Hjálpsemi, óvæntur aðdáandi, kaffifréttir, DV í denn ...

KommóðanFlutningar á vinnuaðstöðu standa nú yfir og allt í kringum það er svo ótrúlega miklu meiri vinna en mig hefði grunað. Stóll úr dyngju minni, hægra horninu, flytur niður í kjallara, skrifborðið kemur í það horn. Rúm kemur í vinnuherbergið, nýkeypt kommóða úr Góða hirðinum (5.500) og bókahillur þaðan bætast við í stofunni. Heimilið ekki nærri því eins smart og áður en það verður bara að hafa það. Það fjölgar um einn á heimilinu sem er tilhlökkunarefni. Þá eru komin mín vanalegu þrjú störf og jafnvægi kemst á. Djók! En ekki djók samt. Finnst mjög eðlilegt að vera í þremur störfum. Vissulega eru þau ekki öll frá 9 til 5. Sjúkk.

 

Ævintýrablokkin mín er alltaf jafnfrábær. Íbúi á fyrstu hæð (kvk) aðstoðaði mig í gær við að færa bækur og hillur, í dag kom annar íbúi (kvk af 2. hæð) og dröslaði stólnum úr horninu og fram á gang með mér. (Ég tel víst að einhver þriðji íbúinn (kk) aðstoði mig við að færa hann niður í geymslu á morgun.) Síðan skruppum við (sú af 2. hæð) á pínulitlum Hopp-bíl í Góða hirðinn þar sem var sko múgur og margmenni. Í leit minni að kommóðu sá ég t.d. tvo voða fína mánaðarbolla, ekki þessa venjulegu, báðir mars-bollar, en ég á þúsund bolla og vantar ekki fleiri, en þeir voru auglýstir skömmu seinna á bollaáhugafólks-fbsíðu á nokkuð hærra verði. Ég sem hélt að Góði væri með verðið á slíkum vörum í hæstu hæðum, stundum hærra. Furukommóðan sem ég fann var þó alls ekki dýr, kostaði 5.500 kr. og er í fínu lagi, há og grönn. Fimm rúmgóðar skúffur. Akkúrat eins og hún átti að vera. Smámisskilingur varð vegna lánsrúms sem ég hélt að væri venjulegt rúm en er samanbrjótanlegt gestarúm. Ég kíkti á netið og þar er verið að selja frekar ódýrt rúm, nýlegt og akkúrat það sem ég þarf. Þetta er ekki af nísku, heldur held ég að ég sé að breytast í vissa Gretu ... sem er bara af hinu góða. Ég þrái heitt að breyta eldhúsinu mínu þannig að hægt verði að hafa borðkrókinn undir glugganum. Ég komst að því að ég get nýtt fínu inniréttinguna sem er, jú, vissulega orðin nokkuð gömul en samt í mjög fínu lagi. Get fært skápana og bætt við langþráðri uppþvottavél og skipti út eldavél fyrir helluborð og bakaraofn í betri hæð ... Spara mér eflaust milljón með þessu. Nóg af parketleifum í geymslunni, svo það komi fram. En enn er þetta á draumastigi. Pípari ævintýrablokkarinnar segir mjög lítið mál að færa vaskinn (sem er undir glugganum, auðvitað). Til að forða stórslysi ætla ég að biðja mína kláru Guðnýju sem skipulagði hið nýja himnaríki á sínum tíma að aðstoða mig með skipulagninguna. Hún er verulega klár og góð í sínu. 

 

12. ágúst 2025Frekar ungur maður, sætur og greindarlegur með stafla af bókum í fanginu, aðstoðaði okkur við að ná tökum á hjólatrillu undir kommóðunni þarna í Góða. Á meðan grannkona mín sótti bílinn, borgaði ég og gat án aðstoðar flutt kommóðuna út og niður rampinn ... en þá kom annar karlkrúttmoli, nú á mínum aldri (50 plús, plús, plús, plús, plús) og bauð fram aðstoð. Ég hélt að svipur minn hefði lýst stolti þar sem ég trillaði kommóðunni frá húsinu en sennilega sá maðurinn ótta þarna einhvers staðar og að ég byggi ekki yfir ökuleikni af nokkru tagi. Þetta var líka í fyrsta skipti sem ég ók kommóðu á svona trillu. Þrátt fyrir aðra höndina nánast í fatla (alla vega umbúðir um handlegg) skutlaði þessi elska kommóðunni upp í pínulitla bílinn (aftursætin lögð niður) og það var meira að segja hægt að loka skottinu. Allt á hreinu-samkomuhúsið, munið? Þetta var slíkur bíll. Það er ekkert langt síðan ég missti trúna á mannkynið en upp á síðkastið hefur hún aukist nokkuð. 

 

Við ókum sem leið lá heim, grannkonan hringdi í manninn sinn sem nánast vippaði kommóðunni upp úr bílnum með annarri og það hefði ekki komið mér á óvart þótt hann hefði sett hana á bakið og hlaupið upp stigana. Við tókum nú samt lyftuna. Þegar ég kvaddi þessi frábæru hjón bað ég þau í guðanna bænum  sagði ég: „Ef þið þurfið einhvern tímann hjálp við að flytja kommóðu, endilega talið við mig.“ Þau lofuðu því ... 

Maðurinn með umbúðirnar og hjálpsemi hans sýndi mér að ég er enn "meðða" ... eða get fengið hjörtu síðmiðaldra karla til að slá svolítið hraðar sem er kannski ekki svo hollt ef út í það er farið. Samt gleðilegt fyrir mig. Það varð til þess að ég skipti um prófílmynd á Facebook, setti splunkunýja af mér ófarðaðri í afmælinu núna í ágúst. Hrukkur eru þrælflottar sko.

 

Myndin af mér hér fyrir ofan er sú allra nýjasta, tekin á afmælinu núna í ágúst.

 

Golíat og MoliÞað hefur fjölgað í fjölskyldunni, alveg um tvo í þessum mánuði. Annar kom í heiminn fyrir nokkrum dögum og við systur ætlum í frænkuheimsókn til hans um helgina. Hinn er ferfættur af tegundinni maltese og líka ógurlega sætur. Hann heitir Moli Seifur, er rétt rúmlega tveggja mánaða og býr í Kópavogi hjá systur minni.

 

 

Í kvöld kúrðu Moli og Golíat saman í fyrsta sinn. Golíat er mjög góður og þolinmóður en stundum pínku pirraður á hvolpalátunum í honum en þetta er nú allt í rétta átt og ekki komin vika síðan hann flutti alkominn. Moli er mini-maltese (Golíat er venjulegur maltese).

 

Draumaveðrið mitt brast á í dag. Hellirigning og norðanátt - nema norðanáttin var bara einn metri á sekúndu. Það komu ekki einu sinni tíu dropar á norður-gluggarúðurnar mínar, það féll bara gjörsamlega lóðrétt regn sem ég vissi varla að væri til hér á landi. Ég ætla mér samt að vonast eftir hressandi roki og rigningu. Bara í nokkra klukkutíma, yfir nótt bara!

 

Asnaleg auglýsingStundum spila ég kapal eða eitthvað í símanum. Ókeypis leikir þýða að maður þarf að afplána auglýsingar inn á milli, stundum ferlega háværar sem virkar aldrei vel! Ein mjög leiðinleg gengur út á að reyna að selja forrit sem tekur til í símanum manns. "Þegar þú þarft meira pláss í símann, ekki gera eins og gamla fólkið sem eyðir bara einni mynd í einu!" Það er sölupunkturinn, enginn vill vera eins og gamla fólkið, og alls ekki gamla fólkið sjálft ... eða hvað? (Þetta er sko kaldhæðni) Ég eyði alltaf handvirkt - því ég myndi aldrei treysta einhverju appi til að velja bestu myndina þegar maður hefur tekið nokkrar af því sama, og fleygja hinum.

 

Þessir samfélagsmiðlar eru nú frekar spes stundum ... eins og Snapchat sem minnir mig stöðugt á eina mynd, eina dagsetningu, en um það bil vikulega dúkkar upp eins og af þráhyggju og hvað sem ég er að gera í símanum, í kapli, á feisbúkk, spjallinu: Manstu eftir 16. janúar 2018? Jú, þann dag var sonur minn jarðaður. Ég tók eina snappmynd þá og það er sú mynd sem Snapchat virðist óttast að ég gleymi og ýtir að mér að deila henni. Frekar hallærislegt. Ég er svo sem nánast hætt á snappinu, fór yfir á Instagram þar sem fjörið er. Þessi vikulega áminning Snapchat freistar mín ekki til að koma aftur. 

 

DV í dennJá, og svo er "óvinakaffihúsið" mitt í Hafnarfirði (sjá síðasta blogg) víst með Illy-kaffi sem er ljómandi gott og óskiljanleg þessi vandræðalegheit að halda því leyndu. Jú, einhver hefur ætlað mér eitthvað illt ... vitneskja er vopn! ... en alltaf óþolandi þegar er verið að gera manni upp skoðanir eða tilfinningar.

 

 

Ég fann gamla og góða mynd af skrifstofuliðinu á DV síðan við fluttum í nýja húsið að Þverholti 11 og það gamla var rifið. Svo er nýja húsið farið og bara nýbyggðar íbúðir, enda flott staðsetning. Það rifjaðist upp fyrir mér minning frá þessum tíma þegar myndin var tekin: Starfsemin varð að halda áfram þrátt fyrir stólaburð og slíkt, og ég hafði hlaupið út á pósthús til að sækja póst fyrirtækisins, ég þurfti gíróseðla til að geta gert upp á innheimtudeild smáauglýsinga. Það var líka dásamlegt að geta hoppað út og fengið frískt loft í nokkrar mínútur. Við reyktum við skrifborðin ... hugsa sér! Yfirleitt sóttu sendlar póstinn en þegar þeir voru ekki tiltækir hljóp ég, og elskan hann Ólafur skrifstofustjóri fór hratt í gegnum póstinn (yfirleitt kúffullur plastpoki) og lét mig fá gíróseðlana mína sem voru eins konar ávísanir fyrir greiðslu ... en hvað um það, einn daginn þarna í flutningunum bilaði lyftan og ég festist á milli hæða. Ég var með póstinn og þarna voru til dæmis landsbyggðablöð og ég hafði engar áhyggjur, mér myndi ekki leiðast á meðan viðgerð stæði yfir. En allir í húsinu voru vissir um að ég væri gjörsamlega skelfingu lostin, föst í lyftu. Nærstaddir höfðu eflaust heyrt minnst á bókina Lokast inni í lyftu eftir Snjólaugu Bragadóttur og haldið að það væri hryllingsbók sem hún var alls ekki, heldur rómantísk bók um ástir og örlög. Eitthvert karlmennið spennti lyftudyrnar upp og tveir aðrir drógu mig hreinlega upp, sem mér fannst frekar vandræðalegt - en það var bara búið að ákveða að ég væri viti mínu fjær af ótta ... Sætt af þeim samt. 

 

Mynd: Hluti af skrifstofugenginu á DV á níunda áratug síðustu aldar. Eins og sjá má vorum við ráðin vegna útlitsins. Skemmtilegir tímar, frábær þessi sjö ár, 1982-1989.

Aftari röð f.v.: Elli Már, Ólafur, Þráinn, Sibba, Ásdís og Herdís. 

Fremri röð f.v.: Steingerður, Svava, Gurrí, Helga og Björk.  


Raunir þeirra þriflegu og sjónvarpsþættir satans

MenningarnóttSumarleyfi stendur enn yfir í einni vinnunni minni og vinnualkinn kvelst örlítið yfir því. Vissulega var farið í búðarferð í dag sem var svo mikil innspýting inn í hagkerfið að vextir lækka sennilega strax í fyrramálið.

 

Varð margs vísari á menningarnótt, eða hvert hún teygir sig, alveg strax um morguninn þegar mikil öskur heyrðust inn um gluggann hjá mér. Ég gladdist nú fljótt þegar ég sá að Reykjavíkurmaraþonið var nánast á hlaðinu hjá mér og öskrin voru ekki vegna skelfingar, heldur til hvatningar. Ég ákvað að blunda ögn lengur og svaf óvart alveg til eitt, sem hefur ekki gerst síðan ég var unglingur. Hafði ætlað mér að vera stödd á Hlemmi kl. 13 og kíkja á sérsveitina, vini mína síðan í desember þegar þeir kíktu hingað, sællar minningar. Það var einhvern veginn úr mér allur vindur, mér fannst dagurinn búinn, steingleymdi því auðvitað að hann var nótt, og ákvað að gera ekki neitt. Þótt ég telji mig vera intróvert á margan hátt, einrænan snilling í að muna póstnúmer, svo fátt eitt sé talið, fannst mér asnalegt að fara ein niður í bæ.

Ég náttúrlega bjó á Akranesi í næstum 20 ár og á meðan þurftu vinir mínir og vandamenn að venjast breyttu landslagi. Ég prófaði reyndar að hringja í einn ættingja ... „Ha nei, sérsveitin kl. 13? Ég er að fara að hitta vinkonur mínar þá!“ Og þarna uppgötvaði ég að ýmislegt (allt) hafði breyst í fjarveru minni - vinirnir orðnir að ömmum og öfum, sumir (flestir) búnir að missa áhugann á djammi (miðborgarrölt á menningarnótt) og ýmsar fyrningar átt sér stað. Að ári mun ég sennilega vera búin að finna einhvern (fyrirvari er svo vanmetinn) sem nennir með mér að skoða aðstöðu sérsveitar Ríkislögreglustjóra, ganga niður Laugaveginn, kíkja jafnvel í vöfflukaffi einhvers staðar og taka svo strætó heim. Ég var að vinna nánast allan daginn (nóttina, afsakið), og lét vekjarann í gemsanum hringja kl. 22. Var spennt að vita hvort ég sæi flugeldasýninguna ... og já, ég gerði það, út um gluggann á dyngju minni. Þvílík heppni að hafa keypt íbúð á þessum stað. Óttaðist mest að stóra blokkin rétt hjá byrgði mér sýn, en ég slapp við að upphugsa ráð til að losa mig við hana, hún kemur reyndar í veg fyrir að ég sjái upp á Skaga. Akrafjallið er ágætis sárabót en það er þó fallegra frá Akranesi séð, alveg eins og Esjan er fallegri frá mér séð en frá Skaganum, finnst mér. Svo held ég reyndar að sérsveitin sé með aðstöðu einhvers staðar í Sundahöfn, sem er nánast hér á hlaðinu, það væri eftir öllu. Það koma grunsamlega oft dularfullir svartir jeppar á fullri ferð og með lögguljós þaðan og upp á Sæbraut, stundum nokkrir í einu og þá veit ég að einhver hefur stolið hraðbanka.

 

Samsetta myndin hér að ofan sýnir að báðir stórviðburðir menningarnætur sjást héðan. Ég horfi bara á verðið á íbúðinni minni hækka! 

 

Ég hangi stundum á Instagram fyrir svefninn og í sumum tilfellum er það nokkuð svæfandi, róandi og notalegt. Ekki þó alltaf. Ein sem ég fylgist með þar mælti með heilsueflandi Insta-reikningi, höfuð, herðar, toppur, tær, eitthvað slíkt heitir það. Mér leist aldeilis vel á, enda áhugakona um góða heilsu, og gerðist fylgjandi. Gott væri að sjá hvaða olíur væru heilsuspillandi og annað slíkt. Mikil urðu vonbrigði mín og svekkelsið algjört þegar ég sá að stjórnendur þar telja að covid-bóluefni séu hættulegur þáttur í meintri versnandi heilsu okkar. Það væri sannað! Nefndu aukna tíðni banvænna krabbameina. Að við þekktum eflaust öll einhvern á besta aldri sem hefði dáið skyndilega úr því meini. Ég veit reyndar um þrjá sem hafa farið á síðustu misserum, EN tvö þeirra létu ekki bólusetja sig og töluðu gegn covid-bólusetningum á samfélagsmiðlum. Það pirraði mig líka að sjá þarna að covid hafi verið frekar ómerkileg sótt, nánast bara kvef, og það hafi verið sannað (sá engar sannanir fyrir þessu) að bara þau sem voru veik fyrir hafi dáið úr covid. Ég, vissulega margbólusett og samt enn á lífi, afvinaði þessa síðu og taldi upp á fimmtíu og tvær milljónir áður en pirringurinn loksins hvarf.

 

flugfarþegarHeimur versnandi fer, ekki einu sinni þéttvaxnir flugfarþegar fá að vera í friði! ;) Nú ætlar visst flugfélag að neyða þriflegt fólk til að kaupa tvö sæti. Sem væri í lagi ef flugfélögin væru ekki þekkt fyrir að svíkja fólk sem keypti sér sæti hlið við hlið, t.d. foreldri og barn saman eða hjón saman, borgaði sér fyrir það en fengi svo ekki.

Hvað ef þéttvaxin manneskja myndi borga fyrir tvö sæti en lenti svo í því að annað væri 14B og hitt 33F?

 

Við systur skruppum í IKEA í dag. Ef ég kemst til læknis til að fá vottorð um heilbrigði, gæti fjölgað um einn á heimilinu. Læknirinn aflýsti tímanum sem ég hef beðið eftir í tvo mánuði svo ég þarf nýjan. Panta á morgun, þarf vonandi ekki að bíða í aðra tvo mánuði. Ég fjárfesti í ýmsu svefnherbergisvænu ... skoðaði kommóður og rúm - svona ef ég finn ekki notað. Fæ lánað rúm til að byrja með, 90 x 200, og langar að leita í Góða hirðinum að notaðri kommóðu sem lítið fer fyrir en með ágætt geymslupláss samt. Ég tók með mér tommustokk og mældi sitt af hverju ... ekkert að marka þessar mælingar hjá þessu Ikea-fólki (djók). „Þarna fer nú aldeilis kona með konum,“ hvíslaði mannfjöldinn þegar ég mældi.

Þarf að hrósa IKEA fyrir góðan prófarkalestur á skiltum og miðum.

 

lærlingurinnLangt síðan ég hef kíkt á kannanir á fb ... hér er ein:

Sjónvarpsþáttur sem þú ert neydd/ur til að horfa á í helvíti!

Það komu mörg, mörg, mörgþúsund svör en langsamlega flestir völdu efstu tvo þættina ... ég fór ekki yfir allt svo sem og ég sá bara Star Trek nefnt einu sinni ... en það er auðvitað nóg til að komast á listann.

 

Lærlingurinn (The Apprentice)

The Kardashians

Dr. Phil Show

Friends

Love Island

Star Trek

The Nanny

Real Housewives

How I meeet your Mother

The Walking Dead

Homeland

Jerry Springer 


Allt þegar þrennt er, kaffistríð og dularfulla sjalið

Afmælisterta 2025Afmælisveisla var haldin hér með pomp og prakt þann tólfta, þar sem 150 allra nánustu var boðið í tertur og almennilegt kaffi. Um það bil helmingur sá sér fært að mæta sem þykja fínar heimtur á þessum árstíma. Ekki stórafmæli en samt ákveðin tímamót. Set alltaf réttan aldur minn á afmælistertuna (sjá mynd) en lýg um aldur þess á milli, sem táknar að það koma alltaf ótrúlega margir í afmælið til að vita ... Gjafir, sérstaklega blóm (vegna kattanna), stranglega bannaðar. Ég bjó til hóp á fb í stað viðburðar (gleymissualltaf) og var eilífðartíma að fara í gegnum vinaskarann á fb, og gaf mér svo aldrei tíma til að fara aftur í gegnum hann ef einhver hefði gleymst, ég var þreytt og syfjuð, reyndi bara að senda öllum velkomnum sterkt hugskeyti en sennilega án árangurs ... Það komu talsvert fleiri Reykvíkingar núna en síðustu 18 árin, og meira að segja fólk úr Keflavík sem hafði aldrei nennt á Skagann, svo með tilliti til afmælis var rétt af mér að flytja ... Samt var ég búin að fá því framgengt fyrir nokkrum árum að gestir mínir yrðu aldrei framar rukkaðir í Hvalfjarðargöngunum! Ég veit núna að ég hefði frekar átt að leggja áherslu á bensínverðið - halda því lágu.

 

Mynd af tertunni (úr Bernhöftsbakaríi). 

 

Flottir afmælisgestirÉg uppgötvaði í afmælinu, mér til gleði og furðu að ég er ansi vel tengd - sem er sjúklega gott á þessum síðustu og verstu. Í afmælið mætti fólk með sterka tengingu við meðal annars: Geislavarnir ríkisins, fréttastofu RÚV, Staðlaráð Íslands, Oz, gamla DV, Albaníu, Litlu KMS, Sólheima og almættið, svo fátt sé talið. Er fjúkandi reið út í sjálfa mig fyrir að hafa ekki verið með gestabókina uppi við eða duglegri að taka myndir, en þetta var svo mikil klikkun* - sérstaklega þarna fyrst - að ég hafði ekki einu sinni tíma til að mála mig. Segi kannski ekki að ég hafi verið eins og vélsagarmorðingi útlits ... en litlu mátti muna.

 

Forsagan:

Elsku systir mín og allsherjar bjargvættur, sótti fyrir mig aðkeyptu veitingarnar upp í sveit (takk, Myllan) og kom með, ásamt því sem hún hafði sjálf útbúið (peruterta og marens), en hófið átti að hefjast kl. 14, ótrúlega snemma í fyrsta sinn, og á þriðjudegi. Sá fyrir mér að gestir gætu þá flestir fengið sæti ef dreift væri vel úr komu þeirra ... íbúðin mín mun minni en himnaríki. Kvöldið áður hafði ég fengið heimsenda kaffivél og þrjá brúsa sem fyrirtæki handan götunnar mátti sjá af.

 

*KLIKKUNIN: 

Klukkan hálftvö fékk systir mín, þá nýkomin með veitingarnar, símtal og var óvænt kölluð út í vinnu. Ég var þar með ein eftir til að ganga frá kökum, hella upp á þrjá brúsa, mála mig og ... sem sagt ekkert sem ég gæti ekki ráðið við. Nema kaffivélin virkaði ekki. Ég hringdi í vin minn handan Sæbrautar sem lofaði að koma fljótlega með aðra vél. Svo hringdi konan sem gerði rækjubrauðtertu afmælisins, alveg í rusli því hún hafði misst tertuna í gólfið heima hjá sér! Ok, allt er þegar þrennt er, hugsaði ég með mér ... hjálparkonan tekin úr leik, kaffivélin svo sem líka og rækjubrauðtertan ... þetta hlyti að vita á skemmtilegustu veislu ársins - sem reyndist vera rétt. Svo komu mömmur.is með brauðmeti og fleira gómsætt sem bjargaði miklu, elsku dúllurnar. Það komu svo margir ... og allir með pakka þótt það væri bannað. Reyndar allt mjög nytsamlegt; sokkar, bíómiðar, bröns fyrir tvo, rauðvín, ruggustóll, handáburður, hanskar, bækur og annað algjörlega sjúklega dásamlegt. Vinir mínir sem ég hef valið og bauð bara vegna útlits eru einnig mjög, mjög smekklegir. Eina sem ég er í vandræðum með er mjög fallegt prjónað sjal sem ég veit ekki frá hverjum er. Enginn merkimiði.

Ég hef tiltölulega nýlega beygt reglurnar fyrir vini mína sem máttu aldrei taka börnin sín með í afmælið ... en aðeins ein vinkona þorði í ár, með dóttur og tengdason á fimmtugsaldri. 

 

Við KeliAlltaf þegar nýtt kaffihús opnar fyllist ég forvitni og ein spurning kviknar: Hvaða kaffitegund verður í boði? Þá á ég ekki við latte, cappuccino eða slíkt, heldur hvort það verður kaffi frá t.d. Te og kaffi, Kaffitári, Kaffibrugghúsinu, Valeria eða Vífilfelli ... Nýtt kaffihús opnaði nýlega í Hafnarfirði í sama húsnæði og dásamlegt kaffihús var áður. Gladdist yfir því að kaffihússmenningin héldi áfram þar og ákvað að fylgja nýja kaffihúsinu á Instagram, allt var tekið í gegn og gaman að fylgjast með flottum endurbótunum. Ég sendi fyrirspurn fljótlega: Hvaða kaffitegund ætlið þið að bjóða upp á? en fékk ekki svar ... heldur ekki þótt ég spyrði aftur, mjög kurteislega. Svo var boðið upp á að spyrja spurninga um kaffihúsið og ég endurtók mína ... en enn ekkert svar. Nú er búið að opna og allt virðist svo flott og fínt, girnilegt meðlæti, vín og alles, en ekkert um kaffið. Það var eins og haldið væri að ég ætlaði að vera með dólg ... oj, ætlið þið að vera með þetta, ömurlegt ... bla bla, sem ég hefði aldrei gert. Mér fannst þetta eðlileg spurning og sama hvert svarið hefði verið Jamaica Blue Mountain (dýrasta kaffið en allt of milt fyrir plebbann mig) eða Gevalia (strangheiðarlegt heimiliskaffi) og allt þar á milli, hefði ég þakkað fyrir svarið. Ég hef alltaf gert þetta, eða spurt hvaða kaffi sé í boði hvar sem ég kem, og ef það er ekki að mínum smekk er það bara allt í lagi. Þessi skortur á svari hefur orðið til þess að mig langar ekki lengur á nýja kaffihúsið. Hvort sem þau eru með gott eða ekki svo gott kaffi ... Mér líður eins og ég hafi lent í styrjöld við kaffihús og báðir aðilar tapað. Þau missa mig sem viðskiptavin og ég missi kannski af geggjuðu kaffi ... afsakið dramað.

Var einmitt á frábæru kaffihúsi í dag með ástkærri vinkonu, Te og kaffi í Borgartúni. Við förum eiginlega til skiptis þangað og á Kaffi Vest. Held að Kaffi Vest sé með Kaffibrugghúss-kaffi sem er mjög gott, Kólumbíukaffið 2018 frá þeim er eitt besta kaffi sem ég hef smakkað ... fékk það í Rjúkanda á Snæfellsnesi og bíð spennt eftir næsta svona góðum árgangi. Annars þrái ég mest af öllu að Valeria (Grundarfirði) fari að selja kaffið sitt í Reykjavík.

 

Myndin er af okkur Kela, en núna 19. ágúst er liðið ár síðan þessi frábæri, dásamlegi köttur yfirgaf sviðið og er enn sárt saknað af öðru heimilisfólki hér. Myndin var tekin 2016 þegar ég sat við að hekla veðráttuteppi með góðri hjálp elsku Kela. 

 

Ruggustóll og sjalStráksi kom auðvitað í afmælið á þriðjudaginn fyrir viku og stoppaði í nokkra daga sem var mjög gaman. Hann fór ekki heim fyrr en á sunnudagskvöldið. Elskan hún Tinna Royal (sem gerir flottasta skraut í heimi á jólatré) er með sýningu hjá Gallerí Fold við Rauðarárstíg og við fórum að sjálfsögðu á opnunina á laugardaginn. 

Tókum leið 12 og ætlunin var að fara út á Hverfisgötu við Barónsstíg og kíkja á kaffihús þar í grennd, en framkvæmdir þar einhvers staðar urðu til þess að við fórum beinustu leið niður á Lækjartorg frá gömlu Rúgbrauðsgerðinni við Borgartún. Sem var ekkert nema skemmtilegt.

Ég veit eiginlega ekki hvað hefur orðið af gömlu Gurrí sem hataði fátt meira en gönguferðir en sá þarna fínasta tækifæri til að fjölga skrefum sem hafa verið sorglega fá í sumarleyfinu.

Við sem sagt gengum frá Lækjartorgi upp á Hlemm sem var ógurlega gaman. Skref laugardagsins urðu 4.377 og miðað við rúmlega 557 skref dagsins í dag er það skrambi gott.

Mér finnst miðbærinn svo mikið æði núna, lífið og litirnir, fólkið og gleðin, miðað við tilveruna þarna t.d. á áttunda áratugnum þegar ég var unglingur og allt var frekar grátt og harðbannað. Hefði maður ekki átt bækur til að lesa og plötur til að spila ... Það var nú margt æðislegt líka þá - en miklu litríkara núna.

 

Mynd: Ruggustóllinn ægifagri sem vinafólk (sem vissi hvað ég hef alla tíð þráð slíkan stól) og flotta dularfulla bleika sjalið sem ég veit ekki hver gaf mér. Hvar eru Finnur og Dísa, Jonni, Júlli og Anna litla, eða Georg og jafnvel Kíkí? Þau hefðu nú ekki verið lengi að leysa þessa ráðgátu.    


Helgarferð, furðuspjall og fleira

Ég er ríkSumarfrí hófst formlega í dag, reyndar bara frá kennslunni, það er alltaf eitthvað að gera í yfirlestri og svo er alveg möguleiki að ég rifji upp gamla fósturmömmutakta tímabundið. Það er mikil þörf fyrir fósturforeldra og hefur svo sem alltaf verið. Ég þarf að endurnýja fósturleyfið og er þegar búin að sækja mér tandurhreint sakavottorðið (hvað maður getur verið boring) og þarf bara læknisvottorð upp á andlegt og líkamlegt heilbrigði ... sem verður öllu erfiðara ... er nefnilega enn skráð hjá frábæru heilsugæslunni á Akranesi, þannig að nú sem höfuðborgarmær til bráðum tíu mánaða, verð ég að skipta og reyna að fá tíma sem allra fyrst hjá splunkunýjum heimilislækni. Verð sennilega aufúsugestur því ég hef verið frekar mikið heilsuhraust (úps, 1, 17, 20) ... sem minnir mig á að í dag verð ég að hoppa stigana, bæði upp og niður, vil ekki að 4.000 skrefin mín að meðaltali, alla vega á vinnudögum, hrapi niður í 500 sem hefur gerst á sérlega rólegum frídögum. Síminn sem mælir skrefin er reyndar oft kyrr á borði og Storytel) að segja mér sögu á meðan ég húsverkjast á fullu ... ég er alltaf með gemsann í vasanum þegar ég kenni - til að ná hverju einasta skrefi. 

 

Ég er alltaf sáttust í minnst þremur störfum. Það er vissulega alkóhólismi í ættinni og ég hef alveg viðurkennt að ég sé vinnualki þótt ég njóti þess alveg að slaka á inn á milli -  helst með góðan kaffibolla í hönd. Ekki e-r biluð hálaunastörf sem ég hef unnið en ég er nú samt rík, það sannast þegar ég kreppi hnefann. Sjá mynd 1 (afsakið að ég var ekki með handáburð og naglalakk).

Það var útskrift í gær, mínir frábæru 18 nemendur, frá tíu löndum, voru kvaddir með trega og tárum. Að vanda mættu allir með mat frá sínu heimalandi og, eins og síðast, var eiginlega meira af sætmeti en mat og girnilegi kjúklingarétturinn með hrísgrjónum (Afganistan) var fullur af rúsínum sem sýndi mér rétt einu sinni enn að lífið er hreint ekki alltaf dans á rósum. Ég smakkaði nú samt sem var eins gott því rétturinn hvarf eins og dögg fyrir sólu. Ég verð sífellt hrifnari af mat frá Víetnam og þótt slíkur matur sé ekki í boði í víetnamska kaffihúsinu við Hallgerðargötu (skammt hjá Borgartúni), hef ég komið þangað þrisvar á síðustu vikum og hyggst halda áfram að mæta þangað - í fínt kaffi og sérlega gott meðlæti á góðu verði.

Nemendurnir fóru fram í eldhús með disk sinn og hnífapör eftir matinn, skoluðu og settu í uppþvottavél, röskur og húslegur karlnemandi tók stjórnina og allt varð tandurhreint og fínt á svipstundu. Ég nánast klökknaði, það sem ég segi, konur ættu ekki að koma nálægt eldhúsverkum, bæði eldamennska og uppvask leikur í höndunum á körlum! Alveg spurning um að fara að fá sér mann. Finnst að skólastjórinn minn ætti að ráða næsta karlkennara fyrir haustið og hafa hann á aldur við mig, myndarlegan, húslegan, ekki rasista, húmorista, kattavin, stórgáfaðan, eiga helst bíl en ekki nauðsynlegt ... og hafa skilyrði fyrir ráðningunni að hann verði skotinn í mér.    

 

EinarsstaðirVið systur skruppum í frábæra helgarferð nýlega, sennilega eina ferðalag sumarsins. Ókum norður á land, gistum aðra nóttina á Akureyri og hina á Einarsstöðum, Þing ... þar sem systir mín var ráðskona fyrir mörgum árum og við fyrrverandi ásamt syni okkar, þá átta mánaða gömlum, vörðum jólunum 1980 þarna. Borðuðum hangikjöt á aðfangadagskvöld sem var mér algjört nýnæmi en ómissandi jólahefð þarna. Hinn þekkti miðill Einar bjó á efri hæðinni. Dóttir hans rekur nú afskaplega fína bændagistingu á neðri hæðinni og ég svaf einmitt í herberginu sem áður var systur minnar. Allt svo hreint og snyrtilegt og umhverfið fallegt. Ég segi það ekki bara af því að ég er Þingeyingur (og Skagfirðingur) að ætt og uppruna. Pabbi fæddist í Flatey og ólst þar upp. Við heimsóttum einmitt Húsavík líka, þar sem ég á víst ansi marga ættingja, og drukkum þar hið fínasta kaffi á kaffihúsi og reyndum svo að koma auga á Uppibæ frá landi. Við fórum áður á stórskemmtilegan flóamarkað í Sigluvík, fyrir utan Akureyri, og þar var margt sem mig dauðlangaði í en þessi minimalismi sem ég kom mér upp, nánast í ógáti, árið 2020 þegar himnaríki var tekið í gegn og ég losaði mig við örugglega helming eigna minna ... sem kom sér aldeilis vel við flutningana í borgina fjórum árum síðar ... virðist enn vera viðvarandi í lífi mínu. Þegar ég opna suma skápa hér hugsa ég: Ahh, þetta nota ég nú aldrei, þarf að losa mig við það ... og svo framvegis.

 

Mynd 2: Einarsstaðir í Þingeyjarsýslu. Herbergið sem ég gisti í sneri á móti kirkjunni.  

 

Nýlega tók ég leigubíl frá Skeifunni með fullt fangið af innkaupum, þrjá poka eða svo, fékk ansi hressan bílstjóra sem spjallaði mikið. Eitthvað barst sjónvarp í tal og ég sagði honum að öfugt við marga hefði ég hætt að mestu að horfa á sjónvarp á covid-tímum og hellt mér út í lestur. 

„Gott hjá þér,“ sagði hann. „Þetta covid var nú meira bullið. Það er loksins búið að sanna að þetta voru algjörar eitursprautur. Svo var þetta varla nema flensa ...“

„Ja, þetta var nú ansi banvænt þarna fyrst, fólk hrundi niður, manstu ekki hvað dóu margir á Ítalíu og Bandaríkjunum ...?“ svo taldi ég upp nokkur íslensk dæmi að auki. „Ég lét hiklaust bólusetja mig og held að ég hafi alveg sloppið við covid," hélt ég áfram, "og svo eru aukaverkanir af öllum lyfjum.“ Ég gleymdi að spyrja hann út í sannanirnar.

Hann sneri talinu að öðru, eða "þessum útlendingum" sem keyra leigubíla og ekki bara svindla hroðalega á farþegum, heldur miklu verra. "Það eru komnar 12 fjöldanauðganir á síðustu vikum, og allt hælisleitendur ... eitt fórnarlambið var eiginkona lögreglumanns!“

„Athyglisvert, þetta hefur ekki komið í fréttum!" sagði ég.

"Nei, það skiptir máli hvaða fjölmiðlum maður fylgist með,“ sagði hann.

Svo vorum við komin heim og ég flýtti mér inn með matvöruna, tók lyftuna sem ég geri alltaf í þungaflutningum.

Þetta var ekki draumur og engar ýkjur. Hann gæti þó hafa sagt tíu, ekki tólf. Það vantar sárlega að yfirvöld rísi upp gegn þessu bulli og leiðrétti. Þögnin er sama og samþykki. En þau sem vilja trúa þessu myndu eflaust bara tala um þöggun stjórnvalda. Að mínu mati er flestir íslenskir fjölmiðlar trúverðugir og gera sitt besta til að flytja hlutlausar (stundum pirrandi hlutlausar) og réttar fréttir.

 

Það var verið að benda mér á skemmtilegar "fréttir" eða sketsa á nýrri fb-síðu sem heitir Greindarvík, skilst að gervigreindin leiki þar stórt hlutverk. Nánast komin í alsumarfrí svo ég ætti að geta skoðað síðuna, einnig lesið nokkrar bækur sem ég á eftir að klára og gert enn eina tilraunina til að horfa á sjónvarp. Frétti af skemmtilegri seríu hjá Sjónvarpi Símans, Matlock, ekki gömlu góðu þættirnir, heldur nýir og mjög fínir. Langar að klára Morð og messufall, íslenskan gamankrimma, tek hana stundum með í strætó og næ nokkrum blaðsíðum, týni henni svo uppi á ísskáp ... eða eitthvað, en það sem ég hef lesið er verulega fyndið og skemmtilegt, aðeins annir mínar undanfarið hafa séð til þess að ég hef ekki klárað hana, held að ég byrji bara upp á nýtt og lesi til enda, slekk á símanum á meðan og þykist ekki heyra í dyrabjöllunni ... Það verður sennilega nóg að gera í "fríinu". Afmælið mitt líka! Vó!    

 

Desember 2018Þar sem ég beið eftir fimmunni á Höfðatorgi í gær vatt sér að mér maður sem spurði mig hvaða strætó væri best að taka að skemmtiferðaskipunum. Sá var heppinn að lenda á mér, ég get aldrei sagt neinum neitt vegna fjarveru minnar frá Reykjavík í 18 ár en þarna var ég á heimavelli, held úti sérstökum skipafréttum á Instagram-síðu minni því ég sé flest skemmtiferðarskip sem koma til landsins. „Þú þarft að taka leið 16 sem fer alla leið, þú gætir jafnvel tekið leið 12 en það er lengra labb,“ sagði ég greindarlega.

Hann brosti sætt þegar ég sagði honum að ég hefði farið í góða ferð með Norwegian Epic jólin 2018 (í boði vina og vandamanna sem gáfu mér svona veglega stórafmælisgjöf það ár). Karlinn var frá Texas og ég dáðist að honum fyrir að þola við í hitanum þar. Hann hló bara og fór að tala um góða þjónustu á Íslandi, gestrisni og ljúfmennsku, hvað við værum betri en t.d. Frakkar. Ég gat svo sem ekki tekið undir það því ég mætti eintómri kurteisi þar í örstuttu stoppi - líka í Starbucks í París þar sem ég bað um tvöfaldan latte - og fékk tvo einfalda latte! Það var nú bara fyndið en franski kaffibarþjónninn tók þetta á sig þótt greinilega mætti misskilja: double latte, please!

Það voru bara tveir tímar í að skipið hans færi og ég er eiginlega enn stressuð - náði hann í tæka tíð? Leið 16 er svo duttlingafull - eins og hún keyri bara þegar hún nennir ... en er þó lúxusleið með sjávarútsýni þegar ég er svo heppin að hún kemur á undan tólfunni.

Eitt besta trikkið sem ég get deilt með fólki sem fer í svona ferðir með skemmtiferðaskipi er að taka t.d. gamalt bókasafnskort (eins og debitkort að stærð) með sér og setja í raufina sem skips-aðgangskortið fer vanalega í, (eins og hótelkort) og hafa þar á meðan maður skreppur í mat eða eitthvað annað. Þá er loftkælingin í gangi í káetunni og ekki óbærilegur molluhiti þegar maður snýr aftur þangað. Ferðin mín var í Karíbahafinu ... og hvílíkur hiti! Það sem ég fyrirgef seint frá þeirri ferð er að skipið hélt okkur föstum á fyrirlestri um öryggisatriði á meðan við létum úr fyrstu höfn ... ég hefði svo gjarnan viljað vera uppi á þilfari og fylgjast með því. Meiri stemning í því - og mæta síðan á fundinn - þar sem káeturnar voru ekki tilbúnar fyrr en nokkru seinna.

 

Elskan hann Ozzy allur ... hér að neðan er mikið uppáhaldslag. Rólegt og fallegt. Ég gúglaði það til að fullvissa mig um að hann hefði sungið það og komst þá að því að eitthvað mix hefði verið gert við rödd hans... en þetta er hann.

     

 

      


Óvænt ferð á Skagann, lófalestur og örlagakvittun

Írskir dagar 2025Helgarplanið var niðurneglt, seta við tölvuna og lesa yfir texta sem lá þó ekki lífið á að klára. Þá kom vinkona með góða hugmynd; að skreppa upp á Skaga eftir hádegi í dag - og það gerðum við. Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem til elsku Akraness síðan ég flutti þaðan í október á síðasta ári. Hratt-líður-stund og ýmsar annir hafa valdið því. Stráksi hefur verið duglegur að koma í heimsókn til mín en varð nú ansi glaður að fá okkur Guðrúnu og slóst í för með okkur um tíma í dag.

Á samansettu myndunum má sjá elsku Báru Jóseps sem var með lítinn markað í innkeyrslunni hjá sér á Suðurgötuni. Ég rakst líka á greipjokes (algjört selebrittí á Instagram) sem var að fara á antíkmarkaðinn við Heiðarbraut með Magnúsi syni sínum, ég hitti frábæru, dásamlegu Fatimu ásamt sonunum Ali og Alex á Garðabraut, þegar ég var nýkomin á Skagann. Hún er konan sem færði mér oft gómsætan mat. Síðasta myndin er af Ástu í galleríinu og stráksa. Þegar ég var með bókaþáttinn í útvarpi sundfélagsins fyrir ein jólin var Ásta einmitt ein af Ástunum sem kom í viðtal - sem bókaormur. Ásta í bókabúðinni og Ásta í bókasafninu komu líka. Þátturinn hét einmitt: Þarf alltaf að vera Ásta? (Svarið var já)

 

 

Verð að viðurkenna að það hefði verið skrambi gaman að fara á fyrsta lopapeysuball lífsins í kvöld þar sem Oasis ætluðu að koma saman eftir langa pásu og spila, ég meinti Quarashi ... er einmitt með lagið Stun Gun á spilunarlistanum Ýmis lög á YouTube-veitunni þar sem einnig má finna: Neil Young, Fugees, BG og Ingibjörgu, Dimmu, Smashing Pumpkins, Muse, Nas, Bach, Tatara, King Crimson, Ricky Martin, Eminem, Goran Bregovic, Wu-Tang Clan, The Who, Travis, Dr. Hook, Pink Floyd, Christopher Tin, Björk ...

 

Jana Napoli frá New OrleansÉg fór til lófalestrarkonu fyrir nokkrum vikum. Varð hluti af rannsókn sem þessi kona er að gera - og hitti hana í Borgarbókasafninu í Grófinni þar sem lófalesturinn fór fram. Hún heitir Jana Napoli og er frá New Orleans, hún er sem sagt að skoða hvernig hendur og lófar Íslendinga hafa þróast í gegnum breytta lifnaðarhætti, allt aftur til 17. aldar. Engin spá eða neitt slíkt, bara opinberun á hæfileikum og snilld lófalínuberanna (mínum). Það sem mér þótti einna merkilegast af því sem hún sagði var að tónlist væri ekki bara tónlist fyrir mér, heldur svo miklu, miklu meira - væri mér jafnmikilvæg og súrefni - sem gæti ekki verið réttara. Ég kom til hennar undir þeim formerkjum að ég skrifaði, svo fyrsta val hjá henni hefði sennilega átt að vera gisk á að bækur væru súrefnið mitt ... sem þær eru sko líka og myndlist, ég gæti ekki hugsað mér tilveruna án listar. Húrra fyrir listamannalaunum!

 

 

„Fórstu nokkuð í aðgerð?“ spurði ein Skagakonan í dag því henni fannst ég orðin nokkuð þynnri á vangann en áður. Klukkutíma seinna orðaði önnur kona þetta sama og ég neyddist til að viðurkenna að hlaup á eftir strætó, stöku labbitúr í vinnuna, hopp og skopp í skemmtilegu kennslunni og svo auðvitað að spennuvaldandi og gaslýsandi heilsu- og skrefatalningaappið í símanum hefðu þessar sorglegu afleiðingar (jebb, of lítið af Gurrí) ... nema fjarlægðin geri fjöllin grennri? Held nú samt að ég hafi nú aðallega losnað við hætti-að-reykja kílóin sem bættust við þarna um árið (eftir apríl 2020) en orðin nógu létt á fæti til að nenna að ganga - og ég líka verð að gera það til að geta mætt í vinnu. Svo eru fleiri aðferðir til að safna skrefum en að hlaupa á eftir strætóum og skoppa við kennsluna, eins og þvælingur í búðir eða skrepp á Skagann ...

 

Fór til dæmis með systur minni á nokkra staði á fimmtudaginn, meðal annars í Costco og Ikea. Keypti kattasand í Costco og kleinur í Ikea, og almennilegt skóhorn, loksins. Uppskar rúmlega 5.000 skref þann dag sem er ansi hreint miklu betra en á venjulegum fimmtudegi. Ég hrapa nefnilega niður um helgar og á frídögum; mánudögum og fimmtudögum ... en gönguferðir í dag á Skaganum gáfu mér líka rúm 5.000 skref.

Veit að ýmsir tíuþúsundskrefarar hlæja hæðnislega að þessu skrefamonti í mér - en þetta er samt mikið afrek hjá fyrrum (well) sófakartöflu sem fór varla upp fyrir 500 skref í 300 himnaríki, enda vinnustaðurinn aðallega tölvan og ég þurfti bara fram í eldhús til að ná í kaffi svona þrisvar á dag.

 

Alltaf númer eitt ...Stráksi kom til mín um síðustu helgi og gisti eina nótt. Seinni dagurinn, sunnudagurinn, var algjör letidagur og okkur fannst snilld síðar þann dag að taka strætóinn í Mjóddina frekar snemma og fara út að borða þar, kíkja líka aðeins í Nettó (karlmenn elska búðir). Strætó átti að fara frá Mjódd kl. 20 en við vorum komin rétt upp úr kl. 18 og ætluðum aldeilis að gera okkur glaðan dag í mat og drykk. Í ljós kom að ekki einn einasti veitingastaður er starfandi í Mjódd. Sara kebab og Dominos höfðu ekki verið opnir um tíma sem var algjört áfall að komast að því við vorum bara tímanlega miðað við að borða á þessu frímerki þarna í 109 Rvík. Allt í einu lifnaði yfir mér. Hvernig gat ég gleymt því að bensínstöðvar væru ekki aðeins orðnar að sjoppum nútímans, heldur líka veitingastöðum (skyndibita-)? Nú myndi Olís hinum megin við götuna bjarga öllu. Það hlytu að vera til Hlöllabátar, Lemondót eða eitthvað slíkt til að seðja og gleðja stráksa. Í ljós kom að það voru bara til hamborgarar þarna. Stráksi fékk sér eitthvað hefðbundið sem hann var sáttur við en ég þurfti endilega að prófa hamborgaranýjung sem var ekkert spes en allt í lagi. Við urðum að kaupa franskar kartöflur með til að fá hamborgara og gos á tilboðsverði, það hefði verið talsvert dýrara að sleppa þeim!!! Fuglar í grennd svoleiðis stórgræddu á því nokkru seinna sama dag.

 

Svo fyrirgaf ég allt, ekki bara af því að afgreiðslan var svo ljúf og góð, heldur af því að miðinn/kvittunin sem ég fékk gerði svo mikið fyrir mig andlega (sjá mynd) þegar ég skoðaði hann betur. Hann efldi sjálfstraust mitt til muna og fékk mig til að finnast ég nóg ... ekki bara það, heldur líka besta útgáfan af sjálfri mér! 


Endurgoldin ást og veistu hver ég var ...

Við MosiGengið í vinnuna-átakið var prófað í dag í annað sinn á nokkrum vikum. Nógu svalt var í veðri til að svitna ekki og nógu blautt til að geitungar réðust ekki á mig. Það var svo heitt (maí-hitabylgjan) í fyrra skiptið að ég settist mjög reglulega á bekk á leiðinni til að svitna ekki (ég var að fara að kenna og engin sturta á staðnum).

Geitungamál ... Mér til varnar: ég er ekki jafnsturlað skelkuð við kvikindin og hann Júlí Heiðar söngvari. Sem sagt, þetta var geggjað sumarveður til skrefasöfnunar. Ég var innan við 25 mínútur á leiðinni - með stoppi í bakaríi þar sem ég keypti smávegis nesti fyrir seinnipartinn. Ein skyrdolla ekki nóg fyrir næstu níu klukkutímana. Æðislegt bakarí þarna í Álfheimum. Ég hefði ekki átt auðvelt með þessa gönguferð fyrir nokkrum mánuðum, orðin algjör sófakartafla sem var þó orðin örmagna uppi á fimmtu hæð (4,5. hæð) og tók lyftuna rest í kvöld, eða upp á 6,5. Skref yfir 5.000, ef marka má símann minn sem er alltaf ansi hreint nískur á viðurkenningu í minn garð.

 

Efsta myndin tengist færslunni þráðbeint og sýnir velheppnaðar strípur, augabrúnir, sætan kött og drög að útsýni núna undir miðnættið.

 

Kennslan í kvöld hefði verið afar ögrandi og baðstofuleg EF það væri vetur. Það er verið að gera við ýmislegt í skólanum, aðallega utanhúss hjá okkur, en stofan mín var rafmagnslaus í kvöld - sem gerði samt lítið til. Er með 18 nemendur af tólf þjóðernum og alveg ótrúlega gaman að vera með svona marga. Dáist að þessum duglegu elskum sem eru flest, ef ekki öll, að vinna á daginn og koma svo og læra íslensku á kvöldin.

 

Skálmöld knúsarÁst mín og aðdáun á ofurrokksveitinni Skálmöld hefur ekki leynst nokkurri manneskju og nú hefur ástin loksins verið endurgoldin - með eins konar rafrænu knúsi á Facebook. Þetta gladdi gamalt rokkarahjarta mig ósegjanlega. Ég þyrfti að koma mér upp æstum þungarokksvinum sem væru til í að koma með mér á tónleika - til viðbótar við annars músíkelskandi fólk í umhverfi mínu. Vinir og vandamenn eru meira í: Frank Zappa, Björk, Leningrad Cowboys, Elly Vilhjálms, Bach, Eminem og Hnetusmjöri, svo fátt sé nefnt.    

 

Svo lenti ég í nokkurs konar veistu-hver-ég-var-atviki í gær þegar þegar ég beið eftir strætó hér við Sæbraut. Maður nokkur, á óræðum aldri en greinilega mikill smekkmaður vatt sér að mér: Ert þú ekki stundum með pistla í Morgunblaðinu?“

Það var enginn tími til að útskýra muninn á bloggi og blaðagreinum, svo ég kinkaði bara stolt kolli. Svona hlyti Hollywood-stjörnum að líða þegar einhver bar kennsl á þær.

„Heitirðu ekki Jóhanna? Eða Ingibjörg?“ Þarna skemmdi hann þessa annars hugljúfu viðurkenningarstund.

„Nei, ég heiti Gurrí,“ sagði ég snúðugt en reyndi að fela beiskjuna sem vall upp.

„Guðríður?“ 

„Já.“

 

Köttur í HárhorniÞetta eyðilagði samt ekki daginn, enda fín nöfnin Ingibjörg og Jóhanna. Ég hafði líka hugann við máv óttans í Skeifunni. Var með þiðnað brauð úr frysti handa honum ofan í tösku. Mér leið mögulega eins og Þorgerði K. og Kristrúnu þegar þær hittu Trump ... betra að halda sumum góðum ... Þegar ég kom í Skeifuna stoppaði ég hjá sama ruslagámi og síðast (fjarri allri mannabyggð), reif niður brauðið, horfði annað slagið á illfyglið uppi á þaki sem fylgdist með mér, reyndi að hneigja mig svolítið líka en nú brá svo við að flaug ekki að brauðinu þegar ég var komin í hæfilega fjarlægð. Hefði ég átt að dreypa truffluolíu yfir það eða strá á það gullflögum? Þetta var vissulega ekki eldbakað súrdeigsbrauð, heldur meira svona dvergvaxið baguette-brauð frá Eldum rétt, eitthvað sem ég hafði fryst fyrir einhverjum mánuðum. Svo laust því niður ... ég hef breyst mjög í útliti síðan í síðustu viku. Bæði fór ég í litun á augabrúnir og augnhár OG svo í strípur á mánudaginn. Ég var gjörbreytt manneskja og þurfti ekki að færa neinar fórnir lengur úr frystinum. Sennilegast var þetta þó bara annar mávur, þeir hljóta að hafa vaktaskipti.

Mér finnst þó ansi gott að geta tekið úr frysti það sem ég veit að ég á ekki eftir að borða - og einhver sísvangur njóti góðs af. En brauðið var pottþétt étið, engin hætta á öðru. 

 

Á mánudaginn, þegar Eldum rétt var búið að koma (kl. 13.30) hringdi ég í Hárhornið á Hlemmi. Þar er hægt að ganga inn án þess að panta tíma. Ég gerði það fljótlega eftir áramót og fékk ljómandi fína klippingu hjá manni sem býr í næsta húsi við mig, sem kom óvænt í ljós. Lilja, eigandinn, er þó strípudrottningin á staðnum en nánast ómögulegt að fá tíma í slíku. Ég prófaði að spyrja þarna þegar ég hringi og það hafði opnast einhver glufa heppninnar og ég þaut út, 7 mín. bið eftir strætó, aðeins of langt að hlaupa niður á Hlemm, en ég var komin eftir kannski 20 mín. Þessar strípur, ljósar og brúnar til skiptis, voru hugmynd Önnu Júlíu á Akranesi eftir taugaáfallið sem ég fékk þegar ég sá fyrir tilviljun ljósmynd þar sem sást í mig aftan frá ... og það var eins og ég væri með stóran skallablett á hnakkanum. Sumir grána smekklega, ég geri það greinilega ekki. Þetta voru fyrstu strípurnar síðan á Skaganum í fyrra.

Það voru samt ekki strípurnar og skemmtilega starfsfólkið sem heillaði ... heldur köttur (sjá mynd) sem hafði gert sig heimakominn þarna, eða mætt reglulega í heimsókn. Rauðhærður riddari, mögulega vergangsköttur, yfirgefinn, eitthvað sorglegt, en hafði átt skjól hjá Lilju og kó í tvær vikur, fengið mat, vatn og stað til að leggja sig á, við mikla ánægju gesta og gangandi. Hann gæti verið kominn upp í Kattholt núna, Lilja ætlaði að láta skanna hann til að fullvissa sig um að hann ætti ekki heimili áður en hún gerði nokkuð. Hann var víst mjög var um sig til að byrja með, skaust út við minnsta hávaða en lá og hvíldi sig sallarólegur á meðan ég var þarna. Vona að allt fari vel, og að kisi fái nýtt heimili.


Menningin í borginni, vont kaffi, eggjaatvik ...

Nína og AnnaFlutningurinn í bæinn var ekki bara tregafullur (sakn á Skagann) heldur hefur hann haft góð áhrif á samkvæmislífið. Eins og bloggvinir vita var ég sennilega eina fullorðna manneskjan á Akranesi sem átti ekki bíl, strætó innanbæjar gekk bara virka daga til klukkan sex og rosalega langt labb t.d. í Bíóhöllina - þar sem tónleikar, bíósýningar og margt skemmtilegt fór fram. Það hefði verið mun auðveldara (minna labb) fyrir mig að taka leið 57 til Reykjavíkur og fara í hina Bíóhöllina, sunnan rörs, til að sjá mynd. Reyndar voru bæði Tónberg og bókasafnið í göngufjarlægð frá himnaríki og þar var ýmislegt í boði. Ég var líka með stráksa hjá mér og valdi þá viðburði þar sem hann gat komið með mér.

 

Það var afskaplega gaman að fara á listsýningu í dag með tveimur vinkonum mínum, systrum, og síðan á kaffihús því við búum allar hér á höfuðborgarsvæðinu: 104, 108 og 225, og önnur þeirra greip mig með í leiðinni. Gleymi seint þegar við sonurinn fórum á Engla og djöfla (Tom Hanks) í Háskólabíói í Rvík og það tók fáránlega marga klukkutíma, strætó milli 300 Akraness og 170 Mosó gekk frekar stopult þarna í denn. Fórum frá Akranesi um hádegi, þurftum að koma okkur frá Mosó yfir í Vesturbæ Reykjavíkur og svo heim aftur. Rétt misstum af strætó þarna seinnipartinn og þurftum að bíða í nokkra klukkutíma og vorum ekki komin heim fyrr en um kvöldið. Myndin var síðan ekkert meistaraverk, minnti mig helst á tölvuleik, Tom Hanks fór eftir vísbendingum en tapaði hverju borðinu af öðru (og prestur dó í hvert sinn, ef ég man rétt) þar til Tom náði að vinna eitt borð í lokin og sigra leikinn. 

 

Eggjahneyksli í KrónunniVið fórum í Krónuna, Borgartúni, á heimleiðinni. Þekki þessa búð ekki neitt og ákvað á vissum punkti þegar ég var komin vel inn að beygja til hægri - grunaði að eggin væru geymd í kæli sem grillti í. Uppi í "stiga" í hægra horninu stóð starfsmaður sem varð eiginlega kjaftstopp þegar ég strunsaði að honum og spurði kurteislega: „Geturðu sagt mér hvar eggin eru, eða bent mér í rétta átt?“ Hann svaraði eftir vandræðalega þögn: „Þau eru nú hér, nákvæmlega hér,“ og benti niður fyrir sig. Þar í kælinum voru verulega litríkir og áberandi eggjabakkar. Sjá mynd sem ég laumaðist til að taka eftir atvikið.

 

Anna vinkona varð vitni að þessum niðurlægjandi hallærislegheitum ... en indæli starfsmaðurinn steig bara niður rétt á meðan ég nældi mér í bakka. Ég er reyndar svolítið sjónlaus í búðum og kaupi oft lítið sem er auðvitað hið besta mál, nema þegar eitthvað vantar heima. En þegar ég fer t.d. með Hildu systur í Costco, hlekkja ég mig við hana því hún finnur alltaf allt, eins og sniðugar jólagjafir og slíkt. Ég enda annars með eina vöru í Costco-körfunni, sítrónuköku, af því að ég veit nákvæmlega hvar hún er staðsett! Það er frekar sorglegt að lenda í langri biðröð til að kaupa eina sítrónuköku.

 

CatalínusautjándiFleira menningarlegt hefur gerst að undanförnu. Varð svo fræg að fara á Catalínu í Hamraborg í fyrsta sinn. Ekki til að hella í mig áfengi eða fara í spilakassa í kjallaranum (sem ég frétti nýlega af), heldur var þarna ansi hreint þjóðlegt brauðtertuhlaðborð á 17. júní. Við systur, ásamt dóttur hennar og tengdasyni og tengdamömmu dótturinnar, héngum nánast á hurðarhúninum í grenjandi rigningu kl. 13 þegar opnað var, og vorum sannarlega ekki ein um að fá þessa snilldarlegu hugmynd að mæta. Kostaði ekki mikið, innan við 3.000 kall á mann, sem mikil ánægja var með, heyrðist mér. Það var orðið troðfullt korteri seinna, bæði hjá barnum og í salnum hjá hlaðborðinu.

Guðrún vinkona sá Instagram-myndband mitt frá Catalínu, og lét mig vita að hún hefði verið þarna líka og á sama tíma en í hinum salnum þannig að við sáumst ekki. Einstaklega vel heppnað hjá Catalínu. Ég lét fólkið við borðið um að smakka kaffið því ef það félli í öngvit og hryndi í gólfið ætlaði ég ekki að smakka það - en tengdamóðir systurdóttur minnar þorði að segja það sem allir hugsuðu: „Vont kaffi, frábært bakkelsi!“ Það er svo sem ekki hægt að ætlast til þess að bar bjóði upp á svakagott kaffi þegar flestir kúnnarnir vilja bara bjór eða vín. Reyndar Kaffibarinn ... þegar við vinkonurnar hittumst alltaf eftir vinnu á föstudögum í lok tíunda áratugarins, fékk ég mér iðulega ljómandi gott kaffi þar (frá Te og kaffi). Alvörukaffivél og starfsfólk sem kunni á hana . Kaffibarinn stóð undir nafni ... þótt hann væri annars vinsæll djammstaður. 

 

Herkúles bestiElsku Herkúles, fallegi frændhundur minn, dó fyrir skömmu, aðeins sex ára gamall. Hafði verið veikur en það voru góðar vonir um bata. Það var mikið áfall þegar hann dó óvænt, ljúfi, blíði og góði Herkúles.

Golíat, hálfbróðir hans og besti vinur, var ansi vængbrotinn á eftir og er enn. Dýrin syrgja svo sannarlega. Mínir kettir eru eiginlega núna fyrst farnir að líta glaðan dag eftir að Keli dó í ágúst í fyrra.

 

Myndin var tekin í himnaríki eitt árið, og sennilega fljótlega eftir að Krummi uppgötvaði fyrir alvöru þessi "skaðræðiskvikindi" sem voguðu sér að gelta annað slagið og virtist einsetja sér að bjarga okkur hinum frá þeim með því að slá þá með loppunni. Það tókst nú bara einu sinni. Þeir Golíat héldu sig uppi í sófa eftir það og við mannfólkið í grennd vorum vel á verði svo Krummi kæmist ekki að þeim.

Bæði Mosi og Keli tóku hundunum þó fagnandi, leiðinda-rasismi í Krumma, eða bara ótti við það sem hann þekkir ekki. Þegar Golíat kom í heimsókn hingað fyrir skömmu sleikti hann Mosa í framan, kannski bara svona óstjórnlega feginn því að hann var ekki Krummi ... Mjög krúttlegt sem varð til þess að nú verð ég alltaf að vera tilbúin með gemsann til að ná að fanga svona falleg augnablik.       


Móðgaður mávur ... óvænt ólétta ...

Fb grúppur Gamla fólkiðFarin að vinna eðlilega, eða kenna bara einum bekk og að kvöldi til, kenndi líka á dagtíma þar til í gær, svo nú myndast möguleikar á því að gera meira, eins og að blogga. Stórmóðgaður mávur kemur við sögu í bloggi dagsins, og stórmóðgandi gemsi, svo fátt eitt sé nefnt.

 

Fyrir örfáum nóttum fór ég á fæðingardeildina komin 9 mánuði á leið, með hríðir og beið spennt eftir að eignast barnið sem Karl, gamall skólafélagi úr landsprófi og fæðingalæknir í raunheimum, ætlaði að taka á móti. Allt var eðlilegt við að kona á ömmualdri væri að fara að fæða barn. Ég vaknaði áður en nokkuð varð af þessu, takk, næturbirta. Held að svona draumur viti á gott, að hugmynd sé við það að fæðast ... Kíkti áðan á draumur.is og undir Ófrísk stendur m.a. að það sé góðs viti að vera ólétt í draumi, það tákni upphaf að einhverju nýju og spennandi í lífinu, jákvæðar breytingar í nánd.

Sjáum til, sjáum til. Ég hef alla vega von um að ég geti bætt úr vissu karlmannsleysi, sjá mynd af áhugaverðum fb-hópi fyrir aldraða ...   

 

Ég komst í hann krappan í Skeifunni á miðvikudaginn. Hoppaði að vanda út úr fimmunni við Glæsibæ og gekk sem leið lá á vinnustaðinn. Hálfnuð yfir Skeifuna sá ég mávinn minn sem situr iðulega uppi á þaki á gönguleið minni og gargar á mig. Ég tók Instagram-mynd af honum gargandi á þakinu og þau hljómuðu frá símanum mínum áður en mér tókst að ýta á "your stories". Einhverjum sekúndum eftir að ég ýtti, þá farin að nálgast Bónus, heyrði ég vængjaþyt mikinn og áttaði mig á því að mávurinn hafði snöggreiðst við mávahljóðin frá mér, steypt sér niður að mér ... og haldið ykkur, hafði hægðir á nýþvegið hár mitt. Sem betur fer bjargaði röskleg ganga mín mér frá því að fá allt ullabjakkið yfir mig, fékk bara smávegis sem ég gat þvegið úr hárinu við komu í vinnuna. Ég var sjokkeruð, alltaf verið góði gæinn með matinn í augum mávanna og því með algjörlega óákúkað hár fram að þessu, hafði meira að segja einsett mér nokkrum sekúndum áður að stökkva inn í Bónus og kaupa loksins samloku handa sínöldrandi fuglinum. Hann missti af samlokunni á miðvikudaginn vegna ótta míns við frekari árásir en ég fyrirgaf honum auðvitað. Hann hafði eflaust verið að æpa ókvæðisorðum að mér fyrir að vera ekki með mat og heyrði mig svo svara í sömu mynt, og brjálaðist yfir því.

Mávur óttansÉg átti fínasta brauð í frysti, eldbakað súrdeigsbrauð, eitthvað voða fínt úr Hagkaup ... en ef ég ætti að geta gengið í friði þarna í gegn yrði ég að færa honum eitthvað almennilegt. Til öryggis, svo hann þekkti mig ekki aftur (mávar þekkja andlit), hafði ég farið í lýtaaðgerð hjá Snyrtistofu Ágústu (lét lita augnhár og augabrúnir daginn eftir atvikið) og mætti svo í Skeifuna í gær, föstudag, með friðþægingarbrauðið.

Ég sá hann úr nokkurri fjarlægð og hann sá mig, en áður en eitthvað skítkast fór í gang, byrjaði ég að dingla pokanum með nýþiðnuðu og dúnmjúku brauðinu, reif það niður hjá stórum ruslagámi við bakhlið einhvers verkstæðis. Engir bílar í grennd og fátt fótgangandi fólk sem gæti truflað þessa athöfn. Þegar ég var búin að dreifa brauðinu við gáminn og lögð af stað aftur, flaug mávur óttans á móti mér en hafði greinilega fyrirgefið mér af heilum hug því hann flaug beint að brauðinu. Mig grunar að við séum orðnir vinir ... svo framarlega sem ég færi honum reglulega (alltaf) eitthvað gott í gogginn. Verst að dagkennslan er búin en vonandi er hann þarna líka um kl. 16.30 á daginn.

 

Í dag var dagur húsverkja og allt orðið glimrandi glansandi og fínt. Tók meira að segja til í körfunni sem geymir dagblöð en þar kenndi þó ýmissa annarra grasa. Ég fann þar tímarit, þrjá innkaupa-taupoka, sérlega flotta, þ.á m. einn með mynd af elsku Skálmöld. Annar var keyptur í Liverpool með mynd af Bítlunum og sá þriðji ótrúlega flottur, unninn upp úr flottu handverki, hann var keyptur á markaði á Akranesi. 

GemsinnEftir að hafa flokkað, tekið plast utan af sumum blöðum og sett í plastpoka og tekið ýmsa bæklinga síðan fyrir jól í bréfpoka, hugsaði ég mér gott til glóðarinnar, hreyfingarlega séð, að ganga niður allar hæðirnar með pappa- og plastdæmið og setja í tunnurnar, og síðan ganga úr kjallaranum upp sjö hæðir til að vaxa í áliti hjá gemsanum mínum sem mælir og skrásetur hverja mína hreyfingu. Þrátt fyrir tiltekt og ýmis læti um helgar næ ég aldrei virkudaga-skrefafjöldanum. Í gær (tvöfaldur kennsludagur) voru skrefin 5.580 þrátt fyrir bílfar heim, en tölt út á strætóstoppistöð, síðan frá stoppistöð í vinnuna, og kennsla tvisvar í tvo klukkutíma með tilheyrandi hoppi og skoppi gefur þetta mörg skref.

 

 

Ég kíkti í símann klukkutíma eftir stigahetjudáðina og bjóst svo sannarlega við að sjá þar eitthvað ögn meira en ÞRJÁR HÆÐIR, skrefin núna, þegar þetta er skrifað, komin upp í tæp 1200 þrátt fyrir að gemsinn hafi legið á ýmsum borðum í dag og úr honum hljómað spennusaga sem er svo gott að hlusta á við húsverkin - en telur ekki skrefin á meðan. En síminn minn gerir mér þetta reglulega. Kannski má ég ekki blása mæðinni í fimm sekúndur á fjórðu hæð áður en ég held áfram, þarf sennilega að taka þetta í einni lotu, helst hlaupandi.

 

Ég er orðin alvöruáhrifavaldur. Ég henti konu út af Facebook hjá mér og létti einhver ósköp við það, sjá síðasta blogg, og það var eins og við manninn mælt, sjálf Ingibjörg Sólrún fleygði sömu manneskju út hjá sér um það bil viku seinna! Nú má aldeilis fara að senda mér skyr og snyrtivörur! 


Að hella úr sinni andlegu ruslatunnu ... og margt fleira

HeitttttttVetrarlegur maímánuður veit vonandi á svalt og gott sumar. Ég er spennt að vita hvernig nýja íbúðin á Klepps bregst við lamandi allt að 15 gráðum, hvort ég þurfi að hafa eina eða þrjár viftur í gangi, sofa með lak í stað sængur og slíkt. Svona er að hafa vanið sig á hafa fremur svalt í kringum sig, mér finnst iðulega allt of heitt heima hjá öðrum en þarf stundum að lána gestum mínum aukapeysu, og verstu kuldaskræfunum teppi - en þá er kannski mjög kalt úti og gluggar opnir hjá mér. Himnaríki er með stóra suðurglugga og þar gat hitnað verulega á sumrin því lítið var hægt að hafa alla glugga galopna vegna glæpsamlegrar dirfsku Mosa da cat varðandi stökk af fjórðu hæð án fallhlífar. Svo var rok ekki jafnalgengt og sumir vilja meina sem rugla saman Akranesi og Kjalarnesi (þjóðveginum sko). Stundum lokaði ég Mosa inni í herbergi, reif upp alla glugga og báðar svalir og þá var sannarlega hægt að tala um rétt hitastig, þrátt fyrir sólina.

 

Nú geta "aldraðir", 55-75 ára fólk, glaðst ósegjanlega, eða þau sem vita ekki hvað þau eiga að gera við alla peningana sína. Nýlega sá ég auglýst háskólanám, sérstaklega ætlað hópnum sem undirbýr nú svokallað þriðja æviskeið sitt. Það mætir einu sinni í viku í tvær annir, ef ég man rétt, og fær fyrirlestra um ýmislegt gagnlegt á borð við hollustu, gervigreind, hreyfingu, heimspeki og annað sem hljómar alveg vel ... en verðmiðinn er ansi hár, eða 750 þúsund krónur á mann ... Ég veit alveg aura minna tal svo ég gúgla bara upplýsingar sem ég tel mig þurfa og fæ Davíð frænda til að kenna mér betur á gervigreind. Þetta nám virkar ekkert leiðinlegt - miðast samt við fólk sem á nóg af peningum og tíma. Þekki konu sem ætlar að "flytja upp í" Háskóla Íslands eftir að hún fer á eftirlaun, en hún vill reyndar meina að endurmenntunin þar sé ansi dýr sem er grautfúlt.

Annað tengt aldri - mjög áríðandi: Á meðan ég er yngri en páfinn, sem ég er, vil ég ekki heyra neitt um öldrun mína í framtíðinni, ekki fyrr en Leó fjórtandi deyr og nýr páfi, þá yngri en ég, tekur við. Vildi bara láta ykkur vita. Við Madonna erum sem sagt báðar yngri en páfinn!

 

Að skiptast á skoðunum er bara gott og eflaust öllum hollt að eiga sem fjölbreyttastan vinahóp á Facebook til að lokast ekki inni í bergmálshelli. EN ... síðustu árin er eins og bæði fasískar skoðanir og samsæriskenningar hafi fengið byr undir báða vængi um allan heim og falsfréttir flæða yfir allt. Sumt fólk er farið að hella úr sinni andlegu ruslatunnu (eins og gamli íslenskukennarinn minn í Vörðuskóla orðaði það) og verður sífellt háværara og hatursfyllra.

 

TransEin fb-"vinkona" mín er grjóthörð í þessu og hefur tileinkað sér nánast allt sem gengur gegn gildum sem talin voru góð, á borð við mannréttindi, virðingu og það allt. Hún hefur vissulega fullan rétt á því að halda með Ísrael og Rússlandi, að segja hnattræna hlýnun vera bull, að femínistar séu fávitar, og bólusetningar eitur, en það sem stingur mig mest er hatursfullur og andstyggilegur boðskapur hennar um trans fólk (JK Rowling á ekki roð í hana).

 

Þegar ég verð búin að skrifa þetta blogg ætla ég að afvina hana (þótt fyrr hefði verið) og nokkra helstu fylgjendur hennar sem deila eitrinu, það er þetta eða hætta hreinlega á Facebook en ég tími því ekki. Ég veit af henni og skoðanasystkinum hennar þarna úti en þarf þá ekki að fá eitrið frá þeim beint framan í mig lengur. Held að ég hafi ekkert gott af því að sjá skrif hennar, frekar en aðrir. 

Við unnum um tíma á sama vinnustað á síðustu öld, hún var svo klár og flott, fannst mér. Hef ekki séð hana í rúm 30 ár, sem betur fer. Mig hefur oft langað til að svara henni á fb - en veit þó að ég get ekki breytt skoðunum hennar, frekar en hún mínum, svo það besta í stöðunni er að segja bless.

Viss fréttasíða á netinu breiðir líka út hatursáróður, að mínu mati, síðast falsfrétt um níu hælisleitendur, frétt sem enginn fótur var fyrir og það olli mörgum rasistum gífurlegum vonbrigðum ... sama fréttasíða, ef ég man rétt, sagði á sínum tíma að Blóðbankinn vildi ekki blóð úr covid-bólusettum, sem var líka uppspuni frá rótum.

Það er sjálfsagt að virða skoðanir annarra, ég skil t.d. alveg þau sem óttast aukaverkanir af lyfjum. Þótt ég hafi án hiks látið bólusetja mig við covid, reyni ég samt að forðast lyf eftir bestu getu og hef sem betur fer getað gert það í gegnum tíðina.

 

Magpie MurdersSíðustu árin hef ég reynt af alefli að sneiða hjá öllu sem veldur mér streitu, ég tók þá ákvörðun eftir að sonur minn dó. Liður í því er að forðast hatur og illdeilur, meðal annars á samfélagsmiðlum.

Sumt af þessu sem ég forðast er frekar asnalegt að gera, eins og að sleppa því að horfa á of spennandi bíómyndir, eða lesa slíkar bækur sem eru bæði hroðalega blóðuguar og heiftarlega spennandi ... ég höndla það hreinlega ekki lengur. Held mig mest við krúttlegar glæpasögur, svona kósíkrimma, og ljúft ástarkjaftæði, og mun eflaust gera það ef ég tek upp á því að fara að horfa meira á sjónvarp. Ég var eiginlega hætt öllu sjónvarpsglápi, og samt áskrifandi að Netflix og fleiri veitum. Ætla nú samt að segja upp Netflix og Disney plús, sem ég horfi aldrei á.  

 

 

Get reyndar montað mig af því að hafa nýlega hámhorft á tvær ansi hreint skemmtilegar seríur. Það eru Ludwig og Háskalegur lokakafli (Magpie Murders) báðar á RÚV. Mæli hástöfum með.

 

Mæli líka með glæpasögunni hennar Nönnu Rögnvaldar, Þegar sannleikurinn sefur, sem ég las í fyrra þegar hún kom út en hlustaði á þegar hún kom á hljóðbók nýlega. Virkilega skemmtileg og vel skrifuð. Hlakka til að lesa framhaldið.

 

Í vissri bjúgleysistilraun sem ég ákvað að gera í gær  með því að vera í algjörri sófaleti og slökun við lestur og orðaleit, með fæturna uppi á þykkum púða, og um kvöldið horfði ég á mynd í sjónvarpinu. Myndin var afar sorgleg og fjallaði um dauðvona föður sem leitaði að góðri fósturfjölskyldu (með vitund og vilja bresku Barnaverndarinnar) fyrir fimm ára son sinn. Byggt á sannsögulegu en samt alltílæ. Mamma grét úr sér augun fyrir áratugum síðan yfir bíómyndinni um tíu barna dauðvona móðurina sem leitaði að góðum heimilum fyrir öll tíu börnin og tókst það. Ég slökkti þegar myndin um föðurinn var búin og fór að lesa, enn með fætur uppi á þykkum púða. Fór svo í fótanudd-dæmi í hálftíma. Vaknaði í morgun með ansi hreint mjóa ökkla. Sjónvarpsgláp gegn bjúg!

 

Um 1960 með pabba og mömmuMæðradagurinn er í dag og hér er mynd af okkur mömmu saman, ásamt pabba í hlutverki sérstaks burðarmanns. Myndin var tekin í Stykkishólmi fyrir nokkrum árum, en þar bjó ég frá 2 mánaða aldri (fædd í Reykjavík) til tveggja ára en þá lá leiðin upp á Skaga þar sem við bjuggum næstu tíu árin.

 

 

Litla ljóshærða krúttið á myndinni sýnir hversu blöndun Þingeyinga og Skagfirðinga heppnast iðulega stórkostlega vel ... Dass af Eyjafirði, Rangárvöllum og Reykjavík skaðaði aldeilis ekki heldur. 

 

Óska öllum mæðrum innilega til hamingju með daginn.

 

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - 

 

Að lokum:

 

- Chuck Norris getur sagt "Eyjafjallajökull" aftur á bak.

- Nasistar gáfust upp daginn eftir að Chuck Norris fæddist.

- Chuck Norris can walk away ...

- Chuck Norris getur búið til spýtu með því að nudda saman tveimur eldum. 

- Chuck Norris getur sofið í átta tíma á 30 mínútum.   


Spennandi borgarlíf og ofurköttur í yfirþyngd

SófamorðinginnReykjavíkurhamingjan eykst með hverjum mánuði, er alveg óhætt að segja, en það tekur alltaf tíma, ekki bara fyrir ketti, að venjast nýjum aðstæðum. Mun samt eilíflega sakna Akraness, fólksins þar, himnaríkis og útsýnisins. Þótt ég sé langt frá því að teljast ellihrum, enda á fullu í vinnu, strætóferðum, kaffihúsahangsi og Sorpuferðum með systur minni, svo fátt sé talið, er auðveldara að hafa flutt núna en til dæmis eftir tíu ár. Og hér í bænum er næstum allt mitt fólk sem ég hitti nú þúsund sinnum oftar en á meðan ég bjó á Skaganum, og það gefur hamingju. Svo finnst mér líka mikið frjálsræði fólgið í því að geta hoppað upp í strætó og farið nánast hvert sem er þótt t.d. hviður á Kjalarnesi séu yfir 30 m/sek.

 

Mosi köttur (10) hefur þyngst til muna eftir flutningana, enda enginn Keli til að leika við hann - leiserpenninn er bara spennandi í 18 sekúndur. Krummi (13) er eldri og virðulegri og nennir ekki að leika, hefur aldrei verið fyrir slíkan barnaskap. Hann tók sig til um daginn, stökk upp í sófa og hviss, bang, sófinn brotnaði ... eða fótur undan honum. Ég sagði alla vega hirðsmiðnum mínum frá því og sá ætlar að koma og laga herlegheitin nú í vikunni. Hefði ég sagt að löppin (ég lét setja nýjar lappir, sófinn var svo lágur) hefði skoppað undan þegar ég færði sófann ögn til, hefði hann ekki mætt strax, nú er hann svo forvitinn að sjá þennan feita kött sem fer svona með sófa ... Ég hef, aftur á móti, lést, fleiri hæðir að ganga upp og miklu meiri hreyfing almennt. Úr 15 skrefum á dag upp í hátt í 5.000 suma dagana. Það hefur afleiðingar fyrir útlínurnar.

 

MYND: Mosi stoltur eftir skemmdarverkið!  

 

Sófamorðingi 2Tvær mjög eftirminnilegar strætóferðir voru farnar í síðustu viku. Sú fyrri hófst nú strax á stoppistöðinni þegar unglingur í hettupeysu og hélt í rafhlaupahjól reyndist vera vel fullorðinn maður með ráma rödd. „Fyrirgefðu, viltu ekki fá þér sæti,“ sagði þessi elska en hann hafði áttað sig á því að hjólið varnaði mér vegar að bekknum í skýlinu. Ég afþakkaði kurteislega en þakkaði fyrir hugulsemina. Í strætó settist ég í gamlakarlsmeðstaf-sætið, enda ekkert gamalmenni í grennd, og fyrir aftan mig sat vinur ekki-unglingsins. Minn maður heilsaði honum hjartanlega og sagðist hafa verið að sækja hjólið sitt hjá helvítinu honum Robba sem hafði stolið því. „Mig langar svo að drepa hann,“ sagði minn maður. „Sjáðu, ég er með nóg af vopnum,“ bætti hann við og fletti greinilega frá sér peysu, eða lyfti henni upp. Vinur hans bað hann lengstra orða að láta ekki sjást í þetta, enda ávísun á löggu og sérsveit, ráðlagði honum líka að sleppa því að drepa helvítið hann Robba. Ég reyndi að láta baksvipinn á mér virka hæfilega áhugalausan, horfði út um gluggann eins og ég heyrði ekki orðaskil. En ef einhver Robbi deyr á grunsamlegan hátt getur löggan talað við mig.

 

Daginn eftir ók ég með strætó eftir Sæbraut og við fórum svo inn aukastrætógötuna á Kleppsvegi, þarna fyrir neðan, m.a. Laugarásbíó og Hrafnistu ... ég var ekki að horfa, heldur svara skilaboðum í gemsanum, svo ég veit ekki almennilega hvað gerðist, nema strætó keyrði á fullu á bíl, alla vega framhlutann, sem kom út úr bílastæðinu þarna, virtist vera. Okkur farþegum var hent út (rólega, blíðlega) og sagt að bíða eftir næsta strætó sem kom korteri seinna. Ég legg alltaf snemma af stað sem borgaði sig aldeilis þarna því ég mætti á réttum tíma í vinnuna.

 

MYND 2: Mosi gerði tilraun til að brjóta borðstofuborðið líka ... 

 

HjúkrunarneminnÞegar fólk býr svona eitt verður það stórskrítið með tímanum. Ég áttaði mig á því fyrst í dag. Fékk SMS frá Eldum rétt um að það væru 23 mínútur í matarkassann minn. Var að lesa yfir ritgerð og hlustaði á YouTube-ýmislegt-listann minn á meðan. Þá ákvað ég að láta lagið sem hljómaði um leið og sendillinn frá Eldum rétt hringdi dyrabjöllunni yrði lýsandi fyrir líf mitt í komandi viku. Creep með Radiohead var búið, sjúkk og þegar hann lagði bílnum á stæðinu hér fyrir utan hljómaði Stun Gun með Quarashi ... hvað skyldi það nú merkja. Það kláraðist þó áður en bjallan hringdi og lagið Fu-Gee-La með Fokkís byrjað. Nú bitnar illilega á mér að kunna enga texta, ég hlusta yfirleitt bara á lagið á meðan flestir vinir mínir njóta bæði lags og texta ... Svo mætti ég alveg vera betri í ensku þótt ég geti bjargað mér (munið, ég er manneskjan sem skildi ekkert í öllum þessum dýralæknum í hernum, í sumum bókum sem ég las á ensku).

 

Elskan hún mamma hefði orðið 91 árs í dag. Hún dó fyrir þremur árum, södd lífdaga, trúði því staðfastlega að Mínerva amma, systkini hennar og ýmsir fleiri tækju á móti henni hinum megin. Hún starfaði alla tíð sem hjúkrunarfræðingur og seinni árin á Kleppi, hugsa oft til þess hvað það hefði verið gaman að fá hana í kaffi hingað í Skýjahöllina fyrir vakt eða eftir vakt en hún hlammaði sér í helgan stein 2004 og einbeitti sér að því að lesa góða krimma og ráða krossgátur til að halda heilanum sprækum. Ekki slæmt.

Myndin sýnir hjúkrunarnemann Bryndísi á sjötta áratug síðustu aldar.

 

Ég verð með matarboð á eftir fyrir gamla vinkonu sem kann að meta góðan mat og eldar sjálf besta matinn. Ég óttast ekkert, Eldum rétt er meðetta og heldur uppi heiðri mínum.

Allt um matarboðið og miklu fleira á morgun. Nú þarf ég að fara að undirbúa gestakomuna. P.s: Ef þið þekkið/skiljið textann við Fu-Gee-La með Fugees væri fínt að vita hvað komandi vika ber í skauti sér ... Veit kannski á gott veður? 

       


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.9.): 22
  • Sl. sólarhring: 22
  • Sl. viku: 145
  • Frá upphafi: 1533201

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 121
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • DV í denn
  • DV í denn
  • DV í denn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband