Færsluflokkur: Íþróttir

Spennufall hjá þjóðinni

DorritHvað nú? Ólympíuleikarnir búnir, líka menningarnótt og ekkert fram undan til að hlakka til og æsa sig yfir nema þá helst blessuð jólin og klikkunin í kringum þau. Fyrrihluti árs og sumarið inniheldur mun fleiri uppákomur sem hægt er að hlakka til: Nýársdagur, bolludagur, páskarnir, sumardagurinn fyrsti, 1. maí, 17. júní, gaypride, afmælið mitt, menningarnótt og fleira og fleira. Að vísu er Formúlan ekki búin og heldur ekki Landsbankadeildin.

Nú fer t.d. fram fótboltaleikur hér á hlaðinu fyrir neðan himaríki, ÍA-HK. Staðan er 1-2 í hálfleik. Femínistinn (erfðaprinsinn) lætur gengi liðsins okkar ekki skemma fyrir sér spenninginn en hann hefur nám nú í vikunni eftir langt hlé, skólinn hans verður settur í fyrramálið. Hvað með það þótt við spilum í 1. deild eitt sumar ... ef við föllum? Ég fylgist óbeint með leiknum í beinni lýsingu (skrifum) á mbl.is og þegar ég heyri öskur fer ég á síðuna og sé innan tíðar hvað hefur gerst.

Vona að kvöldið verði ljúft og að nóttin færi ykkur góða drauma.


Vona að mér skjátlist ...

Venjulegur laugardagsmorgunnHið ótrúlegasta henti hér í himnaríki í morgun og hefur ekki gerst svo lengi sem elstu menn muna ... eða vaknað fyrir kl. átta um helgi. Þrátt fyrir að augunum hafi verið lokað mjög fast, sænginni vafið þéttar og heyrst hafi svæfandi veðurhvinur sem kemur ef glugga hefur ekki verið lokað nógu vel var algjörlega ómögulegt að sofna aftur. Þetta hefur ekki gerst í manna minnum og tel ég undirmeðvitundina vera að þjálfa mig í helgarvakni fyrir morgundaginn. Þótt ég forðist streitu af öllum mætti ætla ég að horfa á leikinn.

DVFyrir nokkrum dögum stóð ég í Hálsaskógi og beið eftir strætó nr. 18 áleiðis að Ártúni þaðan sem leiðin lá í Mosó og síðan á Skagann. Svona rosalega venjulegt eitthvað. Þá kom ungur maður hlaupandi, líklega hræddur við að missa af strætó sem brunaði ákveðinn úr Grafarholtinu og voru svona 15 sekúndur í hann. Maðurinn, sem áttaði sig á kringumstæðunum á örskammri stund sagði: „Æ, ég sem ætlaði að plata þig í spurningu dagsins í DV.“ „Skjóttu bara,“ sagði ég ótrúlega töffaralega, engin spurning of erfið fyrir mig, fannst mér, vonaði þó heitt að hún tengdist ekki stjórnmálum, það getur verið erfitt að vera ópólitískur og elska suma sjálfstæðismenn, framsóknarmenn, samfylkingarmenn, vinstri græna ... Þakklátur sagði maðurinn: „Já, ég veit alla vega að þú ert fimmtug, ha ha ha,“ og ég dauðsá eftir tattúinu sem ég lét setja á ennið á mér á í síðustu viku. Svo kom spurningin: „Í hvaða sæti lendum við Íslendingar á Ólympíuleikunum í handbolta?“ Þá vorum við enn í átta liða úrslitum. „Í öðru sæti, við fáum silfrið,“ sagði ég ótrúlega vongóð, maður peppar sko strákana sína upp og hefur trú á því óhugsanlega. Síðan gerðist hið ómögulega í gær og það er ekki séns á því að við lendum neðar en í öðru sæti.

ReynirÍ gærkvöldi fékk ég tölvupóst fá elskunni honum Reyni sem ég vann með fyrir mörgum árum og hefur greinilega lesið gáfuleg svör mín í DV: „Ég vissi að þú vissir þetta. Sá allt í einu Íslendinga í úrslitum við Frakka í gær og fór rólegur í sund í hádeginu í dag. Kristalskúlan þín klikkar ekki.“ Nú veit ég að við verðum að sigra á morgun, annars mun mér aldrei takast að fá Reyni Trausta eða Sigurjón M. Egilsson til að trúa því að ég sé ekki völva Vikunnar. Þeir stríða mér reglulega á því og ég urra á móti. Völvan er stundum vond við þá tvo í spádómum sínum og mér myndi aldrei detta slíkt í hug við þessar elskur. Ef ég þekki mig rétt myndi öllum ganga rosalega vel, ekkert vesen í þjóðfélaginu, bara ótrúleg velgengni.

SamkvæmisleikurÞegar ég fékk gefins tarotspil í gamla daga (1985) og var samstundis gerð að hirðspákonu vinahópsins og alls frændgarðs hans lærði ég hratt og vel á spilin en var ekki með nokkra einustu andlega hæfileika, er mjög jarðbundin og hef alltaf litið á spádóma sem samkvæmisleik sem ekki ber að taka alvarlega og nenni ekki fyrir nokkurn mun að snerta á spilum í dag, nema fyrir stjörnuspá Vikunnar (held að mörg blöð þýði erlendar stjörnuspár, ekki Vikan). Slík manneskja á ekki skilið að vera strítt á því að vera völvan ... en ef við lendum í öðru sætinu þá verð ég í ljótum málum.

Hef því tvöfalda ástæðu til að rífa mig upp í fyrramálið og hvetja strákana og neyða þá með hugarorkunni til að sigra! Áfram Ísland!


mbl.is Norski landsliðsþjálfarinn spáir Íslendingum sigri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af kynjahlutverkum í himnaríki ...

Fótbolti„Framlenging,“ öskraði ég úr vinnuherberginu. „Já,“ svaraði erfðaprinsinn. Ekki svo löngu síðar kallaði hann úr austurhlutanum: „Kvennamorðklúbburinn er að byrja!“ „Takk,“ heyrðist frá vesturhluta himnaríkis af svipuðum uppgerðaráhuga, enda stefndi allt í vítaspyrnukeppni í leik Spánverja og Ítala. „Vítaspyrnukeppni!“ gargaði ég nokkru síðar. „Aha,“ umlaði sonurinn.

 

UppeldiðMér hefur hefnst fyrir allt of „opið“ uppeldi. Dæmi: „Láttu engan segja þér, kæri erfðaprins, hvað þú átt að horfa á í sjónvarpinu. Þú ert ekkert minni strákur þótt þú horfir á eitthvað sem merkt er stelpum sérstaklega!“ sagði ég við hann þegar hann var yngri í þeim tilgangi að efla sjálfstæða hugsun hans. Þetta var vel meint en ég finn að það er að koma í hausinn á mér núna. Alltaf gott að hafa félagsskap í boltanum.

 

Stöð 2 auglýsir stelpudagskrá, og SkjárEinn líka, á meðan strákarnir horfa á boltann en kynjahlutverkin hafa eitthvað snúist við hérna á heimilinu. Ég þarf líklega að skreppa niður á Mörk til að horfa á boltann með „hinum“ strákunum, verst að kaffið þar er eflaust ekki mjög gott. Sjáum þó til þegar úrslitaleikirnir hefjast, mig grunar að einhverju verði fórnað fyrir þá. Annars bjó ég til sunnudagsvöfflurnar í dag og kynjajafnaði þetta aðeins.

 

KvennamorðklúbburinnLíklega hefði ég nú bara platað erfðaprinsinn til að setja á Stöð 2 plús og horft á Knennamorðklúbbinn ef ég væri ekki búin að lesa bækurnar. Þær eru venjulegar spennubækur og frekar mikið spennandi. Þetta segir bara að ég er allt of íhaldssöm og þoli illa of miklar breytingar frá bók yfir í sjónvarp. Stöðvar 2-kynningarnar á Kvennamorðklúbbnum voru alveg réttar og ég sem nöldraði út í eitt yfir þeim, algjör mistök! Spiluð er svona rómantísk tónlist undir ýmsum atriðum þegar tilfinningar koma við sögu en konurnar virðast samt nokkuð klárar, þótt þær séu konur, ég sá restina af þættinum. Svona sæt tónlist er reyndar líka spiluð undir í elsku Grey´s Anatomy og passar bara vel þar, enda hef ég ekki lesið bækurnar ... Æ, mér finnst ég hafa verið svikin um spennuna. Svo þarf ég endilega að fletta upp í bókunum og athuga hvort ein kvennanna; réttarmeinafræðingurinn, saksóknarinn eða löggan, sé svo klígjugjörn að hún kasti upp á morðstað, það var alla vega í síðasta þætti, sýndist mér. Uppköst eru nú ekki sérlega dömuleg, nema verið sé kannski að undirstrika veikleika eða eigi að vera krúttlegt. Hmmm!

 

MonkÉg fórnaði restinni af Monk fyrir restina af leiknum, framlenginguna og vítaspyrnukeppnina. Þannig að ég veit ekkert hvort Monk tókst að hreinsa sig af skotárás á jólasvein þarna í byrjuninni.

 

Ally mín elskulegSvo fer Ally McBeal að hefjast ... annað hvort þarf ég að fórna boldinu eða fótboltanum. Hmmm, líklega boldinu! Það líður þó að boldfærslu. Hjónaband Nicks og Brooke er t.d. að fara í hundana. Bridget huggar Nick, stjúpföður sinn og fyrrverandi eiginmann, og segir honum að Brooke endi ALLTAF hjá Ridge. Donna er brjáluð út í Ridge, búin að fatta að hann hefur verið að nota hana til að gera systur hennar, Brooke, afbrýðisama. Jamms, meira á morgun.


Að rústa Svíum, öðlast ofursjón ... og kvikmynd kvöldsins

Handbolti„Ætlar þú ekki að horfa á leikinn?“ spurði erfðaprinsinn um miðjan dag. „Æ, og láta Svíana rústa okkur, held ekki,“ svaraði móðirin. „HA?“ hváði erfðaprinsinn og himnaríki hrímaði. „Ég sagði að við myndum rústa Svíum,“ áréttaði ég með þjóðernisstolti í röddinni. „Vá, ég ætlaði að segja það,“ sagði prinsinn. Svona getur maður nú bjargað heiðri sínum á lymskulegan hátt og mögulega tryggt íslenska handboltaliðinu sigur með þessum áhrínsorðum. Það náðist myndbandsupptaka af þessu samtali. Tek fram að ég er afar ungleg í útliti og erfðaprinsinn ansi hreint karlalegur miðað við að vera á þrítugsaldri.

Ofursj�nFyrr sama dag:
„Sérðu einhverja breytingu á mér?“ spurði ég skömmu eftir hádegi. Erfðaprinsinn mændi á mig og svaraði neitandi. Ég hafði sett linsurnar í mig í fyrsta sinn í ábyggilega tvö ár en hann sá ekkert athugavert. Annars hef verið með arnarsjón í dag, sá m.a. bát úti á reginhafi og tilveran hefur á allan hátt verið mun skýrari. Er aðeins að hvíla mig á gleraugunum. Mér líður eins og súperhetju sem getur leyst upp málm. Spangirnar á gleraugunum eru farnar að særa mig á bak við eyrun, einhver málmhúð orðin löskuð. Ég setti límband þar rétt fyrir brottför í vinnuna á föstudagsmorgun og það var ekki fyrr en um hádegisbil sem einhverjum samstarfsfélaga varð að orði: „Það er límband í hárinu á þér.“ Held að til séu plasthlífar til að bjarga svona málum, fer í það síðar.

Hér kemur svo kvikmynd kvöldsins með texta fyrir þá sem skilja ekki mælt mál:

 


Kremja, höfnun, ótíðindi + óvænt gleði&frábærar fréttir

Plássleysi fyrir flotta fæturStrætóferðin var svolítið sjokkerandi í morgun, höfnun, kremja, vondar fréttir af sumaráætlun ... Harpa harðneitaði mér um að setjast hjá henni þegar 25 krakkar úr Grundaskóla komu inn við íþrótthúsið. Hún vildi frekar fá vinkonu sína, var búin að veifa henni og vinkonan að koma inn í vagninn, alsæl yfir að hitta Hörpu. Ég gat því miður ekki velt mér upp úr því, Hafði ekki tekið eftir vinkonunni og gerði mig að fífli þegar ég bauð henni félagsskap minn. Ég settist fyrir aftan meinleysislega, svolítið góðlega konu en nú veit ég að útlit segir ekki rassgat! Þessi sakleysislega, næstum góðlega kona gerði sér lítið fyrir og  hallað sætisbakinu aftur. Mér brá svo mikið þegar hnén krömdust að ég öskraði upp yfir mig, kvenlega þó og ekki mjög hátt. Sein í vinnunaSvona er að vera vaxin eins og fyrirsæta, eða með langar lappir. Hnén eru enn í hálfgerðri kássu eftir óhappið 2006 þegar ég datt á ógæfumölinni, sneri mig á vinstra og gataði það hægra (9 spor). Konan leit grimmdarlega á mig og setti sætisbakið upp aftur. Ég reyndi að segja henni að þetta væri allt í lagi, ég gæti setið útglennt alla leiðina í bæinn en hún svaraði mér ekki. Ég var viss um að ég hefði eignast óvin. Á Kjalarnesi kom kona inn í vagninn, settist brosandi hjá "óvinkonu" minni og ég heyrði mér til léttis að þær töluðu útlensku. Ekkert hatur í gangi, bara smá málleysi.

Aðalsjokkið var svo eftir: Nágrannakona mín sagði mér að ferð strætisvagns númer 15 sem við tökum alltaf í Mosó, verði lögð niður í sumar og að við þyrfum að bíða í 20 mínútur eftir þeim næsta! Þá verða allir of seinir í vinnuna sína og ég missti af leið 18 og þyrfti að bíða í 20 mínútur í Ártúni líka. Ef þetta er rétt og óbreytanlegt þá verð ég að leita að einhverjum Skagamanni sem fer í bæinn á bíl, ég nenni þessu ekki. Skrýtið að Strætó bs miði ekki við vinsælustu leiðina sína (27 Akranes) og finnist í lagi að láta 40 manns (eins og í morgun) bíða svona lengi og verða of seina í vinnuna.  

Hermann HreiðarssonÍþróttaþýðandinn hugumstóri svaf í leið 18 þegar ég kom inn. Aðeins tveir Indverjar voru í vagninum að þessu sinni. Ég vakti þýðandann á leiðarenda en syfja hans var vegna nokkurra sænskra stelpna sem höfðu gist heima hjá honum undanfarið og vöktu hann svo fyrir kl. 6 í morgun. Ég kvartaði yfir sumaráætlun strætó við hann og dagurinn byrjaði að skána. Ég lét það ekki ergja mig þótt sölumannskvikindi gærkvöldsins hefði lækkað stólinn minn niður á gólf og gert bakið laust. Nei, þetta verður góður dagur, hughreysti ég sjálfa mig. Ég tala bara við strætó, Gurrí mín, og segi þeim að ef þessi ferð leiðar 15 verði lögð niður þá muni allir Skagamenn verða of seinir í vinnuna sína, þeir hljóta að breyta því. Þeir eru svo góðir. Og fallegir. Já, og líta einstaklega vel út í dag. Þarna var ég komin í gírinn.  

Viggó krúttÞegar ég var að tékka póstinn minn sá ég eitthvað gullfallegt koma inn á sjónarsviðið, eða sjálfan Hermann Hreiðarsson. Ekki nóg með þetta ... Jói dreifingarstjóri fór á Kaffi París með frúnni sinni í gærkvöldi og hún sat næstum því í fanginu á Viggo Mortensen leikara, bara fréttin af þessu gladdi mig, enda fannst mér Viggó ákaflega huggulegur í Lord of the Rings-myndunum.

Samstarfskonur mínar hakka nú í sig harðfisk þannig að viðkvæmt morgunofurlyktnæmi mitt er í hálfgerðu sjokki. Ilmvatn (rakspíri) er stranglega bannað í kirkjukórum en lögin ná ekki yfir harðfiskát á vinnustöðum. Ég ætti kannski að sníkja bita af þeim, þá verður lyktin léttbærari. 

Maður dagins er þó sá sem dúllaði sér á skurðgröfunni í Ártúnsbrekkunni á leið til Reykjavíkur. Löggan stoppaði hann, líklega fyrir of hægan akstur á annatíma. Skyldi hann hafa rifið kjaft við lögguna, eins og ungi maðurinn í 10/11, eða kunni hann mannasiði?

P.s. Viðbót til varnar strætó. Kíkti á sumaráætlunina og sé ekki betur en að við náum leið 15 á sama tíma og venjulega í Mosó. Mikið er ég ánægð með það. Hitt hefði ekki staðist, nema hugsunarhátturinn sé orðinn: Aldrei of illa farið með góða Skagamenn. Nýjasta eineltið: Gurrí, er það rétt að það sé búið að stofna fámenningarhús á Skaganum? Hehehe


Ólæst úrslit ...

hreidarssonÞegar 32 mínútur voru liðnar af leik Cardiff og Portsmouth fattaði ég að hann var ekki í læstri útsendingu. Var bara að rúlla milli stöðva þar sem ég vissi hvort eð er að uppáhaldið mitt dytti út úr Idolinu ... sem ég hef þó sama og ekkert fylgst með. Staðan er 1:0 fyrir Hermann Hreiðarsson. Man ekki til þess að ég hafi séð þetta auglýst í ólæstri dagskrá en ég er svo sem ekki búin að sjá blöðin í dag, rétt að komast til meðvitundar. Kannski er heilsíðuauglýsing frá Stöð 2 Sport 2 þar sem segir að leikur sé ekki ruglaður. Ábyggilega.

Jæja, blogg jú leiter, ætla að horfa á leikinn.


Of gott til að vera satt - hætt með Stöð 2 sport!

Við erfðaprins órökuð á páskadagsmorgni ... enÁskriftin að Stöð 2 Sport varði stutt. Var búin að hlakka ógurlega til að horfa á enska boltann á morgun, enda tveir stórleikir á dagskrá. Við erfðaprins biðum þolinmóð á meðan góða fólkið á Stöð 2 afruglaði hjá okkur en það gerðist hægt, nema á gömlu Sýn, þar var golf! (Hrollur) Ég sé helvíti fyrir mér sem heitan stað þar sem hnetumöndludöðlurúsínu-buff hlýtur að vera í matinn og beinar útsendingar frá golfmótum í sjónvarpinu allan sólarhringinn.

 ------        ----------    -----------      ------------     -----------

ErfðaprinsinnEftir tvo eða þrjá tíma hringdi erfðaprinsinn í s. 515 6100 að beiðni minni og fékk þær fréttir að enski boltinn væri alveg sér og pakkinn allur kostaði um 4.000 krónur. Skrýtið að konan hafi ekki minnst á það þegar hún seldi mér áskriftina. Ég hætti við allt saman. Eftir að hafa hlustað á fréttir Stöðvar 2 sannfærðist ég um að ég hafði gert rétt en þar kom fram að beina Formúluútsendingin verður órugluð kl. 6 í fyrramálið ... en EKKI í endursýningu um hádegisbil. Nú íhuga ég í fúlustu alvöru að skila inn afruglaranum og hætta að skipta við þetta fyrirtæki. Ég hef heyrt um nokkra aðila þarna úti sem lifa góðu og innihaldsríku lífi án þess að vera með Stöð 2. Ég hef verið tryggur kaupandi, eða M12 áskrifandi, síðan á níunda áratug síðustu aldar og er mjög þolinmóð að eðlisfari, núna er mér nóg boðið. Ég veit að bisniss er bisniss ... en þetta með Formúluna er hrein mannvonska.


Tennis eða keila ...

Ég veit ekkert hvað þetta þýðir en myndin er flottFékk nýlega frábærar bakveikiráðleggingar í kommentakerfinu, eða þær að kaupa tvær tenniskúlur, leggjast á bakið á tenniskúlurnar og rúlla mér á þeim um gólf himnaríkis. Þetta er víst allra bakmeina bót. Nú, erfðaprinsinn uppveðraðist þegar hann heyrði af þessu, brást skjótt við og fór í íþróttabúð í Reykjavík í dag. Hann, þessi stórhuga einkasonur sem nennir engu kjaftæði, afhenti móður sinni tvær KEILUkúlur og sagði: „Náðu þessu úr þér í eitt skipti fyrir öll, hjartkær móðir mín.“

Til að gera langa sögu stutta þá skrifa ég þetta blogg frá bakveikideild Sjúkrahúss Akraness, 6. hæð, vesturálmu, í íbúfenvímu, drekk malt og maula snittur með gulldufti til skrauts, á milli þess sem ég hlæ daðursfullt framan í læknana sem hafa aldrei séð flottara brjósklos á ævinni.

 --------                  --------               -----------

Við Tommi að rúllaNei, djók, hann keypti auðvitað tenniskúlur sem ég horfi kvíðin á og legg varla í að fara að rúlla mér á þeim. Held þó að um leið og ég er búin að blogga og ýta á "Vista og birta" geri ég heiðarlega rúll-tilraun og stefni samt að því að halda virðingu minni!

Sú hætta er nefnilega alltaf fyrir hendi að Tommi feitabolla reyni að hoppa upp í fangið á mér til að kúra hjá „mömmusín“ þegar hún liggur ósjálfbjarga á gólfinu og þá er líklegt að þetta endi á bráðamóttöku og jafnvel með íbúfen í æð. Erfðaprinsinum væri svo sem trúandi til að setja Jónas í gang og taka svo myndir

Hvað á ég að láta þáttinn minn á Útvarpi Akraness heita? Hann verður á dagskrá 1. des, held ég, í svona tvo til þrjá tíma (vonandi eftir hádegi), hef ekki séð dagskrána. Langar að tala um jólin, nýútkomnar bækur ... Tillögur vel þegnar, mjög, mjög vel!!! Allt þetta andans fólk sem heimsækir bloggið ætti nú að skutla fram eins og einu góðu nafni um helgina!


Góður árstími - jólabækurnar

Inga engillStressdagur til hálfsjö í gær og þá kom engill og keyrði mig heim. Já, það eru til englar. Skil ekki alveg hvernig sumir komast í peysu fyrir vængjum. Við vöknun upp úr 10 í morgun var ekki einu sinni til orka til að búa til latte og sú ákvörðun tekin að fá bara í bakið. Held að ég þurfi að fá mér nýja dýnu. Einu sinni gistum við Hilda hjá vinkonu hennar á Akureyri og elsta barnið fór úr rúmi fyrir mig. Glerhörð dýna sem lagaði sig eftir líkamanum. Held ég hafi aldrei sprottið jafnhress upp úr nokkru rúmi en eftir að sofið heila nótt í því.

Erfðaprinsinn er á krá eins og svo oft á laugardögum og er það fótboltinn sem tælir, ekki brennivínið. Er að hugsa um að laumast til að setja Jónas af stað í fjarveru hans. Skilst að West Ham hafi skorað eitt mark.

Best að lufsast til að drekka latte-inn minn og lesa meira í bókinni Grunnar grafir eftir Fritz M. Jörgensen, það er skemmtilegur höfundur, íslenskur, hann skrifaði líka kiljuna Þrír dagar í október. Kláraði barnabókina hennar Gerðar Kristnýjar í gærkvöldi og er stórhrifin, minnir að hún heitir Veislan á Bessastöðum. Hrikalega fyndin og skemmtileg. Já, það er gaman á þessum árstíma. Allt í drasli en fullt af bókum. Erfðaprinsinn er að lesa nýja bók eftir sama höfund og Artemis Fowl og er vægast sagt stórhrifinn. Held að við höfum bæði erft barnslegan bókasmekk frá föður mínum sem argaði úr hlátri yfir Andrésblöðum til dauðadags.  


Ævintýraleit, þjóðahátíð og tímatökur

Haldið var í ævintýraleit um kl. 14.30. Tókst að plata erfðaprinsinn út með því að segja honum að líklega væri kökuhlaðborð í Skrúðgarðinum og Dieselbuxur á 4.990 í Ozone. Sá upplýsingar um það síðarnefnda í Póstinum, litla sæta dagskrárblaðinu okkar Skagamanna sem alltaf er lesið í tætlur. „Okkur varð nú ekki kápan úr því klæðinu,“ stundi erfðaprinsinn beiskur við heimkomu. Buxurnar voru bara í stelpustærðum, sýndist okkur, ekkert slíkt fyrir hávaxinn myndarmann.

María á flótta undan myndavélinniSkrúðgarðsprinsessurnarUppskera dagsins var þó ekki rýr, heldur kaffi og heit súkkulaðikaka í mallakút og langþráður kattasandur. Kökuhlaðborðið verður líklega annan sunnudag í nóvember. Fyrsta sunnudaginn verður Þjóðahátíð, eitthvað dásamlega sniðugt á vegum Rauða krossins þar sem m.a. er hægt að njóta krása frá heimalöndum nokkurra útlendinga sem búa hér á Skaga. M.a. munu írsk menning, indversk og pólsk ráða ríkjum. Ekki séns að maður láti þetta fram hjá sér fara! María Skrúðgarðsdrottning er einstaklega uppátækjasöm og það verður bráðum salsakvöld hjá henni. Skil varla hvernig ég gat lifað innihaldsríku og góðu lífi áður en kaffihúsið kom.

Bjartur er enn í pössun í himnaríki og er mun stilltari en síðast. Hann heldur að mestu til í þvottahúsinu og sefur þar daglangt bak við þvottavélina, ofan á sokk sem gleymist alltaf að sækja. Litli högninn með eldspýturnar ... Hann kemur reglulega fram til að borða, drekka og láta klappa sér. Honum virðist líða vel þótt hann kúgi ekki heimiliskettina að þessu sinni.

Nú er tímatakan hafiní Formúlunni og spennandi að sjá hvernig ráspóll verður á morgun, allt galopið og þrír hafa möguleika á því að ná heimsmeistaratitlinum. Óskir mínar um heimsmeistara: 1. Hamilton. 2. Raikkonen. 3. Alonso. Ekki dirfast að mótmæla mér!

P.s. Búin með bókina hans Árna Þórarinssonar, hún er algjör snilld! Finnst Einar blaðamaður einstaklega skemmtileg persóna og vona að ég geti lesið um ævintýri hans næstu áratugina! 


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 61
  • Sl. sólarhring: 243
  • Sl. viku: 1542
  • Frá upphafi: 1454011

Annað

  • Innlit í dag: 58
  • Innlit sl. viku: 1295
  • Gestir í dag: 56
  • IP-tölur í dag: 56

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Draugar og uppeldi
  • Himnaríki sjór
  • Flutningar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband