Færsluflokkur: Íþróttir

Samkvæmislífið fer á fullt ... loksins

SundfötHugsa hlýlega til samstarfsfólks míns sem nú er í óvissuferð í rútu einhvers staðar. Vona að það skemmti sér konunglega með sundbolina sína og sundskýlurnar! Samt var engin sundlaugarferð fyrirhuguð, mögulega verður sundfatabrenna og þá mun ég naga mig í handarbökin fyrir að hafa ekki mætt, enda mikill sundlaugahatari (þá er ég ekki bara að tala um sundlaugarljóskastarann sem leggur mig í einelti, eins og ljósastaurinn sem eitraði líf mitt á Hringbrautinni).

Við erfðaprins fórum hins vegar í fullvissuferð á Skrúðgarðinn áðan og fátt kom okkur á óvart. Kaffið gott að vanda og kökurnar ekki síðri. Þvílíkur munur samt eftir að ég áttaði mig á því að tvöfaldur latte er svo miklu betri en einfaldur. Hittum elskuna hana Flórens, http://sigrunsveito.blog.is/blog/sigrunsveito/ , konuna sem bjargaði mér eftir fallið ógurlega á ógæfumölinni fyrir ári ... þegar ungi, sæti læknirinn neitaði að láta duga kyssa á bágtið. Nú veit ég að mörgum karlmönnum finnst gaman að bródera. Ég sagði þó stopp þegar hann ætlaði að hekla grisju yfir meiddið. Kvenlegar hannyrðadyggðir eru okkar stelpnanna!

Mamma viðruðGott hjá erfðaprinsinum að vera svona duglegur viðra aldraða móður sína á fína kagganum. Verst hvað henni finnst fúlt að "liggja" svona á gólfinu í bílnum og geta ekki litið niður á aðra vegfarendur ... þetta er nefnilega alvörukaggi og maður situr niðri við jörð og það þarf liðugt kvikindi til að koma sér vel fyrir í honum. Ég er kannski liðug en ekki kvikindi. Samkvæmislífið er greinilega að hefjast aftur af fullum krafti eftir lægð, ferð á kaffihús í dag og matarboð hjá Míu systur annað kvöld.
Þetta er nú meiri aftakan á Laugardalsvellinum, vonandi ná okkar menn að snúa þessu dæmi við af fullri hörku núna í seinni hálfleik.


Völvan og dollan ...

Forsíðustúlka völvublaðsins ...Völvan okkar á Vikunni var búin að spá því að FH-ingar yrðu ekki Íslandsmeistarar en hún gat ekki séð hvaða lið hampaði titlinum 2007. Ég get upplýst hér og nú að það voru Valsmenn. Magga mín, innilega til hamingju! Ó, þeir eru svo glaðir, enda ekkert skrýtið, 20 ár síðan þeir fengu dolluna síðast.

Við (ÍA) höfnuðum í 3. sæti, gæti verið verra, í fyrra vorum við í svipuðum sporum og KR núna ... næstum fallin.

Mótokrossið búið og hálfeinmanalegt að sitja við gluggann og sjá bara gröfur að taka til og svona. Þröstur minn þarf ekki að óttast varanlegar skemmdir á sandinum ... sjórinn lagar allt á næstu klukkutímum, þessi elska.

Guðmundur var að hringja og c.a. klukkutími í hann. Þá er bara að skella kökunni í ofninn, ég er búin að hræra deigið. Nú ættu bara Þröstur og Edda að skella sér í nýbakaða köku, eplaköku með vanillu- og súkkulaðifyllingu ... þetta yrði þá óvænt og bragðgott bloggvinamót. 


Mótokross á Langasandi, bold og margt fleira

Mótokross á LangasandiNú er komin útskýring á fánunum á hlaðinu. Á sandinum stendur yfir mótokross! Dásamlegar drunur fylla himnaríki, þýðandi og þulur með gjallarhorn eykur enn frekar á stemmninguna. Vildi að fólkið hefði fengið betra veður. Enginn gluggi snýr í vestur en frá suðurglugganum sé ég yfir sandinn og í austur yfir íþróttavöllinn. Í norðurátt sést svo yfir húsþök sem getur verið spennandi, eða væri það ef sótarastéttin væri ekki útdauð. Held að þessi íbúð sé sérsniðin fyrir mig.

Þegar við erfðaprins skutumst út um hádegisbil var Tommi á biluðum strætó á Garðabraut, stoppistöðinni minni, kúplingin farin. Ekki nema korter í næstu ferð til Reykjavíkur. Fannst frábært að vera fyrst með þessar fréttir á Skrúðgarðinum þar sem nokkur fjöldi fólks beið eftir strætó í bæinn. Það varð ekki mikil seinkun og Tommi fékk Séðogheyrtið mitt til að lesa á leiðinni ... ja, eða í síestunni, sem er líklegra. Margir spurðu eftir súpu í Skrúðgarðinum en á laugardögum verður fólk að sætta sig við kaffi og brauð eða kökur, okkur tókst það léttilega!

Við skruppum í Eymundson og prófuðum kaffið þar á litlu og sætu kaffihúsi. Ung og falleg kona sem vinnur á símadeildinni kom til okkar og spurði mig hvort erfðaprinsinn væri fæddur í kringum miðjan apríl 1980. Jú, það var rétt. Þá lá þessi kona með mér á fæðingardeildinni á Skaganum fyrir 27 árum og sonur hennar er degi yngri en erfðaprinsinn. Hún er að verða tvöföld amma af hans völdum og ég horfði ásakandi á son minn. Mér fannst margar ungar stúlkur líta son minn hýru auga í dag, kannski þarf ég ekki að bíða allt of lengi. Ég lofa að verða góð tengdamamma og einstök amma, pant fá að passa oft!

MótokrossNú eru jólin búin og stutt í gamlárskvöld. Brooke er að tala við geðþekka geðlækninn, Taylor, um ást sína og tengdasonarins Nicks, ástina sem var svo powerful. Á meðan spjalla mæðgurnar, Stefanía og Felicia, saman og ná að tengjast vel.
„Styrkur Nicks og ást, snart mig meira en nokkur líkamleg ást,“ heldur Brooke áfram. Verst að Taylor er komin með leið á Ridge, annars myndi henni létta við að vera laus við Brooke sem keppinaut um Ridge. Slökkviliðsmaðurinn Hector reynir enn við Taylor en hún ætlar að reyna að láta hjónabandið ganga. Nick og Bridget skoða barnaherbergisinnréttingar ... fyrir Dominic litla, þau ætla greinilega að taka hann að sér þar sem Felicia á ekki langt eftir. Úps, nú prílar Bridget upp á stól ... og ... DETTUR. Nick kemur hlaupandi, Bridget fer á sjúkrahús og beint í aðgerð. Æ, dúllan. Mögnuð gjafaveisla (Baby Shower) er fyrirhuguð fyrir Bridget og Nick, Jackie og Massimo, fyrrum hjón og foreldrar Nicks, hlakka mikið til að fá barnabarnið í heiminn. Ef þau bara vissu ... Læknirinn segir reyndar: Það verður allt í lagi með barnið. Í sónarnum heyrist enginn hjartsláttur.
Í þætti á SkjáEinum var Baby Shower þýtt sem barnasturta þótt það væri gjörsamlega út úr kú miðað við samtalið sem þar átti sér stað.

P.s. Sjúkrabíll var niðri á sandi áðan, vona að viðkomandi hafi ekki slasast mikið.

P.s. Valur var að skora mark, til hamingju!  


Ófærð, heimsóknir, kynþokki og fótbolti

Mía og KubburEva og TommiMargir sunnudagar líða án þess að ég tali við nokkurn nema kettina og Jónas ryksuguróbót. Þessi sunnudagur hefur verið öðruvísi. Ellý kíkti og þegar hún var nýfarin komu Mía systir og Eva, dóttir hennar. Það var eins og við manninn mælt, kettirnir skiptu liði og komu sér vel fyrir í fangi þeirra. Það mætti halda að Kubbi og Tomma væri aldrei klappað heima hjá sér. Þar sem ég píndi mig til að læra á frussudæmið í kaffivélinni gat ég gefið Evu latte og Míu cappuccino sem þær voru mjög ánægðar með. Eva dáðist mikið að Jónasi og segir slíka vél vera jafnnauðsynlega og uppþvottavél.

Jæja, það kom rok en engin rigning enn þótt norska veðursíðan haldi því fram. Sé á mælinum hjá Vegagerðinni að hviður eru komnar upp í 40 m/sek á Kjalarnesi. Það þýðir að það er ófært fyrir strætó! Mía er á leiðinni núna til Stykkishólms með Evu, vona að ferðin gangi vel. 

ÍA-Víkingur í dagÉg hef ekkert á móti FH, síður en svo, en mig langar samt svo til þess að Valsmenn sigri í dag. Hér á hlaðinu stendur yfir leikur ÍA og Víkings og miðað við öskrin er mikið fjör. Er með fyrrnefnda leikinn í gangi á Sýn, enda áskrifandi til mánaðamóta, og hinn sést út um eldhúsglugga himnaríkis. Finn ekki litla Rúmfatalagerskíkinn minn til að kíkja á markatöluna, mbl.is segir að staðan sé 1:0, okkur í vil. Breskur áhugamaður um íslenska knattspyrnu, með sérlegan áhuga á ÍA, er á leiknum núna. Við Sigþór mágur komumst að þeirri niðurstöðu í fyrradag að það yrði að redda honum fari á Skagann sem var gert. Strætó er frekar fjandsamlegur farþegum sínum á sunnudögum sem þurfa að bíða í minnst hálftíma í Mosó áður en Skagavagninn kemur. Maðurinn hefði líka þurft að taka strætó í hádeginu vegna langrar síestu vagnstjóranna. Þetta bara kennir mér að vera ekki að þvælast í bæinn um helgar. Var samt spennt fyrir að fara og kveðja Kela á Kringlukránni en bæði veðrið, strætó og gestakomurnar drógu úr mér. Er með þeim í anda.

Úhú, KR-ingar voru að skora glæsilegt mark. Frábært! Eftir að hafa fæðst í Vesturbænum og búið þar síðar í aldarfjórðung eiga KR-ingar alltaf pláss í hjarta mínu þótt uppvaxtarárin á Skaganum hafi mótað mann í sambandi við uppáhaldsliðið ... Ef þetta verða úrslitin gætu þeir haldist í úrvalsdeild.

Alltaf er sama fjörið í bloggheimum. Ég nenni ekki einu sinni að hafa almennilega skoðun á nýja kynþáttahatarablogginu, heldur bara flissaði þegar ég sá það. Get ekki tekið svona bull alvarlega. „Sko af því að við erum svona á litinn þá erum við betri sko.“ Bara hlægilegt. Samt finnst mér kynþáttahatur ekkert fyndið. Kynþokkahatursbloggsíða myndi miklu frekar ná að æsa mig upp.


Ódömuskapur Ástu og frekar langt bold

Dame Ásta Elskan hann Elli ók okkur heim með strætó. Þegar við mættum Tomma á Kjalarnesi veifuðum við Ásta til hans og sendum honum fingurkossa. Þessir tveir eru sannarlega á topp tíu listanum okkar yfir skemmtilegustu bílstjórana. Í SkrúðgarðinumVið fórum beint í Skrúðgarðinn og fengum okkur kaffi og köku, það er snilld að enda vinnudaginn þannig. Vinkonur Ástu settust hjá okkur og það var mikið stuð. Þegar Ásta hvarf allt í einu og kom svo út af kvennasnyrtingunni sagði hún: „Ég þurfti bara að frussa úr Friðriku,“ fölnaði ég. Hún hefur alltaf jafngaman af því að sjokkera tepruna, vinkonu sína. Þegar hún sagði svo að það hefði verið svo kalt í morgun að þörf hefði verið á miðstöð uppi í ra........ á sér, þá hreinlega leið yfir mig. Eins og Ásta er nú mikil dama.
Í Einarsbúð var fullt af sætum körlum að vanda og ljómandi gaman að daðra við grænmetisborðið ... ef ég hefði ekki verið á hraðferð. Það er alltaf margt fólk í Einarsbúð, þrátt fyrir lágvöruverslanir allt í kring. Segir mikið um hvað þetta er góð búð.  

Setti á Stöð 2 plús við heimkomu til að ná að bolda, hef vanrækt það undanfarið, sorrí allir nema Hildigunnur. Klukkan 19.50 hefst svo á Sýn leikurinn Valur-ÍA!!! Vona að ég þori að horfa.

Boldað í beinni: Stefanía spyrst fyrir um dóttur sína, Feliciu, sem liggur veik á sjúkrahúsi en krabbameinið tók sig upp aftur. Nick hefur ekki enn þorað að segja Bridget að hann eigi nokkurra mánaða gamalt barn með Feliciu. Hann ætlaði að gera það eitt kvöldið en hún neitaði að skemma mómentið með einhverju „leiðinlegu“. Hún vildi eitt friðsælt kvöld og fékk. Nick talar um þetta við Stefaníu og segist vilja segja henni þetta sjálfur.

Brooke og Ridge í gamla dagaEric plottar áfram með Brooke sem segir: „Heldur þú að Stefanía fatti ekki hvað við erum að gera, að reyna að hafa af henni fyrirtækið og að þú þykist hata mig til að komast inn undir hjá henni og ert að fara út að borða með henni kvöld.“ Ef hún heldur þessu áfram mun einhver hlera við dyrnar og allt kemst upp.

(Myndin er tekin í einu brúðkaupi Ridge og Brooke en þau hafa gifst alla vega þrisvar

Massimo gleðst yfir því að Nick og Bridget séu orðin sátt. Bridget tilkynnir honum að „fyrsta“ barn Nicks (Massimossonar) sé stelpa.

Stefanía: „Ef einhver tekur Dominick litla (syni Nicks) vel þá er það hin ljúfa Bridget, hún hefur reynt margt í lífinu, þökk sé móður hennar.“
„Ekki blanda Brooke í þetta!“

„Fjandskapurinn milli ykkar Erics eykst dag frá degi,“ segir geðþekki geðlæknirinn, Taylor, við Brooke, og trúir plottinu. Bótox í varir er greinilega forheimskandi.

Eric kemur prúðbúinn til Stefaníu og fer að tala illa um Brooke við hana. Stefanía er hálfviti ef hún áttar sig ekki á þessu. Hvað ætlar hann svo að gera þegar hann er búinn að veiða hana með smjaðri, kannski plata hana til að skrifa undir að hann megi eiga fyrirtækið? Stefanía horfir furðulostin á hann og hrukkar ennið.

„Hvernig heldur þú að þér líði að halda á frumburði þínum í fyrsta sinn?“ spyr Bridget Nick.
Nick tilkynnir Bridget að hann eigi barnið með Feliciu.

Aukafréttir: Sally lokaði tískuhúsinu sínu og greiddi öllum starfsmönnum góðan lokabónus.


Veður og vandamenn

StormurNú stendur yfir landsleikur á hlaðinu við himnaríki. Sjórinn á þó vinninginn, enda er hann skrambi flottur núna. Núna klukkan 19 er háflæði, 3.91 m, skv. sjávarfalla- og áhlaðandaupplýsingum uppáhaldssíðunnar minar: http://vs.sigling.is/pages/84
(Áhugamál: Lestur góðra bóka, áhlaðandaupplýsingar og heimsfriður.)

Sjálfstjórn mín er aðdáunarverð. Hringt var frá Spron áðan, þótt ég sé með rautt X í símaskránni, og mér boðið kreditkort með alls kyns fríðindum og hárri heimild. Ég hefði ekki hikað við að stökkva á þetta fyrir tíu árum en núna hugsaði ég hratt. Á meðan ungi maðurinn í símanum lét dæluna ganga komst ég að þeirri niðurstöðu að ég hefði nákvæmlega ekkert við það að gera og gæti ómögulega réttlætt það fyrir sjálfri mér. Viska ellinnar að laumast að mér eða hrein og klár skynsemi með dassi af yndisþokka? 

Það eru komin sex ár upp á dag síðan ég nagaði mig harkalega í handarbökin yfir því að hafa sagt upp Fjölvarpinu. Heimurinn getur andað léttar þar sem ég er orðin áskrifandi aftur.

Vont veðurÞað verður brjáluð rigning á morgun og klikkað rok á fimmtudaginn. Haustið heilsar með látum. Er ég rosalega klikkuð að hafa gaman af þessu?

Sól og blíða er eitthvað svo leiðigjarnt veður, ég held að ég gæti ekki blómstrað í slíku veðri þótt reynt hafi verið að telja mér trú um alla ævi að það sé besta veðrið.


Hreinskilni dagsins var í boði Veðuráhugakonustofu himnaríkis ...


Opinberanir og staðfestingar ...

Einn í félagslitunumEinhvern veginn vissi ég að þetta yrði frábær dagur þegar ég varð númer 007 í gjaldkeraröðinni í bankanum. Gemsinn minn hringdi að vanda þar sem ég lá á bekknum hjá Betu, eitthvert lögmál, held ég. Tommi bílstjóri var í Skrúðgarðinum og upplýsti mig um dularfulla manninn sem ég hitti þar á laugardaginn, þennan sem fór óvart inn í bílinn hjá Míu. Hann heitir Doddi (Þórður).

Hitti annan mann í Skrúðgarðinum sem staðfesti við mig að lið Skagamanna í spurningakeppninni á RÚV á föstudagskvöldum í vetur verði ekki bara valið eftir fegurð, heldur líka greind. Skagaliðið mætir ekki fyrr en í lok október þannig að nægur tími gefst til lýtaaðgerða ... eða gæfist ef á þyrfti að halda sem er ekki.  

Tommi lokaði strætódyrunum fyrir mig rétt áður en geitungur flaug inn og sagðist hafa bjargað einum slíkum úr kjafti fósturkattar síns á laugardaginn. Ástæðan, jú, geitungurinn er í félagslitunum!


Kúlurass af völdum Strætó

Að ferðast með strætó er góð skemmtun. Að ferðast með mörgum strætisvögnum sama morguninn er bara stórkostlegt. Það rigndi mikið á Akranesi en steypta skýlið við stoppistöðina á Garðabraut er ónothæft því að skemmtanaglaðir utanbæjarmenn nota það til að kasta af sér vatni um helgar og hafa víst gert í fjöldamörg ár. Því var hárið blautt, krullað og krúsílegt þegar stigið var upp í 7.41 vagninn í morgun. Ég bauð bílstjóranum gott kvöld, þar sem ég var klukkutíma seinna á ferð en vanalega en það var viljandi. Það tók þennan klukkutíma að hrekja óvænt hausverkjarkvikindi á brott. Held svo að Jónatan Bíbí hafi elt mig út á stoppistöð, alla vega heyrðust undurþýð hljóð frá mávi sem settist á ljósastaurinn við stoppistöðina.

Neðst í SúkkulaðibrekkunniVið farþegar í leið 15 lentum í umferðarsultu á leið inn í höfuðborgina og það var voða spennandi, allt gengur vanalega svo snurðulaust fyrir sig og það verður leiðigjarnt. Blá lögguljós í göngunum "voru alveg að gera sig" líka og virkilega æsandi að velta fyrir sér hvernig fólk löggan greip þar og fyrir hvaða glæpi. Ákvað að fara út hjá Ártúni og rifja upp kynnin af milljóntröppunum, undir brúnni og lúmsku brekkunni og taka 18 í vinnuna. Ekki séns að ég nennti labba frá Vesturlandsveginum núna, ég var nógu blaut fyrir. Leið 18 er hætt að ganga Stórhöfðann, við heilmikla sorg mína og annarra, heldur gengur upp í Árbæinn áður en hann fer hjá Lynghálsinum. Hitað uppFullt af vögnum fer í Árbæinn, alla vega leið 5, og því óskiljanlegt að láta okkur afplána þennan rúnt, samt næs fyrir Árbæinga að fá loksins góða þjónustu. Ég velti því fyrir mér í morgun hvort það gæti verið að erfiðleikar mínir við að fá strætófar alla leið í vinnuna tengdust því að Strætó bs vildi að ég hefði flottan kúlurass af brekkugöngu á morgnana? Neeee, hugsaði ég, þeir vita af Nóa Síríus á leiðinni og hættunum þar, nema þeir séu að stjórna því að ég fái kúlurass og reyni á sjálfsstjórnina í leiðinni. Allir velkomnir með mér á þetta frábæra námskeið hjá strætó. Gangan upp Súkkulaðibrekkuna hefst stundvíslega kl. 7.25 á morgnana.  

Michael Jackson

 

Michael Jackson, if you are reading this, Happy Birthday, karlinn.

Já, MJ er 49 ára í dag, einhverjum dögum yngri en við Madonna!

Svo á Borghildur Anna myndlistarmaður afmæli í dag og líka hún Herdís Hallvarðsdóttir sem var í Grýlunum.

Til hamingju líka, stelpur mínar!


Piparsveinaklúbburinn PASS á Akranesi

PASS á AkranesiEinn úr PASSÉg komst að því í strætó á heimleiðinni að hér á Skaga er starfrækt félag piparsveina. Það heitir PASS. Veit að essin standa fyrir Single Swingers. Um tíma voru 20 swingerar í klúbbnum en helmingur þeirra sveik víst lit á tímabili og náði sér í einhverjar kjéddlíngar. Nokkrir hafa komið til baka en að sögn Tomma eru nokkrir enn fastir í hnappheldunni og þurfa ábyggilega að sofa í bílskúrnum.

Þegar við nálguðumt Skagann sagði Tommi:  „Kríurnar eru farnar.“  Þá vorum við að keyra fram hjá stað undir Akrafjalli þar sem viðgengist hefur kríuvarp um langa tíð ... Kríuvarp er einnig nálægt golfvellinum. „Einu sinni skaut ég golfkúlunni of langt. Hún fór m.a. yfir skurð sem ég fetaði mig varlega yfir til að ná henni. Heilu flugsveitirnar af kríum í árásarhug réðust á mig. Ég hljóp hraðar en Ben Johnson á sterum undan þeim og þaut í loftinu yfir skurðinn til að bjarga mér,“ sagði Tommi sem nú þarf að kveðja golfið þangað til næsta sumar. Golfskálinn sem María í Skrúðgarðinum hefur rekið í sumar hlýtur að fara að loka og þá fer maður að hitta þessa elsku oftar.      

Amber með Rick og barn frænku sinnarMikið drama var í boldinu í dag. Ridge gerir úrslitatilraun til að ná Forrester-tískuhúsinu úr höndum móður sinnar með því að hóta henni því að hann muni stofna nýtt tískuhús með Brooke (núverandi stjúpmóður sinni, oft fyrrum eiginkonu og barnsmóður). Stefanía er hörð og ætlar að selja einkaleyfið á kynþokkafullri línu Brooke, enda hatar hún konuna sem hefur í tvígang stolið frá henni eiginmanninum og gifst sonum hennar nokkuð reglulega, alla vega Ridge nokkrum sinnum. Eric hittir Stefaníu skömmu síðar og hún segir honum frá þessu nýja útspili Ridge og Brooke, hvort hann viti hvað nýja/gamla eiginkonan sé að bralla. Þegar Eric fer til Brooke er hún í vinalegum faðmlögum við Ridge og þá lauk akkúrat þættinum. Af Bridget er það helst að frétta að Nick, barnsfaðir hennar og fyrrum næstum ástmaður móður hennar (Brooke), reynir stíft að fá hana til að treysta sér aftur. Síðustu þætti hefur honum lítt orðið ágengt. Annað mikilvægt: Hvar er Amber? Við Gunna Pollý hljótum að hafa misst af einhverju rosalegu!  Stelpan er týnd. Hér á myndinni er hún með fv. manni sínum, Rick, syni Brooke og Erics. Amber heldur á barni frænku sinnar sem hún lét lengi sem væri hennar eigið barn. Fyrir löngu bloggaði ég um þá sorgarsögu. Blóðmóðir barnsins var svona hjólhýsapakk sem breyttist mjög hratt í guðdómlega veru sem allir elskuðu og syrgðu sárt þegar hún lést úr dularfullum, bráðdrepandi sjúkdómi (hún fékk betra hlutverk). Deacon, blóðfaðir barnsins elskaði Amber og reyndi mikið að ná henni frá Rick. Síðar kvæntist hann Bridget en þau skildu þegar hann barnaði tengdamóður sína, Brooke. Æ, heimurinn er svo lítill. Ég veit ekkert hvað varð um Deacon og barnið. Held þó að Amber sé ekki hjá þeim. 


T.G.I.Friday ...

LatteSá að klukkan var alveg að verða 6.41 þegar ég byrjaði að búa mér til latte í götumáli í morgun. Veðjaði við sjálfa mig, eins og svo oft, að ég myndi ná þessu og samt ekki missa af strætó. Sé mest eftir því að hafa ekki lagt eitthvað undir þar sem ég gjörsigraði sjálfa mig og hljóp í loftinu út á stoppistöð með latte í annarri og Tár, bros og takkaskó í hinni. Heimir sat undir stýri og kom okkur örugglega á áfangastað, þessi elska. Sagði mér að hann hefði verið í heyskap alla síðustu helgi hjá foreldrum sínum. 

Gott að lesa í strætóSamferðafólk mitt sendi mér undarlegt augnaráð þegar það sá hvaða bók ég var að lesa en ég lét það ekki á mig fá, er endanlega frjáls úr viðjum smáborgaralegra lífsreglna og hámaði í mig þessa svokölluðu unglingabók ... fyrir stráka! Ef rithöfundar, tískumógúlar og ýmsir bisnissmenn vissu bara hvað þeir gera mikla skyssu með því að setja aldurstakmörk eða kynjabinda hlutina. Það ætti að sjálfsögðu að auglýsa þessa bók sem frábæra fyrir t.d. krakka, kerlingar og ketti ... eða ekki. Man hvað ég var sár út í SkjáEinn þegar reynt var að höfða til UNGA FÓLKSINS með dagskránni og ég barðist við erfiðar hugsanir ... er ég svona barnaleg að hafa gaman af þessu, er þetta einhver klikkun hjá mér að geta horft á þetta? O.s.frv. Held reyndar að Skjárinn sé hættur þessu bulli. Hef reyndar ekki sérlega gaman af því sem á að höfða til míns aldurshóps, eins og t.d. Jay Leno. FótboltiMætti ég þá biðja um Conan O´Brien, plís eða hinn þarna, Jon Stewart (?)! Skjárinn féll reyndar ofan í þá viðurstyggilegu, mannfjandsamlegu gryfju að vera með svokallað kvenvænt sjónvarpsefni á þeim tíma sem Heimsmeistarakeppnin í fótbolta stóð yfir í fyrrasumar. Djöfull var ég móðguð út í þá en vissulega missti ég alltaf af þessum viðbjóði þar sem ég horfði á fótboltann. Þeir settu hundleiðinlega "stelpuþætti" á dagskrá. Þetta er svo skoðnanamyndandi fyrir ungar stelpur sem halda að þær eigi að fyrirlíta fótbolta og horfa á kvenlegan hrylling Ég er enn öskureið vegna allra þeirra ára sem ég horfði ekki á fótbolta og jafnvel píndi mig til að horfa á sannsögulegar sjónvarpsmyndir.  (Fliss)

Þetta verður langur, annasamur en örugglega guðdómlegur dagur í dag. Megi hann samt verða enn betri, dásamlegri og skemmtilegri hjá ykkur (þetta eru ekki væmnar, sætar óskir til ykkar, heldur árangursríkur galdur sem byrjar að virka NÚNA!) Mikið er ég samt þakklát fyrir að það skuli vera föstudagur og helgin að koma! Vá, hvað ég skal sofa!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 828
  • Frá upphafi: 1515923

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 701
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband