Endurgoldin ást og veistu hver ég var ...

Við MosiGengið í vinnuna-átakið var prófað í dag í annað sinn á nokkrum vikum. Nógu svalt var í veðri til að svitna ekki og nógu blautt til að geitungar réðust ekki á mig. Það var svo heitt (maí-hitabylgjan) í fyrra skiptið að ég settist mjög reglulega á bekk á leiðinni til að svitna ekki (ég var að fara að kenna og engin sturta á staðnum).

Geitungamál ... Mér til varnar: ég er ekki jafnsturlað skelkuð við kvikindin og hann Júlí Heiðar söngvari. Sem sagt, þetta var geggjað sumarveður til skrefasöfnunar. Ég var innan við 25 mínútur á leiðinni - með stoppi í bakaríi þar sem ég keypti smávegis nesti fyrir seinnipartinn. Ein skyrdolla ekki nóg fyrir næstu níu klukkutímana. Æðislegt bakarí þarna í Álfheimum. Ég hefði ekki átt auðvelt með þessa gönguferð fyrir nokkrum mánuðum, orðin algjör sófakartafla sem var þó orðin örmagna uppi á fimmtu hæð (4,5. hæð) og tók lyftuna rest í kvöld, eða upp á 6,5. Skref yfir 5.000, ef marka má símann minn sem er alltaf ansi hreint nískur á viðurkenningu í minn garð.

 

Efsta myndin tengist færslunni þráðbeint og sýnir velheppnaðar strípur, augabrúnir, sætan kött og drög að útsýni núna undir miðnættið.

 

Kennslan í kvöld hefði verið afar ögrandi og baðstofuleg EF það væri vetur. Það er verið að gera við ýmislegt í skólanum, aðallega utanhúss hjá okkur, en stofan mín var rafmagnslaus í kvöld - sem gerði samt lítið til. Er með 18 nemendur af tólf þjóðernum og alveg ótrúlega gaman að vera með svona marga. Dáist að þessum duglegu elskum sem eru flest, ef ekki öll, að vinna á daginn og koma svo og læra íslensku á kvöldin.

 

Skálmöld knúsarÁst mín og aðdáun á ofurrokksveitinni Skálmöld hefur ekki leynst nokkurri manneskju og nú hefur ástin loksins verið endurgoldin - með eins konar rafrænu knúsi á Facebook. Þetta gladdi gamalt rokkarahjarta mig ósegjanlega. Ég þyrfti að koma mér upp æstum þungarokksvinum sem væru til í að koma með mér á tónleika - til viðbótar við annars músíkelskandi fólk í umhverfi mínu. Vinir og vandamenn eru meira í: Frank Zappa, Björk, Leningrad Cowboys, Elly Vilhjálms, Bach, Eminem og Hnetusmjöri, svo fátt sé nefnt.    

 

Svo lenti ég í nokkurs konar veistu-hver-ég-var-atviki í gær þegar þegar ég beið eftir strætó hér við Sæbraut. Maður nokkur, á óræðum aldri en greinilega mikill smekkmaður vatt sér að mér: Ert þú ekki stundum með pistla í Morgunblaðinu?“

Það var enginn tími til að útskýra muninn á bloggi og blaðagreinum, svo ég kinkaði bara stolt kolli. Svona hlyti Hollywood-stjörnum að líða þegar einhver bar kennsl á þær.

„Heitirðu ekki Jóhanna? Eða Ingibjörg?“ Þarna skemmdi hann þessa annars hugljúfu viðurkenningarstund.

„Nei, ég heiti Gurrí,“ sagði ég snúðugt en reyndi að fela beiskjuna sem vall upp.

„Guðríður?“ 

„Já.“

 

Köttur í HárhorniÞetta eyðilagði samt ekki daginn, enda fín nöfnin Ingibjörg og Jóhanna. Ég hafði líka hugann við máv óttans í Skeifunni. Var með þiðnað brauð úr frysti handa honum ofan í tösku. Mér leið mögulega eins og Þorgerði K. og Kristrúnu þegar þær hittu Trump ... betra að halda sumum góðum ... Þegar ég kom í Skeifuna stoppaði ég hjá sama ruslagámi og síðast (fjarri allri mannabyggð), reif niður brauðið, horfði annað slagið á illfyglið uppi á þaki sem fylgdist með mér, reyndi að hneigja mig svolítið líka en nú brá svo við að flaug ekki að brauðinu þegar ég var komin í hæfilega fjarlægð. Hefði ég átt að dreypa truffluolíu yfir það eða strá á það gullflögum? Þetta var vissulega ekki eldbakað súrdeigsbrauð, heldur meira svona dvergvaxið baguette-brauð frá Eldum rétt, eitthvað sem ég hafði fryst fyrir einhverjum mánuðum. Svo laust því niður ... ég hef breyst mjög í útliti síðan í síðustu viku. Bæði fór ég í litun á augabrúnir og augnhár OG svo í strípur á mánudaginn. Ég var gjörbreytt manneskja og þurfti ekki að færa neinar fórnir lengur úr frystinum. Sennilegast var þetta þó bara annar mávur, þeir hljóta að hafa vaktaskipti.

Mér finnst þó ansi gott að geta tekið úr frysti það sem ég veit að ég á ekki eftir að borða - og einhver sísvangur njóti góðs af. En brauðið var pottþétt étið, engin hætta á öðru. 

 

Á mánudaginn, þegar Eldum rétt var búið að koma (kl. 13.30) hringdi ég í Hárhornið á Hlemmi. Þar er hægt að ganga inn án þess að panta tíma. Ég gerði það fljótlega eftir áramót og fékk ljómandi fína klippingu hjá manni sem býr í næsta húsi við mig, sem kom óvænt í ljós. Lilja, eigandinn, er þó strípudrottningin á staðnum en nánast ómögulegt að fá tíma í slíku. Ég prófaði að spyrja þarna þegar ég hringi og það hafði opnast einhver glufa heppninnar og ég þaut út, 7 mín. bið eftir strætó, aðeins of langt að hlaupa niður á Hlemm, en ég var komin eftir kannski 20 mín. Þessar strípur, ljósar og brúnar til skiptis, voru hugmynd Önnu Júlíu á Akranesi eftir taugaáfallið sem ég fékk þegar ég sá fyrir tilviljun ljósmynd þar sem sást í mig aftan frá ... og það var eins og ég væri með stóran skallablett á hnakkanum. Sumir grána smekklega, ég geri það greinilega ekki. Þetta voru fyrstu strípurnar síðan á Skaganum í fyrra.

Það voru samt ekki strípurnar og skemmtilega starfsfólkið sem heillaði ... heldur köttur (sjá mynd) sem hafði gert sig heimakominn þarna, eða mætt reglulega í heimsókn. Rauðhærður riddari, mögulega vergangsköttur, yfirgefinn, eitthvað sorglegt, en hafði átt skjól hjá Lilju og kó í tvær vikur, fengið mat, vatn og stað til að leggja sig á, við mikla ánægju gesta og gangandi. Hann gæti verið kominn upp í Kattholt núna, Lilja ætlaði að láta skanna hann til að fullvissa sig um að hann ætti ekki heimili áður en hún gerði nokkuð. Hann var víst mjög var um sig til að byrja með, skaust út við minnsta hávaða en lá og hvíldi sig sallarólegur á meðan ég var þarna. Vona að allt fari vel, og að kisi fái nýtt heimili.


Menningin í borginni, vont kaffi, eggjaatvik ...

Nína og AnnaFlutningurinn í bæinn var ekki bara tregafullur (sakn á Skagann) heldur hefur hann haft góð áhrif á samkvæmislífið. Eins og bloggvinir vita var ég sennilega eina fullorðna manneskjan á Akranesi sem átti ekki bíl, strætó innanbæjar gekk bara virka daga til klukkan sex og rosalega langt labb t.d. í Bíóhöllina - þar sem tónleikar, bíósýningar og margt skemmtilegt fór fram. Það hefði verið mun auðveldara (minna labb) fyrir mig að taka leið 57 til Reykjavíkur og fara í hina Bíóhöllina, sunnan rörs, til að sjá mynd. Reyndar voru bæði Tónberg og bókasafnið í göngufjarlægð frá himnaríki og þar var ýmislegt í boði. Ég var líka með stráksa hjá mér og valdi þá viðburði þar sem hann gat komið með mér.

 

Það var afskaplega gaman að fara á listsýningu í dag með tveimur vinkonum mínum, systrum, og síðan á kaffihús því við búum allar hér á höfuðborgarsvæðinu: 104, 108 og 225, og önnur þeirra greip mig með í leiðinni. Gleymi seint þegar við sonurinn fórum á Engla og djöfla (Tom Hanks) í Háskólabíói í Rvík og það tók fáránlega marga klukkutíma, strætó milli 300 Akraness og 170 Mosó gekk frekar stopult þarna í denn. Fórum frá Akranesi um hádegi, þurftum að koma okkur frá Mosó yfir í Vesturbæ Reykjavíkur og svo heim aftur. Rétt misstum af strætó þarna seinnipartinn og þurftum að bíða í nokkra klukkutíma og vorum ekki komin heim fyrr en um kvöldið. Myndin var síðan ekkert meistaraverk, minnti mig helst á tölvuleik, Tom Hanks fór eftir vísbendingum en tapaði hverju borðinu af öðru (og prestur dó í hvert sinn, ef ég man rétt) þar til Tom náði að vinna eitt borð í lokin og sigra leikinn. 

 

Eggjahneyksli í KrónunniVið fórum í Krónuna, Borgartúni, á heimleiðinni. Þekki þessa búð ekki neitt og ákvað á vissum punkti þegar ég var komin vel inn að beygja til hægri - grunaði að eggin væru geymd í kæli sem grillti í. Uppi í "stiga" í hægra horninu stóð starfsmaður sem varð eiginlega kjaftstopp þegar ég strunsaði að honum og spurði kurteislega: „Geturðu sagt mér hvar eggin eru, eða bent mér í rétta átt?“ Hann svaraði eftir vandræðalega þögn: „Þau eru nú hér, nákvæmlega hér,“ og benti niður fyrir sig. Þar í kælinum voru verulega litríkir og áberandi eggjabakkar. Sjá mynd sem ég laumaðist til að taka eftir atvikið.

 

Anna vinkona varð vitni að þessum niðurlægjandi hallærislegheitum ... en indæli starfsmaðurinn steig bara niður rétt á meðan ég nældi mér í bakka. Ég er reyndar svolítið sjónlaus í búðum og kaupi oft lítið sem er auðvitað hið besta mál, nema þegar eitthvað vantar heima. En þegar ég fer t.d. með Hildu systur í Costco, hlekkja ég mig við hana því hún finnur alltaf allt, eins og sniðugar jólagjafir og slíkt. Ég enda annars með eina vöru í Costco-körfunni, sítrónuköku, af því að ég veit nákvæmlega hvar hún er staðsett! Það er frekar sorglegt að lenda í langri biðröð til að kaupa eina sítrónuköku.

 

CatalínusautjándiFleira menningarlegt hefur gerst að undanförnu. Varð svo fræg að fara á Catalínu í Hamraborg í fyrsta sinn. Ekki til að hella í mig áfengi eða fara í spilakassa í kjallaranum (sem ég frétti nýlega af), heldur var þarna ansi hreint þjóðlegt brauðtertuhlaðborð á 17. júní. Við systur, ásamt dóttur hennar og tengdasyni og tengdamömmu dótturinnar, héngum nánast á hurðarhúninum í grenjandi rigningu kl. 13 þegar opnað var, og vorum sannarlega ekki ein um að fá þessa snilldarlegu hugmynd að mæta. Kostaði ekki mikið, innan við 3.000 kall á mann, sem mikil ánægja var með, heyrðist mér. Það var orðið troðfullt korteri seinna, bæði hjá barnum og í salnum hjá hlaðborðinu.

Guðrún vinkona sá Instagram-myndband mitt frá Catalínu, og lét mig vita að hún hefði verið þarna líka og á sama tíma en í hinum salnum þannig að við sáumst ekki. Einstaklega vel heppnað hjá Catalínu. Ég lét fólkið við borðið um að smakka kaffið því ef það félli í öngvit og hryndi í gólfið ætlaði ég ekki að smakka það - en tengdamóðir systurdóttur minnar þorði að segja það sem allir hugsuðu: „Vont kaffi, frábært bakkelsi!“ Það er svo sem ekki hægt að ætlast til þess að bar bjóði upp á svakagott kaffi þegar flestir kúnnarnir vilja bara bjór eða vín. Reyndar Kaffibarinn ... þegar við vinkonurnar hittumst alltaf eftir vinnu á föstudögum í lok tíunda áratugarins, fékk ég mér iðulega ljómandi gott kaffi þar (frá Te og kaffi). Alvörukaffivél og starfsfólk sem kunni á hana . Kaffibarinn stóð undir nafni ... þótt hann væri annars vinsæll djammstaður. 

 

Herkúles bestiElsku Herkúles, fallegi frændhundur minn, dó fyrir skömmu, aðeins sex ára gamall. Hafði verið veikur en það voru góðar vonir um bata. Það var mikið áfall þegar hann dó óvænt, ljúfi, blíði og góði Herkúles.

Golíat, hálfbróðir hans og besti vinur, var ansi vængbrotinn á eftir og er enn. Dýrin syrgja svo sannarlega. Mínir kettir eru eiginlega núna fyrst farnir að líta glaðan dag eftir að Keli dó í ágúst í fyrra.

 

Myndin var tekin í himnaríki eitt árið, og sennilega fljótlega eftir að Krummi uppgötvaði fyrir alvöru þessi "skaðræðiskvikindi" sem voguðu sér að gelta annað slagið og virtist einsetja sér að bjarga okkur hinum frá þeim með því að slá þá með loppunni. Það tókst nú bara einu sinni. Þeir Golíat héldu sig uppi í sófa eftir það og við mannfólkið í grennd vorum vel á verði svo Krummi kæmist ekki að þeim.

Bæði Mosi og Keli tóku hundunum þó fagnandi, leiðinda-rasismi í Krumma, eða bara ótti við það sem hann þekkir ekki. Þegar Golíat kom í heimsókn hingað fyrir skömmu sleikti hann Mosa í framan, kannski bara svona óstjórnlega feginn því að hann var ekki Krummi ... Mjög krúttlegt sem varð til þess að nú verð ég alltaf að vera tilbúin með gemsann til að ná að fanga svona falleg augnablik.       


Móðgaður mávur ... óvænt ólétta ...

Fb grúppur Gamla fólkiðFarin að vinna eðlilega, eða kenna bara einum bekk og að kvöldi til, kenndi líka á dagtíma þar til í gær, svo nú myndast möguleikar á því að gera meira, eins og að blogga. Stórmóðgaður mávur kemur við sögu í bloggi dagsins, og stórmóðgandi gemsi, svo fátt eitt sé nefnt.

 

Fyrir örfáum nóttum fór ég á fæðingardeildina komin 9 mánuði á leið, með hríðir og beið spennt eftir að eignast barnið sem Karl, gamall skólafélagi úr landsprófi og fæðingalæknir í raunheimum, ætlaði að taka á móti. Allt var eðlilegt við að kona á ömmualdri væri að fara að fæða barn. Ég vaknaði áður en nokkuð varð af þessu, takk, næturbirta. Held að svona draumur viti á gott, að hugmynd sé við það að fæðast ... Kíkti áðan á draumur.is og undir Ófrísk stendur m.a. að það sé góðs viti að vera ólétt í draumi, það tákni upphaf að einhverju nýju og spennandi í lífinu, jákvæðar breytingar í nánd.

Sjáum til, sjáum til. Ég hef alla vega von um að ég geti bætt úr vissu karlmannsleysi, sjá mynd af áhugaverðum fb-hópi fyrir aldraða ...   

 

Ég komst í hann krappan í Skeifunni á miðvikudaginn. Hoppaði að vanda út úr fimmunni við Glæsibæ og gekk sem leið lá á vinnustaðinn. Hálfnuð yfir Skeifuna sá ég mávinn minn sem situr iðulega uppi á þaki á gönguleið minni og gargar á mig. Ég tók Instagram-mynd af honum gargandi á þakinu og þau hljómuðu frá símanum mínum áður en mér tókst að ýta á "your stories". Einhverjum sekúndum eftir að ég ýtti, þá farin að nálgast Bónus, heyrði ég vængjaþyt mikinn og áttaði mig á því að mávurinn hafði snöggreiðst við mávahljóðin frá mér, steypt sér niður að mér ... og haldið ykkur, hafði hægðir á nýþvegið hár mitt. Sem betur fer bjargaði röskleg ganga mín mér frá því að fá allt ullabjakkið yfir mig, fékk bara smávegis sem ég gat þvegið úr hárinu við komu í vinnuna. Ég var sjokkeruð, alltaf verið góði gæinn með matinn í augum mávanna og því með algjörlega óákúkað hár fram að þessu, hafði meira að segja einsett mér nokkrum sekúndum áður að stökkva inn í Bónus og kaupa loksins samloku handa sínöldrandi fuglinum. Hann missti af samlokunni á miðvikudaginn vegna ótta míns við frekari árásir en ég fyrirgaf honum auðvitað. Hann hafði eflaust verið að æpa ókvæðisorðum að mér fyrir að vera ekki með mat og heyrði mig svo svara í sömu mynt, og brjálaðist yfir því.

Mávur óttansÉg átti fínasta brauð í frysti, eldbakað súrdeigsbrauð, eitthvað voða fínt úr Hagkaup ... en ef ég ætti að geta gengið í friði þarna í gegn yrði ég að færa honum eitthvað almennilegt. Til öryggis, svo hann þekkti mig ekki aftur (mávar þekkja andlit), hafði ég farið í lýtaaðgerð hjá Snyrtistofu Ágústu (lét lita augnhár og augabrúnir daginn eftir atvikið) og mætti svo í Skeifuna í gær, föstudag, með friðþægingarbrauðið.

Ég sá hann úr nokkurri fjarlægð og hann sá mig, en áður en eitthvað skítkast fór í gang, byrjaði ég að dingla pokanum með nýþiðnuðu og dúnmjúku brauðinu, reif það niður hjá stórum ruslagámi við bakhlið einhvers verkstæðis. Engir bílar í grennd og fátt fótgangandi fólk sem gæti truflað þessa athöfn. Þegar ég var búin að dreifa brauðinu við gáminn og lögð af stað aftur, flaug mávur óttans á móti mér en hafði greinilega fyrirgefið mér af heilum hug því hann flaug beint að brauðinu. Mig grunar að við séum orðnir vinir ... svo framarlega sem ég færi honum reglulega (alltaf) eitthvað gott í gogginn. Verst að dagkennslan er búin en vonandi er hann þarna líka um kl. 16.30 á daginn.

 

Í dag var dagur húsverkja og allt orðið glimrandi glansandi og fínt. Tók meira að segja til í körfunni sem geymir dagblöð en þar kenndi þó ýmissa annarra grasa. Ég fann þar tímarit, þrjá innkaupa-taupoka, sérlega flotta, þ.á m. einn með mynd af elsku Skálmöld. Annar var keyptur í Liverpool með mynd af Bítlunum og sá þriðji ótrúlega flottur, unninn upp úr flottu handverki, hann var keyptur á markaði á Akranesi. 

GemsinnEftir að hafa flokkað, tekið plast utan af sumum blöðum og sett í plastpoka og tekið ýmsa bæklinga síðan fyrir jól í bréfpoka, hugsaði ég mér gott til glóðarinnar, hreyfingarlega séð, að ganga niður allar hæðirnar með pappa- og plastdæmið og setja í tunnurnar, og síðan ganga úr kjallaranum upp sjö hæðir til að vaxa í áliti hjá gemsanum mínum sem mælir og skrásetur hverja mína hreyfingu. Þrátt fyrir tiltekt og ýmis læti um helgar næ ég aldrei virkudaga-skrefafjöldanum. Í gær (tvöfaldur kennsludagur) voru skrefin 5.580 þrátt fyrir bílfar heim, en tölt út á strætóstoppistöð, síðan frá stoppistöð í vinnuna, og kennsla tvisvar í tvo klukkutíma með tilheyrandi hoppi og skoppi gefur þetta mörg skref.

 

 

Ég kíkti í símann klukkutíma eftir stigahetjudáðina og bjóst svo sannarlega við að sjá þar eitthvað ögn meira en ÞRJÁR HÆÐIR, skrefin núna, þegar þetta er skrifað, komin upp í tæp 1200 þrátt fyrir að gemsinn hafi legið á ýmsum borðum í dag og úr honum hljómað spennusaga sem er svo gott að hlusta á við húsverkin - en telur ekki skrefin á meðan. En síminn minn gerir mér þetta reglulega. Kannski má ég ekki blása mæðinni í fimm sekúndur á fjórðu hæð áður en ég held áfram, þarf sennilega að taka þetta í einni lotu, helst hlaupandi.

 

Ég er orðin alvöruáhrifavaldur. Ég henti konu út af Facebook hjá mér og létti einhver ósköp við það, sjá síðasta blogg, og það var eins og við manninn mælt, sjálf Ingibjörg Sólrún fleygði sömu manneskju út hjá sér um það bil viku seinna! Nú má aldeilis fara að senda mér skyr og snyrtivörur! 


Að hella úr sinni andlegu ruslatunnu ... og margt fleira

HeitttttttVetrarlegur maímánuður veit vonandi á svalt og gott sumar. Ég er spennt að vita hvernig nýja íbúðin á Klepps bregst við lamandi allt að 15 gráðum, hvort ég þurfi að hafa eina eða þrjár viftur í gangi, sofa með lak í stað sængur og slíkt. Svona er að hafa vanið sig á hafa fremur svalt í kringum sig, mér finnst iðulega allt of heitt heima hjá öðrum en þarf stundum að lána gestum mínum aukapeysu, og verstu kuldaskræfunum teppi - en þá er kannski mjög kalt úti og gluggar opnir hjá mér. Himnaríki er með stóra suðurglugga og þar gat hitnað verulega á sumrin því lítið var hægt að hafa alla glugga galopna vegna glæpsamlegrar dirfsku Mosa da cat varðandi stökk af fjórðu hæð án fallhlífar. Svo var rok ekki jafnalgengt og sumir vilja meina sem rugla saman Akranesi og Kjalarnesi (þjóðveginum sko). Stundum lokaði ég Mosa inni í herbergi, reif upp alla glugga og báðar svalir og þá var sannarlega hægt að tala um rétt hitastig, þrátt fyrir sólina.

 

Nú geta "aldraðir", 55-75 ára fólk, glaðst ósegjanlega, eða þau sem vita ekki hvað þau eiga að gera við alla peningana sína. Nýlega sá ég auglýst háskólanám, sérstaklega ætlað hópnum sem undirbýr nú svokallað þriðja æviskeið sitt. Það mætir einu sinni í viku í tvær annir, ef ég man rétt, og fær fyrirlestra um ýmislegt gagnlegt á borð við hollustu, gervigreind, hreyfingu, heimspeki og annað sem hljómar alveg vel ... en verðmiðinn er ansi hár, eða 750 þúsund krónur á mann ... Ég veit alveg aura minna tal svo ég gúgla bara upplýsingar sem ég tel mig þurfa og fæ Davíð frænda til að kenna mér betur á gervigreind. Þetta nám virkar ekkert leiðinlegt - miðast samt við fólk sem á nóg af peningum og tíma. Þekki konu sem ætlar að "flytja upp í" Háskóla Íslands eftir að hún fer á eftirlaun, en hún vill reyndar meina að endurmenntunin þar sé ansi dýr sem er grautfúlt.

Annað tengt aldri - mjög áríðandi: Á meðan ég er yngri en páfinn, sem ég er, vil ég ekki heyra neitt um öldrun mína í framtíðinni, ekki fyrr en Leó fjórtandi deyr og nýr páfi, þá yngri en ég, tekur við. Vildi bara láta ykkur vita. Við Madonna erum sem sagt báðar yngri en páfinn!

 

Að skiptast á skoðunum er bara gott og eflaust öllum hollt að eiga sem fjölbreyttastan vinahóp á Facebook til að lokast ekki inni í bergmálshelli. EN ... síðustu árin er eins og bæði fasískar skoðanir og samsæriskenningar hafi fengið byr undir báða vængi um allan heim og falsfréttir flæða yfir allt. Sumt fólk er farið að hella úr sinni andlegu ruslatunnu (eins og gamli íslenskukennarinn minn í Vörðuskóla orðaði það) og verður sífellt háværara og hatursfyllra.

 

TransEin fb-"vinkona" mín er grjóthörð í þessu og hefur tileinkað sér nánast allt sem gengur gegn gildum sem talin voru góð, á borð við mannréttindi, virðingu og það allt. Hún hefur vissulega fullan rétt á því að halda með Ísrael og Rússlandi, að segja hnattræna hlýnun vera bull, að femínistar séu fávitar, og bólusetningar eitur, en það sem stingur mig mest er hatursfullur og andstyggilegur boðskapur hennar um trans fólk (JK Rowling á ekki roð í hana).

 

Þegar ég verð búin að skrifa þetta blogg ætla ég að afvina hana (þótt fyrr hefði verið) og nokkra helstu fylgjendur hennar sem deila eitrinu, það er þetta eða hætta hreinlega á Facebook en ég tími því ekki. Ég veit af henni og skoðanasystkinum hennar þarna úti en þarf þá ekki að fá eitrið frá þeim beint framan í mig lengur. Held að ég hafi ekkert gott af því að sjá skrif hennar, frekar en aðrir. 

Við unnum um tíma á sama vinnustað á síðustu öld, hún var svo klár og flott, fannst mér. Hef ekki séð hana í rúm 30 ár, sem betur fer. Mig hefur oft langað til að svara henni á fb - en veit þó að ég get ekki breytt skoðunum hennar, frekar en hún mínum, svo það besta í stöðunni er að segja bless.

Viss fréttasíða á netinu breiðir líka út hatursáróður, að mínu mati, síðast falsfrétt um níu hælisleitendur, frétt sem enginn fótur var fyrir og það olli mörgum rasistum gífurlegum vonbrigðum ... sama fréttasíða, ef ég man rétt, sagði á sínum tíma að Blóðbankinn vildi ekki blóð úr covid-bólusettum, sem var líka uppspuni frá rótum.

Það er sjálfsagt að virða skoðanir annarra, ég skil t.d. alveg þau sem óttast aukaverkanir af lyfjum. Þótt ég hafi án hiks látið bólusetja mig við covid, reyni ég samt að forðast lyf eftir bestu getu og hef sem betur fer getað gert það í gegnum tíðina.

 

Magpie MurdersSíðustu árin hef ég reynt af alefli að sneiða hjá öllu sem veldur mér streitu, ég tók þá ákvörðun eftir að sonur minn dó. Liður í því er að forðast hatur og illdeilur, meðal annars á samfélagsmiðlum.

Sumt af þessu sem ég forðast er frekar asnalegt að gera, eins og að sleppa því að horfa á of spennandi bíómyndir, eða lesa slíkar bækur sem eru bæði hroðalega blóðuguar og heiftarlega spennandi ... ég höndla það hreinlega ekki lengur. Held mig mest við krúttlegar glæpasögur, svona kósíkrimma, og ljúft ástarkjaftæði, og mun eflaust gera það ef ég tek upp á því að fara að horfa meira á sjónvarp. Ég var eiginlega hætt öllu sjónvarpsglápi, og samt áskrifandi að Netflix og fleiri veitum. Ætla nú samt að segja upp Netflix og Disney plús, sem ég horfi aldrei á.  

 

 

Get reyndar montað mig af því að hafa nýlega hámhorft á tvær ansi hreint skemmtilegar seríur. Það eru Ludwig og Háskalegur lokakafli (Magpie Murders) báðar á RÚV. Mæli hástöfum með.

 

Mæli líka með glæpasögunni hennar Nönnu Rögnvaldar, Þegar sannleikurinn sefur, sem ég las í fyrra þegar hún kom út en hlustaði á þegar hún kom á hljóðbók nýlega. Virkilega skemmtileg og vel skrifuð. Hlakka til að lesa framhaldið.

 

Í vissri bjúgleysistilraun sem ég ákvað að gera í gær  með því að vera í algjörri sófaleti og slökun við lestur og orðaleit, með fæturna uppi á þykkum púða, og um kvöldið horfði ég á mynd í sjónvarpinu. Myndin var afar sorgleg og fjallaði um dauðvona föður sem leitaði að góðri fósturfjölskyldu (með vitund og vilja bresku Barnaverndarinnar) fyrir fimm ára son sinn. Byggt á sannsögulegu en samt alltílæ. Mamma grét úr sér augun fyrir áratugum síðan yfir bíómyndinni um tíu barna dauðvona móðurina sem leitaði að góðum heimilum fyrir öll tíu börnin og tókst það. Ég slökkti þegar myndin um föðurinn var búin og fór að lesa, enn með fætur uppi á þykkum púða. Fór svo í fótanudd-dæmi í hálftíma. Vaknaði í morgun með ansi hreint mjóa ökkla. Sjónvarpsgláp gegn bjúg!

 

Um 1960 með pabba og mömmuMæðradagurinn er í dag og hér er mynd af okkur mömmu saman, ásamt pabba í hlutverki sérstaks burðarmanns. Myndin var tekin í Stykkishólmi fyrir nokkrum árum, en þar bjó ég frá 2 mánaða aldri (fædd í Reykjavík) til tveggja ára en þá lá leiðin upp á Skaga þar sem við bjuggum næstu tíu árin.

 

 

Litla ljóshærða krúttið á myndinni sýnir hversu blöndun Þingeyinga og Skagfirðinga heppnast iðulega stórkostlega vel ... Dass af Eyjafirði, Rangárvöllum og Reykjavík skaðaði aldeilis ekki heldur. 

 

Óska öllum mæðrum innilega til hamingju með daginn.

 

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - 

 

Að lokum:

 

- Chuck Norris getur sagt "Eyjafjallajökull" aftur á bak.

- Nasistar gáfust upp daginn eftir að Chuck Norris fæddist.

- Chuck Norris can walk away ...

- Chuck Norris getur búið til spýtu með því að nudda saman tveimur eldum. 

- Chuck Norris getur sofið í átta tíma á 30 mínútum.   


Spennandi borgarlíf og ofurköttur í yfirþyngd

SófamorðinginnReykjavíkurhamingjan eykst með hverjum mánuði, er alveg óhætt að segja, en það tekur alltaf tíma, ekki bara fyrir ketti, að venjast nýjum aðstæðum. Mun samt eilíflega sakna Akraness, fólksins þar, himnaríkis og útsýnisins. Þótt ég sé langt frá því að teljast ellihrum, enda á fullu í vinnu, strætóferðum, kaffihúsahangsi og Sorpuferðum með systur minni, svo fátt sé talið, er auðveldara að hafa flutt núna en til dæmis eftir tíu ár. Og hér í bænum er næstum allt mitt fólk sem ég hitti nú þúsund sinnum oftar en á meðan ég bjó á Skaganum, og það gefur hamingju. Svo finnst mér líka mikið frjálsræði fólgið í því að geta hoppað upp í strætó og farið nánast hvert sem er þótt t.d. hviður á Kjalarnesi séu yfir 30 m/sek.

 

Mosi köttur (10) hefur þyngst til muna eftir flutningana, enda enginn Keli til að leika við hann - leiserpenninn er bara spennandi í 18 sekúndur. Krummi (13) er eldri og virðulegri og nennir ekki að leika, hefur aldrei verið fyrir slíkan barnaskap. Hann tók sig til um daginn, stökk upp í sófa og hviss, bang, sófinn brotnaði ... eða fótur undan honum. Ég sagði alla vega hirðsmiðnum mínum frá því og sá ætlar að koma og laga herlegheitin nú í vikunni. Hefði ég sagt að löppin (ég lét setja nýjar lappir, sófinn var svo lágur) hefði skoppað undan þegar ég færði sófann ögn til, hefði hann ekki mætt strax, nú er hann svo forvitinn að sjá þennan feita kött sem fer svona með sófa ... Ég hef, aftur á móti, lést, fleiri hæðir að ganga upp og miklu meiri hreyfing almennt. Úr 15 skrefum á dag upp í hátt í 5.000 suma dagana. Það hefur afleiðingar fyrir útlínurnar.

 

MYND: Mosi stoltur eftir skemmdarverkið!  

 

Sófamorðingi 2Tvær mjög eftirminnilegar strætóferðir voru farnar í síðustu viku. Sú fyrri hófst nú strax á stoppistöðinni þegar unglingur í hettupeysu og hélt í rafhlaupahjól reyndist vera vel fullorðinn maður með ráma rödd. „Fyrirgefðu, viltu ekki fá þér sæti,“ sagði þessi elska en hann hafði áttað sig á því að hjólið varnaði mér vegar að bekknum í skýlinu. Ég afþakkaði kurteislega en þakkaði fyrir hugulsemina. Í strætó settist ég í gamlakarlsmeðstaf-sætið, enda ekkert gamalmenni í grennd, og fyrir aftan mig sat vinur ekki-unglingsins. Minn maður heilsaði honum hjartanlega og sagðist hafa verið að sækja hjólið sitt hjá helvítinu honum Robba sem hafði stolið því. „Mig langar svo að drepa hann,“ sagði minn maður. „Sjáðu, ég er með nóg af vopnum,“ bætti hann við og fletti greinilega frá sér peysu, eða lyfti henni upp. Vinur hans bað hann lengstra orða að láta ekki sjást í þetta, enda ávísun á löggu og sérsveit, ráðlagði honum líka að sleppa því að drepa helvítið hann Robba. Ég reyndi að láta baksvipinn á mér virka hæfilega áhugalausan, horfði út um gluggann eins og ég heyrði ekki orðaskil. En ef einhver Robbi deyr á grunsamlegan hátt getur löggan talað við mig.

 

Daginn eftir ók ég með strætó eftir Sæbraut og við fórum svo inn aukastrætógötuna á Kleppsvegi, þarna fyrir neðan, m.a. Laugarásbíó og Hrafnistu ... ég var ekki að horfa, heldur svara skilaboðum í gemsanum, svo ég veit ekki almennilega hvað gerðist, nema strætó keyrði á fullu á bíl, alla vega framhlutann, sem kom út úr bílastæðinu þarna, virtist vera. Okkur farþegum var hent út (rólega, blíðlega) og sagt að bíða eftir næsta strætó sem kom korteri seinna. Ég legg alltaf snemma af stað sem borgaði sig aldeilis þarna því ég mætti á réttum tíma í vinnuna.

 

MYND 2: Mosi gerði tilraun til að brjóta borðstofuborðið líka ... 

 

HjúkrunarneminnÞegar fólk býr svona eitt verður það stórskrítið með tímanum. Ég áttaði mig á því fyrst í dag. Fékk SMS frá Eldum rétt um að það væru 23 mínútur í matarkassann minn. Var að lesa yfir ritgerð og hlustaði á YouTube-ýmislegt-listann minn á meðan. Þá ákvað ég að láta lagið sem hljómaði um leið og sendillinn frá Eldum rétt hringdi dyrabjöllunni yrði lýsandi fyrir líf mitt í komandi viku. Creep með Radiohead var búið, sjúkk og þegar hann lagði bílnum á stæðinu hér fyrir utan hljómaði Stun Gun með Quarashi ... hvað skyldi það nú merkja. Það kláraðist þó áður en bjallan hringdi og lagið Fu-Gee-La með Fokkís byrjað. Nú bitnar illilega á mér að kunna enga texta, ég hlusta yfirleitt bara á lagið á meðan flestir vinir mínir njóta bæði lags og texta ... Svo mætti ég alveg vera betri í ensku þótt ég geti bjargað mér (munið, ég er manneskjan sem skildi ekkert í öllum þessum dýralæknum í hernum, í sumum bókum sem ég las á ensku).

 

Elskan hún mamma hefði orðið 91 árs í dag. Hún dó fyrir þremur árum, södd lífdaga, trúði því staðfastlega að Mínerva amma, systkini hennar og ýmsir fleiri tækju á móti henni hinum megin. Hún starfaði alla tíð sem hjúkrunarfræðingur og seinni árin á Kleppi, hugsa oft til þess hvað það hefði verið gaman að fá hana í kaffi hingað í Skýjahöllina fyrir vakt eða eftir vakt en hún hlammaði sér í helgan stein 2004 og einbeitti sér að því að lesa góða krimma og ráða krossgátur til að halda heilanum sprækum. Ekki slæmt.

Myndin sýnir hjúkrunarnemann Bryndísi á sjötta áratug síðustu aldar.

 

Ég verð með matarboð á eftir fyrir gamla vinkonu sem kann að meta góðan mat og eldar sjálf besta matinn. Ég óttast ekkert, Eldum rétt er meðetta og heldur uppi heiðri mínum.

Allt um matarboðið og miklu fleira á morgun. Nú þarf ég að fara að undirbúa gestakomuna. P.s: Ef þið þekkið/skiljið textann við Fu-Gee-La með Fugees væri fínt að vita hvað komandi vika ber í skauti sér ... Veit kannski á gott veður? 

       


Sumarsængin göldrótta, Liverpool-spenna og 94 dagar ...

EllýPáskahátíðin hélt áfram í gær, já, ég veit, þegar systir mín bauð í algjöran sparimat. Tilefnið var svo sem fyrsti í sumri en svona veisla kallaði fram páska- og jólamatarminningar.

 

Hún kom í stutta heimsókn hingað í skýjahöllina áður en hún rændi mér í Kópavoginn svo ég þarf að framkvæma hardcore-leit ... sakleysið svo mikið að ég hafði steingleymt því að hún keypti heilt karton af litlum rúsínupökkum og fram að þessu hafa bara örfáir fundist.

Rúsínustríðið náði í raun hámarki um páskana eftir að hún gerði sennilega (að öllum líkindum, eiginlega pottþétt) samning við alla sælgætisframleiðendur landsins um vissar rúsínuhrellingar í páskaeggjum landsmanna. Þetta er komið í rannsókn og visst ferli hafið. 

 

MYND 1: Elskan hún Ellý var hinn matargesturinn í gær, long time no seen, alltaf jafnskemmtileg.

 

Já, og gleðilegt sumar, elsku bloggvinir! Ég er þegar búin að skipta yfir í svölu sumarsængina og tek þar með á mig alla ábyrgð á þeim kuldaköstum, næturfrosti og hraglanda sem gæti hellst yfir okkur á næstu mánuðum ... munið bara að slíkt fækkar geitungum! Þegar ég keypti mína fyrstu sumarsæng, eitt vorið á Skaganum fagra, skall á svo hroðalegt (að sumra mati) sumar að það eyðilagði næstum Írska daga. Mér var boðið í götugrill á leikskólalóð nokkurri á föstudeginum og það var varla stætt úti, sjá mátti kótilettur, jafnvel lærisneiðar fjúka um grundir. En stinguflugurnar fuku líka í aðra sýslu, minnir mig. Sumarsængin var allt of svöl svo ég skalf allt sumarið og það var ekki fyrr en í lok ágúst að þetta var allt mér að kenna. Almættið, eða alla vega íslenska sum-mættið, virti mig fyrir sér þarna í Jysk, áður Rúmfatalagernum, og ákvað að taka til sinna ráða. Heldur hún virkilega að hún geti átt svalari og betri nætur með því að kaupa þunna sæng ... látum oss sjá ... þessi ósvífna en samt guðdómlega fagra bjartsýnismær þarf að læra sína lexíu. Svo var bara galdrað og ég þurfti að vera með þykkt teppi ofan á sænginni allt sumarið. Ykkar vegna, til að geðheilsa mín haldist ósködduð og sleppi við væl og skæl á samfélagsmiðlum (farið bara til Tene), vil ég nú samt að það komi alla vega tíu sjúklega "góðir" sólskinsdagar svo sumarið 2025 verði gott í manna minnum og mér verði ekki kennt um neitt. Mæli svo um og legg á.

 

Gleðilegt sumar ... bless, hálkaÞessa mynd tók ég út um einn norðurglugga himnaríkis fyrir mörgum árum, og hún er það eina sem fær mig til að sættast við óbærilegan sumarhita (allt yfir 12 gráður) sem nú skellur brátt á - annað slagið.

Ég var mjög lengi (korter? Lagði mjög snemma af stað) að feta mig út á stoppistöð á meðan þessi færð ríkti, hélt mér í hús, grindverk, ljósastaura til að fótbrotna ekki og þar sem Vegagerðin ætlar að fjarlægja stoppistöðina við Garðabraut hefði ég sennilega flutt, ef ég væri ekki búin að því, eða keypt mér bíl og farið að nota loks bleika ökuskírteinið sem ekki nokkur einasti lögreglumaður hefur augum litið. Ég endurnýjaði það græna á sínum tíma, fékk bleikt og hef hossast með það í veskinu mínu í strætó um langa hríð.

 

Eitthvað af fjölskyldumeðlimum er á leið til Liverpool í dag, í skipulagða ferð á spennandi leik sem verður á sunnudaginn. Það þarf bara eitt stig (jafntefli) til að tryggja Liverpool sigur í deildinni ... Visst afmælisbarn fékk þetta sem fertugsafmælisgjöf og fylgifiskurinn sem fer með, honum til halds og trausts, ætlar að kaupa fyrir mig Nero-kaffibaunir, ef sá frábæri kaffistaður er ekki bara með kaffi í vökvaformi, heldur líka baunir. Gleymdi að athuga það þegar ég var á ferðinni bæði í Liverpool um árið og svo seinna í Glasgow.

 

 

Ásgeir SigurvinssonFyrir stuttu sagði ég vissum manneskjum frá því þegar ég fékk fótboltann í merg og bein. Var í blaðamannaferð (upp úr aldamótum) í frábæra Þýskalandi og við fórum auðvitað á leik í Stuttgart. Að sjálfsögðu snæddum við mat í klúbbnum og eldri maður sem sat við næsta borð spurði okkur hvaðan við værum. Frá Íslandi, sögðum við og maðurinn táraðist. „Ohhhh, Sigurvinsson,“ sagði hann klökkur og þurrkaði tárin. Það voru komin allmörg ár frá því Ásgeir Sigurvinsson hætti að spila með Stuttgart en hann var sannarlega ekki gleymdur. Fyrir leik, til að magna upp stemninguna, hljómaði lagið It´s raining men, hallelúja, og sýnd voru glæsileg tilþrif leikmanna ... meðal annars verulega glæsileg hjólhestaspyrna Ásgeirs! Ég sagði frá þessu en sá einhvern furðusvip á andlitum þeirra. „Vitið þið hvað hjólhestaspyrna er?“ spurði ég greindarlega. Viðkomandi manneskjur svöruðu neitandi og ég þurfti að leika hjólhestaspyrnu þar sem ég sat í stól við kaffiborð ... ekki auðvelt en ég held að það hafi tekist. Ég sleppti þeim þó við að sýna stoðsendingar og rangstöðu, það bíður næstu heimsókna. Alltaf svo ótrúlega skemmtilegt og fróðlegt að koma í kaffi til mín. Stundum tala ég í póstnúmerum til að gleðja. Örlítið dæmi: „Ohh, þetta bragðgóða kaffi kemur frá 350 Grundarfirði!“ eða; „Já, ég vinn í Skeifunni, 108 Reykjavík ...“ Á þann máta kem ég inn mikilvægum fróðleik, alla vega til þeirra sem enn senda jólakort. Hverjum finnst ekki gaman að tala um tölur? Já, og Ásgeir var númer 10 hjá Stuttgart.

 

Fyrirspurn á útlenskri Facebook-síðu:

Nú eru komnir 94 dagar. Hvernig líst ykkur á það sem komið er?

 

- 94 dagar? Ekki meira? Finnst það vera 94 ár!

- Bara vel, svona eins og hjá Titanic eftir að það sigldi á ísjaka.

- Hver nýr dagur býður upp á ferskan hrylling.

- Bara 94? Frekar eins og 940!

- Það verður enn meira fjör þegar ég þarf að flýja úr landi til að sleppa við að vera send í fæðingarbúðir.

- Ég finn svo ofboðslega til með Bandaríkjamönnum.

- Því er enginn ælutakki til að ýta á?

- Það mun taka tíu ár að byggja upp það sem hefur eyðilagst þessa 100 daga.

- Ég er að reyna að horfa fram hjá þessu. Er þetta yfirstaðið? En núna?

- Við munum aldrei afbera fjögur ár.

- Nú er búið að bjóða fólki 5.000 dollara fyrir að eignast barn. Ef einhver íhugar það, ætti viðkomandi ekki að eignast börn.

- Ég er bæði reiður og dauðhræddur.

- Stundum langar mig bara til að sofna og vakna þegar þetta er afstaðið.

- Þetta fór úr slæmu í verra.

- Hissa á að við séum enn á lífi!

- Þetta verður bara verra ...   


Hugvíkkandi tónlist, páska -rúsínuvonbrigði og rúllutertudekur

MosakrúttÞrotlaust páskaeggjasmakk fyrir og um páskana færði mér heim sanninn um að allt er í heiminum hverfult. Páskaegg sem áður voru fullkomin eru það ekki lengur þrátt fyrir ótrúlega fjölgun tegunda. Ég fórnaði mér fyrir fjöldann og bragðaði meðal annars hvítt páskaegg (er hrifin af hvítu), appelsínu- (elska slíkt súkkulaði) og nóakropps- ... Súkkulaðið sjálft á eggjunum, utan um sælgætið / innihaldið, var alveg í lagi en að fylla eggin með súkkulaðirúsínum, dulbúnum sem súkkulaðihúðað hrís, finnst mér léleg redding og heimskulegur sparnaður. Rúsínur voru "sælgætið" í eldgamla daga og afi minn, Jónas, frá Flatey á Skjálfanda, varð nánast fyrir aðkasti fyrir að fyrirlíta rúsínur (hnetur, möndlur og döðlur líka, skilst mér), greinilega smekkmaður. Hitti unga konu í dag sem sagði það sama um lakkrís og páskaegg, sem ákveðið Nóa-egg var stútfullt af, henni til mikilla vonbrigða. En rúsínur ... Þvílík vonbrigði og hneyksli. Ég hætti að versla við Eldabuskuna af því að það voru rúsínur í salati (brokkólísalati, minnir mig) hjá þeim, án viðvörunar, og sneri mér aftur að Eldum rétt. Sendillinn sem kom í dag með Eldum rétt-kassann stökk upp alla stigana til mín og blés varla úr nös þegar hann rétti mér matinn. Ég fann fyrir talsverðum tengslum við hann fyrir vikið því það er frekar orðið regla en undantekning að ég sleppi lyftunni. Gemsinn minn segir 5 hæðir eftir hopp dagsins í dag, narsissistinn sá, en ég veit að ég fór nokkru ofar en það - annars væri ég ekki heima hjá mér, skrefafjöldinn aftur á móti innan við þúsund ... enda þeyttist ég um íbúðina við þvottastúss og tiltekt með símann víðs fjarri öllum hreyfingum og skrefum.

 

Mynd: Þegar textinn er svona átakanlegur er best að birta mynd af sætum ketti á borð við Mosa. Þarna var hann reyndar að kvarta ... ég átti að skemmta honum!

 

Ég varð aðnjótandi mikils dekurs í dag. Elsku frábæra vinkona mín sem ég hef hitt allt of sjaldan síðan við unnum saman á síðustu öld ... hún sótti mig á Skagann þegar kom upp smit í ræktinni á Akranesi og ók mér svo heim aftur (frá Rvík), fórum saman í Bókakonfekt Forlagsins fyrir síðustu jól og á uppistand nýlega, bauð mér heim í kaffi og meððí í dag. Dóttirin var á ferðinni og myndi grípa mig með upp í Mosó þar sem fjölskyldan býr með glæsilegum ketti. Hún þekkir mig nógu vel til að vita að þegar ég bað um lýsingu á bílnum, kom fyrst NÚMERIÐ, svo LITURINN og þá TEGUNDIN. Enda stökk ég strax út um leið og ég sá bílinn.

 

Gamla bakaríiðÁ borðum var túnfisksalat, ostar, kex og ... haldið ykkur ... rúlluterta sem ég var viss um að væri grín (hún er mjög fyndin) því ég kvartaði nýlega undan búðar-rúllutertum hér á blogginu, eða breyttu bragðskyni mínu. En ekkert grín í gangi, hún hafði bakað BANANARÚLLUTERTU sem er líklega besta rúlluterta sem ég hef smakkað. Bakarameistarinn gerði ferðir í samnefnd bakarí sannarlega þess virði á meðan svona tertur voru á boðstólum ... nú líða heilu árin á milli heimsókna minna þangað. Jói Fel gerði líka svona bananarúllutertur en skemmdi kremið með viskíbragði, eða einhvers konar vínbragði sem gerði hana alls ekki betri. Meinti eflaust vel, vildi bæta um betur kannski, en vínbragð finnst mér bara gott í rommkúlum.

 

Myndin er af Google, frá Gamla bakaríinu á Ísafirði sem gerði greinilega gott bakkelsi! Takk, Rögnvaldur!

 

Svo sátum við og spjölluðum lengi, lengi, dóttirin alveg jafnskemmtileg og mamman, um ketti, sálfræði, leikskóla, bráðger börn, pólitík, bókmenntir, vók og fleira. Undir lokin stamaði ég upp úr mér, reyndi að vera ótrúlega hress í bragði þegar ég minnti hana á dásamlegar menningarferðir okkar núna í okt/nóv og svo í apríl ... og sagðist reyndar sko helst vilja sleppa við að spyrja hana, enda er hún vel yngri en ég (en til í ýmsa vitleysu), ég reyndi sem sagt að fá hana með mér í Smárabíó á HUGVÍKKANDI bíósýningu ... Pink Floyd á Pompei 1972 (eitthvað slíkt) sem verður annað kvöld (og líka á sunnudagskvöldið, held ég örugglega). Hún horfði glaðlega á mig og sagði: „Má bjóða þér meiri bananarúllutertu?“ sem þýddi í raun: „Almáttugur, Guðríður, eru engin takmörk fyrir hugmyndum þínum um skemmtanir?“ Tvær systur mínar fóru á Mannakorn í kvöld og afar lítill séns að þær langi á svona sýru-sýningu með klikkuðu systurinni sem hefur alla tíð elskað hugvíkkandi tónlist án þess þó að snerta á ólöglegum efnum en ég er svo sem af 78-kynslóðinni ... terlínbuxur héldu innreið sína þegar ég var upp á mitt besta og Slade þóttu það besta í músík ... en ég var og er sannarlega þakklát fyrir arf 68-kynslóðarinnar! 

 

 

Eldum réttVinkona mín í Mosó sagði reyndar, í bílnum á leiðinni heim aftur, að maðurinn hennar, þánýkominn heim úr vinnunni, hefði fengið blik í augun þegar ég nefndi Pink Floyd, svo ég skyldi ekki örvænta alveg ... en eina manneskjan sem ég get ímyndað mér að nennti með mér, á bara alls ekki gott með að komast frá á fimmtudögum.

 

 

Ég sá bíómyndina The Wall cirka átta sinnum - samt er samnefnd plata ekki mesta uppáhaldið með PF. Ég lifi algjörlega af að komast ekki í bíó á morgun eða á sunnudaginn.

 

Ýmis brot frá þessum tónleikum má finna á YouTube, t.d. Saucerful of Secrets sem var á Umma Gumma-plötunni minni og í miklu uppáhaldi. Brotið sem hér má finna neðst er frá tónleikum í Hollandi, 1970, þegar ég var lítil stelpa og ekki búin að uppgötva Pink Floyd.  

 

Eftir kvöldmatinn (ljómandi góðan fisk frá Eldum rétt) setti ég á mig (andlitið) örnálamaska sem á að vera á húðinni lengi, lengi, kannski bara í alla nótt. Ég verð brjáluð ef ég vakna ekki algjörlega ókrumpuð á morgun. Nógu mikið kostaði þetta (heilu þúsundkallana í Hagkaup). 

 

Facebook:

- Chuck Norris getur sofið í átta klukkustundir á aðeins 30 mínútum.

 

Mynd dagsins úr eldhúsinu: Ég birti mynd úr eldhúsinu mínu í gær/fyrradag, þar sást í kaffivélina sem nú er komin hinum megin, eða til hægri þegar komið er inn í eldhús. Var þannig í upphafi eftir flutninga, svo breytti ég, en lagaði aftur í dag. Nú eru klakavél, kaffivél og örbylgjuofn saman hægra megin. Miklu léttara yfir eldhúsinu svona. Kryddbakkinn kominn í staðinn og allt nýtur sín betur, finnst mér.

 

Má bjóða upp á dásamlegt lag með Pink Floyd? Gjörið svo vel! Þetta hélt ég tryllingslega mikið upp á sem saklaus þrettán, fjórtán ára pía og hafði ekki hugmynd um að svona tónlist væri talin hugvíkkandi ... hvað var nú það? Og kakó hvað? Hef ekki enn orðið svo fræg að prófa þetta holla og hressandi kakó sem svo margir eru brjálaðir í, held að það sé drukkið jafnt í heimahúsum sem á sérstökum kakóathöfnum. Er bara hrædd við allt hugvíkkandi ... nema tónlist.   

 

  


Misheppnuð félagsleg tilraun en fínustu páskar samt

ÁlfaslóðirPáskarnir hafa verið frábærir og innihaldið bæði spennandi bílferðir og góðan mat, sem voru það mikilvægasta fyrir stráksa sem fór bæði á álfaslóðir og austur fyrir Fjall. Einnig kemur sérstök nokkurs konar samfélagsleg rokkaratilraun við sögu ...

 

Elskan hún Steingerður kom og sótti okkur á skírdag til að fara með okkur á álfaslóðir en álfar eru mikið áhugamál hjá hluta hópsins. Við ókum fram hjá Álfhól á Álfhólsvegi en leiðin lá að Víghóli þar sem við þrömmuðum um í frekar svölu en góðu veðri. Steingerður er mikill sagnabrunnur og að auki lærð leiðsögukona svo við fengum mikinn fróðleik um álfa og dverga. Hún sagði okkur frá því að Erla Stefánsdóttir sjáandi hefði eitt sinn staðið uppi á Víghóli og séð þrjá álfastaði í Kópavogi tengjast með ljósi, eða Álfastein, Víghól og Kirkjuholtið við Kópavogskirkju. Þarna á Víghóli eru bæði hringsjá og sólúr ... gaman að skoða þennan skemmtilega og harðfriðaða stað. Kirkjuholtið var síðasti viðkomustaður okkar áður en við settumst inn á kaffihús í Hamraborginni. Stráksi var í skýjunum yfir ferðinni og talaði endalaust um gæsku og skemmtilegheit vinkonu minnar og endaði á að segja: „Ég vildi að hún væri fósturmamma mín,“ sem er mesta hrós sem hann getur gefið.

 

Myndin fyrir ofan er tekin á vettvangi álfaskoðunarferðarinnar, eða á Kirkjuholti (bak við Kópavogskirkju) sem var síðasti viðkomustaðurinn.

 

Með Kríu hennar SteingerðarEftir kaffihúsaferðina bauð hún okkur í heimsókn þar sem Kría, tíkin hennar, fagnaði okkur brjálæðislega mikið og það voru engin takmörk fyrir því hvað hún nennti að láta okkur fleygja dóti fram sem hún stökk svo á eftir og sótti. Loks varð Steingerður að segja PÁSA og þá róaðist Kría niður, elsku krúttið. Ég viðurkenni stolt að ég er klikkaða kattakerlingin sem elskar hunda.

 

Hér sjást stráksi og Kría, rétt áður en eigandi Kríu sagði "pása!" 

 

Föstudagurinn langi fór auðvitað í ýmsar og margvíslegar píslir, aðallega þó dauðasyndir á borð við leti ... þetta var góður náttfataletidagur, þó með skemmtilegri heimsókn seinnipartinn. En eldsnemma á laugardagsmorgninum (kl. 11) vorum við sótt og svo var ekið sem leið lá austur fyrir Fjall. Við ókum í gegnum Eyrarbakka og Stokkseyri, sáum Litla-Hraun (sem stráksa fannst mjög merkilegt), og enduðum um kaffileytið á Sólheimum, Grímsnesi þar sem ágætt kaffi var drukkið með vöfflunum. Mikill fjöldi fólks var þar, enda hafði víst farið fram páskaeggjaleit fyrr um daginn en við fengum nú samt borð.

 

Ég gerði (mögulega hættulega) samfélagslega tilraun á matsölustaðnum þar sem við snæddum hádegisverð. Meintur fjölskyldufaðir á næsta borði var í flottri peysu sem merkt var SKÁLMÖLD! sem kveikti heldur betur í mér. Nýlega sá ég bráðskemmtilegt myndband þar sem tveir ókunnir þungarokksaðdáendur hittust og fylltust (platónskri) ást hvor á öðrum. Ég hélt ró minni á meðan maðurinn (c.a. 20 árum yngri en ég) borðaði en gat svo ekki stillt mig þegar hann bjóst til brottfarar og sagði:

„Mikið ertu í flottri peysu, ég held líka mikið upp á Skálmöld!“

„Hrmpf ...“ tautaði hann og stirðnaði. Það kólnaði á staðnum.

„Fórstu á tónleikana með þeim í Hörpu núna í nóvember?“ reyndi ég aftur.

„Já.“

 

Þungarokkarar hittastÞarna áttaði ég mig og þagnaði. Þessi maður var greinilega lögreglumaður í dulargervi og vildi alls ekki láta trufla sig, mögulega í miðri lögregluaðgerð, en hann hafði gleymt að taka gervi sitt alla leið. Svona eins og ef ég hefði verið í Celine Dion- eða Whitney Houston-bol en ekki getað nefnt eitt lag með þeim (ja, nema kannski Titanic-lagið (hvað heitir það aftur?) og I will always love you úr Bodyguard) ... hefði sko verið uppgötvuð/myrt í hvelli fyrir að vinna vinnuna mína svona illa. Ég vona bara að aðgerðin sem hann var greinilega í akkúrat þarna (komast inn undir hjá hættulegri konu og börnum?) hafi gengið vel og þau ekki uppgötvað hlerunartækin sem leyndust sennilega undir Skálmaldarpeysunni. Svo gæti líka skipt máli að ég var ekki merkt þungarokki á nokkurn hátt. Ég á að sjálfsögðu Skálmaldarbol og Skálmaldartaupoka en ... inni í skáp heima hjá mér.

 

Myndin er skjáskot úr stuttu og skemmtilegu vídíói sem ég deildi nýlega á feisbúkk, og fjallar um eðlilega gagnkvæma aðdáun þegar maður hittir aðra manneskju sem hefur sjúklega góðan tónlistarsmekk.

 

Ég ætlaði að draga Guðrúnu og stráksa á ýmsa uppáhaldsstaði á Selfossi og Hveragerði en þeir voru allir lokaðir þennan laugardag fyrir páska. Ég er kannski ekki mjög viðskiptasinnuð en sá samt fyrir mér marga hundraðþúsundkalla fjúka þegar ég varð vitni að örvæntingu í augum bæði innlendra og erlendra ferðamanna sem komu víða að lokuðum dyrum. Meira að segja Rósakaffi í Hveragerði var lokað, bókakaffið á Selfossi, flotta listamannabúðin hægra megin við KFC ... og fleiri og fleiri. En samt, það eiga allir skilið að fá gott páskafrí, sjaldgæft að fá fimm daga frí samfleytt ... gerist bara einu sinni á ári, ef það gerist. Hér lenda næstum allir frídagar á fimmtudögum; næst á sumardaginn fyrsta, meira að segja 1. maí er á fimmtudegi í ár!

 

Fyrri hlutiVið stráksi fórum til Hildu eftir ferðalagið um Suðurland og óvænta rokkarasjokkið, og gistum hjá henni í Kópavogi, sem var draumur stráksa. Það var ekki farin sú Reykjavíkurferð árum saman að ekki væri gist hjá Hildu, á meðan hann bjó hjá mér. Honum fannst það dásamlegt, mér líka. Golíat og Herkúles, frændhundarnir mínir góðu og riddarar af Maltese, voru glaðir að sjá okkur og það var gagnkvæmt.

Hugsa að þeir myndu heimsækja mig oftar hingað í Skýjahöll ef Krummi hinn hugumstóri gengi ekki svona hart fram við að bjarga lífi okkar mannfólksins, eða tryggja að þessir stórhættulegu smáhundar éti okkur ekki. Þeir eru alla vega skíthræddir við Krumma.

Í gærkvöldi setti systir mín svo enn eitt stúlknametið í eldamennsku með tryllingslega góðum páskamat. Ég gleymdi að taka myndir!

Risastór dúfa gerði sig heimakomna í öðrum eldhúsglugganum hjá systur minni seinna um kvöldið. Þegar eina hetjan á staðnum, áfallasálfræðingur að mennt, kíkti betur reyndist aðeins saklaus en rosastór geitungadrottning vera þar á ferð. Frænkan reyndi að gefa henni vatn og hressa hana við svo hún flygi sjálf út en á endanum veiddi hún hana í glas og fór með út í garð. Við hin skulfum ... af hrifningu og aðdáun á hetjufrænkunni miklu. Ég minnkaði rifuna á öllum gluggum heima hjá mér við heimkomu í gærkvöldi. Treysti ekki á veiðisnilld gömlu kattanna minna sem myndu svo sem seint sleppa stinguflugum úti á svölum.

 

Svitlana, fyrrum grannkona á Akranesi, var í borginni og þegar hún fór heim um kvöldið tók hún stráksa með upp á Skaga. Allt í lagi fyrir hann að taka strætó á milli en stutt er í að Vegagerðin taki nokkrar stoppistöðvar af Skagamönnum og þar með er eiginlega orðið ómögulegt fyrir stráksa að taka strætó nema fá skutl út á stoppistöð og vera sóttur þangað, ef ég get ekki reddað fari fyrir hann. Það er passað mjög vel upp á hann á sambýlinu þar sem hann býr.

Eins og við vitum öll fyllist strætó alltaf af farþegum þegar þjónustan er skert eða verðið hækkað ... Ég hefði misst mína stoppistöð (við Garðabraut), byggi ég enn á Skaganum, en seinna hálkuslys lífs míns var einmitt þegar stoppistöðin var nokkru fjær, eða á Innnesvegi, þar sem hún verður áfram (plús Bæjarskrifstofan og Bónushúsið), þegar ég datt á ógæfumölinni í hálku á leið heim, þetta var árið 2007 (annað hnéð saumað, hitt illa snúið) og enn, öllum þessum árum seinna, eru hnén á mér ekki búin að jafna sig sem gerir mér m.a. ógerlegt vegna sársauka að stunda jóga (nema rope-jóga). Það er alveg ástæða fyrir því að reynt er að hafa ekki of langt á milli stoppistöðva (þótt Snorri Másson skilji það ekki) ... ef fólk þarf að ganga í hálftíma, eins og sumir á Akranesi eftir komandi breytingar, þá er nú freistandi að fá sér bara bíl. Auðvitað er lítið mál að ganga langar leiðir þegar ekki er stórhríð eða fljúgandi hálka en mér finnst æðislegt að eiga svona stutt í stoppistöð hér í bænum. 

 

Áður en Guðrún skutlaði okkur stráksa til Hildu, fórum við í sjoppu til að kaupa Moggann ... páskablaðið, stútfullt af flottum viðtölum ... tíhíhí! 

 

Viðtalið sem ég bloggaði um fyrir nokkru birtist nefnilega loksins í páskablaði Morgunblaðsins og ... aðalatriðið fyrst: þar má finna tvær mismunandi ljósmyndir af ykkar einlægri, teknar á sama tíma á sama stað ... en himinn og haf eru á milli þeirra, finnst mér. Ég var komin í vinnuna þegar ljósmyndarinn boðaði komu sína, reyndar alveg nýbúin í augabrúnalitun en þó algjörlega án farða og flottra fata sem hefði kannski öllu breytt. Ég myndast stundum eins og sérlega illskeyttur vélsagarmorðingi (sjá vegabréfamyndir af mér, heppin að komast inn í sum tortryggin lönd og óttinn svo mikill við mig (í USA) að mér er trúað þegar ég segist vera bara með sælgæti þegar ég er í raun með efnavopn með mér (súrsaðan hákarl, kæsta skötu (fyrir Elfu) allt vakúmpakkað).

Hefði sennilega átt að lauma 50 krónum að ljósmyndara mbl til að setja aðra myndina í photoshop.

 

 

Neðri ljósmyndin á fyrri viðtalsmyndinni er af okkur stráksa á Galito á Akranesi. Kannski verður næsta vettvangsferð okkar Guðrúnar til Akraness ... á Galito, með stráksa.

 

Mæli að sjálfsögðu með að fólk kaupi páska-Moggann áður en hann selst upp, en virði frekar fyrir sér fallegu og frábæru nemendur mína en mig. Þótt ég birti myndir af viðtalinu hér er sennilega erfitt að lesa textann, jafnvel þótt fólk klikki á myndirnar.

 

Seinni hluti

Birti þetta (sérstaklega efri myndina) til að sýna hversu nákvæmlega sama mér er um útlitið ... hvort myndir af mér séu hörmulegar eður ei, eða bæti á mig um það bil 50 kílóum eins og ég hef svo oft lent í ... ég er sko ekki hégómleg.

Bara, alls ekki láta plata ykkur til að hlæja undirhökuhlátri (já, hann er til).

 

Mynd 2 þar sem þau sjást öll miklu betur:

Elsku frábæru nemendur mínir, allir útskrifaðir, eru frá Víetnem, Palestínu, Grikklandi, Venesúela, Sýrlandi, Úkraínu og Afganistan. Öll svo áhugasöm og virk þrátt fyrir að hafa flest, ef ekki öll, verið að vinna allan daginn. 

 

Neðri ljósmyndin (á seinni viðtalsmyndinni) er af okkur Einari, mikil uppáhaldsmynd sem gamall vinur (Guðmundur) af Moggablogginu í eldgamla daga tók af okkur í Skrúðgarðinum, því frábæra kaffihúsi sem María Nolan rak af miklum myndarskap í miðbæ Akraness áður en hún flutti til Bretlands.

 

Næsti hópur sem ég kenni verður líka skemmtilega blandaður og ég nota páskafríið til að leggja nöfn nemendanna á minnið. YouTube-myndböndin How to pronounce ... koma sér ætíð vel. Ætla samt að hafa þetta eins og hjá Sameinuðu þjóðunum, að nöfn þeirra verði á "skilti" (samanbrotnu A4-blaði) fyrir framan þau. Ég er alveg hræðileg með nöfn og hef eiginlega alltaf verið. Hitti til dæmis frábæra konu um daginn úti í búð, vann með henni um miðjan tíunda áratug síðustu aldar (vissulega 30 ár síðan) og get bara alls ekki munað hvað hún heitir. Hef farið í gegnum fb-síður gamalla samstarfsmanna okkar og held nú að hún sé ekki á fésinu. Man bara hvað hún var skemmtileg og fín manneskja. En tölur ... ef fólk héti aðeins tölustöfum.

 

VettvangsmyndÁ fundi um daginn spurði ég samstarfskennara hvort hann hefði fengið einn nemanda minn í bekk til sín og sagði upphafið á kennitölu hans. Samkennarinn starði óttasleginn á mig þar til ég útskýrði hratt: „Æ, ég man þetta bara af því ég á afmæli daginn á eftir honum.“

En samt ... Ég þekki frekar bíla á númerum þeirra en útliti og lit. Get kannski ekki endurtekið stafi og tölustafi en þau bílnúmer sem ég ætti að þekkja eru alltaf kunnugleg. Hefði kannski átt að verða stærðfræðingur eða talnaspekingur.

 

Sjúklega góða páskakaffið er loks farið að ilma hér um íbúðina, en fyrsti bollinn af því var drukkinn um fjögurleytið í dag og ég fékk mikið kikk bara af ilminum af því. Fyrst þurfti ég að klára annars ágætt hversdagskaffið en þetta sjúklega góða, Valeríukaffið frá Grundarfirði kemur ótrúlega vel út úr gömlu (keypt 2017) baunavélinni minni. Þannig að það er alveg hægt að koma í súperkaffi til mín á næstunni.

 

Vettvangsmyndin: Fékk mér annan súperkaffibolla rétt fyrir klukkan sex, kommon, frí á morgun, ekki einu sinni Eldum rétt kemur (þau koma á miðvikudag). Freistaðist til að taka vettvangsmynd í eldhúsinu þar sem kaffivélin sést, vinstra megin má sjá í Valeríupakka ofan í grænu skálinni, appelsínuguli flotti lampinn frá Önnu er þarna líka, og fyrir miðju í glugganum er ferfuglinn góði úr flottu listamanna- og beint úr býli-búðinni á Selfossi (hægra megin við KFC) og svo hanga þarna auðvitað dúllugardínurnar sem ég heklaði fyrir löngu og þyrfti að stífa betur. Bláa kannan þarna lengst til hægri sem rétt svo sést í, var í eigu mömmu og í henni var blandað saman malti og appelsínu öll jól og páska æsku minnar. Veðrið úti er svakalega gott, eins og sjá má, og ef myndin prentast vel má vel sjá stoppistöðvarnar mínar. Sú sem er nær mér er leið mín upp í Mjódd en þessi hinum megin við Sæbraut sér um að teleporta mig í miðborgina og líka áleiðis í vinnuna.

Ef ég ætti peninga myndi ég breyta eldhúsinu, hafa innréttinguna nær nær dyrunum og setja eldhúsborð og stóla undir gluggann ... svo hafa einhverjir í sambærilegri íbúð fært eldhúsið fram í stofu (borðstofu) og breytt eldhúsinu í þriðja herbergið sem er líka ansi sniðugt.                    


Ástarvonir síðmiðaldra kvenna og rúlluterturaunir

Svitlana og RostykDásamleg skilaboð urðu til þess að ég fleygði frá mér heklunálinni, sparkaði rokknum frá mér, skellti mér í bomsurnar og dreif mig í strætó númer 12 áleiðis niður í bæ.

Skilaboðin voru sannarlega ekki dulkóðuð þótt mikilvæg væru, heldur sögðu einfaldlega: Kaffið er komið í Hyalin. Ég hafði haft samband við Valeriu-kaffibrennslu á Grundarfirði og pantað baunir, espressóbrenndar. Millifærði í heimabankanum og í dag þegar skilaboðin komu um að kaffið væri komið, hélt ég af stað til að sækja það, full tilhlökkunar. Er í frekar löngu páskafríi svo ég er frjáls eins og fuglinn.

 

Þar sem elsku öskukarlarnir komu og tóku megnið af plasti, pappa, lífrænu og óflokkanlegu (þeir taka aldrei allt!!!) gat ég farið með mitt súpervel flokkaða dót niður og fleygt. Gleymdi afgangsbrauðinu gamla sem átti að fara í fuglana en sá sem betur fer enga að hnita hringi yfir súpueldhúsinu á miðju túninu, eða hvað þetta heitir hérna fyrir neðan. Þetta er grænn blettur fullur af gæsaskít svo ég geng aldrei þar yfir á leið út á stoppistöð.

Það er svo mikil frelsistilfinning sem fylgir því að eiga strætókort og komast hvert sem er á höfuðborgarsvæðinu með stórum, dýrum bíl og einkabílstjóra. Ég fór út við Þjóðleikhúsið og gekk þaðan upp á Skólavörðustíg. Naut þess til hins ýtrasta að ganga aðeins um í miðbænum. Ansi margar lundabúðir og aðeins of kalt til að fara í leit að góðu kaffi og meððí. Mundi of seint að það voru ekki nema þrjú góða ögn ofan á Skólavörðustígnum, urrrr. Við heimkomu var ég orðin virkilega svöng og opnaði ísskápinn, var að hugsa um skyrdollu sem ég vissi að leyndist í efstu hillu ... en rak þá augun í rúllutertuna sem ég keypti í tilefni þess að sjö gestir höfðu boðað komu sína frá Akranesi á sunnudaginn. Að þessu sinni alþjóðlegir gestir. Önnur fjölskyldan, sú sýrlenska, kom með dásamlega tertu, ættaða frá Venesúela þar sem þau bjuggu í nokkur ár - og það orsakaði rúllutertugleymsku mína. Hin fjölskyldan færði úkraínskt sælgæti og gladdist yfir því að ég var búin að læra að segja takk á úkraínsku (djakújú). Kettirnir urðu sérlega glaðir að sjá Svitlönu og Rostyk, kisuhvíslarana úr himnaríki, þau sem pössuðu þá alltaf ef mér var boðið í helgargistingu í Balmoral eða Buckingham. 

  

MYNDIN fyrir ofan er af Svitlönu og Rostyk í bílnum áður en þau lögðu af stað heim til Akraness. Svitlana bjó á fyrstu hæð í himnaríki og svo undarlega vill til að við fluttum báðar um svipað leyti úr því dásamlega húsi ... og annað: Bónus er hinum megin við götuna hjá okkur báðum! Hún í 300, ég í 104! Getur ekki verið tilviljun! 

  

Sækja kaffiÍ gamla daga var brún rúlluterta eitt af því sem ég ætlaði alltaf að eiga í sælgætisskúffunni minni þegar ég yrði fullorðin og þyrfti ekki að hlýða mömmu varðandi sælgætiseign (bara nammi á laugardögum-pyntingar). Skúffunni þeirri sem yrði endalaust kúffull af góðgæti og fyllt á jafnóðum.

Ég skar mér sem sagt sneið við heimkomu - til að borða með kaffinu (sem ég þarf að klára virkilega hratt til að geta farið að drekka páskakaffið) og bjakk, hvað þetta var vont. Vissulega terta keypt í búð ... en samt! Hvar hafa rúllutertur lífs míns bragði sínu glatað ...

Eins gott að stráksi sé brjálaður í brúna rúllutertu en hann kemur á morgun.

Mætti ég frekar biðja um ofnsteikt rótargrænmeti eða lifrarpylsu með rófustöppu (ég hata ekki alveg allan gamaldags íslenskan mat)! Ég sem ætlaði samt aldrei að verða svona (sætindafælnari) þegar ég yrði fullorðin. Mér líður eins og ég hafi svikið barnið í mér, hina átta ára Gurrí.

 

Miðborgarmyndin var tekin fyrr í dag og má rétt svo sjá grilla í Hyalin hægra megin á myndinni, ber í þetta bleika. Yndisleg verslun með franska sælkeravöru ... kaffi, súkkulaði, kex, niðursuðuvörur og bara allt mjög, mjög girnilegt - þangað mun ég fara til að kaupa afmælis- og jólagjafir næstu misserin - svo endilega bjóðið mér í afmælin ykkar í framtíðinni og sendið mér jólagjafir, ég mun "hefna" mín grimmilega með einhverju frönsku. 

 

Ekki örvæntaEitt sem mig hefur lengi langað til að minnast á hér ... en það er um verulega versnandi möguleika kvenna á mínum aldri (ja, svona vel rúmlega 40 plús) á því að ganga út, eða ná sér í almennilega menn. Vissulega hefur það aldrei verið vesen hjá mér, ég er bara að hugsa um aðrar konur ... en bara eitt dæmi úr vinnunni: þar eru samstarfsmenn mínir á kolröngum aldri, svo röngum að ég þekki foreldra sumra þeirra, jafnaldra mína, skiljiði ... en meðfylgjandi mynd, þar sem Cher og Madonna sýna ástarsigra sína, segir nákvæmlega ekkert um vonir mínar og þrár - sem eru alls ekki ungir menn. Jæks!

Frétti reyndar af einum á fínasta aldri sem vann einu sinni á vinnustaðnum mínum ... en hann átti víst mann, svo ég hefði aldrei kunnað við að daðra við hann.

 

Það er bara almenn staðreynd: hér á Íslandi eru íslensku karlarnir búnir, eða allir (langflestir) gengnir út svo konur á lausu þurfa að víkka út leitina, gera hana alþjóðlegri. Útlendingar eru alveg ágætir, held ég, svona af heyi í harðindum að vera. Í gegnum Schengen fáum við víst bara glæpagengi þessa dagana (sjá samfélagsmiðla) sem hafa engan tíma í neitt nema stela og drífa sig svo aftur heim - svo erlendar stefnumótasíður eru sennilega málið, kynnast strákunum fyrst í gegnum netið.

En hvernig er staðan í netheimum? Fylltist ég von eða harmi fyrir hönd íslenskra kvenna á besta aldri eftir að hafa litast þar um? Ætli ég leyfi ykkur ekki að dæma um það og birti hér neðar niðurstöður tímafrekrar leitar minnar, alls ekki þó um dýpstu og myrkustu afkima alnetsins, ég myndi ekki dirfast.

 

Hér er sem sagt úrvalið af úrvalinu í dag af því sem okkur konum býðst, ég leyfði til gamans einni stelpu að fylgja með, hún virðist ansi hæfileikarík. (Viðbót: Ég þurfti að ritskoða þetta konugrey og henda því út í hvelli, hver vill hafa dónaskap (sem ég fattaði ekki) á virðulegri bloggsíðu sinni?)

 

Jason minnSvo eitt sé á hreinu: Sköllóttir og skeggjaðir menn geta verið afar kynþokkafullir, sjá elsku Jason Statham, en hjartað missti kannski ekki alveg úr slag þegar ég sá mynd af einum slíkum, ófrægum þó, á Facebook, var held ég tekin af amerískri stefnumótasíðu, en konur á mínum aldri hafa hreinlega ekki efni á því að láta útlitið fæla.

Billy (engin mynd) er elstur þeirra sem ég fann, miklu eldri en ég, en vill samt talsvert yngri konu en mig en ég birti þó lýsingu hans ef yngri bloggvinkonur mínar eru spenntar. 

 

Billy: „Guð hefur skipað mér að fá mér konu svo ég geti fjölgað mér enn frekar. Ég heiti Billy XXX og er 78 ára, stjórna trúarsöfnuði, er alfa-karlmaður, kristinn repúblikani og leita að einhleypri hvítri konu á aldrinum 18-25 ára.

Hún má ekki hafa verið við karlmann kennd, verður að styðja repúblikana, vera undirgefin og atvinnulaus og tilbúin til að halda mótelherbergi okkar hreinu á meðan ég er að heiman og breiði út guðsorðið.

Ég kæri mig ekki um að hún sé götuð eða með tattú, og hún má ekki halda upp á Harry Potter.“

 

Á lausuJohn: „Ef þú styður bólusetningar, ert vók eða fordómafull, mun ég kalla þig fávitahjarðdýr. Ég er ljón og leita að sjálfstæðri alvörukonu.“

 

Casey: „Þegar ég fer á söfn leyfist mér að snerta listaverkin.

Ég spilaði eitt sinn rússneska rúllettu með fullhlaðna byssu og vann.

Moskítóflugur neita að bíta mig, af einskærri virðingu fyrir mér, og á líffæragjafalista mínum má finna skeggið á mér.

Ég er, í fúlustu alvöru, flottasti hvíti gaurinn hér.“

 

Tom: „Ég er hvorki banki né sykurpabbi. Ég vil alvörukonu, ekki ykkur druslurnar.“

 

Stephen: „Rósir eru rauðar, fjólur eru bláar, ég á byssu og farðu inn í sendiferðabílinn.“

 

Brett: „Ég er atvinnulaus og andlega fatlaður en að öðru leyti algjör happafengur.“

 

Connor: „Hæ, ég spila leiki og forrita tölvur. Ég er með lítið t... en stóra drauma.“

 

Andy: „Ég er 1,90 m á hæð. Spila á gítar. Eyði stórum hluta orku minnar í að hugsa um mína fyrrverandi. Finnst gott að gráta yfir Meatloaf-lögum í bílnum þegar ég er einn. Leita að sérlega heitri gellu.“

 

John: „Að lifa hefur alltaf verið stór partur af lífi mínu. Ég fæddist einstaklega ungur að aldri og alveg frá þeim tíma hef ég verið lifandi.“

 

Nick: „Ég og hundurinn minn endurgerum oft senur úr Titanic. Ég spila á gítar og borða samlokur með hnetusmjöri og sultu. Ef þig langar að læra á gítar ...“

 

Ísak: „Ég er 1,85 á hæð og get dansað þig úr öllum fötum. Að utanverðu virðist ég kannski eins og tilfinningalaus skíthæll en eins og laukurinn plokkar þú hvert lagið af öðru af og finnur nákvæmlega það sama í hvert skipti og ferð að skæla.“  


Blekking en samt ekki og notaleg sófabreyting

UppistandUppistandið í fyrradag var bráðskemmtilegt og við Ólöf nutum þess að hlæja nánast stöðugt í klukkutíma. Við sátum frekar aftarlega því allt var nærri orðið fullt þegar við mættum, en ég borgaði þúsundkalli meira fyrir miðann til að fá bestu sæti ... 

 

„Þú hefur verið blekkt,“ sagði eitt skyldmenni uppistandarans, „það eru engin bestu eða verstu sæti hér.“ Ég ákvað að taka þessu sem aukabrandara (ég var tekin!) en svo þegar ég kom út eftir skemmtunina, hitti ég samstarfsfólk sem tjáði mér (já, ég furðaði mig á þessu við þau) að ódýrari miðarnir hefðu verið fyrir námsmenn og aldraða. Þar sem ég uppfylli hvorugt var þetta hárrétt verðlagning, og ekki einu sinni há fyrir svona góða skemmtun.

 

Held að uppistand sé uppáhaldsdjammið mitt ... Er enn afar þakklát RÚV fyrir að birta slíkt í sjónvarpinu fyrir þarsíðustu áramót, Snjólaug er sjúklega fyndin og þau öll bara sem fórna sér svona fyrir okkur hin. Ólöf fór á barinn á Sykursalnum og splæsti á okkur appelsíni og kitt-katti sem hefði varla þurft því einn brandarinn, sá langsætasti, var að undir hverjum stól leyndist Mars-súkkulaði. Ég er svo heiðarleg að eini lausi stóllinn í salnum, við borðið okkar Ólafar, er enn með Mars-súkkulagði límt undir setunni. 

 

Fyrir og eftirÉg var svo yfirfull af orku og krafti eftir skemmtunina að ég fór að breyta í stofunni heima hjá mér. Já, ég veit, sumir segja að breytingaþörf á heimili tengist skorti á kynlífi, en ég er svo sem ekki neinn síbreytari, sannarlega ekki. Ég prófaði að færa sófann undir gluggann (hef gott bil samt út af ofninum) og hér eru fyrir- og eftir-myndir. Gætti þess að taka ykkur á sálfræðinni, að hafa dagsbirtu á eftir-myndinni og flottan kött í forgrunni til að ykkur þyki breytingin miklu flottari. Sko, stofan minnkar svolítið sjónrænt við þetta svo ef ég set íbúðina á sölu (ef ég vinn í happdrætti og kemst í fokdýran Kópavog - er samt mjög ánægð hér) mun ég færa sófann aftur svo hann standi við vegginn vinstra megin. Stofan er örlítið notalegri svona, finnst mér og meira bjóðandi: Komdu og sestu, Gurrí mín, láttu fara vel um þig, sæta beib, svona eins og stofur segja.  

 

Eftir brjálað hámhorf mitt á Ludwig (mæli með) um síðustu helgi áttaði ég mig á því að stofan var ekki hönnuð fyrir slíkt gláp, eða uppröðun húsgagnanna (sjá fyrir-mynd, t.v.), eiginlega meira fyrir virðulega setu í þægilegum sófa með tebolla í annarri og eitthvað fínt skoskt kex í hinni, jafnvel skonsu með hleyptum rjóma og sultu. Hálsrígur var nefnilega ein uppskeran af glápinu svo annaðhvort þurfti að færa sófann svo hægt væri að liggja í honum við áhorf eða halda áfram sjónvarpsforðun minni sem hefur staðið í nokkur ár. Ég var oggulítið farin að óttast að ég notaði Storytel eins og dóp, væri orðin háð því að láta róandi rödd (með lágmarksleiklestri) leiða mig um lífið í leiðslu í gegnum húsverk, strætóferðir og slíkt. Fokkings lífið yrði að halda áfram, og hvað er hversdagslegra en að henda sér í sófa á kvöldin og horfa á sjónvarpsþætti? Ég spurði Kópavogs-systur mína síðast þegar ég var í heimsókn hjá henni: Hvað á ég svo að horfa á?

 

Ég gafst reyndar alltaf upp á öllu (nema Twenty Four) þegar seríum sumra ágætra þátta fór að fjölga ... Eins og til dæmis Prison Break, þar var lopinn aldeilis teygður, skilst mér, ég gafst upp strax í upphafi fyrsta þáttar í seríu tvö. Ég hafði líka orðið fyrir ákveðnu áfalli þegar ég ætlaði að horfa á girnilega seríu, tónlistarþætti með uppáhaldshljómsveitinni minni, Skálmöld í Sherwood, hélt að þetta væru heimildaþættir, vandlega músíkskreyttir ... en nei, þetta var lögguþáttasería sem tengist ekki þungarokki á nokkurn hátt, held ég. Hrmpf ...

Það sem systir mín lagði til að ég horfði á var:

 

RÚV

- Skálmöld í Sherwood

- Undir yfirborðið (úkraínskir spennuþættir)

- Hamingjudalur

- Sekúndur

- Leynibruggið (eitthvað fyrir okkur stráksa um páskana)

 

Stöð 2

- Moonflowers Murders

- Sullivans Crossing

- True Detective (sá fyrstu þáttaröðina, hún var æði)

 

- Coma sem er sennilega á Sjónvarpi Símans en við systur höfðum ekki tíma til að hanga lengur yfir sjónvarpsþáttaleit sem ég skráði samviskusamlega í gemsann minn, svo SSímans bíður betri tíma. Ég er einmitt með Premium hjá þeim ... svo er ég með Netflix líka og Disney plus og Amason Prime ... Hef ég kannski ekki tíma til að stunda atvinnu?

 

Með KrummaÍ dag hefði ástkær sonur minn, Einar, orðið 45 ára, sem er eiginlega hálfundarleg tilhugsun fyrir móður sem er sjálf ekki mikið eldri en það ... en hver telur svo sem árin? Þessi dagur vekur alltaf upp mun fleiri tilfinningar en dánardagurinn (3. jan. 2018) og hefur verið frekar erfiður síðustu árin. Mér finnst gott að verja honum í eitthvað allt annað en hátíðarhöld og læti til að minnast hans og ætla í dag að leggjast yfir góða þáttaröð í sjónvarpinu - jafnvel góða bíómynd ef ég dett niður á einhverja. Fæ mér góðan kaffibolla honum til heiðurs, en hann átti sameiginlegt með mér að finnast kaffi besti drykkurinn. Einar var sjálfur algjör sjónvarps-kall og hafði sérlega gaman af því að fylgjast með náttúrulífsþáttum um villt dýr, helst kattardýr af ýmsu tagi, og styrkti ýmis samtök sem vernduðu dýr í útrýmingarhættu. Hann nærði í sér flughræðsluna með því að horfa á þætti um flugslys og hafði líka gaman af því að fylgjast með spennuþáttum og Tottenham spila í enska en ég ætla að velja einhverja slíka þáttaröð. Ég get ekki horft á náttúrulífsþætti því það er alltaf einhver saklaus sem deyr í þeim og svo segir Attenborough þegar ljónið rífur í sig sæta bamba: Svona er hringrás lífsins ...

Nú eru kattahatarar* farnir af stað á Facebook vegna hreiðurgerðar fuglanna. Ef mínir kettir væru útikettir myndi ég auðvitað halda þeim inni á varptíma en bæði hrafninn og mávurinn eru ungum hættulegri en heimiliskettir. Ég hef bjargað fugli lifandi úr kattarkjafti og Míró var í fýlu við mig í heilan klukkutíma á eftir ...

 

*Kattahatrið sem ég tala um felst alls ekki í umhyggju fólks fyrir fuglum, heldur í orðum á borð við: Þá eru þessi ógeðslegu kvikindi (kettir) komnir á kreik ... bla bla ... gott að ég náði ekki ógeðinu sem reyndi að ná fuglinum ... osfrv.

Sumir sem hata ketti og elska fugla hata samt máva (ég var alin upp við að maður ætti að hata þá en sonur minn breytti þeirri skoðun minni algjörlega), borða kjúkling, önd og rjúpu ...

 

Samsettu myndirnar sýna ungan Krumma, Hrafnkel Einarsson, á öxl dýravinarins Einars sem fór aldrei í "dýr-greinarálit", og hin sýnir sama kött í fanginu (andlitinu) á mér fyrr í dag, en Krummi nálgast nú ört fermingaraldurinn (14 ára). Ég skellti þessum myndum á Facebook í dag en gat því miður ekki notað fleiri tölustafi og þannig birt aldur minn. Veit ekki hvað Musk og Trump eru að hugsa með því að breyta Fb svona ...


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 32
  • Sl. viku: 304
  • Frá upphafi: 1528974

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 255
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Köttur í Hárhorni
  • Köttur í Hárhorni
  • Skálmöld knúsar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband