Færsluflokkur: Íþróttir

Fótboltafórnir og óður safnaðarformaður

Eins og venjulega þegar ÍA-leikur er í gangi þá fórna ég mér og horfi ekki. Það tryggir liðinu alltaf sigur en himnaríki, sem staðsett er við hlið íþróttavallarins á Akranesi, verður einhvern veginn verðminna, einnig áskrift mín að Sýn 1, eins og nú í kvöld þar sem leikurinn var ekki innanbæjar. Þegar mátti lesa á mbl.is hvernig leikurinn fór setti ég á Sýn 1 plús og reyndi að láta glæstan sigur ÍA koma mér gleðilega á óvart. Það tókst svona líka vel!

Slæmt sjónvarpsefniNú er verulega vond mynd í gangi á Stöð 2 plús um forstöðumann kristilegs safnaðar sem sprengir syndum spillta staði. Kúl löggur með tyggjó lenda í æsilegum bílakappakstri reglulega í þeirri von að ná honum og bjarga Tracy. Safnaðarformaðurinn elskar Tracy sem nú er orðin spillt söngkona, hún sem ætlaði að giftast honum í byrjun myndarinnar. Hún áttaði sig á því að hann væri geðveikur þegar hann benti henni á skemmtiferðaskip í höfninni og sagði það vera brúðkaupsgjöf til hennar. Ó, mig hefur alltaf langað í siglingu, sagði hún hamingjusöm en jafnframt ofurlítið óttaslegin til augnanna. Skömmu síður sprakk skemmtiferðaskipið og Tracy hljóp og flúði formanninn sem ætlar að ná henni aftur. Þetta er svo ómerkileg mynd að ég fann ekki einu sinni ljósmynd úr henni á google.is. Þá er nú langt gengið! 

Held ég fari nú í rúmið og haldi áfram með Harry Potter, ég get loksins sagt að ég sé rúmlega hálfnuð með bókina eftir dugnaðinn í gærkvöldi fram á nótt.

Hér koma tvö notaleg lög fyrir nátthrafnana, engin væmni hér á ferð, bara snilld:    

http://www.youtube.com/watch?v=RMmqYwaDg7s  

http://www.youtube.com/watch?v=Ul3kEUPlWy0

Hugsað til Potters

harrypotter_200Skil ekki hvað gengur hægt að klára Potterinn. Ýmist syfja, vinna, annir við blogglestur eða jafnvel sjónvarpsgláp orsaka þetta. Einnig spilar einhverja rullu að bakverkur skellur á ef rúm-lega við lestur er löng en þá ætti leisígörlinn að koma sterkur inn þótt skakkur sé. Hef þó ekki dottið ofan í átakanlegar fótbolta-, hafnabolta- eða golfmyndir í sjónvarpinu, finnst reyndar sumar þeirra átakanlega leiðinlegar og það er kannski lúmsk meiningin á bak við þetta. Finnst bara svo fyndin lýsing á íþróttamynd ... að segja hana átakanlega! Ég hugsa þó oft til Potters, eins og smiðurinn minn „hugsar“ til mín ... í stað þess að koma og klára að smíða.

Var einmitt að hugsa um Potter í gærkvöldi og fór á Youtube, sem getur verið fyrirtaksskemmtun, skellti inn Harry Potter og fann þetta líka fína myndband þar sem „skyggnst er á bak við tjöldin og sýnt úr myndinni“: http://www.youtube.com/watch?v=LJ0jvrRJ0Z8&mode=related&search=


Fyrirboðar og fótboltafár - sofið hjá Sigþóru

Nóa konfekt„Sigþóra, viltu koma og sofa hjá mér?“ spurði ég Sigþóru í morgun og notaði mest tælandi svefnherbergisrödd sem ég hef yfir að ráða. Þetta var ekki æsilegt símtal, eins og halda mætti, heldur saklaust boð eins strætófarþega til annars um að setjast við hlið hans. Sigþóra getur sofið standandi svo að ég vissi að hún gæti alveg eins sofið við hliðina mér í strætó eins og annars staðar. Við löbbum hvort eð er alltaf saman upp súkkulaðibrekkuna ...frá Vesturlandsveginum og upp brekkuna fram hjá Nóa Síríus. Ég hef aldrei freistast til að brjótast inn hjá NS en svakalega hefur það oft munað litlu (elskið þið ekki fylltu molana?) ... Sigþóra þáði boðið með þökkum og var verulega hlýr og góður sessunautur í morgunkuldanum. Ásta verður í fríi til mánaðamóta og ég mun hiklaust halda fram hjá henni með Sigþóru!  

Fannst frekar óhugnanlegt að ég spáði fyrir um úrslit ÍA-HK í gærkvöldi svo nákvæmlega að ekki skeikaði marki. Mig minnir að ég hafi sagt að leikurinn færi 5:1 eða 4:1, okkur í vil. Nú, við skoruðum fimm mörk, eitt var dæmt af og fjandvinurinn skoraði eitt. Getur ekki orðið nákvæmara.

Körlum rignirSkrýtið hvað ég lendi oft í þessu. Segi kannski þegar ég horfi til himins: „Nú fer örugglega að rigna bráðum ...“ og það fer að rigna. Lít oft á klukkuna og hugsa að strætó hljóti nú að fara að koma og ... hann kemur fljótlega! Sagði eftir skilnaðinn minn: „Það verður sko bið á því að ég gifti mig aftur!“ Og síðan eru liðin 25 ár! Nú hlýtur fólkið sem hló að mér á Skrúðgarðinum um fimmleytið í gær að skammast sín. Bara vegna þess að HK rústaði okkur í fyrsta leiknum í vor þá þóttu þessi úrslit sem ég spáði/vissi um BARA FYNDIN! Ég mun eflaust drekka frítt kaffi í Skrúðgarðinum á næstunni í boði kjánaprikanna. Minnti bílstjórann á þetta í morgun og hann sagði: „Já, alveg rétt!“ Hann var nefnilega staddur í Skrúðgarðinum íklæddur ÍA-bol. Skagamenn hafa unnið alla þá leiki sem hann hefur farið á í þessum bol, þannig að hann fer alltaf núorðið! Eins gott að hann var í fríi í gærkvöldi og komst á leikinn. Ég sat aftur á móti í vesturhluta himnaríkis og lét ekki sjá mig nær leiknum en á mbl.is því að andstæðingarnir skora alltaf þegar ég fer út á svalir að horfa. Hugsa að ég hafi verið eitthvað of nálægt þegar HK skoraði eina markið ...


Einkamal.is - framhald

Var beðin um að birta afar kvenfjandsamlegan lista yfir blekkingar kvenna sem stunda veiðar á einkamal.is. Til að jafna leikinn gerðist ég líka karlfjandsamleg. Góða veiði ...

Konur sem auglýsa eftir mönnum

einkamal.is 1Mjúk: Akfeit.

Stór: Mjög, mjög feit.

Ljóshærð: Með litað hár.

Rauðhærð: Notar Henna sjampó.

Há og grönn: Þjáist af lystarstoli.

Glæsileg: Hrokafull snobbhæna.

Listunnandi: Brjáluð snobbhæna.

Hefur góðan húmor: Kjaftaskur.

Rómantísk: Aðeins fögur við kertaljós.

Rúmlega þrítug: 39 ára.

Rúmlega fertug: 49 ára.

Opin: Yfirþyrmandi, á enga vini.

Falleg: Í afneitun.

Ber aldurinn vel: Um sjötugt.

Hlýleg: Eigingjörn, kaffærir menn í ást.

Hagsýn: Ógeðslega nísk.

Umhyggjusöm: Móðurleg ... „vertu með trefil elskan!“.

Sjálfstæð: Einfari.

Vill engin höft: Er stelsjúk með vott af íkveikjuæði.

Dýravinur: Klikkuð kerling sem safnar köttum.

Jarðbundin: Hundleiðinleg.

Börn ekki fyrirstaða: Er á nippinu með að fara í sæðisbanka.

Andlega sinnuð: Er í sértrúarsöfnuði.

Nýaldarsinnuð: Snarbiluð.

Einlæg: Algjör lygalaupur.

Þroskuð: Hrukkótt skrukka.

Ungleg: Þegar þú horfir á hana í gegnum dökk sólgleraugu.

Leið húsmóðir: Vill að maðurinn hennar fái að horfa á.

Er á milli sambanda: Búin að gera hina gæjana gjaldþrota, leitar að fyrirvinnu.

Leitar að föstu sambandi: Pantaðu prestinn strax!

 

Karlar sem auglýsa eftir konum

einkamal.is 2Hress: Vill gera það fyrir framan sjónvarpið yfir fótboltanum.

Fagmaður: Hreykinn eigandi Wolksvagen bjöllu. Gyrðir skyrtuna ofan í nærbuxurnar.

Efnaður: Ég á nóg til að bjóða þér í glas ... en þú verður að endurgjalda það.

Rómantískur: Les kvennablöð og segir við þig hluti sem hann heldur að þú viljir heyra.

Vel gefinn: Segir stað konunnar vera á heimilinu.

Myndarlegur: Monthani

Aðlaðandi: Eyðir löngum stundum á baðherberginu við snyrtingu. Notar rakspíra í óhófi.

Vel á sig kominn: Ekki búast við meiru en sjortara frá honum því hann er alltaf á leið í ræktina.

Frambærilegur: Þolanlegur við kertaljós.

Ævintýramaður: Finnst í lagi að sofa hjá vinkonu þinni líka.

Leitar að hlýjum, vitsmunalegum félagsskap: Vill eftirmiðdagskynlíf án nokkurra skuldbindinga.

Þroskaður: Í útliti, en er þriggja ára inn við beinið.

Samræðugóður: Hefur engar skoðanir.

Heiðarlegur: Algjör lygari.

Virðulegur: Gráhærður, líklega samt sköllóttur.

Ljóðrænn: Semur rímur sem hann sendir konum sem hann er skotinn í.

Hugsunarsamur: Muldrar TAKK þegar þú tekur illa þefjandi sokka af honum upp úr gólfinu og setur í óhreina tauið.

Víðsýnn: Gengur í kloflausum nærbuxum. Spenntur fyrir sadó/masó.

Vill samband án skuldbindinga: Kvæntur.

Blíður: Óöruggur og ósjálfstæður og leitar að staðgengli móður sinnar.

Bangsalegur: Feitur, sköllóttur og loðinn á skrokkinn.

Aldur skiptir ekki máli: Örvæntingarfullur, eltist við allt sem gengur í pilsi.

Óheftur: Brjálaður flagari.

Vill yngri konur: Saurlífisseggur.

Ungur í anda: Að verða sjötugur.

Bisnessmaður: Er með bás í Kolaportinu um helgar.

Svolítið þybbinn: Ógeðslega feitur.

Rekur eigið fyrirtæki: Atvinnulaus.

Menntaður: Með barnaskólapróf.

Fjármálaráðgjafi: Varhugaverður tryggingasali.

Grannur: Horaður, vannærður aumingi með innfallna bringu.

Snyrtilegur: Er ekki kominn út úr skápnum.


Skakki stóllinn og óvænt heimsókn

Uppáhaldstónlistin mín á morgnana frá 6.30  er di-di ... di-di, eða sms-hljóð. Þá veit ég að Ásta er á bíl og við ferðumst með ljóshraða í bæinn á drossíu og hlustum á Led Zeppelin á leiðinni. Þetta guðdómlega hljóð heyrðist úr töskunni minni þegar ég sat í tröppunum á stigaganginum og var að klæða mig í strigaskóna.

Lazy Boy fyrir trúaðaEllý segir að nýi leisígörl-stóllinn minn sé allur grindarskakkur og það þýði ekkert að reyna að lengja hægri lappirnar undir honum til að laga ruggið. Þá er að fara í bæinn með hann og fá nýjan, kannski bara í strætó? Arg! Eins og við Inga höfðum mikið fyrir þessu, aðallega Inga.

Óvænta gesti bar að garði í gærkvöldi (það er sko bannað að mæta óvænt í heimsókn til mín) en ég fyrirgaf þessum vinahjónum mínum óvæntið og dreif þau í kaffi. Hún er fullkomin af því að hún á sama afmælisdag og ég og hann er alls ekki svo slæmur. Hann settist í leisígörl-stólinn minn skakka og skellti á Sýn, enda bilaður leikur í gangi; Valur-Fylkir. Virkilega skemmtilegur leikur sem ég hefði misst af hefði ég verið ein heima. Óskar er Valsari og var því ekki mjög sáttur við úrslitin en Fylkisfólk náttúrlega bilaðist og rústaði eflaust Árbænum í nótt.

RooneyHeyrði góða sögu af Óskari sem er mikill Manchester United-aðdáandi. Hann var að þvælast úti á landi og leikur MU gegn Bayern Munchen var í gangi. Óskar fylgdist með í sjoppu. Í hálfleik var staðan MU í óhag, 0:3. Nú voru góð ráð dýr. Óskar hringdi í konuna sína og bað hana um að kveikja á sjónvarpinu, stilla á leikinn og taka MU-bolinn sem hann er alltaf í þegar hann horfir á MU-leiki og leggja hann á stólinn. Frúin dreif í þessu og dæturnar störðu hneykslaðar á hana: "Mamma, þetta er klikkun, segðu bara pabba að þú hafir gert þetta en plís ..." Mamman gerði að sjálfsögðu það sem pabbinn bað um, enda virkaði það algjörlega og leikurinn snerist við, fór 4.3 fyrir MU. Þessu trúi ég alveg, veit ekki hvað ÍA hefur unnið marga leiki bara af því að ég hef hrökklast öfug af svölunum þegar vondu fótboltamennirnir, andstæðingarnir, hafa skorað mark og þá er stutt í að mínir menn jafni og skori svo enn meira.

Væri til í fallegar batahugsanir í dag frá bloggvinum, er eitthvað flensuleg og hefði jafnvel átt að vera heima í dag í stað þess að dandalast þetta í vinnuna. Stefni þó að því að hrista þetta af mér.


Sólvörn komin en hvar er sólin?

Komst klakklaust út í sjoppu á nýju, vínrauðu sandölunum mínum og jú, þar var til sólvörn. Af því að stelpurnar sem afgreiða í N1, bensínstöðinni rétt við spæleggið (stóra hringtorgið) eru alltaf svo indælar spurði ég nánar út í þetta krem. Sagðist vera byrjandi í sólvarnarfræðum. „Aha,“ sagði sú sem afgreiddi mig, „þessi er númer 8, hún er frekar dauf, taktu heldur númer 15!“

Kubbur

Nú er engin sól, bara skýjaslæða yfir öllu. Vona að sólvarnarkremskaup mín verði ekki til þess að þetta verði síðasti sólardagur sumarsins. Annað eins hefur nú gerst. Eins og um daginn þegar ég fór út á svalir til að horfa á leik Víkings og ÍA þá skoraði óvinurinn. Ég hljóp hratt inn í himnaríki og ákvað að horfa ekki meira, heldur spá því að Skagamenn myndu skora tvö mörk og sigra. Það gekk eftir. Hehehheh!

Bjartur, háæruverðugur köttur systur minnar og mágs, kemur í pössun til mín á morgun. Þeir Tommi hafa verið ágætir vinir en nú er langt um liðið síðan Bjartur kom síðast. Hann hefur átt í grimmilegri landamæradeilu við annan kött í götunni sinni og hefur eflaust gott af því að fá hvíld. Vonandi að óvinakötturinn haldi ekki að Bjartur hafi gefist upp við að verja yfirráðasvæði sitt og flúið.  


Hægfara beljur - svikin um Schwarzenegger

Kátar kýrÞað var frekar skrýtið að keyra framhjá sveitabænum við Akranes á leiðinni heim. Rétt fyrir sjö í morgun var hópur af kúm á leið í fjósið og staðan virtist síðan algjörlega óbreytt rúmum tíu tímum síðar. Annað hvort var kúrekinn svona lengi að reka beljurnar, tíminn frystur eða mjaltir miðast við áætlun strætó.

Hlakkaði til að horfa á heimsendismynd með Arnoldi sem átti að hefjast strax á eftir dansþættinum sem ég afplánaði lauslega með eyrunum. Hef ekki gaman af dansi yfirhöfuð, ballett getur þó verið ansi flottur við góða tónlist. Girnilegasti kosturinn er að skríða upp í með góða bók og sofna út frá henni. Ég er á því stiginu í augnablikinu að vera að breytast úr A-manneskju yfir í B, eins og alltaf á föstudögum, grútsyfjuð en tek ekki í mál að sofna snemma á föstudagskvöldi.

End of daysÍ Póstinum, aðalblaði okkar Skagamanna, er nefnilega auglýst myndin End of Days. Er veik fyrir sumum myndum með Arnoldi ... einn af mínum örfáu veikleikum. Kíkti á dagskrá Stöðvar 2 á Netinu og þar er engin slík mynd auglýst. Prófaði að athuga hvort hún væri á dagskrá á morgun ... en nei, þá verður sýnd átakanleg fótboltamynd með Billy Bob Thornton. Henni er í alvöru lýst svona á Netinu. Hlýtur að vera mikið um rauð spjöld, illa nýtt færi og sjálfsmörk. Martröð allra aðdáenda fótbolta. Ætla ekki að horfa.

Í fyrrnefndu dagskrárblaði segir að myndin The Thin Red Line verði sýnd. Það er ekki fótboltamynd, held ég. 


Ja, dýrt er það ...

West HamÞað kostar mig, M-12 áskrifandann, tæplega 2.800 krónur til viðbótar (við Stöð 2 og Sýn 1) að fá Sýn 2 og þar með Enska boltann. Aðrir borga yfir 4.000. Ég má ekki skipta; fá Sýn 2 og hætta með Sýn 1 af því að ég batt mig við Sýn 1 í ár, sagði sölumaður sem hringdi áðan. Fattaði ekki þá að árið er liðið og rúmlega það. Horfði a.m.k. á heimsmeistarakeppnina í fyrra og hóf áskriftina nokkru fyrr. Sagði honum að ég þyrfti að hugsa þetta vel og vandlega.
„Ja, ég get ekki boðið þetta ódýrara,“ sagði hann.
„Ykkur var nær að stela Formúlunni af RÚV,“ svaraði ég beisk. Við kvöddumst eiginlega með huglægum hnúum og hnefum en kurteislega þó.  

Óléttur karlNú ganga hvort eð er allar auglýsingar út á að aðeins karlmenn horfi á Enska boltann (óléttu karlarnir) og ég get ekki verið svo ókvenleg að glápa á svona karlaefni þegar ég ætti bara að hunskast til að vera kvenleg einu sinni.

Já, ég er jafnvel að hugsa um að sleppa enska boltanum og segja Sýn 1 upp líka í mótmælaskyni ... er frekar fúl út í þetta allt saman. Gæti boðið erfðaprinsinum til Englands í vetur á West Ham-leik eða Manchester United fyrir sparnaðinn. Ætla samt að tékka betur á þessu skiptidæmi þar sem bindiárið er liðið.   


Þyrnirós ...

ÞyrnirósHvernig í ósköpunum er hægt að sofna klukkan 19 á miðvikudagskvöldi og sofa af sér mest spennandi leik Landsbankadeildarinnar EVER, sérstaklega þar sem ég bý við hliðina á íþróttavellinum. Þar að auki missti ég af fyrri hluta framhaldsmyndar Stöðvar 2 sem fjallar um náttúruhamfarir, jörðina að farast, fljóðbylgjur og læti ... ??? Ég er vitlaus í náttúruhamfarir, læt mig meira að segja hafa það að horfa á illa leiknar, lélegar svona myndir, bara til að fá útrás fyrir þennan kinkí smekk.

astral-body-awake-1969Það kemur vissulega fyrir að unglingurinn í mér tekur völdin og vill sinn svefn og stundum kemur það fyrir á miðvikudagskvöldum vegna sérlega kvenmiðaðrar sjónvarpsdagskrár (sem ég þoli ekki, Oprah, kvensjúkdómaþættir og væl) en nú var þetta afar ósmekklega valinn miðvikudagur. Ég ætlaði að horfa á leikinn af svölunum mínum og hefði getað hlustað á lýsinguna á Sýn með. Að ég hafi ekki vaknað við slagsmálin og lætin og rauðu spjöldin og gargið ... er mér hulin ráðgáta. Mér dettur reyndar eitt í hug. Ætlunin var að ryksuga og taka svolítið fínt til í himnaríki fyrir leikinn, jafnvel parkettleggja og skipta um eldhúsinnréttingu í tilefni af hátíðinni, ... en kannski hef ég bara sofnað úr leiðindinum við tilhugsunina ... en hvílíkar afleiðingar! Afasakaðu tiltektarguð, ég klikka ekki oftar á þessu!

Voða var skrýtið að geta varla lokað augunum í strætó í morgun. Ég var svo hryllilega útsofin að þau glenntust alltaf upp aftur. Kíkti í gegnum DV en þar sem ég þurfti að kúldrast á þriðja bekk í strætó voru bæði lappir og áhöld til blaðalesturs í kremju. Eins gott að ég er ekki fjarsýn. Ef Beta sjúkraþjálfari heldur áfram þessarri snilld mun ég fljótlega krefjast þess að sitja í kremju, bara af því að ég get það! Núna er það bara vont! Svo finnst mér fólkið í fremstu sætunum ekki eiga skilið að fá að vera þar í ókremju. Ekkert þeirra notar öryggisbelti. Mér finnst sérlega slæmt að sjá útlensku mömmunum með barnið (glaða barnið með hvellu röddina) sitja þarna fremst og vita að barnið getur slasast ef strætó þarf að bremsa snögglega. Sumir bílstjórarnir hafa tekið rispur og minnt fólk á beltin ... eiginlega skipað því að nota þau en vissulega getur verið að konan sé bæði lífsleið og ekki mikið fyrir börn.


mbl.is Skagamenn lögðu Keflvíkinga á dramatískan hátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skortur á brimi og óheppin stúlka

Sólin kom og fólk flykkist á sandinn! Flott fjaran núna, held að flóðið komi ekki fyrr en seinnipartinn, kannski um sexleytið. Netsíðan mín um flóð og fjöru á Skaganum liggur niðri núna. Fer ekki annars að koma tími á gott brim? Þessi ládeyða er þreytandi til lengdar ... 

Skrepp á svalirnar í klukkutíma og geymi Miss Potter á DVD um stund. Annars eru sunnudagarnir hættulegir, þeir líða svo hratt! Kannski snjallt að skella bara í vél núna  ...

Vona að dagurinn verði dásamlegur  og óhappalaus hjá ykkur. Hefði ekki viljað vera í sporum stúlkunnar í myndbandinu: http://www.hugi.is/hahradi/bigboxes.php?box_id=51208&f_id=1784


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 608
  • Sl. viku: 2451
  • Frá upphafi: 1457320

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 2037
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Elsku Tommi
  • Elsku Tommi
  • Mamma hjúkka

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband