Flumbrugangur og furðulegt greiðslumat

12. apríl 2024Verulega góður dagur að kvöldi kominn, öllu heldur kominn nýr dagur. Hér var vaknað fáránlega snemma, eða rúmlega átta, unnið, myndarskapast, drukkið kaffi og sitt af hverju afrekað með misjöfnum árangri. Nú er svo lítill þvottur alltaf, eftir að stráksi flutti, að það er til vandræða, en lítil rúmfatavél fór í gang (tíma- og vatnssparnaðartakkinn miskunnarlaust notaður), síðan handklæði og tuskur - en mér leið betur að setja báðar hálfu vélarnar saman í þurrkarann. Svona geta nú húsverkin verið gefandi. Ég er líka í sparnaðar- og sniðugleikaátakinu: Borðið úr frystinum og fann heilu fjársjóðina þar í dag. Frystipoki með tveimur sneiðum af sítrónukökunni úr Costco (sandkaka með sítrónubragði, hvað er sandkaka i google translate?) en hún er svo stór að við stráksi höfum ekki getað klárað og því leynast svona gleðipakkar víðs vegar í frystiskúffunni. Sá appelsínuguli reyndist vera þetta líka fína tagliatelle frá Eldum rétt. Orðið þítt um kvöldmatarleytið og þá hitað í örbylgjuofninum. Spennt að vita hvað þetta brúna er ... og hissa á öllu þessu frosna hakki úr Einarsbúð. Hélt ég væri svo dugleg að búa til lagsagne. Geymist ekki hakk nokkuð lengi?

 

Við Mosi lögðum okkur svo í klukkutíma seinnipartinn, eða svo, ef maður fær ekki sína átta eða níu tíma þarf að bæta sér það upp með góðum fegurðarblundi. Aldurinn? Leti? Kósíheit? Kötturinn að smita mig? Fannst þetta óheyrilega notalegt en það var svo sem ekkert rétt við að vakna svona snemma.  

 

GreiðslumatFyrirhugaðir eru flutningar í bæinn með tíð og tíma, eins og bloggvinir vita og ég ákvað að reyna á tölvusnilli mína og sækja mér greiðslumat en það þarf þegar um svona hluti er að ræða. Þetta væri víst ekkert mál, bara nota rafrænu skilríkin og samþykkja að app bankans leitaði logandi ljósi að öllum upplýsingum ... og kostaði sjö þúsund krónur - sem var gjafverð fyrir svona snilld. Ég fór eftir öllu og innan mínútu kom útkoman og sú var ekki beysin - sjá mynd! Ég gæti ekki einu sinni keypt mér hótelherbergi yfir nótt. Hvað þá lítra af mjólk. Ég hóf að hugsa málin sem ég geri stundum. Gat verið að launaseðlar ársins 1984 hefðu leynst þarna en útgjöld ársins í ár? Gat verið að störfin mín þrjú væru bara ímyndun? Glasgow-ferðin í fyrra draumur og Eldum rétt-sendingarnar bara óskhyggja? Ég horfði í kringum mig, á ríkmannlegt umhverfið ... fína RB-rúmið, rúmteppið úr IKEA sem Hilda gaf mér, kommóðuna frá Önnu undir sjónvarpinu, tekkskrifborðið sem ég fékk í staðinn fyrir gamla og flotta skrifborðshlunkinn, persnesku mottuna sem kostaði bara 13 þúsund, samt svo flott ... var þetta allt bara ímyndun og ég kannski ekki til, Matrix væri málið?

Mosi kom stökkvandi upp á skrifborðið til mín og mjálmaði í mótmælaskyni. „Taktu þig taki, kæra matmóðir,“ hvæsti hann og hóf svo að mala værðarlega sem kom vitinu fyrir mig. Ahhh, þetta bankaapp réði bara ekki við verktakagreiðslur, hugsaði ég og saknaði sáran launþegavinnu - ekki í fyrsta sinn. 

 

 

Ég tók upp risaeðlusímann (kostar ekkert að hafa hann) og ætlaði að hringja í bankann. Það heyrðust undarlegir skruðningar úr tólinu og ég sem var nýbúin að tengja nýja beininn (ráderinn). Ég sá að í einhverjum flumbrugangi hafði ég sett símasnúruna á rangan stað, vissulega réttum megin miðað við gamla beininn, en ekki í gatið þar sem á stóð PHONE á þeim nýja. Ég bætti úr því og hringdi í bankann. Indæla stúlkan þar var verulega hjálpleg í þessu 20 mínútna símtali og þá hafði ég ekki tekið eftir því að þessi 24 þúsund kall var í MÍNUS ... og sagði henni að ég hefði þann pening í greiðslugetu sem gæti hreinlega ekki passað. Flumbr, flumbr. Ég sagði henni að launagreiðslur mínar væri að finna þarna og allt væri gefið upp, að sjálfsögðu, ég er meira að segja með endurskoðanda til að allt sé rétt. Hafði svindlað á sjálfri mér árum saman af því að mér fannst svo mikið vesen að vera með verktakagreiðslur með og þurfa að fylla út kostnað á móti, svo ég gerði það ekki. Samstarfsmaður fyrrverandi, áður að vinna hjá Skattinum, var stórhneykslaður á mér og eiginlega honum að þakka að ég kom þessum málum í lag ... og fór að borga minni skatta, en rétta.

Þetta rugl minnir á örbylgjuofninn minn. Ég sagði við Davíð frænda þegar hann var í heimsókn hjá mér eitt skiptið, að þessi asnalegi örbylgjuofn væri svo mikill bjáni, að ef ég ræki mig í aðaltakkann yrði ég að láta ofninn ganga í þessa hálfu mínútu sem takkinn heimtaði og ef matur hitnaði kannski nóg á þremur mínútum og ég hefði stillt á fjórar yrði ég að bíta í það súra epli að láta tóman ofninn ganga þar til tíminn væri liðinn. „Hvað með þennan takka sem á stendur PAUSE/STOP?“ spurði frændi minn yfirvegaður að vanda.

ElshúsiðMér til varnar er takkinn lítt áberandi, í kös með fimm öðrum gagnslausum tökkum ... og mér hafði ekki verið litið svona neðarlega á ofninn. Svona getur nú verið flókið að vera húsmóðir.

 

Himnaríki lítur sérlega vel út núna, nánast eins og enginn búi hér, fyrirhugað er opið hús á þriðjudaginn, og þótt fólk horfi frekar á íbúðirnar sem það skoðar með sín eigin húsgögn í huga, hvar þessi sófi yrði nú flottur og slíkt, en ekki mín húsgögn, er miklu skemmtilegra að hafa allt fínt.

 

 

Ég lánaði kisubúrið mitt svo sennilega verð ég að fylla kettina af gómsætum blautmat, eftir að hafa leikið tryllingslega við þá með leiserbendli svo þeir steinsofi uppgefnir í opna húsinu og reyni ekki að vingast of mikið við fólkið sem kemur, en þeir eru stundum mjög ástreitnir, elsku gömlu fressarnir mínir sem sofa nú samt í ábyggilega 22 tíma á sólarhring.   


Sannleikurinn, alvörusystur og afmæli ...

Loksins einhver sem þorirSkemmtileg bæjarferð var farin í dag skömmu eftir hádegi. Síðasta opinbera heimsóknin okkar stráksa saman sem fósturmæðgin, má segja. Við hlið mér hinum megin við ganginn í strætó sat norsk kona, mjög indæl. Hún starfar sem leiðsögumaður í sex mánuði hér og er nýkomin til landsins. Hún er einna hrifnust af Austfjörðum en finnst landið samt allt fagurt og frítt. Hún er mikil prjónakona og langar mikið til að prjóna sér lopapeysu með lundamynstri en sagði að prjónakonur landsins vildu ekki selja henni uppskriftina, af ótta við að hún færi að framleiða peysuna og skemma bisness fyrir þeim. Eflaust hefur eitthvað slíkt gerst áður en þessi meinleysislega kona minnti á engan hátt á hannyrðaglæpón en vissulega leynast flögðin víða. Bílstjórinn var frá Kýpur, mjög indæll og almennilegur og keyrði eins og sá sem kann að keyra.

 

Myndin: Morgunblaðið þorir. Eini fjölmiðillinn sem fæst til að viðurkenna hvað janúar er ömurlega langur mánuður. Minnst 500 dagar!

 

Ástkær Hilda mín sótti okkur í Mjódd. Hún var skrítin á svip, starði lengi á mig áður en hún aflæsti bílnum svo við stráksi gætum sest inn. Svo sagði hún: 

„Hvaða „systir“ var þetta eiginlega sem hringdi í þig þarna um daginn og þú bloggaðir um (Erfitt símtal ...-færslan)? Ég hef hugsað málið en man ekki eftir neinum svona rudda í gjörvallri ætt okkar í marga ættliði, föður- og móðurætt! Varstu örugglega edrú að blogga?“

„Kommon, Hilda, þetta var hún Systa,“ svaraði ég, „Sigrún Sólmundína Haraldsdóttir, langelsta systirin.“

„Ó, Gurrí. Hún er kölluð Systa en hún er ekki systir okkar, svo er hún Hallfreðsdóttir, minnir mig, og var ein af ungu kunningjakonum mömmu. Hún kom nánast daglega í heimsókn, samt eiginlega bara þegar mamma var ekki heima, og stoppaði heilu og hálfu dagana, lagði sig stundum í stofusófann. Mamma var að verða brjáluð á henni. Hélstu í alvöru að hún væri systir okkar?“

„Gvuð ... hún bjó hjá okkur, sagði hún, þurfti samt að sofa í geymslunni, sagði að hún væri svona Oliver Twist í ættinni og ég grét yfir þeirri bók, hún sagði að þær mamma hefðu orðið ósáttar og síðan hefðuð þið, systurnar, hver af annarri, móðgast út í hana út af engu og hætt að tala við hana, ég vorkenndi henni svo mikið ... vá, ég hef gefið henni jólagjafir í áratugi ... ertu viss um þetta?“

„Jamm,“ sagði Hilda. Svo spurði hún hlæjandi: „Segir hún virkilega að við systurnar eigum eftir að deyja úr kurteisi?“

„Játs!“

„Hahaha,“ hló Hilda, „ég vil frekar drepast úr því en frekju og dónaskap. En eitt annað áður en ég keyri af stað, mjög áríðandi, ég fékk á tilfinninguna í gær að þú væri að flytja úr himnaríki vegna masóklúbbsins í sjónum fyrir framan ... þú veist, er það ekki, að þetta er bara sjósundfólk sem skrækir út af kuldanum, eðlilega?“

Ég horfði þolinmóð á hana, hún má bara halda þetta. Ég veit það sem ég veit. Kinkaði kolli í kurteisisskyni, ég dey úr kurteisi einhvern daginn.

 

Svo fórum við alvörusysturnar að erindast saman í dag en sumt af því er algjört leyndarmál ... ef þetta sumt gengur upp fer það svo sannarlega hingað á bloggið. Kemur allt í ljós.

 

Rétt fyrir miðnætti í gær, á allra síðustu stundu pantaði ég mat fyrir tvo - í tvo daga frá Eldum rétt. Eitthvað voða hollt og gott sem dugar mér alla vega í fjóra, jafnvel fimm daga. Kettirnir hafa bara áhuga á kattamat og kattanammi, ef verður afgangur bíða fuglarnir spenntir hérna við ströndina. Ég finn samt að ég borða minna eftir að stráksi flutti, hann svo mikill matmaður og sælkeri ... ef ekkert sætt er til (eins og núna) fæ ég mér bara skyr eða eitthvað slíkt ef ég er svöng.  

 

EinarElsku erfðaprinsinn, eins og ég kallaði Einar son minn hér á blogginu í denn, hefði orðið 44 ára á morgun, 12. apríl. Rúm sex ár síðan hann dó. Mér finnst afmælisdagurinn hans alltaf ögn erfiðari en dánardagurinn. Hef haldið mig heima þessa daga og fundist best að vera ein. Unnið í tölvunni, drukkið mitt kaffi og klappað köttunum. Ekkert hræðilegur dagur, alls ekki ... en þarf frið.

 

Við erum misjöfn, mannfólkið, ég gæti ekki hugsað mér að baka köku, hitta fólk, fagna þessum degi og rifja upp góðar minningar, en veit að sumum finnst best að fara þá leiðina til að tækla svona daga. Stundum vildi ég óska þess að ég gæti það, finnst það á einhvern hátt vera réttara ... en svo man ég eftir því að við erum mismunandi og mín leið er alveg jafnrétt og góð og leið allra annarra. Það var gott að átta sig á þessu og ég hef reynt að miðla þessu með fólki sem syrgir. Það var ansi óþægilegt og tafði mitt ferli þegar sumt fólk (ekki nákomið) var að segja, jafnvel án þess að hafa reynt það á eigin skinni, hvað væri rétt og hvað rangt í sorgarferli. Ég er afar heppin með fólkið í kringum mig og er heldur ekki dama sem er mikið fyrir drama ... sem hefur alltaf hjálpað í öllu.    


Sjálfspyntingar, játningar og bölvun althornsins

Félag masókista á fundiHeilmikið klúbba- og félagsstarf er á Akranesi, meira að segja nokkrir kórar. Ef ég hefði ekki verið bundin yfir barni (þar til í síðustu viku) hefði ég mögulega gengið í kirkjukórinn (besta tónlistin, ásamt Skálmöld), þann sem mamma var í og ég lærði að meta Stabat Mater eftir Pergolesi átta eða níu ára og var um svipað leyti bálskotin í hálfum Vínardrengjakórnum sem hélt tónleika á Skaganum.

 

Hér eru Oddfellow, Lions, Frímúrarar, leikfélag, siðprútt sjósundfélag, leikfélög grunnskólanna og Fjölbrautar, metnaðarfull miðbæjarsamtök og ... að ég held, Samtök masókista. Ég heyrði alla vega ekki betur núna þar sem ég sat við vinnu mína í dag með malandi ketti allt í kring og YouTube-tónlistarveituna mallandi undir. Samt heyrði ég hroðalegu skrækina inn til mín, beint úr Atlantshafinu! Mér varð litið til hægri eftir fyrstu skrækina og sá hóp fólks OFAN Í SJÓNUM, ÍSKÖLDUM KRAPASJÓ, eitthvað sem er vissulega alveg rakið fyrir sjálfspyntingarfólk en angrar okkur prúða fólkið við Jaðarsbraut. Ég tók meira að segja ljósmynd af hryllingnum en enginn er samt þekkjanlegur sem er miður, þá hefðum við íbúar hér getað forðast þessa hlekkjalóma, eins og Halldór fjandi kallar þau, NEMA auðvitað þetta sé utanbæjarfólk sem getur alveg verið en þau voru samt rosalega eins og heima hjá sér í klakaköldum sjónum. Hvað varð eiginlega um hljóðeinangraða kjallara? MYNDIN sýnir það sem ég þurfti að þola. Hvenær verða fundnar upp ljósmyndir með hljóði? Það væri svo miklu sterkara á blogginu, þar til ég læri að setja inn hreyfimyndir annars staðar en af YouTube.

 

7 ára bekkur í BrekkóOg þar sem ég sat og vann í dag mallaði tónlistarveita Youtube, eins og áður sagði, og valdi ofan í mig lög. Ég er með eigin lagalista, mjög fjölbreyttan, sixtís, næntís og frekar nýtt, rapp, rokk, popp, klassík en þegar hann er búinn heldur tónlistin bara áfram og ég fór meðal annars að heyra hryllingslög æsku minnar inn á milli. Það gæti hafa spillt myndatökunni af masófólkinu, hver getur haldið eða stillt fókus þegar skelfilega leiðinleg lög breyta vanalega rólegum taugum í gaddavírsstrengi? 

 

Myndin af barnahrúgunni sýnir sjö ára bekkinn minn. Ég er í stysta kjólnum (með svarta beltið, múahaha) og drengjakoll. Held að mömmu og pabba hafi langað í strák. Nokkrum árum seinna kom Bítlaplatan inn á heimilið. 

 

AlthornÞað var til ein Bítlaplata heima þegar ég var lítil, 45 snúninga og bara tvö lög. Öðrum megin var lagið Something og hinum megin Come Together. Bæði lög sem ég þoldi ekki, hvorki þá né nú. Kannski var þetta of mikil bylting frá elsku Sound of Music ... eða kannski eru þetta bara leiðinlegustu lög Bítlanna ásamt Yellow Submarine. En ég átti nú samt hroðalega æsku að hluta, ekki bara matarlega séð, heldur líka á tónlistarlegan máta.

 

 

Var látin ganga í lúðrasveit níu eða tíu ára, af því ég heimtaði pásu frá píanóinu, og allt í lagi fyrsta veturinn, þegar ég fékk að spila á trompet - en næsta ár á eftir var ég pínd til að færa mig yfir á althorn! Trompet er töff, eitt töffaðasta hljóðfærið, hlustið bara á byrjunina á Jólaóratóríunni, eða lagið Hel með Skálmöld og Sinfó ... Á Akranesi eru til samtök fólks sem óttast althorn og þessi eini og hálfi vetur sem ég var pínd til að spila á althorn í lúðrasveit, gerði mig afhuga öllu tónlistarnámi, svo bölvun althornsins sem maður las um í gömlu faraóabókunum er greinilega sönn. Ég væri eflaust enn að spila í lúðrasveitinni ef ég hefði akkúrat þarna, 11 ára, náð að verða hærri í loftinu en mamma. 

 

Himnaríki austurhliðÉg tók Bítlana reyndar í sátt þegar ég heyrði fyrst lagið Oh Darling og fór svo að meta þá að verðleikum löngu síðar þegar ég fór að spila lögin þeirra í útvarpinu. Ég er reyndar bara með Oh Darling á lagalistum mínum í streymisveitum en bæti við fleiri við tækifæri.

 

Úff. Þetta er greinilega kvöld játninganna og ég er ekki einu sinni full. Til öryggis er læst bæði uppi hjá mér og líka niðri ef æfir Bítlaunnendur sem vilja meina að ÖLL bítlalög séu góð, vildu láta mig heyra það. Ég er náttúrlega af 78-kynslóðinni sem byrjaði gelgjuna á Uriah Heep og náði ögn í skottið á Deep Purple fyrir tilstilli góðs tónlistarsmekks stóru systur. Fór nú samt til Liverpool fyrir ári og ætla aftur, á leik að þessu sinni, og þá sjá Bítlasafnið. Við höfðum ekki tíma síðast - þetta var um páskana og mikið til lokað þessa páskadaga, nema auðvitað á Anfield þar sem 2/5 hópsins áttu miða á leikinn við Arsenal. Sem klaufi á vissum sviðum internetsins hef ég enn ekki lagt í að kaupa áskrift að streymisveitunum en nú er YouTube-veitan nýorðin óþolandi eins og Spotify. Annaðhvort þarf ég að læra það eða dusta rykið af geisladiskunum.

 

Loftmyndin af himnaríki ... svo flottar drónamyndir fasteignasalans, ég rændi einni til að birta hér. Ef hún prentast vel má greina Ameríku efst fyrir miðju. Held að sé stutt í Opið hús í himnaríki (næsta vika) - stráksi fluttur og ekkert því til fyrirstöðu að sýna dýrðina. 

 

Í gærkvöldi hélt ég áfram að hlusta á söguna og nú er sorgmædda nýfráskilda konan farin að baka vöfflur frá grunni og notar ekta rjóma með en áður, þegar hún leysti af þarna í sveitinni sem hún flúði í, var notað vöffluduft með vatni og óekta rjómi úr sprautu. Það kæmi mér ekki á óvart að hún fari að keyra um á bókabíl og bjóða upp á vöfflur með bókunum, eða stofni kannski bakarí því hún fær miklu meira kikk út úr því að elda mat og baka en að fara að kenna aftur í grunnskóla. Í mat og kruðeríi liggur hamingjan greinilega ... vonandi líka hjá fólki í raunheimum sem kaupir Eldum rétt-mat og bakar bara Betty Crocker-kökur.     


Erfitt símtal, töfrateppið og komandi almyrkvi

ÞvottavélarmínútaSíminn hringdi svo reiðilega að hringjandinn hlaut að vera trylltur. Jú, jú, þetta var systir mín, ein af ótalmörgum. Sú sem kallar almenna kurteisi smjaður og segir reglulega við okkur hinar systurnar: „Þið eigið eftir að drepast úr tillitssemi og kurteisi einn daginn, kjánarnir ykkar,“ það er uppáhaldsmóðgun hennar í okkar garð. Hönd mín nötraði þegar ég svaraði. 

„Hvenær kemurðu næst í bæinn?“ byrjaði hún illskulega. 

„Uuuu, sennilega á fimmtudaginn,“ svaraði ég lafhrædd. Hvað hafði ég nú gert?

„Ég þarf að tala yfir hausamótunum á þér, þú sagðir síðast þegar ég talaði við þig að Katrín myndi pottþétt ekki fara í framboð og nú er hún byrjuð að ógna mínum manni. Varst þú ekki spákona hér einu sinni? Jafnvel völva Vikunnar? Ættir þú þá ekki að vita svona lagað?“ 

Ég andvarpaði. „Nei, aldrei spákona í alvörunni sko, bara samkvæmisleikur, í útvarpinu og svona ... svo myndskreytti ég með eigin andliti forsíðu Völvuvikunnar 2007 bara af því ég var komin með hrukkur í kringum augun, sú eina á ritstjórninni. Það þótti svo völvulegt. Ég ... ég var ekki að spá neinu um Katrínu, bara giska. Og hafði rangt fyrir mér,“ játaði ég.

„Bíddu, bíddu, var þetta kannski eitt stórt samsæri frá upphafi til enda af því að BB langði að verða aðal?“

„Nei, ætli það,“ svaraði ég þótt ég hafi nú heilmikla ánægju af almennilegum samsæriskenningum.

„Þú slappst við fangelsi enn og aftur,“ hélt hún áfram. „Finnst þér ekki ábyrgðarleysi af þriggja katta eiganda að gefa í þessa söfnun hjá þessum kerlingum þarna sem fóru til Egyptalands. Bara samsæri af hverju maðurinn, hvað heitir hann aftur, jú, Pabbi Diljár, fékk ekki að kæra þær í friði.“

„Ég hefði nú kannski fengið að hafa kettina með á Hólmsheiði,“ skaut ég glettnislega inn í. 

„Hrmpf,“ rumdi í henni. „En að aðalatriðinu, ég held að besti maðurinn hefði tekið þetta á endanum ef Katrín hefði ekki vogað sér að bjóða sig fram!“

Það væri gaman að vita hver af þessum rúmlega 50 körlum „hennar maður“ er. Ég þorði hreinlega ekki að spyrja til að hún springi ekki úr reiði yfir því - hann ætti vitanlega að vera minn maður líka. Blóðböndin og það allt.

„Dyrabjallan er að hringja, örugglega eitthvað mjög áríðandi,“ laug ég. „Ertu til í að hinkra í eina mínútu?

„Venjulega mínútu eða þvottavélarmínútu?“ spurði hún hranalega. „Nei, nenni því ekki. Kannski ég heimsæki þig bara á Skagann í næstu viku.

„Uuuu, ég ... verð flutt,“ svaraði ég í örvæntingu. 

„Nú, hvert? Ertu ekki nýbúin að setja himnaríki á sölu?“

„Ja, það er ekki komið á hreint hvert ég flyt, en hlutirnir eiga það til að gerast hratt, ég verð alla vega ekki heima.“

„Já, drífðu þig í að flytja svo maður sjái eitthvað annað en sorglega mörg kattavídjó á snappinu þínu. Ég hnerra orðið þegar mér verður á að kíkja á þau og er ekki einu sinni með ofnæmi. Eins gott samt að þú látir mig vita hvert þú flytur.“ 

„Já, hvað heldurð-“

Dididi ... Hún hafði skellt á, enn með heimasíma, bara til að geta skellt á aðra.

 

Fræg mottaFólki var nokkuð tíðrætt um forsetakosningar í gær en enn meira um afmælisdaginn minn í tilefni af deildarmyrkvanum. Eins og allir ættu auðvitað að vita, verður almyrkvi á sólu sem gengur yfir Norðurslóðir, austanvert Grænland, Ísland, Atlantshaf og Spán þann 12. ágúst árið 2026 sem er helsta ástæðan fyrir því að ég ætla að flytja úr himnaríki, þarf svalir sem snúa helst í allar áttir ... svo einhver tími að mæta í afmælið mitt. Ég er þegar byrjuð að safna rafsuðuhjálmum. Þetta verður fyrsti almyrkvinn sem sést (ef veður leyfir) frá höfuðborgarsvæðinu síðan 17. júní árið 1433, las ég einhvers staðar. Á þeim tíma voru enn einhver ár í að við Jón Sigurðsson fæddumst.

 

Mynd, ath. mottuna: Er á ýmsum fb-síðum um heimilisfínheit og í gær rakst ég á mynd sem tekin var á heimili eins af stóru tískuhönnuðunum, ekki þó YSL, en álíka frægs manns, er léleg í nöfnum. Teppið á myndinni hringdi bjöllum og loks í dag mundi ég hvar ég hafði séð það. Það var á mínu eigin heimili, undir gráa tungusófanum úr Jysk. Líkur sækir líkan heim, hugsaði ég hreykin, en í kringum 2020 öðlaðist ég loks mun betri heimilissmekk, takk, Guðný (hún hannaði breytingarnar í himnaríki). Það var þó ekki að hennar undirlagi sem ég festi kaup á þessu fína persneska teppi sem sést í hér hægra megin, og er með miða undir, framleiðsluland er Íran, sem sagt alvöru, alvöru en samt á ótrúlega góðu verði hjá Portinu í Kópavogi. Hvort þetta er teppi tískugúrúsins sem endaði á einhvern ótrúlega mergjaðan hátt fyrir algjöra tilviljun eða himneska íhlutun ... í himnaríki, veit ég eigi, en mér skilst þó að bankastjóri hafi átt hana á undan mér. Mögulega Alan Greenspan. Hann tók við embættinu daginn fyrir 29 ára afmælið mitt, svo ég útiloka nákvæmlega ekkert. Ýtið á myndina til að stækka hana - sjáið hvað þetta er líklegt. 

 

Ég er að lesa yfir afskaplega átakanlega bók um unga konu sem hefur misst manninn sinn og tekst á við sorgina á ýmsan hátt. Ekki nóg með það, bókin sem ég er að hlusta á fyrir svefninn er líka sorgleg, kona sem reynir að komast yfir svik (framhjáhald) eiginmannsins til margra ára, og er komin upp í sveit til að sleikja sárin ... og baka vöfflur. Mig grunar að báðar þessar bækur muni reynast ástarsögur sem bera þann boðskap að allir þurfi að finna ástina (ég er ekki að tala um ættjarðarást) til að geta mögulega verið hamingjusamir.


Kvendáðir, sjokkelsi og skemmtilegur leiðindaklúbbur

Gamli beinirinnHæfileikar og hetjulund tóku höndum saman í dag þegar ég drýgði sannkallaða dáð, miðað við að ég hef verið fórnarlamb of mikillar aðstoðar þegar kemur að símum, tölvum, interneti og slíku í gegnum tíðina. Þetta var eftir að indæll ungur maður frá Símanum tjáði mér í símtali að beinirinn minn (ráderinn) væri orðinn frekar máttlítill og best væri að sækja nýjan. Einbeitt og full af greind tók ég ljósmynd á gemsann af tengingunum áður en ég aftengdi, sótti nýjan beini og náði svo í stól til að þurfa ekki að bogra á meðan ég tengdi þann nýja, svarta. Það var eins og ég hefði unnið við þetta árum saman. Fumlaus vinnubrögð, hviss, bang, og sambandið við umheiminn hófst á nýjan leik. Tek það fram að ég skoðaði leiðbeiningarnar ekki fyrr en eftir á, of mikið testósterón kannski? Hnuss, hver þarf leiðbeiningar ...

 

Skutlast með okkurElskan hún Inga skutlaði okkur stráksa um víðan völl núna eftir hádegið, meðal annars í Omnis að sækja nýja beininn, og smáerindi áttum við hjá sýsla og á skattstofuna þar sem við fengum ótrúlega mikla og góða aðstoð, ekki í fyrsta sinn. Kíkti svo í örstutta heimsókn á Laugarbrautina og sá að stráksa gengur vel að koma sér fyrir. Afskiptasemin samt í þessum fósturmömmum ... „af hverju setur þú þetta ekki upp í eldhússkáp í stað þess að hafa það í poka hér?“ „Tæmdu nú þessa fjölnotapoka svo ég geti tekið þá til baka ...“ nöldr, nöldr ... Hann er nú samt nánast búinn að koma sér fyrir.

 

Nú er lífið í himnaríki orðið mun rólegra og það var bara eðlilegt og mögulega óhjákvæmilegt skref að ganga í fb-hópinn Dull Women Club, en er reyndar bráðskemmtilegur. Mun gefa mér tíma til að lesa sögur kvennanna sem þar skrifa - en það er ótrúlega mikið að gera hjá mér þótt ég sé bara í einni vinnu akkúrat núna, er mun oftar í þremur vinnum.

 

Allir ættu að eiga sjúkraþjálfara að vini sem sannast alltaf annað slagið ... ég hef verið að drepast í gömlu íþróttameiðslunum (í alvöru, skokkklúbbur í denn og teygði til óbóta, vitlaust), og haltrað vegna verks í annarri hásininni. Inga stakk upp á Voltaren-kremi og það virkar svona líka vel, bólgan hefur minnkað um alla vega helming. Hún ráðlagði mér líka (áður) smáhækkun undir hæl sem virkar líka, það er enn svolítið sárt að ganga en mun skárra. Látið samt Ingu vera, HÚN ER MÍN, finnið ykkur ykkar eigin sjúkraþjálfara!

 

Keli og EsjanNý könnun Maskínu um fylgi forsetaframbjóðenda: 

1. Katrín 32,9%

2. Baldur 26,7 

3. Gnarr 19,6

4. Halla T. 7,3 

5. Halla Hrund 5,7

6. Arnar Þór 3,2

7. Steinunni Ólína 1,9

8. Ástþór 0,6

9. Sigríður Hrund 0,5

10.Helga 0,4

11.Guðmundur Felix 0,2

12.Hinir 1.0% 

 

Einhverjir frambjóðendur þarna hljóta að vera í sjokki, búið að skora á þá, segja þeim að þeir eigi fullt erindi á Bessastaði og muni pottþétt hljóta kosningu. Aðrir þurfa ekki einu sinni hvatningu, bara vita. Eitt sinn trúði ég vinkonu sem sagði mér að viss maður væri svakalega skotinn í mér, það sæist langar leiðir, og það gladdi mig svooooo mikið. Áður en mér tókst að gera hann að næsta eiginmanni mínum var hann byrjaður á föstu með annarri! Hnussss.

 

Ó, hve ég sakna Herberts Hnausdal sem bauð sig fram til forseta fyrir tólf árum á Facebook. Kosningaloforð hans voru fín. Hann ætlaði að hafa Dorrit áfram á Bessastöðum, hækka kjörþyngd fólks, hafa kvenkynsbílstjóra hjá embættinu og margt fleira skemmtilegt. Hann bað auðmjúkur um að fólk léti flekkað mannorð hans vegna landabruggunar ekki skemma fyrir honum.  


Gefandi fésbók - forsetastóllinn freistar

ForsetaframboðVanræksla mín í tengslum við Fréttir af Facebook, hefur verið mikil síðustu vikurnar og án efa margir saknað þess þótt enginn hafi svo sem komið að máli við mig. Talandi um það ... Nánast hver einasti dagur ber með sér nýjan frambjóðanda til forseta. Nú er svo komið að þrjú frækin og frábær ættu, ef ég fengi að ráða, helst að skipta með sér embættinu. Enn fjasar fólk um fjölda framboða á feisbúkk, sumir segja að haft hafi verið samband og skorað á þá ... allt í gríni auðvitað. Í dag mátti lesa þessa dásemd á fb-síðu dr. Gunna:

Skil svo sem að forsetastóllinn freisti margra. Laun 2.950.000 á mánuði (á eftir að hækka) -  1.686.783 í vasann. Maður hirðir það ekkert upp úr gögunni. Allskonar aðstoðarfólk, frítt húsnæði og allavega tveir bílar. En þetta er djobb sem maður er í allan sólarhringinn og þarf að vera væminn og passa sig að móðga engan. Ég hef legið í úlpunni í 5 mínútur og komist að þeirri niðurstöðu að ég bjóði mig ekki fram. Þakkir fá þeir þrír sem komu að máli við mig.

 

London 2019Fésbókin minnti mig á (Á þessum degi fyrir fimm árum) að það er afmælisdagur Halldórs fjanda, en röð tilviljana færði saman þrjá vini (ja, eða fimm, ég elska Lunu og Monu) þennan dag árið 2019, Í LONDON af öllum stöðum. Ég var í árshátíðarferð með Birtíngi, Halldór á ferðalagi, eins og svo oft, og Anna líka svo sem. Ég hafði haft veður af fjanda þarna svo ég pakkaði til öryggis niður afmælisgjöfinni hans, eða væminni jólakúlu með mynd af Trump forseta, eitthvað sem ég vissi að hann kynni vel að meta. Keypti að sjálfsögðu eina slíka handa sjálfri mér og nýt hennar um hver jól. Þar sem hótelið mitt var mjög svo miðsvæðis (beint fyrir neðan Oxford-stræti) var ákveðið að hittast á veitingastað á móti hótelinu, borða saman (úti, það var svo hlýtt) og njóta samverunnar. Auðvitað var hann með Lunu og Monu sínar með, hundar eru alls staðar velkomnir nema á Íslandi.

 

Á þessum degi fyrir 4 árum:

7. apríl 2020, deilt með Vinir þínir: (hmmm)

Ég hef farið á 14 af þessum 15 tónleikum. Hvaða tónleikar eiga ekki heima á þessum lista?

Himnaríki1. Travis - Laugardalshöll

2. Sting - Laugardalshöll

3. Dúndurfréttir - Gamla kaupfélagið, Akranesi

4. Björk - Laugardalshöll

5. Rammstein - Laugardalshöll

6. Nick Cave - Hörpu

7. Grave Diggaz - Nasa

8. London Simphony Orchestra - Royal Albert Hall (Tchaíkovskí)

9. Páll Óskar - Bíóhöllin Akranesi

10. Uriah Heep - Hótel Ísland

11. Jethro Tull - Íþróttahúsið við Vesturgötu, Akranesi

12. Elton John - Laugardalsvelli

13. Megadeth - Nasa

14. Metallica - Egilshöll

15. Egó/Grýlurnar - Hótel Borg

Mörgum fannst ólíklegt að Grave Diggaz eða Megadeth hafi höfðað til siðprúðrar miðaldra yngismeyjar en báðir tónleikar voru dásamlegir (Takk, elsku Lalla). Verð að viðurkenna að ég átti í mestu vandræðum með að finna fjórtán tónleika ... held að það séu eiginlega bara einu tónleikarnir í lífi mínu, nei, reyndar Vínardrengjakórinn í Akraneskirkju þegar ég var lítil, skagfirskir sætukarlar í Tónbergi á Akranesi eitt árið, sem ég hafði gleymt þarna. Svo man ég eftir Mánum í Laugardalshöll flytja Thick as a Brick (Jethro Tull) þegar ég var 13 ára, man eftir Egó líka í Laugardalshöll ... en það gætu hafa verið 16. júní-tónleikar sem voru oft, margar hljómsveitir þá í einu. 

Þeir tónleikar sem ég fór ekki á, þarna á listanum, voru með Nick Cave ... og elskan hún Sunna giskaði rétt þar, ég er nefnilega alveg týpan til að elska Nick Cave. Lagið hans Henry Lee af Murder Ballads-plötunni er eitt af mínum allra mestu uppáhaldslögum.

 

Elsku KeliReyndar ekki af Facebook:

Elsku Keli rak upp ógurleg óhljóð áðan. Bæði Mosi og Krummi fengu áfall og störðu fram á gang, ég sat við tölvuna við vinnu mína og fékk ábyggilega enn meira áfall en þeir. Loks, 10 sekúndum síðar, þegar ég hafði hleypt í mig kjarki til að koma að honum í andarslitrunum (hann er 14 ára gigtarsjúklingur) sat hann hinn rólegasti og horfði annað slagið illilega á einn þríhyrningslaga gluggann sem snýr í norður Langisandur er í suður, sem gnauðaði svolítið í. Sjá mynd af himnaríki úr lofti, þar sjást norðurgluggarnir. Annaðhvort fór hljóðið svona í taugarnar á Kela eða honum hefur leiðst svona svakalega. Gaf honum verkjalyf í fyrradag, mögulega þarf hann aftur núna ef hann var að kvarta yfir verkjum. Fyrstu árin hér í himnaríki þorði hann varla að mjálma, svo hvekktur var hann eftir dularfulla en erfiða fortíð, þrátt fyrir átta mánaða dekur og áfallameðferð í Kattholti. Hann er nánast farinn að láta fara vel um sig á andlitinu á mér á kvöldin og mala mig í svefn, svo breyttur er hann, og algjör nautnabelgur. En svona kveinstafir eru ekki líkir honum. Með vindinum kemur kvíðinn, segir í laginu ... það gæti átt við Kela. Hann fannst í poka ofan í gjótu í Heiðmörk í desember, átta mánuðum áður en við Einar sóttum hann í Kattholt, hver veit hvað svona gnauð merkir hjá honum, en ég lokaði glugganum alveg.

Myndin af honum var tekin eftir lætin, liggur sallarólegur og virðist allt í fína lagi með hann. Eins og sjá má vel ég gæludýrin mín ætíð í stíl við rúmteppi, innréttingar og annað ...  

 

Síðasta Facebook-dæmið tengist svokölluðum tribute-böndum, hljómsveitum sem hafa verið stofnaðar sem virðingarvottur við vissar sveitir og leika tónlist þeirra. Nærtækt dæmi er hljómsveitin Deep Jimi and the Zep Creams. Svo man ég eftir ágætu Bítlabandi sem nefndi sig Beatnix, ef ég man það rétt. En á einni tónlistarsíðu var fólk beðið um að nefna flottustu tribute-böndin (er ekki til íslenskt almennilegt nafn á þetta?) Sjálf gat ég ekki stillt mig um að láta vita af Deep Jimi-bandi okkar Íslendinga ...

 

Hér eru nokkur skemmtileg nöfn sem komu upp: 

Are We Them? (REM)

Björn again (ABBA)

Red Hot Chilli Pipers (sekkjapípuband)

Earth Wind for Hire 

Take this

Black Abbath (B.Sabbath með ABBA-ívafi, fylgdi sögunni)

Hairway to Steven

Whole Lotta Led

Think Floyd

Manic Street Teachers

Simon & Garth´s Uncle


Tinder ... nei, takk

ForsetiDagurinn í dag fer í að gera himnaríki að mínu ... þannig séð. Þið vitið eflaust, kæru bloggvinir, að unga fólkið fleygir rusli í ruslafötuna án þess að horfa á hvert það lendir, það sprautar tannkremi ofan í skúffuna fyrir neðan vaskinn á baðinu, án nokkurrar miskunnar og ákveðið máttleysi kemur yfir annars verulega myndarlega húsmóðurina sem nú er búin að taka bæði ruslaskápinn og baðskúffuna ærlega í gegn, betur en nokkru sinni. 2020-hreingerning, heitir það á þessu heimili, því skápar og skúffur komu splunkný og sérsmíðuð hingað í stóru yfirhalningunni það ár og þessi svæði virðast orðin ný. Nú þarf ég að gefa bæði kommóðu og hillur, ásamt stórri leðurpullu sem var allt of stór í stofuna hér (fékk hana gefins) og stráksi heimtaði að fá að eiga ... en ekkert pláss heldur fyrir hana í litlu íbúðinni hans. Grisjunin er hafin, allt of mikið safnast hingað á örfáum árum, en ef / þegar ég flyt ætla ég bara að hafa það sem ég vil eiga ... losa mig við hitt sem safnast bara fyrir í haugum. Vonandi fer ég í sama gribbugírinn og ég var í 2020 þegar ég gaf hátt í helminginn af öllu sem ég átti í kringum endurbæturnar ...

 

Myndin tengist færslunni ekki á nokkurn hátt, villur í texta (grjóthaltu og fleira) og ljótt orðbragð ... en fyndin samt. Já, ég er manneskjan sem fer helst ekki inn í búðir sem heita t.d. Mamma Veit Allan Skrambann út af misnotkun á hástöfum. Ótrúlega margir staðir sem láta skiltagerðarmanninn ráða ... 

 

Stráksi malar af sælu og hamingju yfir nýja heimilinu, sem gleður fósturmömmuhjartað mjög. Öll sem þar vinna eru svo góð við hann svo hann mun blómstra. Vissulega tómlegt og skrítið að hann sé fluttur en hann er auðvitað ekkert farinn úr fjölskyldunni og mun t.d. halda jólin með okkur eins lengi og hann kærir sig um. 

 

TinderHeyrði í gamalli og góðri vinkonu nýlega. Hún spurði hvort ég ætlaði ekki að skella mér á Tinder fyrst ég væri ekki lengur með fósturbarn. Hún hló að heigulsskapnum í mér þegar ég viðurkenndi fyrir henni að ég hefði aldrei skráð mig þar. (Prófaði einkamal.is í nokkrar vikur þegar ég var að verða fertug, og við það lauk æsku minni og sakleysi). Hún er ögn meiri hetja en ég og hefur alveg farið á nokkur stefnumót. Hún fór að hlæja þegar hún sagði það og sagðist ætla að kíkja í heimsókn til mín við tækifæri til að segja mér nokkrar góðar sögur af misheppnuðum stefnumótum. Þetta væri skrautlegur staður en hún ætlar samt að halda áfram að vera þar, sagði hún. Eitt sinn ákvað hún að hitta mann á veitingastað. Hann hafði verið mjög skemmtilegur á meðan þau spjölluðu saman á netinu svo hún hlakkaði til að hitta hann. Hún hvorki reykir né drekkur, svo það komi nú fram, en þegar þau voru nýsest við borðið rauk hann aftur út til að reykja. Svo drakk hann einhver ósköp af víni á milli þess sem hann fór út að reykja, sem var nokkrum sinnum á meðan þau borðuðu. Starfsfólkið horfði samúðaraugum á vinkonu mína sem sat meira og minna ein við borðið. Svo skildi hann ekkert í því að hún hafi ekki nennt að hitta hann aftur. Hann má þó eiga það að hann stakk ekki upp á við hana að skipta reikningnum í tvennt, eins og einn sem ég þekki gerði, konan sem hann fór út með, á bar, drakk bara kaffi en hann nokkra bjóra og vildi endilega að þau skiptu með sér reikningnum, sú kona hætti hreinlega að vera skotin í manninum fyrir vikið, hafði ekki átt von á svona ósvífni og nísku frá þessum glæsilega manni ... 

Svo heyrði ég af manni sem kynntist indælli konu, einstæðri móður, á Tinder og spjallaði mikið við hana á netinu. Hann var þrælspenntur fyrir henni og þau ákváðu að hittast eftir nokkurra vikna spjall. Hann ákvað að bjóða henni í rómantískan kvöldverð heima hjá sér og vandaði sig mikið við eldamennskuna. Kertaljós, rauðvín og góður matur. Hún mætti ... með börnin sín með sér, tvö eða þrjú, og sagði við þau: „Segið halló við nýja pabba ykkar.“ Maðurinn fór alveg í flækju en lét ekki á neinu bera fyrir framan börnin, fann meiri mat, lét rauðvín og kertaljós hverfa og þau borðuðu saman. Þegar þau voru farin heim talaði hann við hana og sagði að svona gæti hún ekki gert, þau væru í raun bara vinir, hefðu verið að hittast í fyrsta sinn og hún gæti ekki gert börnunum sínum þetta ... hann hefði ekki áhuga á að hitta hana aftur. Hún hundskammaði hann fyrir að gera börnum hennar þetta, þau hefðu hlakkað svo til að hitta nýja pabba ... Hún hafði víst spurt hann í fyrra spjalli þeirra hvort hann gæti hugsað sér að vera í sambandi með konu sem ætti börn, hann svaraði því til að börn væru ábyggilega ekki fyrirstaða ef hann væri ástfanginn, svona almennt, ekki börn konunnar, enda höfðu þau ekki hist þegar þetta barst í tal.

Ég vona að ég muni þessa sögu nokkuð rétt. Auðvitað er fullt af allílæ-fólki innan um en ég tek ekki sénsinn. Hugsa sér að hitta greindan, fyndinn og frábæran mann þar og svo tæki hann uppkominn börn sín með sér á stefnumót með mér ... og væri alltaf úti að reykja með þeim. Hvað myndi starfsfólkið á Galito halda?

 

Ég held frekar áfram að ná mér í menn í Einarsbúð á föstudögum á milli 18 og 18.30 við grænmetiskælinn hjá bananastandinum. Þar er oft ágætt úrval karla og erfitt að velja, en Akranes er frægt fyrir fjóra hluti, ekki bara þessa þrjá fyrstu: Fallegar konur, góðar kartöflur, æðislega fótboltamenn ... og suddalega sæta menn sem er það fjórða. Það er verið byggja á milljón hér svo piparjúnkur landsins, komið bara hingað í karladýrðina, svo er Einarsbúð alveg æðisleg að öðru leyti, ég fer varla í Costco lengur, því allt það besta þaðan fæst þar (nema gómsæta sítrónuformkakan).  


Furðuframboð, flutningar, fyllirí ...

FlytjaSkilaboð í kvöld: „Ertu full? Mjög full?“ Ég dæsti og fór að hugsa. Hvað hafði ég gert systur minni fyrst hún dirfðist að ásaka mig um annað eins. Ég er ekki einu sinni hálfnuð með pínulitlu Beilísflöskurnar sem ég hrúgaði (tíu) í körfu í fríhöfninni eftir Glasgow-ferðina Á SÍÐASTA ÁRI. Þekkjandi þankaganginn áttaði ég mig á því að hún hélt að ég hefði drekkt sorgum mínum yfir því að vera orðin einsetukona í fyrsta sinn í sjö ár og einn mánuð. Jú, stráksi flutti nefnilega á besta stað í heimi í dag, fékk litla stúdíóíbúð í íbúðasambýli, með fæði og þjónustu, nálægt miðborg Akraness og hinni sundlauginni - og kvaddi himnaríki klukkan rúmlega tvö í dag. Þrír sérlega myndarlegir menn komu frá Akraneskaupstað til að aðstoða við að flytja rúmið hans (það þurfti að skrúfa höfðagaflinn af), einnig sjónvarpið stóra í stofunni sem ég gaf honum (eftir að ég hætti að nenna að horfa að mestu, eitt nægir) og fína tölvuleikjastólinn. Annað hafði hetjan hún systir mín (hún getur verið svo næs líka) aðstoðað okkur við að flytja og ganga frá í gær, sem gladdi skytturnar þrjár aldeilis svaðalega í dag. „Bara eitt rúm, sjónvarp og stóll? Jessssss,“ veinuðu þeir ofsaglaðir, enda frekar fúlt að hoppa margar ferðir upp á þriðju hæð og svo niður með kannski eitthvað þungt í fanginu. Það allra léttasta gleymdist nú samt, eða fjarstýringin að sjónvarpinu. Inga kom eins og frelsandi engill og aðstoðaði okkur með restina sem var nú ekki svo mikið. PS5 og annað slíkt sem mátti alls ekki flytja í gær ... Litla sjónvarpið úr herbergi stráksa flytur búferlum í Kópavog plús margar Syrpur en fram að sölu himnaríkis hef ég ágætis not fyrir aukaherbergi og hef einsett mér að breiða nokkuð úr mér. Vantar mig vinnustúdíó, íþróttaherbergi, kaffihússherbergi, kattasvítu? Ó, svo margir möguleikar ... svo skammur tími ...

 

Keli og hafiðÁ meðan ég eldaði síðustu kvöldmáltíðina í gær, heyrði ég hljóð sem gátu ekki táknað annað en að stráksi léti eins og bestía eða óhemja (orðin sem mamma notaði í denn á okkur). Gemsinn hans hafði frosið. Ég hækkaði ögn röddina, bað hann að koma með ónýta drasl-ógeðs-ömurlega gemsann, ég skyldi redda málum. Hafði gúglað: Frozen iPhone X og fékk upp fína skýringarmynd.

Ýtið á hækka-takkann og sleppið, ýtið á lækka-takkann og sleppið. Ýtið síðan á slökkva-takkann (hægra megin) og haldið honum inni þar til eplið sést.

 

Þetta snarvirkaði, stráksi tók gleði sína og heldur að ég sé símasnillingur, klárari en Davíð frændi jafnvel ... Mér datt ekki í hug að leiðrétta það.

 

Stráksi (20) var hjálplegur og alveg sáttur við allt saman þótt hann hafi ætlað að búa hjá mér alla vega til 57 ára aldurs, hafði sagt það síðustu árin. Það hefði svo sem verið kúl fyrir mig að verða hátt í hundrað ára, ég meina sjötug, orðið að halda mér á lífi og vera eldhress sem fósturmamma, og stórgræða í leiðinni t.d. með því að missa ekki af því þegar Georg litli tekur við sem konungur í Bretlandi og þegar Pútín verður kjörinn forseti í fimmtugasta skiptið og ... alls konar. Talandi um það ... Hver ætli verði næsti forseti Íslands? Þetta er furðulegasti aðdragandi forsetakosninga sem ég man eftir ... með ólíkindum, eða var þetta kannski svona fyrir átta árum og ég fljót að gleyma? Fólkið á fb segir að Gnarrinn taki þetta auðveldlega ... að Katrín sigri ef hún býður sig fram ... að auðvitað verði Baldur forseti ...

Bara svo innilega leiðinlegt að sjá sumt fólk sem heldur t.d. með ónefndum frambjóðanda, rakka niður aðra frambjóðendur. Ég veit ekkert um viðkomandi, minnir bara að hann aðhyllist samsæriskenningar en væri frekar til í að vita meira um hann en eitthvað ljótt um hina. Mér hefur samt þótt prúðmennskan almennt ríkjandi nema þarna hjá þessum fyrrnefndu.  

 

Verkefni eru næg þótt elsku fóstursonurinn sé fluttur ... svo sennilega breytist ég, í öllum þessum friði sem mun áreiðanlega ríkja hér, í algjöran vinnualka sem lyftir sér upp með því að snúa höfðinu stöku sinnum til hægri þegar öldurnar eru sem háværastar við Langasandinn. Ein brimskvetta á við besta samkvæmislíf. Kaffi og kettir á kantinum ... dásemd. Svo þarf einhver að finna upp Eldum hollt fyrir einn-heimsendingarþjónustu (með engum hnetum, möndlum, döðlum og rúsínum ... ég mun seint fyrirgefa Eldabuskunni fyrir að troða RÚSÍNUM í brokkolísalatið án viðvörunar og kaupi tæplega páskaegg frá vissu fyrirtæki aftur út af verulegum rúsínuhremmingum páskana 2024).


Óvænt viðreynsla, páskaeggjarugl og strætósvik

Himnaríki mars 2024Tungumálakunnátta er ótrúlega mikilvæg, það sannaðist í gærmorgun svo um munaði. Við stráksi vorum á leið í strætó, fermingarveisla klukkan þrjú og svo páskamáltíð hjá Hildu daginn eftir. „Góðan dag,“ sagði ég við manninn sem kom út með rusl um leið og við. Stráksi henti poka frá okkur og sagði svo „Djin dobre“ við manninn - sem er góðan daginn á pólsku. Sá gladdist, enda pólskur, og til að gleðja hann enn frekar benti ég út á stoppistöð og sagði: „Átóbúss, Reykjavík,“ og benti á okkur stráksa og svo í áttina að strætóstoppistöðinni á Garðabraut. Glöggir blogglesendur átta sig sennilega á því að átóbúss er pólska orðið yfir strætisvagn.

„Ha! Eruð þið að fara til Reykjavíkur?“ spurði pólski frábæri granni minn til sautján ára. Við héldum það nú, Reykjavík, Kópavogur, skiptir ekki máli, hugsaði ég en minntist blessunarlega ekki á Kópavog. Við glöddumst óheyrilega þegar hann sagðist líka vera á leið í bæinn og hvort við vildum ekki fá far. Þegar leið 57 var að nálgast Mosfellsbæ ókum við eins og almennileg fólk á drossíunni að húsi systur minnar í Kópavogi ... þar sem granninn henti okkur stráksa út á ferð til að hjólkoppunum yrði ekki stolið. „Ránið var í Hamraborg!“ reyndi ég að hrópa, „alveg í sjö mínútna akstursfjarlægð héðan,“ en granninn hélt öskrandi beinustu leið í öryggið í Breiðholti, með allar dyr læstar. Ég reyndi að vara hann við hinni tiltölulega nýlegu sérsveit Ríkislögreglustjóra sem gasar, handtekur og gargar á allt útlenskt, ýmsar mæður, konur yfir sjötugt og suma á Toyotu, hefur mér skilist. En granninn uppfyllti svo sem bara tvennt af þessu. Og svo var örstutt í Breiðholtið svo hann slapp alveg örugglega.

 

„Gleymduð þið páskaeggjunum ykkar heima?“ sagði systir mín skelfingu lostin.

„Það koma samt alveg páskar,“ reyndi ég að ljúga ... en eftir frábæru fermingarveisluna sem fór fram nánast í Salalaug (efri hæðinni) stoppuðum við í verslun á heimleiðinni. Tvö páskaegg þurfti að kaupa til að kæmu páskar. Ég keypti mér rísegg númer fjögur og draumaegg númer fjögur handa stráksa. Þetta var annað páskaeggið mitt en fimmta hans stráksa sem hafði fengið tvö í afmælisgjöf og unnið eitt í bingói í skólanum. 

 

Dyggð er gulli dýrmætariÍ morgun þegar systir mín rétti mér páskaeggið mitt áttaði ég mig ekkert á því að þetta væri rísegg númer níu ... og hakkaði hluta þess í mig í morgunverð. Sjá mynd af málshættinum þar. Heimilismeðlimur á unglingsaldri átti víst að fá það páskaegg. Þetta var einn allra besti bröns sem ég hef fengið. Óborganlegur skelfingarsvipurinn á systur minni gerði þessi tilvonandi níu aukakíló mín alveg þess virði þegar hún uppgötvaði mistök sín. Betri gat páskadagur varla orðið. Svo biði mín hvítt páskaegg í himnaríki um kvöldið ... ef ég kæmist heim. Spáin var helst til of spennandi fyrir suðvesturlandið líka en þó engar gular viðvaranir.

 

Lambalærið í kvöld var ekki bara gott, heldur stórfenglega gott. Matur klukkan átján og strætó klukkan tuttugu, það var mergjuð áætlun. Ég fylgdist í laumi með rokkandi hviðum (32-37 m/sek) og tilkynningum á Klapp-appinu ... stressuð vegna kattanna. Maturinn myndi ekki duga þeim mikið lengur en út kvöldið, kattahvíslarinn minn fyrir vestan á Aldrei fór ég suður og Inga í sjóðheitu loftslagi (15-20°C, hugsa ég, aumingja hún, mætti ég frekar biðja um -2°C ... feels like -11°C).

 

Strætó bs kl. 22.31Davíð skutlaði okkur í Mjódd kl. 19.45. Ég hafði fylgst með leið 57 annað slagið akandi alla leið frá Borgarnesi og var því nokkuð viss um að áttavagninn færi, eða 19.59-vagninn. Engin tilkynning á klappinu um að fyrri kvöldferðin færi ekki vegna veðurs. Svona tíu mínútur í átta sá ég mér til furðu að leið 57 var komin í Mosó og stefndi nú til Akraness aftur ÁN VIÐKOMU Í MJÓDD!!! Og án okkar stráksa. Hviður voru vissulega í 37 m/sek þá en lækkuðu svo niður í 32 nokkru seinna. Þetta er ekki heigulsskapur hjá Strætó bs. Fyrirtækið er ótryggt ef eitthvað kemur fyrir vagn og farþega þegar hviður fara yfir 30 m/sek. Ég var samt mjög spæld. 

Hvað er þetta? sagði ég greindarlega við frænda, nú þyrfti ég sennilega að auglýsa eftir fari með einhverjum á leið á Skagann. Mér datt ekkert annað í hug. Dýravinurinn knái sagði: „Ég nenni ekki að bíða eftir vagni sem fer í öfuga átt,“ svo ók hann af stað áleiðis til Akraness. Við stráksi bókstaflega möluðum af feginleika fyrir hönd Kela, Krumma og Mosa. Það er vissulega ólíkt mér að vera ekki með plan B fyrir kettina, skilja eftir enn meiri mat en þarf og stóra skál fulla af vatni í eldhúsvaskinum ef rafmagnið færi nú af og stóri vatnsbrunnurinn myndi hætta að virka. Mögulega í fyrsta sinn sem ég gerði það ekki.

 

Myndin sýnir hvernig Strætó bs fór með okkur. Nákvæmlega ekkert að finna um að ferðin kl. 19.59 félli niður, bara gert ráð fyrir gáfuðum farþegum eins og mér, sem fyndi sjálf út úr þessu. 

- - - - - - - - - - - - 

Daðrað á snappiEf ég væri ekki svona fróm manneskja (sem ég varð eftir að ég hlustaði á Die Sieben Worte Jesu Christi am Kreuz eftir Heinrich Schütz sem feisbúkkvinur með þennan fína tónlistarsmekk deildi á föstudaginn langa) hefði ég flissað glaðlega en örlítið hlessa yfir algjörlega óvæntri viðreynslu á Snappinu aðfaranótt páskadags (skömmu eftir miðnætti). Sá að einhver maður, undir algengu íslensku föðurnafni, hafði sótt um snappvinskap við mig þar og ég samþykkti því þetta hlaut að vera bróðir vinkonu, gamall vinnufélagi eða skólabróðir - og átti ekki von á að birtist í hvelli eftir samþykkið: 

„Hæ, hvað ertu gömul?“

„Ég gæti verið amma þín.“ (Virkaði eins og spurning frá 14 ára strák og ég vildi bara losna við hann) 

„Láttu ekki svona, ég er þrítugur, en þú?“ 

„Ok, ég er xx.“ (Sagði réttan aldur minn sem sést eingöngu á prenti á afmælistertu minni í ágúst ár hvert, ég varð samt að fæla barnið frá)

„Ég er að leitast eftir eldri glæsilegum konum. Þær eru langbestar. Hvernig lítur þú út, ef mér leyfist að spurja? Ertu gift?“

„Ég er harðgift,“ hvæsti ég grimmdarlega með fingrunum.

„Ég er það líka. Hef gaman af því að leika mér.“ 

Svo tók ég skjáskot af samtali okkar, bara til að Hilda systir tryði mér, hún heldur að ég eigi ekki nokkurn einasta séns lengur, ég er svo miklu, miklu eldri en hún og á að auki þrjá ketti. 

„Mikið er lúalegt af þér að taka skjáskot!“ (Hann var samt ekki undir nafni svo ég hefði aldrei getað fundið hann (og kýlt)).

Mig langaði að svara: „Mikið er lúalegt af þér að svíkja konuna þína svona, farðu til fjandans!“ en nennti ekki að eyða tíma í að skrifa það á símann, henti ótrúa drengnum bara út og sendi konunni hans samúðarstrauma með hugarorkunni. Næsti gaur sem sótti um vináttu við mig, níu tímum síðar, fékk bara hnuss og nú í þessum skrifuðum orðum er einhver annar gaur sem vill verða vinur minn.

 

Er einhver „viðbjóðsvika“ í gangi þar sem atast er í siðprúðum kerlum? Og þetta „leitast eftir“ - sko, við leitumst við að t.d. svíkja ekki maka okkar með því að reyna við síðmiðaldra glæsikvendi. Og þetta „eldri“ glæsilegum konum, það myndi enginn mannlegur máttur geta veitt mig með slíku orði, „ég er trylltur í gamlar skrukkur, óður í kerlur krumpaðar í framan ...“ Falla konur fyrir slíku? Ég myndi falla kylliflöt fyrir manni sem segði að ég væri sjúklega sæt og svakalega gáfuð og heillandi og fyndin, vel lesin, kynni nánast öll póstnúmer, væri sannur matgæðingur (eða mjög lítið fyrir gamaldags íslenskan mat), héldi með réttu liði í enska, væri með svívirðilega góðan tónlistarsmekk og annað í þeim dúr. Hann hefði reyndar náð mér strax með „sjúklega sæt“.

 

P.s. Hvað er eiginlega í gangi? Það getur bara ekki verið að súkkulaðiRÚSÍNUR flokkist sem tilhlýðilegt og gómsætt innvols sem setja má í páskaegg?


Allt í gangi ... dregur senn til tíðinda

Útsýni á eldgosSíðasti dagur kennslunnar var í dag og hefur sannast á mér hið fornkveðna, konur geta bara gert eitt í einu. Annaðhvort kennt eða bloggað.

 

Mikið hafði ég dásamlega nemendur, og það frá flestum heimshornum. Þau sem segja að "þessir útlendingar" vilji ekki læra tungumálið, aðlagast og slíkt, hefðu átt að vera flugur á vegg í tímum. Ég (sem hata hita) var sú eina sem kvartaði yfir kuldanum á morgnana og tók samt strætó (innanbæjarvagn, leið 2, alls 5 ferðir á dag) á meðan þau gengu alla leið í skólann sem er í útjaðri bæjarins. Bónus er síðasta húsið í bænum, skólinn þriðja síðasta ... í skólanum mínum eru fleiri fyrirtæki, eins og Fjöliðjan, Landmælingar, Hver, Vinnumálastofnun, hárgreiðslustofa, fótaaðgerðastofa og fullt í viðbót. Sum gengu langar leiðir og kvörtuðu ekki þótt þau væru ansi hreint vind- og veðurbarin við komu og ég þyrfti jafnvel að brjóta af þeim íshröngla og láta þau setjast á ofninn á meðan þau þiðnuðu.

Þau sem þekkja mig vita hversu mikið ég hata að ganga, ég hefði hatað það og samt eiginlega ekki getað það heldur.

 

Allt þetta labbEr afar þakklát fyrir leið 2, annars hefði ég farið illa út úr þessu. Hásinin á hægri svo slæm núna (gömul íþróttameiðsl) að ég haltra, enda fær hún ekkert frí þessa dagana, ekkert afslappelsi fyrr en kannski eftir helgi. Gott að eiga sjúkraþjálfara að vinkonu ... Inga sagði mér frá vissri snilld sem ég fengi í apótekinu, eitthvað sem sett er undir hælinn og hækkar hann sem orsakar minna álag á hásinina, ég keypti og fann strax breytingu til batnaðar.

 

Ég predikaði endalaust yfir nemendum mínum að málið væri að þora að tala, það myndu allir skilja þótt þeir töluðu bjagað, bara láta vaða frekar en að tala ensku. Íslenska væri ekki svo erfið. Í gær fengu þau hvert sitt páskaeggið (allra, allra minnsta) frá mér svo ég gæti frætt þau um málshætti. Hver vill ekki læra með munninn fullan af súkkulaði? Í mínu eggi var málshátturinn Seint fyrnast fornar ástir.

Hmm ... hvaða fyrrverandi eiginmanni, kærasta eða elskhuga þarf ég að byrja með aftur? hugsaði ég beisklega, ég hef engan tíma til að binda mig í bráð. Sorrí, strákar.

Engu spillir hægðin, fékk rólegur og ljúfur strákur í hópnum. Mér sýndist fyrst, Engu spilla hægðir ... og flissaði þegar ég pældi í því hvernig ég gæti útskýrt þennan fáránlega málshátt fyrir honum - en sem betur fer las ég betur. Aðrir málhættir voru m.a. Dropinn holar harðan stein. Aumur er ástlaus maður.  

Ég sýndi þeim ýmislegt á risaskjánum, eldgos í vefmyndavél, Skálmöld og Sinfó á YouTube, vedur.is, google translate, ja.is-google maps þar sem við ferðuðumst um Skagann ... Tuttugu stuttmyndir sem hjálpa þeim að skilja eru fast kennsluefni en margt hefur breyst síðan þær voru gerðar, eins og bankaþjónusta og strætógreiðslumáti. Græna kortið ... hver man eiginlega eftir því? Og persónuleg bankaþjónusta utan Akraness, látið ykkur dreyma!

 

HúsóÉg horfi nánast aldrei á sjónvarp en mundi að fólkið í kringum mig, sjónvarpssjúklingarnir, hafði hrósað Húsó. Ég sá þættina inni á sarpi hjá RÚV, enn aðgengilegir en alveg að detta út, horfði á fyrstu fimm heima (til að koma í veg fyrir eitthvað vandræðalegt, eins og í upphafi íslenskrar glæpaseríu sem ég sýndi um árið og var búin að sjá en gleyma að fyrsti þáttur hófst á æsilegu kynlífsatriði á bryggju (mjög stuttu, sjúkk, svo tóku sem betur fer blóðug morð við). Ég var svo vandræðaleg þá að nemendur mínir hlógu sig máttlausa. Þeim fannst gaman að sjá þann þátt og ætluðu að horfa á alla seríuna heima.

Við horfðum á alla sex þættina af Húsó og vá, hvað þetta er frábær þáttaröð. Er mjög montin af Möggu Völu, bróðurdóttur minni, sem stjórnaði kvikmyndaupptökunni sem var brilljant eins og allt annað þarna. Vildi samt að ég hefði séð síðasta þáttinn áður en við horfðum á hann í dag því ég varð klökk, endirinn svo fallegur, svo ég rak nemendur hryssingslega í helvítis kaffihlé ... þau tóku samt ekki eftir neinu. Þetta var eina efnið sem ég fann sem sýnir svolítið raunverulegt líf í dag, með íslenskum texta sem auðveldaði mikið. Gaman að sjá elsku Kjötborg í svona stóru hlutverki, þannig.

Þetta var ekki bara íslenskukennsla, þau þurftu að fá að vita um svo margt hér á Akranesi. Einn daginn fórum við í flöskumóttökuna og Búkollu nytjamarkað. Guðmundur Páll hjá Fjöliðjunni fór með okkur um allt þarna, elsku yndið. Það er hægt að kaupa flotta hluti á fáránlega lágu verði hjá Búkollu og nauðsynlegt að vita af öllu svona þegar maður er nýfluttur hingað. Við kíktum líka á Frískápinn (ísskápur, frystir, hilla ... enga matarsóun, takk) en hann var tómur að þessu sinni, finnst ég helst sjá auglýsingar um gómsæti þar seinnipartinn. Mjög snjallt að vera með svona. Ömurlegt að henda mat, ég geri það aldrei, elsku fuglarnir mínir hérna við sjóinn eru hjálplegir við að sjá um afgangana.

  

Himnaríki 21. mars 2024Hef nokkrum sinnum viðrað hér þá þrá mína að flytja í bæinn eftir að stráksi flytur frá mér ... ættingjar og langflestir vinir búa á höfuðborgarsvæðinu og þótt ég sé aldrei einmana í eigin stórkostlega félagsskap held ég að sé rétt skref að breyta til í tilverunni núna. Það hefur aðeins dregið til tíðinda í þeim málum, í raun er næstum allt að gerast, svolítið hraðar en ég hafði búist við eða ætlað mér.

 

 

Himnaríki fer því í sölu í fyrramálið og ég vona innilega að draumaíbúðin bíði mín í bænum. Markaðurinn er orðinn hressari. Þegar ég sá myndirnar úr himnaríki frá Daníel í Hákoti, teknar í gær, nánast snerist mér hugur. Sjá nokkrar þeirra hér.

Þegar ég keypti himnaríki á sínum tíma (fyrir rúmum 18 árum) féll ég fyrir útsýninu, ágæt íbúð með samt og nú er sú íbúð orðin að algjöru himnaríki. Þetta er vissulega penthouse-íbúð, þar sem hún er efst og jafnstór og báðar íbúðirnar fyrir neðan hana. Gleymdi alveg að benda fasteignasalanum á það.  

 

 

Veðrið var ekki sérlega myndvænt þegar ljósmyndarinn kom svo ég sendi tvær fínar útsýnismyndir frá mér til að hafa með ... önnur sýnir Langasand ... sjá hana hér efst ... og auðvitað er eldgos í baksýn. Kannski algjör synd að flytja þegar íbúðin er orðin svona fín og flott. Hina myndina má sjá neðst.

 

Himnaríki 6. mars 2023Vonandi verður himnaríki draumaíbúð einhvers sem kann vel að meta óhindrað sjávarútsýni - alla leið til Ameríku ef jörðin væri ekki hnöttótt - og fallega íbúð. Guðný hönnuður var þyngdar sinnar virði í gulli og líka iðnaðarmennirnir, allir í fremstu röð.

 

Þau sem halda að ég sé að flytja í bæinn af því að ég hlóð óvart niður Klapp-appinu í fyrra - sem dugar bara í strætó í bænum (varla samt), eru alveg í ruglinu. Eða af því að ég fari sífellt hjá mér við að fylgjast með Skagamönnum striplast á náttslopp og inniskóm til að fara í Guðlaugu (laug við Langasand). Ónei. Það er sko djammið sem kallar. Leikhús, bíó, kaffihús, bingó, gömlu dansarnir, harmonikkutónleikar ...

... sem minnir mig á að ég á miða á Skálmöld í Hörpu núna 1. nóvember! Þegar ég keypti miðana, nú í byrjun janúar, hefði mig seint grunað að ég yrði jafnvel flutt í bæinn þá. Kemur í ljós, kemur í ljós. Krossið fingur fyrir mig, elsku bloggvinir, að rétta íbúðin bíði mín hinum megin við flóann. Akranes er samt best og yndislegast, frábærast og dásamlegast.

 

Ef neðsta myndin prentast vel má sjá grilla í Bandaríkin lengst til hægri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 25
  • Sl. sólarhring: 316
  • Sl. viku: 1569
  • Frá upphafi: 1453728

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 1306
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband