16.5.2023 | 12:45
... sínum réttu nöfnum
Þjóðfélagið logar kannski ekki út af þessu en ýmsir kaupmenn hafa hvatt til styttri opnunartíma verslana og fyrirtækja sem væri svo ótrúlega sniðugt fyrir okkur landsmenn, myndi ábyggilega minnka streitu og annað slíkt. Ég er orðin svo lífsreynd að ég heyri bara: Skerðing á þjónustu, lægri laun, sparnaður ... með fallegum orðum. Við munum öll, er það ekki, þegar greiðsluþátttaka almennings jókst til muna (gífurlega) í lyfjakostnaði. Þá hét það einmitt fallegum og blekkjandi nöfnum; jöfnuður, réttlæti. Man ekki tölurnar nákvæmlega en vissulega voru um 85 þúsund manns sem stóðu í stað eða kostnaður lækkaði, en það voru 165 þúsund manns sem fóru að borga meira eða byrjuðu að borga fyrir lyf sín (t.d. insúlínháðir) svo ríkið var allt í einu komið með milljarð í lyfjagróða árlega, frá veiku fólki. Fallegt, en við þurfum að geta haldið fansí leiðtogafundi. Mér skilst að þetta hafi eitthvað lagast á síðustu árum en enn er fáránlega dýrt fyrir fólk að veikjast. Er heilbrigðisráðuneytið með sömu ráðgjafa og bankarnir?
Á flugvellinum í Manchester um páskana var nákvæmlega ein manneskja að vinna í hinni risastóru búð W.H.Smith og enginn gjaldkeri, bara greiðsluvél og kona, bráðum óþörf, sem kenndi fólki á vélina. Vildi bara að fólk kallaði þetta sínum réttu nöfnum; sparnaður, þjónustuskerðing). Förum endilega til þess tíma þar sem maður þurfti að taka strætó út á Seltjarnarnes (ögn rýmri opnunartími þar) um helgi að kaupa mjólk ef barnið hellti kannski óvart niður heilli mjólkurfernu eða maður gleymdi að kaupa eitthvað fyrir kl. 18 á föstudegi. Mér finnst lengri opnunartími einmitt koma í veg fyrir streitu en ef fólk vill skerða þjónustu hjá sér, bara endilega, en ekki reyna að fegra það.
Vinkona mín á ekki sjö dagana sæla þar sem hún býr í tvíbýlishúsi en fólkið á efri hæðinni hefur hertekið garðinn. Það liggur hálfnakið í sólbaði á sumrin fast upp við bæði stofuglugga hennar og eldhúsglugga. Hefur komið útihúsgögnum fyrir þar og harðneitar að færa sig örlítið til - á stað í garðinum þar sem skín jafnmikil sól og yrðu þá ekki nánast inni í íbúð vinkonu minnar. Fólkið fussar bara: "Fokkings útlendingar," þegar vinkona mín reynir að biðja kurteislega um sjálfsagða tillitssemi. Svo er garðurinn fylltur af stóru jólaskrauti á aðventunni en mér finnst ákveðinn húmor í að vera með upplýstan jólasvein og blikkandi jesúbarn hlið við hlið. Fólkið á neðri hæð getur sko bara dregið fyrir ...
Vinkona mín fór meira að segja nýlega og talaði við tilheyrandi yfirvöld og spurði um rétt sinn og hvort væru til reglur um skiptingu garðs, en enga aðstoð var að fá. Spurning um að tala við Húseigendafélagið. Verst er að vinkonu minni og fjölskyldu hennar líður vel í íbúðinni og langar ekki til að flytja. Þau höfðu reyndar augastað á gömlu litlu einbýlishúsi eitt árið og létu fasteignasalann vita en sá bara steingleymdi þeim svo ekki reyndist hægt að gera tilboð.
En nú fer að draga til tíðinda því nýlega spurði vinkonan mig hvar ég hefði fengið bleiku fokkjú-höndina (jólagjöf til mín um síðustu jól). Ég er búin að komast að því og láta hana vita svo ég bíð spennt eftir æsifréttum úr garðinum góða ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2023 | 22:25
Yfirgefinn við ræðupúltið
Breytingar í bókum svo þær verði kórréttar og í takt í tímann hafa farið misvel í fólk. Ekkert meira: "Þeir" í löggunni (þótt lögreglustjórinn í bókinni hafi verið kvenkyns) og svo framvegis. Það er sennilega það meinlausasta. Annars langaði mig ekki að verða strákur þótt ég dáði og dýrkaði Georgínu í fimmbókunum, eða Georg eins og hún vildi láta kalla sig. Þetta er ekki jafnsmitandi og sumir vilja meina ...
Hvernig í ósköpunum væri hægt að breyta bókum Barböru Cartland yfir í eitthvað nútímalegt sem engan særði? Yrði gengið svo langt að breyta greifum í gröfukarla, jörlum í járnsmiði og prinsum í pípara til að við almúginn (já, ég er búin að jafna mig eftir Saga Class) þurfum ekki að öfunda ríka fólkið? Ein bók sem ég man ekki hvað heitir yrði ansi erfið, ef ég yrði beðin um að breyta henni myndi ég víxla kynjunum, láta aðalsöguhetjuna vera karlkyns, og karlkynsprinsinn vera konu og ... láta söguna gerast á Íslandi.
BC skrifaði vel yfir 700 bækur á sínum 99 árum. Ég dáist að bjartsýni íslenska bókaforlagsins sem gaf út á íslensku eina bók eftir hana á ári. Þrátt fyrir langlífi í ættinni minni finnst mér ólíklegt að ég nái bara 200 ára aldri og þá er enn hellingur eftir.
Prufa:
Jóhann Smjattchestpjatten pípulagningamaður horfði á sig í speglinum, hann var kominn í giftingarfötin, hafði samþykkt að giftast forríkri kaupsýslukonu sem átti allt nema ættarnafn og það skorti sárlega iðnaðarblóð í fjölskyldu hennar. Á móti gátu peningar hennar bjargað honum frá blankheitum eftir covid og þá forkastanlegu ákvörðun BB að endurgreiða ekki lengur vaskinn af vinnu að fullu. Foreldrar þeirra beggja höfðu gert allar ráðstafanir og eftir að Tinder varð ónothæft app vegna allra þeirra giftu sem héngu þar, var þetta eiginlega það besta.
Jóhann leit ekki nógu vel út, andlitið var rautt og þrútið og jakkafötin fóru honum hræðilega, bunguðu alls staðar út. Hann var orðinn svo þéttur á velli, eins og pabbi hans grínaðist stundum með. Hann gat ekki hafa fitnað stækkað svona mikið frá því hann keypti fötin - fyrir aðeins mánuði ... en spegillinn laug ekki. Honum fannst hann vera álíka breiður og 50 tommu tölvuskjárinn sem mamma hans notaði í vinnunni og það var meira en gott gat talist. Nú yrði það bara ketó, föstur og vegan - eftir brúðkaupsferðina. Kæmist hann í eitt flugsæti? Sennilega tæki hann tvö sæti á Saga Class en Aðalheiður kaupsýslukona, tilvonandi eiginkona hans, hafði efni á því. Myndi hún ekki örugglega bjóða honum í brúðkaupsferð? Aðalheiður hafði verið svo upptekin í kauphöllinni og á Twitter að hún hafði ekki enn litið hann augum og þau höfðu heldur aldrei talað saman. Hann hafði gúglað hana - hún var greinilega ekki mikið fyrir athyglina en á þessum fáu myndum sem hann fann virkaði hún sæt. Skyldi henni lítast á mig? hugsaði Jóhann og strauk tár sem hafði stolist niður á kinn. Hvað ef ég fell í ómegin, það getur ekki nokkur kona reist mig við, ég er svo þungur. Hvað varð um venjulega mig? Voru það rólegheitin í Covid og sífelldar lokanir í ræktinni sem orsökuðu þessar líkamsbólgur og núna síðast helvítið hann Bjarni og virðisaukaskattsbreytingin? Hann taldi hægt upp á tvær milljónir til að róa sig niður. Hann yrði ansi mörgum milljónum ríkari eftir athöfnina, minnti hann sig á.
Aðalheiður viðskiptafræðingur leit hann augum við púltið hjá Siðmennt og það brá fyrir furðu í svip hennar. En bara eitt augnablik, hún var siðfáguð. Mögulega hafði hún gúglað hann og séð gömlu myndirnar af honum. Hann, aftur á móti, hafði aldrei séð fegurri konu ... einbeittar hrukkurnar á milli augna hennar sem stöfuðu af of miklu skjáglápi í vinnunni, voru eitthvað það kynþokkafyllsta í heimi og hvasst augnaráðið seiðandi, þetta var kona sem lét engan segja sér fyrir verkum. Jóhann fór að nötra í hnjánum af hrifningu. Selma athafnarstjóri lék á als oddi á meðan hún gaf þau saman en Jóhann var mjög óöruggur sem eyðilagði fyrir honum þessa stund. Þótt hann hafi ekki beint hlakkað til að giftast, var hann vongóður um að þau yrðu ástfangin með tíð og tíma, hann sá sjálfan sig fyrir sér í örmum hennar og það var svo notalegt.
Aðalheiður viðskiptafræðingur var afar ákveðin á svip eftir athöfnina þegar þau gengu saman í átt að fjórum fagnandi ættingjum og þremur vinum. Hún stoppaði skömmu áður en þau komust í heyrnarfæri við þau og sagði stuttaralega: Ég legg inn á þig milljarð og byrja að nota ættarnafnið þitt frá og með deginum í dag. Þú munt hafa það gott í húsinu mínu við Bakkaflöt, póstnúmer 210, en ég mun halda til í höllinni við Hrólfskálavör, póstnúmer 170, sagði hún greindarlega. Ég stend við mitt en við munum sennilega ekki sjást framar ... Hún lauk ekki við setninguna heldur lét sig hverfa. Hvað með snitturnar heima hjá pabba, hugsaði Jóhann en það var síðasta hugsun hans um langa hríð. Hann féll í ómegin. Í dá.
Átta mánuðum seinna, á Sjúkrahúsi Akraness:
Jóhann Smjattchestpjatten pípulagningamaður vaknaði og áttaði sig á að hann lá á sjúkrahúsi, hann var með næringu í æð og brá svolítið þegar hann sá rýran handlegg sinn. Samt hafði Ingibjörg sjúkraþjálfari þjálfað hann daglega, eins og hann komst að síðar. Hann leit niður eftir líkama sínum og sá að hann var kominn í kjörþyngd, hvað hafði gerst? Inga, eins og hún var alltaf kölluð, var sú fyrsta til að uppgötva að Jóhann pípari var vaknaður úr dáinu sem hann hafði legið í síðan Aðalheiður yfirgaf hann við ræðupúltið. Hún gat ekki leynt hrifingu sinni og-
(Í styttra máli: Jóhann einsetti sér að ná ástum Aðalheiðar, lærði að ganga upp á nýtt eftir kómað og gerði hana ástfangna af sér en hún þekkti auðvitað ekki þennan stórglæsilega mann sem Jóhann var orðinn eftir að hafa losnað við ... bólgurnar. Þegar hún dreif sig í Garðabæinn til að fá skilnað frá Jóhanni pípara og giftast nýja manninum beið hann eftir henni, glæsimennið sjálft, og minnti meira á 30 tommu sjónvarp að umfangi eða breidd ...)
Ég þarf að ákveða / hugsa betur hvað það er sem orsakar yfirgefelsið við ræðupúltið, get eiginlega ekki haft það tengt ofþyngd, held ég, það svekkir okkur sumar, er það ekki? ... frekar kannski að hann hafi verið með hallærislega klippingu, brúnar og skemmdar tennur, í ljótum skóm, með tásvepp, smjatt er líka dauðasynd.
Þetta er eina bók BC þar sem fólk svaf saman án þess að vera gift, eða það hélt greifinn, ég meina Aðalheiður, eða að hún væri að halda fram hjá Jóhanni. Sennilega langdjarfasta bók Barböru - og komnir áratugir síðan ég las hana. Alveg spurning hvort það væri gerlegt að breyta henni ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2023 | 15:40
Játningar lúxusgellu og hverjir voru hvar ...
Ýmislegt leggur maður á sig til að komast í réttu flugferðina með rétta fólkinu til Manchester á leið sinni til Liverpool, eins og núna um páskana. Vélin var sennilega nánast full þegar vér systur og stráksi ákváðum að koma með, svo systir mín sem ég kalla nú hinn freistandi Satan, stakk upp á því að við sætum á Saga Class, þar væru til næg sæti. Það kitlaði vissulega, ég hef setið þar tvisvar eða þrisvar en aldrei borgað fyrir það áður, bara verið heppin. Sataníuhilda sagði að sætin væru ekki á hámarksverði þennan dag, mögulega sagði hún það bara til að lina höggið svo ég héldi að allt minna en milljón væri ódýrt. Til að geta orðið samferða frændunum sem voru á leið á páskaleikinn góða (Liv-Ars) ákváðum vér systur semsagt að greiða "ögn" meira fyrir ferðina og upplifa svona einu sinni lúxus í lífinu ...
Jú, það tók allt styttri tíma, engin röð í innritun en einhverfu-sólblómahálsmen drengsins hjálpaði pottþétt líka til. Saga-lánsinn, eða snobb-athvarfið á flugvellinum olli þó vonbrigðum. Þar var allt fullt af fólki (allt of margar morgunflugferðir) og við þrjú sátum eins og hænur á priki (á barstólum) allan tímann, ekkert spes hlaðborð af morgunmat en kannski í þrengslunum (seðlabankastjóri, hættu að lesa) yfirsást manni eitthvað. Mér fannst meira úrval af víni og slíkum drykkjum en gosdrykkjum en eins og ég sagði, ég sá svo sem ekki allt fyrir öllu þessu lúxusliði sem hefði sennilega haft það jafngott frammi og jafnvel fengið betri sæti. Jú, vissulega var allt ókeypis en þegar áfengið laðar ekkert sérstaklega mikið ... þá ... Kannski geri ég of miklar kröfur til lúxuss ... andlitsnudd, fashanar í gullflögusósu, gjafapoki ... Sætin í vélinni voru alveg þægileg og nóg pláss fyrir fæturna, ágætur morgunmatur og alvöruhnífapör. Elskulegar freyjur sem voru vonandi miklu betri við okkur en almúgann aftur í! Það hefði verið alvörulúxus ef okkar farrými hefði flogið beint til Liverpool.
Á vellinum í Manchester eftir okkar góðu daga í Liverpool horfði konan í innrituninni hneyksluð á mig, töskurnar voru svo léttar ... mín með gjöfum og allt fyrir kattapassara, vó vel innan við 20 kg. og taska drengsins innan við 10. Samt fannst mér þetta rosalega þungt miðað við fimm daga ferðalag. Ég bað hana afsökunar og gaf í skyn að ég hefði ekki verið nógu dugleg í búðarápi (í Manchester), þorði ekki að segja henni að við hefðum dvalið í Liverpool, ekki heimabæ hennar, þá hefði hún örugglega brjálast. Okkur langaði að prófa lánsinn (snobb-dæmið) á Manchesterflugvelli, SJÁ MYND, og þar var nú aldeilis munur. Ef það er of margt fólk þar er hreinlega lokað í bili, sem sagt ekki of mörgum hleypt inn. Við fengum að bjóða strákunum okkar með, þessum tveimur af almúgagerð, og greiddum 33 pund á hvorn, ef ég man rétt, og þar sátum við í alla vega tvo tíma í góðu yfirlæti og það var meira að segja alveg ágætt kaffi þarna. Pastaréttur í hádegismat, afskaplega bragðlaus og vondur en greinilega mest áhersla lögð á flottan bar. Hilda fékk þó ekki sitt Grand sem er nauðsyn fyrir flug hjá sumu fólki, þessu sem er ekki jafnbrjálæðislega hrifið af flugtaki og flugferðum almennt og til dæmis við stráksi. Leifsstöð klikkaði ekki á grandinu ...
Við systur ætlum aldrei að ferðast framar nema á Saga Class svo næsta ferðalag okkar verður trúlega eftir tíu ár ef okkur gengur vel að safna. Óska hér með eftir mjög vel borgaðri en auðveldri og skemmtilegri aukavinnu. Nánast allt kemur til greina nema fluguhnýtingar. Það er ávanabindandi að finnast maður svona miklu fínni en aðrir. Ferðatöskurnar eru enn í stofunni í Himnaríki, merktar fínu fólki, og allir gestir spyrja: Ó, sastu á Saga Class? og ég breiði úr mér og verð enn montnari. Hvenær er hæfilegt að ganga frá ferðatöskum - í síðasta lagi? Spyr fyrir vinkonu.
HVERJIR VORU SVO HVAR?
Fræga fólkið sem ég sá á flugvellinum og steingleymdi að segja frá í síðasta bloggi:
Marta María í Smartlandi og Páll Winkel fangelsismálastjóri, áhrifavaldurinn Katrín Edda, líkamsræktarkona og vélaverkfræðingur í Þýskalandi, ásamt manni sínum og barni, Sindri Sindrason sjónvarpsmaður og svo sjálfur Siggi Hlö. Ég veit ekkert hvert þau voru að fara - mér sást alveg örugglega yfir marga fræga (sorrí) og kenni sjóninni á mér um það. Lenti nýlega í því að bíða eftir því að ókunnug kona í hvítum bíl sækti mig og þegar kom grár bíll ... (þau sem vita allt um liti á hestum skilja þetta), þetta dugar, hugsaði ég, en horfði samt á konuna sem sat undir stýri í sjö skrefa fjarlægð frá mér og ég benti svo á mig, ertu að sækja mig?-látbragðið. Hún hristi höfuðið, þreytulega, sýndist mér. Þegar hún kom út úr bílnum sagði hún þreytulega: Æ, ertu alveg hætt að þekkja mig ... og ég sá að þetta var nágrannakona mín til margra, margra ára. Ég er hvorki mann- né bílglögg en ef ég legg á minnið bílnúmerin og sirka litinn þekki ég bílana í hvelli. Hvíti bíllinn reyndist vera hvítur í alvöru þegar hann kom mínútu seinna. Og við fórum saman á fund hjá Lions þar sem ég hafði verið beðin um að flytja fyrirlestur. Var beðin um það skömmu fyrir Liverpool-ferðina og var alveg andlaus en konan sem hafði samband stakk upp á Brexit og Harry prins svo ég hafði þetta svolítið breskt bara, konunglegt, eitthvað um ferðina sjálfa og svo lítið eitt um hvernig er að vinna fyrir hefðardúllurnar í Buckingham-höll. Reyndi að vera með upplýsingar sem sjást ekki daglega í fréttum. Rifjaði upp gamalt royal-hneyksli sem allir eru búnir að gleyma nema fílar og ég. Hitti þarna skemmtilegar konur og fékk góðan mat - fínasta kvöldstund daginn eftir komuna frá Englandi. Það býr svo gott fólk hérna á Akranesi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2023 | 17:49
Kraftaverkahálsmen og hugumstórar helgarpælingar
Nýlega lauk ég við að hlusta á skemmtilega bók á Storytel en um miðbik hennar rak ég mig þó á slæm mistök sem lögreglan gerði og var þar með komin með sterkan grun um hver væri morðinginn. Þótt sú myrta hafi svarað í dyrasíma og skömmu áður opnað öryggishlið með síma sínum er ansi hreint auðvelt að líkja eftir röddum og nappa símum sem maður skilar svo laumulega ögn seinna. Þetta er einn allra fyrsti stóri sigur minn í morðgátu og þarna í bókinni keppti ég við klára sveitalöggu og líka besta rannsóknarlögreglumanninn í Stokkhólmi sem var þarna í fríi ... Að gleypa þetta hrátt eins og þau gerðu beindi athygli þeirra í hvelli frá rétta morðingjanum.
Ef lögreglan á Vesturlandi vill nýta ályktunarkrafta mína er það velkomið. Alla vega í flóknustu ráðgátunum. Það er frekar pirrandi að ná þessu allt of snemma, ég er týpan sem elskar að láta plata mig, ég vil hrífast á töfrasýningum og ekki vita galdurinn á bak við platið. Mikið er hann Kristján Franklín Magnús góður lesari. Hann missir sig eiginlega aldrei í leiklestur sem eru mikil meðmæli. Maður vill láta lesa fyrir sig á Storytel, ekki leika. Vildi að fleiri lesarar áttuðu sig. En þau eru mörg ansi góð sem ég hef hlustað á, megnið af þeim, held ég.
Eitt var það sem auðveldaði svo mikið ferðina okkar til Liverpool og aftur heim. Í Leifsstöð við innritun spurði ég hvort ég gæti talað við einhvern um einhverfu drengsins til að hann yrði ekki stressaður í vopnaleit og öðru. Við höfum nokkrar fjörur sopið í þeim málum. Konan rétti mér grænt "hálsmen" með myndum af sólblómum og sagði að hann ætti að hafa það um hálsinn. (Sjá mynd ofar, við nýkomin á hótelið ytra) Þetta reyndist vera algjört galdratæki því alls staðar spratt upp yndislegt starfsfólk á flugvellinum og hjálpaði okkur á allan hátt, á einum stað fram fyrir langa biðröð. Við sluppum auðvitað ekki við eftirlit eða vopnaleit en við vorum sneggri í gegn og allir sýndu þolinmæði, þetta var auðveldasta utanlandsferðin með honum hingað til.
Kunningjakona mín á Facebook hefur farið þar mikinn upp á síðkastið. Hún er á móti bólusetningum og þá sérstaklega við covid. Það er hennar skoðun og hún má að sjálfsögðu hafa hana - og hennar sjálfsagði réttur, svo það sé á hreinu. En ég hef tekið eftir því að hún hefur smám saman bætt við sig fleiri skoðunum sem sum skoðanasystkini hennar gegn-bóló hafa einnig, sýnist mér, ekki öll. Hún er farin að tala gegn trans fólki, hælisleitendum, hún heldur með Pútín í Úkraínustríðinu og finnst málflutningur Trumps forseta ansi hreint trúverðugur, Saga er eina almennilega útvarpsstöðin (útvörður sannleikans) og hún hlær að öllu tali um loftslagsbreytingar. Það ríkir auðvitað skoðanafrelsi, málfrelsi, en þegar hún deildi nýlega einhverjum andstyggilegheitum og lygi um trans fólk, fleygði ég henni loks út af Facebook hjá mér. Ég hef ekki reynt að ræða þetta við hana, enda þekkjumst við lítið, hún trúir sínu, ég mínu og hvorugri hægt að hnika, tel ég. Mér hefur þótt mjög áhugavert að fylgjast með breytingunum á henni eftir að hún fann "sannleikann".
Miðað við skrif hennar er hún ein fárra sem hugsa sjálfstætt og hún veit hlutina svo miklu betur en flestir aðrir, líka sérfræðingarnir. Einhver merkilegur sagði eitt sinn að ein stærsta hættan sem mannkynið stæði frammi fyrir væru falsfréttir og ég sé ekki betur en þær séu heldur betur farnar að tröllríða öllu.
Þetta eru pælingarnar í Himnaríki þessa helgina. Hvernig er hægt að trúa því að allt sé rétt sem fer gegn almennum viðhorfum og skoðunum? Hefur meirihlutinn þá alltaf rangt fyrir sér - í öllu? Erum við öll (meirihlutinn) heilaþvegin? Er öllum læknum og vísindamönnum í heimi mútað til að lyfjafyrirtækin græði? Er einhver sérstök tegund fólks sem kýs að trúa þessu en ekki hinu?
Ég græði á stafsetningarvillum annarra ... Væri þá réttast að afnema stafsetningarreglur til að ég græði ekki? Af hverju treysti ég mér ekki lengur til að horfa á Bold and the Beautiful? Er Bill Gates enn á lausu? Dæs.
Keli af Kattholti er kominn á verkjalyf. Hann er frekar smár og léttur (grár og hvítur) svo hann fær bara einn dropa á dag af þessu lyfi, til að byrja með. Ingunn í næsta húsi, mikil dýrakona, kom til mín í gær og aðstoðaði mig við að finna út réttan skammt, betur sjá fjögur augu en tvö, tveir heilar en einn, mamma hennar var líka á kantinum með góð ráð og hægt að hringja í hana ef þyrfti. Svo hugsa ég að ég hringi á morgun í indæla, nýbyrjaða dýralækninn í Hamraborg í Kópavogi sem sendi mér lyfin með sjúkrafæðinu hans Kela. Það er svoooo vont að hafa ekki dýralækni á Akranesi, í átta þúsund manna bæ. Held (en er ekki viss) að þessar tvær sem eru að koma sér upp aðstöðu í hesthúsahverfinu séu ekki sérmenntaðar í gæludýrum. Kela gengur illa að stökkva núorðið, hann klifrar t.d. upp í rúmið mitt og notar klærnar sér til aðstoðar. Það er eins og afturlappirnar á honum séu orðnar veikburða, gæti verið gigt, sagði doksinn ljúfi. Hér eru stólar víða í Himnaríki til að auðvelda Kela allt hopp og skopp. Hann er frískur að öðru leyti. Gljáandi heilbrigð augu og fallegur feldur, svo hann virðist ekki vera veikur. Hann tekur enn stöku eltingarleik við Mosa og stundum hinn virðulega Krumma. En Keli er elstur, orðinn 13 ára sem telst frekar hár aldur hjá köttum, held ég. En vonandi virka verkjalyfin - hann kvartar samt aldrei eða vælir, það er frekar að ég kvarti ... yfir því að þurfa að beygja mig eftir öllu því sem hann hendir niður á gólf þegar hann er á leiðinni eitthvert, ákveðinn í fasi þótt bókabunkar séu í veginum, kertastjakar, bókhaldsgögn, jarðskjálftamælar (því miður djók) og alls konar fyrirstaða ... Keli minn, rústarinn, draslarinn, krúttmolinn.
Neðri myndin er af Kela (framar) og Mosa. Nýleg mynd sem sýnir hvað Keli lítur annars vel út miðað við mögulega gigt, svo unglegur og sætur. Hann á það sameiginlegt með mér að hann virkar þybbinn á flestum myndum - en ekki þessari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2023 | 00:49
Fínasta páskaferð og ástæður ógiftelsis
Páskarnir í ár voru öðruvísi en allir aðrir páskar, enda fórum við stráksi ásamt ættingjagengi í fótboltaferð til Liverpool, ferð þar sem aðeins 2/5 gengisins auðnaðist að vera á Anfield til að sjá Liverpool rústa Arsenal 2-2. Við Hilda og stráksi fórum á pöbb í næsta nágrenni við hótelið okkar til að horfa á leikinn og flúðum næstum öskrandi út eftir korter þótt við hefðum náð frábærum sætum. Vorum of snemma á ferð svo við treystum okkur alls ekki til að hlusta á raftónlist með kvenmannsöskrum til skrauts dynja á okkur í næstum klukkutíma Á HÆSTA. Þetta er alls ekki aldurinn, heldur bara góður tónlistarsmekkur. Skálmöld, Nirvana, Eminem, ja, eða Bítlarnir í sjálfri Bítlaborginni, flest annað en þetta hefði verið dásamlegt alveg á hæsta. Hilda hristist enn eftir að hafa neyðst til að fara í íþróttavörubúð sem bauð upp á svona hroðbjóð í græjunum. Mjög hátt stillt ... til að laða að fátæka unglinga? Sá eða sú sem hélt því fram að tónlist yki söluna hafði kannski ekki endilega rangt fyrir sér en það er alls ekki sama hvernig tónlistin er.
Ég var búin að gúgla besta kaffið í borginni, auðvitað, en er ekki alveg sammála því að það væri best þarna á Malmo eins og kaffihúsið heitir og er rétt hjá hótelinu (Novotel). Mjög góð afgreiðsla vissulega, flottar og góðar belgísku pönnsurnar (mín með lemon curd mínus bláberin) og allt í fína lagi með kaffið frá Brasilíu. Það sem eiginlega bjargaði kaffilífi mínu ytra var Nero, ítölsk kaffihúsakeðja. Drengurinn gladdist mjög yfir MacDonalds og fékk tvisvar hamborgara þaðan í hádegismat. Við versluðum nú ekki mikið, það þurfti samt að kaupa gjafir handa úkraínsku kisupössurunum og eitthvað smávegis fata-, súkkulaði- og bókakyns. Ég keypti Spare á 7 pund.
Ég elti Hildu, nánast hlekkjaði mig við hana til að missa ekki af neinu, hún er svo mikill snillingur að finna góða hluti. Þegar við förum saman í Costco, kannski einu sinni á ári, kem ég iðulega út með aðeins einn hlut (oftar en ekki sítrónu-sódakökuna guðdómlegu) en hún með sjúklega flott dót á fáránlega góðu verði - ég missi lífsviljann svo hratt og eiginlega dríf mig út svo fljótt ... og verð "fúl" þegar ég sé ofan í körfuna hennar. Ég reyni vissulega að hanga í henni þar - en það var auðveldara úti.
Ég hafði hugsað mér að lesa yfir hausamótunum á flugstjóranum vegna almennra fordóma sem flugmenn búa yfir, en einn þeirra sagði að aðeins hlussur væru á lausu. Las ekki viðtalið við hann, sá bara fyrirsögnina sem nægir auðvitað alveg til að brjálast. En á leiðinni út til Liverpool (lentum í Manchester) stjórnuðu flugkonur vélinn og svo karlar á á heimleiðinni en þá var mér runninn hláturinn.
Hótelið var alveg ágætt og verulega vel staðsett. Joe á barnum hélt með Newcastle en var samt ágætur. Morgunmaturinn allt í læ en við kusum frekar að fara út að borða á kvöldin en snæða þar eftir eitt skiptið ... Settum okkur þá reglu að fara ekki á staði sem voru líka til á Íslandi, uuu, kannski var það bara Subway.
Ég svaf ekkert nóttina fyrir brottför, dreif mig á fætur hálffjögur og fór í sturtu, svo hinir gætu komist til að pissa klukkan fjögur þegar almennt vakn hafði verið ákveðið. Þetta svefnleysi bitnaði hroðalega á mér því ég var hálfdauð um kvöldmatarleyti og vildi bara sofa.
Á kvöldin voru heilu mávatónleikarnir sem bárust inn um gluggann. Sem betur fer voru engir Garðbæingar í hópnum, annars hefðu mávarnir verið skotnir, hugsa ég. Nei, það var ekki að sjá neitt dýrahatur, allt fullt af hundum nánast alls staðar. Rólegum og góðum hundum sem voru velkomnir inn á flesta staði. Þeir virtust vanir fólki og vanir að þurfa að haga sér vel í fjölmenni, ekki hataðir eins og á Íslandi og óvelkomnir af því bara. Vissulega spurði fólk hvort það mætti taka með sér hund, t.d. inn á kaffihús, og það fékk bara já, þar sem ég sá til. Það var sem sagt enginn í losti yfir of mörgum hundum eða mávum ... en heldur ekki hræðilegri tónlist sem mér fannst vera lögreglumál. Bretar virðast svo rólegir í tíðinni. Ég fór t.d. einu sinni á Starbucks og þar var sannarlega ekki afgreiðslumanneskja sem ég ég þurfti að segja ofboðslega hratt við: Double tall latte with regular milk, not too hot, eins og þarf úti í Bandaríkjunum. Ég var komin með sterkan breskan hreim og talaði mikið, frá fyrsta degi ... en skildi samt varla stakt orð í tveggjahæðastrætó-túristaferðinni um Liverpool, því eina ferðamannalega sem við gerðum. Liverpool-hreimurinn er svolítið erfiður en ég veit þó eftir þessa ferð að pabbi Bobs Marley var frá Liverpool en ekkert annað. Missi af Penny Lane og allt ... svo var skítkalt. En ég ætla að fara aftur, alveg ákveðin í því, helst á leik og líka sjá Bítlasafnið. Við náðum ekki safninu, tíminn flaug frá okkur.
Það var gott að komast heim þótt ég sé mjög hrifin af Englandi en ég er ekki til í sumarveður alveg strax (um 10 gráður allan tímann). Sonur minn átti afmæli þann 12. apríl sl., hefði orðið 43 ára. Þann dag pantaði ég mér plakat eftir listamanninn Prins Polo heitinn, með: Líf, ertu að grínast? og það kom nú í kvöld, tveimur dögum seinna. Mig hafði lengi langað í það, var líka spennt fyrir Fannstu skjálftann? en valdi þetta. Kannski verður þetta hefð, kannski ekki, að gefa mér gjöf á afmæli sonarins. Ég er samt alls ekki mikið fyrir hefðir, eða nokkuð annað sem mér finnst bindandi. Ahhh, þarna kemur sennilega skýringin á spretthlaupunum á mér þegar einhver sætur karl byrjar að daðra við mig. Þetta útskýrir mjög sennilega ógiftelsið í mér, en alls ekki hlussuskapurinn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2023 | 16:34
Þú hefur verið fryst ...
Húsfundurinn árlegi var haldinn í síðustu viku en það tekur mig sífellt lengri tíma að jafna mig eftir þessa mergjuðu fundi sem eru hámark alls skemmtanalífs míns ár hvert. Ekki að rækjusalatið og hraunbitarnir fari illa í okkur en mögulega það sem rennur og þá er ég ekki að tala um magasleða eða skíðasleða. Nýi íbúinn reyndist ansi hress og hefur frumlegar hugmyndir. En svo nenntum við ekki að tala lengur um þakviðgerðir og gluggaklárelsi, okkur þríeykinu, formanni, gjaldkera og riddara, tókst áður en allir sofnuðu að fá samþykkt að nota megnið af viðgerðasjóðnum í Hawaii-ferð fyrir okkur þrjár til að læra sitt af hverju um húsfélög og hvernig eigi að stjórna þeim á sem hagkvæmastan hátt. Það var líka samþykkt að við færum þangað með Norwegian Epic, skemmtiferðaskipinu góða, og sigldum um allt Karíbahafið á leiðinni. Húsið verður vissulega stjórnlaust í margar, margar vikur á meðan en við komum reynslunni ríkari til baka. Og talsvert dekkri á hörund svo litakort Útlendingastofnunar gæti mögulega og eiginlega vonandi lengt dvöl okkar í hlýrra loftslagi, að minnsta kosti þar til við nálgumst fyrrum undanrennubláan lit okkar aftur.
Hvað eigum við svo að gera þessa daga okkar í Liverpool? spurði systir mín eldhress fyrir nokkrum dögum þegar við spjölluðum saman í síma. Hún hélt áfram: Fara á pöbb nálægt leikvanginum til að heyra öskrin þegar Liverpool skorar gegn Arsenal og sjá svo hvert mark í sjónvarpinu fjórum sekúndum síðar, það yrði nú stemning, kíkja á Bítlasafnið, fara í búðir, út að borða, í skoðunarferðir? Held að þetta geti orðið mjög skemmtilegt.
Ég nenni ekki að fara á pöbb rétt hjá leikvanginum, hvað ef Arenal veitir mótspyrnu, jafnvel skorar mark? Það yrði nú lítil stemning, sagði ég áhyggjufull og skynsöm - en greinilega hundleiðinleg, að mati systur minnar. Ég hafði nefnilega komist að því að þegar tugþúsundir áhorfenda, af leikvangi eða pöbbum í grennd, vilja komast niður í bæ eða heim eftir leikinn er hægt að gleyma strætó eða leigubíl. Gönguferð á mínum hraða (nær snigli en héra) á hótelið myndi taka tvo klukkutíma. Minnst. Og ég hata að ganga.
Á ég ekki bara að leigja hjólastól handa þér? sagði systir mín og flissaði, ég fann nú samt á mér að nú væri grimmdarlegt blik í augum hennar, minnug litla rúsínupakkans sem ég hef enn ekki fundið í Himnaríki eftir að hún faldi hann Í GRÍNI. Og ég hata rúsínur.
Hún hélt áfram tuðinu og sendi mér slóð á hvað gera skyldi í Liverpool væri maður túristi. Ég kíkti og áttaði mig á því að gangbrautin á Abbey Road (sjá mynd) væri ekki í Liverpool, heldur í London og klökknaði. Engin töff mynd á Facebook til að birta af sér.
Fjandans vesen, bölvaði ég, getur fólk ekki bara haft það kósí yfir páskana á fína og flotta hótelherberginu sínu, horft á BBC, snætt egg og beikon í morgunmat, Shepherds Pie í hádegis- og kvöldmat, og svo bara íslensk páskaegg þess á milli, þið rúsínumöndludöðluoghnetu-fólkið viljið kannski Christmas Pudding? Ég vil hafa það þannig. Punktur! Þar sem ég er eldri, feitari og frekari vissi ég að systir mín samþykkti þetta. Kósí og yndislegt. Tveir fimmtu hópsins gætu farið á leikinn (löngu uppselt) og gengið heim á hótel en þrír fimmtu yrðu sannarlega ekki í grennd til þess eins að þurfa að afplána margra kílómetra göngu, það án nestis, álpoka og áttavita. Þá var það ákveðið.
Hélt ég.
Tveimur dögum seinna hringdi Hilda í mig og kom sér beint að efninu. Rödd hennar var herská. Hún kvaðst ætla að rústa mér ef ég væri ekki til í að gera eitthvað skemmtilegt með henni í útlöndum. Hún hafði fengið splunkunýtt fyrirtæki, Skammarkreddur ehf, til að neyða mig til hlýðni, þetta væri nýjasta nýtt, sagði hún. Ég starði á símtólið og var eins og eitt stórt spurningamerki en áður en ég gat gúglað og satt forvitni mína tók hún til máls:
Til að tortíma þér og blogginu þínu svífst ég einskis ef þú gerir ekki það sem ég segi þér, ferð að mínum vilja, og nú hef ég fundið flest ef ekki öll þín leyndarmál, sagði þessi fyrrum annars ágæta systir mín og hélt áfram:
Númer eitt: Þegar fólk talar um að það hafi farið upp á Esjuna, kinkar þú kolli og segir að þú hafir líka gert það. Nema þú lætur þess aldrei getið að þú hafir bara farið EINU SINNI og ÞAÐ MEÐ ÞYRLU! sagði hún. Þetta heitir að ljúga! Hagræða sannleikanum. Skrökva. Plata, hélt samheitaorðabókin systir mín áfram.
Og númer tvö ... Á blogginu þínu talar þú oft um að þú hafir átt svo marga eiginmenn, svona eins og allir karlar séu brjálaðir í þig, sem er alls ekki raunin. Þú hefur bara gift þig EINU SINNI og það í fornöld, bætti hún við og reyndi ekkert til að fela grimmdina og illgirnisgleðina yfir því að vera sextán mánuðum yngri.
Sko ... það að þér var bara boðið í eitt brúðkau-, reyndi ég að segja en hún greip frekjulega fram í:
Skammarkreddur fann sannleikann, fór í gamlar kirkjubækur til öryggis, las allt um þig á Internetinu og hringdi í alla vini þína, Facebook-vini og ættingja okkar og sorrí, gamla geit, aðeins ein gifting fannst. Ég fann fyrrum manninn þinn þótt hann hafi flúið land, og hlakka til að fá allan sannleikann um hjónabandið ef með þarf. Ég les greinilega bloggið þitt of oft því ég var farin að trúa þér og hélt að allar giftingarnar og skilnaðirnir hefðu átt sér stað á meðan ég bjó fyrir norðan ...
Ja, þú veist hvernig opinberir starfsme- mótmælti ég á því sekúndubroti sem ég komst að, hún ætti að vita að skráning giftinga getur tekið langan tíma, jafnvel misfarist.
Viltu að ég kasti á þig númer þrjú, fjögur, fimm og bara áfram, lygalaupurinn þinn? Að við gröfum upp meiri subbuskap um þig, fleiri lygar og ýkjur? spurði hún. Þú hefur verið fryst, frostuð, opinberuð, ef mér þóknast svo, sættu þig við það. Annaðhvort kemurðu með mér í Bítlasafnið, á leikvanginn og í búðir og veitingahús, eða ég segi frá öllu. Þá hættir fólk að líta á þig sem áhrifavald og frábæra fyrirmynd og þú getur bara gleymt því að fá kannski einhvern tímann sent heim ókeypis skyr eða snyrtivörur sem þú hefur beðið eftir svo lengi.
Allt í kei, sagði ég og lést vera gjörsigruð. Ég skal gera allt sem þú segir mér.
Ég mun nú samt finna leið til að klekkja á henni. Teiknibóla í sæti hennar í flugvélinni eða eitthvað annað snilldarlegt. Allt um það á blogginu síðar. Sæt hefnd, á sú færsla að heita. Ekki fara langt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.3.2023 | 13:51
Rómantískur stjórnarfundur og góð kaup á fjalli
Riddari húsfélagsins er ein af fjölmörgum nafnbótum mínum og svo höldum við formaður og gjaldkeri fundina okkar þriggja oft hér í Himnaríki, eins og til dæmis í gær. Ég vissi auðvitað að kettirnir myndu heilsa upp á meðstjórnendur mína en kannski ekki jafnástúðlega og raun bar vitni. Formaðurinn heillaði Mosa upp úr skónum, eða enn meira en áður (sjá sönnunargagn 1 - hann liggur til hálfs ofan á gögnum gjaldkerans og malar hátt). Hvort þetta þýði að hann langi að flytja til hennar hef ég ekki hugmynd um, en sums staðar myndi þetta kallast lauslæti hjá gaurnum, rómantík, jafnvel ástreitni.
Jú, við erum að undirbúa aðalfundinn sem verður á morgun. Það er kominn alla vega einn nýr íbúi, í hinn stigaganginn reyndar, og það er alltaf æsispennandi. Það er endalaust gaman að hitta skemmtilegu íbúana hér, ég datt í nágranna-lukkupottinn þegar ég flutti í Himnaríki.
Nýlega ákvað ég að láta reyna á eitt af því skrítna sem fær að viðgangast hér á landi og nýta í leiðinni gáfur mínar og nýfengna snilli í viðskiptum. Ég falaðist eftir að fá að kaupa Skarðsheiðina, eitt fegursta fjall landsins, ég sé það út um baðgluggann hjá mér. Mér datt í hug að kalla mig G. Harolds og breytti röddinni í kontratenór (kemst ekki neðar nema fá hóstakast) þegar ég hringdi í Allt til sölu og kó ehf. þar sem fæst bókstaflega allt frá súkkulaði til tígrisdýra (eða er það í Harrods?) Ég millifærði síðan sautján milljónir (ég get verið svo klók þegar kemur að viðskiptum) yfir á reikning fjallseigandans sem vill svo skemmtilega til að er einmitt að vinna hjá Allt til sölu ehf. og svaraði í símann. Svo nú á ég fjall. Kvittun og afsal mun berast fljótlega, lofaði inn elskulegi Diddi dökki, eins og hann kallar sig. Reynsla mín segir þó að það geti tafist vegna blýantsnags hins opinbera. Sautján ár og rúmlega það eru síðan ég keypti smávegis landhelgi hér við Langasandinn, eða minn eigin sjó, og hluta af strandlengjunni, og enn er afsalið ekki komið. Mögulega gæti þetta skrifast á sífellt skertari þjónustu hjá Póstinum. Ég átti öll mín póstviðskipti á búðarkassa í Hagkaup á Eiðistorgi um svipað leyti og ég flutti til Akraness.
Annars frétti ég að þetta væri allt misskilningur með kaupin á Skessuhorni. Ritstjóri Skessuhorns og nágranni minn sagði á Facebook að þetta hefðu verið ákveðin mistök, eða um hvaða Skessuhorn væri að ræða, og grannkona mín sagði að landið sem forríki útlendingurinn hefði keypt, næði smávegis upp á eina hlíð Skessuhorns, hann hefði í raun ekki keypt fjall. Mér finnst fyrri skýringin miklu skemmtilegri en ég sé samt ekki hvernig hægt væri með góðu móti að byggja þúsund fermetra hús og sex hundruð fermetra gestahús við Garðabraut þar sem ritstjórn Skessuhorns er til húsa, eins og kaupandinn hyggst gera. Jafnvel þótt KFUM-húsið á lóðinni hinum megin við götuna verði rifið ... sem stendur reyndar til að gera, og byggja þar stóra blokk en það má auðvitað alltaf breyta ef fjársterkir auðkýfings-jafnvel-útlendingar eru spenntir fyrir einhverju.
Veturinn 2022-2023 (ekki meðtalinn hinn hlýi nóvember) verður lengi í minnum hafður fyrir frosthörkur og pikkfasta norðanátt en stöku snjóa til tilbreytingar ... Ég fann mynd frá 2016, af veðráttuteppinu sem ég heklaði þá, hver litur tengdist hitastigi. Ég man að rauður stóð fyrir 18 stiga hita og af því að ég var svo mikill asni að velja hádegi sem viðmiðunartíma sést ekki rauður litur í teppinu. Fjólublár (ég veit, hann er ógeð með rauðum) stóð fyrir 5 stiga frost og kaldara. Aðeins ein umferð í þeim lit, mér sýnist það vera 3. janúar sem sá fjólublái kom í teppið en ég hefði fengið alla vega þrjár rauðar rendur (mun ofar og í hæfilegri fjarlægt frá fjólubláa) hefði ég heklað tímann kl. 15 sem var vinsæll að velja. Teppið varð langt (og mjótt) enda 365 umferðir, og virkilega hlýtt. Þetta var skemmtilegt verkefni og minnisvarði um venjulegan íslenskan vetur - og sumar.
Ég er byrjuð að hlusta á bók nr. 2 í Doggerland-seríunni (Birgitta Birgisdóttir les - og gerir það mjög vel). Þetta er svo ávanabindandi að ég varð að setja mér reglur, hlusta ekki nema við húsverkin eða komin upp í rúm á kvöldin (er nokkuð of snemmt að fara upp í klukkan átta?) Svo sé ég að spennandi bækur eru að koma út núna og bíð m.a. spennt eftir nýrri bók eftir Dean Koontz, á Storytel sem sagt. Kemur vonandi fyrir páska - þótt maður skreppi þá á ögn hlýrri slóðir (Liverpool) þarf að lesa. Alltaf. Fer ekki á leik, því miður, en sennilega skundum vér systur á pöbb og horfum á mögulegan annan 7-0 sigur, og þá yfir Arsenal. Sætti mig samt alveg við 1-0 eða 2-1.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2023 | 17:21
Opin rými andskotans
Afsakið orðbragðið en að máli málanna: Það þykir víst afar truflandi fyrir einbeitingu og sköpun að vinna í opnu rými og ég er hjartanlega sammála því. Einhverjir hafa góð heyrnartól á eyrunum til að lifa það af, aðrir ná einhvern veginn að loka á umheiminn sem er flottur hæfileiki.
Talsmenn þess opna virðast m.a. ganga út frá því að við þurfum svo rosalega mikið á öðru fólki að halda að þetta geri okkur bara gott ... Ég varð vör við það eftir að sonur minn dó, þegar mér var sagt að sorgin yrði svo miklu verri eftir útförina, sennilega af því að þá hætti fólk að mestu að koma í heimsókn og ég yrði svo einmana. Þetta var hin mesta firra, það var bæði gott að fá gesti og líka gott að vera ein, þetta var öðruvísi, ekki verra. En þessi setning truflaði mig og sat lengi í mér.
Við mannfólkið skiptumst víst gróflega í extróverta og intróverta - þá sem blómstra mest og best í félagsskap annarra og svo okkur hin sem erum ekkert endilega þar þótt við séum engir mannhatarar.
Ég hef góða reynslu af því að vinna á eigin skrifstofu - fyrir aldamót, og hafði nú yfirleitt opið fram nema þegar ég þurfti frið. Svo um aldamótin, eftir frábært ár í hagnýtri fjölmiðlun í HÍ, fór ég að vinna sem blaðamaður, draumastarfið mitt nánast síðan ég las Beverly Gray-bækurnar hennar mömmu. Rósa Bennett gerði hjúkrunarstarfið líka girnilegt og Ráðskonan á Grund gerði rauðhærða menn ómótstæðilega - svo gagnsemi bóka komist nú að ... Ég fór að vinna á sex manna opinni skrifstofu en þar voru sem betur fer skilrúm sem gáfu frið frá sjónrænu áreiti á meðan maður stóð ekki upp. Vissulega var stundum talað saman, það þarf í þessu starfi, en mér gekk nokkuð vel að einbeita mér við að skrifa greinar, lífsreynslusögur, viðtöl og alls konar. Skrifstofan okkar á Seljaveginum sneri í suðaustur, hún var ansi heit og loftlaus og ekkert skrítið þótt við hefðum haldið að við værum að komast á breytingaskeiðið, flestar þá tíu árum of snemma miðað við meðaltal. Svo fór Hreinn ljósmyndari að kvarta yfir alls kyns einkennum breytingaskeiðs þegar hann kom inn á skrifstofu til okkar og ekki löngu seinna voru skilrúmin fjarlægð til að auka loftgæði. Það varð vissulega snyrtilegra á skrifstofunni og allir sáu alla, en alveg sami hitinn og svitinn ríkjandi, fannst mér, bara einn lítill gluggi og ég syrgði sárt skilrúmin því það varð erfiðara að einbeita sér. Eftir það voru það bara opin rými á næstu vinnustöðum (hjá sama vinnuveitanda), í 110 Rvík og 210 Gbæ. Höfðabakki, Lyngháls og Lyngás - alls staðar galopið, en í Lyngási fékk Vikan sérskrifstofu fyrir okkur sex þar sem sólin skein ekki á okkur allan daginn. Skemmtilegur vinnustaður, frábært samstarfsfólk en ég beið með ansi margt af vinnunni minni þar til ég komst heim í friðinn.
Á kvöldin og um helgar þegar ég átti að hvíla mig eða gera eitthvað enn skemmtilegra vann ég, mikið skömmuð af vinum og vandamönnum fyrir að vera ALLTAF AÐ VINNA. Ég kenni opnum vinnurýmum um það í mínu tilfelli. Ég hef aldrei komist upp á lag með heyrnartól og loka mig þannig af, en starfið fólst vissulega í því líka að tala saman og það var auðvitað líka hægt að vinna sitt af hverju sem krafðist ekki mikillar einbeitingar á vinnustaðnum. Ég hef verið einstaklega heppin með samstarfskonur (og Haffa Haff sem sá um tískuna á tímabili) á Vikunni - ég get ekki ímyndað mér hvernig þetta hefði annars verið. En þetta breytti mér smám saman í sívinnandi og síþreytta vél og þótt það væri gaman í strætó tóku ferðirnar Akranes - Garðabær - Akranes alveg þrjá tíma á dag, og jafnvel rúmlega það. Ég gat lesið síðupróförk í strætó - og stundum fékk ég safaríkar lífsreynslusögur þar þannig að ég vann oft líka á heimleiðinni í strætó. En sjaldnast í 6.20-vagninum frá Akranesi - þá var ég enn sofandi.
Þetta aukaálag í hátt í tuttugu ár gaf ekki mikið færi á því að hlaupa uppi kærasta og eiginmenn, eins og móðir mín heitin benti mér stundum á (í gríni), henni fannst ég vinna allt of mikið. Ég hefði svo sem getað verið duglegri að djamma og daðra þrátt fyrir þrældóminn en leið kannski of vel heima hjá mér, jafnvel þegar ég var búin að klára heimavinnuna, svo það sé viðurkennt.
Vonandi missa háskólakennarar ekki einkaskrifstofurnar sínar, það yrði eitthvað sagt ef þeir tækju vinnuna með sér heim eins og ég gerði, viðtöl við nemendur og slíkt. Læknar eiga víst að að sætta sig við eitthvað álíka bjánalegt á nýja háskólasjúkrahúsinu, ef ég skil það rétt. Þetta getur bara ekki verið gott fyrir fólk í flestum störfum. Ég held að allir tapi þegar upp er staðið, starfsfólk og vinnuveitendur.
Ég er enn að reyna að finna út úr því hvað ég eigi að gera við allan tímann sem mér finnst ég hafa núna - eftir að hafa nánast unnið tvöfalt í tvo áratugi. Samt hef ég reyndar verið nokkuð snögg að taka að mér verkefni sem leysa það ekki-vandamál ... stundum einum of. Ég var svo vön að vera nánast alltaf að vinna og það er erfitt að breyta því. Það var gaman að hekla yfir sjónvarpinu hér í denn en nú nenni ég ekki lengur að horfa á sjónvarp. Núna um helgina byrjaði ég að hlusta á Doggerland-glæpaseríuna. Steingerður almáttugur, frábæri fv. ritstjórinn minn, bloggar reglulega um bækur og æsir upp í mér löngun eftir þeim, ég kaupi þær ýmist eða hlusta í gegnum Storytel. Mæli með skemmtilegu bloggfærslunum hennar hér á blog.is.
Ég skrapp í bæinn (Kópavog) á föstudaginn og skreið svo inn úr dyrunum heima á miðnætti í gær, köttum til mikillar gleði en allar mottur hér eru úr lagi gengnar vegna brjálaðra eltingaleikja þeirra eftir að ég var komin í bólin og að reyna að sofna. Alltaf gaman að heimsækja Hildu og kó - meira að segja raða með henni bókhaldinu mínu sem við gerðum með glæsibrag í gær.
Orðið "skreppa" þýðist ansi illa í google translate. Ég hef bæði fengið fyrirspurn um það frá hinni dönsku Kamillu minni um og uppskorið hlátur á námskeiðum í Íslensku I ... því þýðingin (á úkraínsku, dönsku, arabísku og spænsku) tengist bara því að skreppa saman. Ég ætla að skreppa saman út í Einarsbúð, verð fljót.
Strætóbílstjórinn minn í gærkvöldi frá Mjódd er dásemdin sem benti mér á Trésmiðju Akraness á sínum tíma þegar ég leitaði að iðnaðarmönnum til að gera upp Himnaríki 2020. Það var mikil gæfustrætóferð því Diddi var ekki bara hirðsmiðurinn minn, heldur hringdi þegar þurfti í aðra iðnaðarmenn SEM MÆTTU. Sparaði mér mikinn hausverk. Svo var auðvitað eitthvað um kunningsskap og greiðasemi. Rafvirkinn minn fær t.d. alltaf reglulega þakklætiskassa af krimmum sem hafa safnast upp hjá mér - það er kominn tími á enn einn bókakassann handa honum. Hann er mikill lestrarhestur og þótt ég dái og dýrki bækur, finnst mér líka ansi gott að fá notið þeirra í gegnum Kindle-lesbrettið (gjöf), Storytel-lesbrettið (afmælisgjöf), símann eða iPadinn - það þarf ekki endilega að eiga allar bækur sem maður les. Það var frelsandi að átta sig á því.
Jæja, helgarþvotturinn (setja í þvottavél, þurrkara, brjóta saman og ganga frá) bíður ekki endalaust ... og mig langar að halda áfram að hlusta á Doggerland á meðan. Það varð svo miklu auðveldara að hlusta á bækur þegar ég uppgötvaði (takk, Hilda) hraðastillingarnar, nú hlusta ég á allt á 1,2x. Fyrsta bókin í Doggerland-flokknum heitir Feilspor - höfundur Maria Adolfsson. Ég sé að það eru komnar þrjár bækur í seríunni inn á Storytel og ein nýkomin í bókabúðir. Held að húsverkin verði ansi mikið og vel unnin á næstu dögum á meðan ég gleypi þær í mig - að hlusta á bók setur eins konar sjálfstýringu af stað hjá mér og það leiðinlegasta, að brjóta saman þvottinn og ganga frá honum - verður leikur einn á meðan dularfull morðmál leysast.
Neðsta myndin á ættir sínar að rekja til Snapchat (gurrih), stundum birti ég FYRIR-mynd til að hvetja mig til dáða (aumingja snappvinir mínir sem vilja kannski bara eitthvað um kettina og sjóinn minn) og svo eftir ótrúlega stuttan tíma kemur EFTIR-myndin og allt orðið voða fínt - þetta var eftir afmælisveislu drengsins. Þetta er sem sagt ekki mont, heldur er snappið gott verkfæri til að drífa hlutina af - og með Storytel gerast hreinlega kraftaverk!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2023 | 13:51
Heilaþvottur í íslenskukennslu ... múahahaha
Síðasti kennsludagur var í dag eftir að hafa varið fjórum vikum með dásamlegum einstaklingum sem mér tókst að heilaþvo - sagði þeim að íslenska væri nú frekar auðveld miðað við svo mörg tungumál. Þau tóku miklum framförum í kjölfarið.
Dásamlegur hópur sem samanstóð af fólki frá Úkraínu, Sýrlandi, Súdan og Venesúela (ekki alveg allir á myndinni). Húmoristar og gæðablóð upp til hópa. Mikið vildi ég að yfirvöld stigju stundum niður á plan til okkar hinna og sæju hvers konar dýrgripi við fáum hingað til lands - oft með algjörum naumindum ... ef þau eru til dæmis ekki í réttum lit er meiri hætta á höfnun, virðist vera. Þau eru næstum öll að byrja í vinnu á næstunni svo ég gat með naumindum haldið þeim út námskeiðið ... Það fjölgar alltaf þeim sem mögulega kaupa sér bíl og aumka sig yfir gamla "kennarann" og skutla henni heim í hálku næsta vetur. Jess.
Þetta var óhefðbundinn dagur á námskeiðinu, smávegis upprifjun fyrir kaffi, þau voru með allt á hreinu, auðvitað, og svo leyfði ég þeim að horfa á fyrsta þáttinn af Brot (1/8 - á RÚV.is, kannski halda þau áfram heima. Ég var auðvitað búin að steingleyma djúsí kynlífssenu í upphafi fyrsta þáttarins. Stunurnar heyrðust þó illa fyrir Úps, ææ, afsakið, afsakið, afsakið, sko, gulur bíll! í mér sem var viljandi til að draga úr dónaskapnum en blóðug og hrottaleg morð tóku sem betur fer við eftir smástund, sjúkk.
Þau skildu glettilega mikið (íslenskur texta á) og þeim fannst ofboðslega sætar konur í löggunni (a.m.k. í íslenskum lögguþáttum). Ég sýndi þeim líka hluta af einum þætti af Landanum en þegar kom að kynfræðslu í grunnskóla í Vestur-Húnavatnssýslu, slökkti tepran ég og ætlaði að setja Ófærð á en fékk bara upp veðurfréttir við leit ... sá síðan Brot og minnti að þeir hefðu verið spennandi en ... kannski hefði kynlífsfræðslan verið skárri ... Þegar var svo sem bara skyndihugdetta hjá mér að sýna þeim íslenskt sjónvarpsefni. Þau fengu að hlusta á Kaleo, Bubba, Bríeti og fleiri (jú, pínku Skálmöld en líklega bara andlegur úkraínskur tvíburabróðir minn í tónlist kunni að meta það).
Ég gat frætt þau á því að allar konur á Íslandi væru mjög fallegar, ekki bara íslenskar leikkonur í glæpaþáttum. Ég benti á mig því til sönnunar og allir kinkuðu kolli samþykkjandi. Já, meirihluti nemenda hjá mér var karlkyns að þessu sinni. Í fyrstu kveið ég fyrir því - eftir allan geggjaða kvennafansinn í fyrra og í þeirri skemmtilegu stemningu sem ríkti hjá okkur stelpunum. En svo rifjaðist upp fyrir mér að ég kann virkilega vel við karlmenn svo ég tók gleði mína aftur.
Í kaffipásunni í dag skildi ég ekkert hvað hafði orðið um Úkraínukarlana mína þrjá, ég sem hafði keypt íslenskt sælgæti (hraunbita og tilbúið mix: bland í poka) og Hver-dásemdirnar á þriðju hæð í gamla Landsbankahúsinu voru búnar að hella upp á. Birtust svo ekki gaurarnir og það með blómvönd handa leiðbeinandanum. Það gladdi mig mjög mikið og ... Mjög, mjög til eftirbreytni, möluðu kettirnir í Himnaríki sem glöddust yfir litríku kattagrasinu ... sem endaði niðri á palli í bili eftir ítrekaðar árásir þeirra á vöndinn.
Hér ofar er mynd með flestum á námskeiðinu og allir samþykktu að mætti birtast opinberlega. Einn Úkraínugaurinn er með algjörlega sama tónlistasmekk og ég, spurning hreinlega um að ættleiða hann. Við gátum talað um rapp og rokk á íslensku ... líka ögn eldra rokk - Metallica og Scorpions og þar sem hann var mættur svo snemma gátum við hlustað á Still loving you þar til klukkan sló níu. Mikið á ég eftir að sakna þeirra allra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2023 | 14:52
Að stela afmæli ... enn og aftur
Ansi hef ég komið illa undan vetri, kvartaði ég við eina af systrum mínum. Hafði verið að skoða myndir af okkur systrunum, teknar í afmælisveislu stráksa um helgina. Systurnar voru nógu asskoti sætar á meðan ég minnti einna helst á vélsagarmorðingja sem hefur ekki farið í klippingu síðan hann missti síðast sögina á hausinn á sér.
Hvaða vitleysa, sagði ægifögur systirin huggandi, en hún gat samt ekki hafa meint það í fullri alvöru miðað við skýrar hryllingsmyndirnar í fullkomnum fókus og í réttri lýsingu, einmitt þegar það var engin þörf á því.
Nei, mér fannst ég ótrúlega ljót á þeim miðað við þá sýn sem blasir við mér í speglinum, dæsti ég, orðin nokkuð brattari, enda úr Þingeyjarsýslu en fólk þaðan leyfir engum (nema sjálfu sér, varla þó) að segja eitthvað niðrandi um sig, við vitum að við erum best, alla vega við ættuð úr Flatey. Ég er ólík sumum öðrum að því leyti að þegar ég horfi í spegil finnst mér ég bara ágæt. Alls ekki of feit, alls ekki ljót. Það tryggir ekki bara gott skap heldur líka fjaðrandi göngulag. Það er vissulega langt liðið frá jólaklippingu og öðrum fínheitum og það sést en ég á tíma í vikunni. Verð samt að taka harðar á fólki sem er með gemsann á lofti. Það sem sést ekki - er ekki. Ég hef til dæmis lagt gífurlega mikið á mig í gegnum tíðina við að halda hrukkum í skefjum, með því að innbyrða m.a. rjóma og súkkulaði, en það virðist ekki skila sér nema sem Óskarsverðlaun í einhverjum tilfellum.
Ef ég hefði nú bara áhyggjurnar yðar, frú Guðríður, mjálmaði Mosi en hann hefur sérstakt lag á því að segja eitthvað smellið sem kemur vitinu fyrir mann. Myndin efst er af nágranna mínum, Rostik, en hann er dáðurr og dýrkaður kattarguð himnaríkis, eins og sést. Miðmyndin er af stráksa við veisluborð helgarinnar. Stóra tertan er úr Kallabakaríi. Ég vakti margar nætur við að baka hitt. Neðsta myndin er gömul, held alveg örugglega að Bernhöftsbakarí eigi heiðurinn af tertunni.
Afmælisveisla fyrir drenginn var sem sagt haldin á laugardaginn og án efa gleymdi ég að bjóða einhverjum. Svo 25 manna marsipantertan var í það stærsta og mesta með tveimur marenstertum, 60 snittum, bananatertu, bollakökum og franskri súkkulaðiköku í litlum brownies-sneiðum. Hafði vit á að bjóða nokkrum (tveimur) í eftirpartí, senda sneiðar heim með gestum sem það þáðu þannig að það er bara smávegis eftir af afmælistertunni. Geri aðrir betur. Stráksi er alsæll með helgina og hefur vart talað um annað, hann vildi ekki veislu fyrir ári svo hann finnur muninn núna og mun aldrei sleppa afmælisveislu úr.
Ég er komin úr æfingu og var allt of stressuð. Fannst ég vart sest niður til að spjalla þegar ég þurfti að þjóta á fætur aftur og færa gestum kaffi, teppi, vatnssopa, álteppi, landakort, herðatré, öskubakka (djók) eða eitthvað. Bauð einhverjum í veisluna klukkan tvö en langflestum klukkan þrjú svo það var ekki allt tilbúið klukkan tvö sem stressaði mig svolítið. Ég tók kannski ekki á móti fyrstu gestum á nærbuxunum með tusku í annarri og klósettbursta í hinni (lýsing vinkonu sem fékk fyrstu gestina tveimur klst. of snemma) en næstum því. Fljótlega eftir að þrjú-gestirnir komu spurði ein frænkan hvort ég ætti íbúfen og um leið vildi sonur hennar vita hvar kettirnir væru. Ég dró mæðginin með mér, sýndi drengnum hvar Mosi, Keli og Krummi héldu sig, ætlaði svo að fara inn á bað í leiðinni og sækja íbúfen fyrir elsku frænku en gleymdi því - einhver þurfti kaffi eða knús í austurendanum. Ef ég held veislu í sumar væri snjallt að fá einhvern í eldhúsið. Sonur minn sá alltaf um þrældóminn hér áður fyrr, Hilda systir var hrikalega hjálpleg og oft tók mamma góða rispu. Þegar síðustu gestirnir voru farnir ákvað ég að vera algjör drusla, slökkti ljósið í eldhúsinu (það var samt enn bjart úti) og elsku hjartans uppvaskið beið mín rólegt þar til ég hafði sofið út á sunnudeginum, í gær. Við stráksi réðumst í þetta í sameiningu - það þurfti að flokka, taka pappa og plast sér, leifar fyrir fuglana (leifar af diskum afmælisgesta sko) og fara með allt út, rest fór í uppþvotttavél og hviss bang, allt varð fínt á hálftíma eða svo. Ég keypti pappadiska sem flýtti fyrir frágangi.
Þetta var samt ágæt æfing, svona ef ég held venjulegt (f.covid) alvörufullorðinsafmæli nú í ágúst EF DALVÍKINGAR ERU EKKI BÚNIR AÐ EYÐILEGGJA ÞAÐ FYRIR MÉR! Fkngs Fiskidagurinn mikli verður nebblega laugardaginn 12. ágúst - á afmælinu mínu. Takk kærlega!!! Friðrik Ómar fær sko ekki að koma í afmælið mitt í ár! Eflaust hafa svo ónefndir skipuleggjendur á suðvesturhorninu ákveðið að hafa Gleðigönguna þann sama dag eins og stundum áður, bara af kvikindisskap. Kæmi mér heldur ekki á óvart. Ég bíð bara eftir tilkynningu um að Írskir dagar á Akranesi verði færðir til 12. ágúst. Það væri samt sniðugt, þegar ég hugsa út í það, stutt fyrir gesti mína að fara með mallakút fullan af kökum og almennilegu kaffi, beint út á þyrlupallinn minn þar sem brekkusöngurinn mun hljómar um kvöldið. Eða standa úti á svölum og taka undir sönginn þar.
Ef forríkir hótelbyggjendur fá einhverju ráðið, verður öllu snúið við á hlaðinu hjá mér, þyrlupalli eytt, fótboltavöllur færður, og fínasta hótel byggt (mér finnst verðlaunatillagan reyndar miklu flottari). Þá verður stutt fyrir mig að fara út að borða og skreppa eftir latte - þ.e.a.s. ef liðið hefur vit á því að vera með GOTT kaffi á boðstólum, ekki eitthvað sem sumt kaffisölufólk segir að sé gott. Talið bara við mig.
Ég átti erindi í apótekið fyrir nokkru, tók strætó og ætlaði að taka þann næsta heim eftir hálftíma. Þá rakst ég að indælan mann frá Sýrlandi, kunningja minn sem hefur búið á Akranesi í tæpt ár. Hann bauð mér far heim og ég þáði það með þökkum. Þetta frost!!! Hann, konan hans og barnið eru búin að koma sér ágætlega fyrir. Hann vinnur reyndar í Reykjavík, ekki fulla vinnu, því miður, og leitar grimmt að fullri vinnu, helst á Skaganum. Hann umgengst mest útlendinga í gegnum starfið, og lærir þar meiri ensku en íslensku, öfugt við það sem hann langar. Einhver, greinilega algjör húmoristi, ráðlagði honum að hlusta á Útvarp Sögu í bílnum til að læra íslensku enn hraðar og betur, þar væri svo mikið talað mál. Á meðan ég sat í bílnum hans heyrði ég eiginlega ekkert nema formælingar í garð hælisleitenda og þá sérstaklega múslima sem legðust upp á okkur og heimtuðu allt frítt. Það var ótrúleg upplifun - heyra eitt og upplifa hið gagnstæða við hliðina á duglegum, vingjarnlegum, greiðviknum og ljúfum manni sem finnst allt æðislegt við Ísland, hér er ekki stríð. Borgar sína leigu, leikskólagjöld fyrir barnið, tryggingar af bílnum og bara allt. Kvartar ekki einu sinni yfir veðrinu, gleðst bara yfir lífinu. Ég þyki jákvæð en þetta langvarandi endalausa frost finnst mér viðbjóður og bara ekkert gott við það. Vonandi kemur gott sumar EN ekki of heitt samt (fyrirgefið, elskurnar), ég á þrjár viftur svo ég myndi sennilega lifa af 15°C hita í einhverja daga en alls ekki hlýrra en það. Hér með sendi ég þessa ósk mína út í alheimsorkuna (segir maður það ekki?). Þið sem viljið lamandi hita, hafið Tenerife og sólbaðsstofur. Ef sumarið verður svalt og notalegt megið þið alveg kenna mér um það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr himnaríki
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.6.): 0
- Sl. sólarhring: 30
- Sl. viku: 82
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 73
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni