk í Skeifunni og kaupa nýja - en þurfti að bíða í 20 mínútur fyrir utan, ekki opnað fyrr en klukkan 11! Hver hefði trúað því? Svo kom hann til baka, skrúfaði splunkunýkeypta fótinn (í öðrum lit en hinir) undir á meðan ég blikkaði elsku litháísku grannkonuna til að hjálpa okkur við að lyfta. Hún lyfti sófanum ein með smiðnum, sagði mér bara að slaka á, enda sterk kona, og nú er sófinn kominn í rétta hæð fyrir mig. Hnén eru ekki lengur uppi í höku á mér þegar ég sit þar, heldur er allt beint og fínt og ég svíf á fætur þegar ég þarf að standa upp. Munar öllu að fá þessa litlu hækkun ...

 

Mynd: Þarna sjást smiðurinn og eftirlitskötturinn hugumstjóri (Mosi) að koma nýjum fæti undir sófann svo hann verði nothæfur. Kannski fer ég að nenna að horfa á sjónvarpið núna. Ótrúlega margar þáttaraðir sem ég hef ekki séð ... m.a. Vigdís, Verbúðin, Game of Thrones ... ég veit, ég er hryllileg. Ein af fáum sem sá ekki sýningarnar Níu líf (Bubba) og Elly. Vona að þær hafi verið teknar upp og verði sýndar í sjónvarpi um páska eða jól.

 

FatahengiðHann var um þrjár mínútur að koma fatahenginu upp. Þriðja tilraunin og sú sem heppnaðist. Ég sagði honum að ég skildi ekkert í þessu, að t.d. þroskaþjálfinn sem hefði reynt fyrst ætti nú samt að hafa gott lag á þrjóskum vegg með þessa menntun ... en hann hafi vissulega verið með afleita borvél. Harði veggurinn vafðist þó ekkert fyrir smiðnum og borvélinni hans (mini-loftpressa?).

Smiðurinn vildi meina að textinn í Stuðmannalaginu: Hvað er svona merkilegt við það ... að bora í vegg? væri ein allra mesta fölsun tónlistarsögunnar ever, því það væri heilmikið mál að bora í vegg og gera það vel. Það vissu smiðir. Ég trúi honum algjörlega og hef misst allt álit á Grýlunum sem sungu lagið ... nema auðvitað elsku Herdísi minni, fyrrum kórfélaga með meiru, sem ég hlusta daglega á í strætó. Næsta stopp er Höfðatorg ... osfrv.

 

Fatahengið (frá Jysk) er ljómandi fínt og ég sagði smiðnum að ég myndi eflaust bara hengja mína yfirhöfn þar og kannski tvo, þrjá trefla, bjóða frekar gestum að hengja af þeim inn í skáp því þetta væri ekki svo sterklegt. „Þetta fatahengi þolir sko alveg 200 kíló,“ sagði hann hneykslaður ... svo ég er hætt við að vera með fjöldatakmarkanir í næsta afmæli.

Ég þarf samt að kaupa spartl og fylla upp í göt fyrri tilrauna (lélegra borvéla) og sækja málningu niður í geymslu og gera vegginn fínan, alla vega fyrir næstu jól. Svo er ég komin með vissa vatnslitamynd á betri stað, hún var ekki í flútti við aðrar myndir ... og það er líka komin rúllugardína í herbergið mitt. Nú ætti ég að geta sofið vel í komandi miðnætursól. Fimmta verkefnið var að laga læsinguna á hurðinni fram á gang, hann var losaralegur og ég alltaf hrædd um að ég myndi standa með hurðarhúninn í höndunum þegar ég væri að loka og drífa mig í vinnuna.

 

Mynd af fatahengi: Lengst til vinstri sést langi trefillinn sem ég heklaði um árið úr plötulopa. Hann er það hlýjasta og dásamlegasta sem til er og í raun er ég steinhætt við að hekla mér eiginmann.  

 

EldhúslampinnVinkonan sem rændi mér í dag í Skeifunni og flutti mig sérlega viljuga á kaffihús kom í leiðinni með ljómandi flottan appelsínugulan lampa handa mér - sem passar vel í eldhúsið (og bara hvar sem er). Það vantaði meiri birtu þar, hún vissi af löngun minni í lampa þangað, ég er birtusjúk, ekki síst eftir búsetuna í bjarta himnaríki, en hef svo sem alltaf verið það, alin upp á heimili þar sem þótti eðlilegt að væri sem oftast og mest dregið fyrir svo enginn sæi inn (arg) ... mér fannst þetta lokun á lífið og nöldraði endalaust yfir því (og geri enn sums staðar). Þá voru í tísku þykkar og miklar gardínur ... og frekar þykkir stórisar undir. Hér í Skýjahöllinni eru gardínur bara til skrauts, hanga til hliðar á stóra glugganum í stofunni, hvítar og nánast gegnsæar en samt gott að hafa þær og draga tímabundið fyrir ef sólin er með dólg. Ef ég þarf að striplast (mjög sjaldan, ég er dama) slekk ég bara ljósin. Væri samt spennandi að fá sérsveitina aftur í heimsókn. 

 

Mynd: Appelsínuguli lampinn virkar svolítið skakkur á myndinni, afsakið, er búin að laga það, hann stóð ofan á snúrunni.     

 

Facebook

Kathleen Dehmlow - minningargrein (lauslega þýdd)

Kathleen Dehmlow (Schunk) fæddist 19. mars 1938. Foreldrar hennar voru Josep og Gertrude Schunk frá Wabasso. 

Hún giftist Dennis Dehmlow í St. Anne-kirkjunni í Wabasso árið 1957 og eignaðist með honum börnin Ginu og Jay.

Árið 1962 varð hún ófrísk eftir mág sinn, Lyle Dehmlow og flutti til Kanada. Hún yfirgaf börn sín, Ginu og Jay, sem voru alin upp af foreldrum hennar, Gertrude og Joseph Schunk.

Hún lést 31. maí 2018 í Springfield og þarf nú að standa skil á gjörðum sínum fyrir æðri dómstól. Hennar verður ekki saknað af Ginu og Jay sem vita að veröldin er betri staður án hennar.

---

Spilað 850 milljón sinnum á Spotify, segir Facebook um lagið The Sound of Silence með Disturbed. Kemur ekki á óvart:

 

 


Gleymdir stórviðburðir og maki með gervigreind ...

RokklandHlustaði heilluð á Rokkland í dag (Rás 2) þar sem ekki eingöngu var spiluð tónlist af fyrstu plötu Led Zeppelin (áhugaverðar upplýsingar um lagið Babe, I´m gonna leave you) sem á 57 ára afmæli í dag, heldur var fjallað um elsku Skálmöld líka, skemmtilegt viðtal við tvo úr hljómsveitinni, og svo fengu þeir að velja eitt lag þarna í restina ... ég hrópaði: Veljið Hel, veljið Hel, Hel ... og þeir námu hjartans ósk mína, gítarleikarinn guðdómlegi og trommarinn magnaði, fjarhrif eru svo vanmetin. Alveg sama þótt þátturinn hafi verið tekinn upp fyrirfram, tímaflakk hefur verið viðurkennt um langa hríð, t.d. í Hollywood.

Stína Ágústsdóttir sem ég vissi ekkert um áður, frábær tónlistarkona, var virkilega áhugaverð, ég hlakka til að hlusta á músíkina hennar. Hef alltaf verið hrifin af þessum þáttum Óla Palla og gekk meira að segja svo langt þegar við hittumst í fyrsta sinn (í sjoppunni Þyrli í Hvalfirði sem þá var enn opin) að ég rauk upp um hálsinn á honum af hrifningu (á þáttunum sko), þá vinnandi á annarri útvarpsstöð (Aðalstöðinni líklega). Svona geta nú góðir útvarpsþættir glatt mann ... Myndin er rammstolin og tengist þráðbeint þessum dásamlega þætti sem ég hlustaði á í dag. Þetta var algjör aldrei vekja mig-þáttur. 

 

Fékk bráðskemmtilegt fólk í heimsókn í gær, hafði verið búin að byrgja mig upp fyrir óveðurshelgi (óveðrið var víst bara í nótt) með brauði og alls konar áleggi. Er nefnilega komin með brauðrist. Fór með systur minni í Costco á fimmtudaginn og kom út með forláta ristavél (hehe) sem kostaði sannarlega ekki mikið en er samt óvænt rosalega tæknileg. Telur niður tímann ... það er tímateljari á takkanum þar sem maður stillir hitann, geri aðrir betur. Ég vissi ekki af því fyrr en fyrsta brauðsneiðin var ristuð í gær af einum kaffiboðsgestinum ... þar með er ég sennilega komin í hóp græjusjúklinga ... uppfylli alla vega eitt skilyrðið fyrir inngöngu þangað ...

 

Verndar kettinaEin þeirra sem kom í heimsókn hafði nóg fyrir stafni fyrr þennan dag en fékk slitið sig lausa með því að segja að hún væri að fara í áríðandi kaffiboð. Það er mikill heiður! Eftir á sá ég að gestir hefðu þurft að vera miklu fleiri til að veitingarnar gengju út ... frystirinn minn orðinn fullur og ég ekki svo rosalega mikil brauðkerling, svo ég verð að gefa gæsunum rest.

Að vísu vil ég helst ekki koma nálægt þeim vegna fuglaflensunar, vil ekki bera með mér smit heim því kettir geta líka fengið fuglaflensu og dáið.

 

Áður en ég flutti inn í Skýjahöllina bað ég hirðsmiðinn minn um að setja öryggiskeðju á alla gluggana (sjá mynd) svo þeir gætu ekki opnast nógu mikið til að köttur kæmist út um þá, annars myndi Mosi fleygja sér út, hann er ekta Íslendingur, hugsar bara: Þetta reddast ... og kettir eiga 9 líf!

Mosi á bara 6 líf eftir - er orðinn 10 ára svo hann á vonandi nokkur góð ár eftir.

 

Stofan í himnaríkiNú um áramótin rifjaði margt fólk upp liðið ár en mig minnti einhvern veginn til að byrja með að árið hefði verið frekar viðburðasnautt hjá mér, eins og yfirleitt.

Svo fóru stórviðburðirnir 2024 að rifjast upp hver af öðrum.

 

Í apríl: Stráksi flutti frá mér eftir sjö ára búsetu í himnaríki. Það var mikil breyting fyrir okkur bæði. Hann flutti á dásamlegt sambýli þar sem hann unir hag sínum vel í lítilli og fallegri íbúð ... innan seilingar er öll sú aðstoð sem hann þarfnast, ásamt ást og umhyggju. Bæði jólum og áramótum varði hann hjá mér og gerir það eflaust um ókomna tíð, enda einn af fjölskyldunni ... og mesta jólabarn sem ég hef kynnst. Hann hefur komið reglulega í heimsókn hingað og gist.

Himnaríki sett á sölu (gæti hafa verið í apríl).

Júní: Það kom ljómandi fín umfjöllun í DV 22. júní. Gosútsýnisíbúð Gurríar til sölu ... og ansi margir mættu á opið hús í kjölfarið. Enginn þáði lakkrísinn sem ég hafði keypt af ömmu Andreu í Bónushúsinu ... Par sem mætti á opna húsið gerði tilboð ... og hviss bang, himnaríki selt! Ég hafði sjálf leitað mér að íbúð, mest í Kópavogi, en gekk voða illa að finna eitthvað þar sem hæfði efnahag og geitungahræðslu.  

8. janúar 2024Júlí: Aldrei tekið föst lyf við einu eða neinu, ótrúlega heilbrigð (nema fj. bakið) en Inga vinkona gerði allt vitlaust þegar blóðþrýsingurinn í mér var orðinn ósmekklega hár (ég hafði neyðst til að borða allan lakkrísinn frá opna húsinu sjálf). Frábæra heilsugæslan á Akranesi hætti ekki fyrr en þrýstingurinn fór að gefa sig og ég var sett á blóðþrýstingslyf í kjölfarið - sem ég man blessunarlega alltaf eftir að taka (fyrir utan 2 skipti). Þetta voru merkileg tímamót.

Ágúst: Viku eftir afmælið mitt ágerðust veikindi Kela, míns súpergóða kattar og vinar, og honum varð ekki bjargað. Hann var orðinn 14 ára og mikill dásemdarkarakter. Hann hafði á sínum tíma fundist ofan í poka með öðrum kettlingum í gjótu í Heiðmörk í desember 2010. Honum var hjúkrað til lífs og geðheilsu í Kattholti og þangað sóttum við Einar hann í lok ágúst eða byrjun sept. 2011.  

Spjall í afmælinu (12. ág.) leiddi til þess að ég útvíkkaði fasteignaleit mína yfir á fleiri póstnúmer. Ásamt Hönnu minni og háæruverðugri móður hennar, fórum við á nokkra staði þann 29. ágúst sl. og urðum spenntastar fyrir Skýjahöllinni sem er í 104 Reykjavík. Vissulega í grónu hverfi, en samt á útjaðri þess, sjúkk. Höllin stendur í rauninni við sömu götu og Harpa tónlistarhús ... eða Sæbrautina þótt ég sé nær Holtagörðum en Hörpu. Það sem okkur þremur sem skoðuðum íbúðina þótti furðulegt í tengslum við Skýjahöllina, var að skjöl frá húsfélaginu sem fasteignasalan lét mig fá, voru dagsett á afmælisdögum okkar þriggja, í maí, júní og ágúst, svo á ein vinkona mín að auki afmæli skoðunardaginn sjálfan.

Meant to be, hefði ég sennilega hugsað væri ég forlagatrúar. Íbúðin var vissulega stærst af þessum sem ég skoðaði og ágætlega falleg, og eftir tilboð og svo gagntilboð sem ég tók var allt innan fjárhagslegra marka og ég myndi ekki fara á hausinn, samt fá prýðilega íbúð, með útsýni og allt, vissulega nokkuð minni en himnaríki en hvað hefur svo sem ein hræða og tveir kettir að gera við 100 fermetra? 

Flutt frá HimnaríkiSeptember: Endalausar flensur og kvefpestir. Ónæmiskerfið hrundi, sennilega vegna flutningastressins, og ég varð eins og viðkvæmt barn nýbyrjað í leikskóla. Samt þurfti að pakka niður heilli búslóð. Þakklát Ingu minni sem hafði aðstoðað mig í Covid-ástandinu við að grisja þarna 2020 um leið og himnaríki var tekið í gegn. Ég bjó vel að því þarna fjórum árum seinna. Svo fékk ég mikla aðstoð frá Rahaf minni við niðurpökkun - og Ellen og Elvari, og Ingu. Ég fékk Skýjahöllina afhenta 1. okt. en ég vildi láta mála fyrst og gera gluggana katthelda, svo 5. október, laugardagur, var ákveðinn sem dagur flutninga. Svitlana niðri var ótrúlega frábær og kom í veg fyrir fráflæðivanda með því að fara með alls konar dót frá mér í Búkollu eða á haugana. Ég seldi gamla tekkskrifborðið mitt og keypti í staðinn mjög lítið tekkskrifborð sem passar betur í pínkuoggulitla vinnuherbergið.

Október: Daginn fyrir flutningana kom Hilda systir ásamt fríðu föruneyti, Inga líka, og við fluttum "eldhúsið" og annað brothætt á tveimur bílum í bæinn. Gengum frá því inn í skápa og ofan í skúffur, sem munaði ótrúlega miklu. Flutningar í bæinn þann fimmta. Fékk ómetanlega og fjölþjóðlega aðstoð: Ísland, Litháen, Sýrland og Úkraína ... 

Nóvember: Tónleikar með Skálmöld í Hörpu! 

 

Góðar glasamotturÞetta var svona það helsta sem gerðist 2024. Ég sakna Skagans og fólksins þar virkilega mikið, enda bjó ég í þessu góða samfélagi í rúm 18 ár, fyrir utan æskuárin auðvitað og nokkur ár þar á milli, en ég er samt líka ansi hreint ánægð hér í 104 Rvík.

Gott hús með góðu fólki, stutt í vini og ættingja, það tekur 9-11 mín. að keyra til mín úr Kópavogi og eitthvað svipað úr Þingholtunum ... talandi um að vera vel staðsett. Svo er ég loksins farin að vinna (í Skeifunni) og fyllti á Klapp-strætókortið mitt (með aðstoð Hildu systur) í kvöld, sé að það munar talsvert miklu í verði að kaupa mánaðarkort en að borga stakt fargjald. Þannig á það auðvitað líka að vera. Mánaðarkortið er á 11.200 kr., ég fer tvær ferðir á dag mán. til fim., sem gera átta ferðir í viku, 32 í mánuði ... sem þýðir að hver ferð er á 350 krónur. Þegar ég borga eina staka ferð, með peningum eða debitkortinu mínu, kostar hún 670 krónur - svo þetta er frábært.    

 

MYND: Flottu glasamotturnar sem ég fékk í jólagjöf. Þær eru svo móðgandi að ég leyfi gestum mínum að velja sér setningu til að þeir móðgi sig frekar sjálfir en ég þá. Anna vinkona valdi sér t.d.: Svart eins og sálin þótt hún hafi notað kaffirjóma út í kaffið sitt! Það er kurteislegasta glasamottan.

 

 

SófinnHirðsmiðurinn mætir til mín á þriðjudaginn. Eldsnemma! Það eru fjögur verk sem þarf að vinna:

 

1) Setja nýjar lappir undir nýja sófann. Það hækkar hann um þá þrjá eða fjóra sentimetra sem þarf til að hnén á mér hætti að ná upp að höku á mér þegar ég sit þar. Þá get ég losnað við bláu púðana úr sófanum, sjá vettvangsmynd. Lágir sófar eru ekki góðir, eiginlega bara hræðilegir ... nema fyrir það fólk sem kvartar aldrei yfir þrengslum í flugvél.

 

2) Setja upp fatahengið úr Jysk (þriðja tilraun), bora í grjótharðan vegg sem skrúfur hafa fest í ... Smiðurinn ætlar að mæta með spartl til að laga fyrri tilraunir. Staðan 2-0, veggnum í hag. Held að smiðurinn taki loftpressuna með - eftir hroðalegar lýsingar mínar á harðneskju veggjarins.

 

3. Færa nagla á vegg til að mynd verði á réttum stað.

 

4. Setja upp rúllugardínur í glugann á herberginu mínu svo ég geti sofið þegar sólin fer að skína nánast um miðjar nætur.

 

- - - - - - - - - - - - 

SénsleysiÁstamálin hafa svo sem ekki verið mér sérlega hugleikin síðustu dagana ... mánuðina ... jafnvel heilu misserin. Veit að ef foreldrar mínir væru enn á lífi myndu þau hafa gríðarlegar áhyggjur af þessu kattakerlingar- og kaffiþambslíferni mínu.

 

Heimurinn hefur breyst mikið og til er fólk sem hefur gifst sjálfu sér! Það kæmi aldrei til greina hjá mér, þótt ég elski og dái sjálfa mig langar mig frekar í maka sem getur eldað almennilegan mat (án Eldum rétt-hjálpar), kann að keyra bíl og á bíl ... eitthvað slíkt sem ég uppfylli því miður ekki sjálf.

 

Upp á síðkastið hef ég gælt við þá hugmynd að hekla mér karl úr plötulopa (yrði hlýlegri). Ég kann hvorki að prjóna né sauma og er alls ekki nein föndurkona svo hekl verður það að vera.

 

Svo gæti ég einhvern veginn, með hjálp Davíðs frænda, tengt manninn gervigreindinni og látið hann t.d. segja mér góðan pabbabrandara daglega, kennt mér spænsku (mig langar að læra spænsku) og hvatt mig til ýmissa dáða, eins og gönguferða eða skopps í stiganum frammi til að fá lögbundna hreyfingu. Jafnvel upplýst mig um spennandi hluti sem hann finnur í leyndum kimum alnetsins svo ég geti slegið um mig á kaffistofunni í hádeginu eða skorti aldrei umræðuefni í áríðandi kaffiboðum.

 

Þetta er auðvitað alls ekki ákveðið, ég hef verið í hekl-ládeyðu um nokkra hríð og þarf að klára eitt stykki barnateppi sem ég skulda áður en ég fer að hugsa um einhvern hekl-maka. Leyfi ykkur að fylgjast með.  


Loksins strætó, Skeifan og nýtt rúsínustríð ...

Nýklippt og ofsasætGærdagurinn fór meðal annars í að læra á strætó. Þá var þriðji dagur í nýju vinnunni en ég rúntaði um á leigubíl í öryggisleysi mínu fyrstu tvo dagana. Ekki bæði nýtt starf OG læra á strætó í einu! Það vildi svo ótrúlega til að skrefafjöldi minn jókst úr um það bil 600 skrefum (að meðaltali) í tæp 5.000! Litli spássitúrinn um Góða hirðinn með vinkonu gæti svo sem hafa orsakað hluta þeirra. Gemsinn minn var að missa sig af fögnuði! Ég geng nú samt pottþétt meira en 600 skref á dag, því ég er ekki með símann stöðugt á mér - hoppa og skoppa á milli herbergja hér án þess að það náist á skrá. Þvoði stofugluggann með látum um daginn, sólin opinberar allt, þvoði einhverjar þvottavélar og hengdi upp þvott með gemsann á einhverju borði ... svo ég taki nú smádæmi.

 

Ég auglýsti nýlega eftir öllum mínum strætóbílstjórum og farþegum á Facebook því mér fannst eiginlega fáránlegt að þurfa að fara upp í Breiðholt (Mjódd) með leið 12 og taka þaðan þristinn, held ég, niður á Miklubraut og fara út hjá Skeifunni. Það hlyti að vera til skárri og ögn styttri leið. Tvær mjög klárar konur, önnur bílstjóri, stungu upp á leið 12 í "hina" áttina, sem sagt fara í Höfðaborg (Borgartúni) og taka svo leið 17 á Grensásveg (6 mín. labb í vinnuna) eða leið 5 sem stoppar gegnt Glæsibæ (5 mín. þaðan). Prófaði leið 17 í gær frá Borgartúni og svo fimmuna í dag. Finnst fimman betri því það eru færri krókódílasíki, gaddagirðingar og ekki jafnhroðalegar hálku-hindranir gönguleiðina frá Glæsibæ, líka færri stórstræti að komast yfir. Grensásvegur er svakaleg umferðargata!

 

HálkaNýja vinnan ... hún er æðisleg. Samstarfsfólkið líka! Ég byrjaði á mánudaginn, þetta er hlutastarf og svo bíður annað hlutastarf innan tíðar annars staðar, ég hringi sennilega á morgun og skipulegg mætingar þangað. Ef þarf að mæta á morgnana, þarf ég að finna góða strætóa héðan í Kópavog og svo úr Kópavogi í Skeifuna. Þá spyr ég elskurnar mínar á Facebook ráða aftur. Grunar að tólfan í Mjóddina sé best og leið 4 þaðan í Kópavog. Leið 4 svo í Mjódd til baka og leið 3 á Miklubraut þaðan. (Nú finnst mér líklegt að Strætó bs vilji fá mig í vinnu, ég er orðin sérfræðingur eftir aðeins tvo daga, fjórða vinnan kannski?). 

 

Skeifan er ljómandi skemmtilegur og líflegur staður. Myndi þó njóta þess betur að ganga um og kynnast umhverfinu almennilega ef væru ekki himinháir skaflar, viðbjóðshryllingshálka ... eins og t.d. hálkugangstéttin fyrir utan visst fyrirtæki, rétt hjá vinnustaðnum mínum og sem er gönguleið mín í og úr strætó, hvort sem ég tek fimmuna eða leið 17. Allir í lengjunni mokuðu fyrir framan hjá sér nema þau ... sem er kannski mjög eðlilegt og bara flottur bisness, enda gæti fyrirtækið auðvitað grætt á því að við dettum. Plástrar, grisjur, teygjubindi, sokkar sem styðja við, sótthreinsikrem, spritt, jafnvel gifs (ef bráðavaktin er full) fyrir utan verkjalyf er hægt að kaupa þar. Auðvitað moka þau ekki, það væri fáránlegt svona þegar ég hugsa út í það. Það fer að hlýna svakalega næstu daga, svo kannski er leigubíll málið þegar lífshættuleg hálka geisar meðan á hlýnun stendur, þá þýðir ekki einu sinni að salta. Það getur verið svo gaman að taka leigubíl. Á mánudaginn fékk ég eiturhressan bílstjóra sem fékk sér víst í glas kvöldinu áður af því að vinur hans kom í heimsókn. Hann er B-manneskja, konan hans og börnin A-manneskjur sem voru búin að skafa bílinn fyrir hann um morguninn ... svo man ég ekki meira en hann er vel giftur maður. Þriðjudagsbílstjórinn átti ekki orð yfir að ég gengi ekki bara þessa leið heim ... upp alla Álfheimana, hálfan-ish Langholtsveginn, niður allan Holtaveg og heim ... en eftir að hann tók kílómetrastöðuna róaðist hann aðeins í þessu, stutt vegalengd á bíl en það er kannski meira en að segja það fyrir gönguferðahatara að ganga tvo kílómetra í vinnuna og svo tvo kílómetra heim (á sumrin allt of heitt og allt morandi í geitungum, á veturna hálka og rok og kuldi). Konan hans hafði unnið alla tíð á X-leikskóla, sagði hann mér, og þau bjuggu við X-götu sem kom þó ekki í veg fyrir að hún gengi til og frá vinnu Í ÖLLUM VEÐRUM! sagði hann hreykinn. Ég gubbaði innra með mér sem haturskona gönguferða en svo viðurkenndi bílstjórinn að þegar þau fóru til Tene um árið hafi hún dregið hann í hroðalega langar og erfiðar gönguferðir, hann hafi verið örmagna megnið af tímanum. 

„Ekki séns í þessari hálku,“ sagði ég ísköld. „Í ÖLLUM VEÐRUM,“ endurtók hann, svo innilega stoltur af göngu-frúnni sem fékk sér bara kvenbrodda í verstu færðinni.

Þegar fimman ók frá Glæsibæ (Suðurlandsbraut) að Höfðatorgi seinnipartinn í dag, fannst mér ég eiga skilið einn góðan ... enda 11 mínútur í tólfuna heim, skv. strætóskýlinu. Ég gekk að Kaffitári (rúmur hálftími í lokun!?!) og fékk mér latte sem bæði hressti og kætti. Náði þarnæstu tólfu heim rúmlega fjögur ... sem þýddi að vagninn var stútfullur af fólki á leið heim úr vinnu! Sennilega hefði ég náð betra sæti korterinu fyrr ... en hva. Ég er að læra á strætó upp á nýtt.

 

Margt ljómandi gott hjá strætó. Ég ætla þó ekki að borga endalaust með debitkortinu þótt það sé hægt, frekar fylla á Klappkortið sem ég keypti í desember en vinkonan sem var með mér þá og keypti líka Klappkort, fór þó illa út úr því, keypti sér hópferð í ógáti, borgaði fyrir fimm manns í einu í þessari einu strætóferð sinni, og hún er ekki einu sinni þybbin. Hún á bíl en vildi tékka á almenningssamgöngum. Við vissum auðvitað ekki þegar við fórum í Kringluna til að kaupa Klappkortin, að nákvæmlega fjórum dögum seinna yrði hægt að borga með venjulegu greiðslukorti ... held samt að slíkt sé dýrast, svona ef maður fer fjóra daga vikunnar á milli eins og ég.

Stoppistöðvarnar sjálfar eru svo algjör snilld, það kemur nefnilega fram þar hversu stutt eða langt er í næsta strætó. Leið 12: 2 mín. o.s.frv. 

 

Við Mosi í vinnunniHeimili mitt, Skýjahöllin, var í hálfgerðri rúst við heimkomu í dag, en lítið hefur verið vaskað upp og snurfusað síðustu daga. Fékk nefnilega í hendur verkefni rétt fyrir jól, tvö, til að vera nákvæm, og hef notað hverja frístund í að vinna við þau (með hjálp Mosa, eins og sést á myndinni) og nánast allt annað hefur mætt afgangi ... eins og bloggskrif, uppvask og jóla-niðurtakelsið. Skilaði verkefnunum af mér í gærmorgun og þótt þau væru skemmtileg var sem fargi væri af mér létt ... en þar sem þetta var fyrsti í strætó-dagurinn (í gær) var ég nánast örmagna við heimkomu og tók hvíld fram yfir húsverk, ótrúlegt alveg ... Skrapp vissulega í stutta ferð í Góða hirðinn með vinkonu eftir vinnu, hana vantaði sófa og fann einn fínan á 4.500 kr.

Ég lagðist upp í rúm á hitapoka eftir allt erfiðið, öll skrefin. Er líka að hlusta á svo spennandi og skemmtilega sögu á Storytel, Fórnarlambið eftir Henrik Fexeus. Var ekkert yfir mig spennt fyrst en er að springa úr spenningi núna, ætla samt að treina mér seinni rúmlega sjö klukkutímana til helgarinnar. Er löngu hætt að tíma að flýta lestrinum og stilla á meiri lestrarhraða eins og ég gerði fyrst, ég vil frekar njóta og ekki klára of hratt. Er komin í helgarfrí og ætla að fara í svolítið ráp með systur minni á morgun, þarf að kaupa mér góða brauðrist, skamma Elkó (hef tvisvar reynt að stilla á þvo/þurrka-prógrammið ... hún þvær en hættir svo, samt stendur þvo í 20 mín. og þurrka í 60 mín - 1 kg af þvotti). Systir mín á ögn stærri gerð af sömu vél og henni nægir að stilla á prógrammið en ég sé hvergi hvernig ég virkja þurrkaradæmið sem virðist þurfa að gera, vélin þvær bara í 20 mín. Það eru tveir eða þrír takkar sérmerktir þurrkun en ég er hrædd við að skemma með því að gera eitthvað vitlaust ... svo ég spyr kurteislega um þetta á morgun (ætla ekkert að skamma neinn). Það er samt mjög léleg þjónusta við neytendur að sleppa leiðbeiningum á íslensku, sérstaklega þegar um er að ræða rándýrar vélar, það segir sig ekki alltaf sjálft hvernig þeim á að stjórna. 

 

Skömmu fyrir jól fórum vér systur á ansi hreint skemmtilega jólatónleika, mína fyrstu (fyrir utan Jólasöngva Kórs Langholtskirkju á síðustu öld). Ég var ekkert voðalega spennt fyrir þeim þegar jólin nálguðust, hafði nóg að gera og óttaðist að þetta yrði eitthvað yfirþyrmandi væmið, svona rjómatertulegt hrímhlussudæmi. Ég þurfti ekkert að óttast. Þetta voru Vitringarnir þrír, og ég þóttist nokkuð viss um að þetta yrði alla vega fyndið en það varð eiginlega miklu meira en það, fyndið, hátíðlegt og flott. Ég skemmti mér konunglega!

 

Fjör á KleppsvegiHér í "Ævintýrahöllinni" hefur verið gaman að búa. Alltaf eitthvað að gerast ... ef það er ekki sérsveitin þá er það bara eitthvað annað. Djók. 

 

Á gamlársdag var ég frekar stressuð því ég sá að það var verið að loka Sæbrautinni ... eitthvað rosalegt hlaut að hafa komið fyrir en samt heyrðist ekkert í löggunni og hvergi sást í blá blikkljós. Fólk í gulum vestum stóð vörð svo enginn nema fuglinn fljúgandi kæmist. Ég fór á allar fréttasíður á netinu en enginn nógu vel vakandi blaðamaður hafði haft veður af þessu ... össs. Svo fór skyndilega að sjást í hlaupandi fólk, helling af því, og það rifjaðist upp fyrir mér að eitthvað væri til sem héti Gamlárshlaup ÍR ...

 

Eins og sést á myndinni hljóp talsvert margt fólk hér fram og til baka á Sæbrautinni á gamlársdag.

 

 

Nafli alheimsins er hér. Hérna er Friðarsúlan, gamlárshlaupið, rauður himinn í eldgosi (hinum megin við húsið), og margt fleira áhugavert. Verð samt að viðurkenna að ég er svolítið: Iss, miklu betri snjómokstur á Akranesi ... en ég verð þó líka að láta koma fram að það er talsvert snjóléttara á Skaganum en í höfuðborginni. Held að aðeins tvisvar á mínum 18 árum norðan rörs (árin 2006-2024) hafi snjóað meira á Akranesi en í Reykjavík.

 

KlippinginElskan hún Fatima, vinkona mín frá Sýrlandi, kom í stutta heimsókn um daginn.

Eins og sitthvað fleira hér í borginni, hefur það vaxið mér í augum að koma mér í klippingu ... ég get ekki pantað tíma hjá minni konu á Skaganum þegar allra veðra er von, bíða kannski í mánuð eftir tímanum og svo er ófært vegna vindhviða á Kjalarnesi! Þar sem Fatima starfaði sem klippari í Sýrlandi spurði ég hana hvort hún væri til í að klippa mig, bara smávegis svo ég gæti sýnt mig utandyra. Hún ráðlagði mér að biðja frekar manninn hennar (sem er ansi klár klippari og, að hennar sögn, í miklu meiri æfingu en hún), og það var minnsta mál í heimi að koma af Skaganum og klippa "ömmu" sona þeirra hjóna. Á laugardaginn mætti svo öll yndislega fjölskyldan, sætu synirnir sem kalla mig ömmu, alla vega sá eldri, klipparinn kom með skærin sín, slá, hárlakk og fleira sem til þurfti og hviss, bang, ég léttist um mörg kíló af hári og yngdist um sirka tuttugu ár, ef eitthvað er að marka speglana heimilisins. Snöggur og virkilega góður klippari. Ég átti smákökudeig í ísskápnum og hafði bakað eina plötu sem hélt drengjunum hamingjusömum fram yfir klippingu.

 

Myndin sýnir klippinguna ... á byrjunarstigi.

 

Nýtt rúsínustríðNýtt rúsínustríð er skollið á. Ég fann lítinn ógeðslegan rúsínupakka ofan í töskunni minni eftir jólahátíðina sem ég varði meira og minna heima hjá vissri systur minni. Nú verða engin vettlingatök, heldur eintóm harka og hefnigirni. Hef ekki gert plan vegna anna en það verður sko gert.

Rúsínur eru verkfæri Satans, eins og döðlur, hnetur og möndlur ... en ég læt þessa ekki óhefnt. Síðast (fyrir löngu, löngu) fannst mér ég svo ofboðslega klár og laumaði rúsínupakka sem systir mín hafði áður troðið inn í skáp heima hjá mér, í veskið hennar á meðan hún var í heimsókn hjá mér í himnaríki, og skemmti mér konunglega yfir þessari lymsku minni. Hlakkaði yfir þessu í næsta símtali og þá kom áfallið: „Jú, ég tók eftir pakkanum áður en ég fór og faldi hann heima hjá þér (í himnaríki) ...“ Ég fann hann loksins, eða þegar ég var að pakka niður, áður en ég flutti í bæinn.

Kalla mögulega saman nokkrar vinkonur til skrafs og ráðagerða um næstu aðgerðir, um þá hernaðaráætlun sem þarf að gera. Blóð, sviti, tár ... allt til að vinna sigur. Óttast nú samt að þetta geti orðið nýtt 100 ára stríð ...

 

Mynd: Mosi horfir með hryllingi (réttilega) á rúsínupakkann sem ónefnd systir setti lymskulega í töskuna mína þegar ég reyndi að halda heilög jól með henni fyrir skömmu. Systur eru systrum verstar, mætti halda ... Hörkuleg hernaðaráætlun með fullri gagnsókn er í burðarliðnum. Megi sumir passa sig allsvakalega mikið ... 


Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 247
  • Sl. sólarhring: 315
  • Sl. viku: 870
  • Frá upphafi: 1524702

Annað

  • Innlit í dag: 220
  • Innlit sl. viku: 743
  • Gestir í dag: 216
  • IP-tölur í dag: 215

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband