Færsluflokkur: Íþróttir

Stinnur rass á tíu dögum - byrjuð með námskeið

Sjúkrahús AkranssÞegar háæruverðugur heimiliskötturinn Tomma hoppaði EKKI upp í baðvaskinn sekúndubrotum áður en ég ætlaði að bursta tennurnar vissi ég að þetta yrði góður dagur! Það sannaðist líka strax þegar strætó kom ... með hinn Tomma undir stýri.  Ekki bara það, heldur var engin kerling í sætinu mínu!!! Ég gat teygt úr veika fætinum og að auki spjallað við Tomma. Veit ekki af hverju óskalög sjúklinga komu til tals en Tommi sagði okkur Sigþóru, sem sat hinum megin við ganginn, frá frægri kveðju sem barst þættinum eitt árið. Þar fengu allir á Sjúkrahúsi Akraness, hjúkkur, læknar og annað starfsfólk bestu kveðjur NEMA kokkurinn og sjúkraþjálfarinn. Heheh, þarf að segja Betu þetta þegar ég leggst næst á pyntingabekkinn hjá henni.

Hver þarf tækjasal ...Svakalegur munur er á mér eftir þessi tvö skipti hjá henni. Þar sem enginn klípur mig í rassinn reglulega (sorglega lítil kynferðisleg áreitni á þessum vinnustað og í strætó) þá geri ég það bara sjálf ... en ég uppgötvaði í gærkvöldi að ég er komin með þessa líka fínu rassvöðva og er með stinnan rass eins og súpermódel. Bara eftir tæplega tveggja vikna labb upp brekkuandskotann, frá Vesturlandsvegi og upp í Lyngháls. Ég vissi að vöðvarnir væru þarna einhvers staðar ... bara í afslöppun og með aðstoð Betu tókst mér að fara að labba og stinna mig alla upp. Svo borða ég ekki brauð eða sykur eða neitt slíkt þessa dagana ... orðin hundleið á bjúg til 15 ára eftir óverdós af pensilíni ... Held að ég þurfi bráðlega að fara að kaupa mér slæðu og sólgleraugu til að fá frið fyrir æstum mönnum. Það hefur oft komið sér vel að vera með sokkið andlit af bjúg til að fá frið, t.d. ef ég labba framhjá þar sem árshátíð lögreglumanna fer fram eða haustfagnaður hrossatemjara eða jafnvel bingó í Vinabæ.

Eitt nýtt fyrir íslenskunörda: Nú skrifum við Óskarsverðlaun með stóru Ó-i og líka heiti stjörnumerkjanna. Snilldarprófarkalesararnir mínir láta mig alltaf vita af breytingum vegna sjúklegs áhuga míns á stafsetningu. Geri vissulega stundum villur á blogginu og þarf að fjötra mig fasta einhvers staðar til að leiðrétta ekki ... en eins og Anna vinkona http://annabjo.blog.is/blog/annabjo/entry/250035 segir á síðu sinni að bloggið sé ritað talmál ... ég er svo sammála því, held að ég myndi ekki nenna að blogga ef ég velti hverju orði fyrir mér! Engist samt stundum yfir skorti á kommu eða smáorði eða setningaskipan osfrv.


Álaganafnið 14-2 og Mengella um Lúkas

Held samt með West HamHeld að nafnið á íþróttaþættinum 14-2 á RÚV, hafi valdið því að landsliði karla í knattspyrnu gengur svona illa. Sífellt er minnt á gamlan og súran ósigur okkar manna. Horfði á þáttinn áðan og fannst hann bara svo skemmtilegur. Skil ekki hvernig hægt var að rústa FH svona svakalega um daginn! Völvan okkar á Vikunni vill nú meina að FH haldi ekki titlinum í ár. Plís, höfum það ÍA!

Svo er ég enn í miklum vafa hvort ég eigi að kaupa Sýn 2 ... ég fæ hana á lægsta verðinu. Enski boltinn er svo skemmtilegur en ef ég horfi á hann óttast ég að ég fái bringuhár, fari að ganga í netabol og sitji ropandi við sjónvarpið með bjórdollu í annarri og snakk í hinni. Djók! Svona er fótboltaáhugamönnum lýst, staðalímyndir drepa mig ... Er sárust yfir því að hafa misst af Enska boltanum í svona mörg ár af því að ég hélt að ég ætti að ryksuga beisk í bragði fyrir framan sjónvarpið á meðan maðurinn minn horfði á boltann í netabolnum. Svo skildum við og um 20 ár liðu í limbói eða þar til ég datt í boltann. Það er eiginlega allt Kolbrúnu Bergþórsdóttur að þakka. Við unnum saman á meðan ein heimsmeistarakeppnin stóð yfir og ég horfði á hana HLAUPA úr vinnunni til að horfa á leiki. Svona er smitandi!  

Ungi maðurinn sem drap hundinn Lúkas hefur fengið fjölda líflátshótana á bloggsíðu sína sem hann hefur nú lokað. Eitt er að lýsa yfir andstyggð sinni, annað er að fara niður á sama plan. Kíkið:
http://mengella.blogspot.com/2007/06/hefjum-kvslar-loft.html


Ósléttar baðfarir, góð gestakoma og norðangarri

FylkirMikið var gott að sofa til hádegis þótt ýmislegt hafi verið gert til að koma í veg fyrir það. (Sinadráttur og slíkt, best að kaupa banana)

Heimsóknin í gærkvöldi var gjörsamlega brilljant, orkugefandi og góð, mikið þekki ég skemmtilegt fólk! Þessar konur eru miklar Fylkiskonur og að sjálfsögu held ég með Fylki núna, fyrir utan ÍA og smáveikleika fyrir Val, Fram og KR. Svana frænka vinnur í Fylkishöllinni og dætur Hildar hafa verið í Fylki. Sú yngri er stödd hérna á Skaganum til að taka þátt í fótboltamótinu.
 

Svana æpti auðvitaðÁfram ÍA! upp fyrir sig þegar hún kom inn í eldhús og sagði: „Skotastúka!“ Hún sá íþróttavöllinn blasa við út um gluggann. Ég fattaði auðvitað ekkert að segja henni að stúkan sú hefði kostað margar milljónir og það tæki u.þ.b. 300 ár fyrir íbúðina að borga sig upp með sparnaði á miðakaupum inn á völlinn. Ég var nafnilega svo þreytt í gær eftir sérverkefnið mitt sem kemur væntanlega í ljós í næstu viku hvað er, veit ekki hvort ég megi blaðra því strax.

 

Bombur from heavenNú er hvöss norðanátt, virðist mér þegar ég fer inn á bað og kannski ráð að loka glugganum áður en ég skelli mér ofan í baðið. Já, og ég segi baðfarir mínar eigi sléttar síðustu dagana. Spurning hvort Orkuveitan er að stríða mér og þá hvort Anna viti af þessu. Tvisvar í síðustu viku bjó ég mér til ilmandi, guðdómlegt, vellyktandi, freyði- og ilmbaðbombubað og þegar ég ætlaði að stíga ofan í var baðvatnið ískalt! Í fyrrakvöld gerðist þetta í seinna skiptið og ég tímdi ekki að láta allt renna úr baðinu, heldur geymdi smá og ætlaði að bæta heitu við eldsnemma í gærmorgun. Hmm, það var enn heitavatnslaust en ég VARÐ ... svo að ég stóð skjálfandi með fæturna ofan í og þvoði mér með þvottapoka upp úr ilmandi ísköldu vatni. Hressandi, fljótlegt en djöfullegt! Arggg!

Ætla að taka kl. 15.41 strætó í bæinn á eftir og vera síðan samferða Möggu í sumarbúðirnar. Taka svo rútuna heim frá Hellu um miðjan dag á morgun. Stutt stopp en það veitir ekki af smáhjálp á skrifstofunni við að skrá börnin á næstu tímabil, gera lista og svona, verst að ég kann svo lítið á excelinn í Makkanum. Það er nokkur skráning í gangi á hverjum degi. Ég veit um nokkur börn sem ætla að koma aftur í sumar, í annað sinn. Það er mikið hrós.


Hvernig Valsararnir fóru með Skagastelpuna ...

Gaui Þórðar snillingurVið sigruðum! ÍA-Valur ... 2-1. Ætla ekki að reka upp siguröskur því að þá hættir Magga vinkona að tala við mig. Ég ber líka alltaf frekar hlýjar tilfinningar til Valsmanna (og er hrædd við Möggu) síðan ég spilaði handbolta með Val þegar ég var nýflutt í bæinn. Bjó á Bollagötunni og fannst voða gaman að kanna umhverfið fyrstu mánuðina.

Í einni rannsóknarferðinni fann ég Valssvæðið og ungur maður, væntanlega þjálfari hjá Val, bauð mér að vera með í handbolta. Liðið samanstóð af stelpnaklíku úr Hlíðaskóla, minnir mig, og það var ekki vegur fyrir 13 ára stelpu í Austurbæjarskóla að komast inn þannig að ég hætti fljótlega að mæta. Mér fannst ekki nóg að vera umborin. Ég hafði aldrei æft handbolta og var því látin spreyta mig í markinu. Þrátt fyrir nokkra nærsýni reyndist ég vera dúndurgóður markvörður og snögg að sjá hvaðan boltinn kom. Í úrslitaleik þar sem við kepptum um kókkassa var ég í markinu í fyrri hálfleik og fékk ekkert mark á mig. Af hálfvitaskap skipti þjálfarinn um markmann og sú stelpa var ekki jafnæðislega dásamlega fær og ég ... hitt liðið fékk kókkassann, ég átti ekki krónu og fór dauðþyrst heim. Þarna lauk farsælum handboltaferli mínum.

Jú annars, það var eiginlega bara gott, eiginlega bara alveg frábært að Valur tapaði í kvöld.


... heldur frelsa oss frá illu kaffi

Kaffi eða djöfladjúsFrétti að maður, kenndur við kross, beini nú spjótum sínum að drykkjufólki sem djöflar í sig ógeðsdrykknum kaffi. Mér finnst þetta frábært. Loksins er ráðist á þessa óhæfu sem kaffidrykkja er. Hversu margar fjölskyldur ætli hafi tvístrast og sundrast vegna kaffidrykkjusýki annars foreldrisins á heimilinu, jafnvel beggja? Hversu margir ætli eigi um sárt að binda vegna neyslunnar? Ég er ekki saklaus, ætla ekki að reyna að afsaka mig. Flest óhæfuverk sem ég hef framið í lífinu hafa verið undir áhrifum koffíns, m.a. fjölmargar bloggfærslur.

Viðvörunarmerkin voru alls staðar þegar ég fer að hugsa út í það. Í Dalalífi eftir Guðrúnu frá Lundi, sem ég las á unglingsaldri, kemur berlega fram hættan af því að drekka kaffi og var Ketilríður nokkur nefnd sérstaklega til sögunnar, en hún þambaði kaffi með hlóðabragði í lítravís og slúðraði í kjölfarið.
Erfðaprinsinn minn reyndi líka að vara mig við einu sinni og sagðist vera stórhneykslaður á því að hafa séð áhöld til kaffineyslu inni í eldhúsi hjá mömmu sinni.

Mér finnst frábært að loks hafi fundist gott málefni til að berjast fyrir, eða öllu heldur gegn. Hef einhvern veginn aldrei fundið mig í andúð á samkynhneigðum, hatri á rokktónlist, hneykslan á konum með stutt hár eða konum í buxum. Nú erum við laus við reykinn á kaffihúsunum, næst berjumst við gegn kaffi! Held að fólk geti drukkið te. 

Heiða í himnaríkiMikið var gaman að fá Heiðu í heimsókn. Henni gekk vel að rata til himnaríkis, enda held ég að Skaginn sé ekkert of flókinn fyrir utanbæjarfólk. Hún kom með djöflatertu með sér, svakalega góða, og ég bauð henni upp á djöfladjús (kaffi) með. Við skemmtum okkur djöfullega vel. Við horfðum með öðru á Djöfmúluna og nú er ég farin að óttast að maðurinn sem ég held með, Djöfmilton, verði nýr Djúmaker sem hrifsar til sín alla sigra og það hætti að vera gaman að horfa.

Fyrsti vinnudagur eftir sumarfrí er á morgun. Vona að ég muni eftir því að mæta! Svo er það matreiðslunámskeiðið annað kvöld.


Skagamenn í stuði og kvikmynd kvöldsins

Hvaða orð er það aftur þar sem þrjú S koma fyrir í röð? Ahhh, alveg rétt, rassskelling, einmitt það sem við erum að gera við KR-inga núna. Markatalan var 3-0 síðast þegar ég kíkti.

Er farin að halda að Jenný hafi jafnvel rétt fyrir sér með Tomma (ekki köttinn). Alla vega eftir að ég sá þessa kvikmynd í bið minni eftir 24:

http://www.grapheine.com/bombaytv/index.php?module=see&lang=uk&code=b347f33d789dda2368f8367c20d656c6

Tommi bílstjóriOg þó. Ég var að muna eftir svolitlu:
„Ég sá Ástu vinkonu þína hálfnakta á Akratorgi í dag,“ sagði Tommi áðan. „Ef ég hefði ekki verið búinn að taka beygjuna hefði ég keyrt út af,“ bætti hann við og hló.

Grunnhyggnir þessir karlar. Ég mun halda áfram að kaupa upp gallana og rúllukragapeysurnar hjá 66°N í bið minni eftir manni sem kann að meta manneskjuna mig, ekki bara ægifagran barminn eða sexí leggina. 


Heppni á heppni ofan

Slökun eftir erfiðan dagSigurjóna og Sigga í bakstrinumEinhverra hluta vegna vantreysti ég upplýsingunum sem ég fékk á Netinu um rútuferðir. Eins gott að ég hringdi á BSÍ rétt fyrir þrjú. „Ha, nei, það fer engin rúta frá Hellu kl. 15.55. Hún er að skríða inn á Hvolsvöll núna og verður á Hellu eftir tíu mínútur hámark! Þar sem metnaður minn liggur í að ferðast létt áttaði ég mig á því að næði þessarri rútu auðveldlega. Ellen frænka var svo góð að keyra mig þennan örstutta spöl. Í sjoppunni spurði ég hvort þetta væri ekki alveg öruggt. „Nei,“ sagði strákurinn. „Rútan í bæinn var hér klukkan tvö og kemur næst klukkan fimm.“ Sem betur fer bætti hann því við að hann væri bara sumarstarfsmaður ... því þetta var kolrangt hjá honum. Tók bara sénsinn og hinkraði á bílaplaninu. Vissi að mín beið súkkulaðikaka í sumarbúðunum og gott kaffi ef illa færi. Líka far með Ellen frænku í bæinn en miklu síðar. Svo kom þessi líka fína rúta og tók mig upp í. Mæli rosalega mikið með því að vefurinn www.bsi.is verði uppfærður.

Eina óheppni dagsins var þegar ég tölti yfir göngubrú á Miklubraut nokkru síðar og sá leið 15 í Mosó fara framhjá. Kom mér bara vel fyrir í 29 mínútur í biðskýlinu og tók upp nýju spennubókina mína eftir Dean Koontz. Slapp algjörlega við geitunga, enda eru þeir víst allir í Kópavogi.

Hilda og Makki, unnusti hennarKubbur og Tommi á svölunumSnæddi kvöldverð á KFC, svakalega hugguleg plasthnífapörin þar og Zinger-salatið bragðaðist vel. Lauk við bókina þar ... hef ekki lesið hana áður á ensku, hélt að ég ætti allar eftir hann Dean minn.

Gleði númer helling í dag var að Tommi var á vaktinni á Skagastrætó og kom mér heilli heim, beint í sólskinið og beint í restina á Formúlunni á RÚV plús. Verst að ég missti af veltunni hans Kúbika. Minn maður sigraði, jess. Svo er það bara Jack Bauer. Hleypti kisunum út á svalir við heimkomu en þorði ekki að skilja þær eftir þar eftirlitslausar, er hrædd um að þær kíki upp á þak og renni niður ... alla leið. Bíð enn eftir að svalahliðunum verði lokað. Ekki þori ég heldur að hleypa börnum innan 18 ára út á þær.

Já, nú er ég búin að komast að því hvað hefur gengið á hérna fyrir neðan himnaríki undanfarna daga. Grænn sendiferðabíll stendur á planinu. Á eftir rauðu og gulu kemur nefnilega grænt. Já, það er leikur í kvöld og við vorum bara að tryggja okkur sigur á KR með ýmsum ráðum. M.a. líklega undirgöngum. Látið ykkur ekki bregða þótt hendur komi upp úr vellinum og grípi í KR-ingana. Við Skagamenn erum að taka þessa keppni, erum t.d. með helmingi fleiri stig en andstæðingurinn. Jamm.     


« Fyrri síða

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 283
  • Sl. sólarhring: 301
  • Sl. viku: 1825
  • Frá upphafi: 1460758

Annað

  • Innlit í dag: 259
  • Innlit sl. viku: 1483
  • Gestir í dag: 245
  • IP-tölur í dag: 242

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Jörgen Klopp
  • Opið hús kl. 17
  • Dýrheimar kaffihús

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband