13.3.2025 | 19:19
Rómantík á stoppistöð og spár um gos
Spennandi stefnumót kl. 14 í gær ... en vissulega ekki rómantískt. Ég kann afar vel við konur en kýs allt ástarkjaftæði frekra með sætum körlum, eins og bloggvinirnir ættu að vita. Þetta var nú bara viðtal, spjall við blaðakonu og við höfðum það gott á kaffihúsi í miðborginni, sötruðum ágætis kaffi.
Tólfan mín (strætó) sem stoppar hér á hlaðinu (hinum megin við Sæbraut) fer alla leið niður í bæ, þessi elska, og ég á svo mikið eftir að nýta mér það! Borgarskvísan sem ég er að verða ... aftur. Spjallið var skemmtilegt og gekk vel en svo kom spurningin: Má ég spyrja þig um son þinn sem dó í bílslysi? Þetta var óvænt og kom mér alveg í opna skjöldu - en hefði auðvitað ekki átt að gera það. Og hvernig brást klakadrottningin af Töffaravegi í Dramahaturshreppi við þessari spurningu? Jú, hún fór að skæla sem kom henni sjálfri virkilega á óvart. Blaðakonan var dásemd og ég jafnaði mig fljótt. Sjúkk að kaffihúsið var nánast autt, einn gestur (áhugalaus um allt nema tölvuna sína) úti í horni.
Hélt að sár sem hefði haft sjö ár til að gróa (mynda skán) gæti ekki rifnað svona upp ... Ég hafði nú samt gott af þessu og þetta fékk mig líka til að hugsa. Það bregst auðvitað enginn eins við ástvinamissi og það er nánast ekkert sem hægt er að kalla rangt eða rétt í sorgarferli, skilst mér. Ég bjó í vel vernduðu umhverfi á Skaganum þar til í október sl. og allir sem ég umgekkst vissu hvað hafði gerst og ég fékk engar erfiðar eða óvæntar spurningar. (Reyndar í Costco, fyrir um sex árum, frá gamalli samstarfskonu: Og hvað er svo að frétta af stráknum þínum? Henni brá illa við svar mitt, og þetta eyðilagði sennilega daginn fyrir okkur báðum).
Ég hef aldrei haft þörf fyrir að tala mikið um Einar og missinn, einhverra hluta vegna, sem er kannski rangt ... eða ekki. Svo fékk ég spurningu í vinnunni í gær inni á kaffistofu: Átt þú börn? Ég var ekki búin að jafna mig eftir hitt en með pókerandlit minntist ég á stráksa, fóstursoninn til sjö ára, og kettina sem börnin mín ... enda finnst mér eldhress og fjörugur vinnustaður ekki rétti staðurinn til að tala um svona hluti.
Samt er þetta eitthvað sem ég þarf að búa mig undir fyrst ég er ekki lengur í vernduðu umhverfi. Og hefðu árin sjö ekki átt að búa til aðeins sterkari skjöld en þetta? Best að spyrja einhvern af sálfræðingunum í ættinni. Kannski beit ég of fast á jaxlinn of fljótt ... og drekkti mér í vinnu að auki ... Ég hef samt fundið mikinn mun til hins betra, með hverju árinu.
Í dag var ekki vinna, ég kenni á þri., mið. og fös. þessa vikuna, en mögulega alla virka daga frá og með næstu viku. Kommer i ljus.
Fór nú samt á vinnuslóðir um miðjan dag því nuddarinn minn (síðan fyrir um 25 árum) er með aðstöðu þar núna. Hún var alveg jafnstórkostleg og mig minnti, kvaddi mig með: Mundu svo eftir að drekka nóg og hvíla þig. Það tekur á að fara í fyrsta nuddtímann, skilst mér. Svo hrósaði hún mér ógurlega fyrir að vera svona vel á mig komin (lítið notuð), engir nýir liðir eða líffæri, bara eldspræk þrátt fyrir lélegt bak frá unglingsaldri. Hún fékk heilar 50 krónur í þjórfé frá mér fyrir falleg orð í minn garð.
Rómantík dagsins:
Þar sem ég beið eftir fimmunni rétt hjá Glæsibæ fór maður á mínum aldri að spjalla við mig ... á ensku. Það var eins og heil ferð hefði dottið út (leið 5) því ég stóð þarna í korter þótt skýlið segði að vagninn kæmi eftir eina mínútu. Ég tjáði honum eftir smáspjall að ég ætti, starfs míns vegna, að reyna frekar að kenna honum íslensku en þá kom í ljós að hann er íslenskur, hefur bara verið búsettur í Bandaríkjunum síðustu áratugi og finnst íslenska þjóðin aðeins mælandi á enska tungu. Hann bjó í Seattle, New York, L.A. ... bara um allt.
Hann var staddur á Íslandi vegna andláts föður síns. Hann sagðist heyra enskuna út um allt, ekki síst í Ölveri þar sem hann heldur sig mikið (ég sleppti því að segja honum að brúðkaupsveislan mín, þegar ég giftist langfyrsta eiginmanni mínum, hafi verið haldin þar) ... já, honum líst ekkert á Ísland, finnst stjórnmálin ömurleg, ekkert nema sjálftökuflokkar, ekkert hugsað um almenning, hann yrði þeirri stundu fegnastur þegar hann kæmist aftur út.
Skilst að Trump sé viðkvæmt umræðuefni hjá sumum svo ég kunni ekki við að spyrja hvort hann væri ekki að fara úr öskunni í eldinn, en maðuirinn kvaðst þó elska Ísland, eins og við gerum nú flest. Svo settist hann fyrir framan mig í strætó, og þegar ég fór út í Höfðatorgi, óskaði ég honum alls hins besta. Þetta er það næsta sem ég hef komist rómantík um langa hríð. Langtíma einsemd kennir manni að slaka á kröfum. Ölver hringdi ansi mörgum bjöllum ... en það var nú samt engin vínlykt af honum. Svo gæti hann alveg verið vélsagarmorðingi þarna westra, flytur kannski á milli fylkja þegar FBI er komið á slóð hans? Stoppistöðin á Suðurlandsbraut við Glæsibæ leynir aldeilis á sér.
Skemmtilegi harðlokaði og fá- en góðmenni fb-hópurinn minn; áhugafólk um jarðskjálfta (ekki aðdáendur þeirra samt), eldgos, jarðfræði og annað slíkt, vildi (eða einn í hópnum) að við spáðum fyrir um komandi gos, hvenær það kæmi. Nú hafa sérfræðingar (alla vega einn) sagt að það gjósi innan þriggja daga. Ég spái því að það byrji að gjósa klukkan 18.37 á laugardaginn, ein í hópnum nefnir sunnudag eða mánudag og einn segir það komi í fyrramálið og jafnvel á tánni (sem er þá væntanlega staðsetningin) og það jók heldur betur spennuna. Hvenær á maður að ná að sofa?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2025 | 18:11
Minn eigin bekkur, afmælishugs og sjávarflóðin
Aldeilis annirnar hérna megin síðustu vikurnar. Þreföld vinna á við það sem hafði verið, hvorki meira né vinna, en um hálfþrjú í dag, eftir yfirlestur og álitsgerð (pro bono) datt allt í dúnalogn. Nema þvottavélin malar á baðinu, kettirnar mala uppi í skáp og það er tiltölulega fínt hér í skýjahöllinni svo húsverkir eru ekki aðkallandi.
Eins og flestir aðdáendur mínir (bloggvinir) ættu að vita jókst öll hreyfing mín til mikilla muna eftir að ég fór að vinna, eða úr um 740 skrefum á dag upp í um og yfir 4.000 sem er margföldun, ef algebran mín úr landsprófi klikkar ekki. Og það stórsér á mér að auki! Ég tek vissulega mikið magn af vítamíni hvern morgun sem hvetur líka til hopps og skopps. Annars bara vá, hvað ég hef verið vítamínsnauð allt mitt líf ... ég finn gríðarlega mikinn mun á mér upp á orku og gleði og letiskort ... Hef reynt að passa upp á hollustu í mat en eftir að elsku stráksi flutti frá mér fyrir tæpu ári hef ég sennilega ekki verið eins holl og áður fyrst ég finn svona mikinn mun á mér núna. Rúmfötin sem ég sef með núna voru straujuð af mér ... þvílíkur er krafturinn. Hver straujar nú til dags?
Já, vinnan gleypti mig algjörlega og síðustu viku vaknaði ég fyrir allar aldir, stökk út í strætó um hálfníu og byrjaði að kenna klukkan tíu. Þá pása, síðan aðstoðarkennsla frá eitt til þrjú. Á þriðjudegi og miðvikudegi bættist svo við minn eigin bekkur ... minn fyrsti hér í borginni, kvöldkennslan hefst 17.30 og stendur til 19.45. Hversu spennandi! Hef fengið frábæra þjálfun og eins og mér þykir nú gaman að tala, hef ég lært að segja bara orðin sem nemendur mínir skilja - og bæta svo hægt og rólega við nýjum. Öllum mætt þar sem þeir eru staddir og það virkar ótrúlega vel.
Ég er ekki góð í að muna nöfn og hef aldrei verið svo ég greip til þess ráðs að láta mitt fólk skrifa nafn sitt á blað og hafa á borðinu fyrir framan sig, þannig fer ég að því að muna nöfnin. Samstarfsmaður minn opnaði dyrnar eitt augnablik og kíkti inn í stofuna hjá mér á þriðjudaginn og sagði svo að þetta hefði verið eins og á fundi hjá Sameinuðu þjóðununum. Ekki slæmt.
Strætóreynsla síðustu vikna hefur eflt mig, þroskað og víkkað sjóndeildarhringinn til mikilla muna. Ég hef prófað að taka leið 16 líka héðan í Höfðatorg og uppskorið meira sjávarútsýni og komist mun nær athafnasvæðinu í Sundaborg en ég gæti með litla kíkinum mínum. Um daginn bilaði bjöllukerfið í leið 15 (Höfðatorg-Grensásvegur), farþegar þurftu að hrópa: Viltu stoppa næst! og glaður bílstjórinn hrópaði: Skal gert! Einmitt í þeirri ferð hitti ég sellebrittí í strætó, sjálfa Kolbrúnu Bergþórsdóttur, á leið til vinnu, en allir sem þetta blogg lesa vita að hún hóf feril sinn hjá undirritaðri, sem gagnrífandi í bókmenntaþætti á Aðalstöðunni í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar. Svo rændi Dagsljós á Rúv henni frá mér, jafnvel Pressan og Helgarpósturinn líka og svo koll af kolli þar til Mogginn og Kiljan náðu að sitja ein að henni. Ég man hvað ég var hrifin þegar hún hafði flutt sinn fyrsta pistil. Mig minnir að í honum hafi hún fjallað um nýútkomnu bókina Meðan nóttin líður eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur.
Afmælisundirbúningur stendur sem hæst en Reykjavíkurveisla stráksa verður haldin um næstu helgi, hann er orðinn 21 árs ... Í hús er komið Ritzkex og gos, í boði systur minnar. Hún hjálpaði mér, þessi elska, að raða bókhaldinu fyrir endurskoðandann í gær og ég var svo þakklát að ég játaði fyrir henni að hafa fyrr um daginn falið ansi vandlega í búrskáp hennar lítinn rúsínupakka ... ég setti hann ofan í tóman hálstöflupoka ... nú á ég hálsbrjóstsykur í talsverðu magni á botninum á töskunni minni (hvern mola vissulega innpakkaðan) ... Hún keypti karton um daginn (af litlum rúsínupökkum) svo ég verð að fara ansi vel í gegnum allt hjá mér eftir afmælisveislu stráksa, því þá gefst henni fyrsta tækifærið til að pynta mig. Veit ekki hvort hún trúði því að ég hafi flutt héðan úr skýjahöll og væri með leynilegt heimilisfang en hún komst svo sem ekkert í heimsókn lengi, lengi vegna anna okkar beggja í vinnu. En þessari styrjöld er hvergi nærri lokið.
Myndin sýnir átakanleikann (það er orð) við að finna pakka í töskunni sinni, pakka sem var svo vel falinn að hann hafði, miðað við útlit hans, hossast með mér mánuðum saman. Einnig sést glitta í bláa hálsbrjóstsykurspokann sem var nýttur til nýjustu hefnda. Peningaveskið er gamalt og merkt Búnaðarbankanum. Leðurvettlingana (Tösku- og hanskabúðin) fékk ég í jólagjöf snemma á þessari öld, eða fyrir rúmlega tuttugu árum (lúffur að utanverðu, hlýir fingravettlingar að innan).
Ég hélt með Áslaugu Örnu ... af súpergóðri ástæðu. Eftir að fóstursonur minn, stráksi, lýsti því yfir að honum fyndist hún gullfalleg fór allt að rúlla. Það náði hámarki þegar við stráksi ásamt Ingu fórum saman í útgáfuhóf bókar sem Ragnar Jónasson og Katrín Jakobsdóttir skrifuðu saman - og þar var Áslaug ásamt fleirum úr ríkisstjórninni. Hlédrægni mín varð til þess að ég gerði ekkert ... nema væla í Höllu frænku um hvað það væri nú gaman að fá mynd af þeim saman ... en Halla hvatti mig eindregið til að svífa á Áslaugu Örnu. Ég gerði það og hún tók beiðni minni um mynd afar vel ... þótt það hafi kannski ekki beint gert hana að tengdadóttur minni hlýnaði mér virkilega um hjartarætur vegna ljúfra viðbragða hennar. Myndin af þeim saman hangir uppi á vegg heima hjá stráksa, ásamt myndum af honum og fleira frægu fólki ... Páli Óskari, Herra Hnetusmjöri, Gunnari Helgasyni, Katrínu Jakobsdóttur (við sama tækifæri), Lalla töframanni ... ég gleymi eflaust einhverjum. Keppinautur Áslaugar á landsfundi sýndi 11 ára fötluðum samlanda stráksa míns enga miskunn á sínum tíma, úr landi skyldi hann fara ... svo valið á Áslaugu Örnu var ekki erfitt - ekki að ég hafi verið með kosningarétt þar. Litlu hlutirnir ... eru svo kannski ekki svo litlir. MYNDIN sýnir nýlega mynd af stráksa, með enn einu sellebrittíinu, henni elsku Evu frænku. Sæt saman, hefði Séð og heyrt orðað það en stráksi heldur mikið upp á Evu frænku sína.
Ég ólst upp á Akranesi, bjó þar frá 2 ára til 12, að verða 13 ára. Síðan flutti ég aftur á Skagann og bjó þar árin 1978-1982 með langfyrsta eiginmanni mínum, lengst af í húsi við hafið, á Vesturgötunni (sjá mynd). Einar sonur minn fæddist 1980 á Sjúkrahúsi Akraness þegar við bjuggum þarna. Við fluttum þaðan haustið 1982 en einu og hálfu ári seinna kom ansi hreint brjálað veður sem orsakaði sjávarflóð - Presthúsabrautin fór á kaf og mér skilst að nýir eigendur hússins míns á Skaganum hafi lent í flóði ... kjallarinn fylltist víst af sjó og verr hefði farið ef þau hefðu ekki verið búin að setja nýja glugga því öldurnar gengu þarna yfir. Ég var fegin því að hafa ekki búið þarna á þeim tíma en auðvitað hefði verið upplifun að verða vitni að látunum. Það er hægt að dást að náttúruöflunum þótt þau séu stundum grimm. Svo flutti ég í þriðja sinn á elsku Skagann minn árið 2006, eins og bloggvinirnir vita, og átján árum seinna aftur í bæinn. Það var nánast eins og við manninn mælt, það kom aftur svona brjálað veður, að þessu sinni nokkrum mánuðum síðar, með tilheyrandi látum í sjónum, allt á floti, skemmdir og leiðindi.
Ég hef séð ótal myndir af skemmdunum en ekki eitt einasta vídeó á feisbúkk frá látunum sjálfum á meðan þetta stóð yfir, er með ótalmarga fb-vini en enginn sem bjó við svona læti í hafinu sá ástæðu til að mynda, eða birta - sem er furðulegt.
Sá bara magnað myndband frá Reynisfjöru þar sem sjórinn gekk alla leið að bílastæðinu þar, og fólk átti fótum sínum og bílum fjör að launa. Ef ég væri ögn tæknivæddari myndi ég birta þetta myndband hér ... en ég gat bara deilt því á feisbúkk.
MYND: Vona að Óli Palli fyrirgefi mér ránið á myndinni, en hann gekk um Skagann norðanverðan eftir lætin og myndaði skemmdirnar - tók þessa mynd af gamla húsinu mínu. Hann hefur staðið á göngustígnum og snúið baki í hafið. Vinstra megin á húsinu er eins og sólstofa en var áður gluggalaus bílskúr sem ég notaði til að hengja upp þvott í, fékk útiloftið en þvotturinn var varinn fyrir regni og snjó. Veit ekki hvort kjallarinn fylltist af sjó nú í ár, eins og þarna 1984, en það er alveg spurning. Geggjað hús en þegar það var flutt á þennan stað var stofan að sjálfsögðu látin snúa í suður ... svo aðeins eldhúsið og gangurinn upp stigann voru með sjávarútsýni ... Mögulega búið að breyta húsinu mikið, það er miklu fallegra núna en það var á níunda áratugnum.
Neil Armstrong was the first person to land on the moon.
Neil Armstrong backwards is Gnorts, Mr. Alien! Sjá mynd ...
Nick Mason, trommarinn hjá Pink Floyd, er víst 81 árs í dag, ef marka má eina aðdáendasíðu PF. Veit ekki hversu mikið er að marka. Hversu oft hef ég ekki séð: Nú á Ian Anderson í Jethro Tull afmæli í dag ... á hinum ýmsu tímum. Ég veit nefnilega að hann fæddist þann 10. ágúst, daginn sem ég átti að fæðast, en kom 12. í staðinn til að Guðríður amma og Ian Anderson fengju að hafa sinn dag í friði.
Verst samt hversu fáir heimsfrægir eiga sama afmælisdag og ég. Hilda systir á sama dag og Keith Richards, Mía systir sama dag og Þorgeir Ástvaldsson, Anna vinkona sama dag og Angelina Jolie, Borghildur sama dag og Herdís Hallvarðsdóttir í Grýlunum og Michael Jackson og svo framvegis. Ég ætti svo sem auðvitað að vera kát og sætta mig við afmælissystkini mín; forsetaframbjóðandann Ásdísi Rán, lögmanninn Svein Andra og leikkonuna Halldóru Geirharðsdóttur, trúfélagið Krossinn og stöðumæla í Reykjavík.
Ian Fleming, höfundur James Bond-bókanna, lést á sex ára afmælisdaginn minn, og nákvæmlega þann sama dag lagði ungur leikari af stað frá Írlandi og stefndi á frægð og frama ... sjálfur Pierce Brosnan, ef marka má fyrrum kennara minn í HÍ. Jú, svo verður almyrkvi á sólu á afmælinu mínu 2026 og ég verð að fara að sanka að mér sólmyrkvagleraugum og styrkja svalirnar hérna - ef afmælisgestir mínir kunna að meta það skemmtiatriði sem ég hafði mikið fyrir að útvega, sólmyrkva er erfitt að redda en ég hef unnið að þessu í þrjú ár!
Ég gúglaði til öryggis, Nick Mason átti 81 árs afmæli 27. jan. sl. en ekki í dag. Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá hann fara á kostum ... og hinar elskurnar. Ég græt enn reiðitárum yfir því að hafa þurft að bíða í áratugi eftir því að sjá þá (takk, YouTube) en smávegis sárabót að Anna vinkona hafi séð Pink Floyd í Hyde Park um árið að flytja, að mig minnir, Atom Heart Mother ... Þetta þótti mikil sýrutónlist á sínum tíma (spyrjið bara Bjarna Dag), en það þarf engin hugbreytandi efni til að dá þá og elska, eins og ég gerði frá fyrstu hlustun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2025 | 18:13
Tískuslys, miðja alheimsins og tónleikar 2025
Tískuslys ársins átti sér stað í gær ... og ég sem passa svo vel upp á að skapa frekar tísku (trendsetter) en misþyrma henni. Ég held ógurlega upp á gulu og svörtu Wu Tang Clan-sokkana mína sem ég fékk í jólagjöf og fór í þá þótt ég væri í skærblárri peysu og með sérdeilis bláan trefil. Þetta skiptir ekki nokkru máli þegar snjór og hálka hrella borgarbúa en í gær var veður fyrir strigaskó. Og þegar ég tölti létt í spori úr á stoppistöðina mína tók ég skyndilega eftir þessum hroðalega skorti á smartheitum því sokkarnir voru nánast sjálflýsandi við túrkísbláa trefilinn og ég hafði ekki tíma til að snúa við að fara í svarta sokka sem hefði verið hið eina rétta!!!
Vetrarskórnir hylja ætíð sokkabúnað minn og þegar komið er til vinnu fer ég í gervi-Crocksinniskóna úr Jysk og verð þá hvort eð er alveg hræðileg, svo litasétteringar skipta í raun engu. Heldur ekki heima, kettirnir eru sem betur fer litblindir, eða hafa ekki nokkra tískuvitund. Ætla samt að muna að kaupa einhvern tímann gulan bol eða gula peysu til að sokkarnir njóti sín stundum, get síðan verið með appelsínugula trefilinn við. Hann er alveg eins og sá blái, nema gulur og appelsínugulur, mjög flottur.
Skeifan verður sífellt meiri miðja alheimsins í mínu lífi, fyrirgefið, Holtagarðar, en ykkur er nær að vera hinum megin við eina mestu umferðargötu landsins! Mjóddin var það um margra ára skeið (Akranes-Rvík-Akranes, leið 57) en missti aðdráttaraflið þegar Íslensk hollusta hætti að framleiða Fasta, frábæra safann sem var svo hollur og góður að ég tvíefldist að kröftum og hætti að naga neglurnar eftir þann ávana til áratuga. Hann seldist ekki af því að hann var eiginlega hvergi til sölu. Ég fór sérferð í bæinn, í Mjóddina, á föstudögum til að kaupa hann en svo varð sífellt erfiðara að finna hann. En hva ...
In da Skeif er fínasta gleraugnabúð, matvöruverslanir, Jysk, apótek, Elko og ... vá, vá, vá. Ég prófaði að gúgla gamla góða sjúkranuddarann minn sem hélt mér lengi sprækri eins og léttfættri hind þrátt fyrir bakvesen frá unglingsaldri. Hún var síðast með aðsetur á Suðurlandsbraut, c.a. tveimur strætóstoppistöðvum frá minni við Skeifuna, eða þarna hjá Glæsibæ - en hvar ætli hún sé núna? hugsaði ég, kannski á sama stað? Ja, ótrúlegt en satt, hún er rétt við gleraugnabúðina í Bláu húsunum, í svona tveggja mínútna göngufjarlægð frá vinnunni minni. Nú þarf ég greinilega að gúgla gamla kærasta og fleira gott, ég hef á tilfinningunni að besta lið mitt síðan í denn leynist þarna. Það er stutt í að ég þurfi að fara í "framköllun" eða lit á augabrúnir og augnhár og ég er eiginlega milljón prósent viss um að snyrtistofur leynast þarna allt í kring. Reyndar, þegar ég þeysti úr vinnunni, kl. 15.05 og stefndi á að ná strætó kl. 15.10 og missti af honum (hleyp ekki til að hlífa vissri hásin sem er samt að verða súpergóð (takk, B1-vítamín og viss dásemdarkona sem færði mér það) en tek ekki sénsinn á að "rífa" nokkuð upp því það kemur alltaf annar strætó eftir korter. Þetta aukakorter gaf mér líka tíma til að skoða umhverfið, Glæsibæ, enn betur ... Einhverjir gætu haldið að ég hafi farið í Ölver til að drekkja miss-af-strætó sorgunum, en ég var stoppuð af, ekki af Iceland-búðinni sem ég kom fyrst að, heldur Tokyo Sushi-veitingastaðnum og keypti þar girnilegan japanskan kvöldverð. Ég sá svo grilla í girnilega snyrtistofu ögn fjær - svo ég er ekki bara með alla Skeifuna, heldur líka Glæsibæ. Svo er örstutt að fara upp á Háaleitisbraut frá Skeifunni, yfir Grensásveg, ganga í þrjár mínútur, og þá er t.d. geggjuð hárstofa - mig langar að halda mig við mína konu á Skaganum en válynd veður vetrarins hrekja mig á aðrar lendur þegar gular, jafnvel rauðar viðvaranir eru ríkjandi.
Fimman kom svo á réttum tíma (15.25) og ók mér á Höfðatorg, síðan kom tólfan og mér til mikillar gleði kom inn í þann vagn kona með lítinn hund í fanginu og tók sér stöðu við hliðina á mér. Ég fékk ekki sæti en það var í fínu lagi, ekki langt að fara. Þvílík gleði að hitta hund. Voffi var nú samt svo ofboðslega hræddur að hann þorði ekki einu sinni að horfa í kringum sig, grúfði sig bara upp að eigandanum. Ég fékk nú samt að klappa og vona að það hafi róað svarta krúttið eitthvað.
Margt að breytast hér á landi í svo mörgu - og til góðs. Mér finnst mannlífið orðið miklu skemmtilegra og fjölbreytilegra en var þegar ég var mun yngri ... á þeim tíma þegar ríktu boð og bönn, höft og leiðindi (Makkintoss og Smartís bannað!), stranglega bannað t.d. að vera með nokkurt líf á Lækjartorgi, og í þau örfáu skipti sem eitthvað slíkt var leyft, tóku sig upp gömul bros og sólin fór að skína þótt væri skýjað. Núna er orðið svo mikið líf sem fylgir ferðafólki og þeim sem kjósa að flytja hingað á ísakalda klakann. Mér finnst alltaf gaman í strætó, fínasti ferðamáti, og í dag heilsaði einn bílstjórinn mér, sá er frá Sýrlandi. Ég er ekki mannglögg (minn eini galli) en hann bjó á Skaganum og þekkir nokkra vini mína þar. Afskaplega brosmildur og ljúfur bílstjóri sem farþegarnir virðast kunna að meta - hann fékk marga til að brosa á móti og bjóða góðan dag - og hann kann að keyra líka sem er auðvitað stór kostur ... keyrir sem sagt vel, engir rykkir og bremsulæti ... en það er reyndar ansi langt síðan ég hef lent á slíkum bílstjóra ... ár og aldir.
Út þennan mánuð verð ég starfsmaður á plani í skólanum, eða til aðstoðar, en í mars verður mér hrint út í djúpu ... og ég er farin að hlakka til. Allir svo hjálpsamir að kenna mér og gefa góð ráð. Ég hlakka til að fara í vinnuna á hverjum degi og slíkt er ekki sjálfgefið. Eftir febrúar ætla ég að vera búin að læra að bjóða góðan dag á úkraínsku ...
Annað sem jók á sístækkandi hamingju mína var spjall á messenger í gærkvöldi: Ætlar þú á Smashing Pumpkins-tónleikana í ágúst? Ég lýsti yfir miklum áhuga (ég viðurkenni að ég staðnaði svolítið músíklega einmitt á tíunda áratugnum æðislega) og ef vinkona mín og maður hennar ákveða að fara, fæ ég að vera samfó. Held að ég sé aðeins of háöldruð fyrir stæði (var síðast í stæði í Laugardalshöll á Travis-tónleikunum um árið, eða var það Sting? Var með fínt sæti á Rammstein-tónleikunum (2001) þótt stuðið hafi verið talsvert meira á gólfinu). Það varð uppselt á Rammstein á nokkrum mínútum, minnir mig, á tvenna tónleika sko, og ég komst ekki á þá fyrri þar sem Ham hitaði upp. Það var frekar fúlt en Rammstein bættu það svo sem upp.
Hér fyrir neðan er uppáhaldslagið mitt með SP - sonur minn gaf mér einmitt plötuna (geisladiskinn), þar sem þetta lag er, í afmælisgjöf eitt árið undir aldamót. Þekkti móður sína - en smekkur okkur mæðgina fór svolítið sitt í hvora áttina með tímanum. Hann var nánast ekkert fyrir þungarokk eins og ég, hlustaði þó mikið sem unglingur á Guns og Roses sem ég var ekki eins hrifin af, en ég þakka honum þó alfarið fyrir að ég staðnaði ekki og festist í Led Zeppelin, Jethro Tull, Pink Floyd, King Crimson og allri þeirri dýrð sem ég elska enn, en heimilið fékk sér MTV árið 1995 að hans ósk, og það breytti tónlistarlífi mínu algjörlega. Þvílíkur fjölbreytileiki og dásamlegheit sem bættust við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2025 | 22:48
Sigur í orrustu, móðgandi umbúðir og gagnleg hjátrú
Taugaveiklunarhlátur, efasemdir, ótti, tortryggni og margt fleira í þeim dúr lýsir svolítið þessari helgi ... sem hófst á fínasta bröns hjá ónefndri systur. Ég náði nefnilega, held ég, að vinna mikilvæga orrustu í rúsínustríði okkar systra. Sennilega þá fyrstu með glæsibrag sem gæti endað í sögubókum. SKÝRING: Systir mín hefur keypt litla, rauða rúsínupakka og komið þeim laumulega fyrir heima hjá mér eða ofan í töskunni minni. Henni finnst það sennilega fyndið af því að ég hata rúsínur. Hún er sem sagt hætt að setja þá laumulega í innkaupakörfuna hjá mér, ef við förum saman í búð, eftir visst vesen og læti í Netto ... sem hefur neytt mig til að versla bara í Hagkaup, alla vega á næstunni. Löng saga.
Hún heldur án efa að ég hafi ekki fundið pakkann sem var ofan á ísskápnum (1,80 m á hæð), bara þennan sem var ofan í handtöskunni minni og ég gerði viljandi lítið úr ... eins og mér þætti þetta bara fyndið og svolítið krúttlegt. Glætan.
Alla vega, á föstudaginn, á meðan hún kvaddi bröns-frænkurnar, ég stoppaði ögn lengur og var búin að kveðja þær, leitaði ég örvæntingarfullt að góðum felustað, ekki samt OF góðum, fyrir annan rúsínupakkann ... og fann hann í eldhúsinu. Setti hann á hlið til að hann yrði minna áberandi ... hinn pakkinn fór, án nokkurrar miskunnar, á ljósan en dimman stað. Ekki ólíklegt að báðir séu fundnir og hefnd sé í grennd. Síðast þegar ég sagði sigri hrósandi: Hah, ég faldi rúsínupakkann í veskinu þínu - sagði systirin: Ég fann hann áður en ég fór frá himnaríki og faldi hann ... og það svo vel að ég fann hann í október, þegar ég var að klára að pakka niður, mánuðum seinna.
Ég veit ekki hvernig ég fór að því að vera eðlileg í fasi, ég var svo stressuð, rak í sífellu upp lágværan og bældan tryllingshlátur þegar viss systir var úr heyrnarfæri en setti upp alvörusvip inn á milli. Ég var vissulega í Skagaleikflokknum seint á áttunda áratug síðustu aldar. Leikræn þjáning upp á tíu.
Þessi hlátur og taugaveiklun hélt áfram eftir að heim var komið og ég þorði ekki einu sinni að kveikja ljósin í íbúðinni. Til að gera langa sögu stutta ... Ég flutti í gær. Komin með háleynilegt heimilisfang og hef líka breytt aðeins um útlit til öryggis. Er svo hrædd við hefndina. Því hún verður, ég slepp ekki nema vera snjallari ... sem ég tel mig vera núna. Ég myndi ekki lifa af að hafa rúsínupakka, jafnvel fleiri en tvo, á hinum ýmsu leynilegu stöðum heima hjá mér.
Myndin af mér uppi í rúmi með köttum er alveg sönn ... og gangi henni vel að finna mig þar sem ekkert sést í Hallgrímskirkjuturn sem blasir annars við út um gluggann þarna vinstra megin ... úps.
Það var ekkert mál að flytja. Mér fannst nefnilega eitt svolítið óþægilegt við að búa á "gamla" staðnum, á Kleppsvegi, að ef ég gúglaði eitthvað og setti inn póstnúmerið 104 kom iðulega upp orðið SUND. Í gamla daga hét leið fjögur Hagar-Sund ... ég var bara búin að gleyma því. Eins og fb-vinir mínir vita þá hata ég sund og heita potta og allt svona blautt, nema sturtuna mína heima.
Á síðasta ári fékk ég þessa fínu sturtusápu í jólagjöf. Ég hef notað hana næstum daglega síðan og hún hefur glatt mig mikið, enda virkilega fín og góð. Það tók mig alveg heila 47 daga að átta mig á því að þetta er í raun afar spælandi jólagjöf, eins og sést á myndinni. Fór sem sagt í sturtu áðan og rak þá augun í þetta. Hef ekki orðið svona móðguð síðan ég móðgaði sjálfa mig óvart með því að taka með mér bókina Vatn fyrir fíla til að lesa í baði (þetta var þegar enn var baðkar í himnaríki).
Hvernig dettur Elizabeth Arden í hug að koma svona fram við viðskiptavini sína? Kaupendur vara hennar sem eflaust verða allir fyrrverandi kaupendur um leið og þessi bloggfærsla fer í loftið! Að hugsa stórt passar frekar á námskeiði hjá lífsstílsráðgjafa en á sturtusápu!
Munið þið líka eftir kvenfatabúðinni sem seldi föt í stærri stærðum (og ég hef bloggað um) og merkti innkaupapoka sína með: Fegurðin kemur innan frá ... því ekki var nokkur séns að "stóru" kúnnarnir gætu verið sætir að utan ... Vel meint en hrottalega móðgandi. Ég er sannarlega ekki eina manneskjan sem læt umbúðir og annað slíkt koma mér úr jafnvægi. Man eftir því þegar vinkona mín fór eitt árið í sjúkraþjálfun í Kvennalistabol þar sem bakhliðin á bolnum sýndi með tölum skelfilegan launamun kynjanna. Karlkynssjúkraþjálfarinn hennar reifst allan tímann við bolinn.
Ég fæ oft skemmtileg og fjölbreytt verkefni sem verða þess valdandi að ég þarf að setja mig inn í ýmislegt sem ég hef frekar lítið vit á. Nýlega las ég yfir texta þar sem fjallað var m.a. um vatnslitun en ég bý svo vel að eiga vinkonu sem er listakona og gat svarað öllum mínum spurningum um hvort textinn "meikaði sens" (afsakið). Nýlega fékk ég texta þar sem féll dómur yfir einni söguhetjunni - og haldið að ég hafi ekki getað haft samband við lögmann í ættinni ... Fyrir síðustu jól gat ég spurt sálfræðing (allt morandi af þeim í fjölskyldunni) um visst mál. Gott að þekkja marga með mismunandi þekkingu, reynslu og menntun ... meira að segja var eini (held ég) stjarneðlisfræðingur landsins með mér í bekk frá c.a. sjö til tólf ára, þótt ég efist um að fá endilega slíkan texta ... En þetta víkkar sjóndeildarhringinn og gaman að geta slegið um sig með yfirborðsþekkingu ... Múahahaha. Það halda svo ótrúlega margir að ég sé súperklár af því að ég kann flest póstnúmer landsins en ég er nú bara dugleg að koma því að í samtölum og bloggfærslum.
Mig hefur alltaf langað að vita miklu meira um veður, eldgos og jarðskjálfta og naut þess sérlega vel að búa í himnaríki og verða svona mikið vör við þetta allt saman, eins og veðurofsann sem gat ríkt við opið Atlantshafið, eldgos þarna hinum megin ... og ég sakna þess svo mikið, nema jarðskjálftanna. Ég hef þó lært ýmislegt sniðugt, eins og að skilja eftir hrífu með tindana upp ef ég fæ algjört ógeð á snjó og hálku. Myndi aldrei gera slíkt í sveitinni að sumri til. Núna er snjórinn að fara, þökk sé mér, það er rok og rigning í augnablikinu og 6 stiga hiti, en mér tókst einhvern veginn, ef marka má tímavélina yr.no, að koma í veg fyrir úrkomu í svona tvo daga áður en fer að frysta aftur. Það gulltryggir hálkuleysi. Held að ég geti þakkað gamalli íslenskri hjátrú þetta. Ég reyni samt að ofgaldra ekki, en setti samt nýja bleika vatnsbrúsann þarna líka og það gerði útslagið líklega með magn rigningarinnar sem hraðaði bráðnun íss á gangstéttum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2025 | 17:16
Drama hjá köttum, gefandi Skeifa og beljandi brimsöknuður
Hefðarköttum skýjahallar, Krumma og Mosa, hefur enn ekki tekist að koma sér saman um hvor þeirra ætti að vera alfakötturinn sem öllu ræður. Nú hef ég sterkt á tilfinningunni að ég hafi verið kosin í það hlutverk. Þeir taka mjálmandi á móti mér þegar ég kem heim úr vinnu og látbragðið segir: "Okkur leiðist, hvað eigum við að gera núna?" Hnén á mér eru nánast ónýt eftir óhappið um árið á ógæfumölinni rétt við íþróttahúsið á Jaðarsbökkum á Akranesi (annað laskað, hitt saumað), svo ekki get ég skorað á þá í eltingarleik. Leiser dugir skammt ... en Mosi hleypur samt þessa dagana ... í spik.
Keli stjórnaði þeim harðri loppu og var langsamlega sprækastur þótt elstur væri, slóst við þá (gamnislagur) og þeir voru iðulega í eltingarleik sem er ekki raunin hjá Krumma og Mosa, og þegar Keli var orðinn veikur undir það síðasta, og dó svo í ágúst 2024, 14 ára, misstu Krummi (bráðum 14)) og Mosi (bráðum 11) nánast fótfestuna í lífinu. Í desember sl., eftir að Mosi þaut/slapp fram á stigaganginn og gerði tilraun til að finna himnaríki upp á áttundu hæð hér, án árangurs, hætti hann að reyna að komast fram á gang, sjúkk. Ef ég reyni að hlaupa um íbúðina til að æsa þá upp í leik, verða þeir skelfingu lostnir og stara á mig. Letin (aldurinn) sér til þess að leiserleikur við Mosa (Krummi nennir ekki) stendur yfir í eina mínútu, í mesta lagi tvær. Þigg öll góð ráð, nema að fá þriðja köttinn inn á heimilið, sprækan og hressan. Sandmálin færu þá í flækju og ekkert pláss er fyrir viðbótarsandkassa. Þeir sofa þó mikið sem er bót í máli. Vilja varla kattanammi og eru farnir að fúlsa við blautmat, fínasta lúxusmat sem þeir vildu áður. Keli var alltaf svo brjálaður í allt slíkt (enda á sjúkrafæði og fékk sjaldan nammi) og þeir eiginlega bara hermdu eftir honum. Þeir drekka vel og vilja bara þurrmat, þeir verða bara að ráða því. Villikettir í Rvík græddu fullt af blautmat núna í nóvember þegar ég gafst endanlega upp á því að reyna að gefa þeim slíkt.
Mynd hér ofar: Keli (fjær) og Mosi, ásamt stökkvandi Krumma, staðnir að verki við blómaát. Ástæðan fyrir því að ég er farin að afþakka blóm eftir bestu getu, sést nákvæmlega á þessari mynd. Ég veit að það er plebbalegt að vera bara með gerviblóm en það þarf að fórna kúlheitum fyrir kettina sína.
Alveg hreint stórfín gleraugu mín duttu í tvennt nýlega, eða önnur spöngin fór af. Sennilega álag á þau vegna þess að ég set þau svo oft upp á haus, því ég á erfitt með að lesa með þau, skoða símann minn og annað slíkt. Sem er víst ástæðan fyrir algjörum skorti á ellifjarsýni (mikill lestur án gleraugna). Nota þau nú samt við lestur á efni í tölvunni en les allt annað gleraugnalaust. Nú voru góð ráð dýr ... hvergi ein einasta gleraugnabúð í nýja nærumhverfi mínu (bara Partíbúðin (Partíland?), Dorma, Bónus og Bakarameistarinn, já, og fín dýrabúð) og eiginlega fáránlegt að taka strætó upp á Skaga þar sem gleraugnabúð mín til síðustu ára er til húsa. Gúglið kom mér til aðstoðar og í aðeins tveggja mínútna göngufæri við vinnustað minn í Skeifunni (sem gefur og gefur), í einu af bláu húsunum, reyndist vera gleraugnaverslunin Gleraugað. Þar fékk ég glimrandi þjónustu í fyrradag, nýja vinstri spöng og kaffi. Einnig róandi spjall ... forsaga: þegar ég fór og leysti út jólagjöf um árið, augnmyndatöku á Skólavörðustíg, spurði ég hvort gulu blettirnir í mynduðu auga mínu táknuðu að ég væri af ætt Ísfólksins. Nei, alls ekki, svaraði stúlkan, mér til vonbrigða, þetta eru fæðingarblettir. Jæks! Ég spurði sem sagt sjóntækjafræðinginn hvort þetta þýddi eitthvað hræðilegt og hann hélt nú ekki. Hann mælti með að ég færi til augnlæknis, ekki út af þessu samt, það væri alltaf sniðugt að láta kíkja á augun, sérstaklega ef ég hefði ekki farið lengi. Sjónin hefur versnað með árunum, ég nota vinstra augað meira, loka því hægra þá á meðan sem hefur valdið hvimleiðum misskilningi þegar sumir karlar halda að ég sé að daðra með því að blikka þá. Ég sé eiginlega of illa til að geta fjardaðrað af nokkru viti svo ég sleppi því.
Hinn gallinn við mig er heyrnin, þessi "valkvæða" sem ég hef samt ekkert val um. Ég heyri mjög vel alla jafna. En ... ef það er t.d. hávær tónlist í bakgrunni er ekki nokkur leið fyrir mig að heyra það sem fólkið í kringum mig segir. Öll þessi "HA, HVAÐ VARSTU AÐ SEGJA?" á Borginni í gamla daga, urðu til þess að karlamálin voru oft upp á sitt versta og uppskeran dræm. Hvernig átti ég að vita hvort þeir væru að bjóða mér upp í dans, tjá mér ást sína eða hrósa fegurð minni og yndisþokka. Þeir hefðu alveg eins getað verið að tala um t.d. landhelgismálið sem var mál málanna á áttunda áratug síðustu aldar, eða tíu árum áður.
Já, þetta er opinskátt blogg, allt fær að fjúka, gallar, kostir og allt þar á milli.
Stráksi sendi mér SMS áðan og sagði að hann hefði ekki farið í vinnuna í morgun vegna rauðrar viðvörunar. Ég var mjög fegin, en þótt húsið sem hann býr í sé í skjólsælu hverfi, er vinnustaðurinn það ekki, heldur alveg í útjaðri Akraness, skammt frá Bónushúsinu, og svakalegur vindur þar stundum.
Ég fylltist nánast öfund út í nýju íbúana í himnaríki í gær, sem hafa útsýni yfir brjálað brimið sem iðulega kemur í suðvestanátt, hvað þá þegar vindurinn er upp á 23 m/sek ... Ég upplifði aldrei svona sunnanveður árin mín þarna, það var frekar að það kæmi suðaustanstormur, án svona brims.
Fólkið í fyrrum húsinu mínu er ekki nógu duglegt að taka myndir og myndbönd og dreifa á samfélagsmiðlum, nema elsku húsfélagsformaðurinn sjálfur, sem setti lifandi brimmynd á snappið hjá sér í gær, við taumlausan fögnuð minn. Einnig hefur Hilmar vitavörður verið duglegur við að sýna brimið í kringum Akranesvita í gær og í dag og ég bind vonir við Kristjönu ...
Fyrra forsetatímabil Trumps einkenndist af frekar fyndnum hlutum, eins og t.d. þegar hann hélt því fram að klórblanda gæti virkað sem lækning við kórónuveirunni. Ég gleymi aldrei svipnum á landlækni USA sem var á staðnum þegar hann sagði þetta.
Ég er orðin virkilega efins um að hægt verði að brosa út í annað næstu fjögur árin. Þau verða lengi að líða og enginn veit hvað þau bera með sér. Fasískar skoðanir virðast eiga upp á pallborðið westra og víðar, og samsæriskenningum er gert hátt undir höfði. Hver hefði trúað þessu?
FACEBOOK:
Þegar appelsínugular viðvaranir voru ríkjandi vegna veðursins sem síðan breyttust í rauðar, skrifaði einn Facebook-vinur minn, undir einmitt mynd af appelsínugulu Íslandi:
Undirlægjuhátturinn gagnvart Bandaríkjaforseta á sér greinilega engin takmörk.
Þetta verða vonandi ekki áhrínsorð ...
Nú í mars kemur bandarísk vinkona okkar Ingu í fimm daga heimsókn til Íslands. Ég er mjög spennt að heyra hvað henni finnst um þetta allt saman sem er í gangi í heimalandi hennar. Þetta er vinkonan sem kommentaði við mynd af Mosa þar sem hann var að prófarkalesa við tölvuna mína og flott brim var í baksýn ... vantaði bara eldgos á Reykjanesskaganum til að fullkomna myndina sem fékk 118 þúsund læk á síðunni View from YOUR window og gerði Mosa heimsfrægan.
Sjá myndina frægu af Mosa!
Í kjölfarið kom konan, ásamt vinkonu sinni, í heimsókn í himnaríki og fékk flatkökur með hangikjöti, malt og appelsín-blöndu með (eða mjög svo ritskoðaðan þorramat) og svo fórum við á flotta byggðasafnið á Akranesi, stúdíóið hans Bjarna Þórs og í antíkskúrinn.
Nú fæ ég hana (og vonandi Ingu líka) í heimsókn hingað á Kleppsveginn og finnst ansi hreint líklegt að hún taki einn pakka af flensulyfjum með sér til að færa mér. Fæ sjaldan kvef (nema í aðdraganda flutninga milli landshluta) en það er svo mikið öryggisatriði að eiga svona pillur, þær lækna kannski ekkert en manni líður bara betur og er vinnufær í stað þess að snýta sér heima í eymd og volæði. Að vísu passa ég mig núorðið á því að eiga íslenska munnúðalyfið ColdZyme, og úða því ofan í hálsinn á mér ef ég finn fyrir kvefi á byrjunarstigi - það fæst í öllum apótekum, held ég, er frekar dýrt en það svínvirkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2025 | 20:02
Kvenraunir í slabbi, útskrift og ... bláar myndir
Heilmiklar kvenraunir bara að komast til vinnu í dag og heim aftur. Samt er ég svo hrifin af íslensku veðurfari, svöl sumur, hlýir vetur (þannig). Strætó passar ætíð upp á sína og ég hef alltaf náð fimmunni í Höfðatorgi á leið í vinnuna og tólfunni þar líka á leið heim skömmu eftir að ég kem þangað. Sérmeðferð, myndi ég kalla það ef ég héldi ekki að það væri nákvæmlega útreiknað.
Hásinarnar á mér þola ekki óvænt stökk, hopp og hlaup á eftir strætó - en B1-vítamínið er sannarlega farið að virka á það, finnst mér. Það er nánast alltaf fullt í strætó og útlendingar í meirihluta. Held að fyrirtækið myndi hrynja ef þeir væru ekki ...
Já, og nemendur í stofu þrjú lærðu nýtt orð í dag ... SKÍTAVEÐUR.
Komin upp í rúmlega 4.000 skref á dag (úr 643 í fyrra lífi) fjóra daga vikunnar, og oft eru þau talsvert fleiri, ef ég skrepp til dæmis í búð fer skrefafjöldinn auðveldlega upp í og yfir 5.000 sem er ágætt hjá kyrrsetukvendi eins og mér. Fór stuttan hring í Bónus í dag og keypti meðal annars nokkra ólíka heilsusafa saman í pakka, og sá við heimkomu að þetta er safakúr fyrir einn dag. Ég öskraði af gleði því þá þarf ég ekki að elda neitt á morgun heldur bara drekka mismunandi safa. Svona getur maður nú grætt á því að lesa illa á umbúðir. Prófaði eitt sinn safakúr frá Kaju (af Akranesi) og fannst það æðislegt, borðaði fræ (í stað hnetublöndu) inn á milli safa og átti eiginlega fullt í fangi með að ná að drekka sex safaskammta á dag í fimm daga. Fann hvernig hollustan og vítamínin komu sér vel fyrir í líkamanum. Þá bjó stráksi hjá mér svo ég slapp nú ekkert við að elda.
Talandi um mat ...
Útskriftardagur var í dag (dagskóli í fjórar vikur) og rosalega mikið fjör. Það var allt fullt af góðum mat sem nemendur komu með (frá þeirra heimalandi).
Mér til gífurlegrar gleði var ansi hreint lítið um hnetur og rúsínur sem flestir vita að kemur beinustu leið úr iðrum vítis. Mikið sem þetta er skemmtilegur og góður vinnustaður.
Frábært starfsfólk og dásamlegir nemendur. Ég varð ansi fljótt algjör snillingur í að lesa texta á hvolfi um leið og ég hlustaði á fólk lesa (sjá mynd sem sýnir sjónarhorn mitt).
Ég bætti líka ögn við arabísku- og spænskukunnáttu mína þessa vikuna ... veit núna að Hasta Manjana (skrifað eftir framburði) þýðir sjáumst á morgun.
Og hæ á arabísku er Salem Alekum ... maður snýr þessu við þegar maður svarar kveðjunni og segir þá: Alekum Salem.
Já, og talandi um að snúa einhverju við ...
Í mjög mörgum strætisvögnum Reykjavíkurborgar eru öfugsnúin sæti sem "njóta" mikilla óvinsælda, enda hver vill ferðast aftur á bak, aftur í tímann? Mér verður alltaf flökurt ef ég neyðist ... svo ég sit frekar á hlið í þessum sætum, sem er sannarlega ekki hollt fyrir viðkvæmt bak til áratuga.
Þið, strætisvagnahönnuðir sem lesið bloggið mitt, endilega hugsið þetta betur.
Þótt ég sé alls ekki gömul kéddlíng held ég nú samt að ég hafi verið elst í leið 12 frá Höfðatorgi undir kl. 16 í dag. Ég hlammaði mér þess vegna í gamlafólkssæti (sem snýr rétt) en beið eftir því að einhver eldri kæmi og myndi þá vitanlega standa upp fyrir viðkomandi. Mér fannst ég þó fá ónotalegt og reiðiþrungið augnaráð frá sumum farþegum, eins og ég væri að stelast, þykjast vera gamall maður með staf (merkið fyrir ofan sætið). Ég reyndi að dýpka hrukkurnar á enninu, fara að kveða rímur og róa fram og til baka en án harmonikku er ekki séns að leika sig eitthvað eldri. Hefði sennilega þurft að japla á súrmat eða sviðakjamma til að gera þetta trúverðugt. Er ansi hrædd um að næmt fólk sem gjarnan tekur strætó hafi áttað sig á því að endajaxlar mínir eru ekki enn komnir fram í dagsljósið og heldur ekki ellifjarsýnin sem flestir jafnaldrar mínir eru löngu komnir með, og hafi þar af leiðandi haldið mig mun yngri. Það er hreinasta helvíti stundum að vera svona ungleg. Það þýðir ekkert fyrir mig að veifa skilríkjum. Bæði er vegabréfið mitt útrunnið og bleika ökuskírteinið með mynd sem var tekin á síðustu öld, jafnvel þarsíðustu ...
Ég átti smávægileg samskipti við Lífeyrissjóð verslunarmanna í gær og í morgun. Klaufaskapur í mér að tala ekki við þau og láta vita af því að ég var tekjulaus um hríð eftir flutningana til Reykjavíkur. Ég var góðfúslega minnt á í bréfi, skrifuðu nú í janúar, að ég skuldaði lífeyrissjóðsgreiðslur aftur í tímann (verktakar eiga að sjá um allt svona sjálfir) og skrifaði þeim til baka, sagði hið sanna, að ég væri flutt og hefði vissulega fengið "fullt af störfum" í bænum en enga vinnu sem ég gæti byrjað í fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót! Eins og bloggvinir mínir ættu að muna ... ég var svo innilega að tryllast yfir því að geta ekki unnið. Lifði bara á elskhugum mínum (borðaði þá auðvitað ekki) og yljaði mér við gamlar minningar ... eða þannig. Það voru ekkert nema elskulegheit sem mættu mér hjá sjóðnum og öllu var kippt í lag í hvelli. Gott að vita ef svona tímabil kemur aftur hjá mér, að láta þau vita strax. Það er svo oft kvartað yfir samskiptum við ýmsar skrifstofur og stofnanir ... sannarlega ekki málið hjá þessum elskum. Ég hef reyndar alltaf verið ánægð með þennan lífeyrissjóð svo ég kaus að vera áfram þar þegar ég fór að vinna alfarið sem verktaki - og sé ekki eftir því. Held að skatturinn geri ekkert því þau hafa aðgang að öllu mínu og svo fæ ég bara hærri skatt eða líklega frekar endurgreitt, þegar allt er gert upp í gegnum skattaskýrsluna.
Mynd af málverkum: Það stóra og það efra (litla) eru eftir Önnu Ólafsdóttur Björnsson, það litla varð til þess að ég ákvað að láta bloggið heita Sögur úr skýjahöll, sjúklega flott vatnslitamynd. Stóra myndin hefur verið í minni eigu í áratugi og sýnir konu að reyna að komast upp á bleika skýið ... og ég er komin þangað! Neðri myndin er eftir hirðmálara Akraness, elskuna hann Bjarna Þór. Já, ég er hrifin af bláum myndum ...
Er komin í helgarfrí, jibbí, vinn bara tvo tíma á dag, fjóra daga vikunnar, sem "nemi á plani", ekki nemandi, og dýrka þessar þriggja daga helgar ... þótt þær fari iðulega í húsverk ... er meira að segja að hugsa um að strauja fínu, hvítu rúmfötin mín. Minnir að ég hafi síðast straujað þegar OK Computer kom út (Radiohead, maí 1997) og hlustaði á hana aftur og aftur og aftur á meðan allt varð slétt og óaðfinnanlegt áður en ég raðaði því í lita-, efna- og stafrófsröð upp í skápana. Það skyldi þó ekki hafa verið tímabilið þegar ég prófaði green&beis-pillurnar frá Herbalife, og varð svo ógeðslega hress og orkumikil að ég man að ég straujaði meira að segja þvottapoka. Ohh, hvað ég væri til í slíkar pillur núna en þær voru víst bannaðar, eins og amerísku flensulyfin, Bismo Peptol-magadrykkurinn bleiki og fleira og fleira ...
Er búin að uppgötva að rafmagn er eitt af því sem erfiðast er að vera án ... það fór af hérna rétt fyrir kl. 18 á mánudagskvöldið og kom ekki fyrr en nokkrum klukkutímum seinna. Held að blokkin mín hafi verið síðasta húsið sem fékk straum aftur. Mér var ekki um sel þegar hleðslan á gemsanum mínum hrapað smátt og smátt niður ... lengi vel var hún 4 prósent og komin niður í 2 prósent þegar rafmagnið kom loksins.
Svo ekki gat ég hlustað á sögu eða hangið í símanum. Það var ekki hægt að elda. Ekki hægt að tengjast netinu í gegnum spjaldtölvuna (sem fannst í körfu inni í fataskáp!) sem var fullhlaðin en samt eins og dauð því ráderinn gengur fyrir rafmagni EINS OG ALLT! Meira að segja gamli heimilissíminn var tengdur rafmagni og hefði verið gagnslaus. Fór ekkert fram og veit ekki hvernig aðrir íbúar lifðu þetta af - í rosalegu myrkri og lyftuleysi ...
Held að síma-landlína sé enn í gangi en ekki svo mikið lengur, sagði einhver, svo ég hætti með heimasímann. Hef ekkert að gera við hann ef hann er ekki lengur öryggistæki. Þannig að óvinir Íslands þurfa ekkert að gera nema ræna okkur öllu rafmagni til að hernema okkur. Það lamast allt! Ef Trump langar að skreppa í golf í nýja landinu sem hann ætlar að eignast, kæmist hann frekar í það hér en á Grænlandi og þar liggur kannski hættan, ef hann kemst að því að hér á klakanum er talsvert hlýrra og sennilega fleiri golfvellir.
Stefni á að hreyfa mig ekki úr húsi alla helgina. Sýnist samt á spám að það verði enn hálka í næstu viku, hitinn mun rokka upp og niður, og líklega verð ég að festa kaup á almennilegum mannbroddum til að haldast óbrotin og vinnufær svo ég geti nú borgað í lífeyrissjóðinn minn. Sá mér til gleði og þæginda í dag að það var vel mokað fyrir framan húsalengjuna mína í Skeifunni (vinnan) þar sem er fjöldi fyrirtækja, Lyfja var þar fremst í flokki og langbest mokað hjá þeim! En það voru komin heilu stórfljótin á göturnar þarna allt í kring og ég er svooo fegin að þurfa ekki að vera á ferðinni þar á morgun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2025 | 15:55
Rammaraunir, alvörukrem og skrefafjöldasjokk
Svolítil lasleikahelgi en ég gæti þess þó langoftast að verða lasin þegar ég er í fríi, það kemur best út fyrir alla. Samviskusemi, mögulega ... Ég horfði ekki einu sinni á Liverpool-leikinn í gær, lá bara kylliflöt og hlustaði á ... jólasögu. Kannski varð ég lasin við að fá að vita að ég þurfi að greiða 14 þúsund á mánuði fyrir nánast ekkert ... eða borginni fyrir að hirða pappír og plast, sem gerist þó ekki einu sinni í mánuði, alltaf allt troðið og góðhjartað fólk á bíl tekur þetta fyrir mig og fleygir á einhverri stöðinni. Þetta er ekki vegna þess að fólk flokkar á rangan hátt, kannski þarf bara að lauma kossi eða vatnsglasi að ruslakörlunum ... ég veit það hreinlega ekki, hef ekki búið það lengi í bænum.
Myndin sýnir berlega hversu mikill "trendsetter" ég er, allt í einu eru allir farnir að taka strætó. Já, þetta er mannmergð þarna á stoppistöðinni minni ... ótrúlegt að dekkin á strætó hafi ekki sprungið.
Strætólífið gengur sem sagt ljómandi vel og ég er yfir mig sæl með bílstjórana, vagnana, stoppistöðvarnar, biðtímann, bara allt. Vinnutími minn breytist þó í febrúar og kvöldáætlun Strætó bs tekin við þegar ég fer heim. Vonandi lengist ekki biðtíminn en ég kaupi mér þá bara föðurland og loðfóðraðar bomsur, eða fæ mér leigubílstjóra sem tímabundinn elskhuga.
Þrátt fyrir dásamlegheitin er þó ekki hægt að mynda tilfinningatengsl við strætóbílstjórana hér í bænum, eins og var hægt við þá á Skaganum. Of mikill hraði, of margt fólk, engar endastöðvar ... Góð vinátta myndaðist við suma eftir margra ára síendurtekið spjall í Mjóddinni áður en vagninn lagði af stað upp á Skaga. Yfirleitt settist ég fremst því mér verður flökurt ef ég sit of aftarlega og þá er hægt að spjalla. Ég fæ tár í augun við að hugsa um til dæmis elskuna hann Tomma bílstjóra sem dó langt fyrir aldur fram. Hann var nú samt jafnmikill talsmaður súrmatar og ég andstæðingur, samt var hann ári yngri en ég! Gráforneskjusmekkur á mat er ekki bundinn við aldur, það sést á trylltri mætingu landsmanna á öllum aldri á Þorrablótin. Skilst að þessi helgi hafi rétt verið upphafið að mánaðarlöngu súr-skralli ...
Leitin að spjaldtölvunni stendur enn yfir og hefur kannski aðeins gleymst í þeim önnum sem hafa ríkt. Villtar vonir kviknuðu þó í gær þegar ég renndi skápshurðinni í herberginu frá hægra megin og rakst þar óvænt á körfu með alls kyns dóti. Nuddbyssunni, Storytel-brettinu sem ég saknaði líka, og alls kyns pappírum. Hef þó ekki náð að beygja mig eftir körfunni og sannreyna þetta, enda haft svolítið mikið að gera um helgina við yfirlestur og slappheit. Bakið gaf sig nefnilega fyrir helgi þegar ég tók upp fulla þvottakörfu þegar ég var asnalega boginn, eitthvað sem ég hef passað í áratugi að forðast og flestir baksjúklingar kannast við ... Sem betur fer átti ég svona "hass-krem" frá WA-ríki í Ameríku (sem leyfir "gras") en það virkar ansi vel með íbúfen&panódíl-tvennu og því að liggja á hitapoka. Svo fjárfesti ég í almennilegum skrifborðsstól eitt skiptið sem ég kíkti á hefðarköttinni Diego í A4 og get því unnið við yfirlestur, eins og ég hef gert um helgina, eftir bestu getu þó.
Það birtist falleg myndasyrpa af snjónum í höfuðborginni, á RÚV.is, minnir mig. Einhverjir tóku þessu sem samkeppni og fóru að metast um að þetta væri sko ekki snjór, hann væri nú þrír metrar þarna hjá þeim ... Sem eilíf landsbyggðartútta leyfi ég mér því að mótmæla harðlega svona metingi. Ég tek andköf af hrifningu þegar ég horfi út um stofugluggann hjá mér þessa dagana, það er svo fallegt að sjá trén og allan snjóinn (sem ég elska samt ekkert). Svo má líka minnast á að ef verða umferðartafir í bænum vegna snjókomu er það ekki vegna þess að þessir fok... borgarbúar kunni ekki að keyra ... það eru bara allt of margir bílar á höfuðborgarsvæðinu og sumir á sumardekkjum í svona brjálaðri umferð. Ég gladdist hreinlega yfir því hvað það var alltaf snjólétt á Skaganum, þótt ég reyndi að monta mig ekki af því þegar ég talaði við borgarbúa ... Mesti snjór sem ég hef séð var á Hvammstanga einn veturinn á síðustu öld. Held að það hafi komið myndasyrpa í Mogganum. Þá gat fólk farið út úr húsum sínum - af annarri hæð. Man þó eftir því á níunda áratugnum að tvö ár í röð (83 og 84?) varð óvænt allt ófært þann 4. janúar. Hætti hreinlega ekki að snjóa og ég bjó þá í Efra-Breiðholti en gekk frá Mjóddinni og uppeftir í öræfunum sem finna mátti á milli efra og neðra ... er kannski enn og telst til græns svæðis? Þá var Edda frænka, búsett í sama húsi, búin að sækja soninn fyrir mig í leikskólann. Ógleymanleg stemningin sem myndaðist, allir að ýta öllum, brosandi og glaðir, held að slíkt gerist enn. Þegar við vinkonurnar fórum í IKEA og Costco lentum við í vandræðum með að opna rúðupissvökvadunk, ég spurði sætan karl sem gekk fram hjá hvort hann væri sterkur ... og hviss, bang, dunkurinn var opnaður! Stundum fær maður daður dagsins algjörlega óvænt upp í hendurnar.
Ferðir okkar vinkvenna í IKEA í síðustu viku voru í raun árangurslausar ... vinkonan gaf mér þennan fína ramma (með eftirprentun í) fyrir Ikea-ferðina og sá passaði akkúrat fyrir Skýjahallarmyndina mína (sjá mynd) svo ég keypti bara einn ramma, fyrir aðra mynd, í stað tveggja. Nánast strax við heimkomu ætlaði ég að setja dýrðina í rammann en sá að svo vel var gengið frá honum að ég lagði ekki í uppskurð og vesen (Mynd: sjá bakhlið rammans). Ógeðslega svekkjandi. Hinn ramminn, eða sá sem ég keypti, passar ekki við þessa mynd, heldur þá sem ég keypti hann fyrir, og er ramminn gráblár að lit, en hvítur passar best fyrir þessa mynd sem verður í hópi hvítinnrammaðra mynda. Já, það er auðvitað hugsun á bak við þetta ...
Kannski bara best að fara á innrömunarverkstæði þótt það sé dýrara en þá fæ ég akkúrat það sem ég vil. Held að eitt sé í Ármúla og ég gæti beðið eftir komandi snjóleysi (hláku) í byrjun febrúar (takk, elsku veðurfræðingar) og tölt þangað úr Skeifunni eftir vinnu. Myndin fagra sem ég fékk í innflutningsgjöf frá vinkonu, ég fékk að velja, varð til þess að ég ákvað endanlega Skýjahallarnafnið á bloggið. Greinilega hægt að halda þorrablót í skýjunum, sýnist mér ... djók.
Ég telst ekki til unga fólksins og skilgreini mig samt alls ekki sem eldri konu, er fullfrísk og fullvinnandi en aldrei full ... en það stakk mig samt um daginn þegar læknir nokkur talaði opinberlega um kosti þess (nauðsyn) að ganga, ekki síst þegar árunum fjölgar. Hann talaði um TÍU ÞÚSUND SKREF - Á DAG! Það er sami skrefafjöldi og ég gekk úti í Glasgow algjörlega ÓVART, þegar sími systur minnar sagði á fimm mínútna fresti að það væru bara tíu mínútur eftir. Röng stilling, eða á ökufjarlægð ... ég var gjörsamlega örmagna eftir þennan óendanlega göngutúr frá miðborg upp að hóteli í ótrúlega stórri beygju eða hálfhring sem náði eflaust yfir hálfa Glasgow-borg. Blóðrisa tær, gatslitnir skór og enn sterkari gönguferðaandúð kom út úr þessum GPS-mistökum. Kannski næ ég tíuþúsundskrefamarkmiðinu ef ég geng til eða úr vinnu þegar veður verða minna válynd. Það yrði þá gönguferð með markmið, eða að komast heim eða til vinnu. Í gamla daga, eða þegar ég var á barnsaldri, slapp enginn við að ganga einhver ósköp, í skóla og úr, á skautasvellið upp í Krús, í tónlistarskólann sem var ógeðslega langt í burtu, í Bíóhöllina á sunnudögum sem var enn lengra í burtu. Það var talið skemma börn að skutla þeim ... eða gefa þeim eitthvað almennilegt að borða ... eða leyfa þeim að taka fleiri en tvær bókasafnsbækur á dag ... eða bjóða upp á tilbreytingu í skólanum ... eða ... Það var sko ekki allt gott í gamla daga.
Vonandi bý ég enn að öllum þessum afreksgöngum æsku minnar þegar ég prófa röltið upp Álfheimana, inn Langholtsveginn og niður Holtaveginn ... Ef ég steinhætti að blogga einhvern góðviðrisdaginn má alveg fara út að leita að mér. Helst á bíl. Og ef ég verð ekki 100 ára eftir þessar göngur fram undan fer ég í mál við þennan lækni!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2025 | 23:14
Ást í strætó og skortur á GPS-hrósi
Fyrsta almennilega strætóviðreynslan var í dag. Það var ekkert droll á mér eftir vinnu svo ég náði fimmunni kl. 15.09, það var líka stutt bið eftir tólfunni á Höfðatorgi svo ég var komin heim kl. 15.30. Frekar fáir í strætó svo ég fékk fínasta sæti í báðum vögnum. Það er svo gaman í strætó, meira að segja þegar maður lendir algjörlega óvænt í viðreynslu. Tek fram að ég hafði verið að hlusta á meinleysislega ástarsögu og á leiðinni til vinnu, fyrr í dag, fannst mér pínku vandræðalegt að vera að hlusta, grafalvarleg og virðuleg í sæti mínu, á meðan "þau rifu fötin utan af hvort öðru og náðu ekki að rúminu áður en ástríðan (lesið ást-ríðan, í stað á-stríðan) tók af þeim völdin" (pen ástarsaga) ... Þetta hefði átt að hafa hitað mig upp en viðreynslan átti sér stað á heimleiðinni og ekkert kynlíf í gangi í eyrunum á mér.
Hvað ertu að hlusta á svona skemmmtilegt, vinan? spurði ókunnugi maðurinn. Frekar huggulegur en ég þoli ekki að vera kölluð vinan. Mig grunar að hann hafi séð grilla í Wu Tang Clan-sokkana mína sem ég fékk í jólagjöf. Gott rapp fyllir alla hugrekki, rappsokkar greinilega líka.
Kennslubók um kjarneðlisfræði fyrir lengra komna, svaraði ég án umhugsunar, kjarneðlisfræði hefur áður bjargað málum. (Í HÍ áttum við hagnýtfjölmiðlun-konurnar stundum erfitt með að komast á réttum tíma að í tölvustofunni (1998-1999), þar til ég bað strákana í tölvunarfræðináminu að flýta sér, tíminn okkar í kjarneðlisfræði væri að hefjast, við þyrftum tölvunar NÚNA ... þeir trúðu því og drifu sig út, fullir af virðingu). Kjarneðlisfræðin sveik aldeilis ekki heldur í dag.
Það e bah sona, sagði maðurinn gáttaður, ástríðuglampinn hvarf og hann drattaðist aftar í vagninn. Hann hitti bara illa á mig. Í betra stuði værum við kannski enn að daðra í leið fimm, hring eftir hring eftir hring.
Skrapp með vinkonu í Costco og IKEA í gær og keypti mottu á fyrrnefnda staðnum og svo í IKEA kleinupoka og ramma fyrir flotta mynd sem vinkona mín málaði og gaf mér í innflutningsgjöf. Ramminn reyndist of stór því ég var auðvitað ekki með myndina með mér, keypti bara eftir minni.
Þegar við stóðum við kassa í Costco til að borga sáum við Einarsbúðarmæðginin, Ernu og Einar yngri von Akranes. Það urðu miklir fagnaðarfundir og ég hugsaði eftir á til þess með trega í hjarta að í gegnum Einarsbúð gæti ég keypt þrjár eldhúsrúllur af stærri gerðinni (frá Costco) en hjá sjálfu Costco þarf ég að kaupa tólf rúllur. Íbúðin mín er bara ekki nógu stór fyrir það svo ég hætti við kaupin. Að sjálfsögðu skrepp ég í Einarsbúð í næstu (þeirri fyrstu eftir flutninga) Skagaferð minni og kippi í leiðinni þremur rúllum með. Sakn á Akranes. Samt er ég mjög ánægð í bænum, sérstaklega eftir að ég fór að vinna. Síminn minn er samt enn ánægðari með vistaskiptin því hann þylur stanslaust yfir mér eitthvað á borð við: This year´s walking and running distance is more than last year´s on average. OG: You're walking more than you do on a typical day. OG: You are very beautiful today and every day, my darling.
Mjög hressandi og upplífgandi.
Þetta var ekki alveg fyrsta ferðin okkar vinkvenna saman á þessar lendur því við gerðum tilraun síðasta laugardag til að fara í Costco. Ég ætlaði að kaupa stóra eldhúsrúllu a la Costco (þrjár saman) og vinkonuna vantaði eitthvað smávegis líka. Við vorum komnar 28 skref inn í búðina þegar okkur sortnaði fyrir augum vegna mannhafsins og biðraðanna og snerum við ... báðar með búðafælni. Þá fórum við yfir í IKEA og keyptum okkur fínasta mat; plokkfisk og kjötbollur.
Á leiðinni í gær sagði ég henni stolt frá því að ég hefði keypt mér kepp af lifrarpylsu og dollu af rófustöppu í Bónus - fann ekki sushi-bakka. Það væri alveg íslensk taug í mér þótt ég væri ekki yfir mig hrifin af t.d. þorramat ... Þetta myndi duga mér í tvær til þrjár máltíðir, nokkrar litlar sneiðar, sletta af rófó, í örbylgjuna í 2 mín. og málið dautt. Nammmmm, svona var kvöldmaturinn minn í kvöld og bragðaðist mjög vel. Áttaði mig ekki á því alveg strax að ég væri að tala við alvöruÍslending, konuna sem ég færði stundum "efnavopn" til Bandaríkjanna, eða svokallaðan gamaldags íslenskan mat. Hún var eins og úr grárri forneskju þegar hún taldi upp matvælin sem hún ætti heima hjá sér: súran hákarl, súrt slátur, svið, hrútspunga og þaðan af verra ...
Ég reyni eftir bestu getu að kaupa ekki of tilbúna rétti (þótt þetta sé auðvitað soldið svoleiðis) svona á meðan ég get ekki tekið á móti Eldum rétt-pökkunum á vinnutíma mínum (sending kemur iðulega kl. 13.30 á mánudögum þegar ég er víðs fjarri). Í febrúar færist vinnutíminn til svo mögulega verður matur frá Eldum rétt á boðstólum aftur - fer samt eftir því hvað gerist með vinnu nr. 3 ...
Vinkona mín ekur bíl sínum með aðstoð amerískrar útgáfu af GPS sem beinir henni reyndar oft í rangar áttir, beygðu til hægri á götu númer hitt og þetta, þegar við á Íslandi merkjum ekki göturnar með númerum (er það ekki rétt hjá mér?), heldur vegina. Þegar hún skutlaði mér heim eftir Ik-Cost-ferðina vildi GPS-konan að vinkona mín beygði til hægri, vissulega var Sæbrautin samhliða okkur til hægri, og ekki hægt að komast þangað, því við áttum að beygja til vinstri, inn á bílastæðið við Skýjahöllina. Óskiljanlegt ...
Annað sem ég skil ekki alveg með GPS-tæki. Það er ekkert að finna þar nema skipanir. Það er ekkert hrós í boði þegar maður gerir rétt og man eftir því að beygja. Well done, girl, myndi gleðja mig og efla til dáða, ef ég keyrði með svona tæki. Við vorum t.d. svo önnum kafnar við að spjalla að við tókum ekki rétta beygju á leiðinni í Costco á laugardaginn, við vorum að tala um íslensk orð sem eru bara í fleirtölu (t.d. meðmæli) og hver man eftir því að beygja þegar svo áhugavert og spennandi umræðuefni tekur alla athyglina?
Það er alltaf jafnskemmtilegt og líflegt í vinnunni og ég er komin á fullt í vinnu 2 líka, fékk verkefni send í gærkvöldi. Vinna nr. 3 byrjar sennilega ekki fyrr en í febrúar ... svo var ein fyrrum samstarfskona (sem veit hvað ég er mikill vinnualki) að benda mér á að bókamarkaðurinn í ár verður haldinn hinum megin við götuna, eða í Holtagörðum! Ég gæti ábyggilega fengið vinnu þar, sagði hún. Hugsa að það sé bara of seint ... hefði stokkið á það, eða að sækja um, fyrir áramót þegar ég var að farast úr leiðindum.
Ég vona að þessi vinnugleði mín haldi áfram um ókomna tíð því mér er sagt að best sé að vera búin að greiða upp húsnæðislán sitt áður en maður sest í helgan stein. Mitt lán er frekar hagstætt og ég ekki sérlega eyðslusöm svo ég kvíði engu þótt ég nái eflaust ekki að borga það upp á næstu árum. Kannski enda ég eins og ein vinkona mín sem gerði nokkrar tilraunir til að setjast í helgan stein, alltaf var einhver spennandi tölvuvinna sem var eins og sniðin fyrir hana. Mamma ætlaði að hætta að vinna þegar hún var sextug, 95 ára reglan, en svo mikill skortur var á hjúkrunarfræðingum að hún "fékk" ekki að hætta fyrr en hún varð sjötug. Hún vann lengi á Kleppi sem er nánast á hlaðinu hjá mér, ég var ansi sein að átta mig, auðvitað hefði ég átt að flytja fyrr á Kleppsveginn, þá hefði hún getað kíkt í kaffi til mín eftir vinnu. Finnst að fólk sem ég þekki og ætlar á bókamarkaðinn ætti að tékka á mér, hvort ég sé með heitt á könnunni ... Gleyma svo innkaupunum hjá mér, mmmmm.
Heyrði í stráksa áðan. Hann minnti mig á að hann verður 21 árs eftir rúman mánuð, eða í byrjun mars. Ég heimtaði að fá að halda litla afmælisveislu handa honum hér í Rvík einhverja helgina í mars, bjóða svona 10-1000 allra nánustu .... Honum fannst það virkilega góð hugmynd, stórkostleg í raun, svo annaðhvort baka ég (fer eftir vinnuálagi) eða panta kruðerí. Svo fær hann pottþétt veislu þar sem hann býr, sennilega á sjálfan afmælisdaginn eða einhvern laugardaginn í kring, hélt hann. Maður verður ekki 21 árs nema einu sinni ...
Neðsta myndin er af Ernu og Einari (eldri) í Einarsbúð á Akranesi. Búðin varð 90 ára í nóvember 2024 en hjónin hafa þó ekki rekið hana allan tímann ... ég meira að segja man eftir Gunnu, mömmu hans Einars og búðinni þegar hún var miklu minni en hún er í dag. Gaman að hitta Ernu og Einar (yngri) í gær.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2025 | 21:16
Hvetjandi strætó og mögulegir galdrar
Þriðji í vinkonuhittingi í gær, Hagkaupsferð fyrst til að kaupa inn fyrir helgina ... Eldum rétt-kassarnir voru við það að renna út svo ég keypti bara eitthvað tilbúið, vonandi bragðgott og ekki of mikið unnið. Svo ákvað ég við heimkomu, þar sem ég var komin í helgarfrí, að undirbúa helgarþrifin aðeins með því að vaska upp og vera búin með eldhúsið, en lenti óvænt í verulega blóðugu slysi þar sem einn fíni matardiskurinn úr antíkskúrnum á Akranesi brotnaði í loftinu, fannst mér því ég skarst við að reyna að bjarga honum. Vinstri höndin skarst á nokkrum stöðum, aðallega fingurnir. Vá, hvað blæðir mikið úr fingrum ... og svo held ég að fólkið á hæðinni fyrir neðan hafi orðið óttaslegið vegna ógnvekjandi brothljóðs og kvenmannsgargs. Þótt mér hafi fundist blóðið flæða fór ekki einn dropi niður á gólf, alveg ótrúlegt, svo ekkert lak á milli hæða ... Verkefni beið mín í tölvunni en ég var svo slegin að ég skreið undir sæng, þrælplástruð og illilega skekin, og ... sofnaði. Náði að skila af mér verkefninu í dag, enda ferskari og glaðari eftir laaaangan (en truflaðan) nætursvefn. Mér finnst dagsljósalampinn hafa áhrif til góðs, og hef verið dugleg síðustu daga að baða mig í ljósi hans. Hress og kát í dag þrátt fyrir að gemsinn hafi hringt og vakið mig tvisvar í nótt. Heyrði í ungum vini í síma í gær og ég hef hann grunaðan um að hafa óvart lagst á símann sinn í nótt og hringt óafvitandi í mig - tvisvar. Honum fannst það ógurlega fyndið þegar ég hringdi í hann í dag og sagði honum frá þessu. Eins gott að þú hringdir ekki óvart í lögguna, sagði ég. Löggan hefði orðið að koma og tékka á þér, hugsa ég, og þér hefði ekki þótt gaman að vakna við það. Viðmælanda mínum þótti það mjög ólíklegt þar sem hann hafði aldrei hringt í lögguna á ævinni svo það myndi varla gerast óvart um miðja nótt, sem er auðvitað rétt hjá honum. Þetta ónæði kveikti í köttunum sem framleiddu alls konar hljóð sem héldu enn lengur fyrir mér vöku en þá var gott að hafa hljóðbók til að setja á í korter.
Myndin sýnir eitt sárið (á vísifingri vinstri handar) Það hefur gróið grunsamlega hratt síðan í gærkvöldi, en mér varð flökurt og svimaði af spenningi þegar ég áttaði mig á því að þetta var sennilega ekki slys eða óhapp og alls engin tilviljun. Nú er allt komið í samhengi ... hlaupahjólsslysið sem ég lenti í átta ára gömul beint fyrir framan Sjúkrahús Akraness og var flutt beinustu leið á saumastofu Braga læknis. Hef borið lítið og nánast ósýnilegt ör á enninu síðan. Það þurfti síðan þessa áminningu áratugum síðar, eða blóðugt fingurslys þar sem ég tók eftir lögun ört gróandi eldingar-sársins áður en það verður að ólögulegri línu. Mjög spennandi tímar fram undan.
Er að hlusta á bókina Draumar úr snjó og er orðin spennt. Var það þó ekki í upphafi og þurfti að komast inn í nokkuð drungalega stemninguna (mannlegir brestir, óhamingja, óheppni) og haldast þar, ekki flýja á vit yfirborðsmennskunar (sem ég sæki svolítið í, hrifin af góðum endi og ekki of miklum átökum eða eymd) en ég er lítið fyrir t.d. sannsögulegar bíómyndir, þær eru oft svo sorglegar og enda illa (eins og Titanic) og það er eiginlega líka þannig með sumar bækur. Veit að margt fólk vill bara grjótharðan sannleikann án vonar um að eitthvað breytist til batnaðar hjá söguhetjunum ... þannig sé lífið.
Ég harkaði af mér eymdina í byrjun og get ekki hætt að lesa þessa bók, vil vita hver morðinginn er, svo venst stemningin alveg og hefur breyst eftir því sem fleiri eru kynntir til sögunnar. Aumingja prestsfrúin samt. Var líka búin að gleyma því hversu hroðalega tengdamömmu (að það er fyndið) Maria lögreglukona á, þetta er ekki fyrsta bókin um hana og ég hrifin af þeim fyrri. Hef sennilega verið að hlusta á of glaðlegar bækur upp á síðkastið og því átt erfitt með þessa í fyrstu. Hún er fín.
Andlitsblinda hrjáir mig ekki en stundum mætti halda það. Í fyrradag talaði samstarfskona mín um að ungur sonur hennar þráði að lesa vissa fullorðinsbók sem er ofbeldisfull og alla vega ein ansi grafísk kynlífslýsing sem hentar ekki innan við tíu ára gömlum dreng ... Í gær mætti ég til vinnu með þrjár unglingabækur sem er skárra en hardkor fullorðins. Hryllingsbók um Drakúla, þykka fantasíuævintýrabók og fínustu bók eftir Hildi Knútsdóttur snilling. Konan sat á kaffistofunni þegar ég kom og ég rétti henni bækurnar og hrósaði þeim hástöfum, sagði eins og var að ég hefði ekki náð að grisja nógu mikið bækur og fleira, áður en ég flutti í bæinn. Í kaffihléinu komst ég að því að ég hafði ruglað saman tveimur samstarfskonum ... því allt önnur kona sveif á mig glöð og spurði mig hvort ég hefði verið að koma með bækur handa stráknum hennar ... Þá áttaði ég mig á ruglingnum og bað þá fyrri afsökunar. Þetta var bara fyndið og hefur svo sem hent mig áður en sennilega á meira móðgandi hátt þarna undir aldamót ... þegar ég fékk ungan tónlistarmann í útvarpsviðtal til mín á Aðalstöðina, hann ætlaði að spila og syngja á Gauknum um kvöldið og þótti fínt að fá þessa fínu auglýsingu (þátturinn var eftir hádegi á laugardögum). Svo fór að ég mætti á Gaukinn um kvöldið þótt það hafi ekki endilega verið á planinu þarna fyrr um daginn. Hitti ungan mann í anddyrinu þegar ég mætti og hann heilsaði mér glaðlega. Ég brosti á móti en spurði: Fyrirgefðu, hvernig þekkjumst við aftur? Eitthvað slíkt. Hann starði á mig í smástund og sagði svo: Ég var í útvarpsviðtali hjá þér í dag.
Svo innilega leiðinlegt að vera svona ómannglögg. Mér var fyrirgefið þetta í vinnunni, þótti ekki einu sinni tiltökumál. Það tekur mig alltaf smátíma að læra öll nöfn á vinnufélögum en endurtekningin skapar meistarann. Tek fram að konurnar sem ég ruglaði saman eru ekkert líkar í útliti, en þær eru báðar mjög ljúfar - slíkt getur ruglað mann.
Það gengur ljómandi vel að komast á milli hverfa í Reykjavík, tólfan í Höfðatorg (ég þarf að vísu að fara yfir Sæbraut til að ná tólfunni, en það eru gangbrautarljós) og fimman frá Höfðatorgi á stoppistöðina Heimar - en ég er svo utan við mig að ég óttast stundum að taka óvart tólfuna aftur hinum megin við götuna í staðinn fyrir fimmuna á leið til vinnu. Að vera utan við sig er víst gríðarlega mikið gáfumerki ... ég hugga mig við það.
Það er enginn strætó sem gengur beint héðan af Kleppsvegi og í Skeifuna en þegar hálkutímabilinu lýkur er alveg séns að ganga upp Holtaveginn og ná leið 14 á Langholtsveginum. Ferðin tekur 26 mín. ... þar af þarf ég að ganga í 25 mín. Fyrst geng ég í 19 mín upp á Langholtsveg, síðan er strætóferð í 1 mín. og þá önnur gönguferð í 6 mín.
Eftir að B1-vítamínið hefur unnið hásinarverkjabata-verk sitt svona vel og hælupphækkunin líka, finnst mér ekkert að því að tölta þetta í sæmilegu veðri en þó síður þegar versta geitungaplágan stendur yfir (apríl/maí og út sept?) og er sennilega nánast hálfnuð í vinnuna þegar ég er komin upp á Langholtsveg en gæti þá allt eins farið alla leið gangandi, eða bara niður Álfheimana. Talandi um hvetjandi strætó ...
Athugið: Er ekki orðin andsetin eða umskiptingur, en þið megið endilega gera eitthvað í því ef ég fer að tala um að skreppa í sund. Á næsta ári verða 40 ár síðan ég fór í Laugardalslaugina en þrengsli, kvenmergð og smellir í rössum að slást saman í sturtuklefanum gerði mig endanlega fráhverfa þeirri líkamsrækt, eins og ég hef áður sagt frá. Skil alveg amerísku kerlingarnar sem fussa yfir þessari miklu nánd þegar þær neyðast til að deila baðförum sínum með ókunnugum konum á Íslandi. Takk kærlega, Sól og sæla, eða kannski ekki, fyrir að venja mig á einkasturtuklefa og -búningsaðstöðu eftir ljósatímana veturinn 1985-1986, það er engin leið til baka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2025 | 23:10
Smiðsraunir, lampagleði og kaffiástir
Vinkonuhittingar eru frekar tíðir eftir að ég flutti í bæinn ... núna tvo daga í röð var ég sótt í vinnuna af vinkonum. Í gær fórum við tvær í kaffi hingað heim en í dag skelltum við okkur, hinar tvær, í Te og kaffi í Borgartúni. Dásamlegur staður í Borgartúninu og verulega nærandi samverustundir þar sem umræðuefnin dekkuðu nánast allt á milli himins og jarðar.
Te og kaffi er í miklu uppáhaldi, ekki bara af því að þar er gott kaffi og meðlæti, heldur er opnunartíminn hagstæður þeim sem vilja hittast yfir kaffibolla eftir vinnu. Ansi mörg kaffihús loka klukkan fjögur og vilja meina að of fáir mæti eftir þann tíma, of dýrt að halda starfsfólki á yfirvinnukaupi fyrir kannski fáa gesti. Við vinkonurnar sátum reyndar til rúmlega fimm í dag og staðurinn sem er ekki lítill, var fullur af kaffielskandi fólki.
Eflaust er þessi snemmlokun covid-árunum um að kenna að einhverju leyti - en það gleður kaffihjarta mitt mikið að einhverjir góðir staðir séu opnir lengur ... sem minnir mig á að elsku Súfistinn í Hafnarfirði skellir endanlega í lás núna bara á morgun eða hinn. Fínustu kaffiminningar þaðan. Tók alla vega tvö viðtöl þar fyrir Vikuna áður fyrr, góður friður á efri hæðinni til að spjalla og kaffið auðvitað ferlega gott ... og terturnar, maður minn!
Hirðsmiður Skýjahallarinnar mætti stundvíslega klukkan 9.34 í gærmorgun - eftir að hafa gert íbúa á rangri hæð rúmrusk. Sá harðneitaði því að einhver Gurrí byggi þar. Verkefnin urðu fimm en ekki fjögur og eitt sérlega tímafrekt svo ég varð að skilja smiðinn eftir og hlaupa út í strætó til að komast í vinnuna á réttum tíma. Stundvísi er minn helsti galli ... ég er manneskjan sem mætti í partíin klukkan níu ef partíið átti að byrja þá. Restin af fólkinu mættti svo um tíuleytið í fyrsta lagi. Sýnist nýi vinnuveitandinn ekkert fúll þótt ég mæti hálftíma of snemma, það stendur þannig á strætó og ekkert mál að setjast niður yfir kaffibolla og spjalla. Ég vinn sem leiðbeinandi í íslenskuskóla fyrir útlendinga sem er ótrúlega skemmtilegt og alveg frábær skóli.
Tímafreka verkefni smiðsins: Það reyndist vera að setja hærri fætur undir sófann minn úr Dorma. Fæturnir fengust í Jysk (takk, elsku Ellen frænka, fyrir að finna þá fyrir mig, ég var svo viss um að það fengjust ekki aukafætur á sófa ...). Sófinn hækkaði um þrjá eða fjóra sentimetra ... en það kostaði líka tár, bros og takkaskó, eins og við segjum það upp á íslensku. Þegar við snerum sófanum við, til að koma honum á lappirnar nýju, var ég svo mikill eymingi að ná ekki að lyfta honum nóg, svo hægri afturfóturinn hreinlega brotnaði. Smiðurinn ákvað að skjótast í Jysk í Skeifunni og kaupa nýja - en þurfti að bíða í 20 mínútur fyrir utan, ekki opnað fyrr en klukkan 11! Hver hefði trúað því? Svo kom hann til baka, skrúfaði splunkunýkeypta fótinn (í öðrum lit en hinir) undir á meðan ég blikkaði elsku litháísku grannkonuna til að hjálpa okkur við að lyfta. Hún lyfti sófanum ein með smiðnum, sagði mér bara að slaka á, enda sterk kona, og nú er sófinn kominn í rétta hæð fyrir mig. Hnén eru ekki lengur uppi í höku á mér þegar ég sit þar, heldur er allt beint og fínt og ég svíf á fætur þegar ég þarf að standa upp. Munar öllu að fá þessa litlu hækkun ...
Mynd: Þarna sjást smiðurinn og eftirlitskötturinn hugumstjóri (Mosi) að koma nýjum fæti undir sófann svo hann verði nothæfur. Kannski fer ég að nenna að horfa á sjónvarpið núna. Ótrúlega margar þáttaraðir sem ég hef ekki séð ... m.a. Vigdís, Verbúðin, Game of Thrones ... ég veit, ég er hryllileg. Ein af fáum sem sá ekki sýningarnar Níu líf (Bubba) og Elly. Vona að þær hafi verið teknar upp og verði sýndar í sjónvarpi um páska eða jól.
Hann var um þrjár mínútur að koma fatahenginu upp. Þriðja tilraunin og sú sem heppnaðist. Ég sagði honum að ég skildi ekkert í þessu, að t.d. þroskaþjálfinn sem hefði reynt fyrst ætti nú samt að hafa gott lag á þrjóskum vegg með þessa menntun ... en hann hafi vissulega verið með afleita borvél. Harði veggurinn vafðist þó ekkert fyrir smiðnum og borvélinni hans (mini-loftpressa?).
Smiðurinn vildi meina að textinn í Stuðmannalaginu: Hvað er svona merkilegt við það ... að bora í vegg? væri ein allra mesta fölsun tónlistarsögunnar ever, því það væri heilmikið mál að bora í vegg og gera það vel. Það vissu smiðir. Ég trúi honum algjörlega og hef misst allt álit á Grýlunum sem sungu lagið ... nema auðvitað elsku Herdísi minni, fyrrum kórfélaga með meiru, sem ég hlusta daglega á í strætó. Næsta stopp er Höfðatorg ... osfrv.
Fatahengið (frá Jysk) er ljómandi fínt og ég sagði smiðnum að ég myndi eflaust bara hengja mína yfirhöfn þar og kannski tvo, þrjá trefla, bjóða frekar gestum að hengja af þeim inn í skáp því þetta væri ekki svo sterklegt. Þetta fatahengi þolir sko alveg 200 kíló, sagði hann hneykslaður ... svo ég er hætt við að vera með fjöldatakmarkanir í næsta afmæli.
Ég þarf samt að kaupa spartl og fylla upp í göt fyrri tilrauna (lélegra borvéla) og sækja málningu niður í geymslu og gera vegginn fínan, alla vega fyrir næstu jól. Svo er ég komin með vissa vatnslitamynd á betri stað, hún var ekki í flútti við aðrar myndir ... og það er líka komin rúllugardína í herbergið mitt. Nú ætti ég að geta sofið vel í komandi miðnætursól. Fimmta verkefnið var að laga læsinguna á hurðinni fram á gang, hann var losaralegur og ég alltaf hrædd um að ég myndi standa með hurðarhúninn í höndunum þegar ég væri að loka og drífa mig í vinnuna.
Mynd af fatahengi: Lengst til vinstri sést langi trefillinn sem ég heklaði um árið úr plötulopa. Hann er það hlýjasta og dásamlegasta sem til er og í raun er ég steinhætt við að hekla mér eiginmann.
Vinkonan sem rændi mér í dag í Skeifunni og flutti mig sérlega viljuga á kaffihús kom í leiðinni með ljómandi flottan appelsínugulan lampa handa mér - sem passar vel í eldhúsið (og bara hvar sem er). Það vantaði meiri birtu þar, hún vissi af löngun minni í lampa þangað, ég er birtusjúk, ekki síst eftir búsetuna í bjarta himnaríki, en hef svo sem alltaf verið það, alin upp á heimili þar sem þótti eðlilegt að væri sem oftast og mest dregið fyrir svo enginn sæi inn (arg) ... mér fannst þetta lokun á lífið og nöldraði endalaust yfir því (og geri enn sums staðar). Þá voru í tísku þykkar og miklar gardínur ... og frekar þykkir stórisar undir. Hér í Skýjahöllinni eru gardínur bara til skrauts, hanga til hliðar á stóra glugganum í stofunni, hvítar og nánast gegnsæar en samt gott að hafa þær og draga tímabundið fyrir ef sólin er með dólg. Ef ég þarf að striplast (mjög sjaldan, ég er dama) slekk ég bara ljósin. Væri samt spennandi að fá sérsveitina aftur í heimsókn.
Mynd: Appelsínuguli lampinn virkar svolítið skakkur á myndinni, afsakið, er búin að laga það, hann stóð ofan á snúrunni.
Kathleen Dehmlow - minningargrein (lauslega þýdd)
Kathleen Dehmlow (Schunk) fæddist 19. mars 1938. Foreldrar hennar voru Josep og Gertrude Schunk frá Wabasso.
Hún giftist Dennis Dehmlow í St. Anne-kirkjunni í Wabasso árið 1957 og eignaðist með honum börnin Ginu og Jay.
Árið 1962 varð hún ófrísk eftir mág sinn, Lyle Dehmlow og flutti til Kanada. Hún yfirgaf börn sín, Ginu og Jay, sem voru alin upp af foreldrum hennar, Gertrude og Joseph Schunk.
Hún lést 31. maí 2018 í Springfield og þarf nú að standa skil á gjörðum sínum fyrir æðri dómstól. Hennar verður ekki saknað af Ginu og Jay sem vita að veröldin er betri staður án hennar.
---
Spilað 850 milljón sinnum á Spotify, segir Facebook um lagið The Sound of Silence með Disturbed. Kemur ekki á óvart:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.4.): 1
- Sl. sólarhring: 47
- Sl. viku: 668
- Frá upphafi: 1524362
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 566
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni